Fallega Sardenía

Sardenía í smá kulda að mati okkar íslendinga en mannskaðaveðri skv. íbúum eyjunnar er aðeins öðruvísi en á sumrin í 40 stiga hita.  Yndislegt veður er þó hérna í Sardeníu yfir páskana og ætlum við að dvelja hérna í heimabæ tengdasonarins Sarrock.  Þó að heimafólkinu finnist hálfgerð stormviðvörun þá erum við í stuttbuxum og ermalausum bolum.  Tengdafaðir dóttur minnar veiktist nú samt þrátt fyrir 3 flíspeysur, húfu og arineld, en litlu ömmustákarnir mínir voru eins og kálfar að vori svo glaðir að geta labbað útí garð og leitað að eðlum, maurum og öðrum skemmtilegum dýrum. Þetta olli því að hann er kominn í öndunarvél sem blæs pencillíni og hóstar eins og stórreykingarmaður og getur varla gengið fyrir mæði. Þetta er hins vegar hinn hressasti karl sem gengur klukkutímum saman á morgnana fyrir sólarupprás en svona hefur veðurfarið misjöfn áhrif á fólk. 

Eins og mér hefur verið tíðrætt um þessa dásamlegu eyju og sérstaka fólkið sem hér býr með öllum sínum kreddum og hefðum, þá hef ég ekki áður orðið vör við "kukli" því sem við lentum í á markaðnum í gær.  Taka skal þó fram að þeir trúa á allskonar eins og bara við íslendingar og ég meina "kukl" eða kreddur er mismunandi eftir þjóðum.  Við fórum sem sagt á markað í Capoterra litlum sætum bæ og lögðum bílnum fyrir framan hús eitt og hafði tengdasonur minn það á orði að hann vonaði að bíllinn yfirði ekki farinn þegar við kæmum til baka.  Eftir að hafa rölt markaðinn og gert góð kaup, fórum við til baka og viti menn bíllinn var á sínum stað en út úr húsinu sem hann stóð fyrir framan kom lítil mjög krumpuð, brúnklædd kona og spurði hvort hún mætti snerta hendur yngra barnabarns míns, en það þykir boða gæfu.  Jafnframt tjáði okkur það að hún væri boðberi ógæfu og allt sme hún snerti fengi ógæfu í kaupbæti. Takk fyrir þetta kærlega og drengurinn  sem er algerlega óvarinn illum öndum þar sem armbandið hans sem á að verja hann slíku er slitið og ekki komið úr viðgerð.  Hún fékk ekki að snerta barnabarnið mitt.

Ég sagði "tengdó" fra þessu og bíð ég nú eftir því að hún mæti með vígt vatn og skvetti á okkur í tíma og ótíma.  Ég mun brynja mig með sundhettu og krumpufríum fötum.

 

 


Reynslusaga úr apóteki

Já hver hefur ekki upplifað það eins og fyrirsögnin ber með sér.   Ég hef upplifað mjög sérstaka reynslu úr Apóteki hérna í Reykjavík sem fékk mig til að hugsa hvort allir sem þar versluðu væru að reyna að hafa eitthvað út úr því ólöglega.

Ég kem inní apótekið og er að versla fyrir vin minn sem býr ekki í alfararleið og er algerlega á móti því að honum séu send lyf, finnst hann alltaf fá samheitarlyf, þannig að ég er með umboð fyrir hans hönd.  Var ég þarna stödd og bið um Xailin augnkrem 4 túpur takk, ég sýndi henni nafnið í símanum stórletrað (túpan er ponsulítil eða um 5 g) stúlkan sem afgreiddi mig horfði á mig og spurði hvort ég væri að kaupa fyrir stofnun. "Nei sagði ég bara fyrir mann sem var í augnaðgerð á báðum augum"  já þú færð bara að kaupa 2 stk. var mér tjáð.  Allt í lagi tek 2 stk.  svo bar ég upp næstu kaup sem voru Calogen næringardrykkur sem er niðurgreiddur til sjúklinga, enda rándýr vara. Afgreiðslustúlkan kallaði til 2 aðrar og önnur greinilega yfirmaður og hvísluðu þær eitthvað sín á milli og sú sem virtist yfir sagði að þetta þyrfti að kaupa á dagtíma þegar hjúkrun væri við.   Já jarmaði ég en klukkan er bara hálf 3. Já hjúkrun er hérna milli 8 og 5 og ég skal láta þetta sleppa núna en næst komdu meðan hjúkrun er.  Ég kíkti á símann minn og hann var ennþá 2:30 local time.  Sýndi henni símann og spurði: "er ekki örugglega dagur?"  

Ég er ekkert fis þó ég segi sjálf frá og hef ekki hugsað mér að overdosa af Calogen en hún lét mig fá brúsann náðarsamlegast í þetta sinn, án samþykktar frá "hjúkrun". Ég kom heim til vinar míns með góssið verðmæta.  Hann spurði; " bíddu af hverju ertu með 2 túpur af gyllinæðakremi en ekkert augnkrem?"

Þannig að ekki einasta héldu afgreiðslustúlkurnar að ég ætlaði að fá mér 5000 kaloríu drykk, heldur úða 4 stórum túbum af gyllinæðakremi í augun mér nú eða mínum lasna félaga. jah ég ætla ekki aftur í þetta apótek. Fékk þó að skila kreminu og fékk náðarsamlegast að kaupa 4 litlar túpur af Xailin (Augnkreminu sko)


Sjúklingur Núll

Ég lagði undir mig fót í sumar og skellti mér til Ungverjalands þar sem hluti fjölskyldunnar var búin að koma sér vel fyrir þar og gat tekið á móti mér.  Tengdasonurinn er að vinna þar um tíma og býr í þessari yndislegu borg Miscolk.  Nú eftir að allir á skrifstofu tengdasonarins höfðu greinst með covid en hann sá eini sem slapp og þakkaði það sinni grímunotkun þá áttum við nú von á því að sleppa við þennan vágest.  Nú stuttu síðar en samt eftir sirka 5 covidtest á vinnustaðnum þá veikist hann og verður þetta líka lyktarlausi og bragðlausi sjúklingur en við mæðgur gerðum nú mest bara grín af honum og hans "manflu" sem er nú oft að okkar mati ekkert til að tala um því auk þess að vera af þessu kyni er hann í þokkabót Ítali og Ítali sem er lasinn úps...... það er eitt stykki veikur maður. Gott ef hann haltraði ekki á tímabili.  Alla vega þá vorum við öll skikkuð í test og fórum glöð og reif fullviss um að við værum hraust og ekkert amaði af okkur.  Við mættum í vinnuna til hans í þar til gert sjúkratjald og afhentum okkar sýni.  Verð þó að viðurkenna að ég var ekki alveg hressi karlinn og var óvenju þreytt og splæst en kenndi því um að hafa ráfað um dýragarð sem var staddur á hálfgerðu hálendi og bratt undir fót að sækja og skoða með 2 fjörkálfa, hálflasinn ítala og dóttur mína sem var svo hrifin að ég held að hún ein hafi notið ferðarinnar í 38 stiga hita og fullt af dýrum og hún ein okkar flögraði um svæðið eins og fiðrildi alsæl.

Dagur eftir sýnatöku rann upp og var það sami dagur og við ætluðum heim til Íslands og allt klappað og klárt fyrir brottför þegar símtal kom og jú; " patient zero has covid".  Ég vissi nú ekki að ég hefði fengið "codename" zero en ok ég var sem sagt smituð og þar af allir í einangrun og ég sem fann lykt og allt.  Skyldi þó engan undra því það var ekki eins og Miscolkar hefðu heyrt um að það geysaði heimsfaraldur því þeir gerðu ekkert til að varna smitum, enginn með grímu og hvergi sprittbrúsar.  Allir ofan í öllum og út um allt og alls staðar.

Jæja í dag var mér svo skipað í einangrun og einkennasýnatöku og spyr því hvort ég eigi ekki von á CNN vegna viðtals við mig þar sem  ég er sennilega óheppnasti tvísprautaði Kóviti ef ég reynist með covid AFTUR!!!


Enn fleiri sögur frá Sardeníu

Ég á vinkonu á Sardeníu sem er gift aðeins eldri manni eða já miklu eldri manni.  Hann fékk hjartaáfall og var honum gert að létta sig um 10 kg. og lifa sómasamlegu lífi, ekki kaffi, ekki vín og ekki sígarettur.  Fyrir ítala af bestu gerð er það óhugsandi með öllu þar sem þeir lifa fyrir góðan mat, kaffi, vín og sígarettur.

Eiginkonan tók það nú á sig að halda í uppskriftir frá lækninum sem töldu 450 gr. af léttu fuglakjöti í viku hámark og hélt hún það nú ekki vera vandamál.  Hófst hún handa við að útbúa mat fyrir vikuna og var samviskusöm með alla rétti, fiskur 3svar í viku, grænmeti og svo fuglakjöt. Skipti út ís fyrir veganís og gerði allskonar breytingar.

Eitthvað hafði hún misskilið grömmin og gaf manni sínum 450 grömm af kjöti í hvert mál og þegar hann kom eftir 4 vikur til læknis aftur hafði hann bætt á sig 6 kg. við mjög litla hrifningu læknisins.  Hann sagðist nú halda að hann hafi fylgt öllum hans fyrirmælum í hvívetna og leit á konu sína til að fá hennar samþykki.   Hún sagði þá ég kaupi 1 kg. af kjúkling á mánudögum og skipti honum í tvennt og hann fær hálfan og aftur síðan hinn helminginn síðar i vikunni. 100 gr. sem eftir eru gef ég hundinum sagði hún hróðug.  Læknirinn sagði henni að hámark 450 gr. á viku hefði verið hans fyrirskipun.  Maðurinn hennar á erfitt með andardrátt og getur ekki hneppt skyrtunni sinni en treystir frúnni í blindni að redda þessu. Hann heldur sig þó við bjór zero (alkóhólfrían) og koffínlaust kaffi enda hún með þetta allt á hreinu eiginkonan.

Elska þessar sardenísku konur.


Maturinn í Miscolc

Hérna í Miscolc er að mestu leyti mjög góður matur og eru þeir með mikið úrval af andakjöti, kjúklingum og þessu hefðbundna lamba, svína og nautakjöti.  Hins vegar bera þeir þetta fram með öðrum hætti en við eigum að venjast svona almennt í evrópu og minnir að hluta til margt um Kína alla vega þegar kemur að pizzum með gorgonzola og svo kannski smá sætri glassúrssósu sem þeir í Kína voru svo hrifnir af.  Alla vega þá fórum við á stað sem er þekktur fyrir steikur og endur og fengum við okkur öll þrjú endur.  

Ég fékk mér andabringur en ungu hjónin fengu sér andalæri.  Dóttirinn fékk sitt læri á Mc and cheese beði með chilibútum alltof sterkt og eiginlega ekki alveg það meðlæti sem við eigum að venjast með önd.  Tengdasonurinn fékk sitt læri á kúskús með chili og já þeir eru hrifnir af sterku chili.  Ég fékk bringuna í súpuskál með fljótandi uppstúf og kartöflum á víð og dreif þar ofaní, með spínati, brie og steiktum pulsulauk. já bringan var ok en hitt ekki.  Með þessu var hægt að fá 30 vatnstegundir, 40 bjórtegundir, ódrekkandi rauðvín eða rósavín, nú eða sem ég endaði á enda oftast óbrigðult hérna "Spritz" en þegar það loksins kom var ekkert freyðandi við það, það var flatara en Danmörk og gott ef það var ekki aðeins notað bara, alla vega fannst mér rörið vera farið að mýkjast verulega og þeir hafa væntanlega sett Aperol spritz og dass af flötu vanti, hent útí notaðri appelsínu og já látið þetta standa góðan tíma á borði miðað við bragðið alla vega.  Ég held mér við Cherry kók héðan í frá.


Covid hér og þar

Þegar ég kom á flugvöllin hérna í Búddapest þá var eins og Covid væri eitthvað sem enginn hefði heyrt um alla vega var enginn með grímu nema svona útlendingar eins og við og engar sprittstöðvar sjáanlegar.  Við héldum áfram til Miscolc sem við ætluðum að gista í 2 vikur hjá tengdasyni mínum.  Hann mætti í próf daginn eftir og var neikvæður og fór svo að vinna daginn eftir.  Portúgalskur Covidspreðari var á skrifstofunni hans og þegar tengdasonur benti honum á augljós einkenni Covid sagði hann að þar sem hann fór í sund um helgina hefði hann væntanlega náð sér í heiðarlegt kvef. (mjög líklegt í 39 stiga hita).  Tengdasonurinn var með grímu þann daginn á skrifstofunni einn manna.  Daginn eftir var hann sendur í próf og síðan heim og fékk hann einhver flensueinkenni í kjölfarið.  Hann reyndist neikvæður en allir á hans skrifstofu voru með covid.  Ætlar svo einhver að segja að grímurnar geri ekkert gagn.

Nú í kjölfarið varð ég veik og taldi mig í það minnsta með Covid og til vara massíva lungnabólgu.  Ég fékk 20 stk. pcr prófa og reyndist neikvæð að Covid og bíð ég nú svara með lungnabólguna.  Ég á það reyndar til að vera með dass af dramatík, hef farið 3svar á spítala með gervihjartaáfall og þegar gömul íþróttameiðsl tóku sig upp í hné og ég kíkti á lækni þá gerði hann smá grín að mér og sagðist þurfa að setja mig í gifsbuxur og spengja á mér hálsinn sem mér þótti eðlilegt miðað við verki. Hann sendi mig þó "bara" í aftöppun á vökva úr hné. Ég er samt töffari að eðlisfari en er haldin þessari hörmungarhyggju og byggist hún því miður á reynslu minni

Nú hérna í búðunum morar allt í svæðum með brauðum og kleinuhringjum sem fólk veður í með skítuga putta nota ekki tangir einu sinni og hérna í Miscolc hef ég séð einn með grímu utan okkur fjölskylduna.

Meira um meint veikindi síðar


Tískan í Miskolc

Það er alltaf gaman að koma til nýrra staða og skoða mannlífið, fólkið, klæðnaðinn og ekki síst hollninguna á fólki.  Í Slóvakíu var fólk almennt mjög grannt og mjög alvörugefið og frekar fúllynt á manninn. Eins og þau væru sliguð af áhyggjum og burði með allar heimsins áhyggjur. Gæti verið áhrif fyrri tíðar eða kannski vegna þess að barirnir voru ennþá neðanjarðar og þurfti almennt að labba inná veitingarhús og ef maður vildi hlusta á tónleika eða fá sér vínglas (sem var venjulega ekki til) þá þurfti maður að bogra inní rými neðanjarðar. Tónlist má ekki ennþá spila á götum eða í görðum bara neðanjarðar alla vega í Nitra borginni sem ég var gestur í.

Hérna aftur á móti í Miskolc er glaðlyndara fólk vel í holdum minnir gjarnan á sum ríki í Bandaríkjunum, enda kannski ekki að furða það eru hugsanlega 5 til 10 metrar á milli ísbúða hérna og eru ansi margir labbandi um með ísa hérna á götunum, börn sem og fullorðnir. 

Eiginlega er eins og að vera staddur í miðju "krúinu" af Bold and Beutyful.  Allar konur með einstaklega mikið og túperað hár, og er hvert hreiðrið af fætur öðru ofan á hausnum á þeim, en líka er snjákahvítt hár, fjólublátt, blágrænt og bleikt í tísku hérna. 

Hollningin er sem sagt mismunandi eftir löndum og er eins og vanti hálsinn á marga karlmenn hérna sem eru náttúrulega slavneskir í útliti en virðast eins og hausinn hafi bara verð skrúfaður á búkinn og ég er með verulegar áhyggjur ef þeir fengju skjaldkyrtilsvandamál.

Tískan já hún er dásamleg og mjög litrík eins og maður sé staddur inní sælgætislandi, hvítar buxur með bleikum blómum eru sem sagt mjög vinsælar. Ég elska að sitja á kaffihúsunum hérna í kring og horfa á mannlífið sem er vægast sagt fjölbreytt og litríkt og tískan alveg sér á parti.  Sá eina konu í gær í LV gerfidressi sem var samfestingur svartur að aftan en að framan var hann með áteiknuðu belti, hálsmeni, skyrtu og buxur allt í einu fatastykki. Skórnir voru þó ekta Crocks skór og ekki fastir við samfestinginn. Þessi snót var vel í holdum og svo glaðleg og dásamleg að mér fannst dressið bara nokkuð flott. Ekki að ég ætli að kaupa mér svona stykki finnst alltaf smá feik að geta ekki haft beltið allan hringinn nei bara svart bak. Vantaði heildarlookið!

Kveðja frá tískulöggunni í Miskolck

 

 


Miskolc í Ungverjalandi

Við komum hingað til Miskolc frá Sardeníu úr 37 stiga hita í svalann og 26 stiga hita.  Miskolc er rosalega skemmtileg borg um 300 km frá Búddapest með um 150 þús íbúa. Miskolc er rétt við landamæri Slóvakíu og ekki langt frá landamærum Úkraníu.  Þessi bær er líflegur og erum við í miðbænum með rennandi á hérna á bak við húsið og fullt af börum og veitingastöðum.  Íbúðin er mjög fín og hérna er notalegt að vera þar sem ekki er þessi rosalegi raki og hiti eins og við upplifðum á Sardeníu. 

Hérna er allt öðruvísi andrúmsloft en ég hef upplifað áður, ekki eins hert og stíft eins og í Slóvakíu, fleiri tala ensku og fólk virðist ekki vera með þetta samanbitna yfirbragð og Slóvakar hafa.  Hérna er líka hægt að fá annað en bara bjór, reyndar smá sýrubragð af rauðvíninu en Prosecco og spritz fást með matnum ef maður vill ekki halda sig við vatnið bara. Það eru örugglega 100 tegundir af vatni með bragði.

Hérna eru mjög skemmtilegir matsölustaðir og tapasbarir með besta tapas sem ég hef smakkað verð ég að segja.  Gúllassúpan kemur svo sem ekki á óvart en það er greinilega mikil uppsveifla í framboði matar hjá "Miskolcum".

Ég varð hissa á því hversu mikill munur er á Slóvökum sem eru hérna rétt hjá og Ungverjum þeim sem hér í þessum bæ búa.  Meðan slóvakar eru hávaxnir og grannir eru Ungverjar meira líkir bandaríkjamönnum í vexti og flestir mjög vel í holdum.  Allt í góðu lagi með það, það sem vekur athygli mína er þó að hversu lausir þeir eru við að vera með þessa líkamsmeðvitund og við höfyn og klæða sig bara eftir tískunni hérna, skítt með vöxtinn. Tískan er jú heill kapítuli útaf fyrir sig og dásamlegt að sjá hversu misjafnt fólk er eftir löndum. Hérna er í tísku að vera í stuttbuxum og var H&M morandi í stuttbuxum í öllum stærðum og er magabolur notaður við stuttbuxurnar og alveg sama hvernig vaxtarlagið er. Svo er bakið skreytt með litlum sætum bakpoka og jafnvel með Frozenmunstri. Kemur mér svo skakt fyrir sjónir þar sem við hugsum öðruvísi og ég sem er nú ekkert fis mundi aldrei voga mér að fara í magabol og henda litlum sætum bakpoka á bakið sem væri eins og krækiber í helvíti. 

Gaman að þessu!

 

 


Sardenía með mínum augum

Sardenía er eins og ég hef áður líst alger paradís, allt á sínum rólyndishraða. Konur og menn fara á markaðinn og kaupa sína daglegu melónu en Sardar borða gjarnan ávexti eftir allar máltíðir. Þeir eru nú ekki að flækja málin neitt sérstaklega og finna lausnir við öllu. Hef aldrei séð lausnamiðaðri fólk en þarna.  Vinur tengdasonar míns er einstaklega skemmtilegur gaur og smá vesenisti. Þ.e. hann er frekar mikið fyrir sopann og breytir þá ekki miklu hvort hann er keyrandi á bíl eða traktor á stærð við fragtskip þegar hann fær sér í tánna.   Hann ræktar maís og er ötull í vinnu og er eiginlega bara stórbóndi.  Eitt sinn var hann á "barnum" og já ekki misskilja að það sé bara einn bar í bænum, nei það er bara einn bar sem þeir félagar mæta á annað er óhugsandi. Þetta er eitt af sérvisku þeirra og óhugsandi að mæta á barinn handan götu heimilisins. Það er bara ekki þeirra bar.  Hann var sem sagt á barnum að fá sér bjór og hafði lagt traktornum fyrir framan útkeyrsluna hjá lögreglustöðinni.  Það komu 2 löggur inná barinn og gengu að honum og báðu hann að færa tækið. Allir þekkja alla í bænum og jú hann tók með sér bjórinn bað aðra lögguna að halda á honum meðan hann færði tækið.  Hann lagði traktornum svo bara ólöglega annarsstaðar meðan löggan geymdi bjórinn hans og svo kom hann bara smá pirraður á þessu veseni.

Sardar eru úrræðagóðir með eindæmum og þessi sami strákur fékk sér vinnu á tímabili þegar uppskeran brást og þeir voru 2 félagar sem sóttu um á einhverjum lúxusveitingastað og þar þurftu þeir að klæðast fatnaði frá staðnum.  Það var þó einn galli á gjöf Njarðar að þeir þurftu að kaupa fatnaðinn frá skóm uppí skyrtu.  Þeir fundu nú samt slatta af fötum og skóm í hrúgu á staðnum eftir fyrrum starfsmenn og tóku þau bara í notkun.  Gallinn var hins vega sá að skórnir voru 2 númerum of litlir þannig að hann gekk um salinn eins og Geisha og vinur hans var í svo síðum buxum að hann var alltaf að detta.  Hann var rekinn þegar hann datt á fína frú með súpu en hinn vann í 8 mánuði í þessum litlu skóm og ég er ekki frá því að hann minni á Geishu þegar hann labbar.

Elska þessa Sardeníubúa.

 


Fleiri sögur frá Sardeníu

Ég elska Sardeníu með sínar fallegu strendur, sérviskulegt fólkið og frábæra matinn, en þeir eru mikið í fersku sjávarfangi og nýta flest allt úr sjónum. Chia ströndin er eins og hvítur flórsykur svo fín og falleg og sjórinn blágrænn og svo er það bleika ströndin "Spiagga di Rosa" sem er bleik vegna mikils rauðs kórals í kringum hana. Þeir gera mikið af skartgripum úr þessum kórall og eru þeir mjög eftirsóttir af ferðamönnum.

Sarrock er bær sem er skammt frá höfuðborginni Cagliari og þaðan kemur tengdasonur minn, þar er eða var dásamlega falleg strönd en nú er búið að setja þar olíuhreinsunarstöð sem er eins og skrímsli við fallegan grænbláan sjóinn.  Flestir bæjarbúar vinna í stöðinni en þar sem Covid hefur lamað atvinnulífið þar þá eru margir með hálft starf og því farnir að mennta sig í öðru eða farnir til annarra landa í vinnu.

Þá víkur sögunni að klipparanum sem þurfti að ná sér í aðra menntun til að halda tekjum vegna skorts á vinnu í olíuhreinsunarstöðinni og er hann með heimaþjónustu. Kemur heim til þín á hjóli og bauðst hann til að koma til okkar í Pula.  Hann mætti á hjóli með 20 metra langa snúru til að setja rakvélina í samband og klippa svo "liðið" í garðinum.  Það þurfti að klippa einn vin tengdasonarins líka.  Sá mætti á því stærsta landbúnaðartæki sem ég hef séð svona nokkur tonn með stóran bjór í hendinni undir stýri og til í klippingu. Skildi "farartækið" eftir á götunni og blokkaði hana nánast alveg og svo hófst klipping.  Klipparinn náði meira að segja að klippa barnabörnin mín tvö án teljandi vandræða. Þurfti reyndar að koma tvisvar til að klára og hafði þá vinurinn (á farartækinu netta) á orði bíddu ertu enn í vatninu 2 daga í röð? Það telst til frétta greinilega enda yfir 30 stiga hiti og maðurinn bara í vatni.  Allir voru vel klipptir og sáttir og síðan hjólaði hann bara til baka með sína 20 metra snúru og skærin í vasanum og klyfjaður hárdóti í svuntunni sinni. Ekkert eðlilegra.

2f778f895226f9116e17a01bd3b5a75fdownload


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband