Sardenía með mínum augum

Sardenía er eins og ég hef áður líst alger paradís, allt á sínum rólyndishraða. Konur og menn fara á markaðinn og kaupa sína daglegu melónu en Sardar borða gjarnan ávexti eftir allar máltíðir. Þeir eru nú ekki að flækja málin neitt sérstaklega og finna lausnir við öllu. Hef aldrei séð lausnamiðaðri fólk en þarna.  Vinur tengdasonar míns er einstaklega skemmtilegur gaur og smá vesenisti. Þ.e. hann er frekar mikið fyrir sopann og breytir þá ekki miklu hvort hann er keyrandi á bíl eða traktor á stærð við fragtskip þegar hann fær sér í tánna.   Hann ræktar maís og er ötull í vinnu og er eiginlega bara stórbóndi.  Eitt sinn var hann á "barnum" og já ekki misskilja að það sé bara einn bar í bænum, nei það er bara einn bar sem þeir félagar mæta á annað er óhugsandi. Þetta er eitt af sérvisku þeirra og óhugsandi að mæta á barinn handan götu heimilisins. Það er bara ekki þeirra bar.  Hann var sem sagt á barnum að fá sér bjór og hafði lagt traktornum fyrir framan útkeyrsluna hjá lögreglustöðinni.  Það komu 2 löggur inná barinn og gengu að honum og báðu hann að færa tækið. Allir þekkja alla í bænum og jú hann tók með sér bjórinn bað aðra lögguna að halda á honum meðan hann færði tækið.  Hann lagði traktornum svo bara ólöglega annarsstaðar meðan löggan geymdi bjórinn hans og svo kom hann bara smá pirraður á þessu veseni.

Sardar eru úrræðagóðir með eindæmum og þessi sami strákur fékk sér vinnu á tímabili þegar uppskeran brást og þeir voru 2 félagar sem sóttu um á einhverjum lúxusveitingastað og þar þurftu þeir að klæðast fatnaði frá staðnum.  Það var þó einn galli á gjöf Njarðar að þeir þurftu að kaupa fatnaðinn frá skóm uppí skyrtu.  Þeir fundu nú samt slatta af fötum og skóm í hrúgu á staðnum eftir fyrrum starfsmenn og tóku þau bara í notkun.  Gallinn var hins vega sá að skórnir voru 2 númerum of litlir þannig að hann gekk um salinn eins og Geisha og vinur hans var í svo síðum buxum að hann var alltaf að detta.  Hann var rekinn þegar hann datt á fína frú með súpu en hinn vann í 8 mánuði í þessum litlu skóm og ég er ekki frá því að hann minni á Geishu þegar hann labbar.

Elska þessa Sardeníubúa.

 


Fleiri sögur frá Sardeníu

Ég elska Sardeníu með sínar fallegu strendur, sérviskulegt fólkið og frábæra matinn, en þeir eru mikið í fersku sjávarfangi og nýta flest allt úr sjónum. Chia ströndin er eins og hvítur flórsykur svo fín og falleg og sjórinn blágrænn og svo er það bleika ströndin "Spiagga di Rosa" sem er bleik vegna mikils rauðs kórals í kringum hana. Þeir gera mikið af skartgripum úr þessum kórall og eru þeir mjög eftirsóttir af ferðamönnum.

Sarrock er bær sem er skammt frá höfuðborginni Cagliari og þaðan kemur tengdasonur minn, þar er eða var dásamlega falleg strönd en nú er búið að setja þar olíuhreinsunarstöð sem er eins og skrímsli við fallegan grænbláan sjóinn.  Flestir bæjarbúar vinna í stöðinni en þar sem Covid hefur lamað atvinnulífið þar þá eru margir með hálft starf og því farnir að mennta sig í öðru eða farnir til annarra landa í vinnu.

Þá víkur sögunni að klipparanum sem þurfti að ná sér í aðra menntun til að halda tekjum vegna skorts á vinnu í olíuhreinsunarstöðinni og er hann með heimaþjónustu. Kemur heim til þín á hjóli og bauðst hann til að koma til okkar í Pula.  Hann mætti á hjóli með 20 metra langa snúru til að setja rakvélina í samband og klippa svo "liðið" í garðinum.  Það þurfti að klippa einn vin tengdasonarins líka.  Sá mætti á því stærsta landbúnaðartæki sem ég hef séð svona nokkur tonn með stóran bjór í hendinni undir stýri og til í klippingu. Skildi "farartækið" eftir á götunni og blokkaði hana nánast alveg og svo hófst klipping.  Klipparinn náði meira að segja að klippa barnabörnin mín tvö án teljandi vandræða. Þurfti reyndar að koma tvisvar til að klára og hafði þá vinurinn (á farartækinu netta) á orði bíddu ertu enn í vatninu 2 daga í röð? Það telst til frétta greinilega enda yfir 30 stiga hiti og maðurinn bara í vatni.  Allir voru vel klipptir og sáttir og síðan hjólaði hann bara til baka með sína 20 metra snúru og skærin í vasanum og klyfjaður hárdóti í svuntunni sinni. Ekkert eðlilegra.

2f778f895226f9116e17a01bd3b5a75fdownload


Sögur frá Sardeníu

Hérna í ferðamannabænum Pula á suður Sardeníu er ekki að sjá að Covid geysi um heiminn. Fólk knúsar hægri vinstri. Hérna úir og grúir af ferðamönnum og allir keppast um að ná sér í sól og menningu og góðan mat og eina sem minnir á heimsfaraldurinn er að grímuskylda er í búðum og inni á matsölustöðum, en annað ekki.  Engin tveggja metra regla og er allt stappað hérna maður við mann og allir glaðir og hressir að hlusta á tónleika á torginu og börnin dansandi.  Eins og heimsfaraldur sé ekki til í orðabókinni.  Troðfullt á öllum matsölustöðum og þarf helst að panta borð með viku fyrirvara.  Engar sprittstöðvar í flugstöðinni hvað þá meira en allir hitamældir reyndar. Gott að geta gleymt sér aðeins og að lífið sé eins og það var hér áður.

Tengdamamma dóttur minnar er yndislega góð kona, skemmtileg með afbrigðum, hún er hálfpartinn móðir hálfs bæjarins þar sem hún er ákveðin og fer í málin þegar henni þykir það þurfa, svona sjálfskipaður talsmaður allra. Fyrir klukkan 7 er hún búin að fara og þrífa hjá systur mömmu sinnar og hjá mömmu sinni, versla fyrir eldra fólk og kaupa í matinn, tekur hún þá gjarnan með sér börn frænku sinnar í leiðinni. Hún er mjög trúuð á svona yfirnáttúrulega hluti og hef ég séð hana hella blessuðu vatni yfir barnabörnin sín og nuddað þau með olíu og hún sýnir engum myndir af barnabörnunum vegna hræðslu við að lögð verði á þau álög.  Ég hef einmitt skrifað um það áður að það þykir mikið gæfumerki að snerta ung börn og eru allir káfandi á börnunum hérna, komandi við hendur og fætur. Við sátum dag einn við borð úti á verönd nokkuð stór hópur og birtist hún með vatnsflöskuna sína heilögu og skvetti á son sinn ekki einu sinni heldur tvisvar. Hann stökk upp rennblautur og spurði hvað hún væri að spá og sagðist hún þá hafa óvart opnað sódavatn og það bara svona rétt við bakið á honum. Ég hafði hins vegar horft á hana skvetta á hann vísvitandi.  Ég hélt ég mundi deyja úr hlátri af svipnum á honum og því hversu forhert hún væri. Frænkan sem var svo óheppin að sitja hjá honum lenti í því líka að vera blessuð yfir allan kjólinn sinn. 


Dagur í lífi 5 ára stráks með einhverfu.

Undanfarnir dagar hafa verið mínum litla manni erfiðir, þ.e. eldra barnabarninu mínu, þar sem miklar breytingar eru í daglegu lífi allt að gerast fyrir sumarið og allskonar uppákomur sem hann ekki höndlar.   Í gær sóttum við mamma hans hann snemma til að fara með hann í myndatöku fyrir vegabréf, en hann ætlar að heimsækja ítölsku ömmu sína núna í sumar.  Nú ef ekki hefði komið til að síðast þegar hann var sóttur snemma þá var það til að svæfa hann hefði þetta kannski gengið vel. Hann var að eigin sögn látinn blása í blöðru hjá skurðlækninum og var ekki hress með það og vaknaði svo með auman munn þar sem aukatönn hafði verið fjarlægð.  Hann var ringlaður og þetta er það versta sem hann hefur lent í lengi svo þetta er ekki gleymt.  Við mamma hans sóttum hann á leiksskólann og þá byrjaði ballið.  Hann var gersamlega miður sín og vildi ekki fara neitt bara heim að sofa. Hann vildi ekki í myndatöku og alls ekki í skurðaðgerð og neitaði að fara til ömmu nonnu og ekki segja ciao amma nonna, ekki fara í flug og ekki fara í strætó og ekki fara í lest (en allt er þetta í miklu uppáhaldi núna) Hann var mjög æstur á Sýslumannsskrifstofunn og sagði við alla að hann væri ekki að fara á skurðstofuna og ekki að blása í blöðru hjá skurðlækninum.   Það vildi okkur til happs að vera með símann á okkur og hann elskar sem sagt að horfa þessa dagana á videó á Youtube af lyftu og er talið á sænsku og hann endurtekur með ákveðnum sænskum hreimi "PLON TVO" og fleiri "PLON" en lyftan er 25 hæðir og stoppar á öllum hæðum með yfirlýsingu yfir hæðarnr. Ætli hann bæti ekki við sig sænskunni og þá kannski kínversku líka, því hitt myndbandið sem ómar þegar lyftan er búin að vera nógu lengi er lestarferð og þar er kínverska töluð og þeir eru alltaf mjög reiðir þegar þeir segja stoppustöðvarnar sínar.  Hann er ekki búin að ná því en segir þó stundum. Chong ling pong eða eitthvað sem ég skil ekki.

Næst er það að koma viðkomandi í flug. Það verður gaman en við tökum "LYFTUPLONIN" með og lestina og svo eru núna að bætast við mjög háværar flugvélar. (Hvaða mál notast þeir við?) Bíð spennt


Alþjóðlegur dagur einhverfu

 

Í tilefni af degi einhverfu í gær þá sé ég mig knúna til að vekja máls á úrræðaleysinu gagnvart þessum börnum og baráttuna sem foreldrar þurfa að hefja eftir að hafa eignast barn með einhverfu eins og það eitt og sér sé ekki nægilegt áfall.

Ég hef skrifað áður um einstaka barnabarnið mitt sem er yndislegur og skemmtilegur en hefur þann annmarka að hlutir hafa ekki eins áhrif á hann og þá sem ekki eru einhverfir. Fólk skilur svo oft ekki að dagurinn geti verið ónýtur fyrir alla fjölskylduna bara ef að við komumst ekki rétta leið inní bílastæðið okkar, ef einhver fyrirstaða er og við þurfum að taka krók í bílakjallaranum. Allt sem kemur á óvart og við höfum  ekki getað undirbúið hann áður getur sett hann í uppnám.  

það fyrir foreldri að eignast barn með þessa fötlun er eiginlega alveg nóg svo ekki þurfi að koma til barátta við hvert og eitt úrræði barninu til handa. Eins og að koma því í talþjálfun, iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun og fl. sem barnið þarfnast til að verða hæft til að funkera í sinni veröld. Það að fá greiningu hjá Greiningarstöð ríkisins tekur 2 ár. Að komast í þjálfun og fá stuðning við hæfi tekur 1 til 2 ár og á meðan bíður barnið og foreldrar komast jafnvel ekki til vinnu.

Okkar litla manni var hafnað inn í sértækan skóla enda miklu fleiri sem sækja um en komast að. Hann getur ekki endilega sagt nafnið sitt en hefur límheila sem getur raðað upp allskonar orðum á nokkrum tungumálum og telur á 3 tungumálum uppá 100. Maður spyr sig er það talið viðkomandi til framdráttar þó ekki geti hann tjáð sig hvar hann finnur til eða hvort hann er svangur eða hvað hann heitir og hvar hann býr.

Þsð er ekkert endilega skemmtilegt fyrir ömmu að telja upp annmarka á sínu frábæra barnabarni, en þega öll úrræði eru lokuð barninu þá tel ég mig naubeygða að vekja máls á þessu úrræðaleysi þessum börnum til handa.  Fyrirgefið mér að ég verði pirruð en það komast u.þ.b. 4 börn í einhverfudeildir hjá Reykjavíkurborg og hvað verður um hin? það er með ólíkindum hvað skólaskylda sem talin er vera hér á landi snýr bara að "normal" börnum, því jú það eru næg úrræði fyrir þau. 


Ljóskan í eldhúsinu

Frægðarsögur mínar eru fáar í eldhúsinu og er ég alltaf laus allra mála þegar fjölskyldan heldur boð. Þú skalt bara smyrja flatkökurnar þú gerir það svo vel og ég viðurkenni að ég vanda mig eins og krakki við að hafa best smurðu flatkökurnar.  Ég hélt alltaf að ég væri ágætis kokkur en þegar fyrrverandi (skiljanlega) maðurinn minn neitaði að borða kótilettur sem varla sáust fyrir bruna og pipar, en mér þótti mamma alltaf svo mikill plebbi að krydda ekki nóg og steika ekki til dauða matinn, alltaf svo mikið hálfkák að mér fannst. Ég ákvað að vera með meiri "smartnes" í matargerð og gekk skrefinu lengra og brenndi allt! 

Ég var í gær að búa til blómkálssúpu frá grunni þar sem tengdamóðir mín var alltaf með svo flotta súpu og ætlaði ég að bæta um betur enda um fleiri krydd að ræða í dag en í þá daga. Ég notað leynitrikk af netinu red curry paste (átti reyndar að vera karrý) og sojasósu, og ég get sagt ykkur sjálf að Gordon Ramsey hefði tryllst yfir bragðinu.  

Ég ætlaði nú að "töfrasprota" þetta dæmi, því mér þykir svo flott að geta sagt ég notaði töfrasprota sem ég hef aldrei notað áður.  Fann hann inní skáp og setti í samband og byrjaði að mauka blómkálið ekkert gerðist og ég hamaðist á sprotanum og jú það skvettist alveg upp úr pottinum, en svo fóru að koma gráar plastagnir uppá yfirborðið og allt í einu þegar ég lyfti upp sprotanum kom lok fljúgandi á mig sem var einskonar hlíf fyrir þeytarann sjálfann. Ég týndi plastagnirnar bara úr það var ekkert svo rosalega mikið og engann skaðaði. Það er nóg til af súpu ef einhver er svangur.


Litlu sigrarnir!!!

Ég á barnabarn sem er með einhverfu og er hann alveg einstaklega skemmtilegur og gáfaður (ekki langt að sækja það) en mig langar að lýsa venjulegum degi í okkar lífi.   Ég hef verið hjá mömmu hans og bróður í smá tíma þar sem pabbinn vinnur erlendis og yngri sonurinn er á öðru ári og fyrirferðamikill eftir því, fór snemma að ganga og græja og gera.

Hann vaknaði klukkan 5 á laugardagsmorgni og mamman og yngri bróðir sofandi og ég var ekki tilbúin að fara fram í stofu að horfa á "Blippa" sem er fullorðinn maður í krúttlegum krakkafötum og talar eins og smábarn og heldur að hann sé krútt, dansar gjarnan og er svona eins og 3 ára gutti nema með skeggrót og svo langt frá því að vera fyndinn að manni langar að meiða hann.  Hann er þó með fræðandi efni og er mitt barnabarn einstaklega áhugasamur um flugvélar og stórar vinnuvélar og kann öll nöfnin á þeim á ensku og íslensku þar sem Blippi er enskur.  Hann dansar líka og já sama krúttið í dansi eða ekki að mínu mati.  Kann að vera að ég sé komin með nóg þar sem við horfum á þetta daglega.   

Nóg um Blippa. Ég sótti Ipadinn hans en hann dugði í 4 og hálfa mínútu og svo var hann orðinn leiður á honum.   Nú þá sló hann mig í svona klukkutíma og heimtaði að fara fram.  Ég reyndi hvað ég gat að halda honum inní herbergi.  Hann tók kast og sparkaði og barðist enda ósofinn og jú ég líka.  Ég fékk þá í mig borð og stól (barnaborð úr Ikea og ekkert mjög þungt) nokkur umferðaskilti.  Fólk horfir oft á mann þegar maður er að reyna að koma honum upp úr sundlaugum eða úr Costco (sem er "horror" fyrir einhverfa strákinn minn).  Hann tapar sér úr reiði og lúber mann eins og harðfisk og maður finnur augngoturnar á sér.  Ekkert sem hægt er að gera nema að koma honum úr aðstæðunum og verjast höggum.

Hérna heima ef hann er illa upplagður þá getur verið erfitt að fá hann til að fara að sofa eða bara gera eitthvað sem hann á að geta gert og hann ekki vill. Hann lemur viðkomandi sem er með þessar kröfur og síðan bróður sinn sem er nú búin að læra það að henda sér í gólfið þegar hann sér að hann nálgast. Þá er sjónvarpið eftir, það er ekkert að fara neitt  en það hefur tekið ansi mörg högg og allskonar hlutir dottið úr því og enn virkar það samt fínt sem er gott. Við reynum að sjálfsögðu að stoppa þetta áður en allt verður vitlaust en svona er líf margra sem eiga börn með einhverfu hver dagur, hver búðarferð, sundferð, rólóferð getur endað í kasti.

Eftir svona kast er hann algerlega búin á því og vill bara fara í kojuna sína og mamma hans á að sitja í stól hjá honum og ekki tala, ekki lesa og alls ekki syngja. (alla vega ekki ég) Hann fær þá stundum bara að horfa á eitthvað sjónvarpsefni sem hann slakar á við og er gjarnan valið milli forma fyrir lengra komna.   Ég veit að pentagon og decagon eru form en þekki ekki einhver form í Prism....ofl. dularfull form en þetta róar hann og það er allt sem við viljum.   

 Barnabarnið mitt sér almennt ekki börn og horfir í gegnum þau, vill frekar tala við fullorðna, eða tala við er kannski ekki rétta orðið hann segir random hluti eins og: " góðan daginn ég ætla að fá eitt barnabox með ostborgara og súkkulaðishake, nei takk ekkert fleira og næsta lúga takk". Hann getur frætt mann um öll heimsins form, stjörnur, tungl og fleira þá getur hann ekki sagt hvað hann heitir og að hann sé 4 ára.

Við fórum á Sólheima í Grímsnesi um helgina og litli bróðir hans datt og viti menn stóri bróðirinn tók í hendina á honum og leiddi hann.  Amman fékk nú kökk í hálsinn og gleymdi öllum spörkum og höggum þar til næst.


Náttúruhamfarir á Spáni.

Ég bý í litlum bæ sem heitir San Miquel de Salinas og hérna er ósköp rólegt og lífið gengur sinn vanagang í sólinni dagana flesta. Nú á fimmtudaginn var send út stormviðvörun og við íslendingarnir náttúrulega höldum alltaf að við höfum upplifað mest og flest og virtum það að vettugi.  Ég fékk vinkonu mína sem býr í Torreveija, en þar hafði verið gefin út flóðaviðvörun að sækja mig og skutla mér í klippingu í hennar bæ.  Nú allt gekk vel til hádegis, en þá var hvílíkt úrhelli að við vorum eins og hundar á sundi þegar við hlupum milli húss og bíls.  Nú henni var meinað að keyra að götunni sinni, þar sem flóð voru á veginum og bílar með vatn upp að rúðum stopp í hringtorgum og á götum, þar sem holræsakerfin eru ekki gerð fyrir svona úrhelli. 

Nú vinkona mín komst heim eftir krókaleiðum, en þar sem hún er á smá hæð, þá slapp hún að mestu við veðrið eftir að heim kom en vissulega lak þakið hjá henni og ofan í stofuna svo hún þurfti að covera sjónvarp og selflytja dót frá bleytunni sem draup niður.

Fréttir af skemmdum flæða yfir mann, nýjir bílar á bílasölu eins og plastendur í baðkari, ofan á hvor öðrum og allir ónýtir. Einn af betri golfvöllum á Costa blanca svæðinu geymir alla sína bíla í öruggri geymslu, en þar flæddi yfir þá alla og allir ónýtir eða um 100 talsins. Völlurinn sjálfur illa farinn.

Nú af mér er það að frétta að hérna flæddi yfir götuna sem ég bý við þar sem holræsin fylltust fljótt og vaknaði ég við það á föstudagsmorgun eftir hávaðasama nótt með eldingum og þrumum sem voru allt annað en notalegar og í kjölfarið mesta rigning sem ég hef séð síðan í Kína og það var nú slæmt, að ég heyrði hljóð í ljósinu á efri hæðinni eins og það væri að springa og fannst mér ég heyra dropahljóð þar svo ég slökkti á því og hljóp niður og sótti fötu 50 lítra og viti menn allt í einu steyptist yfir mig vatn eins og úr sturtu frá ljósinu á gólfið og hafði ég ekki við að tæma fötuna og rafmagninu sló út og allt kolsvart svo ég tók símann og notaði hann sem vasaljós og hann rann til í bleytu og datt milli hæða og dó.  Ég náði ekki í nokkurn mann, enda allir heima að setja fötur og skálar út um allt.   Svo þegar líða fór á morgun þá kom smá pása frá regninu og ég náði í vinkonu mína sem kom með manni sínum og hjálpuðu mér að skipta um fötur og skálar í öllum herbergjum. Það lak út úr fataskápnum í einu herberginu, ofan á ísskápinn í eldhúsinu svo honum var kippt frá og stendur nú sem stofustáss hjá mér. Nú svo fór aftur að rigna eins og hellt væri úr fötu og öll handklæði í húsinu voru þegar rennblaut ásamt sængum rúmfötum og öðru.

Við skruppum í búð eftir að veðrinu slotaði uppúr 3 og þá var loftið í tætlum út um alla verslun og kælarnir með blautum gifsplötum og já nánast allt ónýtt í búðinni.  Sama gilti um apótekið hérna, loftið farið og ljósin dottin niður á vörurnar vegna þess að blaut loftin héldu þeim ekki.  Hérna hafa 6 manns dáið þegar þetta er ritað, þar af einn sem drukknaði inní göngum milli bæja, þegar þau yfirfylltust.  Heilu vegirnir hafa rofnað svo það eru holur í jörðu. Vinkona mín skutlaði fólki á Alicante flugvöll í gær og ferð sem tekur 45 mín. tók hana um 6 klukkustundir vegna fljóðasvæða og lokunar á götum. Appelsínutrén á kafi í vatni. Sundlaugar yfirflæddar og í stað þessa fallega bláa lits sem er á þeim, líta þær út eins og kakósúpur með jafnvel bílum útí og veggjum. 

Ég er komin með síma og rafmagn og hefst þvottur næstu daga á öllum handklæðunum og rúmfötum sem eru búin með sitt hlutverk í bili. 

Maður áttar sig fyrst á því hversu lítill maður er og vanmáttugur þegar svona náttúruhamfarir dynja á eigin skinni, eða allt í kringum mann. Við skulum ekki vanmeta náttúruna.

 


Ráðgátan leyst um horuðu ítölsku konurnar?

Ég hélt á tímabili að ég væri komin með lausn við vanda okkar kvenna við aukakílóum, þar sem ég fylgdist grant með konum á miðjum aldri borða eins og enginn væri morgundagurinn sína 3-4 rétti í hádeginu og annað eins á kvöldin.  Eftir hádegið er svo alltaf borðuð melóna og þar hélt ég að lausnin fælist.  Þá tók ég eftir því að þær stoppuðu ekkert við melónusneiðar, heldur kom kaffi og nokkrar sætar kökur svona 8 stk. og stundum ísar og þá lágu einnig nokkrir í valnum. 

Ég var væntanlega orðin grunsamleg á heimilinu þar sem ég nánast skráði allt ofan í húsfreyjuna mjóu og viðurkenni að ég óskaði henni stundum þegjandi þörfina þegar hún kom út á verönd með ís fyrir alla og allir afþökkuðu og hún sporðrenndi þeim bara þá öllum. 

Svo fór ég að fylgjast með ungu konunum sem ég tók eftir að brostu aldrei. Nú ég sá par koma inná matsölustað sem ég var stödd á. Hann pantaði sér super size pizzu sem var á stærð við öskutunnulok af gömlu týpunni og varla komst fyrir á borðinu og fékk sér sykrað kók með bara villtur fyrir allan peninginn.  Sú fúla kærastan skotraði augunum á pizzuna sá ég þegar þjónninn fór að úrbeina og afhausa sardínuna sem hún pantaði sér. Vatn með að sjálfsögðu flatt vatn, ekkert vera að splæsa í bubbluvatn. (væntanlega verið á bíl) Nú með fiskyldinu sem hún var með á disknum sá ég að hún fékk fennelbúta eina 2 eða 3 og alveg hálfan sellerístöngul.  Þar sem hún mændi á öskutunnulokspizzuna minnka óðum sá ég alveg glampann í augunum á henni, nartandi í fennelbútinn sinn hvað hana langaði í bita.

Þannig gerir maður nú ekki að fá sér bita sé maður sardenísk kona á stefnumóti enda var hún það ful á svipinn held núna að það sé af hungri og það skýrir ungu fýlupokana, þær narta í sellerstöngla fram að giftingu og þá eru ísarnir teknir upp.  

Það skýrir þó ekki dularfullu mjónuna á hinum eldri konum og jú þær brosa alveg!


Úrræðagóðu Sardarnir!

Sardar eru afar úrræðagóðir, útsmognir jafnvel örlítið forhertir og með dass af glæpagenum í sér að mínu mati.

Húsfreyjan hérna á heimilinu sagði okkur sögu af því þegar hún var yngri og fór með krakkana í hverfinu inní Cagliari höfuðborgina í bíó. Hún var með nokkra krakka ofaukið miðað við það magn sem mátti vera með í bílnum. Hún var svo sem vön því og kunni ráð ef löggan stoppaði hana. 

Allt gekk að óskum þar til þau komu út úr bíóinu og ætluðu heim, þá startaði bíllinn ekki svo hún tók til sinna ráða.  Það vildi svo vel til að það var verkstæði á móti bílaplaninu og bifvélavirkinn tók vel í að laga bílinn hennar.  Hann skipti um geymi, en bifvélavirkjar á Ítalíu eru frægir fyrir að gera aðeins meira en þeir þurfa svo hann vildi skipta um dekk og bað hana um varadekkið og einnig þurfti hann að skipta um peru að framan. Hún fór og kíkti í skottið eftir varadekkinu og þar sá hún regnhlíf sem hún kannaðist bara ekkert við.  Kíkti í kringum sig og sá þá sinn bíl aðeins frá þessum algerlega heill heilsu. Hún kvaddi bifvelavirkjan sem var með sundurtættan bíl á planinu með þeim orðum: "ég borga ekki krónu ég á ekkert í þessum bíl og vertu sæll"

Nú á leiðinni heim var hún stöðvuð af lögreglu vegna fjölda barna í bílnum (hana grunar að bifvélavirkinn hafi verið að verki þar sem hún var vön að ferðast með hálft hverfið af börnum án þess að vera stöðvuð).  Eitt barnanna í bílnum var einstaklega hræddur við lögregluna og hún sagði við hann :" Jæja Carlo nú ertu að fara í fangelsi og sérð aldrei fjölskylduna þína aftur" Barnið öskraði og gargaði af öllum illum látum.  Hún bað lögregluna um að sleppa sér við sekt þar sem hún yrði að koma þessu "brjálaða" barni heim til sín.

Ekki einasta slapp hún við sekt heldur fékk hún lögreglufylgd heim.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband