Færsluflokkur: Dægurmál

Biðlistinn á Vog sem reynt er að fegra.

Afsakið ef ég móðga ykkur og hugsanlega háttvirtan heilbrigðisráðherra en ég rakst á þessa grein í DV í dag og get ekki orða bundist. 

Fólk bara skrópar í mætingu heil 18% sem ég á bágt með að trúa.  Nema ef vera skyldi það að þegar fólkið er búið að bíða í 8 mánuði þessi litlu 700 aðilar sem eru á biðlistanum á Vog núna þá gætu nokkur % hreinlega verið látnir og hinir uppteknir í öðru og ekki með sama símanúmer og þegar lagt var af stað þ.e. glugginn til þess að fá hjálp er ekki lengi opinn og eins og ég segi fólk komið á annan stað. Ekki láta þetta líta út eins og þetta sé sjúklingunum að kenna, það er einmitt málið að ekki hafa svona í fyrsta lagi glugga sem er opinn í nokkra tíma eftir 8 mánaða bið heldur væri gott að sjá að það væri meiri möguleiki umfram þetta stutta tilboð eða að grípa fólk þegar það er tilbúið en ekki þegar hentar Vogi að taka á móti.  Ekki heldur beita refsistefnu ef viðkomandi heldur ekki út afeitrunina að þá bara afsakið þú ferð aftur á listann góði! Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að þetta eru erfiðir sjúkdómar, þess vegna er mikilvægt að við öll leggjumst á eitt og lögum þennan hluta í eitt skipti fyrir öll.

Það fækkar á biðlistanum og biðtíminn minnkar segir Willum.  Ég spyr þá af hverju er fólk þá með mætingartíma í febrúar 2024 síðan í júlí sl. ég reikna það sem 8 mánuði. Þetta er bara ekki rétt, eins og ég hef sagt oftar en einu sinni, þá er ekki alveg hægt að taka bara "Excellskjalið" á þetta og fullyrða þegar við sem glímum við þetta vandamál með okkar veika fólk vitum betur. Við teljum nú dagana þar til sjúklingurinn fær innlögn. 

Hafa ber í huga að fíknisjúkdómurinn breytir hegðun fólks og allir ekki spariklæddir með ferðatösku á tröppunum hjá Vogi 8 mánuðum eftir að þeir voru tilbúnir í meðferð.  Ýmislegt getur hafa breyst, er ekki þess vegna sem biðlistinn minnkar og minnkar, vegna dauða, vegna hugsanlegrar fangelsisvistar og hvað veit ég.  Ekki tala um að þetta sé eitthvað jákvætt að það fækki á biðlistunum sem reyndar eiga EKKI að vera til þegar sjúklingar hætta hreinlega að leita sér hjálpar þegar vonin er farin. Ég vil benda líka á að árangurstölur eru mjög lélegar frá göngudeildinni.  Neyðin er mest hjá fólki í afeitrun þar sem það er líkamlega og andlega veikt eftir neyslutímabilið og þeir veikustu hafa bara alls ekkert að gera á einhverjum biðlista.

Kominn tími til að opna augum og hætta að láta eins og þetta þjaki ekki allar fjölskyldur.

Hérna að neðan er fréttin úr DV:

https://www.dv.is/.../einn-af-hverjum-fimm-maetir.../...

 

 

sVk1bZiDDtPGxBqu2U


Sjúklingar í fríi.

Ég hef áður og oft skrifað um fíkla og úrræði þeirra til að ná heilsu sinni aftur eða öllu heldur úrræðaleysinu.  Þegar fólk er loksins tilbúið að leita sér hjálpar þá eru lokaðar dyr allstaðar.  Ég fór einu sinni sem oftar núna uppá Von þar sem maður getur pantað viðtal hjá ráðgjafa fyrir aðstandanda minn og okkur fjölskylduna en fíknisjúkdómur herjar á heilu fjölskyldurnar og er raunverulega geðheilsa allrar fjölskyldunnar undir.  Nú það var lokað!!

það er sumarfrí og opnar aftur 15 ágúst.  Takk fyrir kærlega! Ég er ekki ókunn fólki með slæma bráðasjúkdóma og missti 2 fjölskyldumeðlimi á þessu ári úr þeim. Það sem bjargaði geðheilsu minni og fjölskyldunnar var hvað þau voru bæði í góðum höndum og bara ef þau veiktust óeðlilega þá kom einfaldlega sjúkrabíll og manni var létt vitandi að nú væri viðkomandi algerlega öruggur.

Þar sem ég stóð þarna frekar hneyksluð og hringdi inná Vog og kannaði hvenær von væri á að minn maður kæmist inn sem verður hugsanlega í nóvember, þá heyrði ég á tal ungs pars sem voru væntanlega í sömu erindagjörðum og ég að fá hjálp fyrir sig og sína.  Eftirfarandi stakk mig svo í hjartað að ég ákvað að setjast niður og tjá mig eins og maður gerir: " Heldurðu að við getum ekki fengið sumarbústað og farið bara 2 i afeitrun með niðurtröppunarlyf" sagði stelpan við vin sinn. Það dó eitthvað inní mér, krakkar já eða börn, kannski að reyna að snúa við eftir ævintýri sumarsins og þá verður að vera eitthvað battery sem grípur barnið áður en það er orðið of seint.  Ég hef sjálf afeitrað einstakling og er það nú ekki til eftirbreytni skal ég segja ykkur.  Ég reddaði mér einhverjum ólöglegum lyfjum (skv. læknisráði) og gaf viðkomandi en oftar en ekki þurfti ég að hringja á sjúkrabíl sem komu þá í lögreglufylgd vegna ástandsins.  

Ég er orðin svo leið á þessu að það skuli ekkert vera að gert til að bæta þetta, held að Willum Þór þurfi nú að hysja upp um sig buxurnar og hlusta og lesa sér til um raunveruleikann þ.e. hversu margir deyja á þessum biðlistum. Ekki bara fíklar og gamalmenni sem hvergi eiga pláss í þjóðfélaginu, heldur gefur fjölskyldan sem öll byrgðin er á sig á endanum.

Sem ég segi áður og oft; "Gerum eitthvað áður en við missum börnin okkar í gröfina"


Sorgin og vanmættið.

Sorgin birtist í ýmsum myndum í okkar lífi og er mitt umhugsunarefni í dag og vanmáttur mannsins á svo mörgum sviðum. Það að standa frammi fyrir ögrunum og já bara lífinu í sinni birtingarmynd hverju sinni og geta ekkert að gert til að lina þjáningar eða létta lundina hjá ástvinum sínum er ekki góð staða að vera í.

Það er sorglegt að horfa uppá  ástvin sinn  veslast upp fyrir framan mann af því að ekki er hægt að halda krabbameinsmeðferð áfram!  Að horfa á vonleysið í augunum en jafnframt að fylgjast með dugnaði og elju í vinnu til þess að bugast ekki og hætta baráttunni sem væri ekkert óeðlilegt í svona stöðu.

Það er sorglegt að horfa á ástvin sinn fastan í myrkri og klóm fíknar og geta ekkert að gert og vera vanmáttugur í þeirri göngu gegnum myrkrið sem áhorfandi. Hjartað í manni virðist skreppa saman dag frá degi. Biðin eftir símhringingunni sem vonandi ekki kemur en vofir yfir manni öllum stundum nætur og daga er skelfileg og ógnandi eins og krumla.

Það er sorglegt að horfa á litla barnabarnið sitt sem er samt svo stór bæði langur og þrekvaxinn vilja kúra í fanginu á manni og maður loftar honum engan veginn.  Langar svo að taka hann í fangið og reyna að skýra út fyrir honum að lífið sé honum erfiðara en annarra barna þar sem hann sé með dæmigerða einhverfu og er þar af leiðandi með öðruvísi takt en við hin og geta ekkert hjálpað þegar reiðin yfir því að enginn skilur neitt af því sem hann vill eða er að reyna að segja þar sem hann tjáir sig ekki. 

Það er líka sorglegt að horfa uppá litla bróður hans reyna að fá hann til að leika við sig án árangurs og sjá að þá tekur hann bara uppá því að gæta hans og vernda enda skilur hann ekki hvað er að.  

Það er sorglegt að horfa uppá lítinn ástvin sinn berja hausnum í gólfið þar sem hann telur býflugur vera í höfðinu að stinga sig og þurfa labba milli lækna og fá lítinn skilning en nóg af pensillíni.

Það er sorglegt að missa 2 systur á innan við 2 árum og geta ekki hringt daglega í þær og fengið ráð og spjall. 

Það er sagt að manni sé ekki úthlutað meiru en maður þolir og er ég sammála því! Í dag er ég samt bæði vanmáttug og full af sorg.

Lífið er hverfult svo verum góð við hvort annað meðan við erum enn á lífi.


Heilbrigðiskerfið okkar "the never ending story"

Víkur nú sögunni að umræddum ástvini sem ég greindi frá í síðasta bloggi mínu með þá von í hjarta að einhverjir ráðamenn mundu nú skoða þessi mál og einhenda sér í að laga þau.  Það er eiginlega alveg nægileg byrði að greinast með hvítblæði og lenda í kjölfarið í öndunarvél og vera veikburða og geta ekki verið sjálfbær á neinn hátt þó fólk sé ekki borið í miðri meðferð út á guð og gaddinn.

https://gudlaugbjork.blog.is/blog/gudlaugbjork/entry/2284789/

 

Ég sendi nú blog mitt á nokkra alþingismenn sem ég hélt að væru með hjarta, en væntanlega er nóg að gera hjá þeim og þeir taka nú ekki við pósti frá sótsvörtum almenningi enda að koma jól og svona.  Ég vil þó benda á undantekningar í þeim efnum en aðilar úr Flokki fólksins hafa svarað mér vel og skipulega þó ekki varðandi þetta mál.  Heilbrigðisráðherra er upptekin í öðru og geri ég mér fulla grein fyrir því, enda ekki líklegur til stórræðna í svona "litlu" máli.

Staðan er sem sagt eftirfarandi:  "viðkomandi var hent út af sjúkrahóteli LSH á hádegi á 3 degi meðferðar við hvítblæði (sjálfsagt sparnaður uppá nokkra þúsundkarla). Viðkomandi fór hins vegar með sjúkrabíl á bráðamóttökuna 3 dögum síðar fárveikur með bullandi hita og sýkingu í blóði.   Kostar það nú eitthvað aðeins meira en gistinótt á þessu sjúkrahóteli reikna ég með. Svo sjúkrabíll á blóðmeinadeild landsspítalans frá bráðamóttöku.  Ég sé alla vega að hægt er að spara í skutli milli spítala með því að hafa sjúklinginn nær.  Kom það enda á daginn þegar hann veiktist illa í sumar að það varð honum lífsbjörg að vera á hótelinu við hlið spítalans.

Ég get sagt það að þetta eru ekki skemmtileg skrif og hef ég engan áhuga á svona tuði það er bara ekki hægt að líta framhjá þessu endalaust hvernig heilbrigðiskerfið rotnar hægt en örugglega og sjúklingar líða fyrir það. Hef kynnst þessu lamaða kerfi aðeins of vel fyrir minn smekk.

 


Frábæra heilbrigðiskerfið okkar!

Nú er ég kjaftstopp!! Gerist ekki oft.  Þannig er að ég á ættingja sem var svo óheppinn að fá ólæknandi blóðsjúkdóm og var hann búin að fara uþb. 20 sinnum á bráðadeildina með 50% blóð og fékk blóð og sendur heim.  Ekki virtist vera mikil áhersla lögð á að finna ástæðu blóðleysisins.  Hann bjó á 5 hæð í lyftulausi húsi og tók það hann tímana 2 að labba upp en þegar hann var orðin blóðlaus aftur eftir vikuna þá þurfti hann einfaldlega að hringja á sjúkrabíl þar sem hann treysti sér ekki niður sjálfur.

Nú hann fær greiningu í júlí með ólæknandi bráðahvítblæði og fór í meðferð og fékk heimili á sjúkrahótelinu.  Viku og viku í senn og sagði hann upp sínu húsnæði, enda ekki fær um að komast þangað upp.

Nú dró mikið af honum og hann endaði í hjartastoppi og öndunarvél og var haldið sofandi í 12 daga og fór síðan á blóðmeinadeildina.  Hann hefur verið að braggast smátt og smátt, eins og hægt er að braggast með beinverki öllum stundum og ólæknandi sjúkdóm. Hann gisti náttúrulega á spítalanum í 3 til 4 vikur og fékk síðan aftur að fara á sjúkrahótelið.  Nú hann hefur víst dvalið of lengi á þessu sjúkrahóteli skv. staðli einhvers súlurits (verst hvað þetta hvítblæði er ekkert að taka tillit til plássleysis) og var gert að yfirgefa herbergið sitt í dag,.  Veit ekki hvort einhverjir hafa lent í að leita að leiguhúsnæði en það er bara EKKI neitt að hafa ekki kjallaraholu, ekki einu sinni geymslu. 

Í dag er hann hálfnaður í meðferðinn þessa vikuna sem fer mjög illa í hann með tilheyrandi ógleði og almennum slappleika og er hann fársjúkur af meðferðinni og þurfti að pakka niður dótinu sínu og flytja í bílinn sinn.  Þar er hann nú.

Er með þessu verið að reyna að fækka fólki á biðlistunum, látum þennan deyja í bílnum úr kulda, tekst sennilega ekki það er of gott veður.


Snillingurinn minn barnabarnið!

Eins og ég hef áður tjáð mig um með yndislega sérstaka barnabarnið mitt og hans sérstöku hæfileika þá getur hann algerlega drepið mann með skemmtilegum setningum sem hann þylur upp eins og "robot" eða í þeim tón sem hann hefur heyrt viðkomandi setningu. Þessa dagana hefur hann einstakan áhuga á geimförum og geimferðum og þylur upp allskonar setningar tengt því á ensku þar sem hann fann þetta "skemmtiefni" á ensku.  Hann er gjarnan í stígvélunum sínum að horfa á þetta því geimfararnir eru í einhversskonar stígvélum við "the new spacesuit".

Hann hefur svo þetta einstaka minni að hann horfði á einhverja videómynd þá er ég ekki að tala um kvikmynd, heldur sá hann krakka í rútu á leið í skólan þegar hann var mjög upptekinn af rútum sérstaklega Norðurleið og Teitur rútur.  Ég held að þetta hafi verið þegar hann var svona 4 ára sem gera rúmlega 3 ár síðan og ekki man ég þetta. Hann biður um þetta alla daga og svo er það í okkar höndum þ.e. minna og foreldra að reyna að finna þetta. (engin hætta að hann gleymi eða gefist upp). 

Nú einnig er hann mjög hrifinn af Subway logo og pepsi max lime enginn sykur alvöru bragð. Hann var hérna hjá mér um helgina, þar sem ég er hans stuðningsforeldri og bað svona 119 sinnum um jóladót og þar sem hann er í hálfgerðu dekri hjá mér fjarri krefjandi bróður sínum þá fór ég í geymsluna og sótti jóladótið og týndi hann upp þar til gert "dót" sem hann hefur svo með sér um alla íbúð og já ég vaknaði með svona hnetubrjótskarl undir bakinu í morgun frekar notalegt og er öll í glimmeri alveg gasalega fín.

Svo þegar hann segir setningu sem er skiljanleg og á við þá stundina eins og "amma viltu koma að hjálpa mér", þá verður maður svo upprifin að manni langar að senda fréttir út um allan heiminn eins og ég í þessu tilviki með jólaskrautið. Hann veit að pabbi kemur um jólin og hann segir "amma taka jólin með fram" því hann er að bíða eftir pabba sínum og hvað er þá betra en að halda bara á jólunum svo þau fari ekki framhjá. Nú færi ég sem sagt "jólin" milli herbergja eftir því hvar hann er. 

Ég dey yfir þessu barni

 


LSH og bílastæðin

Ég fór einu sinni til Búlgaríu sem er nú ekki í frásögur færandi nema hvað ég fékk svona tilfinningu í dag á LSH Hringbraut sem hefur setið í mér í ein 30 ár þegar ég lenti í veikindum í Búlgaríu þess tíma og þurfti að fara í sjúkrabíl á heilsugæsluna og viti menn það var innakstur bannaður á einu leiðinni inn að heilsugæslunni svo auðvitað borguðum við bara löggunni sem stóð við "innakstur bannaður" merkið og safnaði í sjóð.

Nú ég var síðan flutt frá sjúkrahúsi með sjúkrabíl á flugvöllinn og það reyndist nú ekki gæfulegt, þar sem allskonar farþegar voru teknir með, ekkert verið að keyra með sjúkling einan í þessum stóra bíl. Nú ég var eins og rakvélablað uppá rönd í sjúkrarúmi og allt fullt af Búlgörum á leið til vinnu.  Þeir stoppuðu víða til að hleypa út fólki og stoppuðu líka á bensínsstöð og sóttu sér bensín og kaffibolla, alltaf með mig í bílnum.

Nú víkur sögunni að hinu löngu sprungna LSH, en þangað fór ég í morgun á bíl með merki fyrir fatlaða, þar sem ég var að sækja veikan einstakling úr krabbameinsmeðferð.  Nema hvað að það var hægt með góðu móti hérna í síðustu viku eða svo að skvísa inn 4 bílum í 2 þar til gerð stæði fyrir fatlaða, en nei nú var búið að setja steypuklumpa svo fólk væri nú ekki að troða sér í stæði.  Það er með öllu ómögulegt að fá stæði þarna þar sem gert er ráð fyrir svona 30 manns hámark og þá líka á fæðingardeildinni.   Ég fór inn eftir að hafa lagt bílnum í brekku, an það gefur auga leið að ekki er gott að skondrast með hjólastól og veikan einstakling bæinn á enda þar sem laus stæði eru.   Ég hljóp inn og sótti aðilann í hjólastólnum en hafði þá að sjálfsögðu verið rukkuð vegna ólöglegrar lagningar.  

Þetta veit ég að allir sem eru á fæðingardeildinni og geta ekki hlaupið út á nokkra tíma fresti fá gjarnan svona glaðning með nýja barninu.

Mér þykir þetta ekki smart og ef LSH getur ekki hundskast til að hafa stæði svona sirka í sama póstnúmeri og spítalinn er, þá endilega skoða það að hafa rútur til og frá stæðum.  Við erum ekki alltaf nógu heilbrigð til að taka göngutúr á leið í læknismeðferð.


Reynslusaga úr apóteki

Já hver hefur ekki upplifað það eins og fyrirsögnin ber með sér.   Ég hef upplifað mjög sérstaka reynslu úr Apóteki hérna í Reykjavík sem fékk mig til að hugsa hvort allir sem þar versluðu væru að reyna að hafa eitthvað út úr því ólöglega.

Ég kem inní apótekið og er að versla fyrir vin minn sem býr ekki í alfararleið og er algerlega á móti því að honum séu send lyf, finnst hann alltaf fá samheitarlyf, þannig að ég er með umboð fyrir hans hönd.  Var ég þarna stödd og bið um Xailin augnkrem 4 túpur takk, ég sýndi henni nafnið í símanum stórletrað (túpan er ponsulítil eða um 5 g) stúlkan sem afgreiddi mig horfði á mig og spurði hvort ég væri að kaupa fyrir stofnun. "Nei sagði ég bara fyrir mann sem var í augnaðgerð á báðum augum"  já þú færð bara að kaupa 2 stk. var mér tjáð.  Allt í lagi tek 2 stk.  svo bar ég upp næstu kaup sem voru Calogen næringardrykkur sem er niðurgreiddur til sjúklinga, enda rándýr vara. Afgreiðslustúlkan kallaði til 2 aðrar og önnur greinilega yfirmaður og hvísluðu þær eitthvað sín á milli og sú sem virtist yfir sagði að þetta þyrfti að kaupa á dagtíma þegar hjúkrun væri við.   Já jarmaði ég en klukkan er bara hálf 3. Já hjúkrun er hérna milli 8 og 5 og ég skal láta þetta sleppa núna en næst komdu meðan hjúkrun er.  Ég kíkti á símann minn og hann var ennþá 2:30 local time.  Sýndi henni símann og spurði: "er ekki örugglega dagur?"  

Ég er ekkert fis þó ég segi sjálf frá og hef ekki hugsað mér að overdosa af Calogen en hún lét mig fá brúsann náðarsamlegast í þetta sinn, án samþykktar frá "hjúkrun". Ég kom heim til vinar míns með góssið verðmæta.  Hann spurði; " bíddu af hverju ertu með 2 túpur af gyllinæðakremi en ekkert augnkrem?"

Þannig að ekki einasta héldu afgreiðslustúlkurnar að ég ætlaði að fá mér 5000 kaloríu drykk, heldur úða 4 stórum túbum af gyllinæðakremi í augun mér nú eða mínum lasna félaga. jah ég ætla ekki aftur í þetta apótek. Fékk þó að skila kreminu og fékk náðarsamlegast að kaupa 4 litlar túpur af Xailin (Augnkreminu sko)


Sjúklingur Núll

Ég lagði undir mig fót í sumar og skellti mér til Ungverjalands þar sem hluti fjölskyldunnar var búin að koma sér vel fyrir þar og gat tekið á móti mér.  Tengdasonurinn er að vinna þar um tíma og býr í þessari yndislegu borg Miscolk.  Nú eftir að allir á skrifstofu tengdasonarins höfðu greinst með covid en hann sá eini sem slapp og þakkaði það sinni grímunotkun þá áttum við nú von á því að sleppa við þennan vágest.  Nú stuttu síðar en samt eftir sirka 5 covidtest á vinnustaðnum þá veikist hann og verður þetta líka lyktarlausi og bragðlausi sjúklingur en við mæðgur gerðum nú mest bara grín af honum og hans "manflu" sem er nú oft að okkar mati ekkert til að tala um því auk þess að vera af þessu kyni er hann í þokkabót Ítali og Ítali sem er lasinn úps...... það er eitt stykki veikur maður. Gott ef hann haltraði ekki á tímabili.  Alla vega þá vorum við öll skikkuð í test og fórum glöð og reif fullviss um að við værum hraust og ekkert amaði af okkur.  Við mættum í vinnuna til hans í þar til gert sjúkratjald og afhentum okkar sýni.  Verð þó að viðurkenna að ég var ekki alveg hressi karlinn og var óvenju þreytt og splæst en kenndi því um að hafa ráfað um dýragarð sem var staddur á hálfgerðu hálendi og bratt undir fót að sækja og skoða með 2 fjörkálfa, hálflasinn ítala og dóttur mína sem var svo hrifin að ég held að hún ein hafi notið ferðarinnar í 38 stiga hita og fullt af dýrum og hún ein okkar flögraði um svæðið eins og fiðrildi alsæl.

Dagur eftir sýnatöku rann upp og var það sami dagur og við ætluðum heim til Íslands og allt klappað og klárt fyrir brottför þegar símtal kom og jú; " patient zero has covid".  Ég vissi nú ekki að ég hefði fengið "codename" zero en ok ég var sem sagt smituð og þar af allir í einangrun og ég sem fann lykt og allt.  Skyldi þó engan undra því það var ekki eins og Miscolkar hefðu heyrt um að það geysaði heimsfaraldur því þeir gerðu ekkert til að varna smitum, enginn með grímu og hvergi sprittbrúsar.  Allir ofan í öllum og út um allt og alls staðar.

Jæja í dag var mér svo skipað í einangrun og einkennasýnatöku og spyr því hvort ég eigi ekki von á CNN vegna viðtals við mig þar sem  ég er sennilega óheppnasti tvísprautaði Kóviti ef ég reynist með covid AFTUR!!!


Dagur í lífi 5 ára stráks með einhverfu.

Undanfarnir dagar hafa verið mínum litla manni erfiðir, þ.e. eldra barnabarninu mínu, þar sem miklar breytingar eru í daglegu lífi allt að gerast fyrir sumarið og allskonar uppákomur sem hann ekki höndlar.   Í gær sóttum við mamma hans hann snemma til að fara með hann í myndatöku fyrir vegabréf, en hann ætlar að heimsækja ítölsku ömmu sína núna í sumar.  Nú ef ekki hefði komið til að síðast þegar hann var sóttur snemma þá var það til að svæfa hann hefði þetta kannski gengið vel. Hann var að eigin sögn látinn blása í blöðru hjá skurðlækninum og var ekki hress með það og vaknaði svo með auman munn þar sem aukatönn hafði verið fjarlægð.  Hann var ringlaður og þetta er það versta sem hann hefur lent í lengi svo þetta er ekki gleymt.  Við mamma hans sóttum hann á leiksskólann og þá byrjaði ballið.  Hann var gersamlega miður sín og vildi ekki fara neitt bara heim að sofa. Hann vildi ekki í myndatöku og alls ekki í skurðaðgerð og neitaði að fara til ömmu nonnu og ekki segja ciao amma nonna, ekki fara í flug og ekki fara í strætó og ekki fara í lest (en allt er þetta í miklu uppáhaldi núna) Hann var mjög æstur á Sýslumannsskrifstofunn og sagði við alla að hann væri ekki að fara á skurðstofuna og ekki að blása í blöðru hjá skurðlækninum.   Það vildi okkur til happs að vera með símann á okkur og hann elskar sem sagt að horfa þessa dagana á videó á Youtube af lyftu og er talið á sænsku og hann endurtekur með ákveðnum sænskum hreimi "PLON TVO" og fleiri "PLON" en lyftan er 25 hæðir og stoppar á öllum hæðum með yfirlýsingu yfir hæðarnr. Ætli hann bæti ekki við sig sænskunni og þá kannski kínversku líka, því hitt myndbandið sem ómar þegar lyftan er búin að vera nógu lengi er lestarferð og þar er kínverska töluð og þeir eru alltaf mjög reiðir þegar þeir segja stoppustöðvarnar sínar.  Hann er ekki búin að ná því en segir þó stundum. Chong ling pong eða eitthvað sem ég skil ekki.

Næst er það að koma viðkomandi í flug. Það verður gaman en við tökum "LYFTUPLONIN" með og lestina og svo eru núna að bætast við mjög háværar flugvélar. (Hvaða mál notast þeir við?) Bíð spennt


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband