Færsluflokkur: Ferðalög
4.5.2016 | 13:18
Rakarinn í Pula
Hérna í litla bænum Pula á Sardeníu er margt skrítið og skemmtilegt og rakarinn hérna annar af tveim sem eru starfandi hérna í bænum er uppspretta af sögum í öllum veislum og hafa allir sögu af honum að segja. Í fyrsta lagi er hann vinsælli rakarinn hérna af þessum tveim, því Sardeníubúum finnst hann vera töff. Hann er með rastagreiðslu og tagl niður á bak og byrjar daginn á drykk Sarda sem er Spritz og vel áfengur en það er hans morgunmatur.
Tengdasonur minn fór til hans í vikunni og bað um klippingu hann sendi hundinn að sækja dagbókina sína og bað tengdasoninn að koma aðeins á næsta bar meðan hann skoðaði hana. Fékk sér spritz og sagðist alveg upptekinn, en hann ætti lausan tíma um kvöldið. Tengdasonurinn mætti þá á tilsettum tíma ásamt vini sínum sem átti einnig tíma þetta kvöld og þeir mættu á barinn að sjálfsögðu og var rakarinn orðinn vel drukkinn, en sagðist taka einn í einu og hvíla sig á milli. Vinurinn fór fyrstur og leið og beið og tengdasonurinn farinn að undrast um þá og kíkti inn, jú vinur hans sat í stólnum og með helming af hárinu klippt, en rakarinn hafði í fyrsta lagi klippt einhvern frænda sinn og látið hann bíða á meðan, svo eftir það hafði hann farið út að hitta mann (kaupa sér jónu) og var ekki kominn aftur og hafði vinurinn verið svona hálfklipptur í rúma 2 klukkutíma. Þeir félagar fóru aftur á barinn og löngu síðar kom rakarinn á barinn og spurði af hverju hann hefði farið úr stólnum? Hvurslags óþolinmæði þetta nú væri?
Ok þá fæ ég mér einn drykk áður en við klárum sagði hann svo. Sirka 3 drykkjum síðar og mun léttari pyngju hjá þeim félugum ákvað hann að klára klippinguna á vininum, en tengdasonur minn ákvað að hinkra til næsta dags, enda klukkan orðin 4 að nóttu og ennþá ekki búið að fullklára klippingu vinarins og það hafði tekið 7 tíma, svo hann ákvað að fara til hins rakarans daginn eftir. Vinurinn var þó ágætlega klipptur og nokkuð sáttur, fannst þetta þó fulldýrt, þ.e. allir drykkirnir. Klippingin sjálf kostaði reyndar bara 30 evrur.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.4.2016 | 15:31
Pula á Sardeníu og dularfulli kindahópurinn.
Þar sem ég kem keyrandi út frá húsinu sem ég leigi hérna í Pula niður götuna á fína Audi bílaleigubílnum, bregður mér illilega, það kemur hópur af kindum á móti mér og virðast einar, en með einbeittan vilja að komast sem fyrst á leiðarenda. Ég fraus við stýrið, enda ekki á hverjum degi að maður mæti svona kindahóp í miðjum bæ virtust einar og ég lokaði augunum og bað til guðs að þær mundu ekki skemma fína bílaleigubílinn. Það kom á daginn að þær voru ekki einar, það var hundur með þeim, já alveg heill hundur til að stýra öllum 50 kindunum og lömbunum á grasbalann sem var á milli hússins míns og götunnar, en þangað var för þeirra heitið. Þær röðuðu sér svo niður í beina línu og borðuðu blómin og grasið og eftir svona korter var þeim hóað saman (af hundinum) og yfirgáfu svæðið. Ég spurði Sardeníska tengdason minn hvað væri eiginlega í gangi og sagði hann að þetta væri eðlilegt og ástæða þess að ekki væri neinn smali eða maður með þeim væri sú að það væri ólöglegt að stela grasi og þeir vildu ekki verða teknir við þá iðju. Ég hitti svo strák sem er bóndi og hann sá þennan sama kindahóp í gær fyrir utan hjá mér og þekkti að sjálfsögðu hundinn og sagði mér að hann ætti í meiriháttar veseni með þessar kindur því eigandinn sigaði þeim einnig á hans land og lét sig svo hverfa á meðan, eins og þær hefðu bara tekið það uppá sitt einsdæmi að skondrast á hans landsvæði og fá sér að snæða.
Ég hélt að ég gæti ekki orðið meira undrandi, þar til ég mætti asna með kerru aftan í sér og unglingur í kerrunni. Fannst eins og ég væri komin langt aftur í aldir, og mun ekki vera á "flipflopsum" labbandi í bráð, þar sem göturnar eru allar í lambaskít og hestaskít eða allt þar til rignir, sem gerist einu sinni í mánuði eða svo. Hérna er einnig allt morandi í flækingshundum, sem liggja fyrir framan súpermarkaðinn og betla alveg hellingur af þeim. Annars er allt svo þrifalegt hérna, að ég hef nú trú á því að nágrannar mínir fari út með skóflu og kúst og þrífi þetta upp. Nú heyri ég í bjöllu og þær eru mættar aftur, og ég er farin að fylgjast með kindunum "mínum".
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 19:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2014 | 13:33
Fólkið í Mílanó
Mílanókonur eru tvennskonar, annars vegar þessar sem mæta í vinnu með strætó eða metró og klæða sig eftir veðri og svona frekar með tilliti til þæginda, svona gallabuxur, strigaskór og þessu blessuðu vattúlpum sem allir ítalir virðast eiga. Þær eru þó allar í ítölskum merkjum og fágaðar í útliti allt frá Prada, Armani til Chanel, sem hinn almenni Ítali virðist alveg hafa efni á. Þessar konur eru oft frekar lítið málaðar og bara svona venjuleg meðalkona. Hin tegundin er svo sú uppstílaða sem hangir á Duomotorginu, sem er dýrasta svæðið í Mílanó og sötra hvítvín, eða spritz og narta í eina og eina ólífu, þær eru undantekningarlaust mjög grannar, enda allir ítalir uppteknir af þyngd og á það jafnt við um karla og konur. Þær eru kallaðar ljóshærðar, þó svarta hárið sé litað og oftast nýklipptar og flott greiddar, enda vinna þessar konur ekki og sitja bara á kaffihúsunum milli þess sem þær versla í merkjavörubúðunum. Þær er líka oftast með burberryklæddan smáhund með glitrandi ól með sér og bera sjálfar svona um kg af gulli á sér. Þessar konur eru í háum hælum alltaf og hver annarri glæsilegri og flottari, með stútvarir eftir nokkrar aðgerðir á andliti og hrukkulausar. Labbi maður framhjá aftur eftir 2-3 tíma sitja þær ennþá með glösin sín, en ekkert að borða, held að ef maður mundi spyrja þessar konur hvenær þær borðuðu súkkulaði síðast, þyrftu þær langan umhugsunarfrest. Held ekki að margar ítalskar konur leyfi sér slíkt á daglegum basa. Þú sérð ekki þessar konur snerta flögurnar sem fylgja með drykkjunum, nei eins og ég segi þær narta kannski í ólífurnar brot úr deginum.
Ítölsku Mílanómennirnir eru annað hvort algerir plebbar (í augum íslendingsins sem er sjálfur svo smart) í merkjavörum þó, en eitthvað svo illa raðaðir saman. Þó eru flestir í merkjavöru þó ósmartir séu. Oftast í vattvestinu fræga. Meirihlutinn eru þó eins og klipptir út úr tískublaði, hvílíkt stíliseraðir í flottum fötum, þessi typisku sólgleraugu, trefil, raðað hár og svo í þessum skemmtilegu vattvestum utan yfir allt jakkafötin líka. Karlmennirnir eru ekkert síður með Pradapoka eða Armanipoka og eru alveg jafn lengi að velja sér föt og taka sig til, ef ekki lengur. Sem sagt viljirðu líta út eins og ítali, eru rayban/chanel/prada sólgleraugu must.
Vattúlpan þeirra fræga vel aðsniðin í mittið.
Stór Merkjavörupoki (ath. er margnotaður og einhverskonar stöðutákn)
já og bara fullt af pening, eða kaupa þetta dót hjá sölumönnunum á 10 evrur og eiga á hættu að vera tekin.....svo er bara fínt að vera Íslendingur....
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.6.2014 | 13:17
Fólkið á Sardeníu
Fólkið á Sardeníu minnir um margt á okkur íslendina, er svona frekar afskipt, mjög ólíkt ítölum frá meginlandinu, þar sem þeir skipta sér af öllu og eru helst með nefið ofan í manni, meðan pantaður er matur á veitingahúsi. Menning þeirra og siðferði hefur alveg haldið sér óbreytt og tala þeir sardenísku, sem á ekkert mikið skylt við ítölsku í eyrum íslendingsins.
Sardeníubúar eru einstaklega lágvaxnir og er ég með mína 164 og 1/2 cm hávaxin hérna, sem er alveg dásamleg upplifun. Ég gnæfi yfir þá í strætó og líður eins og Gulliver í Putalandi, gæti vel ýmindað mér að meðalhæð kvenna hérna sé um 156 cm og karla ekki mikið hærri en 170 cm. Þetta er mjög skrítin tilfinning að vera allt í einu orðin hávaxin á heilli eyju, en reyndar hef ég ekki farið um hana alla, en fólkið hérna í höfuðborginin Cagliari kemur mér svona fyrir sjónir.
Klæðnaðurinn hérna er um margt frábrugðin Mílanóbúum t.d. en hérna finnst enginn H&M búð, ekki mikið úrval af búðum svo sem, en allir ungir menn klæðast eins og það eru joggingbuxurnar gráu, sem voru á Íslandi fyrir margt löngu, þeir sem taka stælinn alla leið, eru í leðurlíkisjoggingalla og allir í íþróttaskóm, sem er náttúrulega mjög skynsamlegt. Ég hef aldrei séð jafn margar tegundir af íþróttaskóm og hérna á Sardeníu.
Klæðnaður ungra kvenna er svo alveg sér á parti, en allar eru þær klæddar í leggings, eða gammosínur eins og við vorum með börnin okkar í og í þessum óhefðbundnu íþróttaskóm með hælum eða þykkum botni, ekki veitir af, þar sem þær eru allar eins og áður sagði frekar lágvaxnar. Við þetta klæðast þær svo ítölsku vattúlpunum sem virðist vera eign hvers einasta ítala, þær eru oftast í mittisúlpum, og finnst manni skjóta skökku við að vera í dúnúlpu við sokkabuxur. Við þetta bera þær svo allar plasttöskur frá Armani Jeans í öllum litum. Ekki má gleyma kinnalitnum sem þær setja yfir allan vangann, hélt ég fyrst að þetta væri óvart, þar til ég sá allar með fölbleika litaða vanga.
Fólkið hérna á eyjunni er með mjög svona fornaldarlegan hugsunarhátt, eins og þessar hefðir sem þeir halda ennþá í. þegar þú ferð á matsölustað, þá eru flest borðin með karlmönnum sem eru kannski svona 12-16 saman og allir að borða og drekka. Ef pör eru saman að borða, þá er konan með vatn, nánast undantekningarlaust og karlinn með bjór eða rauðvín, hún fær sér svo kaffi, hann kaffi og limoncello. Einnig á flestum börum voru eingöngu útlendar konur með bjór, en þó svona ein og ein frá Sardeníu. Þegar ég spurði Andrea vin minn frá Sardeníu, þá sagi hann, já konur drekka ekki, þú ferð ekki á barina hérna eins og í Mílanó, það yrði bara horft á þig eins og þú værir eitthvað skrítin og þegar ég spurði hann af hverju karlar væru alltaf einir úti að borða, þá sagði hann í 1. lagi, þá eru konurnar í megrun og í öðru lagi þá eru þær heima að passa börnin. Er það nema von að þær þrói með sér fýlusvip frá því þær fermast og uppúr, ég spurði út í það líka og þá sagði hann mér að það viðgengist á Sardeníu að vera alltaf óánægð með það sem þú hefur, annars lítur út eins og maðurinn þurfi ekki að leggja harðar að sér með sambandið og getur hætt að kaupa gjafir handa kærustinni.
Ég fór ein á bar og pantaði mér kokteil og fór síaðan ein út að borða og fékk mér áberandi rauðvínsflösku með pizzunni og kaffi og limoncello á eftir þessu, ég var meira að gera þetta til að mótmæla þessum fornaldarhugsunarhætti, en gat öllum verið meira sama...já held það, en það var glápt á þennan hræðilega alka sem ég var og gat mér verið meira sama.....já já alveg...
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.6.2014 | 10:36
Maturinn á Sardeníu.
Maturinn hérna á Sardeníu er að mörgu leyti frábrugðin hinum hefðbundna ítalska mat, þeir hafa t.d. sitt eigið pasta. Mér finnst það nú ekki sérstaklega gott, en það er nú kannski bara það sem maður hefur vanist er best og allt hitt ok að prufa, en fannst áferðin ekki skemmtileg og eitthvað aukabragð.
Þeir eru að sjálfsögðu með mikið af sjávarfangi og þá helst skeljar og kolkrabba, sem og allskonar fisk sem þeir sýna í öllum gluggum á öllum veitingastöðum. Allt sem ég smakkaði þar af sjávarfangi var gott, nema ígulkerið sem ég fékk á matsölustaðnum Su Cumbida, sem vinur minn hafði mælt með og er hann nú innfæddur "Sardi" þannig að ég treysti honum, fékk mér spaghetti Vongole sem var frábært og Zuppa di Cozze, sem var frábært, sló alveg við skeljunum á Snaps, sem mér hafa fram að þessu þótt bestar. Nú lét mig hafa það að fá mér pizzu með sjávarréttum, skil ekki alveg samsetninguna, enda fannst mér það mistök, ostrurnar fengu að bíða, en vinur okkar Andrea fékk þó dóttur mína til að smakka.
Eitt var það sem margir fínni veitingarstaðir bjóða uppá og það eru allskonar ostar, peccorino sem er æðislegur aðeins saltaðri en Parmaosturinn. Nú ekki má gleyma hinum fræga Casu marzu, sem er morandi í lirfum, sem fólk borðar ekki endilega, en þó sumir, hann er mjúkur og sagður mjög sterkur og eftirbragðið getur varað nokkra tíma. Lirfurnar skilja eftir sig gula bletti á fötum, sem gerir það að verkum að fólk klæðir sig gjarnan í gult, þegar það veit að framundan er ostaveisla a-la-lirfur...takk samt kærlega...en nei takk ekki fyrir mig.
Þeir drekka eftirréttavín með þessum ormaosti, einnig drekka Sardeníubúar mesta magn bjórs á íbúa í Evrópu las ég einhversstaðar sem kemur á óvart, þar sem konurnar drekka lítið sem ekkert, annars er unga kynslóðin að taka upp þann sið eins og Ítalir að hafa aperativo, sem er vínglas og allur sá matur sem hver bar hefur á boðstólnum sem þú getur í þig látið, borgar bara frekar hátt verð fyrir glasið. Svo má ekki gleyma limoncelloinu sem er bara eins og að borga reikninginn, þú ert nánast ekki spurð hvort þú viljir það eftir mat, heldur hvort þú viljir limoncello crema, svona beilístýpan af Limoncello, eða hið hefðbundna, en mátt fá þér myrto sem er einhverskonar lauflíkjör...já takk......
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.6.2014 | 11:01
Það sem kemur mér "spánskt" fyrir sjónir á Sardeníu.
Páskadagur á Cagliari höfuðborg Sardeníu, það er hádegi og ég skondrast út til að taka strætó á ströndina, það er ekki sála á götunum og eftir 40 mínútur gefst ég upp og geng heim aftur, enginn strætó gengur greinilega ekki á páskadag. Sem ég segi þeir fylgja gömlum hefðum, þó það kosti þá peninga frá ferðamönnum, en hvernig kemst fólk á ströndina ef enginn er strætó? Leið eins og Palla sem var einn í heiminum.
Ég komst svo daginn eftir á ströndina, sem er svo falleg og þar var ekki þverfótað fyrir fólki, en Sardeníubúar eða Sardar eru ekki endilega í sólbaði, þeir hanga á ströndunum í öllum fötunum og unga fólkið virðist nota ströndina sem samanstað til að hittast. Allir strandarbarirnir voru fullir af kappklæddu fólki og okkur hinum þessum skrítnu sem finnst það í lagi að fara í sólbað ef hitinn er 25 stig þó það sé ekki komin 15 maí. Þá er vattúlpunum pakkað niður og léttu fötin tekin fram, ekki fyrr.
Þetta þurfti ég nú að fá aðeins nánari upplýsingar um, eins og það að hafa ekki strætó á svona háannatíma eins og páskar eru, en Andrea minn sardeníski vinur sagði mér, að það væri svo mikil sundrung hjá stjórninni, það væru svo margir með svo misjafnar skoðanir, eins og hvað þetta varðar og eins með ströndina, sem er gullfalleg með fallegum börum, en á víð og dreif eru niðurníddar byggingar og órækt sem er alger sjónmengun, hann sagði mér að það væri vegna þess að stjórnin gæti ekki komið sér saman um þetta, einn hlutinn vildi loka öllum börum og hreinsa alla ströndina af ruslbyggingum um leið, en leifa fólki svo að vera frítt á sandinum. Hinn hlutinn vill ekki láta loka strandarbörunum, vegna þess að fólk þarf jú aðstöðu með börn og salerni oþh. Þannig að ekkert er gert, sama gildir um allt tengt ferðamannaiðnaði, eins og það að allt sumarið sagði hann mér að skemmtiferðaskip legðust að höfn á hverjum sunnudegi, en eins og hann sagði þá er hefðin gamla við völd og allt er lokað á sunnudögum, þannig að maður hugsar með sér, er enginn vilji til að bæta atvinnuleysið sem sendir margan unglinginn í burtu af eyjunni eftir nám. Svo virðist ekki vera, eða þá að enginn vill gefa eftir.
Þessi vinur minn sagðist hafa skroppið á barinn á götuhorninu hjá okkur með vini sínum og fékk sér bjór, en þar sem hann er úr öðrum bæ, þá þurfti bareigandinn að kanna hvort hann væri lögregla og sagði við hann eruð þið á bíl (ath. hérna fer allt fram eftir reglum og undir rós ekki bara spurt ertu lögga?) Já við erum á bíl svöruðu þeir og þá kom eigandinn með annan bjór í boði hússins, þá þann þriðja og þegar þeir þáðu hann (áttu víst ekki annarra kosta völ, því ef Sardi býður öðrum sarda eitthvað þá liggur eitthvað þar bak við og þú neitar ekki) því næst sagði hann, þú ert sá sami og ég, hvaðan kemur þú og vinur minn nefndi bæinn, sem er svo lítill að hann er ekki með löggur, svo þá var allt gott, allir sem komið höfðu inn í kippum til að vera til staðar fyrir bareigandann (ef löggan ætlaði sér að skipta sér af barnum) fengu sér bjór og skáluðu við þá. Þegar þeir svo fóru út, þá keypti vinur minn drykk handa öllum á barnum (það er venjan líka) svo þetta var kannski ekki ódýrasti bjór sem hann fékk gefins eftir allt.
Einn siður er sá að þegar þú kemur inná bar, þá heilsar þú öllum sem fyrir eru, ef þú gerir það ekki, þá heilsa þér allir þ.e. ef þeir samþykkja þig, því þeir líta á það að þú sért að koma í þeirra hús, þar sem þetta er jú þeirra bar, þú ert gestur og gestir heilsa!
Önnur regla er á börum á Sardeníu og sagði þessi sami vinur mér frá henni, en hún er sú, að þegar þú kemur inná bar í einhverjum bæ, þá situr gjarnan gamall maður fyrir framan barborðið með hníf og epli. Þú pantar bjór og hann horfir á þig, ef hann skrallar allt eplið þá þýðir það að þú færð þennan bjór en ekki annan, honum líkar ekki við þig. Drekktu bjórinn og farðu og allir vita hvað þetta þýðir, nema náttúrulega íslendingurinn og spurði ég hvað gert yrði ef ég bæði um annan bjór og sá gamli búin að afhýða allt eplið. Þér yrði sagt að það væri ekki til meiri bjór og staðnum væri að loka. þetta er víst eldgamall siður sem tengist langt aftur þegar glæpaklíkur réðu mismunandi bæjum og eða sveitafélegum.
Takk fyrir það.....já það er margt skrítið í kýrhausnum hérna á eyjunni fögru í suðrinu.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2014 | 12:38
Sardenía, eyjan með pálmunum og sítrónutrjánum
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.4.2012 | 18:09
Veróna eða "piccola Roma" eins og hún er stundum kölluð.
Ég keyrði inní Veróna á páskadag, kom úr sólinni í norðri og lenti í úða í Veróna, en samt var nú margt um manninn þarna, enda páskar og margir á ferðalagi á þeim tíma. þegar maður kemur að borginni er hlið með varðturni sem hefur væntanlega varðað alla aðkomugesti til borgarinnar á árum áður.
Stuttu eftir að komið er í gegnum hliðið er torgið Piazza Bra, þar er hin 2000 ára gamla fræga Arenan, þar sem óperusýningar fara fram undir beru lofti á sumrin, Kristján Jóhannsson hefur m.a. haldið tónleika þar á árum áður. Ég missti því miður af þeim tónleikum, enda á þeim tíma, þótti mikilvægara að ná sér í sól fyrir allan peninginn.
Eins og sjá má er blautt, en þó var röð í hringleikahúsið, en ekki var nú farið inní það í þetta sinn, en bíður það tækifæris, þegar hægt er að slá 2 flugur í einu höggi og sjá flotta óperu, eða bara tónleika með einhverjum flottum listamanni og skoða leikvanginn.
Ekki er hægt að fara til Verona án þess að kíkja á svalirnar hennar Júlíu, en þær eru nú ósköp litlar og ómerkilegar, en vinsæll viðkomustaður ástfanginna para, sem setja á vegg elskenda beiðni um eilífa ást eða eitthvað annað bráðnauðsynlegt, og er það fest með tyggjói, þegar ég kom þarna var greinilega búið að taka alla miðana, en sagt er að það séu nokkrir sjálfboðaliðar sem taki að sér að lesa og jafnvel svara bréfunum, og hefur verið gerð mynd um þennan vegg "Letters to Juliet" í garðinum er svo bronsstytta og allir sem hafa óskað sér þurfa að snerta vinstra brjóst styttunnar, til að óskin rætist, ég sleppti því nú enda hafði ég ekki komið með neina ósk á vegginn sem var ein tyggjóklessa, örugglega ekki mjög hreinlegt, en sjarmerandi.
Hér er svo veggurinn án miða og með miðum, mjög skemmtileg að skoða, en ekki snerta. Svo er Piazza Erbe,skammt frá garði Júlíu og er það rosalega skemmtilegt torg, þar sem úir og grúir af allskonar sölubásum, með markaðsstemmingu og kaffihús og matsölustaðir þétt staðsettir meðfram öllu torginu, við fengum okkur vínglas á upphituðum stað, meðan mesta úrhellið gekk yfir áður en við heimsóttum sjálfan Dante, en styttan stendur á torgi sem var nú algerlega marautt, enda allir komnir í skjól undan regninu á kaffihúsin í kring, en Dante stóð þarna sína pligt, en heldur var hann einmanna karlinn í regninu.
Veróna er þannig borg, að manni finnst hún vera svona smábær, enda ekki nema um 270 þús íbúar á svæðinu, en á þessum páskadegi, var hún nú ansi fjölmenn, þrátt fyrir smá úrhelli, þá er mjög gaman að koma til Veróna, enda öll smærri í sniðum en Róm, en samt með söguna á bak við sig. Við höfðum síðan hugsað okkur að borða á þeim "fræga" stað 12 Apostoli, þar sem víntegund er nefnd eftir Diddú okkar að mér er sagt, en það þarf að bíða betri tíma, þar sem betra er að panta borð með fyrirvara.
Veróna rómantíska borgin verður nú heimsótt aftur þó síðar verði.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 18:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.2.2012 | 17:00
Hin ýmsu hótel.
Ég er mjög ferðaglöð kona og elska að ferðast, en sá böggull fylgir skammrifi að vandasamt getur nú verið að finna sér hótel við hæfi og eru þau mörg eins og þau eru misjöfn, m.a. þess vegna skellti ég mér nú í ferðamálanám sem hjálp við komandi ferðalög og val á hótelum
Ég var á 5* hóteli í Róm hótel Gioberti og á 6 dögum sá ég 2 rottur í garðinum, sem voru á stærð við meðalkött, já voru mjög fancy rottur, en ég missti matarlystina á hóteliu og borðaði ekkert, nema sem kom í innsigluðu plasti og vökva úr innsigluðum flöskum.
Ég hef hér áður lýst hótelinu í Búlgaríu, þar sem allt var bilað og ég þurfti að kvarta svona 5 sinnum og fékk öllu bilaða dótinu skiptu út fyrir heilt, á kostnað íslensku hjónanna í næsta herbergi sem fengu öllu sínu heila dóti skipt út fyrir mitt ónýta.
Ég pantaði líka eitt sinn hótel á Ítalíu fyrir 4 (fullorðna) og fékk micro stúdíoíbúð, sem var með litlu hjónarúmi og einum hermannabedda, sem sonurinn 189cm var settur á, en þar sem ekki var nægt pláss, þá þurfti hann að sofa með hausinn útá svölum, eða með fætur/haus inní ísskáp, hann valdi fyrsta kostinn og var skaðbrenndur þegar hann vaknaði um morguninn, þar sem við fengum morgunsólina á svalirnar. Við hins vegar 2 vinkonur og fullvaxta dóttir, þurftum að deila litla hjónarúminu, og vorum með áverka eftir nóttina, þar sem við féllum ítrekað fram á gólf, það tók nokkurn tíma að finna nýtt hótel fyrir okkur, þar sem við þurftum ekki að nota skóhorn til að koma okkur fyrir. Þetta stóð í smáa letrinu að ég hefði vísvitandi pantað þetta sýnishorn af hótelherbergi.
Ég lenti líka eitt sinn í því að frjósa næstum í hel á 4*hóteli í Köben St. Petri, en við vinkonurnar höfðum verið þar á með stórum stelpuhóp á tónleikum og greinilega var bilun í hitakerfi okkar herbergis, sem var svo sem ágætt, stundum, þegar okkar herbergi var notað sem partyupphitunarstaður fyrir tónleikana og svona, en á 3. degi var okkur nú farið að hætta að finnast fyndið þegar okkur var sagt að við værum örugglega alltaf "óvart" að setja kulda á herbergið, og á endanum hringdum við niður í lobby og báðum einhvern vinsamlegast að koma upp og vera í herberginu í 3 mínútur og ef viðkomandi þyldi við, þá mundum við hætta að kvarta. Við klæddumst nú í öll föt sem keypt höfðu verið, fórum í náttsloppana frá hótelinu utan um til að undirstrika smá hvað okkur væri kalt, settum á okkur húfur og trefla og vettlinga og tókum á móti gaurnum, sem blánaði við það eitt að labba inní herbergið okkar og eins og hendi væri veifað, þá fengum við þá flottustu svítu sem ég hef gist í. Við vorum fljótar að brjóta grýlukertin af dótinu okkur og þeysa yfir í nýju íbúðina og bjóða öllum í frían drykk hjá rokkstjörnunum sem okkur fannst við vera, með einhvern arabískan Shake frá Saudi í næstu íbúð og LA Toya systur M.J. í næstu. Alveg sáttar við þessi skipti.
Ég var líka með vinnuhóp á hóteli í Kaupmannahöfn við Ráðhústorgið sem var í endurnýjum, og vorum við nokkrar settar í herbergi sem var inná gangi þar sem verið var að pússa gifs af veggjunum, þannig að þegar við höfðum labbað ganginn á enda og troðið okkur í gegnum plast og stillansa og iðnaðarmenn, vorum við hvítar af dufti og eins og gangandi "ekki" flösusjamó auglýsing" og vorum kallaðr, "flösugengið"Sumir úr hópnum vour hins vegar í Louis Armstrong svítu, með sér strauherbergi, legg ekki meira á ykkur, við dvöldum mikið þar, þar sem veggfóðrið í okkar herbbergi lafði alveg ofan í rúmin okkar, svo það var ekki notalegt að sitja og spjalla í rúmum og þurfa alltaf að ýta veggfóðrinu frá andlitinu, því það var smá rok í herberginu, þar sem svo mikið ryk kom inn vegna framkvæmdanna í næstu herbergjum sem var verið að gera upp (okkar var ekki eitt af þeim) að við vorum með alla glugga opna.
Ég hef nú lent í fleiri skemmtilegum uppákomum á hótelum um heiminn, en nóg í bili.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 17:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.1.2012 | 21:35
Capri eyjan fallega
Eyjan Capri er að ég held sá staður sem kemst næst því að líkjast pardís, eins og ég held að paradís líti út.
Capri liggur í Napólíflóanum og tilheyrir Campange héraðinu og eru íbúarnir undir 15 þúsundum, en allt að 10 þúsund ferðamenn eru þar daglega á háannatíma.
Þegar maður kemur upp á sjálft fjallið, með dráttarkláf/lest eða hvað þetta nú heitir, sjá mynd hér að neðan, þá lendir maður á stórri verönd og á henni er kort úr mosaik yfir eyna og ég varð nú að taka mynd af því, enda held ég að ég hafi aldrei tekið eins mikið af myndum og í þessari ferð.
Að labba meðfram ströndinni og horfa útá dimmblátt/grænt hafið þar sem möndlutrén standa í röðum í blóma er bara unaður og hvílík upplifun að maður fyllist lotningu.
Ég fór til Capri frá Sorrento, en þaðan eru ferjur og bátar með stuttu millibili oft á dag. Það tekur u.þ.b. 45 mín með ferju á milli lands og eyja og kemur maður að hafnarsvæði sem er á mjög mjórri strandlengju sem rétt rúmar nokkra bari, sölubása og verslanir aðallega með svona ferðamannadót. Þar settumst við niður á bar, þar sem skemmtilegasti barþjónn fyrr og síðar afgreiddi okkur og við kölluðum bara Eyþór (si si sagði hann mi chiamo Eytór) en þetta var rétt uppúr hádegi og hann dansaði og stjanaði í kringum okkur eins og við værum eðalborin. (grunar að hann hafi fengið sér cafe corretto í morgunmat). Þegar móttökurnar eru svona á stað sem er oftast yfirfullur af ferðamönnum, þá finnst manni að maður sé virkilega velkomin og það er jákvætt fyrir ferðamanninn, enda elska ég Capri.
Frá þessari þröngu hafnarlengju tekur maður sem sagt kláfinn uppá eyjuna sjálfa og þar er eitt fallegasta útsýni sem hugsast getur.
Eiginlega leið mér eins og ég hefði dottið inní gamla mynd, sem hefði verið fótósjoppuð, en það er ekki hægt að lýsa fegurðinni sem er á Capri, nema með því að birta myndir og ég tók nóg af þeim, enda er ég alltaf jafn hrifin af fallegum trjám og blómum og sjónum, sem er eiginlega dökkgrænn og svo hreinn og tær.
Ég sleppti því að fara alla leið uppá Ana Capri, enda alveg nóg að vera svona hátt uppi á fjalli fyrir minn smekk, með mína lofthræðslu.
Það var á föstudegi þegar við vorum í Capri og var verið að undirbúa brúðkaup á einum matsölustaðanna og hvílíkt blómahaf, held að ég hafi aldrei séð jafnmargar Hortensíur og stærri blómvendi en þarna, eiginlega langaði mig að bíða eftir brúðkaupinu til að sjá þetta, miðað við skreytinguna var ég viss um að þarna væri konunglegt brúðkaup á ferðinni. Ekki færri en 35 manns voru á veröndinni að leggja á borð og skreyta garðinn. En ferðafélagarnir mínir yndislegu voru svangir og við ákváðum að fá okkur að borða ofarlega á eynni, við hafið til að njóta útsýnisins yfir til Ítalíu yfir til Campagnehéraðsins.
Ég set inn nokkrar myndir hérna, þar sem ég get ekki lýst Capri með nægilega fögrum lýsingarorðum og já ég fer aftur þangað.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)