13.5.2012 | 16:17
Mæðradagurinn
Í dag er mæðradagurinn og allir keppast við að vera góðir við mömmur sínar og ömmur, þeir sem ennþá eiga mömmur, en við eigum nú flest bara eina mömmu. Ég missti mína mömmu fyrir u.þ.b. mánuði síðan og sakna hennar mjög mikið og sérstaklega í dag á mæðradaginn, en ég fór nú oftast með blóm til hennar og köku á þessum degi, í gegnum tíðina.
Ein góð vinkona mín sagði við mig fyrir nokkrum árum, ef við erum góð við foreldra okkar, þá auðveldar það svo missinn, þegar þau falla frá. Ég veit það nú ekki alveg í dag finnst mér missirinn erfiður, en þó hlýtur manni að vera rórra í hjartanu, hafi maður verið til staðar og gert sitt besta meðan foreldranna nýtur við
Svona daga,sem eru hugsanlega uppfundnir af blómasölumönnum, eigum við að vera þakklát fyrir og ættu að ýta undir okkur með að sinna því sem máli skiptir í lífinu, sem eru foreldrar okkar.

Mömmur elska börnin sín án skilyrða og ekkert er þeim óviðkomandi, hversu smálegt sem það kann að virðast og það að geta talað við mömmu sína um allt og ekkert og hún sýnir öllum málum jafnmikinn áhuga eins og um lausn á heimsmálunum væri að ræða, er ómetanlegt.
Verum góð við foreldra okkar og sýnum þeim virðingu og ást, því við erum það í dag, sem þau hafa gert okkur að og eigum við þeim allt að þakka.
Elsku mamma mín var yndislegust allra og sakna ég hennar alveg ofboðslega í dag. Takk fyrir svona daga, þeir vekja mann til umhugsunar, með eða án blóma.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.4.2012 | 18:09
Veróna eða "piccola Roma" eins og hún er stundum kölluð.
Ég keyrði inní Veróna á páskadag, kom úr sólinni í norðri og lenti í úða í Veróna, en samt var nú margt um manninn þarna, enda páskar og margir á ferðalagi á þeim tíma. þegar maður kemur að borginni er hlið með varðturni sem hefur væntanlega varðað alla aðkomugesti til borgarinnar á árum áður.

Stuttu eftir að komið er í gegnum hliðið er torgið Piazza Bra, þar er hin 2000 ára gamla fræga Arenan, þar sem óperusýningar fara fram undir beru lofti á sumrin, Kristján Jóhannsson hefur m.a. haldið tónleika þar á árum áður. Ég missti því miður af þeim tónleikum, enda á þeim tíma, þótti mikilvægara að ná sér í sól fyrir allan peninginn.

Eins og sjá má er blautt, en þó var röð í hringleikahúsið, en ekki var nú farið inní það í þetta sinn, en bíður það tækifæris, þegar hægt er að slá 2 flugur í einu höggi og sjá flotta óperu, eða bara tónleika með einhverjum flottum listamanni og skoða leikvanginn.
Ekki er hægt að fara til Verona án þess að kíkja á svalirnar hennar Júlíu, en þær eru nú ósköp litlar og ómerkilegar, en vinsæll viðkomustaður ástfanginna para, sem setja á vegg elskenda beiðni um eilífa ást eða eitthvað annað bráðnauðsynlegt, og er það fest með tyggjói, þegar ég kom þarna var greinilega búið að taka alla miðana, en sagt er að það séu nokkrir sjálfboðaliðar sem taki að sér að lesa og jafnvel svara bréfunum, og hefur verið gerð mynd um þennan vegg "Letters to Juliet" í garðinum er svo bronsstytta og allir sem hafa óskað sér þurfa að snerta vinstra brjóst styttunnar, til að óskin rætist, ég sleppti því nú enda hafði ég ekki komið með neina ósk á vegginn sem var ein tyggjóklessa, örugglega ekki mjög hreinlegt, en sjarmerandi.

Hér er svo veggurinn án miða og með miðum, mjög skemmtileg að skoða, en ekki snerta. Svo er Piazza Erbe,skammt frá garði Júlíu og er það rosalega skemmtilegt torg, þar sem úir og grúir af allskonar sölubásum, með markaðsstemmingu og kaffihús og matsölustaðir þétt staðsettir meðfram öllu torginu, við fengum okkur vínglas á upphituðum stað, meðan mesta úrhellið gekk yfir áður en við heimsóttum sjálfan Dante, en styttan stendur á torgi sem var nú algerlega marautt, enda allir komnir í skjól undan regninu á kaffihúsin í kring, en Dante stóð þarna sína pligt, en heldur var hann einmanna karlinn í regninu.
Veróna er þannig borg, að manni finnst hún vera svona smábær, enda ekki nema um 270 þús íbúar á svæðinu, en á þessum páskadegi, var hún nú ansi fjölmenn, þrátt fyrir smá úrhelli, þá er mjög gaman að koma til Veróna, enda öll smærri í sniðum en Róm, en samt með söguna á bak við sig. Við höfðum síðan hugsað okkur að borða á þeim "fræga" stað 12 Apostoli, þar sem víntegund er nefnd eftir Diddú okkar að mér er sagt, en það þarf að bíða betri tíma, þar sem betra er að panta borð með fyrirvara.
Veróna rómantíska borgin verður nú heimsótt aftur þó síðar verði.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 18:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.4.2012 | 17:56
Bíladólgar fjölskyldunnar.
Ég hef aldrei gert mig út sem einhvern frábæran ökumann, sérstaklega ekki eftir að vinkonur mínar hafa í gegnum tíðina verifð að skjóta á mig í hvert sinn sem þær sitja í bíl með mér. Kalla mig Schumacker eða hvað hann nú heitir.
Held reyndar að þetta sé í blóðinu, jafnvel þó pabbi minn hafi verið atvinnubílstjóri í mörg ár og tjónalaus með öllu, þá held ég að við systurnar höfum ekkert endilega fengið þann bílaeiginleika í arf. Alla vega á ég systur sem keyra ekkert sérstaklega vel og frænkur sem eru jafnlélegar.
Ein frænkan gefur alltaf í á hraðahindrun (eins og henni finnist hraðahindrunin vera leið til að yfirstíga með hraða) og maður má þakka fyrir að halda tönnum og fyllingum, en ég mundi nú ekki segja að ég gengi svo langt að setja á mig hjálm vegna fyrirhugaðra höfuðmeiðsla, en nánast. Hef nú fengið ansi margar kúlurnar í ferðum með henni.
Ein er svo heppin að hafa alveg óvart keyrt bíl inní bakarí og var það nú ekki lítill bíll heldur svona amerískur kaggi, og hún þurfti alveg að hafa fyrir því að keyra uppá gangstétt og inní gegnum glugga og hurð að afgreiðsluborðinu. Keypti einn snúð í leiðinni.
Síðan fór hún "óvart" með bensínslönguna með sér á brott frá bensínstöðinni (já það hefur í raun og veru gerst er ekki bara brandari á fb.) Sem sagt ég á ættir að rekja í annan stað atvinnubílstjóra og hins vega "ekkert sérstaklega góðra" bílstjóra.
Ég fékk sem sagt ekk sérstaklega góðu genin. Eins og ég hef áður sagt, þá erum við ég og bílar ekkert sérstaklega að "Bonda" Fyrsti bíllinn sem ég eignaðist alein var Toyota Corolla eftir sameign með eiginmanninum á allskonar bílum, sem ég tel ekki með, enda keyrði ég þá sjaldnast, heldur lét hann um málið, held líka að hann hafi ekki alveg treyst mér, hvorki til að keyra og þá síður að rata.
Toyotan endaði sinn feril aftan á hinum bílnum sem var í bænum um verslunarmannahelgina 1996, en held að við höfum verið þeir einu sem vorum á ferð í Reykjavík þá helgina, sá var stopp á rauðu ljósi. Ég sá hann ekki!
Ég var núna að skoða brot í stuðaranum hjá mér, skrítið...ég hef ekki keyrt uppá gangstéttir í langan tíma..held að bíllinn minn sé of nálægt götunni, nú eða einhver vísvitandi lamið stuaðarann í sundur. Þarf að fara að huga að öruggu stæði hérna á Álftanesinu
3.3.2012 | 10:51
Stórleikur í eldhúsinu
Ég verð nú að segja það að ég átti stórleik hérna í eldhúsinu áðan, er aðeins að jafna mig eftir að hafa farið hamförum hérna út um allt.
Ég var að þrífa hérna í eldhúsinu í morgun og varð á að missa eina dós af Coke Zero á gólfið. Bara litla dós, en vá hvílíkt magn í einni dós! Þar sem ég stend gráti næst og íhugi hvernig best sé að snúa sér í þessu, með lekand kók úr andlitinu og sá illa út, hélt mér hefði sortnað fyrir augum, en sá það þegar ég tók gleraugun af mér að þau voru bara öll í kóki.
Já skipulagsgáfan mín? Hm. best að byrja á loftinu, þar sem þá mundi ég ekki vera með þennan úða yfir mig meðan ég þrifi gólfið. Gott að hafa tekið exceltíma og forgangsraða. Já eða taka mesta pollinn af gólfinu svo ég beri ekki allt út um allt?
Skemmtileg tímasetning fyrir straubrettið að láta líða yfir sig fyrir framan þvottahúshurðina og ég kemst ekki inn til að ná í moppuna, fyrr en ég brýst inn, með látum (vildi að ég gæti sagt að gleðin hafi skinið úr andlitinu) en ég hrifsaði moppuna pirruð og er búin að vera að þrífa í svona hálftíma og ég er ekkert að grínast þegar ég segi, Kókið fór allstaðar, ég er að meina það eru blettir á lofti, veggjum (inní herbergi nánast) það er allt í kóki hérna.
Varð að fá smá útrás, en þegar ég fór út með 3 poka af kókblautum eldhúsrúllum í rusl (jú jú mikið rétt, tuskurnar voru inní þvottahúsi) þá kallaði litli strákurinn í íbúðinni við hliðiðna á mér mig STELPU og það reddaði deginum sem byrjaði nú ekki svo vel. Ég geng nú um brosandi (klínstruð) og það brakar í hverju spori, ætli kók sé gott fyrir steinagólf?
Er farin í næstu hús að kanna skemmdir vegna kóks. Hef með mér tusku.!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.2.2012 | 17:00
Hin ýmsu hótel.
Ég er mjög ferðaglöð kona og elska að ferðast, en sá böggull fylgir skammrifi að vandasamt getur nú verið að finna sér hótel við hæfi og eru þau mörg eins og þau eru misjöfn, m.a. þess vegna skellti ég mér nú í ferðamálanám sem hjálp við komandi ferðalög og val á hótelum
Ég var á 5* hóteli í Róm hótel Gioberti og á 6 dögum sá ég 2 rottur í garðinum, sem voru á stærð við meðalkött, já voru mjög fancy rottur, en ég missti matarlystina á hóteliu og borðaði ekkert, nema sem kom í innsigluðu plasti og vökva úr innsigluðum flöskum.
Ég hef hér áður lýst hótelinu í Búlgaríu, þar sem allt var bilað og ég þurfti að kvarta svona 5 sinnum og fékk öllu bilaða dótinu skiptu út fyrir heilt, á kostnað íslensku hjónanna í næsta herbergi sem fengu öllu sínu heila dóti skipt út fyrir mitt ónýta.
Ég pantaði líka eitt sinn hótel á Ítalíu fyrir 4 (fullorðna) og fékk micro stúdíoíbúð, sem var með litlu hjónarúmi og einum hermannabedda, sem sonurinn 189cm var settur á, en þar sem ekki var nægt pláss, þá þurfti hann að sofa með hausinn útá svölum, eða með fætur/haus inní ísskáp, hann valdi fyrsta kostinn og var skaðbrenndur þegar hann vaknaði um morguninn, þar sem við fengum morgunsólina á svalirnar. Við hins vegar 2 vinkonur og fullvaxta dóttir, þurftum að deila litla hjónarúminu, og vorum með áverka eftir nóttina, þar sem við féllum ítrekað fram á gólf, það tók nokkurn tíma að finna nýtt hótel fyrir okkur, þar sem við þurftum ekki að nota skóhorn til að koma okkur fyrir. Þetta stóð í smáa letrinu að ég hefði vísvitandi pantað þetta sýnishorn af hótelherbergi.
Ég lenti líka eitt sinn í því að frjósa næstum í hel á 4*hóteli í Köben St. Petri, en við vinkonurnar höfðum verið þar á með stórum stelpuhóp á tónleikum og greinilega var bilun í hitakerfi okkar herbergis, sem var svo sem ágætt, stundum, þegar okkar herbergi var notað sem partyupphitunarstaður fyrir tónleikana og svona, en á 3. degi var okkur nú farið að hætta að finnast fyndið þegar okkur var sagt að við værum örugglega alltaf "óvart" að setja kulda á herbergið, og á endanum hringdum við niður í lobby og báðum einhvern vinsamlegast að koma upp og vera í herberginu í 3 mínútur og ef viðkomandi þyldi við, þá mundum við hætta að kvarta. Við klæddumst nú í öll föt sem keypt höfðu verið, fórum í náttsloppana frá hótelinu utan um til að undirstrika smá hvað okkur væri kalt, settum á okkur húfur og trefla og vettlinga og tókum á móti gaurnum, sem blánaði við það eitt að labba inní herbergið okkar og eins og hendi væri veifað, þá fengum við þá flottustu svítu sem ég hef gist í. Við vorum fljótar að brjóta grýlukertin af dótinu okkur og þeysa yfir í nýju íbúðina og bjóða öllum í frían drykk hjá rokkstjörnunum sem okkur fannst við vera, með einhvern arabískan Shake frá Saudi í næstu íbúð og LA Toya systur M.J. í næstu. Alveg sáttar við þessi skipti.
Ég var líka með vinnuhóp á hóteli í Kaupmannahöfn við Ráðhústorgið sem var í endurnýjum, og vorum við nokkrar settar í herbergi sem var inná gangi þar sem verið var að pússa gifs af veggjunum, þannig að þegar við höfðum labbað ganginn á enda og troðið okkur í gegnum plast og stillansa og iðnaðarmenn, vorum við hvítar af dufti og eins og gangandi "ekki" flösusjamó auglýsing" og vorum kallaðr, "flösugengið"Sumir úr hópnum vour hins vegar í Louis Armstrong svítu, með sér strauherbergi, legg ekki meira á ykkur, við dvöldum mikið þar, þar sem veggfóðrið í okkar herbbergi lafði alveg ofan í rúmin okkar, svo það var ekki notalegt að sitja og spjalla í rúmum og þurfa alltaf að ýta veggfóðrinu frá andlitinu, því það var smá rok í herberginu, þar sem svo mikið ryk kom inn vegna framkvæmdanna í næstu herbergjum sem var verið að gera upp (okkar var ekki eitt af þeim) að við vorum með alla glugga opna.
Ég hef nú lent í fleiri skemmtilegum uppákomum á hótelum um heiminn, en nóg í bili.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 17:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.1.2012 | 13:20
Kona og bílar!
Gleðilegt ár! Vonandi verður þetta ár betra en síðasta. Kannski fær maður vinnu á nýjum vettvangi, kannski ekki, maður tekur ekkert sem gefið eftir hrun. Kannski er maður bara hættur vinnu á miðjum aldri og getur farið að huga að áhugamálum sínum sem eru í mínu tilfelli ekki bílar.
Besta vinkona mín segir að ég sé ömurlegur bílstjóri! Mig sárnar, hugsa með mér að bæði börnin mín séu lifandi og vinkona mín líka, reyndar þegar ég var andvaka í nótt yfir þessari yfirlýsingu frá henni, þá fór ég að hugsa. Hún er alltaf á sínum bíl ef við erum að flandrast eitthvað og þegar við erum að ferðast fæ ekki ekki að snerta bílaleigubílinn hmmm.... já ég sem hélt að hún vildi að ég væri "navigatorinn" sem getur ekki verið miðað við mína sögu af "rötun" á staði. Ég sem enda í Genieve í Sviss í stað Genoa á Ítalíu. Aha æm on tú her!!!
Ég fór að hugsa um fortíð mína og samband mitt við bíla í gegnum árin. Jahá þarna kom það! Elsta systir mín skildi við 1. mann sinn (af tiltölulega háum fjölda eiginmanna) og fékk bílinn þeirra hjóna í sinn hlut, en þar sem hún var barnung við giftingu og nýkomin með bílpróf og hafði endað fyrstu ökuferðina sína á Miklubrautinni með 3 dekk, þar sem 1 dekkið hafði tekið uppá því að yfirgefa bílinn og fara á undan þeim, áttaði hún sig á því að henni var ekki ætlað að keyra bíla. (nema þetta hafi verið trikk hjá husbandinu til að losa hana undan þeirri ætlun sinni) Alla vega það tókst og þegar hún svo varð einstæð með 1 barn þá þurfti hún einhvern til að keyra sig.
Ég var glöð og sæl, nýkomin með bílpróf og var svo hamingjusöm að hafa þennan Fiat Uno algerlega fyrir mig. En ég kunni ekkert með hann að fara og held að verðgildi hans hafi rýrnað á þessum mánuðum um 90% en ég setti aldrei olíu á hann, kannski bensín þegar hann var farinn að hiksta og svo endaði ég eina ferðina uppá kantsteini sem lá á hliðinni við Umferðamiðstöðina. Ég sá hann ekki (svo ekki við mig að sakast sagði ég) en bíllinn rann uppá steininn og vó þar salt. Það þurfti 6 fíleflda karlmenn að bera bílinn af steininum og við mikinn hlátur þeirra keyrði ég í burtu sem óð væri eldrauð í framan.
Ég hef áður skrifað um bíl tengdamóður minnar sem ég rétt missti inní garð, við lítinn fögnuð foreldra vina minna, án þess að vera ökumaður bílsins þannig að já ég er að átta mig á "VANTRAUSTINU". Fiatinn var nú ekki alveg búin að fá sína útreið, ég átti enn nóg eftir. Mér hætti til að vanmeta "breiddina" á þessum ponsulitla bíl og sneiddi af báða hliðarspeglana í innlögnum í stæði.
Einn daginn í sól og blíðu var ég að skutla systur minni og barni ásamt kærasta (sem síðar varð eiginmaður númer 3 eða 4 man það ekki alveg) og allt í einu skall á hvílík þoka og ég setti rúðuþurrkurnar á á fullt en ekkert dugði, ég sá varla neitt, en heim ætlaði ég með fólkið mitt og það tókst að lokum. Þegar við svo stigum út var sól allstaðar nema í kringum bílinn, svo ég opnaði húddið og hafði með mér kókflösku til að berja í startpunginn (maður kunni nú trix í den) en þá skaust lok af vatnskassanum uppúr með hvílíkum látum og upp kom hvílík gusa. Ég hringdi í pabba sem var rosalega hrifin eða þannig. Settirðu ekki vatn á vatnskassann stelpa sagði hann? Nei það er nóg af rúðupissi og ég nota það svo lítið. Hann hristi hausinn og græjaði "karið" á staðnum.
Svo dag einn var ég að skutla barni systur minnar til dagmömmu með 3 aðrar systur með mér um borð og er að keyra frá heimilinu, þá sé ég hvar systir mín hoppar og veifar höndunum og ég segi við barnið: "veifaðu mömmu elskan hún er að vinka þér"
Verð að viðurkenna að mér fannst bíllinn aðeins halla til annarrar hliðar, en var svo hissa og glöð hvað margir vinkuðu okkur og við systurnar sögðum við hvor aðra, vá hvað allir eru vinalegir í morgunsárið, en þegar allt í einu allir farþegarnir voru komnir sömu megin, þá ákvað ég að stoppa, því ég hafði heyrt einhvern hávaða en hækkaði þá bara útvarpið og þá hvarf hann. Það var hvellsprunigð og já kallið mig ljósku, en þegar maður er að stíga sín fyrstu skref (hjólför) þá er maður ekkert með svona í blóðinu.
Fiatinn endaði á sölu, því eiginmaðurinn fyrrverandi var svo ergilegur hvernig "farið var með bílinn" sagði hann...held nú að þetta hafi frekar verið afbrýðisemi. En hvað sem því líður þá er þetta fyrsti bíllinn sem ég hafði undir höndum eftir bílpróf og þeir eru búnir að vera nokkrir síðan.
Kannski hefur vinkona mín rétt fyrir sér. Ætli það sé hægt að taka "endurtektarökupróf" og þá ætla ég ekki til ökukennarans sem kenndi mér, svo mikið er víst.) Mig grunar nefnilega að ökukennarinn hafi sleppt mér í gegn, þar sem hann var svo nervös eftir að ég keyrði niður 2 menn í einu á Vesturgötunni á sunnudagsmorgni eftir 25 ökutíma. (þeir slösuðust lítið)
Segi nú bara bless er að fara í bíltúr svo haldið ykkur heima.

6.1.2012 | 21:35
Capri eyjan fallega
Eyjan Capri er að ég held sá staður sem kemst næst því að líkjast pardís, eins og ég held að paradís líti út.
Capri liggur í Napólíflóanum og tilheyrir Campange héraðinu og eru íbúarnir undir 15 þúsundum, en allt að 10 þúsund ferðamenn eru þar daglega á háannatíma.

Þegar maður kemur upp á sjálft fjallið, með dráttarkláf/lest eða hvað þetta nú heitir, sjá mynd hér að neðan, þá lendir maður á stórri verönd og á henni er kort úr mosaik yfir eyna og ég varð nú að taka mynd af því, enda held ég að ég hafi aldrei tekið eins mikið af myndum og í þessari ferð.
Að labba meðfram ströndinni og horfa útá dimmblátt/grænt hafið þar sem möndlutrén standa í röðum í blóma er bara unaður og hvílík upplifun að maður fyllist lotningu.
Ég fór til Capri frá Sorrento, en þaðan eru ferjur og bátar með stuttu millibili oft á dag. Það tekur u.þ.b. 45 mín með ferju á milli lands og eyja og kemur maður að hafnarsvæði sem er á mjög mjórri strandlengju sem rétt rúmar nokkra bari, sölubása og verslanir aðallega með svona ferðamannadót. Þar settumst við niður á bar, þar sem skemmtilegasti barþjónn fyrr og síðar afgreiddi okkur og við kölluðum bara Eyþór (si si sagði hann mi chiamo Eytór) en þetta var rétt uppúr hádegi og hann dansaði og stjanaði í kringum okkur eins og við værum eðalborin. (grunar að hann hafi fengið sér cafe corretto í morgunmat). Þegar móttökurnar eru svona á stað sem er oftast yfirfullur af ferðamönnum, þá finnst manni að maður sé virkilega velkomin og það er jákvætt fyrir ferðamanninn, enda elska ég Capri.
Frá þessari þröngu hafnarlengju tekur maður sem sagt kláfinn uppá eyjuna sjálfa og þar er eitt fallegasta útsýni sem hugsast getur.

Eiginlega leið mér eins og ég hefði dottið inní gamla mynd, sem hefði verið fótósjoppuð, en það er ekki hægt að lýsa fegurðinni sem er á Capri, nema með því að birta myndir og ég tók nóg af þeim, enda er ég alltaf jafn hrifin af fallegum trjám og blómum og sjónum, sem er eiginlega dökkgrænn og svo hreinn og tær.
Ég sleppti því að fara alla leið uppá Ana Capri, enda alveg nóg að vera svona hátt uppi á fjalli fyrir minn smekk, með mína lofthræðslu.
Það var á föstudegi þegar við vorum í Capri og var verið að undirbúa brúðkaup á einum matsölustaðanna og hvílíkt blómahaf, held að ég hafi aldrei séð jafnmargar Hortensíur og stærri blómvendi en þarna, eiginlega langaði mig að bíða eftir brúðkaupinu til að sjá þetta, miðað við skreytinguna var ég viss um að þarna væri konunglegt brúðkaup á ferðinni. Ekki færri en 35 manns voru á veröndinni að leggja á borð og skreyta garðinn. En ferðafélagarnir mínir yndislegu voru svangir og við ákváðum að fá okkur að borða ofarlega á eynni, við hafið til að njóta útsýnisins yfir til Ítalíu yfir til Campagnehéraðsins.
Ég set inn nokkrar myndir hérna, þar sem ég get ekki lýst Capri með nægilega fögrum lýsingarorðum og já ég fer aftur þangað.




Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.12.2011 | 03:02
Gamlárskvöld síðustu ára.
Enn er gamlárskvöld að renna upp. Sá mest ógnvekjandi dagur í lífinu mínu, er alltaf jafn kvíðin og aldrei eins glöð og þegar nýjársdagur rennur upp og allir með hendur og fætur á sínum stað á mínu heimili.

Þannig er mál með vexti að "Hryðji" sonur minn er sprengjuóður og hefur verið frá því hann fór að hafa vit. En honum hefur nú ekki alltaf þótt sprengjurnar nógu öflugar, þannig að ég var þessi "heppna" mamma að hann var alltaf að styrkja sprengjurnar sínar með einhverju "stuffi" sem ég gat bara ekki munað hvað hét hverju sinni, enda allt gert í samráði við "félaga hans í apótekum bæjarins" ég gafst upp á að fylgjast með þessu fyrir löngu, enda þýddi það ekkert, þegar ég tók mig til og ákvað að taka ströngu móðurina á sprengjumálin, þá fann ég bara síðar skálar með dularfullu dufti út um alla íbúð á hinum undarlegustu stöðum, svo ég játaði mig sigraða.
Ekki þýddi heldur að reka hann frá húsinu, því við bjuggum fyrir neðan elliheimili og þá fór hann bara þangað með sínar sprengjur, og ég veit ekki hvort það var ýmyndun ein, en mér fannst alltaf meira um sjúkrabíla á þessu tímabili fyrir utan elliheimilið.
Nú ein áramótin tókst honum, að kveikja á rakettu á leið okkar uppá hæðina fyrir ofan húsið, er ekki ennþá búin að átta mig á því hvernig, en hún fór af stað í miðri gönguferð og slapp inni rakettupoka mágs míns, hann fuðraði upp með hvelli og frakkinn hans fór í tætlur og tók af við mitti, en sem betur fer varð ekki slys á mönnum.
Honum tóks líka að "missa" eina rakettu inní bíl, sem var sem betur fer ónýtur á stæðinu, enda var hann nú ekki ökufær eftir að rakettan sprakk inní honum.
Hann kom eitt kvöld daginn fyrir gamlárskvöld í lögreglufylgd heim, þar sem hann hafði verið ásakaður um að hafa kveikt á blysi í strætó og brennt sætið þar. Hann sór að það hefði ekki verið hann sem gerði neitt slíkt, enda vanur í "sprengjubransanum". Ég rak hann uppí herbergið sitt, eftir að ég var búin að klippa sviðnað hárið og setja plástur á nefið og snyrta brenndar augnabrúnirnar og sýndi honum sjálfan sig í speglinum, þar sem hann var kolsvartur af bruna og spurði hvort hann ætlaði að standa fast við söguna um að hafa ekkert gert af sér?
Hann var í straffi daginn eftir og var kominn uppí rúm rétt uppúr miðnætti, en vaknaði svo fyrir sex um morguninn og gerði hvað?
Nú nema sótti allar sprungnu og hálfsprungnu sprengjurnar og tók þær inní herbergi til snyrtingar, við rosalegan fögnuð móður sinnar.
Guð hvað ég verð glöð ef allir halda öllum puttum á morgun og segi því Gleðilegt nýtt og heilt ár og áramót...ég verð á bíl!!!!!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 03:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.12.2011 | 21:10
Aðfangadagskvöld
Í dag aðfangadag átti ég stórleik, ég veit vel og hef oft sagt það að ég er ekkert að skora feitt í eldhúsinu öllum stundum og ég hef svo sem soðið ullarföt í þvotti og fleira, en á aðfangadag? Er eitthvað sem hefði mátt fara öðruvísi? Já Allt!
Ég eldaði kalkún skv. uppskrift og átti að setja vel vætt viskustykki á hann útatað í smjöri. Sem ég gerði og viti menn jú viskustykkið brenndi sig inní húðina, það var ekkert sérstaklega gott bragð af skinninu og það var köflótt! já svona með bláum köflum.
Nú meðan kalkúninn var að viskustykkjavæðast í ofninum skellti ég fötum dótturinnar sem hún kom með frá Ítalíu, meðal annars fínu lopapeysunni sem hún fékk ekki alls fyrir löngu og setti ég þetta á ullarprógram hélt ég, en út kom ponsulítil peysa sem mundi passa á álf með alltof stórum tölum sem var eiginlega algerlega ofaukið á þessa nýtilkomnu "babybornpeysu". Stelpan mín var sár, hún er oft mjög sár þegar ég þvæ af henni fötin.
Já ég hugsaði með mér að best væri að skella sér í sturtu meðan stelpan reyndi að teygja peysuna til sem tókst svona líka bara vel, gæti hæglega komið henni utanum 2 ára barn eða svo. Ég var búin að gera baðið allt jólafínt og kveikja á kertum, tók með mér jólafötin og setti þau á bekk og fór í sturtuna og fannst eins og kertin flöktu óvenjulega mikið. Þegar ég uppgötvaði að þetta voru ekki bara kertin, heldur hafði eldur læðst í handklæðið á slánni og brennt það og nærfötin mín bráðnuðu og hluti fatanna brann inní handklæðið. (ath. nylon brennur illa!!!)
Þessu var hent inní sturtuna, og hent í ruslið afar hljóðlega, vildi ekki láta vita að ég hafi farið úr einni eyðileggingunni í aðra. Krakkarnir höfðu þó orð á því hvað veggurinn væri svartur og mikill reykur af kertunum.
Nú ég brenndi mig svo á puttanum, þegar ég var að reyna að skafa viskustykkið uppúr kalkúnanum og fannst nóg um og held ég að kalkúni sé ekkert svo hollur, alla vega ekki mín uppskrift...
Þetta voru góðar endur sem við höfðum svo í matinn í kvöld og ég er buguð af eyðileggingu og þreytu...held ég fari að leggja mig.
Ég ákvað að vera bara ófín þessi jól og málaði mig ekki, vildi ekki taka séns á því að reka maskara í augu, eða eitthvað annað.
Ég ætla að skipta um battery í reykskynjaranum til öryggis.
Gleðileg Jól og farið varlega með kertin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.12.2011 | 00:13
Jólin koma
Sonur minn hinn hugmyndaríki hafði einstaklega gaman af jólunum, svo ég tali nú ekki um áramótin, sem byrjuðu að telja frá 1. janúar ár hvert og var strikað yfir dag hvern á dagatalinu fram til næstu áramóta.
Allt annað var EKKI í forgangi. Hann hafði þó óbilandi trú á jólasveinunum og að þeir væru á sama plani og hann. Hann sendi þeim margan póstinn í skóinn sinn í von um að geta einhverju breytt.
T.d. var bréf í skónum kvöld eitt. Sæll jólasveinn, veit ég er ekki búin að vera stilltur, en viltu ekki gefa systur minni frekar "kartöbbluna" ef þú þarft að gefa hana, hún elskar "kartöbblur" en ekki ég. Takk samt fyrir síðustu "kartöbblu" mamma eldaði hana og mér fannst hún bara góð. En ég er alveg með nóg af þeim í bili.
Næsta dag var svo. Kæri jólasveinn.. mig langar mest í kínverja, ef þú átt enga, þá get ég alveg fengið blys, en ekki stjörnuljós takk, systir mín á næsta skó við hliðina á mér, henni finnst gaman að fá stjörnuljós.
Svo kom: Jólasveinn! ég veit að ég er ekki búin að vera neitt sérstaklega þægur, en ef þú gefur mér ragettur og blys skal ég lofa að ég set ekki fleiri hurðasprengjur til að vakna þegar þú kemur og ég lofa að setja ekki fleiri rakvélablöð í skóinn, það var bara til að sjá í hvaða blóðflokki þú værir eða til að gá hvort mamma og pabbi væru með sár á "puttonum" daginn eftir, en Siggi í mínum bekk sagði að mamma sín setti í hans skó. Ég trúi því nú ekki, því mamma er öll óskorin ennþá!
Kæri Kertasníkir þú ert bestur, mér finnst svo flott að þú skulir borða kertin sem ég set hérna í skóinn að ég ætla bara að biðja þig að gefa mér enga "kartöbblu" Anna systir mín elskar "kartöbblur" ég ætla að gefa þér þessi kerti sem mamma var að kaupa og þau voru rosalega dýr. Ég tók allar hurðasprengjur og allt svona skaðlegt dót, svo þú komist óhindraður í skóinn minn. En ef þú heldur að ég hafi verið óþekkur, þá er það ekki rétt, Anna var miklu verri, það sá það bara enginn. Ég get sagt þér allt sem hún gerði ef þú átt nóg af kartöbblum, en talaðu við mig fyrst. Svo finnast henni "kartöbblur" ofsa góðar. En hún gubbar alltaf eftir þær, held að það sé útaf óþekkt. Held það í alvöru en ég er búin að vera rosalega stilltur. Kæri Jóli endilega lestu þetta bréf, og ef þú þarft að gefa "kartöbblu" þá veistu að Anna er ánægð með hana. Ekki ég.
Ég vil frekar dót og finnst ég eiga það skilið núna ég fann jólatré á götunni. Gaf mömmu það, það er frekar lítið en mamma sagði að það væri krútt. Komst ekki nema 3-4 kúlur á það, en samt var það mjög flott, held að ég hafi sparað mömmu fullt af peningum, það hlýtur að teljast með þegar maður fær í skóinn. já Jóli ég á stígvélið þetta stóra, og skóna þessa fínu. Systir mín á skóna sem eru fyrir neðan glugga, hún nennti ekki að setja þá í gluggann.
þinn vinur.
Kiddi.
p.s. ég er mjög ánægður með allt sem ég hef fengið!
aftur þinn sami vinur Kiddi.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)