Færsluflokkur: Ferðalög

Huglægt frí á móti fríinu raunverulega

Þegar maður fer í langþráð frí eftir kannski erfiða tíma ja eða bara lífið sjálft sem tekur yfir dag hvern. Við hluti af fjölskyldunni lögðum land undir fót og settum stefnuna á Eistland sem faðir barnabarna minna er að vinna. Fyrst gistum við á hóteli í Tallin í 3 daga og svo skyldi haldið að ströndinni til Narva Jöesuu á hótel með verönd og 5 mínútna gang niður að strönd. Huglæga fríið: "Bara dásamlegt frí með litlum stilltum börnum sem sitja svona slaufum prýddir meðan við fullorðan fólkið borðum og spjöllum. Við vissum nú vel að við vorum ekki að lenda í neinu sólbaðsveðri en áttum nú ekki alveg von á snjóstormi og mannskaðaveðri og nánast ófærð á leiðinni. Vonuðumst bara til að  geta setið á verönd með kaffibolla eða vínglas, alls ekkert of miklar væntingar. Það að geta sest niður með 2 gutta meðan pabbinn var að vinna svona 2 glaðar mæðgur í auglýsingu fyrir Úrval/Útsýn og börnin að sötra djús eða sprite og með skóflu og fötu á leið á strönd.  Svo voru líka mall ferðir innifaldar í þessu væntanlega fríi, ekki að ég nefni allar spa ferðirnar á hótelinu (sem við höfðum sem betur fer ekki pantað) meðan drengirnir væru glaðir að leika með pabba sínum í sundi þar sem þeir hafa ekki séð hann í 3 mánuði."

Veruleikinn: "Flugferðin til Helsinki var 3 og hálfur tími af "horror" ekki strákunum okkar að kenna, heldur lentum við á bak við breta sem var svo geðvondur og bað okkur að plís taka skóna af yngra barninu því hann fékk svo mikla bakáverka við að tærnar hans rákust í "spænið" hans...sá yngri er sko örfáir cm. að stærð eða rétt um 90cm. Nú eldri strákurinn sem er með dæmigerða einhverfu hafði svo alltof mikinn hávaða í Ipadnum "it hurt my ears you see" sagði hann blíðlega en smá svona "vá hvað þetta eru illa uppalin börn svip.  Við lækkuðum svona 10 sinnum og enduðum á heyrnatólum sem er ekki auðvelt því hann er með svona hljóðeinangrunarheyrnartól og er ekki til í að breyta því um sinn.  Niðurstaðan varð því sú að við skiptum og settum þann einhverfa á bak við bretann og hófust þá skellir í sætinu aftur og aftur opnaði hann og lokaði borðinu við gríðarlegan "fögnuð" þess breska.  Bretinn endaði á að skipa konunni sinni að skipta við sig en hún sat hinum meginn við ganginn. Hefndin var fullkominn á þennan leiðinlega vel snyrta breta með allt sitt stóð í gönguskóm að koma af Keili væntanlega og þegar hann flutti sig yfir í sæti konunnar sinnar þá róaðist okkar gaur og konan fann ekki fyrir neinu af hans hálfu en barnið sem hafði sofið alla leiðina frá Íslandi ákvað að vakna þegar bretinn settist við hliðina á henni og stóð á orginu alla leið til Helsinki.

Hótelið var æðislega fínt í Tallin og 3 góðir veitingastaðir en sá eldri var búin að ákveða það að hann bráðvantaði McDonalds blöðru og það var megin tilgangur hans til Eistlands að verða sér út um eina slíka.  Pabbinn fór í leiðangur á nokkra staði og fann blöðrur, en þá var komið að ósk númer 2 sem var Subway blaðra. Hún fannst ekki með tilheyrandi niðurbroti og gráti.

Nú við skelltum okkur í bílinn og hófum 3 tíma akstur til Narva Jöesuu í brjáluðu veðri sem gerði allan skóginn á leið okkar frá Tallinn mjög jólalegan enda svignuðu trén undan snjóþunganum en það var nánast ófært og erum við litlu víkingarnir nú öllu vön.

Þetta hótel í Narva bauð uppá spa og m.a. sundlaugargarð og nokkra matsölustaði sem okkur hlakkaði til að nota meðan pabbinn var í vinnunni. NEI ekki að ræða það!!!Það var ekki í áætlun eldra barnsins. Í lobbýinu voru 3 fánar sá eistneski, evrópufáninn og hótelfáninn.  Hann vildi kaupa þessa fána og Eistarnir skildu ekki þetta arfavitlausa barn sem benti á fánana og heimtaði öll stykkin og drógum við hann út sparkandi og öskrandi.  Við fórum að sjálfsögðu í fánaleit daginn eftir og keyptum 3 eistneska fána, en búðin var svo léleg að vera ekki með hina fánana.  Nú kom ný krafa eftir að fánarnir voru komin í hús en það var sólblóm og það var ekki heldur til í búðinni(mjög léleg búð greinilega) Við keyptum basiliku og sögðum honum að blómin væru ekki komin á plöntuna en hann lætur nú ekki ljúga að sér og googlaði sólblóm og því var leiðangur númer 2 fyrir pabbann eftir vinnu að finna sólblóm að öðrum kosti ekki koma heim.  Margir gætu hneykslast af þessu dekri en við eigum ekki annarra kosta völ ef við viljum smá frið sem dugir ekki lengi. Það er erfitt að aðlagast nýjum stöðum fyrir hann og allar breytingar taka mjög á hann. Við fengum ekki að snerta basilikuna því það var barnasólblóm sem hann gætti vel. Íbúðin er núna þannig að hérna eru svona uþb. 20 blöðrur uppblásnar 50 óuppblásnar, 2 sólblóm, stór basilika og svo fæ ég ekki símann minn því hann er að hringja í N1 og Stöð 2 til að reyna að panta blöðrur en hann er mjög hrifinn af þeim logóum. Hann googlaði bara símanúmerið og hringdi reyndar til Albaniu því hann kunni ekki landsnúmerið og stoppar ekki síminn minn með einhverjum dularfullum númerum sem ég hef greinilega hringt í sjálf.

Fengum smá heimsókn af slökkviliðinu hingað í morgun þar sem var verið að reyna að gera mat fyrir prins Valiant en hann vill sko pulsubrauð í örbylgjuofni sem var víst stilltur á grill og já það urðu læti en það fékkst þó mynd af gaurunum."

Við borðum heima núna alla daga því ekki förum við í lobbýið fyrr en við förum til Tallin á sunnudaginn.

Byrjar ekki alveg eins og huglæga fríð okkar var áætlað en það sem ekki drepur mann gerir mann sterkari og við erum mjög sterkar mæðgur með einn 7 ára sem er með einhverfu og skilur ekki heiminn eins og við og einn 3 ára sem skilur of mikið og fer sínar eigin leiðir og verslar eftir sínu höfði og þar sem við erum alltaf að passa uppá eldri strákinn þá kemst hann upp með ýmislegt. Ég vildi þó hvergi annarsstaðar vera en með þessum snillingum.

Gleðilega páska.

 


Óvæntur gestur!

Þar sem ég sat í makindum mínum og beið gesta minn í garði vinkonu minnar hérna á Spánarströnd  þar sem við ætluðum að borða saman hádegismat í hitanum.   Ég var að leggja lokahönd á undirbúninginn, þá var bankað á hliðið á veröndinni og fyrir utan stóð nágrannakonan sem er frönsk á sjötugsaldri.  Hún spurði hvort ég gæti reddað sér þar sem hún væri læst úti og fatlaður eiginmaður og öldruð móðir hennar væru fyrir innan hlið ófær um að bjarga sér.  Ég sagði henni að ég færi nú ekki uppí stiga enda loftrædd með afbrigðum.  Nei nei sagði hún er ekki einhver karlmaður sem getur bara haldið við stigann svo ég geti klifrað yfir, því hún er víst með stórhættulega hunda á svæðinu.  Fransk/enskan hennar var eiginlega með öllu óskiljanleg en hún talar spænsku svo ég sagði henni að vinkona mín spænskumælandi væri á leið til mín og með henni hennar ektamaður.  Nú þau runnu í hlað og fóru beint í að aðstoða frúnna við að komast yfir til fjölskyldunnar.   Hún fræddi mig á því að hún væri að fara með þau út að borða en það gerir hún einu sinni í mánuði.

Við vorum ekki búin að sitja lengi þegar kall eftir hjálp barst frá götunni, en þá hafði hún fest eiginmanninn í bílnum og hann lá þvert yfir bæði framsætin ófær með öllu að hreyfa legg eða lið. Vinkona mín einhenti sér í að reisa hann við og ég reyndi að troða fótunum á honum inn í bílinn.  Hann var nú óskaplega ósjálegur greyið í sjúkrahústreyju óhnepptri á sokkunum og hárið illa hirt sem og skeggið og hann var með húfu í 45 stiga hita. Nú við skorðuðum hann af og settum hjólastólinn í skottið og þá kom hin há há háaldraða móðir en hún komst sjálf að bílnum og við einhentum henni í aftursætið enda hálfgert fis. (franskar konur fitna víst ekki). 

Hjá okkur var stuð og stemming enda vinkonur mínar sem ég hafði ekki hitt lengi, við spjölluðum og hlógum þar til bankað var uppá og sú franska með karlinn í hjólastólnum sagði okkur að við yrðum að geyma hann meðan hún sækti lyklana sína sem hún hafði gleymt á matstaðnum.  Spurði ekki heldur rúllaði honum út í horn.  Hann verandi norskur og einhverjar líkur á að við skildum hann þó hann væri nú eiginlega á mörkum þess að vera með meðvitund, þá spurðum við hann hvort hann vildi eitthvað og hvort hann vildi sitja hjá okkur en hann vildi það alls ekki.  Sat bara eins og dæmdur og allt í einu fór hann að hrópa: Jeg vil OPPPPP jeg vil op  og hljóp ég til þar sem ég er nú málamanneskja og tala hin ýmsu tungumál m.a. dönsku og sænsku en alls ekki norsku.  Skidli ekkert sem hann sagði, hann vildi sem sagt láta færa sig upp í hjólastólinn þar sem hann var að renna niður úr honum.  Við björguðum því og löguðum hann til. Hann var í drykklanga stund hjá okkur eða einhverja klukkutíma.   Breski nágranninn sagði mér síðar að sú franska stundaði þetta þ.e. að þykjast hafa gleymt lyklum og væri svo í burtu 3 til 4 tíma og já svona bjargar hún sér bara.

Hún gaf okkur ódýrt ódrekkandi cava og rauðvin sem þökk fyrir hjálpina sem hún var með óvart í bílnum fyrir svona tilefni reikna ég með.


Veðurupplifun milli landa

Sardar eru dásamlegt fólk, eru vanari 40 gráðu hita, meðan við íslendingarnir hendum af okkur fötum þegar hitinn er kominn í 8 stig maður bara heldur sér í sólstólinn. Sardar eru stoltir og kalla sig alls ekki Ítali, heldur Sarda og hafa þeir eigin fána sem var hérna áður skríddur 4 "banditos" með bundið fyrir augu, (partur af sögunni meira um það síðar) en þeim var gert að færa böndin upp að enni á gaurunum á fánanum. 

Hérna er vetur fram til miðjan júní og þú ert ekkert að fara að mótmæla því. Þeir gapa þegar þeir sjá okkur á ermalausum kjól og með börnin í sandölum og fáklædd.  Ítalska amman kappklæðir þá að morgni og kveikir í arninum svo þeir forkelist ekki. Þar sem litlu víkingabörnin eru bara ekki tilbúin að vera í sokkum skóm, úlpu og með húfu.  Lái þeim hver sem vill, en hérna signir fólk sig og börnin okkar og biður blessunar þeim til handa svona illa klædd og um það bil að forkelast í þessu mannskaðaveðri sem þeir telja vera meðan þeir blása ekki úr nös. 

Ég benti þeim á það að ef hávöxnu stráin þeirra hreyfist ekki í "rokinu" þá er gola, því til sönnunar sagði ég þeim að ef ljósastaurarnir heima á Íslandi högguðust lítið þá er EKKI rok, þá er gola og við stöndum við það.

 


Hefðirnar á Sardeníu eru bara svo frábærar!

Það sem kemur mér skemmtilega á óvart hérna á Sardeníu er hversu stíft þeir halda í hefðir. Ég hélt alltaf að Bretar væru hefðbundnastir allra en Sardar eru stífari á sínum hefðum og venjum.   Við íslendingar mætum oftast í matarboð með blóm eða góða vínflösku í poka með slaufu að sjálfsögðu. Þeir koma hins vega með kind eða geit, þó ekki á fæti en svona nánast, jafnvel heilt dýr sem sett er á tein og grillað yfir eldi í garðinum. Það gerðist akkúrat í dag 2. í páskum en þá er þeirra aðaldagur þar sem fjölskylda og vinir hittas og öllu er til tjaldað. 

Hérna var matarboð og komu gestirnir færandi hendi. Sá fyrsti mætti kl. 11 með heilan geitarskrokk.  Næsti kom með 10 kg. af appelsínum úr sínum garði, annar með Limonchello heimagert og hjón sem eru með ólífurækt komu með ólífuolíu í 2 lítra flösku.

Þetta er svona aðeins öðruvísi en við eigum að venjast enda ekki hægt að klæða geit í sellófón og setja slaufu á. Þeir eru ekkert að skreyta hlutina bara einfaldleikinn allsráðandi.  Einnig nota þeir mjög gjarnan sínar afurðir sem greiðslu fyrir smá viðvik og er alls ekki óalgengt að bíll stoppi hérna fyrir utan húsið og lambi, hent inn og borgað með nokkrum kg. af appelsínum, sítrónum og tómötum. 

Ekkert prjál hérna.


Fallega Sardenía

Sardenía í smá kulda að mati okkar íslendinga en mannskaðaveðri skv. íbúum eyjunnar er aðeins öðruvísi en á sumrin í 40 stiga hita.  Yndislegt veður er þó hérna í Sardeníu yfir páskana og ætlum við að dvelja hérna í heimabæ tengdasonarins Sarrock.  Þó að heimafólkinu finnist hálfgerð stormviðvörun þá erum við í stuttbuxum og ermalausum bolum.  Tengdafaðir dóttur minnar veiktist nú samt þrátt fyrir 3 flíspeysur, húfu og arineld, en litlu ömmustákarnir mínir voru eins og kálfar að vori svo glaðir að geta labbað útí garð og leitað að eðlum, maurum og öðrum skemmtilegum dýrum. Þetta olli því að hann er kominn í öndunarvél sem blæs pencillíni og hóstar eins og stórreykingarmaður og getur varla gengið fyrir mæði. Þetta er hins vegar hinn hressasti karl sem gengur klukkutímum saman á morgnana fyrir sólarupprás en svona hefur veðurfarið misjöfn áhrif á fólk. 

Eins og mér hefur verið tíðrætt um þessa dásamlegu eyju og sérstaka fólkið sem hér býr með öllum sínum kreddum og hefðum, þá hef ég ekki áður orðið vör við "kukli" því sem við lentum í á markaðnum í gær.  Taka skal þó fram að þeir trúa á allskonar eins og bara við íslendingar og ég meina "kukl" eða kreddur er mismunandi eftir þjóðum.  Við fórum sem sagt á markað í Capoterra litlum sætum bæ og lögðum bílnum fyrir framan hús eitt og hafði tengdasonur minn það á orði að hann vonaði að bíllinn yfirði ekki farinn þegar við kæmum til baka.  Eftir að hafa rölt markaðinn og gert góð kaup, fórum við til baka og viti menn bíllinn var á sínum stað en út úr húsinu sem hann stóð fyrir framan kom lítil mjög krumpuð, brúnklædd kona og spurði hvort hún mætti snerta hendur yngra barnabarns míns, en það þykir boða gæfu.  Jafnframt tjáði okkur það að hún væri boðberi ógæfu og allt sme hún snerti fengi ógæfu í kaupbæti. Takk fyrir þetta kærlega og drengurinn  sem er algerlega óvarinn illum öndum þar sem armbandið hans sem á að verja hann slíku er slitið og ekki komið úr viðgerð.  Hún fékk ekki að snerta barnabarnið mitt.

Ég sagði "tengdó" fra þessu og bíð ég nú eftir því að hún mæti með vígt vatn og skvetti á okkur í tíma og ótíma.  Ég mun brynja mig með sundhettu og krumpufríum fötum.

 

 


Maturinn í Miscolc

Hérna í Miscolc er að mestu leyti mjög góður matur og eru þeir með mikið úrval af andakjöti, kjúklingum og þessu hefðbundna lamba, svína og nautakjöti.  Hins vegar bera þeir þetta fram með öðrum hætti en við eigum að venjast svona almennt í evrópu og minnir að hluta til margt um Kína alla vega þegar kemur að pizzum með gorgonzola og svo kannski smá sætri glassúrssósu sem þeir í Kína voru svo hrifnir af.  Alla vega þá fórum við á stað sem er þekktur fyrir steikur og endur og fengum við okkur öll þrjú endur.  

Ég fékk mér andabringur en ungu hjónin fengu sér andalæri.  Dóttirinn fékk sitt læri á Mc and cheese beði með chilibútum alltof sterkt og eiginlega ekki alveg það meðlæti sem við eigum að venjast með önd.  Tengdasonurinn fékk sitt læri á kúskús með chili og já þeir eru hrifnir af sterku chili.  Ég fékk bringuna í súpuskál með fljótandi uppstúf og kartöflum á víð og dreif þar ofaní, með spínati, brie og steiktum pulsulauk. já bringan var ok en hitt ekki.  Með þessu var hægt að fá 30 vatnstegundir, 40 bjórtegundir, ódrekkandi rauðvín eða rósavín, nú eða sem ég endaði á enda oftast óbrigðult hérna "Spritz" en þegar það loksins kom var ekkert freyðandi við það, það var flatara en Danmörk og gott ef það var ekki aðeins notað bara, alla vega fannst mér rörið vera farið að mýkjast verulega og þeir hafa væntanlega sett Aperol spritz og dass af flötu vanti, hent útí notaðri appelsínu og já látið þetta standa góðan tíma á borði miðað við bragðið alla vega.  Ég held mér við Cherry kók héðan í frá.


Covid hér og þar

Þegar ég kom á flugvöllin hérna í Búddapest þá var eins og Covid væri eitthvað sem enginn hefði heyrt um alla vega var enginn með grímu nema svona útlendingar eins og við og engar sprittstöðvar sjáanlegar.  Við héldum áfram til Miscolc sem við ætluðum að gista í 2 vikur hjá tengdasyni mínum.  Hann mætti í próf daginn eftir og var neikvæður og fór svo að vinna daginn eftir.  Portúgalskur Covidspreðari var á skrifstofunni hans og þegar tengdasonur benti honum á augljós einkenni Covid sagði hann að þar sem hann fór í sund um helgina hefði hann væntanlega náð sér í heiðarlegt kvef. (mjög líklegt í 39 stiga hita).  Tengdasonurinn var með grímu þann daginn á skrifstofunni einn manna.  Daginn eftir var hann sendur í próf og síðan heim og fékk hann einhver flensueinkenni í kjölfarið.  Hann reyndist neikvæður en allir á hans skrifstofu voru með covid.  Ætlar svo einhver að segja að grímurnar geri ekkert gagn.

Nú í kjölfarið varð ég veik og taldi mig í það minnsta með Covid og til vara massíva lungnabólgu.  Ég fékk 20 stk. pcr prófa og reyndist neikvæð að Covid og bíð ég nú svara með lungnabólguna.  Ég á það reyndar til að vera með dass af dramatík, hef farið 3svar á spítala með gervihjartaáfall og þegar gömul íþróttameiðsl tóku sig upp í hné og ég kíkti á lækni þá gerði hann smá grín að mér og sagðist þurfa að setja mig í gifsbuxur og spengja á mér hálsinn sem mér þótti eðlilegt miðað við verki. Hann sendi mig þó "bara" í aftöppun á vökva úr hné. Ég er samt töffari að eðlisfari en er haldin þessari hörmungarhyggju og byggist hún því miður á reynslu minni

Nú hérna í búðunum morar allt í svæðum með brauðum og kleinuhringjum sem fólk veður í með skítuga putta nota ekki tangir einu sinni og hérna í Miscolc hef ég séð einn með grímu utan okkur fjölskylduna.

Meira um meint veikindi síðar


Miskolc í Ungverjalandi

Við komum hingað til Miskolc frá Sardeníu úr 37 stiga hita í svalann og 26 stiga hita.  Miskolc er rosalega skemmtileg borg um 300 km frá Búddapest með um 150 þús íbúa. Miskolc er rétt við landamæri Slóvakíu og ekki langt frá landamærum Úkraníu.  Þessi bær er líflegur og erum við í miðbænum með rennandi á hérna á bak við húsið og fullt af börum og veitingastöðum.  Íbúðin er mjög fín og hérna er notalegt að vera þar sem ekki er þessi rosalegi raki og hiti eins og við upplifðum á Sardeníu. 

Hérna er allt öðruvísi andrúmsloft en ég hef upplifað áður, ekki eins hert og stíft eins og í Slóvakíu, fleiri tala ensku og fólk virðist ekki vera með þetta samanbitna yfirbragð og Slóvakar hafa.  Hérna er líka hægt að fá annað en bara bjór, reyndar smá sýrubragð af rauðvíninu en Prosecco og spritz fást með matnum ef maður vill ekki halda sig við vatnið bara. Það eru örugglega 100 tegundir af vatni með bragði.

Hérna eru mjög skemmtilegir matsölustaðir og tapasbarir með besta tapas sem ég hef smakkað verð ég að segja.  Gúllassúpan kemur svo sem ekki á óvart en það er greinilega mikil uppsveifla í framboði matar hjá "Miskolcum".

Ég varð hissa á því hversu mikill munur er á Slóvökum sem eru hérna rétt hjá og Ungverjum þeim sem hér í þessum bæ búa.  Meðan slóvakar eru hávaxnir og grannir eru Ungverjar meira líkir bandaríkjamönnum í vexti og flestir mjög vel í holdum.  Allt í góðu lagi með það, það sem vekur athygli mína er þó að hversu lausir þeir eru við að vera með þessa líkamsmeðvitund og við höfyn og klæða sig bara eftir tískunni hérna, skítt með vöxtinn. Tískan er jú heill kapítuli útaf fyrir sig og dásamlegt að sjá hversu misjafnt fólk er eftir löndum. Hérna er í tísku að vera í stuttbuxum og var H&M morandi í stuttbuxum í öllum stærðum og er magabolur notaður við stuttbuxurnar og alveg sama hvernig vaxtarlagið er. Svo er bakið skreytt með litlum sætum bakpoka og jafnvel með Frozenmunstri. Kemur mér svo skakt fyrir sjónir þar sem við hugsum öðruvísi og ég sem er nú ekkert fis mundi aldrei voga mér að fara í magabol og henda litlum sætum bakpoka á bakið sem væri eins og krækiber í helvíti. 

Gaman að þessu!

 

 


Fleiri sögur frá Sardeníu

Ég elska Sardeníu með sínar fallegu strendur, sérviskulegt fólkið og frábæra matinn, en þeir eru mikið í fersku sjávarfangi og nýta flest allt úr sjónum. Chia ströndin er eins og hvítur flórsykur svo fín og falleg og sjórinn blágrænn og svo er það bleika ströndin "Spiagga di Rosa" sem er bleik vegna mikils rauðs kórals í kringum hana. Þeir gera mikið af skartgripum úr þessum kórall og eru þeir mjög eftirsóttir af ferðamönnum.

Sarrock er bær sem er skammt frá höfuðborginni Cagliari og þaðan kemur tengdasonur minn, þar er eða var dásamlega falleg strönd en nú er búið að setja þar olíuhreinsunarstöð sem er eins og skrímsli við fallegan grænbláan sjóinn.  Flestir bæjarbúar vinna í stöðinni en þar sem Covid hefur lamað atvinnulífið þar þá eru margir með hálft starf og því farnir að mennta sig í öðru eða farnir til annarra landa í vinnu.

Þá víkur sögunni að klipparanum sem þurfti að ná sér í aðra menntun til að halda tekjum vegna skorts á vinnu í olíuhreinsunarstöðinni og er hann með heimaþjónustu. Kemur heim til þín á hjóli og bauðst hann til að koma til okkar í Pula.  Hann mætti á hjóli með 20 metra langa snúru til að setja rakvélina í samband og klippa svo "liðið" í garðinum.  Það þurfti að klippa einn vin tengdasonarins líka.  Sá mætti á því stærsta landbúnaðartæki sem ég hef séð svona nokkur tonn með stóran bjór í hendinni undir stýri og til í klippingu. Skildi "farartækið" eftir á götunni og blokkaði hana nánast alveg og svo hófst klipping.  Klipparinn náði meira að segja að klippa barnabörnin mín tvö án teljandi vandræða. Þurfti reyndar að koma tvisvar til að klára og hafði þá vinurinn (á farartækinu netta) á orði bíddu ertu enn í vatninu 2 daga í röð? Það telst til frétta greinilega enda yfir 30 stiga hiti og maðurinn bara í vatni.  Allir voru vel klipptir og sáttir og síðan hjólaði hann bara til baka með sína 20 metra snúru og skærin í vasanum og klyfjaður hárdóti í svuntunni sinni. Ekkert eðlilegra.

2f778f895226f9116e17a01bd3b5a75fdownload


Sögur frá Sardeníu

Hérna í ferðamannabænum Pula á suður Sardeníu er ekki að sjá að Covid geysi um heiminn. Fólk knúsar hægri vinstri. Hérna úir og grúir af ferðamönnum og allir keppast um að ná sér í sól og menningu og góðan mat og eina sem minnir á heimsfaraldurinn er að grímuskylda er í búðum og inni á matsölustöðum, en annað ekki.  Engin tveggja metra regla og er allt stappað hérna maður við mann og allir glaðir og hressir að hlusta á tónleika á torginu og börnin dansandi.  Eins og heimsfaraldur sé ekki til í orðabókinni.  Troðfullt á öllum matsölustöðum og þarf helst að panta borð með viku fyrirvara.  Engar sprittstöðvar í flugstöðinni hvað þá meira en allir hitamældir reyndar. Gott að geta gleymt sér aðeins og að lífið sé eins og það var hér áður.

Tengdamamma dóttur minnar er yndislega góð kona, skemmtileg með afbrigðum, hún er hálfpartinn móðir hálfs bæjarins þar sem hún er ákveðin og fer í málin þegar henni þykir það þurfa, svona sjálfskipaður talsmaður allra. Fyrir klukkan 7 er hún búin að fara og þrífa hjá systur mömmu sinnar og hjá mömmu sinni, versla fyrir eldra fólk og kaupa í matinn, tekur hún þá gjarnan með sér börn frænku sinnar í leiðinni. Hún er mjög trúuð á svona yfirnáttúrulega hluti og hef ég séð hana hella blessuðu vatni yfir barnabörnin sín og nuddað þau með olíu og hún sýnir engum myndir af barnabörnunum vegna hræðslu við að lögð verði á þau álög.  Ég hef einmitt skrifað um það áður að það þykir mikið gæfumerki að snerta ung börn og eru allir káfandi á börnunum hérna, komandi við hendur og fætur. Við sátum dag einn við borð úti á verönd nokkuð stór hópur og birtist hún með vatnsflöskuna sína heilögu og skvetti á son sinn ekki einu sinni heldur tvisvar. Hann stökk upp rennblautur og spurði hvað hún væri að spá og sagðist hún þá hafa óvart opnað sódavatn og það bara svona rétt við bakið á honum. Ég hafði hins vegar horft á hana skvetta á hann vísvitandi.  Ég hélt ég mundi deyja úr hlátri af svipnum á honum og því hversu forhert hún væri. Frænkan sem var svo óheppin að sitja hjá honum lenti í því líka að vera blessuð yfir allan kjólinn sinn. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband