9.11.2013 | 18:20
Hugleiðing fyrir jólin.
Nú eru jólalögin farin að óma á fullu á einni útvarpsstöðinni sem varð til þess að ég fór að hugsa hversu erfiður tími þetta getur verið fyrir fólk. Ekki eru allir svo heppnir að vera í góðri vinnu, heilsuhraustir og með heilbrigð börn og fjölskyldu. En við gerum svo miklar væntingar til okkar sjálfra á þessum tíma, allt skal vera hreint, bakað og já það sem jólin snúast að mestu leyti um, kaupa og kaupa allskonar dót og glingur.
Nú eru svo margir sem eru atvinnulausir og geta ekki keypt mat handa börnunum sínum, hvað þá jólatré eða gjafir, þá hlýtur það að vera mikill streituvaldur að fara í Kringluna, allt uppljómað og verslunarhvetjandi, en viðkomandi á ekki peninga. þannig að við ættum aðeins að staldra við og setja nú gjöf undir tréð í Kringlunni, hljótum öll að geta gefið okkur tíma og gefið eins og 1 gjöf til að gleðja barn, sem ekki býr við þann munað að fá fullt af gjöfum, eins og við höfum kannski getað gefið okkar börnum og það öryggi, og fegurð sem í jólunum felst fyrir barnshjartað. Spenningur jólanna þekkist því miður ekki allstaðar í barni sem hefur verið alið upp við drykkju foreldra og óöryggi, það barn er hugsanlega spennt, en sú spenna er ekki af eftirvæntingu til jólanna.
Þeir sem misst hafa ástvini og eru hugsanlega einmanna, þá er þessi tími mjög erfiður, þar sem jólin eru nú sá tími sem allir njóta samvista við fjölskylduna. Foreldrarnir sem misst hafa barnið sitt úti í heim fíkniefna og eða áfengis, jólin eru nú ekki gleðitími hjá þeim. Ég held að við ættum aðeins að huga að þessu nú þegar jólin nálgast og vera góð við náungann og þá sem við vitum að eiga um sárt að binda, ekkert mál að kíkja í kaffi og dvelja smá stund hjá gamalli frænku eða frænda.
Er aðeins orðin væmin í dag, en það gera jólalögin.
Verum góð við hvort annað eins og Hemmi Gunn sagði og bless, ekkert jólastress.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.10.2013 | 14:05
Fyrir hverja er leigumarkaðurinn?
Ég skrifaði grein um lífið okkar sem þurfum að lifa í þessari svokölluðu "Skjaldborg" sem heimilunum í landinu var lofað. Ástæða þess að ég skrifa um lífið hérna í óörygginu, er nú bara til að vekja aðra til umhugsunar, því ég er ekki viss um að fólk geri sér grein fyrir hvernig lífið er í raun og veru fyrir okkur sem lentum svona illa í hruninu, að það breytti okkar lífsgæðum á þann hátt að ekki sér enn fyrir endann á því.
Þannig lítur þetta út fyrir mér, að við hinir almennu borgarar erum að basla við að semja um skuldir okkar og reyna að bjarga alla vega þeim málum, sem ábyrgðarmenn eru skráðir fyrir. Ég skil ekki enn að stjórnvöld hafi ekki séð það fyrir árið 2008, þegar þúsundir misstu vinnuna sína, að eftir 3-4 ár þá hljóta þessir aðilar að lenda í greiðsluvanda svo stórum að húsnæði þeirra fari í hundraðatali á uppboð, sem og bílar og aðrar eignir. Jú vissulega var fólki bent á að fara til Umboðsmanns Skuldara, sem og ég gerði, það tók 2 ár að skoða mína pappíra og ég fékk að fara í greiðsluskjól, en hversu margir hafa fengið raunverulega þá hjálp án þess að mannréttindi þeirra séu hreinlega brotin, en til að standast það ferli að fá samning, þá máttu ekki lenda í neinu óvæntu, því þá áttu á hættu að verða rekin úr skjólinu (sem gerðist í mínu tilfelli). Skv. talsmanni hjá UMS eru 4820 sem hafa sótt um greiðsluaðlögun, 661 beiðni hefur verið synjað, 605 samningar hafa verið afturkallaðir, 401 umsókn hefur verið lokað án samninga, 426 samningar hafa verið niðurfelldir 331 samningur er í mati og 1898 aðilar eru með samninga sem enn eru í gildi, en við erum að tala um að það eru 5 ár frá hruni og ég get ekki séð að þetta sé nein töfralausn.
Nú þegar íbúðirnar okkar hrannast á uppboð þá spyr ég hvar er þessi leigumarkaður, sem ætti í raun að vera orðin stórfelldur? Þar sem við erum nú hugsanlega flest komin á vanskilaskrá (mjög skemmtilegur endir á fjármálaferli) þá velti ég því fyrir mér hvernig við eigum að geta skilað inn ábyrgð fyrir 3. mánaða leigu með atvinnuleysisbótum, en leigan á meðal íbúð er allt að 250 þúsund kr. á mánuði og þá í útleigu hjá Íbúðalánasjóði fyrir 3. herbergja íbúð. Ég velti þessu bara fyrir mér, hefur engum stjórnmálamanni dottið í hug að út á götu fara að birtast heimilislaust fólk sem er kannski ekki til í að setjast að þar. Að Íbúðalánasjóður skuli krefjast þess að leiguliðar séu ekki á vanskilaskrá, þá er þetta ekki lausnin fyrir okkur sem erum að missa okkar eignir útaf hruninu. Hver fer viljandi á húsaleigumarkaðinn, ef ekki fyrir tilstilli hrunsins og þá hverjir eru þá ekki komnir á vanskilaskrá sem þurfa á þessum leigumarkaði að halda. Alla vega ekki ég.
Já maður verður nú samt að nota tíma í breyttu lífi til að bæta sjálfan sig og gera eitthvað uppbyggilegt, því ósjálfrátt breytist forgangurinn hjá manni, og hlutir eins og kaffihús, læknaheimsóknir, reglubundin krabbameinsskoðun, tannlæknar og hársnyrting eru ekki með í "budgetinu" svo ef þú sérð illa "hárhirtan" einstakling með skemmdar tennur og hugsanlega utanáliggjandi æxli, þá dæmið eigi, þetta gæti bara verið atvinnulaus einstaklingur ég eða þú.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Já þetta hljómar eigingjarnt, en ég spyr bara, hversu lengi þarf að bíða eftir að nefnd skili áliti á skuldamálum heimilanna, bíddu hefur eitthvað breyst sem við vissum ekki um, er þetta ekki búið að vera vitað að heimili í landinu væru á síðustu metrunum í eigu okkar, áður en þau verða keypt upp af sjóðum og þeim sem eiga fyrir kaupum nokkrum blokkum í einu, löngu áður en ný stjórn tók við og já fékk þessi stjórn ekki atkvæði út á það eitt að ætla að ráðast í skuldavanda heimilanna. Nei úps sorry fyrst þurfti nú að klára að lækka veiðigjöldin. Sef nú rólegri af áhyggjum vegna útgerðarinnar.
Ég spyr einmitt hvað verður um mig og mína líka, ég er komin á þann aldur að ég flokkast ekki undir vinsælt vinnuafl og þar sem ég hef starfað alla mína tíð á banka og fjármálamarkaði, þá er ekki um auðugan garð að gresja, þar sem æskudýrkun er meiri á þeim markaði en annarsstaðar, enda á reynsluleysi stjórnenda þátt í stöðu bankamála hér á landi í dag. Þrátt fyrir að ég hafi menntað mig á öðru sviði í atvinnuleysinu, þá er það nú eins og einn vinur minn sagði einhverju sinni:"þegar maður er komin uppí skóstærðina sína í aldri, þá er maður ekki með sem vinnuafl" og er ég komin 19 árum fram yfir mína skóstærð í dag.
Nú er ég búin að vera brátt atvinnulaus í 3 ár, eða frá 2008 og er því að detta útaf atvinnuleysisbótunum eftir nokkra mánuði, þar missi ég mitt fastaland og tekjur útgreiddar kr. 153.000.- hvað er þá til ráða? Fara á bæinn eins og kallað var í gamla daga, þ.e. sækja fjárhagsaðstoð til Garðabæjar, sem ég er svo "heppin" að tilheyra, en þeir hins vegar áskilja sér þann rétt að greiða aðeins helming af reiknuðum framfærslukostnaði eða rétt undir 70 þús kr. á mánuði. Hver vill leigja mér fyrir þann pening. Í alvöru hefur aldrei verið hugsað út í það eftir hrun, með að allt þetta fólk sem fer að birtast með sín sjónvörp og ísskápa út á götu. Hvert eigum við að fara? Tjalda með Hraunvinum eða hvað fara bara á götuna? ég spyr þar sem ég hef enga hugmynd um hvað verður um mig, eftir að hafa alltaf bara unnið eins og venjulegur íslendingur svona 120% vinnu, komið börnum mínum á legg ein og óstudd eins og það er nú oft um grýttan veg að fara, ég spyr hvernig endar líf manneskju sem bara hefur farið að reglum samfélagsins og er að upplifa ótta þess heimilislausa innan tíðar, en mitt heimili fer á uppboð fyrir jól. Já takk aftur frábæru gaurar...ég kýs ykkur örugglega næst.........
![]() |
Skuldamálin ekki kláruð fyrir jól |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.9.2013 | 12:03
Hvað Virk gerði fyrir mig!
Virk er snilldarstofnun, sem ég var svo lánsöm að frétta af, þegar ég var búin að vera atvinnulaus í einhvern tíma, en ég er ein þeirra heppnu sem hef getað nýtt mér þeirra aðstoð undanfarin ár, en ég hef verið atvinnulaus meira og minna frá 2008, og það hefur ekki góð áhrif á mann að vera atvinnulaus til lengdar.
Hjá Virk er hins vegar frábær hópur fólks með mikla reynslu og þekkingu í að byggja upp brotið fólk, en maður brotnar óhjákvæmilega bara við það eitt að missa vinnuna, þó svo maður viti ekki framhaldið, sem er einskonar rússíbanareið í leiðindum er maður fer að hætta að standa í skilum og hefur ekki kost á því að standa við þær skuldbindingar sem maður gerði á tímum, er maður hafði laun og heilsu. En heilsan er nú ekki sjálfgefin, því eftir langvarandi óvissu og kvíða, þá gefur sig eitt og annað í líkamanum.
Fyrst eftir atvinnumissinn leit ég nú bara á það sem kærkomið frí, enda aldrei fengið svona langt launað frí og alltaf unnið miklu meira en bara 100% vinnu, þannig að ég var bara sátt. Ég skellti mér í langþráð nám og ætlaði svo bara að sigra heiminn með nýja þekkingu að vopni.
Lífið var nú ekki svo einfalt, eftir leit að vinnu í heilt ár, þá fer sjálfsmatið að brotna og kvíðinn að taka völdin, þar sem ég hef verið skilvís fram að þessum harmleik sem ég kýs að kalla það að missa vinnuna og umslögin frá Motus og Intrum streymdu inn um lúguna, var staðan orðin þannig að ég þorði ekki að opna póstinn, og þá varð ég nú að gera eitthvað. Ég fór til þeirra í Virk og var strax send á sjálfstyrkingarnámskeið. Send í Kvíðameðferðarmiðstöðina KMShttp://www.kms.is/ og fór ég þar í viðtöl hjá Helenu Jónsdóttur sem ásamt Kristbjörgu Leifsdóttur hjá Virk hafa algerlega bjargað lífi mínu,með þeim hætti að vera mínar stoð og styttur og hamrað á því við mig að ég kom mér ekki í þessa aðstöðu sjálf og þannig slegið á samviskubitið sem mann nagar, því jú þegar vinir og fjölskylda hafa skrifað uppá ábyrgðir fyrir mann og ég ekki í samningastöðu vegna lágra launa. Gott að heyra frá öðrum að ég sé ekki með einbeittan brotavilja gagnvart lánadrottnum og ég hafi ekki stjórn á þessum aðstæðum sem ég er í núna, heldur séu þær tilkomnar vegna stöðu í þjóðfélaginu og ekkert sem ég get gert, nema að hugsa um framtíðina og reyna að koma mér á þann stað í lífinu að ég óttist ekki nýjan dag.
Hef náð að bjarga bílnum mínum úr klóm tryggingarfélagsins, en ég skuldaði tæplega 10% af upphaflegu skuldabréfi sem á honum hvíldi og fékk að kaupa hann af tryggingarfélaginu á verði eftirstöðva bréfsins. Svo þar var mér létt á alla vega bílinn minn gamla og góða. Svo er að finna út hvað er til ráða er íbúðin fer á uppboð, en það er alla vega seinni tíma vandamál og það hef ég lært að vera ekki að velta mér upp úr einhverju sem ég ekki fæ breytt...leita frekar af leiguíbúð með vetrinum.
Þetta hafa þær hjálpað mér að gera, með því að einangra vandann og halda utan um það sem ég fæ breytt, sleppa hinu og nú er ég búin að fá fyrri krafta og heilsu og stend styrkum fótum við atvinnuleit, enda í góðum höndum hjá Virk.
Vil benda fólki í sömu stöðu og ég að gefast ekki upp, heldur bara fá hjálp. Tala við fólkið í Virk, sem er að vinna í þessum málum alla daga. Ég er alla vega á betri stað í dag, en þegar ég byrjaði hjá Virk og vil þakka þeim stuðninginn, og skilninginn á stöðu minni og met að þær sleppa ekki af mér hendinni strax.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.9.2013 | 14:46
Lífið í "Skjaldborginni"
Lífið í skjaldborginni, er líf sem ég óska engum að lifa í, en í dag 2013 eru svo margir annmarkar á því að hægt sé að láta sér líða vel að ég veit ekki alveg hvar skal byrja.
Ég er ein þeirra sem missti vinnuna mína í hruninu 2008, enda starfsmaður í Íslandsbanka á þeim tíma og var nú ekki ein um það, enda hundruðir sem lentu í því líka, en hef ég þó verið það heppin að fá vinnu af og til tímabundið. Þar sem ég hef sl. 30 ár starfað á fjármálamarkaði eingöngu, þá eru nú ekki miklar líkur að fá vinnu við mitt hæfi, enda ennþá verið að segja upp fólki í banka og fjármálageiranum.
Ég nýtti þó minn tíma í að læra aðra starfsgrein sem ég taldi að mundi gefa af sér vinnu þegar fram líða stundir í ferðamálageiranum og bind ennþá vonir við að fá vinnu í þeim geira.
Nú þar sem ég hef alla mína ævi verið hinn skilvísi greiðandi og bætti við mig vinnu, ef ekki dugðu launin fyrir dagvinnuna, þá er mjög skrítið að lenda í því fyrir "fyrrum skilvísan strangheiðarlegan" bankamann að vera allt í einu komin í vanskil út um allan bæ og vera meðhöndluð sem ég hef aldrei upplifað áður sem einskonar "skuldaglæpon" eins og ég hafi komið mér í þessa stöðu sjálf með einbeittum brotavilja. Enginn samningavilji er fyrir hendi hjá stofnunum, enda svo sem ekki mikið um að semja með kr. 153 þús útborguð laun sem atvinnuleysingi.
Ég upplifi að sjálfsögðu kvíða fyrir framtíðinni, en hvað verður um mann, þegar íbúðin fer á uppboð. Get ekki alveg skilið hvað verður um allt það húsnæði sem fer á uppboð, ég er búin að skoða leigumarkaðinn og hjálp með þessi laun hef ég efni á kjallaraherbergi. Ég sem hélt alltaf að ég mundi lifa ágætislífi og hætta að þurfa að basla þegar börnin mín væru komin á legg, hef borgað minn viðbótarlífeyrissparnað, sem er nú að mestu uppurinn, þar sem ég er búin að taka hann út á þessum árum atvinnuleysis.
Allstaðar finnst mér ég lenda á vegg, ég hef þurft að borga tryggingar af bílnum mínum fyrirfram kr. 155 þús, þar sem mér er að sjálfsögðu ekki treystandi til að borga þær smátt og smátt svona atvinnulaus og siðlaus sem ég hlýt að vera. Það er ekki gott þegar það eru rúmlega mánaðarlaunin mín. Ég var líka rekin úr greiðsluskjóli vegna vangetu til að standa í skilum, en ég lenti í óvæntri greiðslubyrði vegna fjölskyldumála og það er ekki leyfilegt í greiðsluskjólinu. Svo nú velti ég framhaldinu fyrir mér. Hvað verður um okkur þetta venjulega fólk sem lendir í þeim harmleik að missa vinnuna og lendir í þeirri stöðu að allar okkar skuldbindingar eru vanefndar og allt það góða fólk sem í góðri trú skrifar uppá ábyrgðir okkur til handa, enda við ekki orðnir meintir "fjármálaóreiðumenn" á þeim tíma er til skuldarinnar var stofnað, hvar stendur það gagnvart okkur?
Ég vona að mér verði bjargað úr þessari Skjaldborg, kæri mig ekki um að vera hérna, enda ekki gott að vera hérna. Bíð ennþá spennt eftir áhyggjuminna lífi þegar fram liða stundir og skrifa þetta aðeins til að benda á stöðu okkar, en alltaf er verið að tala um að bæta stöðu skuldsettra heimila, ég hef ekki séð mína stöðu batna ennþá.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.8.2013 | 16:34
Er hættulegt í ræktinni?
Já það getur verið það, alla vega í mínu tilfelli, en sá voveiflegi atburður átti sér stað í dag í ræktinni minni að ég féll við fót á hlaupabretti, sem ég hélt reyndar að væri bara lélegur brandari, en í mínu tilfelli gerðist þetta með eftirfarnandi hætti:
Það voru örfáir í ræktinni sem betur fer, en ég kom labbandi að bretti við hliðina á konugreyi sem var hin rólegasta að labba, ég steig uppá brettið og viti menn, einhver hafði væntanlega skilið það eftir á pásu,(Takk fyrir það sá sem það gerði) svo það fór af stað og ég datt á hnén, uppá brettið og ætlaði að reyna að forða mér frá athylgi svo ég datt nettlega ( lesist hlunkaðist) útá næsta bretti, jú einmitt brettið sem konan var á og þar sem maður er ekkert fis þá stöðvaðist brettið hennar, hún stökkk eins og körfuboltamaður yfir mig og bjargaði sér frá falli, kom algerlega ósködduð út úr þessu, en ég er hins vegar líklega brotin á vísifingri annarrar handar og marin á tám og hnjám.
Mæti á morgun samt sem áður, en þá hugsanlega í frauðplasti, með hjálm og markmannshanska í öryggisneti til að vera viss....en hreyfing er góð, þarf bara að velja rétta tegund!
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.1.2013 | 15:07
Leynist lítill Stenmark í Stelpunni?
Nei ég held ekki. Skíðaferill minn spannar nú alveg 25 ár, en eiginlega er hægt að "súmma" hann upp í 3 ferðir, sem allar enduðu með skelfingu.
Taka 1. Ég giftist inní hvílíka skíðafjölskyldu að það hálfa væri meira en nóg, eiginmaður minn var svona Stenmarkstýpan, með allt á tæru og skíðin eins og eðlileg framlenging á fótunum. Nú skyldi farið með barnunga brúðina sína á Akureyri í skíðaferð, leigð voru handa mér skíði og öll stórfjölskyldan mætt í fjallið klukkan 9:00 á staðartíma. Ég gekk með skíðin að lyftunni og eiginmaðurinn sagði komdu með mér í stólinn. Já já þetta hljómaði nú ekkert svo illa, ég gat hæglega setið í einhverjum stól og látið flytja mig þarna upp á topp. En guð minn góður mig sundlaði, og ég fraus og missti á einhverjum tíma meðvitundina, ég er svo lofthrædd. Svo þegar upp var komið og honum tókst að opna slána, sem ég var föst við og ýta mér út úr sætinu, ég man ekkert þegar hér var komið, enda stjörf af hræðslu. En jú jú mér tókst að renna mér niður brekkuna (stallinn) og fannst þetta nú ekki mikið mál, en þá var allt fjallið eftir.
Stenmark (eiginmaðurinn) kenndi mér að fara í plóg og ég gerði það, myndaði svona þrefalt V og held að fæturnir hafi verið í sitthvoru póstnúmerinu, svo góðan plóg tók ég.... hann var nú ekki sá þolinmóðasti og þegar ég ætlaði að bremsa einhverju sinni með tánni, þá vildi ekki betur til en að ég festi tána í skafli og sneri mig og fékk þar með mín fyrstu íþróttameiðsli. Nú ég komst niður með því að labba á hlið og beit á jaxlinn, þar sem mig verkjaði svo í hnéð. Komst við illan leik niður á plan og ætlaði úr þessu spaðarusli, en úps! þá fór ég af stað, aftur á bak og yfir götu og út í grjót og endaði á góðum hnullung, ég hélt nú að þarna væru dagar mínir taldir. Ég settist öll "krambóleruð" og skíðaferðin hjá mér á enda, þegar Stenmark kom og spurði hvað ég væri að gera hérna megin fjallsins....Skoða steina hvæsti ég milli tannanna, og eftir það var ég á hótelinu að passa börn, með hækjur.
Taka 2. Allmörgum árum síðar, ákvað vinnustaðurinn minn að halda í skíðaferð og vinkona mín hvatti mig að koma, enda hún alinn upp á Akureyri og væntanlega fæðst með skíðin á löppunum. Ég hugsaði nú með mér, ég er þroskaðri en síðast og verð ein, enginn Stenmark að siða mig og kenna, hann ætlaði að vera heima með skíðabörnin sem voru komin í heiminn og voru lasin. Jú ég ætla get og skal. Átti þessi splunkunýju ónotuðu skíði, sem ég tók með mér. Leggjandi allt mitt traust á vinkonu mína, sem sagði mér að hoppa allt í einu, þegar upp var komin, en ég var þá meðvitundarlaus, þar sem lofthræðslan hafði greinilega ekki "þroskast" af mér. Stökktu sagði hún stökktu! en ég var komin framhjá og var að fara niður aftur, guð minn góður átti ég eftir að deyja hérna, svo ég stökk rétt áður en ég kom að niðurferðinni og jú jú þetta var í lagi, lenti bara vel eftir stökkið, en datt svo aftur á skíðin í "slow motion" og nema hvað ég rann af stað, inní þvöguna hjá vinnufélugunum, sem voru að opna kampavín í tilefni þess að allir voru komnir upp. Ég tók nokkra vinnufélaga með mér og festi stafina mína í öðrum. Kolla vinkona mín öskraði og öskraði farðu í plóginn...hvernig átti ég að gera það með rassinn á afturhluta skíðanna. Ferðin jókst og fólkinu tókst fimlega að losa sig undan mér, en ég hélt áfram að renna. Kemur þá ekki engill sem var að vinna mér mér, afskaplega druslulegur greyið, hafði greinilega lent fyrir skíðastaf (num mínum) og renndi hann sér fyrir framan mig og stöðvaði mig, reisti mig við og fór með mig í plóg niður. Ég elska þennan mann enn í dag, en ber við minnisleysi hver þetta var, enda ekki alveg með á nótunum. Ég var töskuberi, það sem eftir lifði ferðarinnar.
Taka 3. Nú þar sem skíðabörnin okkar fengu skíði í vöggugjöf, var alltaf sama viðkvæðið um helgar, komum uppí fjall!!! Ég var búin að nota allar slíkar helgar í bráðatiltekt og allskonar svo ég þyrfti ekki að fara með, en börnin mín voru svo spennt að sína mömmu sinni hvað þau voru klár, svo ég lét til leiðast, ef þau gætu þetta, þá hlyti ég að vera með eitthvað skíðagen í mér. Ég fór í barnabrekkuna og tókst að bæta mig verulega, var komin með báða fæturna í sama póstnúmer, nánast hætt í plógnum, og er að renna mér niður í 5 sinn, alveg brosandi stolt og sá að börnin mín voru það líka, þegar þau þeystust fram hjá mér í hraðlyftu, ég var í byrjendalyftunni. Þar sem ég hugsaði með mér já þetta er líklega að koma, þá fann ég allt í einu hræðilegan sársauka í rassi og læri og hafði ég fengið einn lítinn skíðasnilling inní bakið á mér, og við ultum niður brekkuna með skíðin í ruglinu og stafina í ennþá meira rugli. Stenmark kom nú og leysti okkur í sundur, nema hvað skíðin mín fóru sjálf niður á meiri hraða, en þau höfðu prufað áður. Ég var marin frá kálfa og uppá haus, og gat ekki legið í viku, tók þessi glansandi fínu skíði og pakkaði þeim niður og beið í bílnum þar til fjölskyldan var búin að fá nóg.
Ég lánaði skíðin mín, vinkonu sonar míns og bað hana að skila þeim ekki aftur í bráð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.1.2013 | 23:47
Dauði húsmóðurinnar.
Núna er ég búin að já mig sigraða, ég er ekki sérstök húsmóðir og verð það aldrei. Eiginlega verð ég að segja að ég sé búin að tapa endanlega því, sem heitir "húsmóðursgen", sem ég hélt mig hafa, en hef þó orðið áþreifanlega vör við það í gegnum tíðina, hvað ég slepp vel við bakstur og fleira í öllum veislum á vegum fjölskyldunnar. Kannski verið að reyna að segja mér eitthvað. Fyrir ári, brenndi ég heimilið á aðfangadag, sauð Farmers Market peysu dótturinnar og eyðilagði kalkún.
Þegar dóttir mín sagði við mig um daginn, að hún hefði verið að tala við vinkonur sínar búsettar á Ítalíu um hvað þær söknuðu mömmumatarins, þegar þær eru á Ítalíu, þá hafi hún ekki munað eftir neinu sem hún saknaði. Þetta stakk í hjartað, en bíddu við hvað með rjúpurnar mínar og frægu ísana mína hugsaði ég? Ég hef á hverju ári gert sítrónuís sem ég taldi að allir elskuðu, en ég hef haldið að þeir væru partur af hefð og börnin mín mundu nú um ókomin ár biðja um sítrónuísinn minn góða.
Nú í ár skyldi nú verða boðið uppá óaðfinnanlegan mat, lax, endur og sítrónuís og ég ætlaði að tæma ótal sítrónur og fylla með hinum bragðgóða ís, hef nefnilega ekki nennt því undanfarið og frekar skellt ísnum í form. Nei "Ala Italia Gelate limone" skyldi það verða.
Ég fékk Helenu fósturdóttur mína til að tæma 20 sítrónur og lagði upp með bros á vör í svuntu með sítrónuskreytingu á (til að peppa upp stemminguna) og hlustandi á jólalög í útvarpinu og í fínu jólaskapi og ekki aðeins skyldi gerður sítrónuís heldur mundi ég "henda í nokkrar lakkrístoppa" í leiðinni úr hvítunum sem gengu af.
Nú nú ég fann upp nýtt ráð til að fá sítrónurnar til að haldast uppréttar í frystinum og setti þær í eggjabakkana sem tæmdust óðum. Setti stuffið í frystinn og lokaði, en heyrði þá hljóð sem sagði mér að bakkinn hefði ekki haldið sítrónunum og jú jú það reyndist rétt, ísinn lak niður 2 hæðir í frystinum. Ég lét þetta ekkert á mig fá, þreif þetta upp, með einbeittan vilja um að takast betur upp næst, þá setti ég sítrónurnar í glös, ætlaði svo að loka mjög varlega, en missti óvart skúffuna niður á gólf, enda allt svo sleipt eftir ísinn sem ekki var hægt að þrífa allan af, þar sem hann fraus fastur um leið og ég reyndi að þurrka hann upp. Nú var gólfið allt í ís og glerbrotum. Við Helena náðum þó í 5 sítrónuísa og þeir eru ennþá inní ísskáp.??
Já þá var komið að lakkrístoppunum, ég fengi nú alla vega slatta úr þessum 20 eggjahvítum, fann uppskriftina, en átti ekki sykur og púðursykurinn var allur grjótharður, en ég kunni nú ráð við því, setti hann í skál með vatni í örbylgjuofn, en illa gekk að þeyta hann með hvítunum svo topparnir láku út um allt, en ég fann ráð við því með því að skella í smá flórsykri. Þetta fór þó svo að botninn var fastur við plötuna og topparnir lausir ofan á eins og lok. En þær voru góðar bara ekki hægt að borða þær, nema með skeið. Það eru enn til svona lakkrístoppakurl.
Ég gafst upp og tók deigið sem ég hafði keypt í Ikea, setti það á bökunarpappír og lét Það á rimlagrind og þær komu út eins og bugður, en brögðuðust bara vel skilst mér.
Ég játa mig sigraða upp og gerist styrktaraðili Jóa Fel. Set fagmann í verkið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.6.2012 | 18:04
Kona fer til læknis? Eða ætti hún nokkuð að gera það?
Ég fékk slæmsku í magann fyrir rúmu ári síðan og fór til heimilislæknis. Sem er nú ekki í frásögur færandi, nema að ég er ekki með neinn ákveðinn lækni, þar sem tískustraumar í læknamálum í mínu bæjarfélagi er þannig að það eru nýútskrifuð læknabörn sem eru í 4 mánuði í senn og ekki fastur læknir í mínu tilfelli á þessum tíma.
Þetta er slæmt ef maður stríðir við einhvern heilsubrest. Ég fór sem sagt með magavesenið mitt til læknis og fékk þá spurningu hvort ég ætti ekki vini? jú jú alveg nóg af þeim, ég var sem sagt ekki þangað komin til að borga 1000 kr. fyrir tjatt. Já sagði hann unglingsstúlkur lenda nú oft í svona og þá vantar þeim kannski vin og geta hringt í síma rauða krossins. Já sagði ég og benti honum á þá staðreynd að ég væri 54 ára gömul. Honum var alveg sama, nennti mér sko ekki.
Já ég er með magaverk og niðurgang! sagði ég og hann horfði nú á mig með svipnum, já já þessi týpan veit allt, sjúkdómsgreinir sig sjálf bara. Já setjum þig á þunglyndislyf.....já og þá lagast niðurgangurinn spurði ég eins og fáviti? Skoðum málið sagði hann og sendi mig heim með þunglyndislyf.
Ég fór heim og eftir nokkra daga googlaði ég þetta lyf, sem var við m.a. geðklofa, og hafði hugsanlega eftirtaldar aukaverkanir með í för og skyldi hætta inntöku lyfs strax yrði þeirra vart:
Munnþurrkur, já ég gat ekki talað fyrir bómull í munni,
Sjáanleg útbrot ( Nú nú voru þetta ekki mislinga og rauðir hundar sem komu hvert á eftir öðru)
Bjúgur var einn af aukaverkununum...aha þarna kom það af hverju ég þrýstist út um öll fötin mín eins og Michelin karlinn.
Já svo kom aukaverkunin sem varð til þess að ég staldraði við. Ef þú ert með aukna svitamyndun og hjartaflökt, þá skaltu leita læknis tafarlaust og hætta að taka lyfið.. og þarna sem ég rann um allt borð vegna sveittra bjúgóttra handleggja með hjartslátt um allt meira að segja í hárinu, þá sagði ég nú hingað og ekki lengra.
Ég var enn slæm í maganum, en núna var ég með fullt af allskona fríum aukaverkunum.
Kona á mínum aldri á ekki að fara til læknis, frekar að fara bara með sjúkrabíl á bráðamóttöku og segjast vera með verk fyrir brjósit, ætli þeir mundu amputera af mér löppina þá???
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
4.6.2012 | 20:05
Vatnslásinn stýflaði, eða hvað?
Það stýflaðist hjá mér eldhúsvaskurinn núna um helgina, ekki að það sé neitt tiltökumál, en þegar maður er ekkert vel að sér í uppbyggingu pípulagna, þá getur þetta verið stórmál í tilfelli eins og hjá mér.

Hélt nú ekki að þetta væri neitt mál, bara kaupa "mistermösköl" eins og þeir auglýsa svo grimmt í sjónvarpinu, leysir upp erfiðustu stýflur og hvað gat ég hafa sett í vaskinn sem var erfiðara en að mr. muscle réði við. Ég hellti skv. upplýsingum á brúsanum helming í niðurfallið og skutlaði hinu í sturtuna, (sem forvörn) ég vil helst ekki eiga svona eitur á heimilinu, ég lét þetta bíða í niðurfallinu í eldhúsinu í sólarhring til að vera örugg og skellti svo uppþvottavélinni í gang.
Nú ekkert gerðist nema það koma allt vatnið úr uppþvottavélinni upp úr vasknum, yfir allt og niður á gólf, baneitrað mistermuskölvatn. Ég tók pott og skálar og fyllti með vatni og hellti í baðvaskinn, og alltaf streymdi þetta miður lekkera vatn uppúr vasknum.
Þá var næsta ráð að losa "vatnslásinn" ég var ekki alveg með það á hreinu hvar hann var og losaði alla hringi af öllum rörum og hreinsaði, það kom fullt af svörtu stuffi, brenndu stuffi, hver hefur sett Eyjafjallaösku í vaskinn minn? hugsaði ég og þreif og þreif, tók svo að lokum drullusokk, og hamaðist á niðurfallinu og meira stuff kom upp, en viti menn, nú var uppþvottavélin farin að leka um allt gólf. Hvernig má þetta vera, þegar ég er búin að þrífa öll rör og vatnslás og meira til.
Það þarf örugglega að brjóta upp svalirnar hjá mér, því ekki er þessi stýfla neitt á auðfinnanlegum stað.
Eigið gott kvöld, ég ætla að fara að þrífa upp vatn og athuga hvort hægt verði að brjóta upp bílaplanið ef í hart fer.

Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)