22.5.2023 | 13:49
Sorgin og vanmættið.
Sorgin birtist í ýmsum myndum í okkar lífi og er mitt umhugsunarefni í dag og vanmáttur mannsins á svo mörgum sviðum. Það að standa frammi fyrir ögrunum og já bara lífinu í sinni birtingarmynd hverju sinni og geta ekkert að gert til að lina þjáningar eða létta lundina hjá ástvinum sínum er ekki góð staða að vera í.
Það er sorglegt að horfa uppá ástvin sinn veslast upp fyrir framan mann af því að ekki er hægt að halda krabbameinsmeðferð áfram! Að horfa á vonleysið í augunum en jafnframt að fylgjast með dugnaði og elju í vinnu til þess að bugast ekki og hætta baráttunni sem væri ekkert óeðlilegt í svona stöðu.
Það er sorglegt að horfa á ástvin sinn fastan í myrkri og klóm fíknar og geta ekkert að gert og vera vanmáttugur í þeirri göngu gegnum myrkrið sem áhorfandi. Hjartað í manni virðist skreppa saman dag frá degi. Biðin eftir símhringingunni sem vonandi ekki kemur en vofir yfir manni öllum stundum nætur og daga er skelfileg og ógnandi eins og krumla.
Það er sorglegt að horfa á litla barnabarnið sitt sem er samt svo stór bæði langur og þrekvaxinn vilja kúra í fanginu á manni og maður loftar honum engan veginn. Langar svo að taka hann í fangið og reyna að skýra út fyrir honum að lífið sé honum erfiðara en annarra barna þar sem hann sé með dæmigerða einhverfu og er þar af leiðandi með öðruvísi takt en við hin og geta ekkert hjálpað þegar reiðin yfir því að enginn skilur neitt af því sem hann vill eða er að reyna að segja þar sem hann tjáir sig ekki.
Það er líka sorglegt að horfa uppá litla bróður hans reyna að fá hann til að leika við sig án árangurs og sjá að þá tekur hann bara uppá því að gæta hans og vernda enda skilur hann ekki hvað er að.
Það er sorglegt að horfa uppá lítinn ástvin sinn berja hausnum í gólfið þar sem hann telur býflugur vera í höfðinu að stinga sig og þurfa labba milli lækna og fá lítinn skilning en nóg af pensillíni.
Það er sorglegt að missa 2 systur á innan við 2 árum og geta ekki hringt daglega í þær og fengið ráð og spjall.
Það er sagt að manni sé ekki úthlutað meiru en maður þolir og er ég sammála því! Í dag er ég samt bæði vanmáttug og full af sorg.
Lífið er hverfult svo verum góð við hvort annað meðan við erum enn á lífi.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2023 | 19:11
Huglægt frí á móti fríinu raunverulega
Þegar maður fer í langþráð frí eftir kannski erfiða tíma ja eða bara lífið sjálft sem tekur yfir dag hvern. Við hluti af fjölskyldunni lögðum land undir fót og settum stefnuna á Eistland sem faðir barnabarna minna er að vinna. Fyrst gistum við á hóteli í Tallin í 3 daga og svo skyldi haldið að ströndinni til Narva Jöesuu á hótel með verönd og 5 mínútna gang niður að strönd. Huglæga fríið: "Bara dásamlegt frí með litlum stilltum börnum sem sitja svona slaufum prýddir meðan við fullorðan fólkið borðum og spjöllum. Við vissum nú vel að við vorum ekki að lenda í neinu sólbaðsveðri en áttum nú ekki alveg von á snjóstormi og mannskaðaveðri og nánast ófærð á leiðinni. Vonuðumst bara til að geta setið á verönd með kaffibolla eða vínglas, alls ekkert of miklar væntingar. Það að geta sest niður með 2 gutta meðan pabbinn var að vinna svona 2 glaðar mæðgur í auglýsingu fyrir Úrval/Útsýn og börnin að sötra djús eða sprite og með skóflu og fötu á leið á strönd. Svo voru líka mall ferðir innifaldar í þessu væntanlega fríi, ekki að ég nefni allar spa ferðirnar á hótelinu (sem við höfðum sem betur fer ekki pantað) meðan drengirnir væru glaðir að leika með pabba sínum í sundi þar sem þeir hafa ekki séð hann í 3 mánuði."
Veruleikinn: "Flugferðin til Helsinki var 3 og hálfur tími af "horror" ekki strákunum okkar að kenna, heldur lentum við á bak við breta sem var svo geðvondur og bað okkur að plís taka skóna af yngra barninu því hann fékk svo mikla bakáverka við að tærnar hans rákust í "spænið" hans...sá yngri er sko örfáir cm. að stærð eða rétt um 90cm. Nú eldri strákurinn sem er með dæmigerða einhverfu hafði svo alltof mikinn hávaða í Ipadnum "it hurt my ears you see" sagði hann blíðlega en smá svona "vá hvað þetta eru illa uppalin börn svip. Við lækkuðum svona 10 sinnum og enduðum á heyrnatólum sem er ekki auðvelt því hann er með svona hljóðeinangrunarheyrnartól og er ekki til í að breyta því um sinn. Niðurstaðan varð því sú að við skiptum og settum þann einhverfa á bak við bretann og hófust þá skellir í sætinu aftur og aftur opnaði hann og lokaði borðinu við gríðarlegan "fögnuð" þess breska. Bretinn endaði á að skipa konunni sinni að skipta við sig en hún sat hinum meginn við ganginn. Hefndin var fullkominn á þennan leiðinlega vel snyrta breta með allt sitt stóð í gönguskóm að koma af Keili væntanlega og þegar hann flutti sig yfir í sæti konunnar sinnar þá róaðist okkar gaur og konan fann ekki fyrir neinu af hans hálfu en barnið sem hafði sofið alla leiðina frá Íslandi ákvað að vakna þegar bretinn settist við hliðina á henni og stóð á orginu alla leið til Helsinki.
Hótelið var æðislega fínt í Tallin og 3 góðir veitingastaðir en sá eldri var búin að ákveða það að hann bráðvantaði McDonalds blöðru og það var megin tilgangur hans til Eistlands að verða sér út um eina slíka. Pabbinn fór í leiðangur á nokkra staði og fann blöðrur, en þá var komið að ósk númer 2 sem var Subway blaðra. Hún fannst ekki með tilheyrandi niðurbroti og gráti.
Nú við skelltum okkur í bílinn og hófum 3 tíma akstur til Narva Jöesuu í brjáluðu veðri sem gerði allan skóginn á leið okkar frá Tallinn mjög jólalegan enda svignuðu trén undan snjóþunganum en það var nánast ófært og erum við litlu víkingarnir nú öllu vön.
Þetta hótel í Narva bauð uppá spa og m.a. sundlaugargarð og nokkra matsölustaði sem okkur hlakkaði til að nota meðan pabbinn var í vinnunni. NEI ekki að ræða það!!!Það var ekki í áætlun eldra barnsins. Í lobbýinu voru 3 fánar sá eistneski, evrópufáninn og hótelfáninn. Hann vildi kaupa þessa fána og Eistarnir skildu ekki þetta arfavitlausa barn sem benti á fánana og heimtaði öll stykkin og drógum við hann út sparkandi og öskrandi. Við fórum að sjálfsögðu í fánaleit daginn eftir og keyptum 3 eistneska fána, en búðin var svo léleg að vera ekki með hina fánana. Nú kom ný krafa eftir að fánarnir voru komin í hús en það var sólblóm og það var ekki heldur til í búðinni(mjög léleg búð greinilega) Við keyptum basiliku og sögðum honum að blómin væru ekki komin á plöntuna en hann lætur nú ekki ljúga að sér og googlaði sólblóm og því var leiðangur númer 2 fyrir pabbann eftir vinnu að finna sólblóm að öðrum kosti ekki koma heim. Margir gætu hneykslast af þessu dekri en við eigum ekki annarra kosta völ ef við viljum smá frið sem dugir ekki lengi. Það er erfitt að aðlagast nýjum stöðum fyrir hann og allar breytingar taka mjög á hann. Við fengum ekki að snerta basilikuna því það var barnasólblóm sem hann gætti vel. Íbúðin er núna þannig að hérna eru svona uþb. 20 blöðrur uppblásnar 50 óuppblásnar, 2 sólblóm, stór basilika og svo fæ ég ekki símann minn því hann er að hringja í N1 og Stöð 2 til að reyna að panta blöðrur en hann er mjög hrifinn af þeim logóum. Hann googlaði bara símanúmerið og hringdi reyndar til Albaniu því hann kunni ekki landsnúmerið og stoppar ekki síminn minn með einhverjum dularfullum númerum sem ég hef greinilega hringt í sjálf.
Fengum smá heimsókn af slökkviliðinu hingað í morgun þar sem var verið að reyna að gera mat fyrir prins Valiant en hann vill sko pulsubrauð í örbylgjuofni sem var víst stilltur á grill og já það urðu læti en það fékkst þó mynd af gaurunum."
Við borðum heima núna alla daga því ekki förum við í lobbýið fyrr en við förum til Tallin á sunnudaginn.
Byrjar ekki alveg eins og huglæga fríð okkar var áætlað en það sem ekki drepur mann gerir mann sterkari og við erum mjög sterkar mæðgur með einn 7 ára sem er með einhverfu og skilur ekki heiminn eins og við og einn 3 ára sem skilur of mikið og fer sínar eigin leiðir og verslar eftir sínu höfði og þar sem við erum alltaf að passa uppá eldri strákinn þá kemst hann upp með ýmislegt. Ég vildi þó hvergi annarsstaðar vera en með þessum snillingum.
Gleðilega páska.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 21:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2022 | 18:22
Heilbrigðiskerfið okkar "the never ending story"
Víkur nú sögunni að umræddum ástvini sem ég greindi frá í síðasta bloggi mínu með þá von í hjarta að einhverjir ráðamenn mundu nú skoða þessi mál og einhenda sér í að laga þau. Það er eiginlega alveg nægileg byrði að greinast með hvítblæði og lenda í kjölfarið í öndunarvél og vera veikburða og geta ekki verið sjálfbær á neinn hátt þó fólk sé ekki borið í miðri meðferð út á guð og gaddinn.
https://gudlaugbjork.blog.is/blog/gudlaugbjork/entry/2284789/
Ég sendi nú blog mitt á nokkra alþingismenn sem ég hélt að væru með hjarta, en væntanlega er nóg að gera hjá þeim og þeir taka nú ekki við pósti frá sótsvörtum almenningi enda að koma jól og svona. Ég vil þó benda á undantekningar í þeim efnum en aðilar úr Flokki fólksins hafa svarað mér vel og skipulega þó ekki varðandi þetta mál. Heilbrigðisráðherra er upptekin í öðru og geri ég mér fulla grein fyrir því, enda ekki líklegur til stórræðna í svona "litlu" máli.
Staðan er sem sagt eftirfarandi: "viðkomandi var hent út af sjúkrahóteli LSH á hádegi á 3 degi meðferðar við hvítblæði (sjálfsagt sparnaður uppá nokkra þúsundkarla). Viðkomandi fór hins vegar með sjúkrabíl á bráðamóttökuna 3 dögum síðar fárveikur með bullandi hita og sýkingu í blóði. Kostar það nú eitthvað aðeins meira en gistinótt á þessu sjúkrahóteli reikna ég með. Svo sjúkrabíll á blóðmeinadeild landsspítalans frá bráðamóttöku. Ég sé alla vega að hægt er að spara í skutli milli spítala með því að hafa sjúklinginn nær. Kom það enda á daginn þegar hann veiktist illa í sumar að það varð honum lífsbjörg að vera á hótelinu við hlið spítalans.
Ég get sagt það að þetta eru ekki skemmtileg skrif og hef ég engan áhuga á svona tuði það er bara ekki hægt að líta framhjá þessu endalaust hvernig heilbrigðiskerfið rotnar hægt en örugglega og sjúklingar líða fyrir það. Hef kynnst þessu lamaða kerfi aðeins of vel fyrir minn smekk.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.11.2022 | 13:56
Frábæra heilbrigðiskerfið okkar!
Nú er ég kjaftstopp!! Gerist ekki oft. Þannig er að ég á ættingja sem var svo óheppinn að fá ólæknandi blóðsjúkdóm og var hann búin að fara uþb. 20 sinnum á bráðadeildina með 50% blóð og fékk blóð og sendur heim. Ekki virtist vera mikil áhersla lögð á að finna ástæðu blóðleysisins. Hann bjó á 5 hæð í lyftulausi húsi og tók það hann tímana 2 að labba upp en þegar hann var orðin blóðlaus aftur eftir vikuna þá þurfti hann einfaldlega að hringja á sjúkrabíl þar sem hann treysti sér ekki niður sjálfur.
Nú hann fær greiningu í júlí með ólæknandi bráðahvítblæði og fór í meðferð og fékk heimili á sjúkrahótelinu. Viku og viku í senn og sagði hann upp sínu húsnæði, enda ekki fær um að komast þangað upp.
Nú dró mikið af honum og hann endaði í hjartastoppi og öndunarvél og var haldið sofandi í 12 daga og fór síðan á blóðmeinadeildina. Hann hefur verið að braggast smátt og smátt, eins og hægt er að braggast með beinverki öllum stundum og ólæknandi sjúkdóm. Hann gisti náttúrulega á spítalanum í 3 til 4 vikur og fékk síðan aftur að fara á sjúkrahótelið. Nú hann hefur víst dvalið of lengi á þessu sjúkrahóteli skv. staðli einhvers súlurits (verst hvað þetta hvítblæði er ekkert að taka tillit til plássleysis) og var gert að yfirgefa herbergið sitt í dag,. Veit ekki hvort einhverjir hafa lent í að leita að leiguhúsnæði en það er bara EKKI neitt að hafa ekki kjallaraholu, ekki einu sinni geymslu.
Í dag er hann hálfnaður í meðferðinn þessa vikuna sem fer mjög illa í hann með tilheyrandi ógleði og almennum slappleika og er hann fársjúkur af meðferðinni og þurfti að pakka niður dótinu sínu og flytja í bílinn sinn. Þar er hann nú.
Er með þessu verið að reyna að fækka fólki á biðlistunum, látum þennan deyja í bílnum úr kulda, tekst sennilega ekki það er of gott veður.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.11.2022 | 11:32
Piparkökuhúsameistarinn (huglægi)
Ég veit ekki hvað það er að ég telji mig alltaf þurfa að vaða í það á skítugum skónum liggur við að gera hluti sem ég er ekki góð í. Bakstur! ja kannski ekki beint bakstur í þessu tilfelli en ég keypti þar til gert pipakökuhús í Ikea (minni týpuna) sem þurfti að setja saman og skreyta.
Ég fór á flug á heimleið og hugsaði um piparkökuhúsasamkeppnina í Smáralind og hvar mitt hús ætti nú að standa. það var ekki efi eitt augnablik í mínum huga þarna í mínum heimi. Ég velti því fyrir mér hvort ég færi ekki í grúppu sem héti 65 ára og eldri. Þá mundi ég eftir því að maður þarf að baka veggi og þak sjálfur úr hveiti frá Kornax. Ok ekki málið ég geri það eftirminnilegasta hús sem ég hef gert enda ekki annað í stöðunni þar sem þetta var hið fyrsta.
Niðurstaða á fagurlega módelinu mínu huglæga var í reynd svona: Límtúpan var með svo litlu gati að límið komst ekki út en ég gerði aðgerð á túpunni skar hanna upp og sótti klístrugt límið en festi puttana alltaf á milli veggja og þaks og þurfti að þvo mér 10 sinnum í límferlinu.
Við áreynsluna komu nokkur brot í veggina sem ég verð að viðurkenna að er bara sjarmerandi eftir að hafa verið límdir saman með nokkrum límklessum, svona kannski eins og ítölsku gömlu húsin eru. Nú þetta virtist ekki vel gert hjá þeim þarna í Ikea alla vega passaði strompurinn engann veginn á þetta þak en var svona eins og fljótandi ofan á því. Fallegt!
Barnabarnið mitt hafði svo borðað allt skrautið nema nokkur snjókorn svo húsið var skreytt öðru megin.
Ég er hætt að taka niður pantanir fyrir jól og svo eru veggirnir hérna út um allt borð hálfétnir sem sagt ekki sérstaklega bragðgóðar piparkökur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.11.2022 | 17:37
Snillingurinn minn barnabarnið!
Eins og ég hef áður tjáð mig um með yndislega sérstaka barnabarnið mitt og hans sérstöku hæfileika þá getur hann algerlega drepið mann með skemmtilegum setningum sem hann þylur upp eins og "robot" eða í þeim tón sem hann hefur heyrt viðkomandi setningu. Þessa dagana hefur hann einstakan áhuga á geimförum og geimferðum og þylur upp allskonar setningar tengt því á ensku þar sem hann fann þetta "skemmtiefni" á ensku. Hann er gjarnan í stígvélunum sínum að horfa á þetta því geimfararnir eru í einhversskonar stígvélum við "the new spacesuit".
Hann hefur svo þetta einstaka minni að hann horfði á einhverja videómynd þá er ég ekki að tala um kvikmynd, heldur sá hann krakka í rútu á leið í skólan þegar hann var mjög upptekinn af rútum sérstaklega Norðurleið og Teitur rútur. Ég held að þetta hafi verið þegar hann var svona 4 ára sem gera rúmlega 3 ár síðan og ekki man ég þetta. Hann biður um þetta alla daga og svo er það í okkar höndum þ.e. minna og foreldra að reyna að finna þetta. (engin hætta að hann gleymi eða gefist upp).
Nú einnig er hann mjög hrifinn af Subway logo og pepsi max lime enginn sykur alvöru bragð. Hann var hérna hjá mér um helgina, þar sem ég er hans stuðningsforeldri og bað svona 119 sinnum um jóladót og þar sem hann er í hálfgerðu dekri hjá mér fjarri krefjandi bróður sínum þá fór ég í geymsluna og sótti jóladótið og týndi hann upp þar til gert "dót" sem hann hefur svo með sér um alla íbúð og já ég vaknaði með svona hnetubrjótskarl undir bakinu í morgun frekar notalegt og er öll í glimmeri alveg gasalega fín.
Svo þegar hann segir setningu sem er skiljanleg og á við þá stundina eins og "amma viltu koma að hjálpa mér", þá verður maður svo upprifin að manni langar að senda fréttir út um allan heiminn eins og ég í þessu tilviki með jólaskrautið. Hann veit að pabbi kemur um jólin og hann segir "amma taka jólin með fram" því hann er að bíða eftir pabba sínum og hvað er þá betra en að halda bara á jólunum svo þau fari ekki framhjá. Nú færi ég sem sagt "jólin" milli herbergja eftir því hvar hann er.
Ég dey yfir þessu barni
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.8.2022 | 11:04
Óvæntur gestur!
Þar sem ég sat í makindum mínum og beið gesta minn í garði vinkonu minnar hérna á Spánarströnd þar sem við ætluðum að borða saman hádegismat í hitanum. Ég var að leggja lokahönd á undirbúninginn, þá var bankað á hliðið á veröndinni og fyrir utan stóð nágrannakonan sem er frönsk á sjötugsaldri. Hún spurði hvort ég gæti reddað sér þar sem hún væri læst úti og fatlaður eiginmaður og öldruð móðir hennar væru fyrir innan hlið ófær um að bjarga sér. Ég sagði henni að ég færi nú ekki uppí stiga enda loftrædd með afbrigðum. Nei nei sagði hún er ekki einhver karlmaður sem getur bara haldið við stigann svo ég geti klifrað yfir, því hún er víst með stórhættulega hunda á svæðinu. Fransk/enskan hennar var eiginlega með öllu óskiljanleg en hún talar spænsku svo ég sagði henni að vinkona mín spænskumælandi væri á leið til mín og með henni hennar ektamaður. Nú þau runnu í hlað og fóru beint í að aðstoða frúnna við að komast yfir til fjölskyldunnar. Hún fræddi mig á því að hún væri að fara með þau út að borða en það gerir hún einu sinni í mánuði.
Við vorum ekki búin að sitja lengi þegar kall eftir hjálp barst frá götunni, en þá hafði hún fest eiginmanninn í bílnum og hann lá þvert yfir bæði framsætin ófær með öllu að hreyfa legg eða lið. Vinkona mín einhenti sér í að reisa hann við og ég reyndi að troða fótunum á honum inn í bílinn. Hann var nú óskaplega ósjálegur greyið í sjúkrahústreyju óhnepptri á sokkunum og hárið illa hirt sem og skeggið og hann var með húfu í 45 stiga hita. Nú við skorðuðum hann af og settum hjólastólinn í skottið og þá kom hin há há háaldraða móðir en hún komst sjálf að bílnum og við einhentum henni í aftursætið enda hálfgert fis. (franskar konur fitna víst ekki).
Hjá okkur var stuð og stemming enda vinkonur mínar sem ég hafði ekki hitt lengi, við spjölluðum og hlógum þar til bankað var uppá og sú franska með karlinn í hjólastólnum sagði okkur að við yrðum að geyma hann meðan hún sækti lyklana sína sem hún hafði gleymt á matstaðnum. Spurði ekki heldur rúllaði honum út í horn. Hann verandi norskur og einhverjar líkur á að við skildum hann þó hann væri nú eiginlega á mörkum þess að vera með meðvitund, þá spurðum við hann hvort hann vildi eitthvað og hvort hann vildi sitja hjá okkur en hann vildi það alls ekki. Sat bara eins og dæmdur og allt í einu fór hann að hrópa: Jeg vil OPPPPP jeg vil op og hljóp ég til þar sem ég er nú málamanneskja og tala hin ýmsu tungumál m.a. dönsku og sænsku en alls ekki norsku. Skidli ekkert sem hann sagði, hann vildi sem sagt láta færa sig upp í hjólastólinn þar sem hann var að renna niður úr honum. Við björguðum því og löguðum hann til. Hann var í drykklanga stund hjá okkur eða einhverja klukkutíma. Breski nágranninn sagði mér síðar að sú franska stundaði þetta þ.e. að þykjast hafa gleymt lyklum og væri svo í burtu 3 til 4 tíma og já svona bjargar hún sér bara.
Hún gaf okkur ódýrt ódrekkandi cava og rauðvin sem þökk fyrir hjálpina sem hún var með óvart í bílnum fyrir svona tilefni reikna ég með.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 11:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2022 | 11:19
Veðurupplifun milli landa
Sardar eru dásamlegt fólk, eru vanari 40 gráðu hita, meðan við íslendingarnir hendum af okkur fötum þegar hitinn er kominn í 8 stig maður bara heldur sér í sólstólinn. Sardar eru stoltir og kalla sig alls ekki Ítali, heldur Sarda og hafa þeir eigin fána sem var hérna áður skríddur 4 "banditos" með bundið fyrir augu, (partur af sögunni meira um það síðar) en þeim var gert að færa böndin upp að enni á gaurunum á fánanum.
Hérna er vetur fram til miðjan júní og þú ert ekkert að fara að mótmæla því. Þeir gapa þegar þeir sjá okkur á ermalausum kjól og með börnin í sandölum og fáklædd. Ítalska amman kappklæðir þá að morgni og kveikir í arninum svo þeir forkelist ekki. Þar sem litlu víkingabörnin eru bara ekki tilbúin að vera í sokkum skóm, úlpu og með húfu. Lái þeim hver sem vill, en hérna signir fólk sig og börnin okkar og biður blessunar þeim til handa svona illa klædd og um það bil að forkelast í þessu mannskaðaveðri sem þeir telja vera meðan þeir blása ekki úr nös.
Ég benti þeim á það að ef hávöxnu stráin þeirra hreyfist ekki í "rokinu" þá er gola, því til sönnunar sagði ég þeim að ef ljósastaurarnir heima á Íslandi högguðust lítið þá er EKKI rok, þá er gola og við stöndum við það.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2022 | 14:11
Hefðirnar á Sardeníu eru bara svo frábærar!
Það sem kemur mér skemmtilega á óvart hérna á Sardeníu er hversu stíft þeir halda í hefðir. Ég hélt alltaf að Bretar væru hefðbundnastir allra en Sardar eru stífari á sínum hefðum og venjum. Við íslendingar mætum oftast í matarboð með blóm eða góða vínflösku í poka með slaufu að sjálfsögðu. Þeir koma hins vega með kind eða geit, þó ekki á fæti en svona nánast, jafnvel heilt dýr sem sett er á tein og grillað yfir eldi í garðinum. Það gerðist akkúrat í dag 2. í páskum en þá er þeirra aðaldagur þar sem fjölskylda og vinir hittas og öllu er til tjaldað.
Hérna var matarboð og komu gestirnir færandi hendi. Sá fyrsti mætti kl. 11 með heilan geitarskrokk. Næsti kom með 10 kg. af appelsínum úr sínum garði, annar með Limonchello heimagert og hjón sem eru með ólífurækt komu með ólífuolíu í 2 lítra flösku.
Þetta er svona aðeins öðruvísi en við eigum að venjast enda ekki hægt að klæða geit í sellófón og setja slaufu á. Þeir eru ekkert að skreyta hlutina bara einfaldleikinn allsráðandi. Einnig nota þeir mjög gjarnan sínar afurðir sem greiðslu fyrir smá viðvik og er alls ekki óalgengt að bíll stoppi hérna fyrir utan húsið og lambi, hent inn og borgað með nokkrum kg. af appelsínum, sítrónum og tómötum.
Ekkert prjál hérna.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2022 | 14:09
LSH og bílastæðin
Ég fór einu sinni til Búlgaríu sem er nú ekki í frásögur færandi nema hvað ég fékk svona tilfinningu í dag á LSH Hringbraut sem hefur setið í mér í ein 30 ár þegar ég lenti í veikindum í Búlgaríu þess tíma og þurfti að fara í sjúkrabíl á heilsugæsluna og viti menn það var innakstur bannaður á einu leiðinni inn að heilsugæslunni svo auðvitað borguðum við bara löggunni sem stóð við "innakstur bannaður" merkið og safnaði í sjóð.
Nú ég var síðan flutt frá sjúkrahúsi með sjúkrabíl á flugvöllinn og það reyndist nú ekki gæfulegt, þar sem allskonar farþegar voru teknir með, ekkert verið að keyra með sjúkling einan í þessum stóra bíl. Nú ég var eins og rakvélablað uppá rönd í sjúkrarúmi og allt fullt af Búlgörum á leið til vinnu. Þeir stoppuðu víða til að hleypa út fólki og stoppuðu líka á bensínsstöð og sóttu sér bensín og kaffibolla, alltaf með mig í bílnum.
Nú víkur sögunni að hinu löngu sprungna LSH, en þangað fór ég í morgun á bíl með merki fyrir fatlaða, þar sem ég var að sækja veikan einstakling úr krabbameinsmeðferð. Nema hvað að það var hægt með góðu móti hérna í síðustu viku eða svo að skvísa inn 4 bílum í 2 þar til gerð stæði fyrir fatlaða, en nei nú var búið að setja steypuklumpa svo fólk væri nú ekki að troða sér í stæði. Það er með öllu ómögulegt að fá stæði þarna þar sem gert er ráð fyrir svona 30 manns hámark og þá líka á fæðingardeildinni. Ég fór inn eftir að hafa lagt bílnum í brekku, an það gefur auga leið að ekki er gott að skondrast með hjólastól og veikan einstakling bæinn á enda þar sem laus stæði eru. Ég hljóp inn og sótti aðilann í hjólastólnum en hafði þá að sjálfsögðu verið rukkuð vegna ólöglegrar lagningar.
Þetta veit ég að allir sem eru á fæðingardeildinni og geta ekki hlaupið út á nokkra tíma fresti fá gjarnan svona glaðning með nýja barninu.
Mér þykir þetta ekki smart og ef LSH getur ekki hundskast til að hafa stæði svona sirka í sama póstnúmeri og spítalinn er, þá endilega skoða það að hafa rútur til og frá stæðum. Við erum ekki alltaf nógu heilbrigð til að taka göngutúr á leið í læknismeðferð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)