Capri eyjan fallega

Eyjan Capri er að ég held sá staður sem kemst næst því að líkjast pardís, eins og ég held að paradís líti út. 

Capri liggur í Napólíflóanum og tilheyrir Campange héraðinu og eru íbúarnir undir 15 þúsundum, en allt að 10 þúsund ferðamenn eru þar daglega á háannatíma.

Capri kort

 Þegar maður kemur upp á sjálft fjallið, með dráttarkláf/lest eða hvað þetta nú heitir, sjá mynd hér að neðan, þá lendir maður á stórri verönd og á henni er kort úr mosaik yfir eyna og ég varð nú að taka mynd af því, enda held ég að ég hafi aldrei tekið eins mikið af myndum og í þessari ferð.

Að labba meðfram ströndinni og horfa útá dimmblátt/grænt hafið þar sem möndlutrén standa í röðum í blóma er bara unaður og hvílík upplifun að maður fyllist lotningu. 

Ég fór til Capri frá Sorrento, en þaðan eru ferjur og bátar með stuttu millibili oft á dag. Það tekur u.þ.b. 45 mín með ferju á milli lands og eyja og kemur maður að hafnarsvæði sem er á mjög mjórri strandlengju sem rétt rúmar nokkra bari, sölubása og verslanir aðallega með svona ferðamannadót. Þar settumst við niður á bar, þar sem skemmtilegasti barþjónn fyrr og síðar afgreiddi okkur og  við kölluðum bara Eyþór (si si sagði hann mi chiamo Eytór) en þetta var rétt uppúr hádegi og hann dansaði og stjanaði í kringum okkur eins og við værum eðalborin. (grunar að hann hafi fengið sér cafe corretto í morgunmat). Þegar móttökurnar eru svona á stað sem er oftast yfirfullur af ferðamönnum, þá finnst manni að maður sé virkilega velkomin og það er jákvætt fyrir ferðamanninn, enda elska ég Capri.

Frá þessari þröngu hafnarlengju tekur maður sem sagt kláfinn  uppá eyjuna sjálfa og þar er eitt fallegasta útsýni sem hugsast getur. 

Capri 1

 Eiginlega leið mér eins og ég hefði dottið inní gamla mynd, sem hefði verið fótósjoppuð, en það er ekki hægt að lýsa fegurðinni sem er á Capri, nema með því að birta myndir og ég tók nóg af þeim, enda er ég alltaf jafn  hrifin af fallegum trjám og blómum og sjónum, sem er eiginlega dökkgrænn og svo hreinn og tær. 

Ég sleppti því að fara alla leið uppá Ana Capri, enda alveg nóg að vera svona hátt uppi á fjalli fyrir minn smekk, með mína lofthræðslu.  

Það var á föstudegi þegar við vorum í Capri og var verið að undirbúa brúðkaup á einum matsölustaðanna og hvílíkt blómahaf, held að ég hafi aldrei séð jafnmargar Hortensíur og stærri blómvendi en þarna, eiginlega langaði mig að bíða eftir brúðkaupinu til að sjá þetta, miðað við skreytinguna var ég viss um að þarna væri konunglegt brúðkaup á ferðinni. Ekki færri en 35 manns voru á veröndinni að leggja á borð og skreyta garðinn.  En ferðafélagarnir mínir yndislegu voru svangir og við ákváðum að fá okkur að borða ofarlega á eynni, við hafið til að  njóta útsýnisins yfir til Ítalíu yfir til Campagnehéraðsins. 

Ég set inn nokkrar myndir hérna, þar sem ég get ekki lýst Capri með nægilega fögrum lýsingarorðum og já ég fer aftur þangað. 

Funicolare_Capri-St.Geraflott möndlutré

blóm á anacapri

Porto_CapriCapri_Scala Fenicia

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Vá hvað þetta er allt saman tilkomumikið og fallegt.  Takk fyrir að leyfa okkur að koma með.  En hittirðu nokkuð Katarínu? Capri Katarínu?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.1.2012 kl. 14:20

2 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Æðislegar myndir frænka og fallegt á Capri.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 8.1.2012 kl. 22:23

3 Smámynd: Guðlaug Björk Baldursdóttir

Ásthildur mín, held að Katarína hafi verið uppá fastalandi þegar ég kom. Eyþór stóð þó fyrir sínu. Já frænka það er sannarlega dásamlegt þarna, var að finna myndirnar mínar sem voru týndar í gamalli tölvu.

Guðlaug Björk Baldursdóttir, 9.1.2012 kl. 10:05

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já ætli hún hafi ekki bara elt Hauk Mortens

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.1.2012 kl. 11:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband