Miskolc í Ungverjalandi

Við komum hingað til Miskolc frá Sardeníu úr 37 stiga hita í svalann og 26 stiga hita.  Miskolc er rosalega skemmtileg borg um 300 km frá Búddapest með um 150 þús íbúa. Miskolc er rétt við landamæri Slóvakíu og ekki langt frá landamærum Úkraníu.  Þessi bær er líflegur og erum við í miðbænum með rennandi á hérna á bak við húsið og fullt af börum og veitingastöðum.  Íbúðin er mjög fín og hérna er notalegt að vera þar sem ekki er þessi rosalegi raki og hiti eins og við upplifðum á Sardeníu. 

Hérna er allt öðruvísi andrúmsloft en ég hef upplifað áður, ekki eins hert og stíft eins og í Slóvakíu, fleiri tala ensku og fólk virðist ekki vera með þetta samanbitna yfirbragð og Slóvakar hafa.  Hérna er líka hægt að fá annað en bara bjór, reyndar smá sýrubragð af rauðvíninu en Prosecco og spritz fást með matnum ef maður vill ekki halda sig við vatnið bara. Það eru örugglega 100 tegundir af vatni með bragði.

Hérna eru mjög skemmtilegir matsölustaðir og tapasbarir með besta tapas sem ég hef smakkað verð ég að segja.  Gúllassúpan kemur svo sem ekki á óvart en það er greinilega mikil uppsveifla í framboði matar hjá "Miskolcum".

Ég varð hissa á því hversu mikill munur er á Slóvökum sem eru hérna rétt hjá og Ungverjum þeim sem hér í þessum bæ búa.  Meðan slóvakar eru hávaxnir og grannir eru Ungverjar meira líkir bandaríkjamönnum í vexti og flestir mjög vel í holdum.  Allt í góðu lagi með það, það sem vekur athygli mína er þó að hversu lausir þeir eru við að vera með þessa líkamsmeðvitund og við höfyn og klæða sig bara eftir tískunni hérna, skítt með vöxtinn. Tískan er jú heill kapítuli útaf fyrir sig og dásamlegt að sjá hversu misjafnt fólk er eftir löndum. Hérna er í tísku að vera í stuttbuxum og var H&M morandi í stuttbuxum í öllum stærðum og er magabolur notaður við stuttbuxurnar og alveg sama hvernig vaxtarlagið er. Svo er bakið skreytt með litlum sætum bakpoka og jafnvel með Frozenmunstri. Kemur mér svo skakt fyrir sjónir þar sem við hugsum öðruvísi og ég sem er nú ekkert fis mundi aldrei voga mér að fara í magabol og henda litlum sætum bakpoka á bakið sem væri eins og krækiber í helvíti. 

Gaman að þessu!

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband