Náttúruhamfarir á Spáni.

Ég bý í litlum bæ sem heitir San Miquel de Salinas og hérna er ósköp rólegt og lífið gengur sinn vanagang í sólinni dagana flesta. Nú á fimmtudaginn var send út stormviðvörun og við íslendingarnir náttúrulega höldum alltaf að við höfum upplifað mest og flest og virtum það að vettugi.  Ég fékk vinkonu mína sem býr í Torreveija, en þar hafði verið gefin út flóðaviðvörun að sækja mig og skutla mér í klippingu í hennar bæ.  Nú allt gekk vel til hádegis, en þá var hvílíkt úrhelli að við vorum eins og hundar á sundi þegar við hlupum milli húss og bíls.  Nú henni var meinað að keyra að götunni sinni, þar sem flóð voru á veginum og bílar með vatn upp að rúðum stopp í hringtorgum og á götum, þar sem holræsakerfin eru ekki gerð fyrir svona úrhelli. 

Nú vinkona mín komst heim eftir krókaleiðum, en þar sem hún er á smá hæð, þá slapp hún að mestu við veðrið eftir að heim kom en vissulega lak þakið hjá henni og ofan í stofuna svo hún þurfti að covera sjónvarp og selflytja dót frá bleytunni sem draup niður.

Fréttir af skemmdum flæða yfir mann, nýjir bílar á bílasölu eins og plastendur í baðkari, ofan á hvor öðrum og allir ónýtir. Einn af betri golfvöllum á Costa blanca svæðinu geymir alla sína bíla í öruggri geymslu, en þar flæddi yfir þá alla og allir ónýtir eða um 100 talsins. Völlurinn sjálfur illa farinn.

Nú af mér er það að frétta að hérna flæddi yfir götuna sem ég bý við þar sem holræsin fylltust fljótt og vaknaði ég við það á föstudagsmorgun eftir hávaðasama nótt með eldingum og þrumum sem voru allt annað en notalegar og í kjölfarið mesta rigning sem ég hef séð síðan í Kína og það var nú slæmt, að ég heyrði hljóð í ljósinu á efri hæðinni eins og það væri að springa og fannst mér ég heyra dropahljóð þar svo ég slökkti á því og hljóp niður og sótti fötu 50 lítra og viti menn allt í einu steyptist yfir mig vatn eins og úr sturtu frá ljósinu á gólfið og hafði ég ekki við að tæma fötuna og rafmagninu sló út og allt kolsvart svo ég tók símann og notaði hann sem vasaljós og hann rann til í bleytu og datt milli hæða og dó.  Ég náði ekki í nokkurn mann, enda allir heima að setja fötur og skálar út um allt.   Svo þegar líða fór á morgun þá kom smá pása frá regninu og ég náði í vinkonu mína sem kom með manni sínum og hjálpuðu mér að skipta um fötur og skálar í öllum herbergjum. Það lak út úr fataskápnum í einu herberginu, ofan á ísskápinn í eldhúsinu svo honum var kippt frá og stendur nú sem stofustáss hjá mér. Nú svo fór aftur að rigna eins og hellt væri úr fötu og öll handklæði í húsinu voru þegar rennblaut ásamt sængum rúmfötum og öðru.

Við skruppum í búð eftir að veðrinu slotaði uppúr 3 og þá var loftið í tætlum út um alla verslun og kælarnir með blautum gifsplötum og já nánast allt ónýtt í búðinni.  Sama gilti um apótekið hérna, loftið farið og ljósin dottin niður á vörurnar vegna þess að blaut loftin héldu þeim ekki.  Hérna hafa 6 manns dáið þegar þetta er ritað, þar af einn sem drukknaði inní göngum milli bæja, þegar þau yfirfylltust.  Heilu vegirnir hafa rofnað svo það eru holur í jörðu. Vinkona mín skutlaði fólki á Alicante flugvöll í gær og ferð sem tekur 45 mín. tók hana um 6 klukkustundir vegna fljóðasvæða og lokunar á götum. Appelsínutrén á kafi í vatni. Sundlaugar yfirflæddar og í stað þessa fallega bláa lits sem er á þeim, líta þær út eins og kakósúpur með jafnvel bílum útí og veggjum. 

Ég er komin með síma og rafmagn og hefst þvottur næstu daga á öllum handklæðunum og rúmfötum sem eru búin með sitt hlutverk í bili. 

Maður áttar sig fyrst á því hversu lítill maður er og vanmáttugur þegar svona náttúruhamfarir dynja á eigin skinni, eða allt í kringum mann. Við skulum ekki vanmeta náttúruna.

 


Ráðgátan leyst um horuðu ítölsku konurnar?

Ég hélt á tímabili að ég væri komin með lausn við vanda okkar kvenna við aukakílóum, þar sem ég fylgdist grant með konum á miðjum aldri borða eins og enginn væri morgundagurinn sína 3-4 rétti í hádeginu og annað eins á kvöldin.  Eftir hádegið er svo alltaf borðuð melóna og þar hélt ég að lausnin fælist.  Þá tók ég eftir því að þær stoppuðu ekkert við melónusneiðar, heldur kom kaffi og nokkrar sætar kökur svona 8 stk. og stundum ísar og þá lágu einnig nokkrir í valnum. 

Ég var væntanlega orðin grunsamleg á heimilinu þar sem ég nánast skráði allt ofan í húsfreyjuna mjóu og viðurkenni að ég óskaði henni stundum þegjandi þörfina þegar hún kom út á verönd með ís fyrir alla og allir afþökkuðu og hún sporðrenndi þeim bara þá öllum. 

Svo fór ég að fylgjast með ungu konunum sem ég tók eftir að brostu aldrei. Nú ég sá par koma inná matsölustað sem ég var stödd á. Hann pantaði sér super size pizzu sem var á stærð við öskutunnulok af gömlu týpunni og varla komst fyrir á borðinu og fékk sér sykrað kók með bara villtur fyrir allan peninginn.  Sú fúla kærastan skotraði augunum á pizzuna sá ég þegar þjónninn fór að úrbeina og afhausa sardínuna sem hún pantaði sér. Vatn með að sjálfsögðu flatt vatn, ekkert vera að splæsa í bubbluvatn. (væntanlega verið á bíl) Nú með fiskyldinu sem hún var með á disknum sá ég að hún fékk fennelbúta eina 2 eða 3 og alveg hálfan sellerístöngul.  Þar sem hún mændi á öskutunnulokspizzuna minnka óðum sá ég alveg glampann í augunum á henni, nartandi í fennelbútinn sinn hvað hana langaði í bita.

Þannig gerir maður nú ekki að fá sér bita sé maður sardenísk kona á stefnumóti enda var hún það ful á svipinn held núna að það sé af hungri og það skýrir ungu fýlupokana, þær narta í sellerstöngla fram að giftingu og þá eru ísarnir teknir upp.  

Það skýrir þó ekki dularfullu mjónuna á hinum eldri konum og jú þær brosa alveg!


Úrræðagóðu Sardarnir!

Sardar eru afar úrræðagóðir, útsmognir jafnvel örlítið forhertir og með dass af glæpagenum í sér að mínu mati.

Húsfreyjan hérna á heimilinu sagði okkur sögu af því þegar hún var yngri og fór með krakkana í hverfinu inní Cagliari höfuðborgina í bíó. Hún var með nokkra krakka ofaukið miðað við það magn sem mátti vera með í bílnum. Hún var svo sem vön því og kunni ráð ef löggan stoppaði hana. 

Allt gekk að óskum þar til þau komu út úr bíóinu og ætluðu heim, þá startaði bíllinn ekki svo hún tók til sinna ráða.  Það vildi svo vel til að það var verkstæði á móti bílaplaninu og bifvélavirkinn tók vel í að laga bílinn hennar.  Hann skipti um geymi, en bifvélavirkjar á Ítalíu eru frægir fyrir að gera aðeins meira en þeir þurfa svo hann vildi skipta um dekk og bað hana um varadekkið og einnig þurfti hann að skipta um peru að framan. Hún fór og kíkti í skottið eftir varadekkinu og þar sá hún regnhlíf sem hún kannaðist bara ekkert við.  Kíkti í kringum sig og sá þá sinn bíl aðeins frá þessum algerlega heill heilsu. Hún kvaddi bifvelavirkjan sem var með sundurtættan bíl á planinu með þeim orðum: "ég borga ekki krónu ég á ekkert í þessum bíl og vertu sæll"

Nú á leiðinni heim var hún stöðvuð af lögreglu vegna fjölda barna í bílnum (hana grunar að bifvélavirkinn hafi verið að verki þar sem hún var vön að ferðast með hálft hverfið af börnum án þess að vera stöðvuð).  Eitt barnanna í bílnum var einstaklega hræddur við lögregluna og hún sagði við hann :" Jæja Carlo nú ertu að fara í fangelsi og sérð aldrei fjölskylduna þína aftur" Barnið öskraði og gargaði af öllum illum látum.  Hún bað lögregluna um að sleppa sér við sekt þar sem hún yrði að koma þessu "brjálaða" barni heim til sín.

Ekki einasta slapp hún við sekt heldur fékk hún lögreglufylgd heim.


Dramatík í suðrinu

Dóttir mín er sem sagt gift Sarda og þeir eru dramatískir með eindæmum og tengdaforeldrar hennar sem eru yndislegt fólk en með dramatík í blóðinu að hætti Ítala.  Hins vegar varð ég vitni að því að hundarnir eru líka dramatískari en gengur og gerist.  Þannig var að húsfreyjan á heimilinu sem við gistum á var að skreppa út úr garðinum sem alltaf er læstur vegna barns og hunda sem skella sér út við hvert tækifæri sem gefst.  Nú hundur eiginmannsins slapp út, en hennar hundur var öruggur innan hliðsins svo hún lokaði bara og yppti öxlum. Húsbóndinn tók smá kast og spurði hana hvað hún væri eiginlega að hugsa.  Veiðihundurinn laus á götunni og viti menn það var keyrt á hann, en ekki virtist hann þó slasaður en húsbóndanum var þó mjög brugðið og bar hundinn inn í sófa og var sótreiður við konu sína sem sagði bara úps en þetta er þinn hundur og honum er nær að vera að fara svona út á götu. Gat ekki séð annað en að henni væri slétt sama um þetta atriði.

Nú hundurinn var borinn um allt því hann haltraði og allir gestirnir á heimilinu sem voru þó nokkrir hjálpuðu til við að koma slösuðum hundinum í bílinn og til læknis. Nú hundurinn lá aumur í bílnum en þegar til læknis kom hoppaði hann út úr bílnum alheill á öllum fótum. Hann fékk úrskurð um að ekkert amaði að honum, hugsanlega bara sjokk við það að bíllinn hafði  strokið við hann.  Dramað sem varð til við þetta og hugsanlega líka það að 14 öskrandi ítalir sem allir vildu hjálpa til og klappa hinum slasaða hundi "Frigg" og hann sem ekki er vanur þessari athygli. Þegar heim kom þá haltraði hann, en ég er viss um að það var rangur fótur sem hann haltraði á.  Sem sagt dýrin eru engu skárri en mennirnir þegar kemur að dramatík sem er á öðru stigi en við þekkum heima í norðrinu.

 


Sardenískir siðir og trú

Sinn er siður í hverju landi er orðatiltæki sem á vel rétt á sér.  Á Sardeníu er svo margt öðruvísi en við eigum að venjast.  Þeir eru svolítið gamaldags en úrræðagóðir og bera með sér þekkingu frá forfeðrum og miðla til yngra fólksins.  Þannig benti tengdasonur minn mér á einu sinni þegar ég brenndi mig á kertastjaka sem sprakk í höndinni á mér að setja brenndu fingurna og nudda hársvörðinn með þeim sem var mjög vont til að byrja með, viti menn það lagaði brunaverkinn.  Síðan þá hef ég verið spennt fyrir allskonar nýjungum eða réttara sagt eldgömlum hefðum sem þeir hafa uppá að bjóða. 

Húsfreyjan á heimilinu hérna hafði dottið og meitt sig á fæti og var talsvert bólgin og á meðan ég hefði fengið mér bólgueyðandi pllur og sett fótinn uppa púða þá tók hún hveiti og rauðvín og hrærði saman og penslaði síðan á sér fótinn og pakkaði honum inn í bökunarpappír.  Þetta hjálpaði en þó ekki nóg svo nú þurfti að grípa til örþrifaráða og fara í sterkari efni.  Þá þeytti hún eggjahvítu og niðurraspaða sápu (má alls ekki nota fljótandi) og þessu var síðan penslað á fótinn og haft yfir nótt að sjálfsögðu innpakkað í bökunarpappír. Hún er svo miklu miklu betri hefði samt viljað fara bara strax í eggjahvítuna, hitt gerði ekki nægjanlegt gagn.  Mér sýndist hún þó haltra í morgun en hún segir það sé bara göngulagið sitt. 


Sardenískt kukl!

Víkur nú sögunni að hjátrú Sarda en fólk hérna er afar hjátrúarfullt og fá öll börn við fæðingu grænt armband sem á að vernda þau fyrir illum öndum eða nornum að  því að mér skilst. Eldra barnabarnið mitt var vaxið upp úr sínu armbandi og tóku foreldrarnir það af þegar það var farið að þrengja að hendinni.  Nú þegar við komum hingað til Sardeníu með algerlega óverndað barnið sem er í þokkabót einhverfur (sem er ekkert sérstaklega viðurkennt á Sardeníu hann er bara óþekkur) Verandi svona "óþekkur" þá tók amman til sinna ráða.

Hún pantaði tíma hjá 109 ára gamalli "norn" og fór hlaðin myndum og af meintum "óþekktarormi" og hlutum sem hann á og tók svona til öryggis einnig myndir af litla barninu þar sem hann var ekki komin með sitt armband.  Niðurstaðan var sú að hvorugur er haldinn illlum öndum en svona til öryggis kom húm með blessað vatn frá þessari konu og nú setur hún krossmerki framan í þá og aftan á hálsinn og á hendur og fætur tvisvar á dag.  Einnig nuddaði hún höfuðið á eldra barninu með mynd af dýrlingi og reyndi að fá hann til að kyssa myndina. það tókst ekki! Barnið er allt annað í dag, kannski af því að hann er öruggari og farin að þekkja aðstæður hérna og allir stjana við hann nú eða kannski er það armbandið sem er kominn á sinn stað og blessun þessarar fjörgömlu konu sem hafa gert sitt gagn.


Sardenía með mínum augum

Oft finnst mér eins og ég sé komin langt aftur í aldir þegar ég er hérna á fallegu Sardeníu. Reglurnar eru svo allt allt aðrar en við þekkjum úr norðrinu og venjurnar ótrúlega gamaldags sumar hverjar og náttúrulega byggðar á allt annarri menningu og eins og þeir segja þá tilheyra þeir ekki Ítalíu þar sem þeir eru með sér fána og sitt eigið þing. Samt eru þeir hluti af Ítalíu þó þeir vilji láta kalla sig "Sarda"  Ég er sennilega þessi óþolandi spuruli karlinn hérna því mér þykir þetta skemmtilega öðruvísi. Ég viðurkenni það að komast ekki í háhraðainternet er ekki alveg í lagi að mínu mati sem og svo margt annað sem mér þykir ótrúlega gamaldags.

Konurnar hérna vinna almennt ekki og mennta sig ekki heldur nema ein og ein sem skella sér í kennaranám, eða hjúkrunarfræði og vinna eftir námið.  Ég spurði unga konu á 30 ára aldrinum hvað hún gerði allan daginn ein í stóru húsi meaðn maðurinn hennar stundar vinnu.  Jú ekki stóð á svari: "brjálað að gera hjá henni allan daginn" þrífa og fara á ströndina og þar sem hún eldar ekki, þá þarf að fara í heimsókn til mömmu eða tengdamömmu á kvöldin að borða.  Þessi unga kona hafði verið svo heppin að hafa vinnu en þegar hún gift sig og flutti í eigið hús sem þau ungu hjónin höfðu byggt sl. 12 ár þá þurfti hún að hætta að vinna og taka til hendinni við þrif og strandferðir.  Hún á ekki börn, hefur ekki tíma til þess. Almennt vaknar fólkið hérna um 6 leytið á morgnana eða aðeins fyrr og fer í gönguferðir þar sem það er ekki hægt síðar um daginn þegar hitinn er komin yfir svona 30 gráður. Menn fara til vinnu og konur til þrifa og svo um 10 leytið byrja þær á matseldinni því húsbóndinn kemur heim í mat í hádeginu og þá eru tilbúnir 3 eða 4 réttir fyrir hann. Mér sýnist hérna á þessu heimili sem ég gisti á að konan geri ekkert annað en að þrífa og elda. Klukkan 4 er svo byrjað á 5 rétta kvöldverðinum og fjandinn hafi það, þær eru 37 kg með glossi....langar að berja þær allar!


Ísland á Biðlista!

Ég get ekki orða bundist yfir grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag um hjón sem þurfa að vera aðskilin, þar sem hún er svo óheppin að vera með heilabilun og hjónin þurfa að eyða ævikvöldinu sínu sitt í hvoru lagi. Þegar kemur að hvíldarinnlögn er minni biðlisti á Húsavík og er henni bara skellt þangað. Hverskonar rugl er þetta eiginlega? Er eitthvað eðlilegt að fólk sem er með þennan sjúkdóm og þarf á sínum nánustu að halda sé bara skutlað á Húsavík eða þangað sem laust er pláss. Hvernig væri nú fyrir stjórnmálamenn að fara að skoða hvað er í gangi í þjóðfélaginu í raun og veru ekki eins og einhverjar hagtölur segja að hlutirnir séu. Er ekki nógu slæmt að greinast með illvígan sjúkdóm svo fólk þurfi ekki líka að glíma við hræðslu og kvíða því fylgjandi og vera aðskilin frá eiginmanni sínum. 

Nú skv. viðtali sem ég átti við forstjóra á hjúkrunarheimili fyrir nokkru kom þar fram að það væru 200 manns á biðlista, 100 heima hjá sér uppá fjölskyldu komin nú eða bara ekki og svo hinir 100 sem væntanlega eru þá á bráðadeild, spítalagöngum og já salernum.  Hún sagði mér að 75% aðila sem væru á þessum biðlistum lifðu ekki nægilega lengi til að komast inná hjúkrunarheimili.  það gerðist hjá pabba mínum, hann dó! Hann var á "biðlista".

Þurfi fólk að fara í hnjáliðaaðgerð, eða mjaðmaliðaaðgerð, þá er nú alla vega árs til tveggja ára bið, en þú getur fengið skjótari biðtíma ef þú nennir að hendast á Akureyri eða Akranes, þar er ekki nema svona mesta lagi hálfs árs bið. Þú lest bara nokkrar bækur á meðan þú ekki getur labbað. Hvað kostar það svo þjóðfélagið að senda sjúklinga í flugvél til þessara staða, væri ekki nær að setja þann kostnað til dæmis bara inn í heilbrigðiskerfið. 

Ég get nú ekki sleppt því að tala um fárveiku fíklana okkar sem bíða eftir innlögn á Vog svo mánuðum skiptir eða allt að 8 mánuðum í sumum tilfellum.  Það fækkar nú reyndar ört á þeim biðlista því mjög margir deyja á þeim, sem er eflaust heppilegt fyrir stjórnvöld.  Það er ekki eins heppilegt fyrir aðstandendurna sem sitja eftir í sorg og fyrir utan hvað það nú kostar að hafa fíkla í neyslu með öllum þeim fylgikvillum sem því tilheyrir.

BIÐLISTI fyrir einhverfu börnin okkar til að komast að í greiningu er svo um 2 ár, við erum að tala um barn sem getur bjargað sér fái það snemmtæka íhlutun og hjálp.  NEI 2 ár og svo eru svörin bara: "þetta er eðlilegur biðtími, ekki til fjármagn" Biðtímar eru eðliegir nánast á öllum sviðum þeirra sem þurfa hjálpar sem leita þarf til í heilbrigðisgeiranum. 8 mánuðir eru líka til að komast að í talþjálfun fyrir einhverfa og önnur eins bið í allt sem snýr að einhverfum börnum.

Eins og félagsráðgjafi barnabarns míns sagði þegar spurt var útí þessa endalausu bið: " Svona er Ísland í dag".


mbl.is 470 km skilja þau að
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rollsinn í sjúkdómum og trabantinn!!!!

Ég er svo gáttuð í dag að ég á ekki orð, var að lesa mér til um börn í fíkniefna og geðvanda og andlát ungs drengs vegna "aðgerðarleysis stjórnvalda" það er lokað vegna sumarleyfa. Já lokað! Þetta er eins og setja krabbameinssjúkling í fyrstu meðferð og segja svo heyrðu það eru ekki til lyf eða allir eru hérna að fara í sumarfrí, komdu við í haust ef þú ert ennþá á lífi. Þetta horfir bara ekkert öðru vísi fyrir mér.  Ég á son sem er mikið veikur og skrifaði ég eftirfarandi grein í Kvennablaðið fyrir ári síðan:

/http://kvennabladid.is/2017/04/29/missum-ekki-bornin-okkar-i-grofina-fyrir-aldur-fram/

Hvað hefur breyst síðan þá: EKKERT!!! nákvæmlega ekkert, sonurinn fékk jú inni á Vogi þann 8. ágúst 2017 eftir að hafa beðið síðan í janúar, en þá hafði hann verið á Hlaðgerðarkoti í nokkra mánuði og var þar enn. Hann er ennþá mikið veikur, var reyndar að koma út af Vogi en þurfti frá að hverfa eftir 10 daga þrátt fyrir að hafa verið 2 vikum áður við dauðans dyr vegna kókaínsofskamts, sem varð honum næstum að bana, en var bjargað fyrir horn af góðum vinum sem komu honum undir læknishendur. Já Vogur gott mál, 10 dagar og hvað svo? Gatan? Vík: lokað vegna sumarleyfa, Hlaðgerðarkot: skrifa niður nafn viðkomandi geta ekki gefið upp hugsanlegan innlagnartíma er það mánuður, ár eða fleiri ár? Krýsuvík: búin að hringja 4 sinnum og ítreka beiðni, sem maður gerir einu sinni í viku milli 10 og 12 ( mjög ólíklegt að sjúklingurinn sjálfur geti passað þann tíma). Ég skil þetta ekki, það kostar svo mikla peninga að hafa svona fársjúka einstaklinga úti í lífinu án lækningu eða án stuðnings og hjálpar.  

Ég hlýt því að spyrja er það sérstök pólitík að meðhöndla fíkla, geðsjúka og aðra sem hafa svona ekki forgangssjúkdóma eins og t.d. sykursýki, sem er svona rollsinn í sjúkdómum mundi ég segja, af því að þetta séu svo ósmartir sjúkdómar eins og mér þykir t.d. Trabant bíllinn vera?


Madrid

Ég ákvað að skella mér til Madrid höfuðborgar Spánar ásamt syni mínum sem búsettur er í San Miguel de Salinas.  Við vorum á góðum bílaleigubíl og lögðum af stað snemma morguns til að losna við mestu umferðina.  Það var skrítið að eftir 2 tíma í akstri vorum við komin úr appelsínuökrunum og við tóku möndlutré í fullum blóma, en þau eru búin með sinn blómatíma hérna í suðrinu og virðist gróðurinn alveg mánuði á eftir  því sem hann er í blóma hérna og því sem norðar kom. Hitinn lækkaði líka markvisst og lögðum við af stað í 16 stigum en enduðum í Madrid í 9 stigum. 

Það er þægilegt vegakerfið hérna á Spáni og ekki mikið mál að keyra svona yfir landið og dásamlega fallegt vínviðurinn og ólífutrén á ökrum hálfa leiðina ásamt blómstrandi möndlutrjánum hvítu og bleiku. Hvítu trén gefa beiskar möndlur og þau bleiku sætar segja mér heimamenn.  Nú það gegnir öðru máli með akstur í stórborginni Madrid og var ég ekki mjög örugg með mig, enda annálaður lélegur bílstjóri og langaði mig alveg að loka augunum í hringtorgum með 4 akreinum, en ég var þó búin að læra að ytri hringurinn á réttinn, ekki sá innsti.  Ég var sem betur fer með son minn mér við hlið sem var mín hjálparhella og "GPSari" sagði mér að beygja hérna og þarna. Komst ég nokkuð heil út úr akstri mínum í Madrid, lenti á einum stólpa sem var sem betur fer fóðraður með mjúku frauðplasti vegna fólks eins og mér sem eiga í erfiðleikum að troða sér í lítil stæði enda var ég á "stórum" bíl (Renault clio).

Madrid er falleg borg og margir mjög fallegir staðir í henni sem vert er að skoða og húsin eru rosalega falleg og vorum við á hóteli sem var skemmtilega byggt og aðeins í útjaðri borgarinnar, sem var allt í lagi þar sem við vorum á bíl, en það var mjög dýrt að leggja í bílastæði og reiknaðist mér til að ég hafi greitt um 7500 ísl. kr. í bílastæði í þessa 2 sólarhringa sem við vorum í Madrid.  Við borðuðum á mjög skemmtilegum stað rétt fyrir neðan Plaza Mayor torgið á móti markaðshúsinu og var þessi staður eins og gamalt klaustur og virtist vera að hruni komið en mjög skemmtilega innréttað með altaristöflu og trúarlegum myndum og skrauti og fullt af stórum kertum.  Fengum frábæra máltíð þarna en það er mun dýrara í Madrid en hérna í suðrinu alveg helmingi dýrara og sumsstaðar þrefalt dýrara en er svo sem vel þess virði.

Plaza Mayor er torg sem er með fullt af veitingastöðum og mikið um allskonar uppákomur. Það var byggt árið 1619.  Við borðuðum á einum af veitingastöunum þar og var það skemmtileg upplifun ágætis matur og mikið af fólki á torginu, en uppsprengt verð eins og hætt er við á fjölförnum túristastöðum.

Við löbbuðum svo niður að Puerta del Sol sem er annað skemmtilegt torg þar sem hin fræga klukka er sem sjónvarpað er frá síðustu 12 sekúndur til miðnættis og vínberin 12 borðuð sem eiga að boða 12 góða komandi mánuði og þetta hefur verið gert um hver áramót síðan 1962. Í kringum það torg er allt fullt af göngutötum með öllum helstu búðum sem konur þurfa að kíkja í þegar í útlönd er komið.

Madrid er æðisleg borg falleg og fjöbreytt og iðandi af lífi og fjöri eins og stórborg á að vera.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband