Pula á Sardeníu og dularfulli kindahópurinn.

Þar sem ég kem keyrandi út frá húsinu sem ég leigi hérna í Pula niður götuna á fína Audi bílaleigubílnum, bregður mér illilega, það kemur hópur af kindum á móti mér og virðast einar, en með einbeittan vilja að komast sem fyrst á leiðarenda.  Ég fraus við stýrið, enda ekki á hverjum degi að maður mæti svona kindahóp í miðjum bæ virtust einar og ég lokaði augunum og bað til guðs að þær mundu ekki skemma fína bílaleigubílinn. Það kom á daginn að þær voru ekki einar, það var hundur með þeim, já alveg heill hundur til að stýra öllum 50 kindunum og lömbunum á grasbalann sem var á milli hússins míns og götunnar, en þangað var för þeirra heitið. Þær röðuðu sér svo niður í beina línu og borðuðu blómin og grasið og eftir svona korter var þeim hóað saman (af hundinum) og yfirgáfu svæðið. Ég spurði Sardeníska tengdason minn hvað væri eiginlega í gangi og sagði hann að þetta væri eðlilegt og ástæða þess að ekki væri neinn smali eða maður með þeim væri sú að það væri ólöglegt að stela grasi og þeir vildu ekki verða teknir við þá iðju. Ég hitti svo strák sem er bóndi og hann sá þennan sama kindahóp í gær fyrir utan hjá mér og þekkti að sjálfsögðu hundinn og sagði mér að hann ætti í meiriháttar veseni með þessar kindur því eigandinn sigaði þeim einnig á hans land og lét sig svo hverfa á meðan, eins og þær hefðu bara tekið það uppá sitt einsdæmi að skondrast á hans landsvæði og fá sér að snæða.

Ég hélt að ég gæti ekki orðið meira undrandi, þar til ég mætti asna með kerru aftan í sér og unglingur í kerrunni. Fannst eins og ég væri komin langt aftur í aldir, og mun ekki vera á "flipflopsum" labbandi í bráð, þar sem göturnar eru allar í lambaskít og hestaskít eða allt þar til rignir, sem gerist einu sinni í mánuði eða svo. Hérna er einnig allt morandi í flækingshundum, sem liggja fyrir framan súpermarkaðinn og betla alveg hellingur af þeim. Annars er allt svo þrifalegt hérna, að ég hef nú trú á því að nágrannar mínir fari út með skóflu og kúst og þrífi þetta upp. Nú heyri ég í bjöllu og þær eru mættar aftur, og ég er farin að fylgjast með kindunum "mínum".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband