22.1.2012 | 13:20
Kona og bílar!
Gleðilegt ár! Vonandi verður þetta ár betra en síðasta. Kannski fær maður vinnu á nýjum vettvangi, kannski ekki, maður tekur ekkert sem gefið eftir hrun. Kannski er maður bara hættur vinnu á miðjum aldri og getur farið að huga að áhugamálum sínum sem eru í mínu tilfelli ekki bílar.
Besta vinkona mín segir að ég sé ömurlegur bílstjóri! Mig sárnar, hugsa með mér að bæði börnin mín séu lifandi og vinkona mín líka, reyndar þegar ég var andvaka í nótt yfir þessari yfirlýsingu frá henni, þá fór ég að hugsa. Hún er alltaf á sínum bíl ef við erum að flandrast eitthvað og þegar við erum að ferðast fæ ekki ekki að snerta bílaleigubílinn hmmm.... já ég sem hélt að hún vildi að ég væri "navigatorinn" sem getur ekki verið miðað við mína sögu af "rötun" á staði. Ég sem enda í Genieve í Sviss í stað Genoa á Ítalíu. Aha æm on tú her!!!
Ég fór að hugsa um fortíð mína og samband mitt við bíla í gegnum árin. Jahá þarna kom það! Elsta systir mín skildi við 1. mann sinn (af tiltölulega háum fjölda eiginmanna) og fékk bílinn þeirra hjóna í sinn hlut, en þar sem hún var barnung við giftingu og nýkomin með bílpróf og hafði endað fyrstu ökuferðina sína á Miklubrautinni með 3 dekk, þar sem 1 dekkið hafði tekið uppá því að yfirgefa bílinn og fara á undan þeim, áttaði hún sig á því að henni var ekki ætlað að keyra bíla. (nema þetta hafi verið trikk hjá husbandinu til að losa hana undan þeirri ætlun sinni) Alla vega það tókst og þegar hún svo varð einstæð með 1 barn þá þurfti hún einhvern til að keyra sig.
Ég var glöð og sæl, nýkomin með bílpróf og var svo hamingjusöm að hafa þennan Fiat Uno algerlega fyrir mig. En ég kunni ekkert með hann að fara og held að verðgildi hans hafi rýrnað á þessum mánuðum um 90% en ég setti aldrei olíu á hann, kannski bensín þegar hann var farinn að hiksta og svo endaði ég eina ferðina uppá kantsteini sem lá á hliðinni við Umferðamiðstöðina. Ég sá hann ekki (svo ekki við mig að sakast sagði ég) en bíllinn rann uppá steininn og vó þar salt. Það þurfti 6 fíleflda karlmenn að bera bílinn af steininum og við mikinn hlátur þeirra keyrði ég í burtu sem óð væri eldrauð í framan.
Ég hef áður skrifað um bíl tengdamóður minnar sem ég rétt missti inní garð, við lítinn fögnuð foreldra vina minna, án þess að vera ökumaður bílsins þannig að já ég er að átta mig á "VANTRAUSTINU". Fiatinn var nú ekki alveg búin að fá sína útreið, ég átti enn nóg eftir. Mér hætti til að vanmeta "breiddina" á þessum ponsulitla bíl og sneiddi af báða hliðarspeglana í innlögnum í stæði.
Einn daginn í sól og blíðu var ég að skutla systur minni og barni ásamt kærasta (sem síðar varð eiginmaður númer 3 eða 4 man það ekki alveg) og allt í einu skall á hvílík þoka og ég setti rúðuþurrkurnar á á fullt en ekkert dugði, ég sá varla neitt, en heim ætlaði ég með fólkið mitt og það tókst að lokum. Þegar við svo stigum út var sól allstaðar nema í kringum bílinn, svo ég opnaði húddið og hafði með mér kókflösku til að berja í startpunginn (maður kunni nú trix í den) en þá skaust lok af vatnskassanum uppúr með hvílíkum látum og upp kom hvílík gusa. Ég hringdi í pabba sem var rosalega hrifin eða þannig. Settirðu ekki vatn á vatnskassann stelpa sagði hann? Nei það er nóg af rúðupissi og ég nota það svo lítið. Hann hristi hausinn og græjaði "karið" á staðnum.
Svo dag einn var ég að skutla barni systur minnar til dagmömmu með 3 aðrar systur með mér um borð og er að keyra frá heimilinu, þá sé ég hvar systir mín hoppar og veifar höndunum og ég segi við barnið: "veifaðu mömmu elskan hún er að vinka þér"
Verð að viðurkenna að mér fannst bíllinn aðeins halla til annarrar hliðar, en var svo hissa og glöð hvað margir vinkuðu okkur og við systurnar sögðum við hvor aðra, vá hvað allir eru vinalegir í morgunsárið, en þegar allt í einu allir farþegarnir voru komnir sömu megin, þá ákvað ég að stoppa, því ég hafði heyrt einhvern hávaða en hækkaði þá bara útvarpið og þá hvarf hann. Það var hvellsprunigð og já kallið mig ljósku, en þegar maður er að stíga sín fyrstu skref (hjólför) þá er maður ekkert með svona í blóðinu.
Fiatinn endaði á sölu, því eiginmaðurinn fyrrverandi var svo ergilegur hvernig "farið var með bílinn" sagði hann...held nú að þetta hafi frekar verið afbrýðisemi. En hvað sem því líður þá er þetta fyrsti bíllinn sem ég hafði undir höndum eftir bílpróf og þeir eru búnir að vera nokkrir síðan.
Kannski hefur vinkona mín rétt fyrir sér. Ætli það sé hægt að taka "endurtektarökupróf" og þá ætla ég ekki til ökukennarans sem kenndi mér, svo mikið er víst.) Mig grunar nefnilega að ökukennarinn hafi sleppt mér í gegn, þar sem hann var svo nervös eftir að ég keyrði niður 2 menn í einu á Vesturgötunni á sunnudagsmorgni eftir 25 ökutíma. (þeir slösuðust lítið)
Segi nú bara bless er að fara í bíltúr svo haldið ykkur heima.
6.1.2012 | 21:35
Capri eyjan fallega
Eyjan Capri er að ég held sá staður sem kemst næst því að líkjast pardís, eins og ég held að paradís líti út.
Capri liggur í Napólíflóanum og tilheyrir Campange héraðinu og eru íbúarnir undir 15 þúsundum, en allt að 10 þúsund ferðamenn eru þar daglega á háannatíma.
Þegar maður kemur upp á sjálft fjallið, með dráttarkláf/lest eða hvað þetta nú heitir, sjá mynd hér að neðan, þá lendir maður á stórri verönd og á henni er kort úr mosaik yfir eyna og ég varð nú að taka mynd af því, enda held ég að ég hafi aldrei tekið eins mikið af myndum og í þessari ferð.
Að labba meðfram ströndinni og horfa útá dimmblátt/grænt hafið þar sem möndlutrén standa í röðum í blóma er bara unaður og hvílík upplifun að maður fyllist lotningu.
Ég fór til Capri frá Sorrento, en þaðan eru ferjur og bátar með stuttu millibili oft á dag. Það tekur u.þ.b. 45 mín með ferju á milli lands og eyja og kemur maður að hafnarsvæði sem er á mjög mjórri strandlengju sem rétt rúmar nokkra bari, sölubása og verslanir aðallega með svona ferðamannadót. Þar settumst við niður á bar, þar sem skemmtilegasti barþjónn fyrr og síðar afgreiddi okkur og við kölluðum bara Eyþór (si si sagði hann mi chiamo Eytór) en þetta var rétt uppúr hádegi og hann dansaði og stjanaði í kringum okkur eins og við værum eðalborin. (grunar að hann hafi fengið sér cafe corretto í morgunmat). Þegar móttökurnar eru svona á stað sem er oftast yfirfullur af ferðamönnum, þá finnst manni að maður sé virkilega velkomin og það er jákvætt fyrir ferðamanninn, enda elska ég Capri.
Frá þessari þröngu hafnarlengju tekur maður sem sagt kláfinn uppá eyjuna sjálfa og þar er eitt fallegasta útsýni sem hugsast getur.
Eiginlega leið mér eins og ég hefði dottið inní gamla mynd, sem hefði verið fótósjoppuð, en það er ekki hægt að lýsa fegurðinni sem er á Capri, nema með því að birta myndir og ég tók nóg af þeim, enda er ég alltaf jafn hrifin af fallegum trjám og blómum og sjónum, sem er eiginlega dökkgrænn og svo hreinn og tær.
Ég sleppti því að fara alla leið uppá Ana Capri, enda alveg nóg að vera svona hátt uppi á fjalli fyrir minn smekk, með mína lofthræðslu.
Það var á föstudegi þegar við vorum í Capri og var verið að undirbúa brúðkaup á einum matsölustaðanna og hvílíkt blómahaf, held að ég hafi aldrei séð jafnmargar Hortensíur og stærri blómvendi en þarna, eiginlega langaði mig að bíða eftir brúðkaupinu til að sjá þetta, miðað við skreytinguna var ég viss um að þarna væri konunglegt brúðkaup á ferðinni. Ekki færri en 35 manns voru á veröndinni að leggja á borð og skreyta garðinn. En ferðafélagarnir mínir yndislegu voru svangir og við ákváðum að fá okkur að borða ofarlega á eynni, við hafið til að njóta útsýnisins yfir til Ítalíu yfir til Campagnehéraðsins.
Ég set inn nokkrar myndir hérna, þar sem ég get ekki lýst Capri með nægilega fögrum lýsingarorðum og já ég fer aftur þangað.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.12.2011 | 03:02
Gamlárskvöld síðustu ára.
Enn er gamlárskvöld að renna upp. Sá mest ógnvekjandi dagur í lífinu mínu, er alltaf jafn kvíðin og aldrei eins glöð og þegar nýjársdagur rennur upp og allir með hendur og fætur á sínum stað á mínu heimili.
Þannig er mál með vexti að "Hryðji" sonur minn er sprengjuóður og hefur verið frá því hann fór að hafa vit. En honum hefur nú ekki alltaf þótt sprengjurnar nógu öflugar, þannig að ég var þessi "heppna" mamma að hann var alltaf að styrkja sprengjurnar sínar með einhverju "stuffi" sem ég gat bara ekki munað hvað hét hverju sinni, enda allt gert í samráði við "félaga hans í apótekum bæjarins" ég gafst upp á að fylgjast með þessu fyrir löngu, enda þýddi það ekkert, þegar ég tók mig til og ákvað að taka ströngu móðurina á sprengjumálin, þá fann ég bara síðar skálar með dularfullu dufti út um alla íbúð á hinum undarlegustu stöðum, svo ég játaði mig sigraða.
Ekki þýddi heldur að reka hann frá húsinu, því við bjuggum fyrir neðan elliheimili og þá fór hann bara þangað með sínar sprengjur, og ég veit ekki hvort það var ýmyndun ein, en mér fannst alltaf meira um sjúkrabíla á þessu tímabili fyrir utan elliheimilið.
Nú ein áramótin tókst honum, að kveikja á rakettu á leið okkar uppá hæðina fyrir ofan húsið, er ekki ennþá búin að átta mig á því hvernig, en hún fór af stað í miðri gönguferð og slapp inni rakettupoka mágs míns, hann fuðraði upp með hvelli og frakkinn hans fór í tætlur og tók af við mitti, en sem betur fer varð ekki slys á mönnum.
Honum tóks líka að "missa" eina rakettu inní bíl, sem var sem betur fer ónýtur á stæðinu, enda var hann nú ekki ökufær eftir að rakettan sprakk inní honum.
Hann kom eitt kvöld daginn fyrir gamlárskvöld í lögreglufylgd heim, þar sem hann hafði verið ásakaður um að hafa kveikt á blysi í strætó og brennt sætið þar. Hann sór að það hefði ekki verið hann sem gerði neitt slíkt, enda vanur í "sprengjubransanum". Ég rak hann uppí herbergið sitt, eftir að ég var búin að klippa sviðnað hárið og setja plástur á nefið og snyrta brenndar augnabrúnirnar og sýndi honum sjálfan sig í speglinum, þar sem hann var kolsvartur af bruna og spurði hvort hann ætlaði að standa fast við söguna um að hafa ekkert gert af sér?
Hann var í straffi daginn eftir og var kominn uppí rúm rétt uppúr miðnætti, en vaknaði svo fyrir sex um morguninn og gerði hvað?
Nú nema sótti allar sprungnu og hálfsprungnu sprengjurnar og tók þær inní herbergi til snyrtingar, við rosalegan fögnuð móður sinnar.
Guð hvað ég verð glöð ef allir halda öllum puttum á morgun og segi því Gleðilegt nýtt og heilt ár og áramót...ég verð á bíl!!!!!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 03:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.12.2011 | 21:10
Aðfangadagskvöld
Í dag aðfangadag átti ég stórleik, ég veit vel og hef oft sagt það að ég er ekkert að skora feitt í eldhúsinu öllum stundum og ég hef svo sem soðið ullarföt í þvotti og fleira, en á aðfangadag? Er eitthvað sem hefði mátt fara öðruvísi? Já Allt!
Ég eldaði kalkún skv. uppskrift og átti að setja vel vætt viskustykki á hann útatað í smjöri. Sem ég gerði og viti menn jú viskustykkið brenndi sig inní húðina, það var ekkert sérstaklega gott bragð af skinninu og það var köflótt! já svona með bláum köflum.
Nú meðan kalkúninn var að viskustykkjavæðast í ofninum skellti ég fötum dótturinnar sem hún kom með frá Ítalíu, meðal annars fínu lopapeysunni sem hún fékk ekki alls fyrir löngu og setti ég þetta á ullarprógram hélt ég, en út kom ponsulítil peysa sem mundi passa á álf með alltof stórum tölum sem var eiginlega algerlega ofaukið á þessa nýtilkomnu "babybornpeysu". Stelpan mín var sár, hún er oft mjög sár þegar ég þvæ af henni fötin.
Já ég hugsaði með mér að best væri að skella sér í sturtu meðan stelpan reyndi að teygja peysuna til sem tókst svona líka bara vel, gæti hæglega komið henni utanum 2 ára barn eða svo. Ég var búin að gera baðið allt jólafínt og kveikja á kertum, tók með mér jólafötin og setti þau á bekk og fór í sturtuna og fannst eins og kertin flöktu óvenjulega mikið. Þegar ég uppgötvaði að þetta voru ekki bara kertin, heldur hafði eldur læðst í handklæðið á slánni og brennt það og nærfötin mín bráðnuðu og hluti fatanna brann inní handklæðið. (ath. nylon brennur illa!!!)
Þessu var hent inní sturtuna, og hent í ruslið afar hljóðlega, vildi ekki láta vita að ég hafi farið úr einni eyðileggingunni í aðra. Krakkarnir höfðu þó orð á því hvað veggurinn væri svartur og mikill reykur af kertunum.
Nú ég brenndi mig svo á puttanum, þegar ég var að reyna að skafa viskustykkið uppúr kalkúnanum og fannst nóg um og held ég að kalkúni sé ekkert svo hollur, alla vega ekki mín uppskrift...
Þetta voru góðar endur sem við höfðum svo í matinn í kvöld og ég er buguð af eyðileggingu og þreytu...held ég fari að leggja mig.
Ég ákvað að vera bara ófín þessi jól og málaði mig ekki, vildi ekki taka séns á því að reka maskara í augu, eða eitthvað annað.
Ég ætla að skipta um battery í reykskynjaranum til öryggis.
Gleðileg Jól og farið varlega með kertin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.12.2011 | 00:13
Jólin koma
Sonur minn hinn hugmyndaríki hafði einstaklega gaman af jólunum, svo ég tali nú ekki um áramótin, sem byrjuðu að telja frá 1. janúar ár hvert og var strikað yfir dag hvern á dagatalinu fram til næstu áramóta.
Allt annað var EKKI í forgangi. Hann hafði þó óbilandi trú á jólasveinunum og að þeir væru á sama plani og hann. Hann sendi þeim margan póstinn í skóinn sinn í von um að geta einhverju breytt.
T.d. var bréf í skónum kvöld eitt. Sæll jólasveinn, veit ég er ekki búin að vera stilltur, en viltu ekki gefa systur minni frekar "kartöbbluna" ef þú þarft að gefa hana, hún elskar "kartöbblur" en ekki ég. Takk samt fyrir síðustu "kartöbblu" mamma eldaði hana og mér fannst hún bara góð. En ég er alveg með nóg af þeim í bili.
Næsta dag var svo. Kæri jólasveinn.. mig langar mest í kínverja, ef þú átt enga, þá get ég alveg fengið blys, en ekki stjörnuljós takk, systir mín á næsta skó við hliðina á mér, henni finnst gaman að fá stjörnuljós.
Svo kom: Jólasveinn! ég veit að ég er ekki búin að vera neitt sérstaklega þægur, en ef þú gefur mér ragettur og blys skal ég lofa að ég set ekki fleiri hurðasprengjur til að vakna þegar þú kemur og ég lofa að setja ekki fleiri rakvélablöð í skóinn, það var bara til að sjá í hvaða blóðflokki þú værir eða til að gá hvort mamma og pabbi væru með sár á "puttonum" daginn eftir, en Siggi í mínum bekk sagði að mamma sín setti í hans skó. Ég trúi því nú ekki, því mamma er öll óskorin ennþá!
Kæri Kertasníkir þú ert bestur, mér finnst svo flott að þú skulir borða kertin sem ég set hérna í skóinn að ég ætla bara að biðja þig að gefa mér enga "kartöbblu" Anna systir mín elskar "kartöbblur" ég ætla að gefa þér þessi kerti sem mamma var að kaupa og þau voru rosalega dýr. Ég tók allar hurðasprengjur og allt svona skaðlegt dót, svo þú komist óhindraður í skóinn minn. En ef þú heldur að ég hafi verið óþekkur, þá er það ekki rétt, Anna var miklu verri, það sá það bara enginn. Ég get sagt þér allt sem hún gerði ef þú átt nóg af kartöbblum, en talaðu við mig fyrst. Svo finnast henni "kartöbblur" ofsa góðar. En hún gubbar alltaf eftir þær, held að það sé útaf óþekkt. Held það í alvöru en ég er búin að vera rosalega stilltur. Kæri Jóli endilega lestu þetta bréf, og ef þú þarft að gefa "kartöbblu" þá veistu að Anna er ánægð með hana. Ekki ég.
Ég vil frekar dót og finnst ég eiga það skilið núna ég fann jólatré á götunni. Gaf mömmu það, það er frekar lítið en mamma sagði að það væri krútt. Komst ekki nema 3-4 kúlur á það, en samt var það mjög flott, held að ég hafi sparað mömmu fullt af peningum, það hlýtur að teljast með þegar maður fær í skóinn. já Jóli ég á stígvélið þetta stóra, og skóna þessa fínu. Systir mín á skóna sem eru fyrir neðan glugga, hún nennti ekki að setja þá í gluggann.
þinn vinur.
Kiddi.
p.s. ég er mjög ánægður með allt sem ég hef fengið!
aftur þinn sami vinur Kiddi.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.12.2011 | 18:11
Hryðji fær sér bíl!
Já börnin eldast víst og taka bílpróf eins og við hin. Það gerði "hryðji" líka. Hann stóð með glænýtt ökuskírteini daginn sem hann varð 17 ára, en þar sem hann hafði takmarkaðan aðgang að heimilisbílnum, þá ákvað hann bara að kaupa sér bíl sjálfur.
Hann fann bíl í smáauglýsingu ja bíl? Bleikan Peugot, sem var bara smá bilaður sagði hann mér, en vildi óður og uppvægur keyra mig í vinnu einhvern daginn og þáði ég það, þar sem hann hafði vaknað eldsnemma og var svo glaður og tilbúin að ég fékk ekki af mér að neita honum um að keyra mig á "nýja" bílnum.
Ég settist upp í bílinn og lokaði á eftir mér, en hélt þá á handfanginu, ekki málið sagði sonurinn stoltur, smá skrúfa laus, hentu þessu bara í aftursætið ég laga þetta. En hurðin lokast kannski ekki alveg sagði hann. Hvað segirðu ekki alveg meinarðu að hún sé svona mikið lokuð þ.e. ALLS EKKI lokuð?
Róaðu þig kona ég er ekki milli sem get keypt mér splunkunýjan bíl. Ok ég ákvað að þegja, enda var hann mjög stoltur af þessu bleika "bílyldi" eða já sem varla var hægt að kalla bíl, enda algert hræ og sagði hann mér síðar að hann hefði fengið hann gefins. (hvílíkur bjarnargreiði). Við vorum komin niður í Ártúnsbrekku þá stoppar bíllinn og sonurinn fer að snúa honum við.
Hvað ertu að gera æpti ég stíf af hræðslu, haldandi í falsinn á hurðinni svo ég mundi ekki detta út, en það var bara eitt öryggisbelti og það var í skottinu (laust). Æi þetta gerist alltaf af og til, þá er ekki hægt að keyra nema í bakkgír, en mamma ekki málið ég bakka þér bara í vinnuna, en við þurfum að bíða svona 10 mín. áður en hann kemst í stuð.
Barnaverndarnefnd hefði átt að vera á staðnum! Hún var það ekki. Ég andaði djúpt og hugsaði um stolt hjálpsamt barnið mitt að skutla mér í vinnuna, svo ég róaði mig og taldi uppá 23.598 áður en ég sagði: "hvað meinarðu að það sé ekki hægt að keyra lengur áfram?" jú sko hann lætur svona víst stundum og gaurinn sagði mér bara að bakka honum í svona korter og þá get ég keyrt hann áfram.
Ég hef ekki það mikið vit á bílum, þannig að ég þagði bara og létt hann bakka mér í vinnuna sem var já á þeim afskekkta stað Laugaveginum.
Hann átti þennan bíl alltof lengi, en hann fékk ekki að bakka mér neitt aftur. Ég mætti lifandi í vinnuna, örlítið rjóð í vöngum, það var sko ekki miðstöð í bílnum og hárið á mér nýblásið og fínt, eftir gustinn sem kom innum "rifuna" á hurðinni......
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.11.2011 | 22:19
Veikindahrinan
Börnin mín eru mjög heilsuhraust sem betur fer, en þau eiga frænku sem greindist með hvítblæði og eftir það fór skaðræðið mitt sonurinn að fá hin ýmsu einkenni.
Hann fékk krabbamein einn daginn hélt hann, alveg fullviss um að nú væri hann að deyja. Þar sem hann grét aldrei og fann aldrei til við högg þá hélt ég að hann væri tilfinningalaus, þannig að mér leist nú ekkert svo vel á þetta, þar sem hann grét af kvölum. Ég er með krabbamein í kjálkanum vældi hann heila helgi, þar til ég gafst upp og fór á læknavaktina með hann.
Ég var svo heppinn að minn heimilislæknir var á vaktinni og skoðaði hann vel og vandlega og kom svo fram til mín (ég beið frammi já já tárist af hneyksli, en það líður yfir mig ef ég sé blóð og sprautur) og sagði að stráksi hefði verið búin að blása upp svo margar vatnsblöðrur að kjálkarnir og eitlarnir hefðu bólgnað. Hann ætti að hvíla sig á vatnsblöðrum í svona mánuð. Ég var mjög vinaleg á leiðinni heim við hann með samanbitnar tennur og svolítið skömmustuleg yfir að hafa farið á læknavaktina, ég meina þar sem fólk kemur dauðveikt.
Hann fékk Astmakast og lungnabólgu strax daginn eftir hélt hann (var reyndar með astma) og ég var að keyra hann í skólann og hann byrjar í bílnum; "mamma ég næ ekki andanum" fínt sagði ég, enn frekar pirruð eftir heimsóknina daginn áður á læknavaktina. "Ha fínt finnst þér það fínt" já leiðinlegt en hvað viltu að ég geri sagði ég og leit ekki einu sinni á hann. Varstu kannski að gleypa blöðrur núna??" Nei í alvöru mamma ég er að deyja ég næ ekki andanum" ok settu hausinn út um gluggann sagði ég alveg frekar pirruð.
Hann fór hálfur út um gluggann svo eftir stóðu fætur við ökla inní bílnum, ég heyrði reyndar smá svona soghljóð og þegar ég kippti honum inn í bílinn sá ég að hann var orðinn örlítið blár ( lesist helblár) kringum munninn og ég sneri við á punktinum og hentist inná læknavaktina í Grafarvoginum og ég ætla ekki að hafa það eftir sem læknirinn sagði við mig eftir að sonurinn hafi sagt að ég hafi sagt honum að þetta væri bara fínt og að mér væri alveg sama.
Ég ber við algeru minnisleysi.
Þetta er ættgengt því annar fjölskyldumeðlimur fær gjarnan svona allskonar
Það var hablið og fuglaflensan.....já viðkomandi fékk gefins körfu fyrir jól ein og í því var Belnoughat súkkulaði sem er með innihaldslýsingu á ensku og arabísku, og jú jú það var væntanlega flórsykur á því. Hann borðaði það og sá síðan að það var skrifað á arabísku utan á umbúðirnar og þar af leiðandi hlyti nú að vera búið að strá "Miltisbrandi" í súkkulaðið, þar sem við hin hefðum talið vera flórsykur.
Hann hringdi í mömmu sína og símtalið var nokkurn veginn svona:
"mamma það er örugglega miltisbrandur í þessu súkkulaði sem ég var að borða"
Já en leiðinlegt og hvað á ég að gera og af hverju heldurðu það?
"ok róleg á umhyggjunni, en þú segir eitthvað annað þegar ég verð dauður. Vertu blessuð mamma"
3 mín síðar:
"mamma ég er með öll einkenni "habls" ég var að googla það"
já er það og hvernig lýsir það sér?
"ég næ ekki andanum og ég er allur rauðflekkóttur"
já ef þú ert dauður þegar ég kem heim þá læt ég þig vita.
"gaman að eiga svona mömmu takk fyrir allt!"
3og 3/4 mín síðar.
"Mamma ég er að deyja"
Krakki ég á eitt orð handa þér og það er ÞEGIÐU og láttu mig í friði ég er úti að borða, ég skal skammast mín ef þú deyrð, en hvernig eru einkennin núna.
"næ ekki andanum"
Er það verra en þegar þú fékkst fuglaflensuna eftir að við gengum gegnum kínverska matarganginn í Hagkaup í gær?
"já ok er ég kannski svolítið paranojd"
ha þú NEI!!!
Sendi sjúkrabíl þegar þú hringir næst og já ég spyr þig ekki um leyfi. Eftir næsta símtal verður sendur sjúkrabíll til þín og dælt upp úr þér og svona kannski verðurðu settur í gifsbuxur(til vonar og vara)
"Mamma Takk þú ert æðisleg" Ég ætti að hringja í barnaverndarnefndina og klaga þig"
Já ætlarðu að gera það áður en þú deyrð úr "hablinu" eða eftir fuglaflensuna og klamadýjuna sem þú hélst að þú hefðir fengið, þegar þú skarst þig á skel á ströndinni á Ítalíu, þegar þú varst 11 ára?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.11.2011 | 16:03
Misóskemmtileg ferðalög.
Ég elska að ferðast eins og ég hef áður sagt, enda fannst mér ávallt vanta ferðapistla og þess vegna fór ég m.a. að blogga um ferðalög.
En ekki er alltaf jafn gaman að ferðast, oft þarf ekki mikið að bregða útaf til að ferðin breytist í hálfgerða martröð og maður vildi óska að aldrei hefði verið farið af stað.
Ég fór eitt sinn með börnin mín lítil til Spánar, þar sem dóttir mín var aðeins 2 ára og strákurinn 4 ára. Fórum við í Tívolí eitt kvöldið, en þar sem strákurinn var búin að vera á útopnu allan daginn, þá sofnaði hann á matsölustaðnum, enda klukkan orðin 10 um kvöld þegar við mæltum okkur mót við Íslendingahópinn á tilteknum matsölustað. Litla stelpan mín fékk hins vegar matareitrun og varð svo rosalega veik, að ég horfði á hana verslast upp fyrir framan mig og ekki hægt að flýta förinni heim. Í þá daga var bara flogið með leiguflugi út og svo fólkið sótt eftir ákveðinn tíma. En ég horfði þarna með brostið móðurhjarta á litla búttaða stelpukrakkann minn minnka og minnka og slappast og slappast. Við komum svo heim og þá lá hún í einangrun í 10 daga á LHS svo fárveik og ekki laust við að ég hugsaði, hvað er maður að flækjast útí heim í óvissuna með börn sem enga björg sér geta veitt. Jesús hvað þetta var hræðilegur tími. En þetta fór nú vel og hún náði sér að fullu.
Ég lenti einnig í því einu sinni að veikjast illa í Búlgaríu og það var ekki gaman, en uppákomurnar sem því fylgdu voru drepfyndnar á köflum.
Búlgaría tilheyrði austantjaldslöndunum og þar voru höft og hömlur á öllu og spillingin eftir því, þú gast selt dollara á hverju götuhorni og einnig gastu keypt sem túristi í svokölluðum dollarabúðum, en ekki var eftir neinu að slægjast í búðunum sem almenningur gat verslað í.
Það var nú ýmislegt þarna í Búlgaríu sem kom manni "spánskt" fyrir sjónir eins og það athæfi að pakka bílunum sínum á kvöldin inní svona plast eins og við setjum grillin okkar í á haustin. Einnig var alvanalegt að sjá fólk með rúðuþurrkur og loftnet, en það var tekið af þegar bílnum var lagt.
Þegar maður tók svo leigubíl, var hann gjarnan fylltur af Búlgörum og þeir keyrðir heim á okkar kostnað og mátti maður þakka fyrir að fá bara 5 í aftursætið hjá sér....enda segir orðatiltækið...þröngt mega sáttir sitja.
Ég lenti svo í því sem sagt að veikjast illa og þurti að fara í sjúkrastofnun fyrir ferðamenn. En til þess að komast þangað var einn vegur og inná hann var "innakstur bannaður" og þar stóðu löggur og rukkuðu sjúklinga í sjúkrabílnum um einhverja dollara til að fá að komast að húsinu. (Gott ég var með veskið)
Ekki tók betra við, þegar ákveðið var að senda mig til höfuðborgarinna Sofiu í sjúkrabílnum og viti menn. Hann stoppaði einnig fyrir farþegum sem var hlaðið útum allt í kringum mig, svo ég lá á endanum eins og rakvélablað uppá rönd, svo illa færi nú ekki um farþegana í kringum mig, svo stoppaði bílstjórinn og fékk sér bensín og jú jú það þurfti líka að stoppa í sjoppu og svona. Ég hugsaði nú með mér hvort ég hefði tekið ferðasjúkrabíl, en ferðin tók loks enda.
Eftir sjúkrahúsdvölina varð ég að liggja á hótelinu fram að heimferð eða í 2 vikur og það reyndist einstaklega skemmtilegt, þar sem öll tækin í herberginu okkar voru biluð. þ.e. ísskápurinn, sjónvarpið, síminn, útvarpið og svo vantaði ljós á baðherbergið. Já einnig var lyftan biluð, en þetta var hótel fyrir eldra fólk sem kom til að baða sig í svartahafinu og var allt morandi í hjólastólum þarna, en sem sagt biluð lyfta.
Nú tók við tími kvartana í lobbýið, ég þurfti síma, ég þurfti líka sjónvarp og útvarp og ljós á baðið, og ég vildi ekki hafa þennan kakkalakka á veggnum. Held að ég hafi nú ekki verið vinsæll gestur. Fékk þó allt lagað á endanum. Meira að segja var stuff í ísskápnum nýja. Hvítvín og allt.
Svo fékk ég heimsókn frá Íslendingum sem bjuggu á sama gangi og ég og þau sögðu farir sínar ekki sléttar, allt hafði verið í stakasta lagi hjá þeim í íbúðinni, en nú var allt ónýtt og meira að segja búið að taka ljósið og sturtuhengið á baðinu.
Ég bauð þeim uppá hvítvín sem hafði fylgt ísskápnum mínum. Sama hvítvín og hafði horfið með þeirra ísskáp. Skrítin tilviljun.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.11.2011 | 22:40
Uppátækin ýmisleg
Sonur minn títtnefndi var mjög svo uppátektarsamur þegar hann var yngri, hann þurfti alltaf að prufa allt, sem hann fékk "pata" af að væri hættulegt, eða helst bannað.
Hann tók til einu sinni á heimilinu og henti bara vikursteinunum sem voru á svölunum niður á götu (bjuggum á 2. hæð og já nýflutt þangað) af því að þá væri svo auðveldara að fara með þá þaðan í ruslið. Auk þess henti hann nokkrum "óbrjótandi" glösum niður líka til að kanna hvort þetta væri nú satt að þau stæðu undir nafni (þau gerðu það ekki, ekkert af þessum 5 sem hann henti niður)
Konan á neðstu hæðinni sem átti garðinn hélt að einhverjir brjálæðingar væru fluttir, því hann framkvæmdi þessa aðgerð um nótt, um sumartímann, ákvað að taka til á svölunum fyrir mömmu sína áður en hún vaknaði. Það var boðað til húsfundar hið snarasta. (ég sá mér ekki fært á að mæta)
Hann var alltaf að koma heim með allskonar stuff eins og orma sem hann setti á spýtu undir rúmið sitt. Gargaði svo 2 dögum síðar: "hver tók ormana mína?" Já einmitt!!! ég þurfti að fá utanaðkomandi hjálp við að týna þurra ormana upp! ojjjjj
Við bjuggum á þessum tíma í Grafarvogi og hann uppgötvaði mér til skelfingar einhverja laxeldisstöð í nágrenninu og var nú ekkert smá stoltur að bera björg í bú eins og hann kallaði það (nýbúin að heyra þenna frasa) og vildi endilega hjálpa. Laxinn var viðbjóður á bragðið, en ég eldaði einn, og setti nálgunarbann á laxeldið. Lét hann fyrstan smakka og hvílíkt lýsisbragð, honum fannst laxinn góður, engum öðrum, en hann var alltaf að koma heim með eitthvað svona "stuff" misónytsamlegt.
Hann hlýddi mér alveg með laxveiðarnar, en þá uppgötvaði hann nýjan ævintýraheim, Sorpu eða öskuhaugana. Nú fóru að berast bílhurðir, hátalarar, grammófónar og fleira mjög þungt dót (bráðnauðsynlegt á hvert heimili), sem hann bar uppí herbergið sitt. Þegar ég meðfærilega jafnaðargeðsmóðirin trylltist yfir þessu, þá fór hann með það til vinar síns og gaf honum. Sá var jafn hrifin, en mamman svo vanþakklát eins og hann sagði.
Hún bannaði honum að koma með þetta rusl heim til sín, en þá fékk sonur hennar góssið bara innpakkað að gjöf......eða eitthvað mér var sama svo lengi sem þetta var úr minni augsjá.
Mikið var ég glöð þegar hjólbörunum var stolið og hann gat ekki selflutt þetta bráðnauðsynlega dót af sorpu lengur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.11.2011 | 23:30
Sparnaðarráð "hryðja"
Börnin mín lærðu snemma að taka þátt í lífinu með mér, en þegar við ákváðum að skella okkur til Spánar eitt sumarið, þá fengu þau að taka þátt í að safna fyrir ferðinni með mér, við að pakka bréfum í umslög, og þetta sátum við saman við á kvöldin og pökkuðum yfir sjónvarpinu. (Barnaverndarnefnd mundi væntanlega ávíta mig í dag fyrir barnaþrælkun)
Sonurinn tók þetta á allt annað plan en dóttirin, enda hún nú reyndar bara 8 ára um þetta leyti. Hann tók á þá ráð að safna flöskum og dósum og skellti sér svo bara í strætó með "góssið" í 3-4 svörtum plastpokum. Ekkert að flækja málið bara einhenda sér í hlutina strax, ekkert að blanda mömmu sinni í sínar fjármögnunarleiðir.
Nú ég fór um þetta leyti með þau börnin í Borgarleikhúsið og fékk vinkonu mína með mér, en þurfti helst alltaf að hafa svona "backuppara" ef ég þyrfti að hendast út í hlénu og skilja stelpuna eftir ( já maður lærir svo lengi sem maður lifir)
Eftir hlé bólaði ekkert á "hryðja" og vinkona mín komin með andarteppu af áhyggjum, meðan ég og dóttirin alvanar, prúðbúnar og slaufum prýddar biðum bara eftir uppkallinu sem iðulega kom eftir að hann hafi verið týndur einhvern tíma á svona almenningsstöðum.
Ekkert nafnakall kom og leikritið byrjaði, mér leist nú ekkert á blikuna en þegar ég heyrði einhverjar skruðningar í hinum enda salsins, bað ég allar vættir um vernd og kom ekki "hryðji" vopnaður 3 svörtum plastpokum, fullum af dósum með tilheyrandi látum og fyrirferð yfir allt fólkið í hálfa sætaröð. Það horfðu allir á okkur og sussuðu. Ég leit á fólk á móti með hneykslunarsvip og eins forstokkuð og hægt er að vera, alveg hneyksluð á þessu barni (hefði sennilega selt það á staðnum ef það hefði boðist) Þóttist ekki þekkja pokabarnið og horfði á vinkonu mína eins og hann væri alveg á hennar vegum.
En sætavísan kom samt og talaði við mig og bað mig að skila þessum ruslapokum, þar sem þeir væru í eigu leikhússins. Ég var alls ekki föl á litinn, þegar ég skrötli fram hjá sætaröðinni með 3 ruslapoka með þeim háværustu dollum sem ég hef fyrir hitt.
Held við höfum verið að sjá Ronju ræningjadóttur, man það þó óglöggt.
Nú hann lét þetta bakslag nú ekki stoppa sig í fjáröfluninni. Fékk hjá konu pabba síns gefins sælgætiskassa og fór nú um hverfið okkar í söluferð á "góssinu"
Hann lenti í einni söluferðinni á samstarfsfélaga móður sinnar, sem spurði hann til styrktar hverju eða hverjum hann væri að selja, því það væri venjan að ef verið væri að ganga hús úr húsi og selja þá ætti það að vera til styrktar einhverju góðu málefni.
Ekki stóð á svarinu: "jú til styrktar mömmu minni og systur sem eru að fara til Spánar"
Mér fannst mjög gaman í vinnunni daginn eftir, þegar ég var spurð hvort sonurinn fengi virkilega ekki að fara með til útlanda, heldur væri sendur í söluferðir til styrktar mér og dótturinni.
Dægurmál | Breytt 14.11.2011 kl. 16:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)