San Miguel de Salinas (eða SM bærinn við saltvötnin)

San Miquel er lítill bær sem stendur við saltvötnin sem sögð eru hafa lækningarmátt og ég trúi því einfaldlega þar sem ég finn mun á mér heilsufarslega eftir nokkra daga veru hérna. Saltvötnin eru frá því að vera allt að því grá og görótt út í blá og í sólinni eru þau bleik, oftast er nú sól svo þau eru bara bleiku vötnin og er yndislegt að horfa yfir þau og sjá saltfjöllin sem standa allt í kringum þau. Ég bý í þetta sinn á Kirkjutorginu og fyrir framan gluggann minn eru pálmartré svo ekki þarf málverk á veggina hérna. Við höfum verið að fylgjast með undirbúningi páskanna en fólkið sem tekur þátt í páskagöngunni byrjar að æfa gönguna og trumbusláttinn í febrúar og eru nokkur kvöld í viku sem ekki heyrist neitt nema trommusláttur og músík og finnst mér fróðlegt að fylgjast með þessu og sjá metnaðinn í fólkinu sem er allt frá börnum uppí aldraða karla.

Ég hef lagt komur mínar undanfarin ár hingað til San Miquel og á orðið mjög erfitt með að slíta mig frá þessum bæ, þar sem allt er svo rólegt og þægilegt. Í þessum litla bæ eru fjöldinn allur af veitingastöðum, kínverskur, inverskur, marrókanskur, enskur staður Mt. Street, ítalskur, norskir staðir, en Norðmenn eru búnir að yfirtaka litlu hellana hérna sem voru í eigu spánverja og hafa þeir hækkað verðið verulega á matseðlinum en þessir hellar Las Cuevas eru mjög sjarmerandi og gott að borða í þeim. Sjálfsögðu eru líka nokkrir spánskir frábærir staðir hérna.  Hérna kostar mjög lítið að borða úti og fær maður 3 rétta máltíð með vínflösku kaffi og desert á 14 evrur. Hérna er ódýrt að lifa og er fólk almennt að greiða um og undir 50 þús íslenskum krónum í húsaleigu.

Í dag miðvikudag er markaðsdagur í litla bænum mínum og er ys og þys og allar húsmæður bæjarins eru mættar til að kaupa inn fyrir heimilið og bærinn iðar af lífi og fjöri. Allir ávaxtabændurnir kalla hver í kapp við annan sín tilboð á þessu og hinu og reyna að bjóða betur en bóndinn við hliðina.

Það angar allur bærinn af kryddlykt og nokkrir eru að selja grillaða kjúklinga og er gott að kippa með sér einu stykki í lok markaðsferðarinnar. Sígauninn er á sínum stað með harmonikkuna sína og lætur litla reytta og skítuga hundinn sinn betla pening og ef maður gefur honum, þá dansar hundurinn fyrir mann en ekki virðist hann nú hamingjusamur greyið og eigandinn lætur hann heyra það ef hann dansar ekki nægilega lengi fyrir mann.

Á markaðnum er hægt að gera góð kaup og stundum finnst maður varla taka því að borga þegar maður hefur fyllt heilu pokana af ávöxtum og grænmeti og borgar nokkra hundraðkalla fyrir það. Svo er nú gott að geta sest  niður í enda götunnar eftir að hafa ráfað um markaðinn og fá sér kaffibolla og slaka á. 

Hérna í bænum er íslensk fasteignasala Zalt Properties og einnig íslensk snyrtistofa Fancy beuty saloon og þarf maður ekki að sækja neitt út fyrir bæinn. 

Ég er ástfanginn af þessum litla bæ og enda sjálfsagt hérna þegar ég verð stór eins og maður sagði þegar maður var "minni"


Það er ekki allt bara í fína í Kína!

Með veru minni í Kína í borginni Nantong lærði ég mikið sem kom mér á óvart flest allt jákvætt og virðist vera að það sé leið til að halda reglu og nokkurn veginn stjórn hérna í þessu stóra landi með allan þennan fólksfjölda. Bara á hátíðisdögum leggjast um 42 milljónir manna í ferðalög innan landsins og auðvitað þarf aga til að hafa stjórn á þessu öllu, þó sumt finnist manni skrítið eða hreinlega kjánalegt. Mér þótti til dæmis skrítið að þurfa að skrá mig inní landið á lögreglustöð til að fá að vera þarna í heimsókn og  innan 24 tíma eftir að ég lenti í Shanghæ. Það er þó gert til að staðsetja alla sem inní landið koma í hús og geta hótel verið ábyrgðarmenn fyrir viðkomandi, vinnuveitendur eða eins og í okkar tilfelli "vinur" eða bílstjórinn hans tengdasonar míns. Enginn er hérna í landinu án ábyrgðar.

Stundum gat ég ekki varist brosi þegar kínversku vinir okkar fullyrtu að allt væri einfaldlega best í Kína þrátt fyrir að hafa aldrei farið út fyrir landsteinana, þeir þurftu þess ekkert til að vita það að í Kína væri allt best, þeim er einfaldlega sagt það og það stendur.

Bílstjórinn sagði okkur líka ljóta sögu og harðbannaði okkur að fara í verslunarmiðstöðvar um helgar með litla prinsinn okkar, því að um 100 börn týndust reglulega um helgar þar sem þeim væri stolið og seld sem líffæragjafar. Sagði mikið svartamakraðsbrask með börn, það kom mér þó mikið á óvart þar sem kínverjar dýrka börn og litli okkar fékk aldrei frið, allir að strjúka honum og gefa honum eitthvað. Einnig harðbannaði hann mér að fara einni út eitt kvöld þegar ég ætlaði að kaupa ís handa litlu krökkunum sem voru í heimsókn, hann heimtaði að fara með mér. Ég þáði það nú ekki, enda hélt ég nú að ég gæti barið hvern þann kínverja sem reyndi að abbast uppá mig. Þetta var mér sagt og ég sel það ekki dýrara en ég keypti það en þetta kom þó frá heimamanni sem finnst allt best í Kína.

Bílamálin var líka eitt sem mér fannst nú í hálfgerðum ólestri, þrátt fyrir að flestir bílar séu orðnir rafmagnsbílar eða hybrid og heyrist því ekki mikið í umferðinni nema bílaflaut sem þeir nota held ég bara svona til að segja hæ! Þeir klippa gjarnan úr bílunum bílbeltin og ekki er um auðugan garð að gresja í barnabílastólamálum. Við þurftum að ferðast með litla gaurinn lausan í leigubílum, þegar við fórum milli staða og það var erfitt að venjast því, en þar sem við máttum ekki keyra og hefðum ekki getað það heldur þar sem öll skilti eru á kínversku svo við hefðum verið fljót að villast.  Við reyndum því að nota bílstjóra tengdasonarins sem mest við gátum enda við með okkar bílstól fyrir barnið þar.

Eitt fannst mér líka ekki gott að það virtust sem allar vörur væru útrunnar í öllum búðum og bara hending að fá vörur sem voru rétt nýútrunnar og vorum við alltaf fljót að kaupa upp lagerinn ef við fundum slíkar vörur. Ávextirnir þeirra og fiskur og kjöt var þó alltaf nýtt og ferskt. 

Ein sjónvarpsstöð CGTN (China global television network) sendi út á ensku og var mjög gaman að fylgjast með þar, þeir fluttu náttúrulega allt aðrar fréttir en við eigum að venjast og var einstaklega gaman að horfa á svona spjallþætti, en ef einhver hafði eitthvað miður gott að segja um Kína þá voru þáttarstjórnendur sem gjarnarn voru mjög svo röggsamir Helga Seljan týpur snöggir að þagga niður í viðkomandi. Aðallega var þó fjallað um uppbyggingu og það sem var vel gert og hver segir svo sem að það sé ekki bara gott.

Þetta var svona mín upplifun af því sem mér þótti ekki gott í Kína en landið er samt vel þess virði að heimsækja enda einstaklega fallegt land og ljúft fólk sem það byggir.

Kveðja frá Kína.


Síðustu dagar mínir í Kína.

Nú er farið að líða að lokum dvalar okkar í þetta skiptið hérna í Kína en við fengum bara visa til loka nóvember og þá verður maður nú að nota síðustu dagana vel. Mér finnst ég alls ekki hafa náð að gera allt sem ég ætlaði mér en tíminn hefur liðið einstaklega hratt en þar sem ágúst og september voru svo heitir að ólíft var að vera úti nema stutta stund í einu, þá var nú ekki gert mjög mikið þ.e.a.s. ekki skoðað mikið, aðallega farið í leigubíl í mall og labbað í loftkældu umhverfi og skoðað og verslað í matinn og svona ýmislegt. Það eru góð barnasvæði eru í öllum mallum svona heil hæð að jafnaði. Þetta er þó ólíkt því sem við þekkjum af svona barnasvæðum, þar sem boltaland og einhver tæki eru látin duga. Það er svo mikill hávaði á þessum hæðum enda spiluð krakkalög á fullu blasti út um allt og svona spilakassar út um allt fyrir börn (já ég var smá hissa).  Þetta er mjög flott aðstaða fyrir krakka og þar er bæði hægt að örva lestur og tækni fyrir börn og svo  eru sandkasar, rennubrautir,  bílar til að keyra, lestar keyra um gangana með lestarstjóra og sennilega er þetta bara draumastaður fyrir börnin. 

Alþjóðlegt mall í Nantong

Alþjóðlegu verslunarmiðstöðvarnar  eru miklu dýrari en þau kínversku þar sem þú færð jafnvel sömu fötin á 1/3 af verðinu sem þau kosta í alþjóðlegu verslunarmiðstöðunum. Kínversku mallin eru þó varasöm því þar er selt mjög mikið af allskonar dóti og skóm sem eru eftirlíkingar af merkjum sem við þekkjum t.d. New Balance íþróttaskórnir eru til hérna undir svona 10 nöfnum, New Balain, New Burlon, New Barain og fleiri skemmtilegum nöfnum, kosta 1500 Isk. en eru lélegar eftirlíkingar. Það er þó gaman að koma í Kínamallin þar sem það úir og grúir af öllu sem til er og hugurinn girnist, ódýrara gull og já bara allt á verði fyrir sjálfa Kínverjana. Getur verið smá erfitt að versla þar, þeir skilja ekki orð í neinu og spjalla bara á fullu við mann, en nota reiknivél til að sýna manni verðið. Hérna kaupir þú þér dúnúlpu á 2000 kr. já mjög vandaða dúnúlpu, þeir segja kannski 5000 en þá segir þú 1000 og færð hana svo á 2000. Nenni varla þessu prútti, en það er venjan og ef þú ert ekki "milli" eða villt bara hafa gaman af þessu, þá prúttar þú bara.

 

 


Vatnabærinn Xitang í Kína.

Það er nánast ekki hægt að sleppa Xitang ef maður er á slóðum þess, en Xitang er einskonar Feneyjar Kína en það er gamall vatnabær í um 140 km. fjarlægt frá Nantong í héraðinu Zhejiang og er erfitt að rata þangað, nema fyrir heimavana, enda held ég ekki að útlendingar megi eða geti keyrt í Kína, þar sem öll umferðarskiltin eru á kínversku svo ekki auðvelt  fyrir útlendinga að rata. Við keyrðum í gegnum endalausa hrísgrjónaakra að því er virtist og var gaman að sjá fólk bograndi með nauðsynlegu Kínastráhattana sína í sólinni. Leiðin lá í gegnum marga bæi, held ég megi segja sveitabæi, allavega var mikið af sölufólki við veginn að selja ávexti og grænmeti og hef ég aldrei smakkað sætari appelsínur en þarna, en þetta er víst svæði sem er frægt fyrir sætar appelsínur. Milli ávaxtasalanna og búða og verkstæða, héngu svo föt á snúrum út um allt, já heimilisþvottinum skellt á "Laugaveginn" svona bara til þerris. 

23798395_10159786769435624_2031135840_o

Þegar við komum til Xitang á hótelið okkar, þurftum við að kaupa okkur miða eða passa til að komast í sjálfa vatnaborgina, en það er hlið sem enginn sem ekki býr í borginni fer í gegn án miða en þú færð að fara 3 x á kr. 1500.- en getur farið óhindrað fyrir 11 á morgnana og eftir 5 á daginn. Vatnaborgin er mjög gömul og minnir um margt á Feneyjar, það er mikið um túrista þarna, kínverja aðallega, en við sáum þó nokkra evrópubúa.  Þarna eru göturnar mjög þröngar og þú ferð ekki hratt yfir, allt troðið af fólki allstaðar, allar brýr fullar af fólki að taka myndir, en síkin eru græn stundum og mjög falleg en ólíkt Feneyjum er ekki vond lykt þarna enda allt fullt af götusölum með grillaðan mat svo sem  rækjur, endur og sporðdreka og gott ef ég sá ekki köngulær líka, mjög stökkar. (sleppti þeim þó)

Þeir selja mjög falleg kínversk vönduð föt þarna, sem eingöngu eru til sölu þarna og er allt á yfirsprengdu verði en samt ódýrt, nema barirnir sem eru þeir allra flottustu sem ég hef séð, þar sem allt er mjög dýrt fyrir túrista en þeir eru svo framarlega í allri tækni að þú pantar þér bjór og léttvín eða kaffi með símanum og borgar með símanum, og þá færðu þetta á sama verði og gengur og gerist hérna almennt, við borgum hins vegar íslenskt verð nánast.

23825840_10159786770180624_693583475_o

Þar sem ég er með einsdæmum klígjugjörn þá gat ég eiginlega ekki borðað þarna, ég meina hvað ef ein stökksteikt könguló hefði nú óvart ruglast í minn mat, ok segjum bara að ég sé pempía. Borðaði einu sinni annarsstaðar en  á Mc donalds sem var þarna sem betur fer og þá fékk ég mér pizzu og hún smakkaðist eins og gúllassúpa og lét ég það duga sem matarsmakk í Xitang. Bragðlaukarnir þeirra eru mun öðruvísi en okkar, ég meina ísinn er búinn til úr rauðum baunum og smakkast eins og rauðar baunir og Durian ógeðisísinn smakkast eins og ég geti ýmindað mér að skítugir sokkar smakkist.

Sem sagt þetta var æðisleg upplifun, nema matarlega séð en kommon það er alveg rómantískt að sitja úti við síkin og borða ef maður er til í að láta borða sig líka af moskítóflugum, en það var ekki þverfótað fyrir þeim. Eins og ég segi alveg nauðsynlegt að fara þarna vegna fegurðar, vopnaður nesti og moskítósprayi og svona flugnahatti þá er maður góður.

Gusla chinagirl "hálfétin" en sæl kveður að sinni.

 


Sanya ströndin á Hainan

Við fjölskyldan skelltum okkur í frí yfir þjóðatíðarvikuna hérna í Kína til Hainan sem er eyja í um 3. klst flugferð frá Nantong.  Þó ekki sé langt á milli, þá er allt annað loftslag á eyjunni Hainan eða Hitabeltisloftslag og ofboðslega mikill og fallegur gróður þar, mun meira af pálmatrjám og synti maður undir kókospálmum með von í hjarta að fá ekki eina "hnetu" í hausinn. Hitinn er talsvert hærri eða um 3-5 gráður hærri en í Nantong en þar semdownload þetta er eyja þá sleppur það.

Við vorum á Sanya ströndinni á Marriott hóteli við flóa sem heitir Dadongabay og var það frábært val, með stórum herbergjum og stórum svölum, svo litli guttinn gat leikið sér óhindrað með nóg pláss. Þetta er sennilega fallegasti staður á jörðinni sem ég hef komið á alger paradís sjórinn grænn og blár til skiptis og fegurð allstaðar.

Við vorum svo heppin að það voru 3 stórar sundlaugar í garðinum og þar af ein sem var bara 20 cm djúp og var litli gaurinn okkar aðallega þar þegar við vorum úti og gargaði eiginlega af gleði, enda fullt af allskonar dóti á floti og gosbrunnar fyrir litla karla.

Við vorum eins og landafjandar fyrstu 2 dagana eins og íslendingum sæmir, sjá allt og gera allt, skelltum okkur í mall á 2. degi til að skoða það, en það heitir "Golden ananas" og er já gullin ananas, alveg einstaklega flott. Svo fórum við nú að slaka á og njóta þess sem hótelið hafði uppá að bjóða, en þar voru 5 veitingastaðir, Spa, barnasalur og Tropical garður sem náði frá hótelinu á annarri hæð út að fjallinu sem er á bak við hótelið.  Í fjallinu búa villtir friðaðir apar, sem gerðu sig heimakomna af og til, var fólk varað við að hafa svalahurðirnar sínar ekki opnar þ.e. þeir sem sneru að fjallinu þar sem þeir áttu til með að kíkja í heimsókn og hoppa í rúmum og borða snakk og vera með almennan usla bara, rifu og tættu herbergin á skömmum tíma. Þeir eru mjög forvitnir en stórhættulegir, sérstaklega þegar um lítið fólk er að ræða, á kvöldin í þessum Tropical garði var gjarnan grill á kvöldin, en þá voru þeir vomandi yfir svæðinu svo forvitnir og svangir og var heill flokkur að reyna að halda þeim frá og hafa aga yfir þessum apaköttum sem hlupu út um allt ruplandi mat og dóti frá gestum. 

Þetta er yndislegur staður til að hvíla sig algerlega frá öllum ys og þys en það er hávært í Kína, fólkið er eins og það sé allt úr minni fjölskyldu og rúmlega það og þá er nú mikið sagt.

Chinagirl over and out þar til næst!

útsýnið af svölunum okkar


Kína fyrir lengra komna.

Ég er alveg að falla fyrir  Kína, það er svo fallegt hérna, svo gott, hjálpsamt og brosmilt fólk, gott veður núna í október um 20 stiga hiti, allt svo skemmtilega öðruvísi en maður á að venjast. Kínverjar eru einstaklega gjafmildir en við héldum uppá 2 ára afmæli barnabarnsins og var vinnufélugum tengdasonarins og þeirra konum og börnum boðið. Þetta voru aðallega kínverjar og ítalir. Gjafirnar sem barnið fékk voru svo flottar að maður var eiginlega orðlaus og jú allir komu með gjafir handa foreldrunum líka.  Kínverjar eru forvitnir og  spjalla við mann jafnvel  þó þeir sjái að maður skilji ekkert, þá eru þeir bara svo vinalegir að maður þykist skilja þá og spyrja og spyrja og taka „selfies“ af sér og  barninu okkar en þeim virðist finnast hann vera einstakur (sem hann náttúrulega er).

Það er skemmtilegt að fylgjast með því þegar þeir hefja vinnu á daginn þá safnast allir saman fyrir framan vinnustaðinn, hvort sem það er búð eða matsölustaður og fara með einhverja hvatningarmöntru og síðan syngja þau eitthvað lag sem dásamar stjórnina, held ég alltaf sama lagið heyrist mér og að lokum dansa þau, þetta er einhver hefð sem hefur haldið sér í áranna rás. Þegar við spurðum tengdasoninn hvort þetta væri svona á hans vinnustað þá sagði hann svo vera, allir mæta saman og syngja og dansa og fara svo glaðir inní vinnudaginn nú eða ekki, þar sem þetta er ekki valkvætt, gaman fyrir íslendinginn að sjá þetta samt.  

Hérna er stutt í allar áttir í Nantong og eiginlega allt á sama svæðinu milli síkja og stutt að labba allt, en stundum er nú þægilegt að taka leigubíl heim  með þreyttan lítinn gaur.  Erum búin að finna okkur uppáhaldsmatsölustað sem er auðvitað ítalskur og er nánast ítalskur matur á borðum, ítölsk vín en maður verður að passa sig, kaupa t.d ekki pizzu með önd, hún er með sætri hvítri sósu (held það sé glassúr) Maður þarf auðvitað að laga sig að þeirra venjum, eins og að borða kvöldmat fyrir 8 ef maður ætlar að borða úti en flestir staðir loka 9 á kvöldin og við virðumst alltaf vera síðustu gestirnir allstaðar, þeir borða einnig hádegismatinn uppúr 11 svo ef maður kemur eftir hádegi, þá getur verið úr fáu að velja og oftast er manni einfaldlega vísað út, þeir fara heim klukkan 14:00 stundvíslega svo helltu í þig drykknum og úðaðu í þig matnum eða skildu það bara eftir  því þeir eru sko að LOKA og svo leggja þeir sig bara á staðnum og ef þú ert þessi dóni að vera rétt fyrir lokun og ekki búin að borga þá eru starsmenn í öllum sætum sofandi, þeir leggja sig eða grúfa sig yfir borðið og sofna milli vakta. Fyrst hélt ég að þetta væru rónar, já já fordómar, en við eigum þessu ekki að venjast frá Evrópu að starfsfólk leggi sig bara innan um viðskiptavinina og hrjóti.

Sem ég segi er mér farið að þykja vænt um Kína, upplifun sem kemur sjálfri mér á óvart miðað við þessa heimsálfu sem margt er líka ekki eins gott og vænt eins og við eigum að venjast, en meira um það síðar.

Over and out

China girl


Gullna vikan í Kína

Þjóðhátíðardagur Kína er 1. október og í kjölfarið á honum er svo vikan sem kölluð er "Golden week" eða Mid Autumn fest, en þá fagna kínverjar haustinu og því hægt sé að vera meira úti við vegna veðurs og þá er ég að tala um að veðrið hefur kólnað það mikið að hægt er að vera úti án mikilla aukaverkana. Fram að október kallar maður gott að komast í búðina og heim með hálfa eldhúsrúllu í vasanum til að þurrka svitann úr augunum, en í því er líka mikill sparnaður, ég hef ekki málað mig að neinu ráði síðan ég kom hingað, andlitslaus og sveitt hefur verið mitt einkenni hérna í Kína fram að þessu. Nú verður bragarbót á þessu og maður hættir að þurfa að vera stöðugt með regnhlífina sem sólhlíf með sér, en skjótt skiptast veður í lofti. 35 stig í lok september og svo 20 stig í dag.

Já þessa viku frá 1-8 október þar sem sunnudagurinn kom upp á eftir vikunni náðu kínverjarnir sér í einn aukadag, þá voru rúmlega 142 milljónir manna á faraldsfæti en þetta er kannski svolítið eins og þakkargjörðarhátíðin í Bandaríkjunum, allir sem vettlingi geta valdið fara heim í fagra dalinn sinn og njóta vikunnar með fjölskyldunni. 

Hérna var allt þrifið í borginni, en er hún nú mjög hrinleg fyrir og hengd upp þessi týpísku kínversku ljósker út um allt fyrir framan húsið okkar var líka sett nýtt sett af  blómakerjum  og ég held að ég geti lofað því að fánaframleiðslan í Kína hlýtur að gefa nokkrum þúsundum störf, því hver ljósastaur er með 2 kínverska fána. Þeir sprengja mikið af flugeldum eins og ég hef áður komið inná, en þessa vikuna byrja þeir fyrr svona uppúr 5 að morgni og eru að sprengja þetta með svona hálftíma millibili allan daginn fram á nótt.

Það er svona hátíðarstemming yfir öllum og í fyrsta sinn síðan ég kom heyrði ég í sírenu nokkrum sinnum, en þeir eiga það nú til eins og allar þjóðir að drekka yfir sig af hrísgrjónavíninu sem þeir panta sér með matnum. Á þessu tímabili eru borðaðar "mooncakes" sem eru líka gefnar þessa vikuna hvar sem maður fer, en það er ekki máltíð hérna þessa vikuna nema mánakakan sé í desert. Mia kínversk vinkona okkar fjölskyldunnar kom með heilan flauelisklæddan kassa með gylltum kassa inní undir gafflana og nokkrum mánakökum að gjöf til okkar. Ég mun ekki segja skoðun mína á þessum kökum, en held að durian ávöxturinn viðbjóðslegi hafi verið aðaluppistaðan í þessu flottu kökum.

Nú er sem sagt allt komið í sínar réttu skorður og bílflauturnar komnar á fullt aftur, en það er ekki vegna óþolinmæði hef ég komist að heldur vegna þess að það heyrist ekkert í bílunum og þá ekki vespunum eða mótorhjólunum eða hvað þetta nú er sem þeir notast við yfirbyggðir kassabílar og fleiri furðutæki.

Sem sagt allt í hinu fína frá Kína!


Nantong Kína

Hérna í Nantong erum við að byrja að fóta okkur betur og átta okkur á staðháttum og svona allskonar sem við vorum óviss með fyrst, hvað er í lagi að  borða, hvað má drekka og hvað er í lagi að gefa barninu að borða.

Kínverjar eru afskaplega brosmildir og glaðir svona almennt, brosa og klappa höndum yfir okkur útlendingunum, sem stingum hérna verulega í stúf við alla.  Hérna er allt mjög hreinlegt og hef ég ekki séð hundaskít síðan ég kom hingað, frekar en tyggjó eða drasl á götum. Hérna virðist vera hlutverk eldri kynslóðarinnar að sópa göturnar og er fólkið oftast með svona kínastráhatta til að forðast sólina og strákústa til að sópa göturnar.

Þeir eru strangheiðarlegir og reyni maður að gefa þjórfé fær maður það bara til baka eins og maður hafi einfaldlega gert mistök, nema stöku leigubíll. Það kostar svona frá 150 ísl. krónum að koma sér í bæinn með leigubíl og undir 500 kr. að koma sér í stærsta mallið sem er svona í 25 mín. fjarlægð hérna, svo leigubíll er farartækið okkar hérna í Kína.

Hitinn er nú að lækka aðeins og er komin niður í 25 gráður, rakinn er þó um 90% svo menn eru sveittir við leik og störf. Það sem mér þykir skrítið er að hvergi er hægt að setjast niður og fá sér hvítvín, bjór eða kaffi, það eru tedrykkjustaðir, og staðir með te og ávöxtum hrist saman, en hvergi er hægt að setjast niður og fá sér bara að drekka í mollum og slíkum stöðum. Verður maður bara að venja sig á að drekka te, gengur ekki vel hjá mér. Ætla nú samt ekki að gleyma Starbucs sem er í öllum verslunarmiðstöðum, en þar hef ég ekki haft heppnina með mér. Bað um ískaffi og fékk expresso með klaka og bað svo um kaffi með bragði, fékk te með passionbragði. Gott var það ekki, en venst ekki te eins og rauðvín bara? Læt ykkur vita.

Hérna í Nantong eru sprengdir flugeldar daglega og þegar ég spurðist fyrir um ástæðuna þá var mér sagt að þetta væri gert til að fagna.  Brúðkaup, afmæli, íbúðarskipti og breytt vinna eru sem sagt allt ástæður þess að flugeldar eru sprengdir upp svo í rúml. 7 millj. manna borginni Nantong er flugeldasýning frá morgni til kvölds. Skrýtið á morgnana en fallegt á kvöldin.


Það sem maður þarf að vara sig á í Kína

Það er margt mjög skrítið hérna í Kína og öðruvísi en við eigum að venjast, það er nánast ekki hægt að fara í búðir, það er nánast ráðist á mann með hjálpsemi reikna ég með, þar sem ég skil ekki neitt og svo eru teknar upp myndavélar og barnið myndað hægri vinstri og kallað á alla sem vinna í næstu deildum að koma og skoða fyrirbærið með stóru augun og fólk er ekkert að hika við að pota í hann og fikta í hárinu og fótunum hans. 

Hérna sér maður alveg 5-6 saman á mótorhjóli og mótorhjól með svo mikinn farangur að það sést ekki í ökumanninn og maður bíður bara eftir því að hjólið fari á hliðina, en þeir eru snjallir að halda þessu uppi og verður maður bara að passa sig að vera ekki fyrir, því annars er voðinn vís og ekkert heyrist í þessum hjólum þar sem þau eru öll rafknúin.

Hérna í Nantong virðist vera lítið um útlendinga og maður þarf að vera smá frekur og leyfa þeim ekki að pota í börn og mann sjálfan og taka myndir af manni og maður þarf að leysa upp hringinn sem þeir búa til í kringum mann óhræddur. Líka þegar þeir troðast fyrir framan mann og nánast henda manni útaf sporinu, þá þarf maður að láta heyra í sér. Þeir láta alltaf heyra í sér og bílamenningin hérna er stórkostlega hávaðasöm, en það er eins og þeir noti flautuna bara af því bara. Það er enginn að virða umferðarreglur hérna, svo maður verður að þjóta á milli bíla á grænu, því þeir "taka réttinn" ef einhver er.

Það er undantekning nánast að fá vörur sem eru ekki útrunnar hérna í Nantong alla vega, mér var nú bent á þetta af vinkonu sem sagði mér að passa uppá dagsetningarnar hérna og þegar ég fór að skoða var allt útrunnið í ísskápnum og öllum skápum, svo öllum ávaxtaskvísum barnsins var hent, hitt var prufað og síðan hent. Í búðinni í dag var verið að kynna þessar líka flottu lúxuspulsur, en já þær runnu út í feb. sl. ekki svo mjög gamlar en samt nógu aldraðar fyrir unna kjötvöru.

Vatnið er varasamt og skal ekki drekka það ósoðið og meira að segja er manni bent á að bursta ekki tennurnar úr vatninu. Einnig er sagt að ávextirnir séu varasamir vegna skordýraeiturs en ég nenni nú ekkki að hlusta á það, veit ekki betur en við kaupum frá Asíu allskonar ávexti, svo ég tek sjensinn. Læt ykkur vita ef ávöxtur verður mér að falli.


Byrjendamistök í Kína

Ég er að byrja að fóta mig hérna í Kína, margt öðruvísi og sérstaklega stafirnir hérna og verst að flestir matsölustaðir eru bara með matseðil á kínversku. Þannig var það í gær að við fórum á stað sem var með mjög girnilegan mat að sjá og við fórum inn og allt fullt af þjónustufólki í kringum okkur svona uþb.7 manns, en enginn þeirra talaði ensku svo það var mjög erfitt að panta vatn venjulegt vatn, þrátt fyrir listilega teikningu af vatni í flösku af minni hálfu fengum við volgt vatn í stáldollum, stórar flöskur af bjór og fullt fat af froskalöppum í hvítlauk, chili og engifer og smá lauk til að deyfa sterka bragðið, held ég hafi talið 20 hvítlauksrif. Þetta var allt í lagi á bragðið smá sterkt, þannig að stóri bjórinn kom sér vel, ekkert var nú vatnið hvort sem var.

þegar við komum út sáum við að það voru alla vega 2 styttur af froskum í súpermannbúningi fyrir utan staðinn og Mikka mús eyrun sem starfsfólkið var með hafa sennilega átt að vera froskaeyru, en þegar maður eru þreyttur og svangur tekur maður ekki eftir slíkum viðvörunum. Alla vega þá er ég búin að borða slatta af froskalöppum í Kína.

Kvöldmaturinn var líka mislukkaður í alla staði, en við keyptum súpu sem leit mjög vel út í pottinum hjá konunni hérna á horninu sem talar ensku, skilur kannski ekki allt, en talar smá. Þegar heim kom með súpuna þá var þetta sjávarréttatómatsúpa með heilum uggum og beinum og smokkfiski. Soðið var ágætt en ég sleppti uggunum og draslinu sem var í súpunni, með þessu borðuðum við "Vongole" klatta og innbakaðar sardínur eða einhverskonar fiskadínur litlar voru þær alla vega. Ég endaði kvöldið á því að panta mér frappucchino á Starbucs og fékk passiondrykk með graskeri og mango. Ég ætla að finna mér app sem þýðir frá ensku yfir á kínversku, nenni þessu rugli ekki meira.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband