Færsluflokkur: Ferðalög

Hefðir

Tilvonandi tengdasonur minn tilkynnti mér það um daginn að ég mætti ekki láta mér bregða, þó rúmlega 90 ára gömul amma hans kæmi öll svartklædd með svarta slæðu í brúðkaupið, sem haldið var sl. sumar. Ég hélt nú ekki að það mundi neitt skaða svartklæddsþenkjandi íslendinginn en spurði samt af hverju, þar sem ég er mjög forvitin um siðina þeirra á eyjunni. Mér finnst þeir svo gamaldags en þó svo sjarmerandi á sinn sérviskulega hátt. Nú sú gamla er ekkja svaraði tengdasonurinn. Það er nú eðlilegasti hlutur í heimi sú gamla að syrgja afa þinn og hvenær dó hann svo vildi ég vita. Það eru svona 10-12 ár síðan, en hún þarf að vera svartkædd allt sitt líf á mannamótum þar sem hún er ekkja. Ef hún giftir sig aftur (ekki líklegt þar sem hún er 90 ára) spurði ég. Nú þá getur hún verið villt og sett á sig litaða slæðu, en annars erum við alls ekki ströng með þessar hefðir hérna í bænum eins og inní miðri eyjunni, þar er farið eftir hefðum og engu breytt "ALDREI". 

Bróðir tilvonandi tengdasonar míns er að byggja hús ásamt kærustu sinni, þau eru búin að vera að byggja þetta á Sardenískum hraða og hefur byggingin tekið um 12 ár, þetta er reisulegt hús og hann ásamt föður sínum smíða á kvöldin eftir vinnu og um helgar. Þau búa í sitt hvoru lagi eða bæði í foreldrahúsum, þó komin séu vel á fertugsaldurinn. Þó er mamman ein taugahrúa, þar sem flutningur litla sonarins nálgast óðfluga eða væntanlega á þessu ári eða því næsta.  Ég velti upp þeirri spurningu af hverju hún hjálpaði ekki til kærastan og borgaði bara á móti honum, svo þau gætu nú flutt fyrir fimmtugt. Nei nei það er ekki hefð fyrir því. Konurnar koma ekki nálægt sjálfu húsinu, en þær hins vegar kaupa innbúið og eldhúsinnréttinguna. Ég benti á hið augljósa að við hugsanlegan skilnað þá fengi hún þá allt innbú og hann situr eftir með húsið. Nei nei þau skilja ekki, það er ekki hefð fyrir því. 


EM/ Ítalía gegn Belgíu leikurinn skoðaður í Pula

Við erum á leið á torgið í Pula að horfa á leikinn í kvöld þar sem Ítalía keppir á móti Belgum. Það er deyfð yfir öllu og allar verslanir virðast vera lokaðar. Klukkan er bara um 8 leytið og klukkustund í að leikurinn hefjist, en við eigum pantað borð á torginu, þar sem risaskjáir gnæfa yfir öllu og eru víða eða allstaðar þar sem borð og stólar eru þar er skjár.

Ég spurði af hverju allt væri lokað og fékk svarið að sjálfsögðu ætluðu allir að horfa á leikinn og þess vegna lokuðu þeir snemma. Ég ætlaði nú bara að koma við í apótekinu á leið í baæinn, alltaf gott að eiga smá Ibufen í farteskinu, en þeir voru búnir að loka og höfðu reyndar skrifa á hurðina: Lokað í bili komum aftur! já gott að vita að þeir komi aftur en verður það í dag eða í vikunni? 

Þegar á aðaltorgið í bænum er komið er allt að verða fullt fyrir framan risaskjáinn, en þar hefur verið komið fyrir allmörgum stólaröðum til að allir sjái nú sem best.

Við eigum borð og setjumst og leikurinn fer rólega af stað. Pöntum okkur mat, en nýjasti uppáhaldsrétturinn minn er medium rare steikt kálfakjöt með Parmesan og ruccola. Alveg frábær matur og panta ég hann við öll tækifæri sem ég get. 

Þegar 1. markið kemur verður eins og sprenging eigi sér stað í litla friðsæla bænum Pula, það standa allir upp og garga eins og óðir væru, hvílík stemming, held ekki að hægt sé að upplifa svona stemmingu, nema vera í Frakklandi auðvitað. Hef upplifað svona stemmingu áður í Positano, þegar Ítalía var að keppa og skoruðu mark og allur bærinn trylltist. Nú  svo kom siðara markið og þakið lyftist af torginu eða réttara sagt trén fuku nánast upp vegna látanna í fólkinu það var sigur í loftinu og allir í stemmingu, barþjónninn okkar bauð uppá líkjör og ég pantaði Crema di limonchello, en það var uppselt enda staðurinn alveg pakkfullur, fékk þá kalt Irish coffee og já "muna að panta það ekki aftur" og þegar ég skilaði því þá sagði þjónninn you ask for Ice coffe you get icecoffee.... ok sorry...I don´t ask for Ice coffee again...en svo er Ísland og Portugal að keppa á morgun og þegar við löbbuðum heim eftir leikinn í kvöld með litla manninn okkar í kerrunni, þá stoppuðu 2 konur okkur ( en ekkert þykir sjálfsagðara en að stoppa fólk með börn og fá að kyssa fætur þeirra, það boðar víst gæfu) og spurðu þær hvaðan við værum og þegar við sögðumst vera frá Íslandi nú jú jú  þær ætla að fara á torgið og halda með Íslandi, það minnsta sem þær geta gert sögðu þær eftir að hafa kysst fæturnar á barnabarni mínu. Áfram Ísland!


Brúðkaupsundirbúningur í suðrinu taka 2.

Hérna á Sardeníu gengur allt mjög hægt fyrir sig og er það vægt til orða tekið. Titringur er komin í væntanleg brúðarhjón, þar sem ekki er allt komið á hreint varðandi brúðkaupið enda allir sem að málinu koma gáttaðir á þessum "rebel" brúðahjónum, að hafa bara hálft ár í giftingu. Hérna er fólk að undirbúa brúðkaup í nokkur ár, þeir eru gamaldags og hefðirnar halda sér. Kakan var smökkuð um daginn og þau sátt með hana. Já já gott mál sagði bakarinn hérna í Pula en þið þurfið að smakka 4 tegundir til viðbótar en þar sem þið eruð svo sein í þessu, þá fáið þið bara allar tegundirnar saman, komið annað kvöld og sækið þær. 4 minibrúðkaupstertur komu svo í stærðarinnar kassa. Þær voru allar góðar, allar svipaðar, en með þeim fylgdu innihaldslýsingar svo auðveldara væri að velja og jú það voru svona 3 ferðir farnar til að afhenda miðana með nöfnum á kökunum, en hann var með lokað eða með eitthvað gamalmenni í búðinni sem varla gat talað, hugsa að hún hljóti að hafa verið 104 ára+ örugglega langamma bakarans og hún neitaði að taka við miðunum.

Nú það þurfti að gera tilraunarblómaskreytingu líka. Það tók tíma, konan í búðinni var svo gáttuð á að þau vildu hafa rósir sem ilma ekki, en dóttir mín er með hrikalegt ofnæmi fyrir öllu slíku. Þá þurfti að tína út eitt og eitt blóm til að allir væru sáttir, þetta tók um 5 ferðir í blómabúðina, þurfti að ræða málin og svona og svo var farið með blómvöndinn á hótelið til að máta. Jú allt passaði bara svona líka glimrandi fínt. 

Þá er komið að hringagaurnum, 2 virkir dagar í brúðkaup og þeir ekki tilbúnir, en hann segir að sínir aðstoðamenn, séu bara svo vandvirkir og þau megi koma að máta á mánudaginn. Ef þeir eru ekki passlegir spurðu brúðhjónin tilvonandi smá hrædd? Nú þá græjum við það bara svaraði hringagaurinn, en það getur tekið tíma. Ha? kemur á óvart þau pöntuðu hringana fyrir 5 vikum, en kærastan hans var veik og hann bara var uppá spítala hjá henni, setti skilti og allt í gluggann um það, svo ekkert við því að gera. Held að við ætlum að fara að skoða "Neyðarhringa" á eftir.

Svona ganga þessir litlu hlutir fyrir sig, það þarf að mæta á staðinn, þar sem unga parið er að brjóta allar Sardenískar hefðir varðandi brúðkaupið og þá þarf nú að skýra mál sitt vel. Hérna er t.d. hefð "reglugerð" fyrir því að vígsluvottarnir í brúuðkaupinu eiga að borga hringana hvað svo sem þeir kosta (veit ekki með neyðarhringana) en með því að taka á þig þá ábyrgð að vera vígsluvottur þá kaupir þú hringana. Já og ég er vígsluvottur.


Langur hádegismatur...

Hérna á Sardeníu tekur allt sinn tíma, sérstaklega hádegismatur á sunnudegi. Ég ásamt dóttur og kærasta ákváðum að hafa "lunch" hérna sl. sunnudag enda búin að vera á öllum heimilum vina og fjölskyldu tilvonandi tengdasonar. Sardar eru afar gestrisnir og höfum við borðað heima hjá nánast hverjum vin og fjölskyldumeðlim þessa lágmark 8 rétti eða svo og svo telja þeir sér einnig skylt og með glöðu geði bjóða öllum vinkonum dótturinnar, sem og öllum sem koma hingað í brúðkaupið frá Íslandi og Spáni á okkar vegum, það er sem sagt á dagskránni næstu helgi. Já hérna mættu vinirnir 5 um 11 að morgni sunnudags og settu inn í ofn "mjólkursvínið" sitt góða og var einn yfir elduninni á því,(hinir til aðstoðar) en það er alger kúnst og sérviska við að henda því inní ofn og settur blautur pappír yfir heilann svo hann soðni bara og brennist ekki, en hann borða þeir sem eru að elda hann og slást um hverja örðu nánast. Takk kærlega en ég passaði á heilanum. En eitt svín er ekki nóg í svona "smálunch" nei fyrst voru grillaðar risarækjur í forrétt og ólífur fylltar með kryddlegni papriku og þá salami og ostar að sjálfsögðu. Ég frábað mig að hafa ostinn þeirra Casu Marzu á boðstólnum, enda er hann talinn einn af 17 hættulegustu fæðutegunum í heimi. Hann er þannig að þegar þú skerð lokið af honum, þá er hann morandi í lirfum, sem sumar hverjar klekjast út strax og breytast í gular flugur og fjúga oftast á viðkomandi sem er að borða meintan ost, þannig að ef þið sjáið fólk í gulum skyrtum á matsölustað, þá er ástæðan væntanlega sú að þeir séu að fá sér þennan gæða ost, þar sem þær skilja eftir sig gula bletti. Ég hef ekki húmor fyrir morandi fæðu, en skilst að þetta sé besti ostur í heimi að þeirra mati alla vega. Nú eftir forrétt eitt og tvö kom full skál af spaghetti Vongole eða hvítlauksspaghetti með litlum skeljum, græn olían úr garðinum hjá tilvonandi tengdó og steinselja, parmesan og frábært, það er ekki á þessa Sarda logið, þeir kunna að elda...Nú var komið að barnasvíninu búið að berja það allt að utan til að kanna hvort það væri rétt hljóð sem kom undan skorpunni og það var borið fram eitt og sér, en þar sem íslendingurinn vill hafa  rósmarínkartöflur og hvílaukssveppi og sósu með, þá gerði ég það bara og það fór vel í vinina.  Við sátum úti með kaffið og hið nauðsynlega myrto og limonchello og grappa og það var mikið spjallað hérna í garðinum og þeir fóru að tínast heim svona uppúr miðnætti félagarnir. Talandi um langan lunch!


Varist að fara inná rangan bar á Sardeníu

Síðustu helgi fórum við til Sarroch (heimabæjar tilvonandi tengdasonar) á matsölustað sem er í miklum metum hjá heimamönnum. Við áttum borð klukkan 9 um kvöldið og ætluðum að hitta félaga parsins unga. Vorum snemma á ferðinni og ákváðum að kíkja bara á barinn áður en við fengjum okkur að borða.  Beint á móti matsölustaðnum var þessi líka fíni barinn með stólum og borðum fyrir utan og ég sagði förum hingað. NEI ertu ekki í lagi sagði tengdasonurinn, þetta er ekki "MINN" bar. Hann rifjaði upp fyrir mér söguna af gamla manninum  sem situr fyrir framan barborð á næstum hverjum bar í Sardeníu, sem situr þar með epli og hníf og ef þú ert Sardi og kemur inná rangan bar þ.e. bar sem þú ert ekki fastagestur á, þá getur sá gamli tekið uppá því að flysja eplið og er með því að segja: "drekktu þennan eina bjór og hypjaðu þig svo, ef þú vilt ekki verða rúin innað skinni". Þeir eru ekki að  nota neitt of mikið af orðum og hef ég orðið gáttuð á því að komast að því hvað bendingar og hlutir þýða meira en orð. Einnig skaltu heilsa öllum með höfuðhnykk á barnum, þar sem þeir sem þar eru "eiga" þennan bar og líta svo á að þú sért að heimsækja þá (væntanlega þá hvern og einn fyrir sig).

Vinur okkar sagði okkur frá því, þegar við komum á "Rétta" barinn og frétti að ég hefði ætlað inná þennan bar að hann hefði farið inní mið Sardeníu þar sem gilda víst mun strangari barreglur. Þannig er að þar færðu ekki að borga þ.e.a.s. ef þú færð að drekka fyrir það fyrsta og ef þú færð að drekka, færðu ekkert endilega að fara heim, fyrr en formlegt leyfi er á það gefið.  Max þessi vinur okkar hafði sem sagt farið að hitta gamlan herfélaga sinn og spurði gamlan mann á bar í hans hverfi hvort hann kannaðist við Alfonso, "NEI" aldrei heyrt á hann minnst svaraði hann og allir aðrir á barnum sem báru við algeru þekkingarleysi. 

Max drakk sinn bjór og fór út, þar stóð ung kona og sagði ertu að leita að Alfonso? Já svaraði hann og benti hún honum á húsið beint á móti barnum og sagði: "hann býr þarna" Alfonso tók vel á móti Max vini sínum og bauð honum í kvöldmat ásamt foreldrum sínum, sem bjuggu í sama húsi. Faðirnn reyndist vera gamli maðurinn á barnum og sagði hann að hann hefði haldið að Max væri kannski ennþá í hernum og þeim líkaði ekki við hermenn, eða löggur og þar af ekkert að upplýsa um eitt eða neitt. Konur eru heldur ekki tíðir gestir á börum hér og mér finnst stundum eins og ég sé komin 50 ár aftur í tímann.

Max komst heim til sín eftir 4 daga og þá búin að hitta allt þorpið, borða með þeim og drekka, fékk ekki að borga krónu, þeir láta það ekki spyrjast um sig, en heldur ekki að fara heim fyrr en eftir sómasamlega kynningu.

Talandi um að skreppa í heimsókn

 


Markaðsdagur í Capoterra

Í dag var markaðsdagur í bænum Capoterra sem er næsti bær við Pula, þar sem við gistum og reyndar sami bær og meint brúðkaup dótturinnar mun fara fram eftir 10 daga.  Hérna yfir öllu liggur jasmínlyktin í loftinu, enda jasmíntrén í blóma og mikið búið að rigna undanfarnar 2 vikur svo allt er í blóma hérna. 

Jasmínlyktin blandaðist saman við sítrónu og lavanderlykt á markaðnum og var ys og þys á þar og húsmæðurnar að kaupa sér grænmeti, ávexti og krydd fyrir vikuna og ég get sagt að þar er ekkert handahóf á valinu, allt vegið og skoðað og metið og smakkað að lokum fyrir kaupin. Ég keypti uþb. 1 kg. af blóðappelsínum og var rukkuð um heil 99 cent ekki einu sinni evru, mér fannst varla taka því að borga það, sama var með laukknippið og steinseljuna, fékk fangið fullt af henni og skoða nú á fullu uppskriftir með steinselju. Blóðappelsínurnar eru svo safaríkar og sætar að það þarf 2 appelsínur í fullt glas af safa. Gaman að kaupa svona ferska ávexti og grænmeti það er svo ólíkt því sem við eigum að venjast vegna flutninga milli landa á þessum vandmeðfarna mat. 

Hérna í garðinum er heilt rósmaríntré, en ég leitaði í öllum pottum og beðum eftir einn rigningardag af rósmarín, hvarflaði ekki að mér að "barrtréð" sem var hérna væri rósmarín, en hvað veit maður svo sem, ég kaupi þetta í plastbakka dýrum dómum, hérna vex líka mynta og basilíka svo ég tali nú ekki um lavanderið sem allt angar af núna í bland við Jasmínluktina svo yndislegt er að sitja hérna  úti á verönd og lesa.

Ég fór sem sagt á markaðinn með það fyrir augum að kaupa mér strandhandklæði, þar sem hérna hefur verið 23 gráður og hitinn farið talsvert hærra suma dagana og sól á köflum og langaði mig á ströndina. Strandhandklæði núna spurði sölumaðurinn í handklæða og viskustykkjabásnum? Já sagði ég "Il sole" og benti honum á sólina. Nei það kemur ekki sumar fyrr en 1. júní, komdu þá sagði hann og renndi upp úlpunni sinni í 26 stiga hitanum. Ég fékk mér ís.


Brúðkaupsundirbúningur

Hérna hjá okkur á Sardeníu er dóttirin og tilvonandi tengdasonur á fullu í brúðkaupsundirbúningi og var í gær svona undirbúningsmatarkynning á matnum sem á boðstólnum verður í sjálfu brúðkaupinu. Við mættum á Hótel Saint Lucia í bænum Capoterra sem er næsti bær við Pula, lítill og sætur bær. Hótelstjórinn stelpa á sama aldri og dóttir mín, fór með okkur í gegnum alla réttina og þjónar og kokkar kepptust við að upplýsa okkur um innihald og framreiðslu. Held varla að ég hafi áður verið svona södd, en það er með ólíkindum hvað þessar ítölsku konur eru grannar m.v. þessa daglegu 8 rétti eða svo, sem hérna eru borðaðir.  Fyrst voru það forréttirnir sem verða boðnir fram hjá sundlauginni með fordrykknum, 6 réttir þar þurftum við að smakka.  Þá voru það forréttirnir sem verða á borðunum þegar inn er komið eftir athöfnina í garðinum, nokkrar ostategundir, parmaskinka og Salami þeirra Sarda sem er mjög sterk pylsa. Nú þá var komið að nokkrum pastaréttum, og þá var ég orðin södd, en lét mig hafa mjólkursvínið eins og þeir kalla litlu barnasvínin sem er þeirra eftirlæti. Það var frábært á bragðið og svo var það kaka og líkjör og þá kaffi og Limonchello og að sjálfsögðu var hvítvín og rauðvín með matnum. Ég reikna með að þurfa að hringja í Sjóklæðagerðina og biðja þá að sauma brúðarmóðurkjól með þessu áframhaldi, en þar sem ég skildi eftir smávegis af nokkrum pastaréttum, þá kom kokkurinn með angistarfullan svip og spurði mig hvort þetta væri vont. Nei nei molto bueno sagði ég og reyndi að skýra væntanlegt vaxtarlag mitt. Hann skildi mig ekki. Ég fékk ekstra mikið af svíninu, hann hefur ætlað að kanna hvort ég yrði svona ósvífin að leifa því líka. Sagði ekki orð við dótturina sem rétt bragaðaði á réttunum, enda alvön hafandi búið í landi pastaréttanna í 8 ár.

Daginn eftir fóru þau að panta hringana og höfðu reyndar sent hringasmiðnum myndir nokkru áður, en hann sagðist vilja hitta þau aftur og þau mundu þá borga 600 evrur inná hringana. Þau mættu og allt klappað og klárt en hann reyndist ekki vera með posa. Ekki málið sagði hann, skreppið þið bara í apótekið hérna á horninu og borgið honum 600 evrur. Já ég skil, sagði dóttir mín sem skildi alls ekki. Hvað átti hún að segja við apótekarann...ég er að kaupa hring hérna rétt hjá og ætla að borga hann hérna. Apótekarinn var greinilega vanur þessháttar sendingum og sagði ekkert mál, ég borga bara Alfonso og málið dautt.  Ekkert verið að flækja málið, þau spurðu hvort þau fengju kvittun fyrir Alfonso hringasalann. Nei nei alls ekki, ég borga honum bara seinna sagði apótekarinn. Núna eru þau að smakka tertu, ætli þau þurfi að fara á heilsugæsluna til að borga hana maður spyr sig?


1. maí gangan á Sardeníu til 4. maí.

Já 1. maí gangan eins og við þekkjum hana á Íslandi er ekki eins hérna á Sardeníu, en hún er ekki fyrir baráttu verkalýðsins, heldur er þetta 4. daga ganga til heiðurs San Efesio dýrðlings þeirra Sarda. Þeir ganga frá Cagliari þann 1. maí til Sarroch og þaðan til Pula og þá til Nora á ströndina sem heilagur Efesio var hálshöggvin árið 1652, þar sem hann neitaði að hætta krisnu trúboði. Hann var fangelsaður í Cagliari og farið með hann í skjóli nætur á ströndina í Nora svo ekki yrði uppþot af hans fylgjendum, sem skýrir gönguna þessa 4 daga.

Þann 1. maí fór ég í miðbæinn að skoða herlegheitin, aðra eins skrúðgöngu hef ég ekki séð, fleiri fleiri vagnar dregnir af skreyttum nautum fullir af fólki konum og börnum í gullskreyttum þjóðbúningi þeirra Sarda, vagnarnir yfirskreyttir með blómum og trjágreinum,allar götur skreyttar með slaufum skrýddum pálmablöðum og blóm meðfram allri leið dýrðlingsins auk þess sem litlir fánar eru strengdir yfir allar götur og svo ofan á þetta allt, henda þeir miklu magni af rósablöðum á götuna svo mjúkt sé nú fyrir hersinguna að ganga göturnar. Eftir nautunum koma svo prestar, djáknar og nunnur með talnaband í höndum ofan á fermingarvasaklútum, kyrjandi einhverjar bænir og þá síðast pólitíkusar og herforingjar úr hernum. 

Loksins kemur svo Heilagur Efesio í glervagni dregnum af mest skreyttu nautum sem ég hef séð. Ég var spennt, en viti menn kemur þessi drellifíni uppábúni gullskreytti plastkarl í glerbúri fullu af gullgjöfum, sem fólk hefur sett inn til hans til að öðlast betra líf, fá heilsu eða hvað það nú telur sig vanta. Ég fékk hláturskast, hann var eitthvað svo lítið fyrir mann að sjá þessi dýrðlingaplastkarl.images

Hérna er drukkið og borðað og dansað þessa 4 daga, en heilögum Efesio er skellt inn í skreyttar kirkjur yfir blánóttina.  Búðir eru svona opnar eftir hentugleika, en virðist þó ekki bundið við þessa 4 daga, þær eru opnar svona stundum, alltaf á morgnana. Svo loka þær bara svona nokkra tíma getur teygst á tímanum fram eftir kvöldi. Tónleikar voru haldnir hérna á torginu í tilefni dagsins og voru menn með börn sín fram eftir nóttu, bærinn var troðfullur af fólki, þegar ég fór heim um 3 leytið. Daginn eftir var svo búið að þrífa upp öll rósablöðin til þess eins að henda þeim á aftur, þegar skrúðgangan færi til baka.

 


Sendiboðinn skotinn

Hérna á Sardeníu er fólk ekki sett í flokka, það er ekkert aðhafst með fólk sem er lasið á geði, með AHDH eða bra skrítið fólk yfirhöfuð. Það tíðkast ekki hérna að gera neitt mál út af fólki sem á við geðræn vandamál að stríða, það er ekki sent til sálfræðings eða geðlæknis. Það hins vegar er margt spjallað á svona litlum stöðum og ég hef heyrt meira um fólk sem ég þekki ekki neitt heldur en ég veit um sumt af mínu eigin fólki. Óheppnasti gaurinn hérna er án efa Gino, hann á vin Roberto sem er frekar skrítinn, sá talar lítið vegna feimni, nema ef vera skyldi eftir nokkra áfenga drykki. Í vetur skelltu þeir sér til Bali á hótel og voru þreyttir eftir ferðina sem var löng, en ákváðu samt að fara í garðinn og skoða og skella sér aðeins í sólbað.  Á borðinu í garðinum var borð með drykkjum og Roberto spurði hvort þeir ættu að fá sér að drekka, en ekki alveg strax sagði Gino. Nú Roberto stóð upp og fór á salernið og fékk sér drykk í leiðinni, var ekkert að spyrja heldur tók hann með sér og þambaði. Nú hann fór nokkrar svona ferðir og tók sér alltaf drykk í leiðinni, svo fór að Gino spurði hvort Roberto væri ekki til í að koma og athuga með þessa drykki. Nei ég er bara ekert þyrstur svaraði hann. Fljótlega sagðist Gino þreyttur og vildi fara upp að hvíla sig smá, alveg þyrstur fyrir allan peninginn. Daginn eftir sagðist Roberto ætla að fara á barinn og reyna að fá kaffi fyrir þá félaga með bendingum svo hann þyrfti ekki að tala. Það tókst ekki betur en svo að hann endaði á því að sitja á barnum til 1 um nóttina og kom haugfullur uppá herbergi, en hann hafði læst Gino inni á herberginu, þannig að Gino var sem sagt ekki búin að drekka eða borða í 2 daga.

Nú Gino á annan vin sem heitir Marco, sá á kærustu sem heitir Maria og sú var eitthvað að halda við giftan mann og kona þess gaurs hringdi í Gino, enda líka vinkona hans og spurði hann um málið, hann sór allt af sér og þóttist ekkert um málið vita. Bróðir hennar hringdi þá í Gino og hótaði honum lífláti og einnig Marco vinur hans var líka reiður honum fyrir að láta sig ekki vita um málið, eins og hann hefði verið með í þessu framhjáhaldi. Eina sem aumingja Gino hafði af sér gert er að fá sér drykk á barnum sem Maria var að vinna á sama kvöld og atburðurinn átti sér stað. Allt sem sagt gleymt um framhjáhaldið og það allt, en allir reiðir við Gino, sem átti að hafa sagt eða ekki sagt eitthvað við einhvern. Talandi um að skjóta sendiboðann. 

Sjálfur er Gino í sambandi við gifta konu frá Venezuela sem er búin að vera á leiðinni að skilja við manninn sinn sl. 9 ár, fyrst frestaði hún því, vegna þess að hún þurfti dvalarleyfi, nú svo fæddist barnið þeirra hjóna, svo var húsið sem Gino byggði fyrir hana ekki tilbúið, nú svo er það til, en þá á frænka hennar eflaust afmæli, svo já Gino er sennilega ekki heppnasti gaurinn á Sardeniu.


Hádegisverður að hætti ömmu Italia

Sarroch er bær tilvonandi tengdaonar míns hérna á Sardeníu en hann er í svona 6 km fjarlægð frá Pula og um 20 km frá höfuðborginni Cagliari. Sarroch er bær sem er við ströndina, en þar er reyndar olíuhreinsunarstöð sem nær yfir ströndina rúmlega hálfa en þetta er sögð haf verið með fallegri ströndum hérna á Sardeníu. Á árum áður áður en olíuhreinsunarstöðin var sett upp þá sáu þeir um alla peruframleiðslu fyrir eyjuna eða megnið af henni. Í dag þorir fólk ekki að borða ávextina, þar sem það er svo mikil mengun af olíustöðinni. Krabbameinsaukning síðan olíuhriensunarstöðin var sett í gang er sögð vera um 50%, en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það. Flestir íbúar Sarroch vinna við þessa stöð, sem og bróðurpartur íbúa næstu bæja í kring.

Mér var sem sagt boðið í mat í Sarroch til ömmu tengdasonarins tilvonandi, sem er 90 ára gömul, býr í stóru húsi með 2 íbúðum. Yngsta dóttirin býr í íbúðinni á efri hæðinni og sú gamla niðri, en þannig er að þegar eldri systkinin fluttu út, þá tók það næsta við og sú yngsta dagaði uppi þarna.

Nú það voru svona um 18 manns þarna, konur og börn og allir töluðu í kapp við hvert annað, við mig líka, þó ég sé nú ekki alveg talandi á ítölsku hvað þá Sardenísku, sem er alls ólík ítölskunni.  Fyrst var komið með lasagna og þar sem ég hef heyrt að þeir séu alltaf með nokkra rétti,bað ég um lítinn skammt og ég fékk svona uþb. heilt franskbrauð uppá gamla mátann með þessu og rauðvín að sjálfsögðu.  Þá kom sú gamla með kjötbollur og salat og ferska tómata á greinum og radísur, annað franskbrauð kom með því á hvern disk. Nú þá vippaði sú gamla sér að arninum, þar sem heilt lamb á teini grillaðist og náði hún bara í lambið á teininum og hóf að klippa það í sundur (það gera þeir hérna með kjötið klippa það allt í búta með skærum) Ég komst ekki hjá því að fá mér nokkra bita af kjöti, þeir voru einfaldlega settir á diskinn minn. Fransbrauðið var búið sem betur fer og þá voru það nokkrar tegundir af salati með kjötinu.  Kaffi og kökur kom sú gamla svo með stolt á svipinn  og þurfti ég að smakka nokkrar helstu kökur Sardeníu, þá skellti sú gamla sér í garðinn með stiga þrátt fyrir að vera rétt rúmlega málbandið á hæð og ekki virtist hún neitt heilsutæp þrátt fyrir alla mengunina í bænum og kom með nokkrar risaappelsínur og nesboli, sem er svona nokkurskonar ferskjur bara minni og sætari. Enginn fékk að hjálpa þeirri gömlu "hennar boð"  en hún heldur svona mismannmörg matarboð alla sunnudaga. Ég borðaði nú þetta allt sem fyrir mig var lagt, fyrir kurteisis sakir.Hrósaði matnum og fékk með mér heim stóran skammt af lasagna. Stóra spurningin er því sú: passa ég í brúðarmóðurkjólinn? Það kemur í ljós síðar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband