6.11.2022 | 17:37
Snillingurinn minn barnabarnið!
Eins og ég hef áður tjáð mig um með yndislega sérstaka barnabarnið mitt og hans sérstöku hæfileika þá getur hann algerlega drepið mann með skemmtilegum setningum sem hann þylur upp eins og "robot" eða í þeim tón sem hann hefur heyrt viðkomandi setningu. Þessa dagana hefur hann einstakan áhuga á geimförum og geimferðum og þylur upp allskonar setningar tengt því á ensku þar sem hann fann þetta "skemmtiefni" á ensku. Hann er gjarnan í stígvélunum sínum að horfa á þetta því geimfararnir eru í einhversskonar stígvélum við "the new spacesuit".
Hann hefur svo þetta einstaka minni að hann horfði á einhverja videómynd þá er ég ekki að tala um kvikmynd, heldur sá hann krakka í rútu á leið í skólan þegar hann var mjög upptekinn af rútum sérstaklega Norðurleið og Teitur rútur. Ég held að þetta hafi verið þegar hann var svona 4 ára sem gera rúmlega 3 ár síðan og ekki man ég þetta. Hann biður um þetta alla daga og svo er það í okkar höndum þ.e. minna og foreldra að reyna að finna þetta. (engin hætta að hann gleymi eða gefist upp).
Nú einnig er hann mjög hrifinn af Subway logo og pepsi max lime enginn sykur alvöru bragð. Hann var hérna hjá mér um helgina, þar sem ég er hans stuðningsforeldri og bað svona 119 sinnum um jóladót og þar sem hann er í hálfgerðu dekri hjá mér fjarri krefjandi bróður sínum þá fór ég í geymsluna og sótti jóladótið og týndi hann upp þar til gert "dót" sem hann hefur svo með sér um alla íbúð og já ég vaknaði með svona hnetubrjótskarl undir bakinu í morgun frekar notalegt og er öll í glimmeri alveg gasalega fín.
Svo þegar hann segir setningu sem er skiljanleg og á við þá stundina eins og "amma viltu koma að hjálpa mér", þá verður maður svo upprifin að manni langar að senda fréttir út um allan heiminn eins og ég í þessu tilviki með jólaskrautið. Hann veit að pabbi kemur um jólin og hann segir "amma taka jólin með fram" því hann er að bíða eftir pabba sínum og hvað er þá betra en að halda bara á jólunum svo þau fari ekki framhjá. Nú færi ég sem sagt "jólin" milli herbergja eftir því hvar hann er.
Ég dey yfir þessu barni
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.8.2022 | 11:04
Óvæntur gestur!
Þar sem ég sat í makindum mínum og beið gesta minn í garði vinkonu minnar hérna á Spánarströnd þar sem við ætluðum að borða saman hádegismat í hitanum. Ég var að leggja lokahönd á undirbúninginn, þá var bankað á hliðið á veröndinni og fyrir utan stóð nágrannakonan sem er frönsk á sjötugsaldri. Hún spurði hvort ég gæti reddað sér þar sem hún væri læst úti og fatlaður eiginmaður og öldruð móðir hennar væru fyrir innan hlið ófær um að bjarga sér. Ég sagði henni að ég færi nú ekki uppí stiga enda loftrædd með afbrigðum. Nei nei sagði hún er ekki einhver karlmaður sem getur bara haldið við stigann svo ég geti klifrað yfir, því hún er víst með stórhættulega hunda á svæðinu. Fransk/enskan hennar var eiginlega með öllu óskiljanleg en hún talar spænsku svo ég sagði henni að vinkona mín spænskumælandi væri á leið til mín og með henni hennar ektamaður. Nú þau runnu í hlað og fóru beint í að aðstoða frúnna við að komast yfir til fjölskyldunnar. Hún fræddi mig á því að hún væri að fara með þau út að borða en það gerir hún einu sinni í mánuði.
Við vorum ekki búin að sitja lengi þegar kall eftir hjálp barst frá götunni, en þá hafði hún fest eiginmanninn í bílnum og hann lá þvert yfir bæði framsætin ófær með öllu að hreyfa legg eða lið. Vinkona mín einhenti sér í að reisa hann við og ég reyndi að troða fótunum á honum inn í bílinn. Hann var nú óskaplega ósjálegur greyið í sjúkrahústreyju óhnepptri á sokkunum og hárið illa hirt sem og skeggið og hann var með húfu í 45 stiga hita. Nú við skorðuðum hann af og settum hjólastólinn í skottið og þá kom hin há há háaldraða móðir en hún komst sjálf að bílnum og við einhentum henni í aftursætið enda hálfgert fis. (franskar konur fitna víst ekki).
Hjá okkur var stuð og stemming enda vinkonur mínar sem ég hafði ekki hitt lengi, við spjölluðum og hlógum þar til bankað var uppá og sú franska með karlinn í hjólastólnum sagði okkur að við yrðum að geyma hann meðan hún sækti lyklana sína sem hún hafði gleymt á matstaðnum. Spurði ekki heldur rúllaði honum út í horn. Hann verandi norskur og einhverjar líkur á að við skildum hann þó hann væri nú eiginlega á mörkum þess að vera með meðvitund, þá spurðum við hann hvort hann vildi eitthvað og hvort hann vildi sitja hjá okkur en hann vildi það alls ekki. Sat bara eins og dæmdur og allt í einu fór hann að hrópa: Jeg vil OPPPPP jeg vil op og hljóp ég til þar sem ég er nú málamanneskja og tala hin ýmsu tungumál m.a. dönsku og sænsku en alls ekki norsku. Skidli ekkert sem hann sagði, hann vildi sem sagt láta færa sig upp í hjólastólinn þar sem hann var að renna niður úr honum. Við björguðum því og löguðum hann til. Hann var í drykklanga stund hjá okkur eða einhverja klukkutíma. Breski nágranninn sagði mér síðar að sú franska stundaði þetta þ.e. að þykjast hafa gleymt lyklum og væri svo í burtu 3 til 4 tíma og já svona bjargar hún sér bara.
Hún gaf okkur ódýrt ódrekkandi cava og rauðvin sem þökk fyrir hjálpina sem hún var með óvart í bílnum fyrir svona tilefni reikna ég með.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 11:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2022 | 11:19
Veðurupplifun milli landa
Sardar eru dásamlegt fólk, eru vanari 40 gráðu hita, meðan við íslendingarnir hendum af okkur fötum þegar hitinn er kominn í 8 stig maður bara heldur sér í sólstólinn. Sardar eru stoltir og kalla sig alls ekki Ítali, heldur Sarda og hafa þeir eigin fána sem var hérna áður skríddur 4 "banditos" með bundið fyrir augu, (partur af sögunni meira um það síðar) en þeim var gert að færa böndin upp að enni á gaurunum á fánanum.
Hérna er vetur fram til miðjan júní og þú ert ekkert að fara að mótmæla því. Þeir gapa þegar þeir sjá okkur á ermalausum kjól og með börnin í sandölum og fáklædd. Ítalska amman kappklæðir þá að morgni og kveikir í arninum svo þeir forkelist ekki. Þar sem litlu víkingabörnin eru bara ekki tilbúin að vera í sokkum skóm, úlpu og með húfu. Lái þeim hver sem vill, en hérna signir fólk sig og börnin okkar og biður blessunar þeim til handa svona illa klædd og um það bil að forkelast í þessu mannskaðaveðri sem þeir telja vera meðan þeir blása ekki úr nös.
Ég benti þeim á það að ef hávöxnu stráin þeirra hreyfist ekki í "rokinu" þá er gola, því til sönnunar sagði ég þeim að ef ljósastaurarnir heima á Íslandi högguðust lítið þá er EKKI rok, þá er gola og við stöndum við það.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2022 | 14:11
Hefðirnar á Sardeníu eru bara svo frábærar!
Það sem kemur mér skemmtilega á óvart hérna á Sardeníu er hversu stíft þeir halda í hefðir. Ég hélt alltaf að Bretar væru hefðbundnastir allra en Sardar eru stífari á sínum hefðum og venjum. Við íslendingar mætum oftast í matarboð með blóm eða góða vínflösku í poka með slaufu að sjálfsögðu. Þeir koma hins vega með kind eða geit, þó ekki á fæti en svona nánast, jafnvel heilt dýr sem sett er á tein og grillað yfir eldi í garðinum. Það gerðist akkúrat í dag 2. í páskum en þá er þeirra aðaldagur þar sem fjölskylda og vinir hittas og öllu er til tjaldað.
Hérna var matarboð og komu gestirnir færandi hendi. Sá fyrsti mætti kl. 11 með heilan geitarskrokk. Næsti kom með 10 kg. af appelsínum úr sínum garði, annar með Limonchello heimagert og hjón sem eru með ólífurækt komu með ólífuolíu í 2 lítra flösku.
Þetta er svona aðeins öðruvísi en við eigum að venjast enda ekki hægt að klæða geit í sellófón og setja slaufu á. Þeir eru ekkert að skreyta hlutina bara einfaldleikinn allsráðandi. Einnig nota þeir mjög gjarnan sínar afurðir sem greiðslu fyrir smá viðvik og er alls ekki óalgengt að bíll stoppi hérna fyrir utan húsið og lambi, hent inn og borgað með nokkrum kg. af appelsínum, sítrónum og tómötum.
Ekkert prjál hérna.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2022 | 14:09
LSH og bílastæðin
Ég fór einu sinni til Búlgaríu sem er nú ekki í frásögur færandi nema hvað ég fékk svona tilfinningu í dag á LSH Hringbraut sem hefur setið í mér í ein 30 ár þegar ég lenti í veikindum í Búlgaríu þess tíma og þurfti að fara í sjúkrabíl á heilsugæsluna og viti menn það var innakstur bannaður á einu leiðinni inn að heilsugæslunni svo auðvitað borguðum við bara löggunni sem stóð við "innakstur bannaður" merkið og safnaði í sjóð.
Nú ég var síðan flutt frá sjúkrahúsi með sjúkrabíl á flugvöllinn og það reyndist nú ekki gæfulegt, þar sem allskonar farþegar voru teknir með, ekkert verið að keyra með sjúkling einan í þessum stóra bíl. Nú ég var eins og rakvélablað uppá rönd í sjúkrarúmi og allt fullt af Búlgörum á leið til vinnu. Þeir stoppuðu víða til að hleypa út fólki og stoppuðu líka á bensínsstöð og sóttu sér bensín og kaffibolla, alltaf með mig í bílnum.
Nú víkur sögunni að hinu löngu sprungna LSH, en þangað fór ég í morgun á bíl með merki fyrir fatlaða, þar sem ég var að sækja veikan einstakling úr krabbameinsmeðferð. Nema hvað að það var hægt með góðu móti hérna í síðustu viku eða svo að skvísa inn 4 bílum í 2 þar til gerð stæði fyrir fatlaða, en nei nú var búið að setja steypuklumpa svo fólk væri nú ekki að troða sér í stæði. Það er með öllu ómögulegt að fá stæði þarna þar sem gert er ráð fyrir svona 30 manns hámark og þá líka á fæðingardeildinni. Ég fór inn eftir að hafa lagt bílnum í brekku, an það gefur auga leið að ekki er gott að skondrast með hjólastól og veikan einstakling bæinn á enda þar sem laus stæði eru. Ég hljóp inn og sótti aðilann í hjólastólnum en hafði þá að sjálfsögðu verið rukkuð vegna ólöglegrar lagningar.
Þetta veit ég að allir sem eru á fæðingardeildinni og geta ekki hlaupið út á nokkra tíma fresti fá gjarnan svona glaðning með nýja barninu.
Mér þykir þetta ekki smart og ef LSH getur ekki hundskast til að hafa stæði svona sirka í sama póstnúmeri og spítalinn er, þá endilega skoða það að hafa rútur til og frá stæðum. Við erum ekki alltaf nógu heilbrigð til að taka göngutúr á leið í læknismeðferð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2022 | 15:58
Fallega Sardenía
Sardenía í smá kulda að mati okkar íslendinga en mannskaðaveðri skv. íbúum eyjunnar er aðeins öðruvísi en á sumrin í 40 stiga hita. Yndislegt veður er þó hérna í Sardeníu yfir páskana og ætlum við að dvelja hérna í heimabæ tengdasonarins Sarrock. Þó að heimafólkinu finnist hálfgerð stormviðvörun þá erum við í stuttbuxum og ermalausum bolum. Tengdafaðir dóttur minnar veiktist nú samt þrátt fyrir 3 flíspeysur, húfu og arineld, en litlu ömmustákarnir mínir voru eins og kálfar að vori svo glaðir að geta labbað útí garð og leitað að eðlum, maurum og öðrum skemmtilegum dýrum. Þetta olli því að hann er kominn í öndunarvél sem blæs pencillíni og hóstar eins og stórreykingarmaður og getur varla gengið fyrir mæði. Þetta er hins vegar hinn hressasti karl sem gengur klukkutímum saman á morgnana fyrir sólarupprás en svona hefur veðurfarið misjöfn áhrif á fólk.
Eins og mér hefur verið tíðrætt um þessa dásamlegu eyju og sérstaka fólkið sem hér býr með öllum sínum kreddum og hefðum, þá hef ég ekki áður orðið vör við "kukli" því sem við lentum í á markaðnum í gær. Taka skal þó fram að þeir trúa á allskonar eins og bara við íslendingar og ég meina "kukl" eða kreddur er mismunandi eftir þjóðum. Við fórum sem sagt á markað í Capoterra litlum sætum bæ og lögðum bílnum fyrir framan hús eitt og hafði tengdasonur minn það á orði að hann vonaði að bíllinn yfirði ekki farinn þegar við kæmum til baka. Eftir að hafa rölt markaðinn og gert góð kaup, fórum við til baka og viti menn bíllinn var á sínum stað en út úr húsinu sem hann stóð fyrir framan kom lítil mjög krumpuð, brúnklædd kona og spurði hvort hún mætti snerta hendur yngra barnabarns míns, en það þykir boða gæfu. Jafnframt tjáði okkur það að hún væri boðberi ógæfu og allt sme hún snerti fengi ógæfu í kaupbæti. Takk fyrir þetta kærlega og drengurinn sem er algerlega óvarinn illum öndum þar sem armbandið hans sem á að verja hann slíku er slitið og ekki komið úr viðgerð. Hún fékk ekki að snerta barnabarnið mitt.
Ég sagði "tengdó" fra þessu og bíð ég nú eftir því að hún mæti með vígt vatn og skvetti á okkur í tíma og ótíma. Ég mun brynja mig með sundhettu og krumpufríum fötum.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 16:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.11.2021 | 09:45
Reynslusaga úr apóteki
Já hver hefur ekki upplifað það eins og fyrirsögnin ber með sér. Ég hef upplifað mjög sérstaka reynslu úr Apóteki hérna í Reykjavík sem fékk mig til að hugsa hvort allir sem þar versluðu væru að reyna að hafa eitthvað út úr því ólöglega.
Ég kem inní apótekið og er að versla fyrir vin minn sem býr ekki í alfararleið og er algerlega á móti því að honum séu send lyf, finnst hann alltaf fá samheitarlyf, þannig að ég er með umboð fyrir hans hönd. Var ég þarna stödd og bið um Xailin augnkrem 4 túpur takk, ég sýndi henni nafnið í símanum stórletrað (túpan er ponsulítil eða um 5 g) stúlkan sem afgreiddi mig horfði á mig og spurði hvort ég væri að kaupa fyrir stofnun. "Nei sagði ég bara fyrir mann sem var í augnaðgerð á báðum augum" já þú færð bara að kaupa 2 stk. var mér tjáð. Allt í lagi tek 2 stk. svo bar ég upp næstu kaup sem voru Calogen næringardrykkur sem er niðurgreiddur til sjúklinga, enda rándýr vara. Afgreiðslustúlkan kallaði til 2 aðrar og önnur greinilega yfirmaður og hvísluðu þær eitthvað sín á milli og sú sem virtist yfir sagði að þetta þyrfti að kaupa á dagtíma þegar hjúkrun væri við. Já jarmaði ég en klukkan er bara hálf 3. Já hjúkrun er hérna milli 8 og 5 og ég skal láta þetta sleppa núna en næst komdu meðan hjúkrun er. Ég kíkti á símann minn og hann var ennþá 2:30 local time. Sýndi henni símann og spurði: "er ekki örugglega dagur?"
Ég er ekkert fis þó ég segi sjálf frá og hef ekki hugsað mér að overdosa af Calogen en hún lét mig fá brúsann náðarsamlegast í þetta sinn, án samþykktar frá "hjúkrun". Ég kom heim til vinar míns með góssið verðmæta. Hann spurði; " bíddu af hverju ertu með 2 túpur af gyllinæðakremi en ekkert augnkrem?"
Þannig að ekki einasta héldu afgreiðslustúlkurnar að ég ætlaði að fá mér 5000 kaloríu drykk, heldur úða 4 stórum túbum af gyllinæðakremi í augun mér nú eða mínum lasna félaga. jah ég ætla ekki aftur í þetta apótek. Fékk þó að skila kreminu og fékk náðarsamlegast að kaupa 4 litlar túpur af Xailin (Augnkreminu sko)
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.11.2021 | 12:03
Sjúklingur Núll
Ég lagði undir mig fót í sumar og skellti mér til Ungverjalands þar sem hluti fjölskyldunnar var búin að koma sér vel fyrir þar og gat tekið á móti mér. Tengdasonurinn er að vinna þar um tíma og býr í þessari yndislegu borg Miscolk. Nú eftir að allir á skrifstofu tengdasonarins höfðu greinst með covid en hann sá eini sem slapp og þakkaði það sinni grímunotkun þá áttum við nú von á því að sleppa við þennan vágest. Nú stuttu síðar en samt eftir sirka 5 covidtest á vinnustaðnum þá veikist hann og verður þetta líka lyktarlausi og bragðlausi sjúklingur en við mæðgur gerðum nú mest bara grín af honum og hans "manflu" sem er nú oft að okkar mati ekkert til að tala um því auk þess að vera af þessu kyni er hann í þokkabót Ítali og Ítali sem er lasinn úps...... það er eitt stykki veikur maður. Gott ef hann haltraði ekki á tímabili. Alla vega þá vorum við öll skikkuð í test og fórum glöð og reif fullviss um að við værum hraust og ekkert amaði af okkur. Við mættum í vinnuna til hans í þar til gert sjúkratjald og afhentum okkar sýni. Verð þó að viðurkenna að ég var ekki alveg hressi karlinn og var óvenju þreytt og splæst en kenndi því um að hafa ráfað um dýragarð sem var staddur á hálfgerðu hálendi og bratt undir fót að sækja og skoða með 2 fjörkálfa, hálflasinn ítala og dóttur mína sem var svo hrifin að ég held að hún ein hafi notið ferðarinnar í 38 stiga hita og fullt af dýrum og hún ein okkar flögraði um svæðið eins og fiðrildi alsæl.
Dagur eftir sýnatöku rann upp og var það sami dagur og við ætluðum heim til Íslands og allt klappað og klárt fyrir brottför þegar símtal kom og jú; " patient zero has covid". Ég vissi nú ekki að ég hefði fengið "codename" zero en ok ég var sem sagt smituð og þar af allir í einangrun og ég sem fann lykt og allt. Skyldi þó engan undra því það var ekki eins og Miscolkar hefðu heyrt um að það geysaði heimsfaraldur því þeir gerðu ekkert til að varna smitum, enginn með grímu og hvergi sprittbrúsar. Allir ofan í öllum og út um allt og alls staðar.
Jæja í dag var mér svo skipað í einangrun og einkennasýnatöku og spyr því hvort ég eigi ekki von á CNN vegna viðtals við mig þar sem ég er sennilega óheppnasti tvísprautaði Kóviti ef ég reynist með covid AFTUR!!!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.8.2021 | 13:59
Enn fleiri sögur frá Sardeníu
Ég á vinkonu á Sardeníu sem er gift aðeins eldri manni eða já miklu eldri manni. Hann fékk hjartaáfall og var honum gert að létta sig um 10 kg. og lifa sómasamlegu lífi, ekki kaffi, ekki vín og ekki sígarettur. Fyrir ítala af bestu gerð er það óhugsandi með öllu þar sem þeir lifa fyrir góðan mat, kaffi, vín og sígarettur.
Eiginkonan tók það nú á sig að halda í uppskriftir frá lækninum sem töldu 450 gr. af léttu fuglakjöti í viku hámark og hélt hún það nú ekki vera vandamál. Hófst hún handa við að útbúa mat fyrir vikuna og var samviskusöm með alla rétti, fiskur 3svar í viku, grænmeti og svo fuglakjöt. Skipti út ís fyrir veganís og gerði allskonar breytingar.
Eitthvað hafði hún misskilið grömmin og gaf manni sínum 450 grömm af kjöti í hvert mál og þegar hann kom eftir 4 vikur til læknis aftur hafði hann bætt á sig 6 kg. við mjög litla hrifningu læknisins. Hann sagðist nú halda að hann hafi fylgt öllum hans fyrirmælum í hvívetna og leit á konu sína til að fá hennar samþykki. Hún sagði þá ég kaupi 1 kg. af kjúkling á mánudögum og skipti honum í tvennt og hann fær hálfan og aftur síðan hinn helminginn síðar i vikunni. 100 gr. sem eftir eru gef ég hundinum sagði hún hróðug. Læknirinn sagði henni að hámark 450 gr. á viku hefði verið hans fyrirskipun. Maðurinn hennar á erfitt með andardrátt og getur ekki hneppt skyrtunni sinni en treystir frúnni í blindni að redda þessu. Hann heldur sig þó við bjór zero (alkóhólfrían) og koffínlaust kaffi enda hún með þetta allt á hreinu eiginkonan.
Elska þessar sardenísku konur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.8.2021 | 09:28
Maturinn í Miscolc
Hérna í Miscolc er að mestu leyti mjög góður matur og eru þeir með mikið úrval af andakjöti, kjúklingum og þessu hefðbundna lamba, svína og nautakjöti. Hins vegar bera þeir þetta fram með öðrum hætti en við eigum að venjast svona almennt í evrópu og minnir að hluta til margt um Kína alla vega þegar kemur að pizzum með gorgonzola og svo kannski smá sætri glassúrssósu sem þeir í Kína voru svo hrifnir af. Alla vega þá fórum við á stað sem er þekktur fyrir steikur og endur og fengum við okkur öll þrjú endur.
Ég fékk mér andabringur en ungu hjónin fengu sér andalæri. Dóttirinn fékk sitt læri á Mc and cheese beði með chilibútum alltof sterkt og eiginlega ekki alveg það meðlæti sem við eigum að venjast með önd. Tengdasonurinn fékk sitt læri á kúskús með chili og já þeir eru hrifnir af sterku chili. Ég fékk bringuna í súpuskál með fljótandi uppstúf og kartöflum á víð og dreif þar ofaní, með spínati, brie og steiktum pulsulauk. já bringan var ok en hitt ekki. Með þessu var hægt að fá 30 vatnstegundir, 40 bjórtegundir, ódrekkandi rauðvín eða rósavín, nú eða sem ég endaði á enda oftast óbrigðult hérna "Spritz" en þegar það loksins kom var ekkert freyðandi við það, það var flatara en Danmörk og gott ef það var ekki aðeins notað bara, alla vega fannst mér rörið vera farið að mýkjast verulega og þeir hafa væntanlega sett Aperol spritz og dass af flötu vanti, hent útí notaðri appelsínu og já látið þetta standa góðan tíma á borði miðað við bragðið alla vega. Ég held mér við Cherry kók héðan í frá.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)