Fleiri sögur frá Sardeníu

Ég elska Sardeníu með sínar fallegu strendur, sérviskulegt fólkið og frábæra matinn, en þeir eru mikið í fersku sjávarfangi og nýta flest allt úr sjónum. Chia ströndin er eins og hvítur flórsykur svo fín og falleg og sjórinn blágrænn og svo er það bleika ströndin "Spiagga di Rosa" sem er bleik vegna mikils rauðs kórals í kringum hana. Þeir gera mikið af skartgripum úr þessum kórall og eru þeir mjög eftirsóttir af ferðamönnum.

Sarrock er bær sem er skammt frá höfuðborginni Cagliari og þaðan kemur tengdasonur minn, þar er eða var dásamlega falleg strönd en nú er búið að setja þar olíuhreinsunarstöð sem er eins og skrímsli við fallegan grænbláan sjóinn.  Flestir bæjarbúar vinna í stöðinni en þar sem Covid hefur lamað atvinnulífið þar þá eru margir með hálft starf og því farnir að mennta sig í öðru eða farnir til annarra landa í vinnu.

Þá víkur sögunni að klipparanum sem þurfti að ná sér í aðra menntun til að halda tekjum vegna skorts á vinnu í olíuhreinsunarstöðinni og er hann með heimaþjónustu. Kemur heim til þín á hjóli og bauðst hann til að koma til okkar í Pula.  Hann mætti á hjóli með 20 metra langa snúru til að setja rakvélina í samband og klippa svo "liðið" í garðinum.  Það þurfti að klippa einn vin tengdasonarins líka.  Sá mætti á því stærsta landbúnaðartæki sem ég hef séð svona nokkur tonn með stóran bjór í hendinni undir stýri og til í klippingu. Skildi "farartækið" eftir á götunni og blokkaði hana nánast alveg og svo hófst klipping.  Klipparinn náði meira að segja að klippa barnabörnin mín tvö án teljandi vandræða. Þurfti reyndar að koma tvisvar til að klára og hafði þá vinurinn (á farartækinu netta) á orði bíddu ertu enn í vatninu 2 daga í röð? Það telst til frétta greinilega enda yfir 30 stiga hiti og maðurinn bara í vatni.  Allir voru vel klipptir og sáttir og síðan hjólaði hann bara til baka með sína 20 metra snúru og skærin í vasanum og klyfjaður hárdóti í svuntunni sinni. Ekkert eðlilegra.

2f778f895226f9116e17a01bd3b5a75fdownload


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband