5.11.2011 | 18:06
Róm með mínum augum
Róm er sú borg sem allir þurfa að sjá einu sinni á ævinni eða þannig leið mér alla vega, þar til ég heimsótti Rómarborg hérna ekki alls fyrir löngu. Ég fór ásamt góðum vinahópi mínum og þegar við komum til Rómar er eins og maður falli í einskonar trans. Það er allt svo menningarlegt og allt með svo mikilli sögu á bakvið sig að já eiginlega fellur maður í stafi.
Ég verð þó að viðurkenna eftir að hafa haft mjög miklar væntingar til heimsóknarinnar, þá varð ég fyrir vonbrigðum með sumt. Eins og óþrifin í borginni, sem var fram úr hófi subbuleg á þessum tíma alla vega, en ég sá á 6 dögum 2 rottur inní miðri borginni og voru þær á stærð við ketti. Það setur að manni óhug að mæta svoleiðis kvikindum. Við vorum þó á 5 stjörnu hóteli (rotturnar vissu það greinilega ekki) en auðvitað getur maður alveg áttað sig á því að í stórborg er mikið rusl, en þessi siður að henda svörtum plastpokum út við gangstétt hlýtur að bjóða uppá rottur og fleiri ófögnuð. Minnti mig eiginlega bara nokkuð á Napólí. Svo fannst mér líka sorglegt hvað allt var útkrotað öll grindverk í kringum þessi fallegu minnismerki og fallegu gosbrunna og já allar þessar minjar, voru ataðar í veggjakroti.
En ég upplifði nú líka fegurðina í Róm, eins og Spænsku tröppurnar þær eru bara dásamlega fallegar allar fjólubláar og ævintýralegar, einmitt í maí þegar ég var stödd þarna, þegar allt var í blóma. Göturnar fyrir neðan spænsku tröppurnar eru einstaklega skemmtilegar og gaman að setjast á kaffihúsin og fá sér hvítvínsglas innan um bílana sem keyrðu alveg við bakið á manni, enda kaffihúsin með stólum alveg útað bílastæðunum. Mjög sjarmerandi fannst mér og svo vinalegt allt þar í kring, þó mikið sé um ferðamenn á þessum stöðum, er samt svo heimilislegt á þessum litlu kaffihúsum og veitingastöðum.
Við skoðum allt þetta helsta í Róm, eins og Colosseum, rústir og eiginlega allt annað markvert, nema Katakomburnar, þangað fær mig enginn niður, enda ekki nein fegurð þar að sjá, og bara ágætt að lesa um þær. Trevi gosbrunnurinn er ævintýralega flottur.
Vatikanið er náttúrulega ævintýri útaf fyrir sig og fórum við í gegnum það hópurinn, með íslenskum fararstjóra, en hún var bara svo samviskusöm og mjög svo fróð og skemmtileg, að hún sagði okkur frá hverju einasta teppi sem eru þarna í tugatali í röðum mjög falleg, en eftir svona 100 stk. já þá er bara komið nóg. Við nenntum því nú ekki alveg.
Við sáum okkur leik á borði, þar sem við sáum japanskan hóp ferðamanna, með einhverjum stressuðum leiðsögumanni sem skundaði í gegnum teppin og ákváðum að þennan vildum við elta.
Rétt náðum að kíkja í Sixtínsku kapelluna áðun en við stóðum allt í einu útá plani fyri utan Vatikanið, en við höfðum nú keypt ferð gegnum Péturskirkju, sem flestir aðrir í hópnum fóru að skoða, en á þessum tíma var verið að lagfæra kirkjuna og sillansar upp um allt, enda átti páfinn að messa daginn eftir svo allt var í vörðum og miklar varúðarráðstafanir allstaðar vegna messunar.
Ég var alveg ánægð að setjast bara niður og fá mér hvítvín, meðan hópurinn skoðaði stillansana í Péturskirkjunni, enda ein kirkja á Ítalíu alveg nóg og manni finnst maður hafa séð þær allar, það finnst mér alla vega. Finnst reyndar kirkjan í Milanó á Duomo alveg jafn falleg, þó ekki sé alveg að marka mig, þar sem ég fór ekki inní Péturskirkjuna sjálfa.
Ég á eftir að fara aftur til Rómar þar er eitt sem er öruggt.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.10.2011 | 22:30
Hvatvísin getur orðið manni að falli
Ég hef oft áður sagt að ég sé smá fljótfær, hvatvís og óþolinmóð brussa og þetta getur haft mis slæmar afleiðingar í för með sér.
Ég fékk að kynnast því eitt sinn, þegar ég í fljótfærni hafði smurt drjúgum slatta af kremi í andlitið á mér án þess að kanna nákvæmlega um hvað krem var að ræða.
En þannig var að við vinnufélagarnir vorum að fara út að borða á einn svona frekar fancy stað eftir vinnu og ákváðum við vinkonurnar að hittast áður heima hjá einni og taka okkur til eftir vinnudaginn og fríska aðeins uppá útlitið og fá okkur smá rauðvín áður en haldið skyldi út að borða.
Ég er með þurra húð og var eitthvað óvenju slæm þetta kvöld svo ég fann eitthvað krem inná á baðherbergi og fékk mér slatta af því, til að minnka þurrkin og sagði við vinkonu mína þegar ég kom fram af baðherberginu. "Fékk mér smá krem sem ég fann þarna var það ekki í lagi?" jú jú auðvitað var það í lagi.
Við héldum svo á fyrirhugaðan veitingastað, þar sem hinir vinnufélagarnir voru þegar komnir og biðu okkar á rökkvuðum barnum. Við sátum þar góðan klukkutíma og trítluðum þá inní vel upplýstan salinn, þar sem hópur danskra karla sat á næsta borði við okkur og fannst mér þeir eitthvað vera að pískra og glápa á mig.
Noh hugsaði ég með mér drjúg með mig. Mér hefur nú heldur betur tekist upp með útlitið í kvöld og svo brosti ég mjög blíðlega til þeirra.
Þegar ég svo tók matseðilinn frá andlitinu, æpti vinkona mín upp og sagði: "hvaða krem notaðirðu í andlitið?" jú þetta glæra frá Guerlain sagði ég. Já en það er brúnkukrem sagði hún og allt borðið mitt lá í hláturskrampa. Mér var ekki skemmt og tók servéttuna og setti fyrir andlitið og labbaði fram á snyrtingu eins og múslimakona, þannig að rétt sást í augun.
Ég var eins og krímugur krakki í framan, illa skítug og ekki einu sinni jafnsvört heldur alveg skellótt og mislit. Ég safnaði saman dekkstu meiktegundum stelpnanna, smurði þeim á mig og leit nú út eins og Wesley Snipes ljóshærð og svört í andlitinu.
Djöfuls dónar eru þessir Danir annars......
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.10.2011 | 17:37
Ekki sama Jón og séra Þingmaður!!
Hjálpi mér allir heilagir hvað fólk getur verið aumkunarvert yfir frægðarljóma þekktra manna.
Ég var stödd í Hagkaup Garðabæ í dag, þar sem boðið var uppá frábæra þjónustu í að mæla kólestról og blóðþrýsting. Ég beið heillengi í röð, meðan sú sem mældi kólestrólið var að ræða við mann á besta aldri og gaf honum alveg mjög rúman tíma og skýrði niðurstöðurnar vel út fyrir honum (sem mér fannst frábært).
Nú var röðin komin að mér og ég settist í stólinn hjá konunni sem var búin að afgreiða mannin og þá kemur þingkona labbandi inn og hin kólestrólmælandi kona sem ég sat hjá nánast henti mér útaf stólnum, því henni var svo í mun að fá þingkonuna í stólinn og mæla kólestrólið hennar. Eflaust miklu meira spennandi kólestról þar á ferð, en í svona meðalmanneskju eins og ég er svona alveg óþekktur sótsvartur almenningur.
Þetta var nú frekar pínlegt og vesalings þingkonan spurði hvort hún væri nokkuð að troðast framfyrir okkur "hitt fólkið" nei nei við vorum einskis virði og gátum bara beðið. Hjúkkan sagði mér að hinkra bara meðan hún tæki þingkonuna fram fyrir mig, en hún var sko búin að stinga mig og henti mér sem sagt nánast í burtu með nálina í fingrinum.
Ég hafði nú beðið slatta tíma eftir að ég væri afgreidd, svo ég beið talsverða stund í viðbót og sá að hún ætlaði að fremja aðgerð á þingkonunni án þess að virða mig viðlits, alveg rauð í framan af spenningi yfir þessari heppni sinni, svo ég labbaði nú bara í burtu óviss um hvort ég sé dauðvona af háu kólestróli, eða ekki. Þingkonan fékk góða meðhöndlun, en ég dauðvorkenndi henni, sá alveg að henni var ekkert um þennan sleikjuhátt gefið.
Fegin er ég að hafa ekki þessa stjörnudýrkun meðfædda. Hvað mundi gerast hjá svona fólki ef Brad Pitt kæmi nú labbandi!!!Hjálp krullast upp við tilhugsunina og fæ kjánahroll fyrir allan peninginn.
23.10.2011 | 12:16
Hætturnar leynast víða
Ég fór í Ikea í gær, sem er nú ekki í frásögur fæarandi, enda staðurinn annálaður helgarstaður okkar Íslendinga.
Það var jólastemming í loftinu þar í gær og jólailmur og troðfullt af fólki og greinilegt að allir eru komnir í jólagírinn snemma í ár.
Þar sem ég ýti á undan mér níðþungri kerrunni fullri af "nauðsynjum" til jólanna, þá finn ég allt í einu hvar buxurnar toguðust niður um mig. Ég hafði fest þær í kerruhjólinu og þær toguðust niður um mig.
Já ég stóð þarna og gat ekki hreyft mig innan um mannfjöldann og ekki var hjálp að fá hjá vinkonu minni sem emjaði úr hlátri yfir þessum óförum mínum. Mér fannst þetta nú ekki eins fyndið að vera föst við 110 kg þunga kerru og sá fram á að þurfa að láta klippa mig frá henni.
En ég gafst ekki upp og hoppaði á annarri löppinni inní næsta eldhús og hóf að losa mig og það tókst að lokum með því að rífa þær af við hné eða svo. Næst fer ég með hjólaband um ökklana og jafnvel með skæri í vasa.
Við ákváðum svo að fara að fá okkur að borða enda einn af fáum matsölustöðum sem venjulegt fólk hefur orðið efni á að heimsækja.
Það eru alltaf útlendingar að afgreiða í matsölunni sem er í góðu lagi min vegna, en verra að það er ekki alltaf skilningur á því, hvað verið er að biðja um.
Ég bað um 10 kjötbollur og kjúkling. Konan sagði eitthvað óskiljanlegt og ég hváði. Hún endurtók: "vittu sósogsuttu?" já takk sagði ég. Svo skellti hún einhverju gumsi á disk og ýtti að mér. Ég ýtti því til baka og sagðist vilja kjúkling ekki þetta.
Hún ýtti disknum staðfastlega til baka og sagði: "þú segja kjúklingaréttur og þú BORÐA kjúklingaréttur" ok sagði ég smá hrædd og spurði vinkonu mína ætli ég megi fá mér hvítvín með "kjúklingaréttur"? Þetta var eiginlega bara viðbjóður þessi kjúklingaréttur og kús kússið. Ég hata kúss kúss.
Næst!! muna að panta bara kjötbollur "sósogsuttu"
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.10.2011 | 14:27
Hin ýmsu "skeið" hryðja
Sonur minn hefur farið í gegnum mörg "skeið" í gegnum tíðina og ég hef nú verið mismundandi hrifin, eða frekara sagt ekki hrifin.
Símastúlkan í fyrirtækinu sem ég vann hjá byrjaði snemma að "skrína" símtölin til mín frá honum, eftir því hvers eðlis þau voru en þegar hann fór í gegnum þvottaskeiðið, þá talaði hún bara við hann sjálf og þegar hann hringdi og sagði henni að hann ætlaði að skella í vél, þá sagði hún já hvítt sér og svart sér, svo ég lokaði allt mitt óhreinatau inní skáp, því ég vildi ekki sitja uppi með ponsulítil soðin föt. Þetta skeið stóð mjög stutt yfir.
Þá var það kertagerðistímabilið! Hann tók öll fallegu kertin mín sem ég hafði greitt fúlgu fjár fyrir í Tekk húsinu og bræddi þau saman og gerði miklu "flottari" kerti að hans mati (ég var ekki sammála).
Svo fóru símtölin að breytast, símastúlkan sagði venjulega: "Gulla mín, vertu alveg róleg, en sonur þinn var að hringja og það er allt í lagi með hann (þannig lagað séð) en hann skaut vin sinn í höndina með boga, eða hann festi höndina í hjóli og heldur að hann sé handleggsbrotinn.....keyrðu samt varlega heim". Það gerði ég hins vegar ekki.
Nú fór sá alskemmtileg tími í hönd að hann fór að breyta allskonar sprengjum (gera þær öflugri) eins og við hin notum flest óbreyttar á gamlárskvöld. Ég rak hann frá húsinu með þetta, reyndi alveg að banna honum að gera þetta,(hann hlýddi ekki) en hann fór upp að elliheimilinu í grenndinni í þeirri von að þau heyrðu síður hávaðann (hann var síðan látinn lesa fyrir gamla fólkið til að bæta fyrir skemmdir sem hann olli á húsinu).
Hann plataði ömmu sína til að kaupa bók fyrir sig í útlöndum og skrifaði nafnið á miða og sagði henni að bókin að héti cookbook, en sagði ekki að hún héti Anarkist cookbook. Þá hafði hann verið í kokkastuði í nokkra mánuði og okkur grunaði ekki neitt. Nú fór að færast fjör í símamálin mín: "Gulla mín, held þú ættir að skreppa heim" byrjaði símastúlkan....sonurinn var að spyrja hvað þýðir: "how to make a carbomb?" eða hvað þýðir: "how to blow up half a nation?" Ég keyrði heim sem óð væri, gargaði á hann, en hann spurði mig sakleysislega hvort ég vildi ekki að hann vissi hvað hlutirnir þýddu áður en hann hæfist handa við að gera nokkuð. Bókin hvarf svo með dularfullum hætti og hefur ekkert til hennar spurst síðar.
17.10.2011 | 16:02
Raunir ferðamannsins....
Ég er oft á flandrinu milli Íslands og Ítalíu og þar sem ekki er flogið beint þangað, nema yfir sumartímann þá þarf ég oftast að millilenda einhversstaðar og taka vél áfram til Mílanó.
Ég var að fljúga út sl.vor með einu lággjaldaflugfélaginu til Stansted í London, og var með 21.5 kg. en leyfileg þyngd er 20 kg, en þar sem handfarangurinn minn var ekki nema brot af því sem leyfilegt er, vonaðist ég til að sleppa við yfirvigt, en NEI! Það jafnast ekki út!
Þar sem ég fann pirringinn hjá stúlkunni við innritunarborðið vaxa við þessa fyrirspurn mína, þá ákvað ég bara að flytja þetta 1 og hálfa kg. yfir í handfarangurinn, en já það má ekki taka krem og ég var með slatta af sólarvörn sem vógu alveg slatta, en tók svo á endanum 1 hælaskó, hinn var fullur af kremum og svo tók ég þunga lopapeysu dótturinnar sem hafði gleymst á Íslandi og hélt á þessu í gegnum tollinn, og auðvitað var ég stoppuð. Af hverju ertu bara með 1 stk.hælaskó spurði tollarinn? "nú þessi skór bjargaði mér frá því að greiða yfirvigt svo ég tók hann bara með í handfarangrinum" svaraði ég (smá hrædd, gæti skór flokkast sem morðvopn?, ég mundi ekki afbera að missa þennan skó)
Ok slapp í gegn á Keflavík en Gatwik...já þar gegndi öðru máli. Ég þurfti að umraða þar, því þú ferð ekki með nema eina tösku í gegn og hún er merkt með RAUÐU og reyndar ert þú líka rauðmerkt sjálf á "boardingpassanum" og það standa verðir sem fylgja því eftir að þú sért með 1 tösku og ekkert annað.
En þú mátt vera í fötum, sem og ég gerð, en það var frekar kalt á Íslandi, þannig að ég var í peysu og kápu, en nú þurfti ég að fara í lopapeysuna sem var sem smurð á mig, þar sem dóttirin er nokkrum (lesist mörgum) kg. léttari en ég, en ég hafði líka pakkað hælaskónum niður, því mér finnst ekkert smart að ferðast með sundrað skópar. (sem gætu einnig flokkast undir morðvopn). Ég þurfti í staðinn að taka jakka dótturinnar (sem smellpassaði EKKI) Ég gekk í gegnum tollinn eins og útbólginn Michelinkarl í frauðplasti og það lak af mér sviti og ég hafði þurft að troða veskinu í litlu handfarangurstöskuna (only one luggage) karlinn með röntgenaugun sá sem fylgdist með rauðmerkta fólkinu sem sagt "okkur lágfargjaldaliðinu".
Það var því frekar sveitt, örlítið pirruð kona sem tróð sér leið gegnum þrönga ganga flugvélarinnar eldrauð í framan. Reif uppúr vösum blöð og bók (sem rauðmiðaeftirlitsgaurinn hafði sagt mér að henda) ég hlýddi ekki. Ég fyllti svo 2 box yfir farþegasætunum, með peysum og jökkum og svona allskonar dóti sem ég hreinsaði af mér. Úff hvað mér var heitt, en pantaði mér samloku og hvítvín, og las grein í nýkeyptu blaði sem fjallaði um að ákveðið lággjaldaflugfélag, hvers ég var að ferðast með, hefðu orðið uppvísir að því að hirða heilan gám af útrunnum samlokum og nota um borð. Úff hvað mér varð óglatt!!!!!!!
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 16:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.10.2011 | 15:28
Hin magnaða Mílanó og íbúðarmálin þar.
Ég á dóttur sem flutti til Mílanó fyrir 4 árum til náms og hefur hún nú loksins fengið fasta íbúð, með smá "afarkostum" sem sé að eigandinn er með aðgang að einu herberginu, með konu og 2 börn, þegar hann er í Mílanó, en hann býr í Bern í Sviss og kemur reglulega til Ítalíu.
Fram að því að hún fékk þessa íbúð, voru íbúðarmálin hennar mjög skrautleg. Fyrsta íbúðin var þannig að hún var morandi í "bjöllum" hélt stelpan mín, mér sýndist þetta vera hinir mjög svo ekki eftirsóttu sambýlingar "kakkalakkar" en hún flutti þaðan eftir mjög stutta vist.
Þar sem þetta var árið 2007 gat hún fengið fína íbúð fyrir EUR 1000.- sem voru ISK 90.000.- í versta falli, en fór í 194 þús. árið 2008, en LÍN var ekki endilega að fylgja því eftir þ.e. raunveruleikanum, þannig að nú var bara að finna íbúð á 500 Evrur í hæsta lagi.
Dóttirin lá á netinu, fyrir hvert haustið að finna sér mannsæmandi herbergi/stúdíóíbúð, en sá háttur er á Ítalíu að þú þarft að fara gegnum skrifstofu og borga þeim eitt leiguverð fyrir það, og tryggingu og þess háttar, en þá ertu líka nokkuð viss um góða íbúð. Þetta er ekki fýsilegur kostur fyrir námsmenn, alla vega ekki eftir hrun, þannig að þá er best að finna sér íbúð sjálfur.
Svo hún auglýsti! Vantar litla íbúð eða herbergi með aðgang að eldhúsi. Er námsmaður.
Flestir vildu mynd af henni! Mynd?? Af hverju vilja þeir mynd spurði hún sig? En svo fóru málin að skýrast svona smátt og smátt. Hún fann eina íbúð, sem henni leist vel á, enda ítalskur námsmaður sem auglýsti og staðsettningin rétt við skólann, hann sagðist vera með tveggja herbergja íbúð.
Hún fór vongóð út eftir jólin, með fasta búsetu í fyrsta sinn áður en hún kæmi á staðinn. Þegar hún svo mætti í íbúðina, voru 2 herbergi, þ.e. 1 herbergi og 1 stofa og 1 rúm. Hún átti sem sagt að deila rúmi með honum. Hvað!! Er eitthvað að því spurði hann??? Já þess vegna vildi hann mynd sem sagt. þar sem hún stóð fyrir utan húsið með ferðatöskur um mitt kvöld hringdi hún í mömmu sína, sem skiptir sér af öllu og googlaði gaurinn nánar og jú jú hann virtist eðlilegur, en fann þó mynd af honum þar sem hann kallaði sig "guy in fridge" já sem sagt ísskápamaðurinn...(hann ætlaði þó ekki að gista í ísskápnum)
Nú var "ungamamman" með plan B fyrir hana (vegna reynslu okkar á að hlutirnir voru sjaldnast eins og sagt var frá í auglýsingum) sem var bed and brekfast. Það húsnæði var ekki langt frá "ísskápsgaurnum" og þau hafði ég googlað og sá að þau voru kínversk og þar af leiðandi ekki í ítölsku mafíunni, heldur ekki ísskápsfólk, svo hún fór þangað um mitt kvöld.
En þegar hjónin fóru í vinnuna klukkan 8 um morguninn,þá átti hún að fara út líka og mátti ekki koma heim fyrr en 8 um kvöldið, þegar þau voru búin að vinna.
Dóttirin rak upp stór augu og sagði ég þarf að fara í sturtu og svona. Þá var amman fengin úr næsta húsi til að passa hana og sitja yfir meðan morgunmaturinn sem auglýstur hafði verið var borinn fram (kornflex og mjólk) og svo varð hún að fara út á götuna þarna í febrúar og hanga á netkaffi í leit að íbúð til klukkan 8 um kvöldið. Fólkið virtist hafa gengið úr rúmi fyrir hana, því þau gistu í stofunni, samt var þetta var auglýst á viðurkenndum íbúðarvef á Ítalíu. Það eru greinilega engar sérstakar kröfur gerðar til leigusala þarna.
Þetta leiddi til þess að hún tók fyrstu bestu íbúð sem hún fann staðsetta í Navigli sem er góð staðsetning og gat hún labbað í skólann og stutt í skemmtilegt götulíf. Sá galli var hins vegar á gjöf Njarðar að þessi íbúð hafði 2 herbergi. Hún leigði annað og einhver lúðraspilandi lögfræðingur hitt og saman voru þau með eldhús og bað.
Allt í lagi að deila íbúð saman, en það var ekki hægt að læsa herbergjunum, því þau voru bara með rimlagardínum til að loka sig af.
Þetta hefði eflaust gengið, ef gaurinn hefði ekki byrjað alla morgna á því að gera eftirfarandi:
Brjóta 5 valhnetur á eldhúsborðinu með kaffikönnu og hvílíkum látum.
Tala við sjónvarpið og fólkið sem var á skjánum og jafnvel reifst við sjónvarpsfólkið af fullri alvöru.
Æfa nokkra (MARGA) tóna (aldrei laglínu) á lúðurinn. Lúðraði næstum gat á hljóðhimnuna á mér.
Syngja sama lagið 3svar áður en hann fór í vinnu, (held að hann hafi verið með tourette)
Ég var þarna í þessari íbúð í viku, og var alveg úrvinda eftir vikuna. Því hann hvíldist ekki heldur um helgar heldur vaknaði fyrr en aðra daga og spilaði allan daginn á lúðurinn. Svo ætlaði ég alltaf að fara að svara honum, þegar hann öskraði á sjónvarpið. Hélt að hann hefði slasast eða eitthvað þvíumlíkt, en dóttirin var orðin vön þessu og stöðvaði mig.
Endanlega gafst dóttir mín að lokum upp á þessu húsnæði, þegar hann kvartaði undan hávaða frá lyklaborðinu á kvöldin þegar hún var að reyna að læra og tók því uppá því að hækka sjónvarpið í botn og já eiginlega fældi hana þannig í burtu.
Þá var það næsta íbúð, sem hún fann hjá skólafélugum sínum.
Þar voru nokkrir strákar ítalskir, litlir mömmudrengir sem vantaði greinilega stelpu til að taka til (héldu þeir), en dóttir mín býr ekki yfir þörf fyrir að gera hreint í kringum önnur ungmenni en sjálfa sig, svo hún hélt sig mikið með íslensku stelpunum og gisti þar á gólfi frekar en að vera heima hjá sér. En þær voru á sama róli og hún með mismunandi erfiðum sambýlingum.
Sambýlingarnir hennar voru meira að skemmta sér en læra, þannig að það var party non stop heima við. Þegar hún svo kom heim til að sækja sér eitthvað fyrir skólann, var herbergið hennar fullt af fólki að hvíla sig. Hún uppgötvaði fljótlega að ekki var hægt að læsa herberginu að innan...heldur bara að utan. Ekki gott þegar menn eru ekki tilbúnir að vera með í partýinu stanslausa.
Svo nú eru málin leyst og þykir ekki mikið tiltökumál að fá 4 manna fjölskyldu every now and then inná sig í nokkra daga til viku.
Hún telst bara heppin.
9.10.2011 | 11:57
Heimsókn í banka með "Hryðja"
Ég var ekki með börnin mín í pössun þegar þau voru lítil, nema hálfan daginn, þar sem frekar erfitt var að fá pössun fyrir "Skaðræðið" hann hafði verið rekin frá dagmömmu (þessi engill) eftir 4 daga, en ég viðurkenni að hann var örlítið fyrirferðamikill.
Ég var því oft í allskonar útréttingum með þau með mér, þegar ég var laus úr vinnunni. Ég fór dag einn í banka um mánaðarmót, en þetta var fyrir tíma þess sem allt var læst inni, gjaldkerar og tölvur og svoleiðis, meira svona allt uppá borðinu. (Vel fyrir hrun og svona)
Þar sem ég stend í röð, heyri ég allt í einu eintóna hljóð eins og tölvukerfið væri lasið, eiginlega eins og ýlfur, eða bíb hljóð. Kemur þá bankastjórinn fram og talar við gjaldkerana og snýr sér síðan að mér og spurði hvort það gæti verið að drengurinn minn hefði farið inn þar sem höfuðtölvan var geymd.
Nei sagði ég ósjálfrátt (fyrstu viðbrögð móður) var þegar þarna var komið sögu, ekki tilbúin að játa allt uppá hann (það kom síðar) enda var hann þarna bara uþb. 4 ára.
Hann kom hins vegar glaðbeittur og játaði brotið og sagðist hafa "snúð lyklinum" á stóru tölvunni niðri. Hann hafði sem sagt farið með einbeittan brotavilja og fiktað í höfuðtölvunni og slökkti í leiðinni á henni.
Ekki var hægt að afgreiða um sinn á þessum einstaklega skemmtilega degi um mánaðarmót. Já ég endurtek mánaðarmót sem í þá daga þýddi örtröð í banka, enda engin netviðskipti komin og maður þurfti bara að fara til gjaldkera með alla greiðsluseðlaog bíða í röð.
Ég sá mig knúna til að yfirgefa svæðið með "hryðja" litla og taka út öll mín viðskipti úr meintum banka.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.10.2011 | 22:42
Stóra "dvergamálið"
Ég hef oft lent í mjög vandræðalegum uppákomum með son minn hér á árum áður, enda er hann kannski með smá dass af fljótfærni úr móðurfjölskyldunni, þó ég sé nú búin að gera samkomulag við fyrrverandi maka um að allt sem aflaga fer hjá börnunum okkar sé runnið undan rótum föðurfjölskyldunnar, það getur verið gott að eiga svona "blóraböggul" til að nota í lífsbaráttunni.
Ég las oftast bókina um dverginn Daða fyrir börnin mín, áður en farið var að sofa, en Daði var þeim hæfileikum gæddur að geta látið sig hverfa, þegar hann lenti í vandræðum, þá skellti hann yfir sig húfunni sinni sem gerði hann ósýnilegan.
Maður áttar sig ekki alltaf á því hvernig barnshugurinn virkar, ekki átti ég von á því að hann héldi að allir dvergar væru eins og Daði dvergur.
Þannig var að ég var að bíða í langri röð á pósthúsi og með "skaðræðið" með mér á hjóli með hjálpardekkjum, en hann var snemma farin að hjóla sjálfur. Dóttirin var í vagni fyrir utan stillt að vanda.
Þar sem ég stend í röðinni og bíð meðan "skaðræðið" mokaði upp úr eins og 2 blómabeðum, og færði mold frá einu beði í annað og megnið fór á gólifð. Ég tek það fram að ég reyndi að skamma hann og tala blíðlega og hóta og já já allt sem mér datt í hug, en ég var í mjög langri röð og búin að bíða með hitt barnið í vagni fyrir utan og það hvarflaði ekki að mér að gefast upp.(þá hefði ég aldrei framkvæmt neitt)
Nú kemur mjög lítill maður inn á pósthúsið og stendur í annarri röð og nú segir skaðræðið hátt og snjallt: "ertu alvöru dvergur?" litli maðurinn svaraði honum engu, enda bara að sinna sínum viðskiptum. Skaðræðið sá þá þann kost vænstan að komast að því með því að láta hann bara lenda í vandræðum, sem og hann gerði. Hann hjólaði á dverginn aftur og aftur, sem hvarf náttúrulega ekki.
Litli maðurinn varð frekar pirraður, ég tek það fram að þegar þarna var komið sögu, eftir að hann hafði í millitíðinni hent blautum frímerkjasvömpum í afgreiðslustúlkurnar, lét ég eins og hann væri ekki á mínum vegum. Sá alveg á fólkinu hugsa: Já já svona krakki með sænskt uppeldi, mamman ræður bara ekkert við hann (hef alveg hugsað svona sjálf).
Þar sem dvergurinn hafði ekki horfið af yfirborðinu, þá kom hann alveg uppað mér og sagði: "mamma þetta er ekki ekta dvergur, hann hverfur ekki, þegar hann lendir í vandræðum" ég leit í aðra átt og óskaði mér að ég yrði að reyk. Hvað var þetta bráðókunna barn að segja við mig?
Mér varð ekki að ósk minni og hét mér að fara aldrei með hann neitt aftur. (sem gleymdist eftir hádegið sama dag enda barnið með englaásjónu á kodda) meira síðar!
Vinir og fjölskylda | Breytt 8.10.2011 kl. 10:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.10.2011 | 08:23
Mílanó hin frábæra
Ég fæ aldrei nóg af Mílanó. Borgin er í senn lifandi og hávær, en samt alveg hæfilega stór. Navigli er staður sem liggur meðfram síkjum sem eru 5 talsins, það stærsta er Naviglio Grande og Naviglio Pavese er þar rétt hjá. Þarna eru sölumenn frá öllum þjóðum að selja glingur bæði á daginn og kvöldin.
Allt lifnar við um 6 á kvöldin og er iðandi langt fram á nótt. Þar kemur fólk saman og fær sér aperitivo sem er sérstaklega vinsælt meðal ungs fólks, sem labbar gjarnan á milli staða og fær sér drykk og pizzur á einum stað (en matur er innifalinn með drykkjum til klukkan 22:00) og á næsta bar er það kannski sushi og eitthvað allt annað á þeim þriðja. Mikið um að hópar hittist og fái sér aperitivo eftir vinnu og vinir hittast og fá sér að borða með kokteilnum sínum áður en farið er heim til að borða kvöldmat.
Námsmennirnir halda sig nú frekar á Colonne, en þar færðu drykk í plastglasi á spottprís, og svo er labbað á Colonne torgið og fundið sæti þar. Þannig er stanslaus straumur á þessu torgi af ungu fólki sem flandrar á milli og kaupir drykki. Hinir sem fá sér sæti, borga meira og fá þá einnig mat með, eða apertivo til klukkan tíu. Ísbúðirnar eru ekki síður vinsælar hjá ítölunum, þangað fara unglingarnir saman í hópum og einnig er farið á stefnumót í ísbúðunum. Alveg frábær siður finnst mér og gerir borgina svo líflega og skemmtilega á kvöldin. Ef fótboltaleikur er í gangi þá eru barirnir kyrfilega merktir AC Milan eða Inter Milan og þú vilt ekkert villast á rangan bar, nema vera réttu megin liðsins.
Nokkrir skemmtilegir matsölustaðir eru einnig á Colonne, verðið er hóflegt á þeim öllum, enda er þetta er svona frekar staður fyrir yngri kynslóðina. Minn uppáhaldsstaður er Trattoria Toscana þar og fleiri staðir allt í kring eru æðislega skemmtilegir og yndislegt að sitja úti og horfa á lífið.
Svo er hægt að fara á Armani Cafe eða Just Cavalli og fá sér apertivo sem kostar alla vega þrefalt meira en á Colonne. Fer bara eftir smekk hvers og eins.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)