Hryðji fær sér bíl!

Já börnin eldast víst og taka bílpróf eins og við hin. Það gerði "hryðji" líka. Hann stóð með glænýtt ökuskírteini daginn sem hann varð 17 ára, en þar sem hann hafði takmarkaðan aðgang að heimilisbílnum, þá ákvað hann bara að kaupa sér bíl sjálfur.

Hann fann bíl í smáauglýsingu ja bíl? Bleikan Peugot, sem var bara smá bilaður sagði hann mér, en vildi óður og uppvægur keyra mig í vinnu einhvern daginn og þáði ég það, þar sem hann hafði vaknað eldsnemma og var svo glaður og tilbúin að ég fékk ekki af mér að neita honum um að keyra mig á "nýja" bílnum.

Ég settist upp í bílinn og lokaði á eftir mér, en hélt þá á handfanginu, ekki málið sagði sonurinn stoltur, smá skrúfa laus, hentu þessu bara í aftursætið ég laga þetta.  En hurðin lokast kannski ekki alveg sagði hann. Hvað segirðu ekki alveg meinarðu að hún sé svona mikið lokuð þ.e. ALLS EKKI lokuð?

Róaðu þig kona ég er ekki milli sem get keypt mér splunkunýjan bíl.  Ok ég ákvað að þegja, enda var hann mjög stoltur af þessu bleika "bílyldi" eða já sem varla var hægt að kalla bíl, enda algert hræ og sagði hann mér síðar að hann hefði fengið hann gefins. (hvílíkur bjarnargreiði). Við vorum komin niður í Ártúnsbrekku þá stoppar bíllinn og sonurinn fer að snúa honum við.

Hvað ertu að gera æpti ég stíf af hræðslu, haldandi í falsinn á hurðinni svo ég mundi ekki detta út, en það var bara eitt öryggisbelti og það var í skottinu (laust). Æi þetta gerist alltaf af og til, þá er ekki hægt að keyra nema í bakkgír, en mamma ekki málið ég bakka þér bara í vinnuna, en við þurfum að bíða svona 10 mín. áður en hann kemst í stuð.

Barnaverndarnefnd hefði átt að vera á staðnum! Hún var það ekki.   Ég andaði djúpt og hugsaði um stolt hjálpsamt barnið mitt að skutla mér í vinnuna, svo ég róaði mig og taldi uppá 23.598 áður en ég sagði: "hvað meinarðu að það sé ekki hægt að keyra lengur áfram?" jú sko hann lætur svona víst stundum og gaurinn sagði mér bara að bakka honum í svona korter og þá get ég keyrt hann áfram.

Ég hef ekki það mikið vit á bílum, þannig að ég þagði bara og létt hann bakka mér í vinnuna sem var já á þeim afskekkta stað Laugaveginum.

Hann átti þennan bíl alltof lengi, en hann fékk ekki að bakka mér neitt aftur. Ég mætti lifandi í vinnuna, örlítið rjóð í vöngum, það var sko ekki miðstöð í bílnum og hárið á mér nýblásið og fínt, eftir gustinn sem kom innum "rifuna" á hurðinni......


Veikindahrinan

Börnin mín eru mjög heilsuhraust sem betur fer, en þau eiga frænku sem greindist með hvítblæði og eftir það fór skaðræðið mitt sonurinn að fá hin ýmsu einkenni.

Hann fékk krabbamein einn daginn hélt hann, alveg fullviss um að nú væri hann að deyja. Þar sem hann grét aldrei og fann aldrei til við högg þá hélt ég að hann væri tilfinningalaus, þannig að mér leist nú ekkert svo vel á þetta, þar sem hann grét af kvölum. Ég er með krabbamein í kjálkanum vældi hann heila helgi, þar til ég gafst upp og fór á læknavaktina með hann.

Ég var svo heppinn að minn heimilislæknir var á vaktinni og skoðaði hann vel og vandlega og kom svo fram til mín (ég beið frammi já já tárist af hneyksli, en það líður yfir mig ef ég sé blóð og sprautur) og sagði að stráksi hefði verið búin að blása upp svo margar vatnsblöðrur að kjálkarnir og eitlarnir hefðu bólgnað. Hann ætti að hvíla sig á vatnsblöðrum í svona mánuð. Ég var mjög vinaleg á leiðinni heim við hann með samanbitnar tennur og svolítið skömmustuleg yfir að hafa farið á læknavaktina, ég meina þar sem fólk kemur dauðveikt.

Hann fékk Astmakast og lungnabólgu strax  daginn eftir hélt hann  (var reyndar með astma) og ég var að keyra hann í skólann og hann byrjar í bílnum; "mamma ég næ ekki andanum" fínt sagði ég, enn frekar pirruð eftir heimsóknina daginn áður á læknavaktina. "Ha fínt finnst þér það fínt" já leiðinlegt en hvað viltu að ég geri sagði ég og leit ekki einu sinni á hann. Varstu kannski að gleypa blöðrur núna??" Nei í alvöru mamma ég er að deyja ég næ ekki andanum" ok settu hausinn út um gluggann sagði ég alveg frekar pirruð. 

Hann fór hálfur út um gluggann svo eftir stóðu fætur við ökla inní bílnum, ég heyrði reyndar smá svona soghljóð og þegar ég kippti honum inn í bílinn sá ég að hann var orðinn örlítið blár ( lesist helblár) kringum munninn og ég sneri við á punktinum og hentist inná læknavaktina í Grafarvoginum og ég ætla ekki að hafa það eftir sem læknirinn sagði við mig eftir að sonurinn hafi sagt að ég hafi sagt honum að þetta væri bara fínt og að mér væri alveg sama.

Ég ber við algeru minnisleysi.

Þetta er ættgengt því annar fjölskyldumeðlimur fær gjarnan svona allskonar  

Það var hablið og fuglaflensan.....já viðkomandi fékk gefins körfu fyrir jól ein og í því var Belnoughat súkkulaði sem er með innihaldslýsingu á ensku og arabísku, og jú jú það var væntanlega flórsykur á því.  Hann borðaði það og sá síðan að það var skrifað á arabísku utan á umbúðirnar og þar af leiðandi hlyti nú að vera búið að strá "Miltisbrandi" í súkkulaðið, þar sem við hin hefðum talið vera flórsykur.

Hann hringdi í mömmu sína og símtalið var nokkurn veginn svona:

"mamma það er örugglega miltisbrandur í þessu súkkulaði sem ég var að borða"

Já en leiðinlegt og hvað á ég að gera og af hverju heldurðu það?

"ok róleg á umhyggjunni, en þú segir eitthvað annað þegar ég verð dauður. Vertu blessuð mamma"

3 mín síðar:

"mamma ég er með öll einkenni "habls" ég var að googla það"

já er það og hvernig lýsir það sér?

"ég næ ekki andanum og ég er allur rauðflekkóttur"

já ef þú ert dauður þegar ég kem heim þá læt ég þig vita.

"gaman að eiga svona mömmu takk fyrir allt!"

3og 3/4 mín síðar.

"Mamma ég er að deyja"

Krakki ég á eitt orð handa þér og það er ÞEGIÐU og láttu mig í friði ég er úti að borða, ég skal skammast mín ef þú deyrð, en hvernig eru einkennin núna.

"næ ekki andanum"

Er það verra en þegar þú fékkst fuglaflensuna eftir að við gengum gegnum kínverska matarganginn í Hagkaup í gær?

"já ok er ég kannski svolítið paranojd"

ha þú NEI!!!

Sendi sjúkrabíl þegar þú hringir næst og já ég spyr þig ekki um leyfi. Eftir næsta símtal verður  sendur sjúkrabíll til þín og dælt upp úr þér og svona kannski verðurðu settur í gifsbuxur(til vonar og vara)

"Mamma Takk þú ert æðisleg" Ég ætti að hringja í barnaverndarnefndina og klaga þig"

Já ætlarðu að gera það áður en þú deyrð úr "hablinu" eða eftir fuglaflensuna og klamadýjuna sem þú hélst að þú hefðir fengið, þegar þú skarst þig á skel á ströndinni á Ítalíu, þegar þú varst 11 ára? 


Misóskemmtileg ferðalög.

Ég elska að ferðast eins og ég hef áður sagt, enda fannst mér ávallt vanta ferðapistla og þess vegna fór ég  m.a. að blogga um ferðalög. 

En ekki er alltaf jafn gaman að ferðast, oft þarf ekki mikið að bregða útaf til að ferðin breytist í hálfgerða martröð og maður vildi óska að aldrei hefði verið farið af stað.

Ég fór eitt sinn með börnin mín lítil til Spánar, þar sem dóttir mín var aðeins 2 ára og strákurinn 4 ára. Fórum við í Tívolí eitt kvöldið, en þar sem strákurinn var búin að vera á útopnu allan daginn, þá sofnaði hann á matsölustaðnum, enda klukkan orðin 10 um kvöld þegar við mæltum okkur mót við Íslendingahópinn á tilteknum matsölustað.  Litla stelpan mín fékk hins vegar matareitrun og varð svo rosalega veik, að ég horfði á hana verslast upp fyrir framan mig og ekki hægt að flýta förinni heim. Í þá daga var bara flogið með leiguflugi út og svo fólkið sótt eftir ákveðinn tíma. En ég horfði þarna með brostið móðurhjarta á litla búttaða stelpukrakkann minn minnka og minnka og slappast og slappast. Við komum svo heim og þá lá hún í einangrun í 10 daga á LHS svo fárveik og ekki laust við að ég hugsaði, hvað er maður að flækjast útí heim í óvissuna með börn sem enga björg sér geta veitt.  Jesús hvað þetta var hræðilegur tími. En þetta fór nú vel og hún náði sér að fullu.

Ég lenti einnig í því einu sinni að veikjast illa í Búlgaríu og það var ekki gaman, en uppákomurnar sem því fylgdu voru drepfyndnar á köflum.

Búlgaría tilheyrði austantjaldslöndunum og þar voru höft og hömlur á öllu og spillingin eftir því, þú gast selt dollara á hverju götuhorni og einnig gastu keypt sem túristi í svokölluðum dollarabúðum, en ekki var eftir neinu að slægjast í búðunum sem almenningur gat verslað í.

Það var nú ýmislegt þarna í Búlgaríu sem kom manni "spánskt" fyrir sjónir eins og það athæfi að pakka bílunum sínum á kvöldin inní svona plast eins og við setjum grillin okkar í á haustin.  Einnig var alvanalegt að sjá fólk með rúðuþurrkur og loftnet, en það var tekið af þegar bílnum var lagt.

Þegar maður tók svo leigubíl, var hann gjarnan fylltur af Búlgörum og þeir keyrðir heim á okkar kostnað og mátti maður þakka fyrir að fá bara 5 í aftursætið hjá sér....enda segir orðatiltækið...þröngt mega sáttir sitja. 

Ég lenti svo í því sem sagt að veikjast illa og þurti að fara í sjúkrastofnun fyrir ferðamenn.  En til þess að komast þangað var einn vegur og inná hann var "innakstur bannaður" og þar stóðu löggur og rukkuðu sjúklinga  í sjúkrabílnum um einhverja dollara til að fá að komast að húsinu.  (Gott ég var með veskið)

Ekki tók betra við, þegar ákveðið var að senda mig til höfuðborgarinna Sofiu í sjúkrabílnum og viti menn. Hann stoppaði einnig fyrir farþegum sem var hlaðið útum allt í kringum mig, svo ég lá á endanum eins og rakvélablað uppá rönd, svo illa færi nú ekki um farþegana í kringum mig, svo stoppaði bílstjórinn og fékk sér bensín og jú jú það þurfti  líka að stoppa í sjoppu og svona. Ég hugsaði nú með mér hvort ég hefði tekið ferðasjúkrabíl, en ferðin tók loks enda.

Eftir sjúkrahúsdvölina varð ég að liggja á hótelinu fram að heimferð eða í 2 vikur og það reyndist einstaklega skemmtilegt, þar sem öll tækin í herberginu okkar voru biluð. þ.e. ísskápurinn, sjónvarpið, síminn, útvarpið og svo vantaði ljós á baðherbergið. Já einnig var lyftan biluð, en þetta var hótel fyrir eldra fólk sem kom til að baða sig í svartahafinu og var allt morandi í hjólastólum þarna, en sem sagt biluð lyfta. 

Nú tók við tími kvartana í lobbýið, ég þurfti síma, ég þurfti líka sjónvarp og útvarp og ljós á baðið, og ég vildi ekki hafa þennan kakkalakka á veggnum. Held að ég hafi nú ekki verið vinsæll gestur. Fékk þó allt lagað á endanum. Meira að segja var stuff í ísskápnum nýja. Hvítvín og allt.

Svo fékk ég heimsókn frá Íslendingum sem bjuggu á sama gangi og ég og þau sögðu farir sínar ekki sléttar, allt hafði verið í stakasta lagi hjá þeim í íbúðinni, en nú var allt ónýtt og meira að segja búið að taka ljósið og sturtuhengið á baðinu.

Ég bauð þeim uppá hvítvín sem hafði fylgt ísskápnum mínum. Sama hvítvín og hafði horfið með þeirra ísskáp. Skrítin tilviljun. 


Uppátækin ýmisleg

Sonur minn títtnefndi var mjög svo uppátektarsamur þegar hann var yngri, hann þurfti alltaf að prufa allt, sem hann fékk "pata" af að væri hættulegt, eða helst bannað. 

Hann tók til einu sinni á heimilinu og henti bara vikursteinunum sem voru á svölunum niður á götu (bjuggum á 2. hæð  og já nýflutt þangað) af því að þá væri svo auðveldara að fara með þá þaðan í ruslið. Auk þess henti hann nokkrum "óbrjótandi" glösum niður líka til að kanna hvort þetta væri nú satt að þau stæðu undir nafni (þau gerðu það ekki, ekkert af þessum 5 sem hann henti niður)

Konan á neðstu hæðinni sem átti garðinn hélt að einhverjir brjálæðingar væru fluttir, því hann framkvæmdi þessa aðgerð um nótt, um sumartímann, ákvað að taka til á svölunum fyrir mömmu sína áður en hún vaknaði. Það var boðað til húsfundar hið snarasta. (ég sá mér ekki fært á að mæta) 

Hann var alltaf að koma heim með allskonar stuff eins og orma sem hann setti á spýtu undir rúmið sitt. Gargaði svo 2 dögum síðar: "hver tók ormana mína?" Já einmitt!!! ég þurfti að fá utanaðkomandi hjálp við að týna þurra ormana upp! ojjjjj 

Við bjuggum á þessum tíma í Grafarvogi og hann uppgötvaði mér til skelfingar einhverja laxeldisstöð í nágrenninu og var nú ekkert smá stoltur að bera björg í bú eins og hann kallaði það (nýbúin að heyra þenna frasa) og vildi endilega hjálpa. Laxinn var viðbjóður á bragðið, en ég eldaði einn, og setti nálgunarbann á laxeldið. Lét hann fyrstan smakka og hvílíkt lýsisbragð, honum fannst laxinn góður, engum öðrum, en hann var alltaf að koma heim með eitthvað svona "stuff" misónytsamlegt.

Hann hlýddi mér alveg  með laxveiðarnar, en þá uppgötvaði hann nýjan ævintýraheim, Sorpu eða öskuhaugana. Nú fóru að berast bílhurðir, hátalarar, grammófónar og fleira mjög þungt dót (bráðnauðsynlegt á hvert heimili), sem hann bar uppí herbergið sitt. Þegar ég meðfærilega jafnaðargeðsmóðirin trylltist yfir þessu, þá fór hann með það til vinar síns og gaf honum. Sá var jafn hrifin, en mamman svo vanþakklát eins og hann sagði.

Hún bannaði honum að koma með þetta rusl heim til sín, en þá fékk sonur hennar góssið bara innpakkað að gjöf......eða eitthvað mér var sama svo lengi sem þetta var úr minni augsjá.

Mikið var ég glöð þegar hjólbörunum var stolið og hann gat ekki selflutt þetta bráðnauðsynlega dót af sorpu lengur. 

 


Sparnaðarráð "hryðja"

Börnin mín lærðu snemma að taka þátt í lífinu með mér, en þegar við ákváðum að skella okkur til Spánar eitt sumarið, þá fengu þau að taka þátt í að safna fyrir ferðinni með mér, við að pakka bréfum í umslög, og þetta sátum við saman við á kvöldin og pökkuðum yfir sjónvarpinu. (Barnaverndarnefnd mundi væntanlega ávíta mig í dag fyrir barnaþrælkun)

Sonurinn tók þetta á allt annað plan en dóttirin, enda hún nú reyndar bara 8 ára um þetta leyti. Hann tók á þá ráð að safna flöskum og dósum og skellti  sér svo bara í strætó með "góssið" í 3-4 svörtum plastpokum. Ekkert að flækja málið bara einhenda sér í hlutina strax, ekkert að blanda mömmu sinni í sínar fjármögnunarleiðir.

Nú ég fór um þetta leyti með þau börnin í Borgarleikhúsið og fékk vinkonu mína með mér, en þurfti helst alltaf að hafa svona "backuppara" ef ég þyrfti að hendast út í hlénu og skilja stelpuna eftir ( já maður lærir svo lengi sem maður lifir)

Eftir hlé bólaði ekkert á "hryðja" og vinkona mín komin með andarteppu af áhyggjum, meðan ég og dóttirin alvanar, prúðbúnar og slaufum prýddar biðum bara eftir uppkallinu sem iðulega kom eftir að hann hafi verið týndur einhvern tíma á svona almenningsstöðum.

Ekkert nafnakall kom og leikritið byrjaði, mér leist nú ekkert á blikuna en þegar ég heyrði einhverjar skruðningar í hinum enda salsins, bað ég allar vættir um vernd og kom ekki "hryðji" vopnaður 3 svörtum plastpokum, fullum af dósum með tilheyrandi látum og fyrirferð yfir allt fólkið í hálfa sætaröð. Það horfðu allir á okkur og sussuðu. Ég leit á fólk á móti með hneykslunarsvip og eins forstokkuð og hægt er að vera, alveg hneyksluð á þessu barni (hefði sennilega selt það á staðnum ef það hefði boðist) Þóttist ekki þekkja pokabarnið og horfði á vinkonu mína eins og hann væri alveg á hennar vegum.

En sætavísan kom samt og talaði við mig  og bað mig að skila þessum ruslapokum, þar sem þeir væru í eigu leikhússins. Ég var alls ekki föl á litinn, þegar ég skrötli fram hjá sætaröðinni með 3 ruslapoka með þeim háværustu dollum sem ég hef fyrir hitt.

Held við höfum verið að sjá Ronju ræningjadóttur, man það þó óglöggt.

Nú hann lét þetta bakslag nú ekki stoppa sig í fjáröfluninni. Fékk hjá konu pabba síns gefins sælgætiskassa og fór nú um hverfið okkar í söluferð á "góssinu"

Hann lenti í einni söluferðinni á samstarfsfélaga móður sinnar, sem spurði hann til styrktar hverju eða hverjum hann væri að selja, því það væri venjan að ef verið væri að ganga hús úr húsi og selja þá ætti það að vera til styrktar einhverju góðu málefni.

Ekki stóð á svarinu: "jú til styrktar mömmu minni og systur sem eru að fara til Spánar"

Mér fannst mjög gaman í vinnunni daginn eftir, þegar ég var spurð hvort sonurinn fengi virkilega ekki að fara með til útlanda, heldur væri sendur í söluferðir til styrktar mér og dótturinni.


Róm með mínum augum

Róm er sú borg sem allir þurfa að sjá einu sinni á ævinni eða þannig leið mér alla vega, þar til ég heimsótti Rómarborg hérna ekki alls fyrir löngu.  Ég fór ásamt góðum vinahópi mínum og þegar við komum til Rómar er eins og maður falli í einskonar trans. Það er allt svo menningarlegt og allt með svo mikilli sögu á bakvið sig að já eiginlega fellur maður í stafi.

Trevi

 

Ég verð þó að viðurkenna eftir að hafa haft mjög miklar væntingar til heimsóknarinnar, þá varð ég fyrir vonbrigðum með sumt. Eins og óþrifin í borginni, sem var fram úr hófi subbuleg á þessum tíma alla vega, en ég sá á 6 dögum 2 rottur inní miðri borginni og voru þær á stærð við ketti. Það setur að manni óhug að mæta svoleiðis kvikindum. Við vorum þó á 5 stjörnu hóteli (rotturnar vissu það greinilega ekki) en auðvitað getur maður alveg áttað sig á því að í stórborg er mikið rusl, en þessi siður að henda svörtum plastpokum út við gangstétt hlýtur að bjóða uppá  rottur og fleiri ófögnuð. Minnti mig eiginlega bara nokkuð á Napólí. Svo fannst mér líka sorglegt hvað allt var útkrotað öll grindverk í kringum þessi fallegu minnismerki og fallegu gosbrunna og já allar þessar minjar, voru ataðar í veggjakroti.

 En ég upplifði nú líka fegurðina í Róm, eins og Spænsku tröppurnar þær eru bara dásamlega fallegar allar fjólubláar og ævintýralegar, einmitt í maí þegar ég var stödd þarna, þegar allt var í blóma. Göturnar fyrir neðan spænsku tröppurnar eru einstaklega skemmtilegar og gaman að setjast á kaffihúsin og fá sér hvítvínsglas innan um bílana sem keyrðu alveg við bakið á manni, enda kaffihúsin með stólum alveg útað bílastæðunum. Mjög sjarmerandi fannst mér og svo vinalegt allt þar í kring, þó mikið sé um ferðamenn á þessum stöðum, er samt svo heimilislegt á þessum litlu kaffihúsum og veitingastöðum.

 

spanish steps

Við skoðum allt þetta helsta í Róm, eins og Colosseum, rústir og eiginlega allt annað markvert, nema Katakomburnar, þangað fær mig enginn niður, enda ekki nein fegurð þar að sjá, og bara ágætt að lesa um þær. Trevi gosbrunnurinn er ævintýralega flottur.

Vatikanið er náttúrulega ævintýri útaf fyrir sig og fórum við í gegnum það hópurinn, með íslenskum fararstjóra, en hún var bara svo samviskusöm og mjög svo fróð og skemmtileg, að hún sagði okkur frá hverju einasta teppi sem eru þarna í tugatali í röðum mjög falleg, en eftir svona 100 stk. já þá er bara komið nóg. Við nenntum því nú ekki alveg.

Við sáum okkur leik á borði, þar sem við sáum japanskan hóp ferðamanna, með einhverjum stressuðum leiðsögumanni sem skundaði í gegnum teppin og ákváðum að þennan vildum við elta.

Rétt náðum að kíkja í Sixtínsku kapelluna áðun en við stóðum allt í einu útá plani fyri utan Vatikanið, en við höfðum nú keypt ferð gegnum Péturskirkju, sem flestir aðrir í hópnum fóru að skoða, en á þessum tíma var verið að lagfæra kirkjuna og sillansar upp um allt, enda átti páfinn að messa daginn eftir svo allt var í vörðum og miklar varúðarráðstafanir allstaðar vegna messunar.

Péturskirkjan

 

Ég var alveg ánægð að setjast bara niður og fá mér hvítvín, meðan hópurinn skoðaði stillansana í Péturskirkjunni, enda ein kirkja á Ítalíu alveg nóg og  manni finnst maður hafa  séð þær allar,  það finnst mér alla vega. Finnst reyndar kirkjan í Milanó á Duomo alveg jafn falleg, þó ekki sé alveg að marka mig, þar sem ég fór ekki inní Péturskirkjuna sjálfa. 

Ég á eftir að fara aftur til Rómar þar er eitt sem er öruggt. 


Hvatvísin getur orðið manni að falli

Ég hef oft áður sagt að ég sé smá fljótfær, hvatvís og óþolinmóð brussa og þetta getur haft mis slæmar afleiðingar í för með sér.

Ég fékk að kynnast því eitt sinn, þegar ég í fljótfærni hafði smurt drjúgum slatta af kremi í andlitið á mér án þess að kanna nákvæmlega um hvað krem var að ræða.

En þannig var að við vinnufélagarnir vorum að fara út að borða á einn svona frekar fancy stað eftir vinnu og ákváðum við vinkonurnar að hittast áður heima hjá einni og taka okkur til eftir vinnudaginn og fríska aðeins uppá útlitið og fá okkur smá rauðvín áður en haldið skyldi út að borða.

Ég er með þurra húð og var eitthvað óvenju slæm þetta kvöld svo ég fann eitthvað krem inná á baðherbergi og fékk mér slatta af því, til að minnka þurrkin og sagði við vinkonu mína þegar ég kom fram af baðherberginu. "Fékk mér smá krem sem ég fann þarna var það ekki í lagi?" jú jú auðvitað var það í lagi.

Við héldum svo á fyrirhugaðan veitingastað, þar sem hinir vinnufélagarnir voru þegar komnir og biðu okkar á rökkvuðum barnum. Við sátum þar góðan klukkutíma og trítluðum þá inní vel upplýstan salinn, þar sem hópur danskra karla sat á næsta borði við okkur og fannst mér þeir eitthvað vera að pískra og glápa á mig.

Noh hugsaði ég með mér drjúg með mig. Mér hefur nú heldur betur tekist upp með útlitið í kvöld og svo brosti ég mjög blíðlega til þeirra.

brunka

 

Þegar ég svo tók matseðilinn frá andlitinu, æpti vinkona mín upp og sagði: "hvaða krem notaðirðu í andlitið?" jú þetta glæra frá Guerlain sagði ég. Já en það er brúnkukrem sagði hún og allt borðið mitt lá í hláturskrampa. Mér var ekki skemmt og tók servéttuna og setti fyrir andlitið og labbaði fram á snyrtingu eins og múslimakona, þannig að rétt sást í augun.

skítugur

 

Ég var eins og krímugur krakki í framan, illa skítug og ekki einu sinni jafnsvört heldur alveg skellótt og mislit. Ég safnaði saman dekkstu meiktegundum stelpnanna, smurði þeim á mig og leit nú út eins og Wesley Snipes ljóshærð og svört í andlitinu.

Djöfuls dónar eru þessir Danir annars...... 


Ekki sama Jón og séra Þingmaður!!

Hjálpi mér allir heilagir hvað fólk getur verið aumkunarvert yfir frægðarljóma þekktra manna.

nurse 

Ég var stödd í Hagkaup Garðabæ í dag, þar sem boðið var uppá frábæra þjónustu í að mæla kólestról og blóðþrýsting. Ég beið heillengi í röð, meðan sú sem mældi kólestrólið var að ræða við mann á besta aldri og gaf honum alveg mjög rúman tíma og skýrði niðurstöðurnar vel út fyrir honum (sem mér fannst frábært).

Nú var röðin komin að mér og ég settist í stólinn hjá konunni sem var búin að afgreiða mannin og þá kemur þingkona labbandi inn og hin kólestrólmælandi kona sem ég sat hjá nánast henti mér útaf stólnum, því henni var svo í mun að fá þingkonuna í stólinn og mæla kólestrólið hennar. Eflaust miklu meira spennandi kólestról þar á ferð, en í svona meðalmanneskju eins og ég er svona alveg óþekktur sótsvartur almenningur.

hjukka

Þetta var nú frekar pínlegt og vesalings þingkonan spurði hvort hún væri nokkuð að troðast framfyrir okkur "hitt fólkið" nei nei við vorum einskis virði og gátum bara beðið. Hjúkkan sagði mér að hinkra bara meðan hún tæki þingkonuna fram fyrir mig, en hún var sko búin að stinga mig og henti mér sem sagt nánast í burtu með nálina í fingrinum. 

 Ég hafði nú beðið slatta tíma eftir að ég væri afgreidd, svo ég beið talsverða stund í viðbót og sá að hún ætlaði að fremja aðgerð á þingkonunni án þess að virða mig viðlits, alveg rauð í framan af spenningi yfir þessari heppni sinni, svo ég labbaði nú bara í burtu óviss um hvort ég sé dauðvona af háu kólestróli, eða ekki. Þingkonan fékk góða meðhöndlun, en ég dauðvorkenndi henni, sá alveg að henni var ekkert um þennan sleikjuhátt gefið.

Fegin er ég að hafa ekki þessa stjörnudýrkun meðfædda. Hvað mundi gerast hjá svona fólki ef Brad Pitt kæmi nú labbandi!!!Hjálp krullast upp við tilhugsunina og fæ kjánahroll fyrir allan peninginn.


Hætturnar leynast víða

Ég fór í Ikea í gær, sem er nú ekki í frásögur fæarandi, enda staðurinn annálaður helgarstaður okkar Íslendinga.

Það var jólastemming í loftinu þar í gær og jólailmur og troðfullt af fólki og greinilegt að allir eru komnir í jólagírinn snemma í ár.

Þar sem ég ýti á undan mér níðþungri kerrunni fullri af "nauðsynjum" til jólanna, þá finn ég allt í einu hvar buxurnar toguðust niður um mig. Ég hafði fest þær í kerruhjólinu og þær toguðust niður um mig.

 Já ég stóð þarna og gat ekki hreyft mig innan um mannfjöldann og ekki var hjálp að fá hjá vinkonu minni sem emjaði úr hlátri yfir þessum óförum mínum. Mér fannst þetta nú ekki eins fyndið að vera föst við 110 kg þunga kerru og sá fram á að þurfa að láta klippa mig frá henni.

En ég gafst ekki upp og hoppaði á annarri löppinni inní næsta eldhús og hóf að losa mig og það tókst að lokum með því að rífa þær af við hné eða svo. Næst fer ég með hjólaband um ökklana og jafnvel með skæri í vasa.

Við ákváðum svo að fara að fá okkur að borða enda einn af fáum matsölustöðum sem venjulegt fólk hefur orðið efni á að heimsækja.

Það eru alltaf útlendingar að afgreiða í matsölunni sem er í góðu lagi min vegna, en verra að það er ekki alltaf skilningur á því, hvað verið er að biðja um.

Ég bað um  10 kjötbollur og kjúkling. Konan sagði eitthvað óskiljanlegt og ég hváði. Hún endurtók: "vittu sósogsuttu?" já takk sagði ég.  Svo skellti hún einhverju gumsi á disk og ýtti að mér. Ég ýtti því til baka og sagðist vilja kjúkling ekki þetta.

Hún ýtti disknum staðfastlega til baka og sagði: "þú segja kjúklingaréttur og þú BORÐA kjúklingaréttur" ok sagði ég smá hrædd og spurði vinkonu mína ætli ég megi fá mér hvítvín með "kjúklingaréttur"? Þetta var eiginlega bara viðbjóður þessi kjúklingaréttur og kús kússið. Ég hata kúss kúss.

Næst!! muna að panta  bara kjötbollur "sósogsuttu"


Hin ýmsu "skeið" hryðja

Sonur minn hefur farið í gegnum mörg "skeið" í gegnum tíðina og ég hef nú verið mismundandi hrifin, eða frekara sagt ekki hrifin.

Símastúlkan í fyrirtækinu sem ég vann hjá byrjaði snemma að "skrína" símtölin til mín frá honum, eftir því hvers eðlis þau voru en þegar hann fór í gegnum þvottaskeiðið, þá talaði hún bara við hann sjálf og þegar hann hringdi og sagði henni að hann ætlaði að skella í vél, þá sagði hún já hvítt sér og svart sér, svo ég lokaði allt mitt óhreinatau inní skáp, því ég vildi ekki sitja uppi með ponsulítil soðin föt. Þetta skeið stóð mjög stutt yfir.

Þá var það kertagerðistímabilið! Hann tók öll fallegu kertin mín sem ég hafði greitt fúlgu fjár fyrir í Tekk húsinu og bræddi þau saman og gerði miklu "flottari" kerti að hans mati (ég var ekki sammála).

Svo fóru símtölin að breytast, símastúlkan sagði venjulega: "Gulla mín, vertu alveg róleg, en sonur þinn var að hringja og það er allt í lagi með hann (þannig lagað séð) en hann skaut vin sinn í höndina með boga, eða hann festi höndina í hjóli og heldur að hann sé handleggsbrotinn.....keyrðu samt varlega heim". Það gerði ég hins vegar ekki.

Nú fór sá alskemmtileg tími í hönd að hann fór að breyta allskonar sprengjum (gera þær öflugri) eins og við hin notum flest óbreyttar á gamlárskvöld. Ég rak hann frá húsinu með þetta, reyndi alveg að banna honum að gera þetta,(hann hlýddi ekki) en hann fór upp að elliheimilinu í grenndinni í þeirri von að þau heyrðu síður hávaðann (hann var síðan látinn lesa fyrir gamla fólkið til að bæta fyrir skemmdir sem hann olli á húsinu).

Hann plataði ömmu sína til að kaupa bók fyrir sig í útlöndum og skrifaði nafnið á miða og sagði henni að bókin að héti cookbook, en sagði ekki að hún héti Anarkist cookbook. Þá hafði hann verið í kokkastuði í nokkra mánuði og okkur grunaði ekki neitt. Nú fór að færast fjör í símamálin mín: "Gulla mín, held þú ættir að skreppa heim" byrjaði símastúlkan....sonurinn var að spyrja hvað þýðir: "how to make a carbomb?" eða hvað þýðir: "how to blow up half a nation?" Ég keyrði heim sem óð væri, gargaði á hann, en hann spurði mig sakleysislega hvort ég vildi ekki að hann vissi hvað hlutirnir þýddu áður en hann hæfist handa við að gera nokkuð. Bókin hvarf svo með dularfullum hætti og hefur ekkert til hennar spurst síðar.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband