Er hættulegt í ræktinni?

Já það getur verið það, alla vega í mínu tilfelli, en sá voveiflegi atburður átti sér stað í dag í ræktinni minni að ég féll við fót á hlaupabretti, sem ég hélt reyndar að væri bara lélegur brandari, en í mínu tilfelli gerðist þetta með eftirfarnandi hætti:
Það voru örfáir í ræktinni sem betur fer, en ég kom labbandi að bretti við hliðina á konugreyi sem var hin rólegasta að labba, ég steig uppá brettið og viti menn, einhver hafði væntanlega skilið það eftir á pásu,(Takk fyrir það sá sem það gerði) svo það fór af stað og ég datt á hnén, uppá brettið og ætlaði að reyna að forða mér frá athylgi svo ég datt nettlega ( lesist hlunkaðist) útá næsta bretti, jú einmitt brettið sem konan var á og þar sem maður er ekkert fis þá stöðvaðist brettið hennar, hún stökkk eins og körfuboltamaður yfir mig og bjargaði sér frá falli, kom algerlega ósködduð út úr þessu, en ég er hins vegar líklega brotin á vísifingri annarrar handar og marin á tám og hnjám.

Mæti á morgun samt sem áður, en þá hugsanlega í frauðplasti, með hjálm og markmannshanska í öryggisneti til að vera viss....en hreyfing er góð, þarf bara að velja rétta tegund!


Leynist lítill Stenmark í Stelpunni?

Nei ég held ekki.  Skíðaferill minn spannar nú alveg 25 ár, en eiginlega er hægt að "súmma" hann upp í 3 ferðir, sem allar enduðu með skelfingu.

Taka 1. Ég giftist inní hvílíka skíðafjölskyldu að það hálfa væri meira en nóg, eiginmaður minn var svona Stenmarkstýpan, með allt á tæru og skíðin eins og eðlileg framlenging á fótunum.  Nú skyldi farið með barnunga brúðina sína á Akureyri í skíðaferð, leigð voru handa mér skíði og öll stórfjölskyldan mætt í fjallið klukkan 9:00 á staðartíma. Ég gekk með skíðin að lyftunni og eiginmaðurinn sagði komdu með mér í stólinn. Já já þetta hljómaði nú ekkert svo illa, ég gat hæglega setið í einhverjum stól og látið flytja mig þarna upp á topp. En guð minn góður mig sundlaði, og ég fraus og missti á einhverjum tíma meðvitundina, ég er svo lofthrædd. Svo þegar upp var komið og honum tókst að opna slána, sem ég var föst við og ýta mér út úr sætinu, ég man ekkert þegar hér var komið, enda stjörf af hræðslu. En jú jú mér tókst að renna mér niður brekkuna (stallinn) og fannst þetta nú ekki mikið mál, en þá var allt fjallið eftir.

Stenmark (eiginmaðurinn) kenndi mér að fara í plóg og ég gerði það, myndaði svona þrefalt V og held að fæturnir hafi verið í sitthvoru póstnúmerinu, svo góðan plóg tók ég.... hann var nú ekki sá þolinmóðasti og þegar ég ætlaði að bremsa einhverju sinni með tánni, þá vildi ekki betur til en að ég festi tána í skafli og sneri mig og fékk þar með mín fyrstu íþróttameiðsli. Nú ég komst niður með því að labba á hlið og beit á jaxlinn, þar sem mig verkjaði svo í hnéð.  Komst við illan leik niður á plan og ætlaði úr þessu spaðarusli, en úps! þá fór ég af stað, aftur á bak og yfir götu og út í grjót og endaði á góðum hnullung, ég hélt nú að þarna væru dagar mínir taldir.  Ég settist öll "krambóleruð" og skíðaferðin hjá mér á enda, þegar Stenmark kom og spurði hvað ég væri að gera hérna megin fjallsins....Skoða steina hvæsti ég milli tannanna, og eftir það var ég á hótelinu að passa börn, með hækjur.

Taka 2. Allmörgum árum síðar, ákvað vinnustaðurinn minn að halda í skíðaferð og vinkona mín hvatti mig að koma, enda hún alinn upp á Akureyri og væntanlega fæðst með skíðin á löppunum. Ég hugsaði nú með mér, ég er þroskaðri en síðast og verð ein, enginn Stenmark að siða mig og kenna, hann ætlaði að vera heima með skíðabörnin sem voru komin í heiminn og voru lasin. Jú ég ætla get og skal. Átti þessi splunkunýju ónotuðu skíði, sem ég tók með mér.  Leggjandi allt mitt traust á vinkonu mína, sem sagði mér að hoppa allt í einu, þegar upp var komin, en ég var þá meðvitundarlaus, þar sem lofthræðslan hafði greinilega ekki "þroskast" af mér. Stökktu sagði hún stökktu! en ég var komin framhjá og var að fara niður aftur, guð minn góður átti ég eftir að deyja hérna, svo ég stökk rétt áður en ég kom að niðurferðinni og jú jú þetta var í lagi,  lenti bara vel eftir stökkið, en datt svo aftur á skíðin í "slow motion" og nema hvað ég rann af stað, inní þvöguna hjá vinnufélugunum, sem voru að opna kampavín í tilefni þess að allir voru komnir upp.  Ég tók nokkra vinnufélaga með mér og festi stafina mína í öðrum. Kolla vinkona mín öskraði og öskraði farðu í plóginn...hvernig átti ég að gera það með rassinn á afturhluta skíðanna. Ferðin jókst og fólkinu tókst fimlega að losa sig undan mér, en ég hélt áfram að renna. Kemur þá ekki engill sem var að vinna mér mér, afskaplega druslulegur greyið, hafði greinilega lent fyrir skíðastaf (num mínum) og renndi hann sér fyrir framan mig og stöðvaði mig, reisti mig við og fór með mig í plóg niður. Ég elska þennan mann enn í dag, en ber við minnisleysi hver þetta var, enda ekki alveg með á nótunum. Ég var töskuberi, það sem eftir lifði ferðarinnar. 

Taka 3. Nú þar sem skíðabörnin okkar fengu skíði í vöggugjöf, var alltaf sama viðkvæðið um helgar, komum uppí fjall!!! Ég var búin að nota allar slíkar helgar í bráðatiltekt og allskonar svo ég þyrfti ekki að fara með, en börnin mín voru svo spennt að sína mömmu sinni hvað þau voru klár, svo ég lét til leiðast, ef þau gætu þetta, þá hlyti ég að vera með eitthvað skíðagen í mér. Ég fór í barnabrekkuna og tókst að bæta mig verulega, var komin með báða fæturna í sama póstnúmer, nánast hætt í plógnum, og er að renna mér niður í 5 sinn, alveg brosandi stolt og sá að börnin mín voru það líka, þegar þau þeystust fram hjá mér í hraðlyftu, ég var í byrjendalyftunni. Þar sem ég hugsaði með mér já þetta er líklega að koma, þá fann ég allt í einu hræðilegan sársauka í rassi og læri og hafði ég fengið einn lítinn skíðasnilling inní bakið á mér, og við ultum niður brekkuna með skíðin í ruglinu og stafina í ennþá meira rugli. Stenmark kom nú og leysti okkur í sundur, nema hvað skíðin mín fóru sjálf niður á meiri hraða, en þau höfðu prufað áður. Ég var marin frá kálfa og uppá haus, og gat ekki legið í viku, tók þessi glansandi fínu skíði og pakkaði þeim niður og beið í bílnum þar til fjölskyldan var búin að fá nóg.

Ég lánaði skíðin mín, vinkonu sonar míns og bað hana að skila þeim ekki aftur í bráð. 


Dauði húsmóðurinnar.

Núna er ég búin að já mig sigraða, ég er ekki sérstök húsmóðir og verð það aldrei. Eiginlega verð ég að segja að ég sé búin að tapa endanlega því, sem heitir "húsmóðursgen", sem ég hélt mig hafa, en hef þó orðið áþreifanlega vör við það í gegnum tíðina, hvað ég slepp vel við bakstur og fleira í öllum veislum á vegum fjölskyldunnar. Kannski verið að reyna að segja mér eitthvað.  Fyrir ári, brenndi ég heimilið á aðfangadag, sauð Farmers Market peysu dótturinnar og eyðilagði kalkún.

Þegar dóttir mín sagði við mig um daginn, að hún hefði verið að tala við vinkonur sínar búsettar á Ítalíu um hvað þær söknuðu  mömmumatarins, þegar þær eru á Ítalíu, þá hafi hún ekki munað eftir neinu sem hún saknaði. Þetta stakk í hjartað, en bíddu við hvað með rjúpurnar mínar og frægu ísana mína hugsaði ég?  Ég hef á hverju ári gert sítrónuís sem ég taldi að allir elskuðu, en ég hef haldið að þeir væru partur af hefð og börnin mín mundu nú um ókomin ár biðja um sítrónuísinn minn góða.

Nú í ár skyldi nú verða boðið uppá óaðfinnanlegan mat, lax, endur og sítrónuís og ég ætlaði að tæma ótal sítrónur og fylla með hinum bragðgóða ís, hef nefnilega ekki nennt því undanfarið og frekar skellt ísnum í form. Nei "Ala Italia Gelate limone" skyldi það verða. 

Ég fékk Helenu fósturdóttur mína til að tæma 20 sítrónur og lagði upp með bros á vör í svuntu með sítrónuskreytingu á (til að peppa upp stemminguna) og hlustandi á jólalög í útvarpinu og í fínu jólaskapi og ekki aðeins skyldi gerður sítrónuís heldur mundi ég "henda í nokkrar lakkrístoppa" í leiðinni úr hvítunum sem gengu af. 

Nú nú ég fann upp nýtt ráð til að fá sítrónurnar til að haldast uppréttar í frystinum og setti þær í eggjabakkana sem tæmdust óðum. Setti stuffið í frystinn og lokaði, en heyrði þá hljóð sem sagði mér að bakkinn hefði ekki haldið sítrónunum og jú jú það reyndist rétt, ísinn lak niður 2 hæðir í frystinum. Ég lét þetta ekkert á mig fá, þreif þetta upp, með einbeittan vilja um að takast betur upp næst, þá setti ég sítrónurnar í glös, ætlaði svo að loka mjög varlega, en missti óvart skúffuna niður á gólf, enda allt svo sleipt eftir ísinn sem ekki var hægt að þrífa allan af, þar sem hann fraus fastur  um leið og ég reyndi að þurrka hann upp. Nú var gólfið allt í ís og glerbrotum. Við Helena náðum þó í 5 sítrónuísa og þeir eru ennþá inní ísskáp.??

 Já þá var komið að lakkrístoppunum, ég fengi nú alla vega slatta úr þessum 20 eggjahvítum, fann uppskriftina, en átti ekki sykur og púðursykurinn var allur grjótharður, en ég kunni nú ráð við því, setti hann í skál með vatni í örbylgjuofn, en illa gekk að þeyta hann með hvítunum svo topparnir láku út um allt, en ég fann ráð við því með því að skella í smá flórsykri. Þetta fór þó svo að botninn var fastur við plötuna og topparnir lausir ofan á eins og lok. En þær voru góðar bara ekki hægt að borða þær, nema með skeið. Það eru enn til svona lakkrístoppakurl.

Ég gafst upp og tók deigið sem ég hafði keypt í Ikea, setti það á bökunarpappír og lét Það á rimlagrind og þær komu út eins og bugður, en brögðuðust bara vel skilst mér. 

Ég játa mig sigraða upp og gerist styrktaraðili Jóa Fel. Set fagmann í verkið. 


Kona fer til læknis? Eða ætti hún nokkuð að gera það?

Ég fékk slæmsku í magann fyrir rúmu ári síðan og fór til heimilislæknis. Sem er nú ekki í frásögur færandi, nema að ég er ekki með neinn ákveðinn lækni, þar sem tískustraumar í læknamálum í mínu bæjarfélagi er þannig að það eru nýútskrifuð læknabörn sem eru í 4 mánuði í senn og ekki fastur læknir í mínu tilfelli á þessum tíma.

Þetta er slæmt ef maður stríðir við  einhvern heilsubrest. Ég fór sem sagt með magavesenið mitt til læknis og fékk þá spurningu hvort ég ætti ekki vini? jú jú alveg nóg af þeim, ég var sem sagt ekki þangað komin til að borga 1000 kr. fyrir tjatt. Já sagði hann unglingsstúlkur lenda nú oft í svona og þá vantar þeim kannski vin og geta hringt í síma rauða krossins. Já sagði ég og benti honum á þá staðreynd að ég væri 54 ára gömul. Honum var alveg sama, nennti mér sko ekki.

Já ég er með magaverk og niðurgang! sagði ég og hann horfði nú á mig með svipnum, já já þessi týpan veit allt, sjúkdómsgreinir sig sjálf bara.  Já setjum þig á þunglyndislyf.....já og þá lagast niðurgangurinn spurði ég eins og fáviti?  Skoðum málið sagði hann og sendi mig heim með þunglyndislyf.

Ég fór heim og eftir nokkra daga googlaði ég þetta lyf, sem var við m.a. geðklofa, og hafði hugsanlega eftirtaldar aukaverkanir með í för og skyldi hætta inntöku lyfs strax yrði þeirra vart:

Munnþurrkur, já ég gat ekki talað fyrir bómull í munni,

Sjáanleg útbrot ( Nú nú voru þetta ekki mislinga og rauðir hundar sem komu hvert á eftir öðru)

Bjúgur var einn af aukaverkununum...aha þarna kom það af hverju ég þrýstist út um öll fötin mín eins og Michelin karlinn.

Já svo kom aukaverkunin sem varð til þess að ég staldraði við. Ef þú ert með aukna svitamyndun og hjartaflökt, þá skaltu leita læknis tafarlaust og hætta að taka lyfið.. og þarna sem ég rann um allt borð vegna sveittra bjúgóttra handleggja með hjartslátt um allt meira að segja í hárinu, þá sagði ég nú hingað og ekki lengra.

Ég var enn slæm í maganum, en núna var ég með fullt af allskona fríum aukaverkunum. 

Kona á mínum aldri  á ekki að fara til læknis, frekar að fara bara með sjúkrabíl á bráðamóttöku og segjast vera með verk fyrir brjósit, ætli þeir mundu amputera af mér löppina þá???


Vatnslásinn stýflaði, eða hvað?

Það stýflaðist hjá mér eldhúsvaskurinn núna um helgina, ekki að það sé neitt tiltökumál, en þegar maður er ekkert vel að sér í uppbyggingu pípulagna, þá getur þetta verið stórmál í tilfelli eins og hjá mér.

stifla_061204

  

Hélt nú ekki að þetta væri neitt mál, bara kaupa "mistermösköl" eins og þeir auglýsa svo grimmt í sjónvarpinu, leysir upp erfiðustu stýflur og hvað gat ég hafa sett í vaskinn sem var erfiðara en að mr. muscle réði  við.  Ég hellti skv. upplýsingum á brúsanum helming í niðurfallið og skutlaði hinu í sturtuna, (sem forvörn) ég vil helst ekki eiga svona eitur á heimilinu, ég lét þetta bíða í niðurfallinu í eldhúsinu í sólarhring til að vera örugg og skellti svo uppþvottavélinni í gang.

Nú ekkert gerðist nema það koma allt vatnið úr uppþvottavélinni upp úr vasknum, yfir allt og niður á gólf, baneitrað mistermuskölvatn. Ég tók pott og skálar og fyllti með vatni og hellti í baðvaskinn, og alltaf streymdi þetta miður lekkera vatn uppúr vasknum. 

Þá var næsta ráð að losa "vatnslásinn" ég var ekki alveg með það á hreinu hvar hann var og losaði alla hringi af öllum rörum og hreinsaði, það kom fullt af svörtu stuffi, brenndu stuffi, hver hefur sett Eyjafjallaösku í vaskinn minn? hugsaði ég og þreif og þreif, tók svo að lokum drullusokk, og hamaðist á niðurfallinu og meira stuff kom upp, en viti menn, nú var uppþvottavélin farin að leka um allt gólf. Hvernig má þetta vera, þegar ég er búin að þrífa öll rör og vatnslás og meira til.

Það þarf örugglega að brjóta upp svalirnar hjá mér, því ekki er þessi stýfla neitt á auðfinnanlegum stað.

Eigið gott kvöld, ég ætla að fara að þrífa upp vatn og athuga hvort hægt verði að brjóta upp bílaplanið ef í hart fer. 

drulli

Mæðradagurinn

Í dag er mæðradagurinn og allir keppast við að vera góðir við mömmur sínar og ömmur, þeir sem ennþá eiga mömmur, en við eigum nú flest bara eina mömmu. Ég missti mína mömmu fyrir u.þ.b. mánuði síðan og sakna hennar mjög mikið og sérstaklega  í dag á mæðradaginn, en ég fór nú oftast með blóm til hennar og köku á þessum degi, í gegnum tíðina.

Ein góð vinkona mín sagði við mig fyrir nokkrum árum, ef við erum góð við foreldra okkar, þá auðveldar það svo missinn, þegar þau falla frá. Ég veit það nú ekki alveg í dag finnst mér missirinn erfiður, en þó hlýtur manni að vera rórra í hjartanu, hafi maður verið til staðar og gert sitt besta meðan foreldranna nýtur við

Svona daga,sem eru hugsanlega uppfundnir af blómasölumönnum, eigum við að vera þakklát fyrir og ættu að ýta undir okkur með að sinna því sem máli skiptir í lífinu, sem eru foreldrar okkar.

Mamma Stenna katla og petra

Mömmur elska börnin sín án skilyrða og ekkert er þeim óviðkomandi, hversu smálegt sem það kann að virðast og það að geta talað við mömmu sína um allt og ekkert og hún sýnir öllum málum jafnmikinn áhuga eins og um lausn á heimsmálunum væri að ræða, er ómetanlegt.

 Verum góð við foreldra okkar og sýnum þeim virðingu og ást, því við erum það í dag, sem þau hafa gert okkur að og eigum við þeim allt að þakka.

Elsku mamma mín var yndislegust allra og sakna ég hennar alveg ofboðslega í dag.  Takk fyrir svona daga, þeir vekja mann til umhugsunar, með eða án blóma. 


Veróna eða "piccola Roma" eins og hún er stundum kölluð.

Ég keyrði inní Veróna á páskadag, kom úr sólinni í norðri og lenti í úða í Veróna, en samt var nú margt um manninn þarna, enda páskar og margir á ferðalagi á þeim tíma. þegar maður kemur að borginni er hlið með varðturni sem hefur væntanlega varðað alla aðkomugesti til borgarinnar á árum áður.

hlið

 Stuttu eftir að komið er í gegnum hliðið er torgið Piazza Bra, þar er hin 2000 ára gamla  fræga Arenan, þar sem óperusýningar fara fram undir beru lofti á sumrin, Kristján Jóhannsson hefur m.a. haldið tónleika þar á árum áður. Ég missti því miður af þeim tónleikum, enda á þeim tíma, þótti mikilvægara að ná sér í sól fyrir allan peninginn.

070

 

Eins og sjá má er blautt, en þó var röð í hringleikahúsið, en ekki var nú farið inní það í þetta sinn, en bíður það tækifæris, þegar hægt er að slá 2 flugur í einu höggi og sjá flotta óperu, eða bara tónleika með einhverjum flottum listamanni og skoða leikvanginn.

Ekki er hægt að fara til Verona án þess að kíkja á svalirnar hennar Júlíu, en þær eru nú ósköp litlar og ómerkilegar, en vinsæll viðkomustaður ástfanginna para, sem setja á vegg elskenda beiðni um eilífa ást eða eitthvað annað bráðnauðsynlegt, og er það fest með tyggjói, þegar ég kom þarna var greinilega búið að taka alla miðana, en sagt er að það séu nokkrir sjálfboðaliðar sem taki að sér að lesa og jafnvel svara bréfunum, og hefur verið gerð mynd um þennan vegg "Letters to Juliet" í garðinum er svo bronsstytta og allir sem hafa óskað sér þurfa að snerta vinstra brjóst styttunnar, til að óskin rætist, ég sleppti því nú enda hafði ég ekki komið með neina ósk á vegginn sem var ein tyggjóklessa, örugglega ekki mjög hreinlegt, en sjarmerandi.

046

 Verona_Lover__s_wall_by_fotofrecciaHér er svo veggurinn án miða og með miðum, mjög skemmtileg að skoða, en ekki snerta. Svo er Piazza Erbe,skammt frá garði Júlíu og er það rosalega skemmtilegt torg, þar sem úir og grúir af allskonar sölubásum, með markaðsstemmingu og kaffihús og matsölustaðir þétt staðsettir meðfram öllu torginu, við fengum okkur vínglas á upphituðum stað, meðan mesta úrhellið gekk yfir  áður en við heimsóttum sjálfan Dante, en styttan stendur á torgi sem var nú algerlega marautt, enda allir komnir í skjól undan regninu á kaffihúsin í kring, en Dante stóð þarna sína pligt, en heldur var hann einmanna karlinn í regninu.

Veróna er þannig borg, að manni finnst hún vera svona smábær, enda ekki nema um 270 þús íbúar á svæðinu, en á þessum páskadegi, var hún nú ansi fjölmenn, þrátt fyrir smá úrhelli, þá er mjög gaman að koma til Veróna, enda öll smærri í sniðum en Róm, en samt með söguna á bak við sig. Við höfðum síðan hugsað okkur að borða á þeim "fræga" stað 12 Apostoli, þar sem víntegund er nefnd eftir Diddú okkar að mér er sagt,  en það þarf að bíða betri tíma, þar sem betra er að panta borð með fyrirvara. 

Veróna rómantíska borgin verður nú heimsótt aftur þó síðar verði. 


Bíladólgar fjölskyldunnar.

Ég hef aldrei gert mig út sem einhvern frábæran ökumann, sérstaklega ekki eftir að vinkonur mínar hafa í gegnum tíðina verifð að skjóta á mig í hvert sinn sem þær sitja í bíl með mér. Kalla mig Schumacker eða hvað hann nú heitir.

Held reyndar að þetta sé í blóðinu, jafnvel þó pabbi minn hafi verið atvinnubílstjóri í mörg ár og tjónalaus með öllu, þá held ég að við systurnar höfum ekkert endilega fengið þann bílaeiginleika í arf. Alla vega á ég systur sem keyra ekkert sérstaklega vel og frænkur sem eru jafnlélegar.

Ein frænkan gefur alltaf í á hraðahindrun (eins og henni finnist hraðahindrunin vera leið til að yfirstíga með hraða) og maður má þakka fyrir að halda tönnum og fyllingum, en ég mundi nú ekki segja að ég gengi svo langt að setja á mig hjálm vegna fyrirhugaðra höfuðmeiðsla, en nánast. Hef nú fengið ansi margar kúlurnar í ferðum með henni.

Ein er svo heppin  að hafa alveg óvart keyrt bíl inní bakarí og var það nú ekki lítill bíll heldur svona amerískur kaggi, og hún þurfti alveg að hafa fyrir því að keyra uppá gangstétt og inní gegnum glugga og hurð að afgreiðsluborðinu. Keypti einn snúð í leiðinni.

Síðan fór hún "óvart" með bensínslönguna með sér á brott frá bensínstöðinni (já það hefur í raun og veru gerst er ekki bara brandari á fb.) Sem sagt ég á ættir að rekja í annan stað atvinnubílstjóra og hins vega "ekkert sérstaklega góðra" bílstjóra.

Ég fékk sem sagt ekk sérstaklega góðu genin. Eins og ég hef áður sagt, þá erum við ég og bílar ekkert sérstaklega að "Bonda" Fyrsti bíllinn sem ég eignaðist alein var Toyota Corolla eftir sameign með eiginmanninum á allskonar bílum, sem ég tel ekki með, enda keyrði ég þá sjaldnast, heldur lét hann um málið, held líka  að hann hafi ekki alveg treyst mér, hvorki til að keyra og þá síður að rata. 

Toyotan endaði sinn feril aftan á hinum bílnum sem var í bænum um verslunarmannahelgina 1996, en held að við höfum verið þeir einu sem vorum á ferð í Reykjavík þá helgina, sá var stopp á rauðu ljósi. Ég sá hann ekki!  

Ég var núna að skoða brot í stuðaranum hjá mér, skrítið...ég hef ekki keyrt uppá gangstéttir í langan tíma..held að bíllinn minn sé of nálægt götunni, nú eða einhver vísvitandi lamið stuaðarann í sundur. Þarf að fara að huga að öruggu stæði hérna á Álftanesinu


Stórleikur í eldhúsinu

Ég verð nú að segja það að ég átti stórleik hérna í eldhúsinu áðan, er aðeins að jafna mig eftir að hafa farið hamförum hérna út um allt.

Ég var að þrífa hérna í eldhúsinu í morgun og varð á að missa eina dós af Coke Zero á gólfið. Bara litla dós, en vá hvílíkt magn í einni dós! Þar sem ég stend gráti næst og íhugi hvernig best sé að snúa sér í þessu, með lekand kók úr andlitinu og sá illa út, hélt mér hefði sortnað fyrir augum, en sá það þegar ég tók gleraugun af mér að þau voru bara öll í kóki.  

Já skipulagsgáfan mín? Hm. best að byrja á loftinu, þar sem þá mundi ég ekki vera með þennan úða yfir mig meðan ég þrifi gólfið. Gott að hafa tekið exceltíma og forgangsraða. Já eða taka mesta pollinn af gólfinu svo ég beri ekki allt út um allt?

Skemmtileg tímasetning fyrir straubrettið að láta líða yfir sig fyrir framan þvottahúshurðina og ég kemst ekki inn til að ná í moppuna, fyrr en ég brýst inn, með látum (vildi að ég gæti sagt að gleðin hafi skinið úr andlitinu) en ég hrifsaði moppuna pirruð og er búin að vera að þrífa í svona hálftíma og ég er ekkert að grínast þegar ég segi, Kókið fór allstaðar, ég er að meina það eru blettir á lofti, veggjum (inní herbergi nánast) það er allt í kóki hérna.

Varð að fá smá útrás, en þegar ég fór út með 3 poka af kókblautum eldhúsrúllum í rusl (jú jú mikið rétt, tuskurnar voru inní þvottahúsi) þá kallaði litli strákurinn í íbúðinni við hliðiðna á mér  mig STELPU og það reddaði deginum sem byrjaði nú ekki svo vel. Ég geng nú um brosandi (klínstruð) og það brakar í hverju spori, ætli kók sé gott fyrir steinagólf?

Er farin í næstu hús að kanna skemmdir vegna kóks. Hef með mér tusku.! 


Hin ýmsu hótel.

Ég er mjög ferðaglöð kona og elska að ferðast, en sá böggull fylgir skammrifi að vandasamt getur nú verið að finna sér hótel við hæfi og eru þau mörg eins og þau eru misjöfn, m.a. þess vegna skellti ég mér nú í ferðamálanám sem hjálp við komandi ferðalög og val á hótelum

Ég var á 5* hóteli í Róm hótel Gioberti og á 6 dögum sá ég 2 rottur í garðinum, sem voru á stærð við meðalkött, já voru mjög fancy rottur, en ég missti matarlystina á hóteliu og borðaði ekkert, nema sem kom í innsigluðu plasti og vökva úr innsigluðum flöskum.

Ég hef hér áður lýst hótelinu í Búlgaríu, þar sem allt var bilað og ég þurfti að kvarta svona 5 sinnum og fékk öllu bilaða dótinu skiptu út fyrir heilt, á kostnað íslensku hjónanna í næsta herbergi sem fengu öllu sínu heila dóti skipt út fyrir mitt ónýta. 

Ég pantaði líka eitt sinn hótel á Ítalíu fyrir 4 (fullorðna) og fékk micro stúdíoíbúð, sem var með litlu hjónarúmi og einum hermannabedda, sem sonurinn 189cm var settur á, en þar sem ekki var nægt pláss, þá þurfti hann að sofa með hausinn útá svölum, eða með fætur/haus inní ísskáp, hann valdi fyrsta kostinn og var skaðbrenndur þegar hann vaknaði um morguninn, þar sem við fengum morgunsólina á svalirnar. Við hins vegar 2 vinkonur og fullvaxta dóttir, þurftum að deila litla hjónarúminu, og vorum með áverka eftir nóttina, þar sem við féllum ítrekað fram á gólf, það tók nokkurn tíma að finna nýtt hótel fyrir okkur, þar sem við þurftum ekki að nota skóhorn til að koma okkur fyrir. Þetta stóð í smáa letrinu að ég hefði vísvitandi pantað þetta sýnishorn af hótelherbergi.

Ég lenti líka eitt sinn í því að frjósa næstum í hel á 4*hóteli í Köben St. Petri, en við vinkonurnar höfðum verið þar á með stórum stelpuhóp á tónleikum og greinilega var bilun í hitakerfi okkar herbergis, sem var svo sem ágætt, stundum, þegar okkar herbergi var notað sem partyupphitunarstaður fyrir tónleikana og svona, en á 3. degi var okkur nú farið að hætta að finnast fyndið þegar okkur var sagt að við værum örugglega alltaf "óvart" að setja kulda á herbergið, og á endanum hringdum við niður í lobby og báðum einhvern vinsamlegast að koma upp og vera í herberginu í 3 mínútur og ef viðkomandi þyldi við, þá mundum við hætta að kvarta.  Við klæddumst nú í öll föt sem keypt höfðu verið, fórum í náttsloppana frá hótelinu utan um til að undirstrika smá hvað okkur væri kalt, settum á okkur húfur og trefla og vettlinga og tókum á móti gaurnum, sem blánaði við það eitt að labba inní herbergið okkar og eins og hendi væri veifað, þá fengum við þá flottustu svítu sem ég hef gist í. Við vorum fljótar að brjóta grýlukertin af dótinu okkur og þeysa yfir í nýju íbúðina og bjóða öllum í frían drykk hjá rokkstjörnunum sem okkur fannst við vera, með einhvern arabískan Shake frá Saudi í næstu íbúð og LA Toya systur M.J. í næstu. Alveg sáttar við þessi skipti. 

Ég var líka með vinnuhóp á hóteli í Kaupmannahöfn við Ráðhústorgið sem var í endurnýjum, og vorum við nokkrar settar í herbergi sem var inná gangi þar sem verið var að pússa gifs af veggjunum, þannig að þegar við höfðum labbað ganginn á enda og troðið okkur í gegnum plast og stillansa og iðnaðarmenn, vorum við hvítar af dufti og eins og gangandi "ekki" flösusjamó auglýsing" og vorum kallaðr, "flösugengið"Sumir úr hópnum vour hins vegar í Louis Armstrong svítu, með sér strauherbergi, legg ekki meira á ykkur, við dvöldum mikið þar, þar sem veggfóðrið í okkar herbbergi lafði alveg ofan í rúmin okkar, svo það var ekki notalegt að sitja og spjalla í rúmum og þurfa alltaf að ýta veggfóðrinu frá andlitinu, því það var smá rok í herberginu, þar sem svo mikið ryk kom inn vegna framkvæmdanna í næstu herbergjum sem var verið að gera upp (okkar var ekki eitt af þeim) að við vorum með alla glugga opna. 

Ég hef nú lent í fleiri skemmtilegum uppákomum á hótelum um heiminn, en nóg í bili. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband