Færsluflokkur: Ferðalög

Misóskemmtileg ferðalög.

Ég elska að ferðast eins og ég hef áður sagt, enda fannst mér ávallt vanta ferðapistla og þess vegna fór ég  m.a. að blogga um ferðalög. 

En ekki er alltaf jafn gaman að ferðast, oft þarf ekki mikið að bregða útaf til að ferðin breytist í hálfgerða martröð og maður vildi óska að aldrei hefði verið farið af stað.

Ég fór eitt sinn með börnin mín lítil til Spánar, þar sem dóttir mín var aðeins 2 ára og strákurinn 4 ára. Fórum við í Tívolí eitt kvöldið, en þar sem strákurinn var búin að vera á útopnu allan daginn, þá sofnaði hann á matsölustaðnum, enda klukkan orðin 10 um kvöld þegar við mæltum okkur mót við Íslendingahópinn á tilteknum matsölustað.  Litla stelpan mín fékk hins vegar matareitrun og varð svo rosalega veik, að ég horfði á hana verslast upp fyrir framan mig og ekki hægt að flýta förinni heim. Í þá daga var bara flogið með leiguflugi út og svo fólkið sótt eftir ákveðinn tíma. En ég horfði þarna með brostið móðurhjarta á litla búttaða stelpukrakkann minn minnka og minnka og slappast og slappast. Við komum svo heim og þá lá hún í einangrun í 10 daga á LHS svo fárveik og ekki laust við að ég hugsaði, hvað er maður að flækjast útí heim í óvissuna með börn sem enga björg sér geta veitt.  Jesús hvað þetta var hræðilegur tími. En þetta fór nú vel og hún náði sér að fullu.

Ég lenti einnig í því einu sinni að veikjast illa í Búlgaríu og það var ekki gaman, en uppákomurnar sem því fylgdu voru drepfyndnar á köflum.

Búlgaría tilheyrði austantjaldslöndunum og þar voru höft og hömlur á öllu og spillingin eftir því, þú gast selt dollara á hverju götuhorni og einnig gastu keypt sem túristi í svokölluðum dollarabúðum, en ekki var eftir neinu að slægjast í búðunum sem almenningur gat verslað í.

Það var nú ýmislegt þarna í Búlgaríu sem kom manni "spánskt" fyrir sjónir eins og það athæfi að pakka bílunum sínum á kvöldin inní svona plast eins og við setjum grillin okkar í á haustin.  Einnig var alvanalegt að sjá fólk með rúðuþurrkur og loftnet, en það var tekið af þegar bílnum var lagt.

Þegar maður tók svo leigubíl, var hann gjarnan fylltur af Búlgörum og þeir keyrðir heim á okkar kostnað og mátti maður þakka fyrir að fá bara 5 í aftursætið hjá sér....enda segir orðatiltækið...þröngt mega sáttir sitja. 

Ég lenti svo í því sem sagt að veikjast illa og þurti að fara í sjúkrastofnun fyrir ferðamenn.  En til þess að komast þangað var einn vegur og inná hann var "innakstur bannaður" og þar stóðu löggur og rukkuðu sjúklinga  í sjúkrabílnum um einhverja dollara til að fá að komast að húsinu.  (Gott ég var með veskið)

Ekki tók betra við, þegar ákveðið var að senda mig til höfuðborgarinna Sofiu í sjúkrabílnum og viti menn. Hann stoppaði einnig fyrir farþegum sem var hlaðið útum allt í kringum mig, svo ég lá á endanum eins og rakvélablað uppá rönd, svo illa færi nú ekki um farþegana í kringum mig, svo stoppaði bílstjórinn og fékk sér bensín og jú jú það þurfti  líka að stoppa í sjoppu og svona. Ég hugsaði nú með mér hvort ég hefði tekið ferðasjúkrabíl, en ferðin tók loks enda.

Eftir sjúkrahúsdvölina varð ég að liggja á hótelinu fram að heimferð eða í 2 vikur og það reyndist einstaklega skemmtilegt, þar sem öll tækin í herberginu okkar voru biluð. þ.e. ísskápurinn, sjónvarpið, síminn, útvarpið og svo vantaði ljós á baðherbergið. Já einnig var lyftan biluð, en þetta var hótel fyrir eldra fólk sem kom til að baða sig í svartahafinu og var allt morandi í hjólastólum þarna, en sem sagt biluð lyfta. 

Nú tók við tími kvartana í lobbýið, ég þurfti síma, ég þurfti líka sjónvarp og útvarp og ljós á baðið, og ég vildi ekki hafa þennan kakkalakka á veggnum. Held að ég hafi nú ekki verið vinsæll gestur. Fékk þó allt lagað á endanum. Meira að segja var stuff í ísskápnum nýja. Hvítvín og allt.

Svo fékk ég heimsókn frá Íslendingum sem bjuggu á sama gangi og ég og þau sögðu farir sínar ekki sléttar, allt hafði verið í stakasta lagi hjá þeim í íbúðinni, en nú var allt ónýtt og meira að segja búið að taka ljósið og sturtuhengið á baðinu.

Ég bauð þeim uppá hvítvín sem hafði fylgt ísskápnum mínum. Sama hvítvín og hafði horfið með þeirra ísskáp. Skrítin tilviljun. 


Róm með mínum augum

Róm er sú borg sem allir þurfa að sjá einu sinni á ævinni eða þannig leið mér alla vega, þar til ég heimsótti Rómarborg hérna ekki alls fyrir löngu.  Ég fór ásamt góðum vinahópi mínum og þegar við komum til Rómar er eins og maður falli í einskonar trans. Það er allt svo menningarlegt og allt með svo mikilli sögu á bakvið sig að já eiginlega fellur maður í stafi.

Trevi

 

Ég verð þó að viðurkenna eftir að hafa haft mjög miklar væntingar til heimsóknarinnar, þá varð ég fyrir vonbrigðum með sumt. Eins og óþrifin í borginni, sem var fram úr hófi subbuleg á þessum tíma alla vega, en ég sá á 6 dögum 2 rottur inní miðri borginni og voru þær á stærð við ketti. Það setur að manni óhug að mæta svoleiðis kvikindum. Við vorum þó á 5 stjörnu hóteli (rotturnar vissu það greinilega ekki) en auðvitað getur maður alveg áttað sig á því að í stórborg er mikið rusl, en þessi siður að henda svörtum plastpokum út við gangstétt hlýtur að bjóða uppá  rottur og fleiri ófögnuð. Minnti mig eiginlega bara nokkuð á Napólí. Svo fannst mér líka sorglegt hvað allt var útkrotað öll grindverk í kringum þessi fallegu minnismerki og fallegu gosbrunna og já allar þessar minjar, voru ataðar í veggjakroti.

 En ég upplifði nú líka fegurðina í Róm, eins og Spænsku tröppurnar þær eru bara dásamlega fallegar allar fjólubláar og ævintýralegar, einmitt í maí þegar ég var stödd þarna, þegar allt var í blóma. Göturnar fyrir neðan spænsku tröppurnar eru einstaklega skemmtilegar og gaman að setjast á kaffihúsin og fá sér hvítvínsglas innan um bílana sem keyrðu alveg við bakið á manni, enda kaffihúsin með stólum alveg útað bílastæðunum. Mjög sjarmerandi fannst mér og svo vinalegt allt þar í kring, þó mikið sé um ferðamenn á þessum stöðum, er samt svo heimilislegt á þessum litlu kaffihúsum og veitingastöðum.

 

spanish steps

Við skoðum allt þetta helsta í Róm, eins og Colosseum, rústir og eiginlega allt annað markvert, nema Katakomburnar, þangað fær mig enginn niður, enda ekki nein fegurð þar að sjá, og bara ágætt að lesa um þær. Trevi gosbrunnurinn er ævintýralega flottur.

Vatikanið er náttúrulega ævintýri útaf fyrir sig og fórum við í gegnum það hópurinn, með íslenskum fararstjóra, en hún var bara svo samviskusöm og mjög svo fróð og skemmtileg, að hún sagði okkur frá hverju einasta teppi sem eru þarna í tugatali í röðum mjög falleg, en eftir svona 100 stk. já þá er bara komið nóg. Við nenntum því nú ekki alveg.

Við sáum okkur leik á borði, þar sem við sáum japanskan hóp ferðamanna, með einhverjum stressuðum leiðsögumanni sem skundaði í gegnum teppin og ákváðum að þennan vildum við elta.

Rétt náðum að kíkja í Sixtínsku kapelluna áðun en við stóðum allt í einu útá plani fyri utan Vatikanið, en við höfðum nú keypt ferð gegnum Péturskirkju, sem flestir aðrir í hópnum fóru að skoða, en á þessum tíma var verið að lagfæra kirkjuna og sillansar upp um allt, enda átti páfinn að messa daginn eftir svo allt var í vörðum og miklar varúðarráðstafanir allstaðar vegna messunar.

Péturskirkjan

 

Ég var alveg ánægð að setjast bara niður og fá mér hvítvín, meðan hópurinn skoðaði stillansana í Péturskirkjunni, enda ein kirkja á Ítalíu alveg nóg og  manni finnst maður hafa  séð þær allar,  það finnst mér alla vega. Finnst reyndar kirkjan í Milanó á Duomo alveg jafn falleg, þó ekki sé alveg að marka mig, þar sem ég fór ekki inní Péturskirkjuna sjálfa. 

Ég á eftir að fara aftur til Rómar þar er eitt sem er öruggt. 


Raunir ferðamannsins....

Ég er oft á flandrinu milli Íslands og Ítalíu og þar sem ekki er flogið beint þangað, nema yfir sumartímann þá þarf ég oftast að millilenda einhversstaðar og taka vél áfram til Mílanó.

Ég var að fljúga út sl.vor með einu lággjaldaflugfélaginu til Stansted í London, og var með 21.5 kg. en leyfileg þyngd er 20 kg, en þar sem handfarangurinn minn var ekki nema brot af því sem leyfilegt er, vonaðist ég til að sleppa við yfirvigt, en NEI! Það jafnast ekki út!

Þar sem ég fann pirringinn hjá stúlkunni við innritunarborðið vaxa við þessa fyrirspurn mína, þá ákvað ég bara að flytja þetta 1 og hálfa kg. yfir í handfarangurinn, en já það má ekki taka krem og ég var með slatta af sólarvörn sem vógu alveg slatta, en tók svo á endanum 1 hælaskó, hinn var fullur af kremum og svo tók ég þunga lopapeysu dótturinnar sem hafði gleymst á Íslandi og hélt á þessu í gegnum tollinn, og auðvitað var ég stoppuð. Af hverju ertu bara með 1 stk.hælaskó spurði tollarinn? "nú þessi skór bjargaði mér frá því að greiða yfirvigt svo ég tók hann bara með í handfarangrinum" svaraði ég (smá hrædd, gæti skór flokkast sem morðvopn?, ég mundi ekki afbera að missa þennan skó)

Luggage1

 

 Ok slapp í gegn á Keflavík en Gatwik...já þar gegndi öðru máli. Ég þurfti að umraða þar, því þú ferð ekki með nema eina tösku í gegn og hún er merkt með RAUÐU og reyndar ert þú líka rauðmerkt sjálf á "boardingpassanum" og það standa verðir sem fylgja því eftir að þú sért með 1 tösku og ekkert annað.

En þú mátt vera í fötum, sem og ég gerð, en það var frekar kalt á Íslandi, þannig að ég var í peysu og kápu, en nú þurfti ég að fara í lopapeysuna sem var sem smurð á mig, þar sem dóttirin er nokkrum (lesist mörgum) kg. léttari en ég, en ég hafði líka pakkað hælaskónum niður, því mér finnst ekkert smart að ferðast með sundrað skópar. (sem gætu einnig flokkast undir morðvopn). Ég þurfti í staðinn að taka jakka dótturinnar (sem smellpassaði EKKI) Ég gekk í gegnum tollinn eins og útbólginn Michelinkarl í frauðplasti og það lak af mér sviti og ég hafði þurft að troða veskinu í litlu handfarangurstöskuna (only one luggage) karlinn með röntgenaugun sá sem fylgdist með rauðmerkta fólkinu sem sagt "okkur lágfargjaldaliðinu".

michelin-man

 

 Það var því frekar sveitt, örlítið pirruð kona sem tróð sér leið gegnum þrönga ganga flugvélarinnar eldrauð í framan. Reif uppúr vösum blöð og bók (sem rauðmiðaeftirlitsgaurinn hafði sagt mér að henda) ég hlýddi ekki. Ég fyllti svo 2 box yfir farþegasætunum, með peysum og jökkum og svona allskonar dóti sem ég hreinsaði af mér. Úff hvað mér var heitt, en pantaði mér samloku og hvítvín, og las grein í nýkeyptu blaði sem fjallaði um að ákveðið lággjaldaflugfélag, hvers ég var að ferðast með, hefðu orðið uppvísir að því að hirða heilan gám af útrunnum samlokum og nota um borð. Úff hvað mér varð óglatt!!!!!!!


Mílanó hin frábæra

Ég fæ aldrei nóg af Mílanó. Borgin er í senn lifandi og hávær, en samt alveg hæfilega stór. Navigli er staður sem liggur meðfram síkjum sem eru 5 talsins, það stærsta er Naviglio Grande og Naviglio Pavese er þar rétt hjá. Þarna eru sölumenn frá öllum þjóðum að selja glingur bæði á daginn og kvöldin. 

navigli_1113782.jpg

Allt lifnar við um 6 á kvöldin og er iðandi langt fram á nótt. Þar kemur fólk saman og fær sér aperitivo sem er sérstaklega vinsælt meðal ungs fólks, sem labbar gjarnan á milli staða og fær sér drykk og pizzur á einum stað  (en matur er innifalinn með drykkjum til klukkan 22:00) og á næsta bar er það kannski sushi og eitthvað allt annað á þeim þriðja. Mikið um að hópar hittist og fái sér aperitivo eftir vinnu og vinir hittast og fá sér að borða með kokteilnum sínum áður en farið er heim til að borða kvöldmat. 

 nvaiglio_grande.jpg

Námsmennirnir halda sig nú frekar á Colonne, en þar færðu drykk í plastglasi á spottprís, og svo er labbað á Colonne torgið og fundið sæti þar. Þannig er stanslaus straumur á þessu torgi af ungu fólki sem flandrar á milli og kaupir drykki. Hinir sem fá sér sæti, borga meira og fá þá einnig mat með, eða apertivo til klukkan tíu. Ísbúðirnar eru ekki síður vinsælar hjá ítölunum, þangað fara unglingarnir saman í hópum og einnig er farið á stefnumót í ísbúðunum. Alveg frábær siður finnst mér og gerir borgina svo líflega og skemmtilega á kvöldin.  Ef fótboltaleikur er í gangi þá eru barirnir kyrfilega merktir AC Milan eða Inter Milan og þú vilt ekkert villast á rangan bar, nema vera réttu megin liðsins.

devil.jpg

Nokkrir skemmtilegir matsölustaðir eru einnig á Colonne, verðið er hóflegt á þeim öllum, enda er  þetta er svona frekar staður fyrir yngri kynslóðina. Minn uppáhaldsstaður er Trattoria Toscana þar og fleiri staðir allt í kring eru æðislega skemmtilegir og yndislegt að sitja úti og horfa á lífið.

 

Svo er hægt að fara á Armani Cafe eða Just Cavalli og fá sér apertivo sem kostar alla vega þrefalt meira en á Colonne. Fer bara eftir smekk hvers og eins.

 

 


Feneyjar/drottning Adríahafsins/eða sökkvandi borgin?

Feneyjar eyjaklasinn norðanlega á austurströnd Ítalíu, eru ofmetnar að mínu mati, eða alla vega þegar ég var stödd þar í júlí í 40 stiga hita, þá fannst mér nú ekkert rosalega sjarmerandi við þennan stað. Feneyjar eru reistar á mörgum hólmum og er helsti ferðamáti fólksins á bátum enda síki í stað gatna víðast hvar.

gondola.jpg Gondólarnir eru  vinsæll ferðamáti fyrir túrista og þá ekki síður fyrir brúðhjón, en þeir eru rándýrir og kostar um 100 evrur að fara í hálftíma ferð með ræðara. 

Ekki finnst mér nú neitt svo rómantískt við þessa báta eftir að leiðsögumaðurinn okkar sagði frá því að ein margra sögusagna um gondólana væri sú að þeir hefðu verið notaðir sem nokkurskonar líkkistur um árið 1600 þegar plágan geisaði og það væri ástæðan fyrir svarta litnum og lögun bátanna, sem eru breiðari í annan endann, til að hægt væri að stafla líkum um borð.  Það var svo árið 1633 að bannað var mála þá í litum og þar sem tjaran var vatnsheld, þá voru þeir bara tjargaðir svartir og héldust þannig fram á daginn í dag. Ég sá alla vega ekki neina aðra liti á gondólunum, þegar ég sigldi um sýkin.

 

 En sagan segir líka að Gondólar hefðu verið faratæki efnameiri fólksins í Feneyjum, sem klæddu sig upp fyrir ferðirnar til að sýna sig og sjá aðra og er mismikið lagt í innviði gondólanna, sumir flauelskæddir og gullskreyttir, meðan aðrir eru hráir að innan.

Nú Feneyjar eru náttúrulega ekki alveg ómögulegar, þó ég sé ekki eins heilluð af þeim og flestir virðast vera, en mér fannst ég bara vera að sigla á skítugum polli, og ræðarinn sem söng af innlifun, var nú svo sem krúttlegur og virtist ekki finna neina lykt, en sum síkin voru verri en önnur og stundum fannst mér ég vera að kafna þarna í þessum skítapolli í 40 stiga hitanum.

Markúsartorgið er þungamiðja eyjarinnar og er gaman að sitja þar og horfa á túristana í dúfnahópnum sískemmtilega og ekki verra ef maður er efnaður og getur leyft sér að borga 2000 ísl. krónur fyrir kaffibollann (reyndar árið 2008, þegar krónan var sem veikust).

san_marco_1.jpg

Mjög algengt er að sjá brúðhjón og hóp af veislugestum þarna á torginu á leið í gondólaflakk. 

Markúsarkirkjan er náttúrulega einhver sú fallegasta og frægasta kirkja heimsbyggðarinnar, enda hvelfingin úr gulli og er talið að um 600 ár hafi tekið að gera hana, en menn verða að þola vopnaleit og afhenda myndavélar, eins eru þeir með "dresskód" þú mátt ekki vera með berar axlir og karlmenn ekki vera í stuttbuxum. 

 

 

 

kvold_i_feneyjum.jpg

Feneyjar og Mestre eru tengdar saman með brú en í Mestre  eru mikið af  hótelum og verslunum og vöruhúsum og gaman að skoða þar ítalskan tískuvarning. Feneyjar eru frægir fyrir grímurnar sínar og finnst mérað menn eigi að láta það eftir sér  að kaupa sér eina slíka, enda vandaðar og mjög fallegar. Feneyjarkristallinn er líka ofsalega fallegur og hæglega hægt að gleyma sér fyrir framan gluggana á búðunum sem eru í röðum þarna.feneyjar_grima_1.jpg

 


Garda /lago di Garda

Gardavatn er stærsta stöðuvatn Ítalíu eða uþb. 370 ferkílómetrar og er staðsett milli Lombardihéraðsins og héraðsins sem liggur að Feneyjum og liggur norðurhluti þess innan um háa Alpanna, en Pósléttan umlykur syðsta hluta vatnsins.Gardavatnið

Vatnið er einstaklega fallega blátt og útsýnið mjög fjölbreytt eftir því hvar maður er staðsettur. Í vatninu eru nokkrar eyjur, sú stærsta heitir Isola del Garda, og síðan eru minni eyjur eins og Isola dell´Olivo (Ólífueyjan) og Isola dei Conigli eins og hún er kölluð (Kanínueyjan) ofl. litlar eyjur.

Ég fór til Soiano del Lago við Gardavatn, með dóttur minni sumarið 2006, þegar Heimsmeistarakeppnin í fótbolta stóð sem hæst. Við tókum lestina frá Milanó og er það tæplega klukkustundarferð í lest til Desenzano, sem er einn af fallegri bæjum sem ég hef komið til. Þaðan tókum við leigubíl uppí Soiano del Lago, sem er afar lítill bær með um 1500 íbúum, staðsettur í Brescia í Lombardihéraðinu.lake_garda.jpg

Ólífutré, Sedrusviður, pálmar og magnólíutré setja svip sinn á þetta svæði og aðkoman að hótelinu sem við gistum á sem heitir San Rocco, er í gegnum Ólífutrjálundi, þar sem allt var þakið í litlum netum meðfram vegum og göngustígum, enda var verið að tína ólífurnar af trjánum. 

san_rocco_sundl.jpg

Þarna á hótelinu var 5 stjörnu matsölustaður og var hann stækkaður verulega á föstudagskvöldum, þegar ítölsku fjölskyldurnar komu þangað með "family grande". Caprese salatið þarna smakkaðist einstaklega vel (einfalt og ferskt) og vínþjónninn valdi vín með hverjum rétt fyrir sig, fyrir okkur mæðgurnar og leið manni eins og maður væri eðalborin.san_rocco.jpg

.Olíur

Þetta frábæra íbúðarhótel sem við gistum á var rekið af móður og syni, en hann sá um rekstur hótelsins, sem minnti frekar á óðal, en mamman sá um framleiðslu á Ólífuolíu og sápum og öðrum afurðum ólífutrjánna. En þarna á lóðinni var lítil verksmiðja og verslun með ólífuolíu og ólífum og fleira sem þau framleiddu þarna fjölskyldan.

Við skelltum okkur inní litla bæinn daginn sem Ítalía var að spila og fundum lítinn bar eftir langa göngu, en engin strætó virtist ganga þarna og engir leigubílar voru heldur á svæðinu. Við fundum bar sem var reyndar sá eini í bænum og þar var stórt sjónvarp í garðinum og greinilega megnið af bæjarbúum mættir, en við vorum sennilega einu útlendingarnir þarna. En það var nú í góðu lagi, þar sem við héldum með Ítalíu. Að horfa á fótbolta með Ítölum er bara frábært, maður lendir inní einhverju andrúmslofti sem er svo töfrandi og óraunverulegt að það er eins og maður sé komin í annan heim. Allir klappa og garga og tala og steyta hnefann og rífast sín á milli yfir dómaranum og hinu liðinu sem EKKERT GETA....

 garda_hus.jpg

Þegar við báðum barþjóninn á staðnum að hringja á leigubíl, þá sagði hann okkur að það væru engir leigubílar þarna, en þar sem við höfðum haldið með Ítalíu, þá kallaði hann á einn gaur sem var þarna í rólegheitum að spila pool og skipaði honum að keyra þetta fólk heim á hótel, en viðskiptavinum er skutlað heim sagði hann...frekar vorum við hissa, en hrifnar að þurfa ekki að labba í myrkrinu, en það virðist sem þeir spari götuljós verulega á þessum slóðum.


Fiskihátíðin í Camogli (sagre del pesce)

Fiskihátíðin "Sagre del pesce" einnig kölluð "Feste del Mare" sem haldin er í maí ár hvert í Camogli, litlum bæ í nágrenni  Genóva, einnig kallaður "Fiskibær Ítölsku Riverunnar". Leiðin til Camogli frá Genóva er með ferju sem fer frá gömlu höfninni þar eða "Porto Antico".

Camogli

Ferðin ein og sér er algert ævintýri útaf fyrir sig, þar sem austurstönd Ítalíu er meira og minna eins og póstkort, svo falleg og hrikaleg og hver bærinn á fætur öðrum hangir í fjallinu hátt yfir flæðarmálinu, þannig að manni sundlar við það eitt að horfa á þá. (þ.e. við sem erum  lofthrædd)

Í Maí árið 2007 fórum við nemendur Tricolore skólans í Genóva á fiskihátíðina í Camogli. Þetta var svona tæplega klukkustundarferð með ferju en Camogli er rétt við hornið  á Portofino og er baðströnd eiginlega í miðjum bænum, eða upphafið að bænum eftir því hvernig á það er litið. 

Aðalgatan liggur niður að ströndinni, en meðfram götunni eru matsölustaðir í svona einskonar tröppugangi og yndislegt að sitja við opna gluggana, eða jafnvel heilu veggirnir eru úr gleri sem eru opnaðir út á vorin og síðan lokað á haustin sagði  þjónninn okkar.

camogli_portofino1.jpg Mikill erill og læti voru strax við bryggjuna þegar við stigum uppúr ferjunni, enda fer aðalfjörið að mestu leyti fram á þar, sölubásar og strákar að spila á hljóðfæri og lyktin sem tók á móti okkur var ef hægt er að orða það sem einhversskonar sítrónuilmandi  djúpsteikt sardínulykt, en þó fersk og ekki íþyngjandi, eins og maður gæti haldið er þegar verið er að steikja nokkur hundruð kg. af sardínum.  

Allir sem maður mætir eru  með kramarhús, eða litla bakka með sardínum, majónes og sítrónum og borða þær með fingrunum og ekki síður krakkarnir sem kunna greinilega að meta þetta.

sagradelpesce.jpg

Allir matsölustaðirnir bjóða eingöngu uppá fisk þennan dag, alla vega fundum við stöllurnar enga staði sem seldu pizzur eða nokkuð annað en skeljar og fisk þennan dag.

folk_a_bor_a.jpg

Það er varla fótandi fyrir fólki, hvaðanæva að úr nágrannabyggðum og bara fá Genóva voru ferjur á klukkustundarfresti þennan dag til Camogli.  Stórum pottum og stórum grillum eru haganlega komið fyrir undir tjöldum, eða undir berum himni og þar eru heilu fjölskyldurnar að steikja, grilla og afgreiða sjávarfangið og biðraðir eftir þessu góðgæti með fram allri bryggjunni.

Erfitt reyndist okkur að fá pláss til að setjast niður á,  þannig að við enduðum á baðströndinni á strandbarnum, þar sem við biðum eftir að mesta örtröðin gengi yfir og hægt væri að setjast við eitt af þessum skemmtilegu stöðum með útsýni yfir sjóinn og höfnina.

matur_camoglie.jpgskeljar.jpg

Biðin var þó vel þess virði, það var farið að rökkva og liturinn á bænum ævintýralegur eiginlega appelsínugulur  (sjá mynd) og  við fengum nokkra fiskrétti alla hver öðrum betri og skoluðum að sjálfsöðu þessu niður með víni hússins sem passaði einstaklega vel með sjávarfanginu. Saluta!

 sniglar.jpgstor_pottur.jpg


Ferðalög Ítalía 4/Milanó

Uppáhaldsborgin mín á Ítalíu er Mílanó, já kannski vegna þess að það er sú borg sem ég hef kynnst best, þar sem dóttir mín hefur búið þar undanfarin 4 ár.  Það er eitthvað svo notalegt þar, þó um stórborg sé að ræða þá er hún heillandi í mínum augum, auðvelt að ferðast milli staða. Ja nema ef um verkfall strætóbílstjóra og lestarstjóra sé að ræða, sem gerist ansi oft á föstudagseftirmiðdögum, en þá er ekki svo langt að labba heim, þar sem þetta eru ekki svo miklar vegalengdir þarna í miðborginni.

DuomoDuomotorgið þarna sem dóttir mín veður í "konfetti"  eftir Carnival í mars,(mér virðist alltaf vera einhverskonar Carnival í gangi, krakkar klæddir sem prinsessur og skógardýr) er skemmtilegt torg og alltaf fullt af lífi þar og einnig er sú fallegasta kirkja sem ég hef komið í Duomokirkjan staðsett á torginu.  Já mér finnst hún fallegri en Péturskirkjan í Róm og einnig Markúsarkirkjan í Feneyjum. Hún er hæfilega stór og alltaf finnst mer nú nauðsynlegt að koma þarna aðeins við í hvert sinn sem ég heimsæki Milanó

 duomomilano.jpg

Núna er tískuvika í Milanó og verið að sýna kvenfatatískuna fyrir 2012 og er þá eins og borgin fyllist af fallegu fólki, það er alveg frábært að sitja við Duomotorgið og fá sér kaffi eða hvítvínsglas, jafnvel þó það kosti þrefalt meira en í næstu götu, enda þjónarnir oft allt að því hanskaklæddir og í kjólfötum (það kostar líka að vera fínn) það er eins og maður sé á tískusýningu utandyra og keppist fólk um að vera sem best til fara, labbandi með Armani og Guccipokana sína frá San Babila að Duomo. 

Sætur strákurTrattoria

Skemmtilegasti matsölustaðurinn sem ég hef farið á er Trattoria Toscana, sem er við Corso Lodi, en þar er frábært að koma að hurð sem lætur lítið yfir sér frá götunni, en þegar inn er komið, labbar maður í gegnum eldhúsið (ætli íslenska heilbriðgiseftirlitið mundi samþykkja það) og þá er komin stærðarinnar matsalur sem er að hluta til undir glerlofti og að hluta til úti, og barinn er svo alveg undir beru lofti, með voldugum sófasettum og er þakinu þá rennt yfir ef rignir, en trén njóta sín vel þarna inni/úti.

Trattoria Toscana

Þarna er mjög vinsælt að fá sér aperitivi, sem er allsráðandi í Milanó milli 6-22 á kvöldin, en þá bjóða staðirnir uppá smárétti sem fylgja hverju keyptu glasi á staðnum.

Við höfum líka farið þarna að borða ef eitthvað skemmtilegt er um að vera, eins og þegar dóttir mín útskrifaðist úr IED sem gerir henni kleift að gera fólk smart fyrir myndatökur og tískusýningar og er hún nú önnum kafin við að "raða fólki rétt saman" hjá  CK sem hún vinnur hjá í Mílanó núna á tískuvikunni sennilega draumur allra stúlkna með tískuvit.

 

Buenos Aires er rosalega skemmtileg gata, alltaf fullt af sölukörlum og blómasölum og hægt að gera góð kaup hjá Kínversku skósölumönnunum, sem koma út úr Kínahverfinu sem ég mun gera skil síðar, en það er ótrúlegt að fara þangað og vera komin í allt annan heim inni í miðri Mílanóborg.

Buones Aries AnnaHérna var verið að hefja verslunarferð á Buenos Aries, en þar eru hæfilega stórar búðir eins og H&M. Mangó og Zara og Kikó snyrtivörubúðin sem er frábær og ekki spillir verðið fyrir, en þar sem þetta er ítölsk framleiðsla þá kostar allt svona 30% af því sem við íslensku konurnar þurfum að borga fyrir snyrtidót hérna heima.

Ég elska menninguna í Mílanó, Aperitivikúltúrinn og matinn og kvöldstemminguna sem er allsráðandi öll kvöld vikunnar og hvernig kúltúrinn er mismunandi eftir svæðum. En ég mun gera því skil síðar og segi bara Ciao tutti!!!

 


Ferðalög Ítalía 3/ Portofino

Þar sem ég ér stödd á markaði á miðju torginu í Santa Margherita, litlum bæ sem liggur á vesturstönd Ítalíu, Liguria ströndinni, sé ég hvað Roberto karlinn er að selja afurðir sínar innan um alla hina bændurna. Á torginu er skarkali og erill og ilmur í loftinu af nýjum ferskjum, appelsínum, sítrónum og kryddinu sem er í boði og ljúfir tónar berast um torgið þar sem rómantískur gítarspilari syngur og spilar fyrir viðstadda.

Sítrónur

Santa M. er bær sem er næsti bær við Portofino, ansi líflegur bær enda aðeins yngra fólk, en það sem sækir í Portofino, en þar er mikill fjöldi af amerískum ellilífeyrisþegum og eiginlega held ég að orðsporið sé meira en mér fannst í staðinn spunnið, ég heillaðist af stöðunum í kring miklu frekar. Allt óheyrilega dýrt og næstum þurfti kúlulán til að fá sér kaffibolla við höfnina þar.

Santa M.

Við vinkonurnar höfðum verið deginum áður á ströndinni  sem fylgdi með hótelinu okkar sem var staðsett við höfnina í S.M. en þar hittum við fyrir þennan sama Roberto sem sá um rekstur strandarinnar og úthlutaði bekkjum og handklæðum, eiginkonan sá um strandbarinn og matseldina, ásamt tengddætrunum, en synirnir voru nú svona meira í að leika sér við börnin á ströndinni.

 

Ég fór að fylgjast með þessari ítölsku fjölskyldu sem var alveg eins og ég hef alltaf talið mér trú um að ítalskar fjölskyldur væru. Mamman réði öllu og rak fólkið sitt til og frá, sendi tengdadætrunum illt auga, ef þær gleymdu sér í spjalli, en klappaði sonum sínum og tróð uppí börnin einhverju góðgæti og sendi þá út að leika.

Cozze

Hún bjó til eigið pasta og sótti sítrónur af næsta tré sem hún var með út um allt í  blómapottum. Heimagerð ólífuolía var að sjálfsögðu með og pastað með nýtíndum bláskeljum (pasta Cozze) var eitt það allra besta sem ég hef smakkað.  Auðvitað máttum við svo til með að prófa nýjustu afurðina þeirra sem var Limoncello, (sítrónulíkjör).  Allt á boðstólnum þarna virtist úr þeirra eigin garði eða beint frá framleiðanda, í þessu tilfelli fjölskyldu Robertos. "Vino di casa" var svo drukkið með þessu og ég er ekki frá því að þetta hafi verið ein ljúfasta máltíð sem ég hef smakkað.

Limoncello S.M. er er einstaklega fallegur bær og yndislegt að sitja á svölunum og horfa á snekkjurnar og unglingana sem koma uppúr 6 á morgnana (já menn vakna snemma!) að spúla og þrífa bátana fyrir eigendurna, sem skelltu sér í bæinn á meðan. Sjávarloftið blandað jasminilmi gerir það að verkum að maður vill ekki fara inn, gerir flest útivið, fær morgunmatinn uppá svalir (Prinsessur mega það!) borðum úti, og drekkum þessa fegurð í okkur fyrir allan peninginn.

Þó er mjög dýrt að vera þarna, enda árið 2007, þegar þessi ferð var farin (fyrir tíð smurðra samloka í nesti til utanlandsferða)


Bloggdólgar, flugdólgar og aðrir dólgar!!!

Vinkona mín spurði mig hvort ég ætlaði að verða næsti "bloggdólgur" hm hugsaði ég, því ég áttaði mig ekki alveg á því hvað það felur í sér að vera bloggdólgur, þekki fbdólgana með tilvitnanirnar í Oscar Wilde 5 sinnum á dag en varð þá hugsað til flugdólgsins sem ég var svo "heppin" að hafa í sæti fyrir aftan mig í 7 tíma ferð til Kaupmannahafnar, (já það var bilun og svona)

Handjárn

Ég var á ferð þangað til að fara með litlu fósturdóttur mína og frænku í Tívólí, en það voru verðlaun fyrir að standa sig vel í skólanum. Systur mínar nokkrar voru með í för og vinkona sem er mjög flughrædd. Þessi sem fer í frauðplasti inní vélina, búin að gleypa 3 róandi og skola þeim niður með bjór, situr með hvíta hnúana og heldur sætinu fyrir framan sig í gíslingu. En hún er mjög skemmtileg þegar á ferðina líður og er ekki neinum til vandræða, brosir og verslar bara svona í rólegheitum. (spennt í beltin og að sjálfsögðu með hjálminn á höfðinu)

Nú þegar við höfðum setið "spennt" í beltin á jörðu niðri í svona 2 tíma, og litla frænka mín var farin að ókyrrast hún vildi komast í tívolíið, þá var "skemmtikrafturinn" í sætinu fyrir aftan okkur orðin svo vel slompuð að hún var farin að syngja hástöfum, (kona á miðjum aldri með vinkonu sinni, sem var nú tekin að síga neðar og neðar í sætið). Flugfreyjan kom og bað hana að leggja líters Grand flöskuna  niður ekki væri heimilt að vera með vín, nema það sem selt væri um borð.

Það er sko svo léleg þjónusta "hédddna" sagði hún að maður verður að fá eitthvað við þessum "þosda" Vesalings ameríski maðurinn sem sat við hliðina á henni, bað ítrekað um að fá að standa bara, þar sem ekki var laust sæti í vélinni. Hún var komin svona kæruleysislega með volduga löppina yfir hann og hann varð eiginlega svona hálfgrænn í framan greyið.  Ekki öfundaði ég hann nú, þegar hún ákvað að taka upp "snakk" sem hún hafði keypt í fríhöfninni. Já "HÁKARLABOXIÐ" og sagði með hákarlabitann lafandi út úr sér, Vúddjúlækasjork? No? Grend Meiriner? No? Jú amerikens ar allalæk og svo kallaði hún yfir næstu sætisraðir, er ég kannski dóni að opna hákarlabox?

Já nú var hæglætisljúfmenninu með jafnaðargeðið mér (það segir vinkona mín alla vega) nóg boðið!.

"Já þú ert dóni og ógeðsleg lykt hérna og það hlýtur að  standa í  einhverjum flugreglum að hákarl sé bannvara um borð og ef þú hættir þessu ekki og lokar þessu boxi, þá læt ég setja á þig nálgunarbann og henda þér útá væng" hvæsti ég kurteisislega.

Hún var frekar móðguð yfir þessari óvægnu árás á sig, sem var bara aðeins að fá sér drykk og snakk, þá sjaldan menn lyfta sér upp.

Þannig að þá ákvað hún að verða flughrædd, hringdi stanslaust á flugþjóninn, (flugfreyjurnar voru allt í einu  uppteknar annarsstaðar) og sagði hvenær hröpum við??? Viltu ekki blað að lesa sagði flugþjónninn elskulega? "Nei ætla ekki að vera öll í prentsvertu þegar við lendum í Atlandshafinu" og litla frænka mín spurði: "Erum við ekki í vitlausri flugvél, ég hélt að við ætluðum að lenda í Kaupmannahöfn?"

Vinkona mín (sú flughrædda) var nánast búin að brjóta sætisbakið fyrir framan sig, af hræðslu, þegar hún heyrði þetta með hrapið. Náði í vestið undan sætinu (betra að vera við öllu búin) og bað mig að leita uppi björgunarbátinn, þar sem hún hreyfir sig ekki úr beltinu fyrr en vélin er að fullu stöðvuð. 

Flugdólgur

Sem betur fer týndist þessi "skemmtikraftur" við komuna til Kaupmannahafnar, en hún ranglaði í vitlausa röð og endaði í Svíþjóð, við sáum vinkonuna sem leitaði að henni út um allt með veskið hennar og síma.  Mér fannst það ekkert leiðinlegt.

Já svo er það "sjúklingadólgarnir" þessir sem liggja á bjöllunni, ætla að fá 1. flokks þjónustu og kvarta ef þeir lenda í herbergi með öðrum. Halda að þeir séu á "hótel Sanderson" Lenti í herbergi með svona "dólg" einu sinni, sem trylltist  ef ég setti sjónvarpið á (lágt stillt) en kveikti svo á fréttunum og ég er ekki frá því að ég hafi fengið gat á hljóðhimnuna við hávaðann. Dauðir hefðu risið upp! Gangastúlkan kom og gargaði hvort hann væri heyrnaskertur? Nei bara að yfirgnæfa hávaðann í henni hérna við hliðina sagði hann. Ég lagði frá mér prjónana, ákveðin í að valda ekki svona miklum hávaða framar.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband