16.8.2017 | 00:00
Kína fyrir byrjendur
Við lentum í Kínna um 7 leytið að staðartíma, eftir 16 tíma ferðalag, með stoppi í Frankfurt, þó við værum með lítinn tæplega 2 ára gaur með okkur gekk ferðin frábærlega vel og í 11 tíma flugi frá Frankfurt til Shanghæ var gaurinn til friðs enda með 4 sæti, lagði sig í nokkra klukkutíma og var svo bara eins og viðskiptajöfur á ferðalagi með sín 4 sæti heilan poka af flugvélamat og stuffi fyrir sig einann. Þegar við lentum tók á móti okkur hvílíkur hiti og raki og falleg rauð sól en það var eins og að stíga inn í gufubað þegar við stigum úr vélinni. Í móttökusalnum beið okkar bílstjóri sem sér um að aka manni dóttur minnar til og frá vinnu, en hann er að byggja olíuborpall rétt utan við Shanghæ. Áætlurnarstaður okkar var Nantong og bílstjórinn var ekkert að slóra get ég sagt, hann keyrði eins og kappakstursgaur og maður þurfti að halda sér í handföngin til að rúlla ekki út úr bílnum, svo talaði hann allan tímann um "sil Andalea and Yo Yo" sem við uppgötvuðum að var sr. Andrea and Giorgio sem er maður dóttur minnar og hans félagi. Íbúðin okkar er frábær á 2 hæðum loftkæld og rúmgóð í 20 hæða blokk og erum við á 9 hæð. Við þurftum að skrá okkur í hús hjá lögreglunni sama dag og við lentum, því annars er maður ólöglegur hérna, svo það var lítið skemmtilegt í hitanum eftir þetta ferðalag og í grenjandi rigningu fórum við með bílstjóranum knáa í það mál, það tók 2 tíma eða svo, ég sofnaði á staðnum. Hérna fyrir utan er allt fullt af matsölustöðum og ég hef aldrei séð jafnmikið af rafmagnsbílum og hjólum svo maður heyrir lítið sem ekkert í bílaumferð hérna, þó ekki sé þverfótað fyrir hjólum og bílum. Þeir leggja allstaðar svo þú gengur ekkert auðveldlega með kerru, enda er það eitthvað fyrirbæri hérna, enda börnin svo lítil að þau hanga bara á forledrum sínum eins og viðhengi, fólk kemur og skoðar kerruna og potar í litla gaurinn okkar alveg óspart og hlær og tekur video af honum, finnst hann sjálfsagt vera fullvaxinn, enda mjög stór m.v. kínversku börnin. Núna er mjög heitt í Nantong um 35 stiga hiti og mikill raki(alls ekki gott fyrir hár sem krullast í raka) og það er best að halda sig inni yfir miðjan daginn. Hérna hef ég ekki enn séð til sólar vegna mengunar og raka, en hitinn er samt alveg nægilegur þó ekki skíni sól á mann líka. Þetta verður spennandi að uppgötva Kína svona fyrir nýgræðing eins og mig. Hlakka til.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.5.2017 | 16:46
Meðferðarúrræðin á Íslandi
Ég birti þessa grein fyrir stuttu í Kvennablaðinu og ákvað að setja hana hérna á bloggið, þar sem von mín er sú að hún hugsanlega lendi hjá ráðamönnum þjóðarinnar og þeir átti sig á að þetta er EKKI í lagi að hafa ekki nægjanleg úrræði fyrir þá sem eru það veikir að þeir eru hratt og örugglega að drepa sig.
það er ekki það auðveldasta sem móðir gerir, að skrifa um það að eiga son sem er fíkill. Það er erfitt að horfa uppá eymdina og lifa hana á eigin skinni, full vanmáttar sem fylgir því að vera foreldri fíkils. Ég er bara svo sorgmædd yfir því að hann fái ekki þá hjálp sem hann þarf.
Í samfélaginu læknum við sjúklingana okkar og við sem fjölskylda viljum ekki horfa aðgerðarlaus uppá barnið okkar kveljast. Sonur minn er ekki illur maður segir Bubbi m.a. í texta í lagi sínu Syndir feðranna, ég tek undir það sonur minn er ekki illur maður, en hann er mikið veikur, gerir margt sem við samþykkjum ekki í þjóðfélaginu og þarf hjálp og jú vissulega hefur hann farið í meðferð inná Vog í yfir 20 skipti.
Nú eru væntanlega margir sem hugsa: Svona fólki er ekki viðbjargandi, en hann er sonur minn og ég elska hann eins og þið öll elskið ykkar börn, hann er bara mikið veikur og geti ég hjálpað mun ég gera það og geri mitt besta.
Vilji hans til að þiggja meðferð gefur manni samt von. Guð minn góður hvað það er samt erfitt að geta ekki hreyft legg eða lið til að koma honum inn á einhvern stað til að hann fái þá hjálp sem hann þarf.
Ég ætla ekki að tíunda í þessari grein það sem ég hef reynt í baráttu minni fyrir betra lífi fyrir hann en þó það að ég hef keyrt hann um nótt í fangageymslur og látið loka hann inni þar til að lögreglan gæti farið með hann á Vog, en þeir eiga þar pláss af og til fyrir einn aðila.
Ég hef farið með hann á Slysó (eins og við köllum það) og reynt að fá hann lagðann inná geðdeild, en hann var ekki í geðrofi og þar af leiðandi ekki innlagnarhæfur, en minnstu munaði að ég færi í geðrof af reiði yfir því hversu máttlaust þetta blessaða heilbrigðisbatterí okkar er. Þá nótt keyrði ég hann í Laugardalinn í tjald sem hann bjó í þá og það var ekki ljúf nótt hjá mér.
Núna er hann búin að vera á biðlista hjá Vogi síðan í janúar og það eru fimm mánuðir. Margir hljóta að hellast úr lestinni við þessa bið og hreinlega deyja, því eins og í tilfelli sonar míns, þá versnar ástandið sem hann býr við með degi hverjum. Hann er búin að vera á götunni núna í einhver tíma og staðan í dag er eftirfarandi: Hann er kominn með pláss innná Hlaðgerðarkoti, en þarf að afeitra sig í 10 daga áður.
Hvað er þá til ráða fyrir mann sem býr á götunni. Jú, hann biður mömmu sína um að afeitra sig.
Ég talaði við fagaðila, og mér var sagt að ég ætti að verða mér úti um eitthvað lyf sem heitir librium og afeitra bara krakkann. Já, já bara svona einhendis.
Mér þykir við ansi aftarlega á merinni með meðferðarúrræði að það sé lagt í hendur mæðranna að afeitra fárveika fíkla sem vita oft ekki í þennan heim eða annan.
Ég er enginn sérstakur nagli og langar ekkert að vera það, en ég get barist með kjafti og klóm og það ætla ég að gera. Ég er skelfingu lostin og finnst ég ekki ráða við þetta verkefni, er ein með hann hérna og hann hlýtur að fara að fara í fráhvörf.
Fagaðilinn sem ég talaði við benti mér á að fá librium hjá heimilislækni mínum, en það tekur minnst viku að ná símasambandi við heimilislækna í dag. Fer ég með hann á læknavaktina? Hringi ég á sjúkrabíl ef hann fer í hjartastopp og fær hann þá hjálp eða verður hann látinn bíða, þar sem hann er ekki í forgangi?
Ég hef horft uppá unga fíkla og fordómana sem þeir fá á LHS en eflaust bara frekar af hræðslu við þá, eða vanþekkingu, ég skil það vel, ég er alveg á þeim stað sjálf núna.
Þarf ég að vakta hann? Já, heldur betur, ég þori ekki út úr húsi og er eiginlega bara orðin fangi heima hjá mér. Ég treysti ekki langt gengnum fíkli í neyslu sem er fastur í líkama sonar míns og ég þekki ekki og veit ekki hvers er megnugur í þessari hörðu neyslu.
Mamman blindast alltaf mest, því hún sér bara litla ljóshærða soninn með englaásjónuna á koddanum, en ekki harðgerðann fíkil sem hefur gert hluti sem mömmur vilja hreint ekki vita af.
Ég veit raunverulega ekkert hvað ég geri í stöðunni ef hann fær kast eða hvernig sem hegðun hans kann að verða þegar fráhvörfin fara að birtast. Ég segi: Við verðum að efla þetta meðferðarbatterí okkar svo við missum ekki börnin okkar í gröfina fyrir aldur fram.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.4.2017 | 12:49
Þvegillinn svikuli!
Ég lenti í því í febrúar að þurfa að láta þrífa gang og þvottahús ásamt smáþrifum í eldhúsi og baði í íbúð foreldra minna, vegna sölu á henni eftir andlát þeirra. Við fjölskyldan höfðum gert okkar besta, enda alvanir "þrifarar" þar á ferð en þannig var að foreldrar okkar reyktu í íbúðinni, svo þetta var allmikið verk. Nú við gáfumst upp eftir 3 herbergi, stofu, og þá var gangurinn, hluti baðs og eldhúss eftir sem og þvottahúsið. Við fundum þessa líka flottu þjónustu á netinu hjá fyrirtæki sem heitir Þvegillinn og þetta væri nú ekki mikið mál, 20þús plús eða mínus, hugsanlega allt að 30 þús. gaf "þrifmaðurinn" okkur upp, nú við mættum og hleyptum honum inn og skruppum svo frá og komum síðar um daginn. Mikil urðu vonbrigði okkar við að sjá að brúnir taumar lágu niður alla veggi á ganginum. Hringdum í "þrifmanninn" og lofaði hann að koma aftur við en benti okkur þó á að honum þætti okkar þrif ekkert betri en sín. Við vorum ekki sammála og kom hann daginn eftir og við hleyptum honum inn fórum í eina búð og komum aftur á innan við hálftíma. Jú allir farnir, gólfið rennblautt og brotinn ljósakúpull í ganginum. Við þurrkuðum upp vatnið hringdum í manninn og spurðum um lokaverð, jú hann hafði verið 12 tíma (okkar tímatafla sagði 4 tíma) og verðið 30 þús. Svo kom reikningurinn og hljóðaði hann uppá 73þús. Við tóku nokkur kvalarfull og í meira lagi vandræðaleg símtöl við konu sem skellti á í annað hvort skipti, þegar við sögðum að "þrifmaðurinn" sjálfur hefði sagt hæsta lagi 30 þús. jú þetta var með vask og allskonar og miklu meiri þrif en til hafði staðið. Ég er mjög róleg að eðlisfari og hef unnið við innheimtumál í mörg ár, trúði ekki alveg systrum mínum, sem eru þó þokkalega kurteisar og stilltar. Hringdi í dag og fékk eftirfarandi svar frá "reiðu innheimtukonunni": "þetta er komið úr mínum höndum og komið í lögfræðiinnheimtu, en skal afturkalla ef þú borgar strax í dag". Ég sagði aumlega: "má ég segja þér þó eitt" "Reiða innheimtukonan":"NEI ég hef ekki áhuga á neinu sem þú hefur að segja." Ég benti henni á að ég væri þó viðskiptavinur, en henni var slétt sama, ég bað hana að ekki skella á mig, fyrr en ég væri búin að segja henni að ég ætlaði að skrifa um þetta, þá skellti hún á. Eftir sat ég titrandi og reiðari en nokkru sinni. Dró andann og taldi uppá milljón, en þar sem ég stend við það sem ég segi, öðruvísin en fyrirtækið Þvegillinn, þá skrifa ég þetta, ég hafði jú lofað henni því.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.1.2017 | 18:24
Nitra í Slóvakíu
Ég heimsótti Nitra í haust og tók næturflugið til Vínar og rútu frá Vín til Bratislava höfuðborg Slóvakíu og svo þaðan rúti til Nitra, sem er lítill bær, með um 80.000 íbúum. Fæstir þeirra tala ensku svo erfitt er að gera sig skiljanlega. Það eimir talsvert eftir af gamla tímanum í Nitra, ennþá svona eins og þeir séu með allar áhyggjur heimsins á herðum og fólk brosir helst ekki. Barir eru gjarnan niðurgrafnir undir borginni og engir gluggar og hægt að labba undir sennilega hálfa borgina. Ég fór þó ekki í nánari skoðun á börum, en það var bannað að spila músík opinberlega áður en austantjaldið féll og þeir halda sig við það ennþá. Bannað er að spila músík á kvöldin á almannafæri og það skýrir þessa bari sem eru neðanjarðar. Þar má spila músík. Að reyna að fá þjón til að afgreiða sig sem útlending í Nitra er ekki auðvelt, þú getur sest og svo koma þarlendir gestir á eftir þér, þeir fá matseðla og þeir fá mat og þeir fá að borga og enn bíður þú eftir að einhver dragi stutta stráið og verði sendur á "útlendingaborðið" og alltaf er það happa og glappa hvað þú færð að borða, þeir hafa matseðla á ensku, en skilja ekki sjálfir hvað á þeim stendur svo ef þeir fara línuvillt þá færðu bara slóvneska steik eða eitthvað. Maður pantar kannski hvítvínsglas og eitt rauðvínsglas og þjónninn segir brosandi Droubska one white wine and one white wine droubska??? No one white wine and one red wine.. aaa Ano Prosim, droubska droubska one white wine and one white wine....Yes yes akkúrat það sem við vildum fáum bara eitt hvítvín og svo bara annað hvítvínsglas, bara bæði betra, "Vdka" já já takk er Vdka og hljómar eins og vodka á slóvönsku. Tengdasonur minn vinnur um 40 km frá Nitra við að byggja kjarnorkuver, við ræturnar á hlíðinni sem kjarnorkuverið Mochovce liggur er lítill bær og á öllum götuhornum eru stórir póstar með risahátölurum, sem tilkynna bæjarbúum ef leki verður í verinu. Ég er ekki viss um að mér fyndist það nægilegt öryggi, enda skil ég ekki að byggja kjarnorkuver svona nærri byggðum. Ekki er hægt að fara til Slóvakíu án þess að fá sér önd eða gæs, en þeir eru með mikið úrval af fuglum þarna og er sá matur eins og reyndar allur matur á spottprís eða undir 500 krónum andarbringur í búð og heil önd vel undir 1000 krónum. Flestir matstaðir bjóða uppá önd og er það vel þess virði að prufa það í landi þeirra Slóvaka.
Ég segi bara "vdka" og Zbohom (bless, já mjög auðvelt mál)
Ferðalög | Breytt 16.1.2017 kl. 15:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.9.2016 | 21:01
Hefðir
Tilvonandi tengdasonur minn tilkynnti mér það um daginn að ég mætti ekki láta mér bregða, þó rúmlega 90 ára gömul amma hans kæmi öll svartklædd með svarta slæðu í brúðkaupið, sem haldið var sl. sumar. Ég hélt nú ekki að það mundi neitt skaða svartklæddsþenkjandi íslendinginn en spurði samt af hverju, þar sem ég er mjög forvitin um siðina þeirra á eyjunni. Mér finnst þeir svo gamaldags en þó svo sjarmerandi á sinn sérviskulega hátt. Nú sú gamla er ekkja svaraði tengdasonurinn. Það er nú eðlilegasti hlutur í heimi sú gamla að syrgja afa þinn og hvenær dó hann svo vildi ég vita. Það eru svona 10-12 ár síðan, en hún þarf að vera svartkædd allt sitt líf á mannamótum þar sem hún er ekkja. Ef hún giftir sig aftur (ekki líklegt þar sem hún er 90 ára) spurði ég. Nú þá getur hún verið villt og sett á sig litaða slæðu, en annars erum við alls ekki ströng með þessar hefðir hérna í bænum eins og inní miðri eyjunni, þar er farið eftir hefðum og engu breytt "ALDREI".
Bróðir tilvonandi tengdasonar míns er að byggja hús ásamt kærustu sinni, þau eru búin að vera að byggja þetta á Sardenískum hraða og hefur byggingin tekið um 12 ár, þetta er reisulegt hús og hann ásamt föður sínum smíða á kvöldin eftir vinnu og um helgar. Þau búa í sitt hvoru lagi eða bæði í foreldrahúsum, þó komin séu vel á fertugsaldurinn. Þó er mamman ein taugahrúa, þar sem flutningur litla sonarins nálgast óðfluga eða væntanlega á þessu ári eða því næsta. Ég velti upp þeirri spurningu af hverju hún hjálpaði ekki til kærastan og borgaði bara á móti honum, svo þau gætu nú flutt fyrir fimmtugt. Nei nei það er ekki hefð fyrir því. Konurnar koma ekki nálægt sjálfu húsinu, en þær hins vegar kaupa innbúið og eldhúsinnréttinguna. Ég benti á hið augljósa að við hugsanlegan skilnað þá fengi hún þá allt innbú og hann situr eftir með húsið. Nei nei þau skilja ekki, það er ekki hefð fyrir því.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.6.2016 | 23:18
EM/ Ítalía gegn Belgíu leikurinn skoðaður í Pula
Við erum á leið á torgið í Pula að horfa á leikinn í kvöld þar sem Ítalía keppir á móti Belgum. Það er deyfð yfir öllu og allar verslanir virðast vera lokaðar. Klukkan er bara um 8 leytið og klukkustund í að leikurinn hefjist, en við eigum pantað borð á torginu, þar sem risaskjáir gnæfa yfir öllu og eru víða eða allstaðar þar sem borð og stólar eru þar er skjár.
Ég spurði af hverju allt væri lokað og fékk svarið að sjálfsögðu ætluðu allir að horfa á leikinn og þess vegna lokuðu þeir snemma. Ég ætlaði nú bara að koma við í apótekinu á leið í baæinn, alltaf gott að eiga smá Ibufen í farteskinu, en þeir voru búnir að loka og höfðu reyndar skrifa á hurðina: Lokað í bili komum aftur! já gott að vita að þeir komi aftur en verður það í dag eða í vikunni?
Þegar á aðaltorgið í bænum er komið er allt að verða fullt fyrir framan risaskjáinn, en þar hefur verið komið fyrir allmörgum stólaröðum til að allir sjái nú sem best.
Við eigum borð og setjumst og leikurinn fer rólega af stað. Pöntum okkur mat, en nýjasti uppáhaldsrétturinn minn er medium rare steikt kálfakjöt með Parmesan og ruccola. Alveg frábær matur og panta ég hann við öll tækifæri sem ég get.
Þegar 1. markið kemur verður eins og sprenging eigi sér stað í litla friðsæla bænum Pula, það standa allir upp og garga eins og óðir væru, hvílík stemming, held ekki að hægt sé að upplifa svona stemmingu, nema vera í Frakklandi auðvitað. Hef upplifað svona stemmingu áður í Positano, þegar Ítalía var að keppa og skoruðu mark og allur bærinn trylltist. Nú svo kom siðara markið og þakið lyftist af torginu eða réttara sagt trén fuku nánast upp vegna látanna í fólkinu það var sigur í loftinu og allir í stemmingu, barþjónninn okkar bauð uppá líkjör og ég pantaði Crema di limonchello, en það var uppselt enda staðurinn alveg pakkfullur, fékk þá kalt Irish coffee og já "muna að panta það ekki aftur" og þegar ég skilaði því þá sagði þjónninn you ask for Ice coffe you get icecoffee.... ok sorry...I don´t ask for Ice coffee again...en svo er Ísland og Portugal að keppa á morgun og þegar við löbbuðum heim eftir leikinn í kvöld með litla manninn okkar í kerrunni, þá stoppuðu 2 konur okkur ( en ekkert þykir sjálfsagðara en að stoppa fólk með börn og fá að kyssa fætur þeirra, það boðar víst gæfu) og spurðu þær hvaðan við værum og þegar við sögðumst vera frá Íslandi nú jú jú þær ætla að fara á torgið og halda með Íslandi, það minnsta sem þær geta gert sögðu þær eftir að hafa kysst fæturnar á barnabarni mínu. Áfram Ísland!
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2016 | 08:25
Brúðkaupsundirbúningur í suðrinu taka 2.
Hérna á Sardeníu gengur allt mjög hægt fyrir sig og er það vægt til orða tekið. Titringur er komin í væntanleg brúðarhjón, þar sem ekki er allt komið á hreint varðandi brúðkaupið enda allir sem að málinu koma gáttaðir á þessum "rebel" brúðahjónum, að hafa bara hálft ár í giftingu. Hérna er fólk að undirbúa brúðkaup í nokkur ár, þeir eru gamaldags og hefðirnar halda sér. Kakan var smökkuð um daginn og þau sátt með hana. Já já gott mál sagði bakarinn hérna í Pula en þið þurfið að smakka 4 tegundir til viðbótar en þar sem þið eruð svo sein í þessu, þá fáið þið bara allar tegundirnar saman, komið annað kvöld og sækið þær. 4 minibrúðkaupstertur komu svo í stærðarinnar kassa. Þær voru allar góðar, allar svipaðar, en með þeim fylgdu innihaldslýsingar svo auðveldara væri að velja og jú það voru svona 3 ferðir farnar til að afhenda miðana með nöfnum á kökunum, en hann var með lokað eða með eitthvað gamalmenni í búðinni sem varla gat talað, hugsa að hún hljóti að hafa verið 104 ára+ örugglega langamma bakarans og hún neitaði að taka við miðunum.
Nú það þurfti að gera tilraunarblómaskreytingu líka. Það tók tíma, konan í búðinni var svo gáttuð á að þau vildu hafa rósir sem ilma ekki, en dóttir mín er með hrikalegt ofnæmi fyrir öllu slíku. Þá þurfti að tína út eitt og eitt blóm til að allir væru sáttir, þetta tók um 5 ferðir í blómabúðina, þurfti að ræða málin og svona og svo var farið með blómvöndinn á hótelið til að máta. Jú allt passaði bara svona líka glimrandi fínt.
Þá er komið að hringagaurnum, 2 virkir dagar í brúðkaup og þeir ekki tilbúnir, en hann segir að sínir aðstoðamenn, séu bara svo vandvirkir og þau megi koma að máta á mánudaginn. Ef þeir eru ekki passlegir spurðu brúðhjónin tilvonandi smá hrædd? Nú þá græjum við það bara svaraði hringagaurinn, en það getur tekið tíma. Ha? kemur á óvart þau pöntuðu hringana fyrir 5 vikum, en kærastan hans var veik og hann bara var uppá spítala hjá henni, setti skilti og allt í gluggann um það, svo ekkert við því að gera. Held að við ætlum að fara að skoða "Neyðarhringa" á eftir.
Svona ganga þessir litlu hlutir fyrir sig, það þarf að mæta á staðinn, þar sem unga parið er að brjóta allar Sardenískar hefðir varðandi brúðkaupið og þá þarf nú að skýra mál sitt vel. Hérna er t.d. hefð "reglugerð" fyrir því að vígsluvottarnir í brúuðkaupinu eiga að borga hringana hvað svo sem þeir kosta (veit ekki með neyðarhringana) en með því að taka á þig þá ábyrgð að vera vígsluvottur þá kaupir þú hringana. Já og ég er vígsluvottur.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 08:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2016 | 10:58
Langur hádegismatur...
Hérna á Sardeníu tekur allt sinn tíma, sérstaklega hádegismatur á sunnudegi. Ég ásamt dóttur og kærasta ákváðum að hafa "lunch" hérna sl. sunnudag enda búin að vera á öllum heimilum vina og fjölskyldu tilvonandi tengdasonar. Sardar eru afar gestrisnir og höfum við borðað heima hjá nánast hverjum vin og fjölskyldumeðlim þessa lágmark 8 rétti eða svo og svo telja þeir sér einnig skylt og með glöðu geði bjóða öllum vinkonum dótturinnar, sem og öllum sem koma hingað í brúðkaupið frá Íslandi og Spáni á okkar vegum, það er sem sagt á dagskránni næstu helgi. Já hérna mættu vinirnir 5 um 11 að morgni sunnudags og settu inn í ofn "mjólkursvínið" sitt góða og var einn yfir elduninni á því,(hinir til aðstoðar) en það er alger kúnst og sérviska við að henda því inní ofn og settur blautur pappír yfir heilann svo hann soðni bara og brennist ekki, en hann borða þeir sem eru að elda hann og slást um hverja örðu nánast. Takk kærlega en ég passaði á heilanum. En eitt svín er ekki nóg í svona "smálunch" nei fyrst voru grillaðar risarækjur í forrétt og ólífur fylltar með kryddlegni papriku og þá salami og ostar að sjálfsögðu. Ég frábað mig að hafa ostinn þeirra Casu Marzu á boðstólnum, enda er hann talinn einn af 17 hættulegustu fæðutegunum í heimi. Hann er þannig að þegar þú skerð lokið af honum, þá er hann morandi í lirfum, sem sumar hverjar klekjast út strax og breytast í gular flugur og fjúga oftast á viðkomandi sem er að borða meintan ost, þannig að ef þið sjáið fólk í gulum skyrtum á matsölustað, þá er ástæðan væntanlega sú að þeir séu að fá sér þennan gæða ost, þar sem þær skilja eftir sig gula bletti. Ég hef ekki húmor fyrir morandi fæðu, en skilst að þetta sé besti ostur í heimi að þeirra mati alla vega. Nú eftir forrétt eitt og tvö kom full skál af spaghetti Vongole eða hvítlauksspaghetti með litlum skeljum, græn olían úr garðinum hjá tilvonandi tengdó og steinselja, parmesan og frábært, það er ekki á þessa Sarda logið, þeir kunna að elda...Nú var komið að barnasvíninu búið að berja það allt að utan til að kanna hvort það væri rétt hljóð sem kom undan skorpunni og það var borið fram eitt og sér, en þar sem íslendingurinn vill hafa rósmarínkartöflur og hvílaukssveppi og sósu með, þá gerði ég það bara og það fór vel í vinina. Við sátum úti með kaffið og hið nauðsynlega myrto og limonchello og grappa og það var mikið spjallað hérna í garðinum og þeir fóru að tínast heim svona uppúr miðnætti félagarnir. Talandi um langan lunch!
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.5.2016 | 08:55
Varist að fara inná rangan bar á Sardeníu
Síðustu helgi fórum við til Sarroch (heimabæjar tilvonandi tengdasonar) á matsölustað sem er í miklum metum hjá heimamönnum. Við áttum borð klukkan 9 um kvöldið og ætluðum að hitta félaga parsins unga. Vorum snemma á ferðinni og ákváðum að kíkja bara á barinn áður en við fengjum okkur að borða. Beint á móti matsölustaðnum var þessi líka fíni barinn með stólum og borðum fyrir utan og ég sagði förum hingað. NEI ertu ekki í lagi sagði tengdasonurinn, þetta er ekki "MINN" bar. Hann rifjaði upp fyrir mér söguna af gamla manninum sem situr fyrir framan barborð á næstum hverjum bar í Sardeníu, sem situr þar með epli og hníf og ef þú ert Sardi og kemur inná rangan bar þ.e. bar sem þú ert ekki fastagestur á, þá getur sá gamli tekið uppá því að flysja eplið og er með því að segja: "drekktu þennan eina bjór og hypjaðu þig svo, ef þú vilt ekki verða rúin innað skinni". Þeir eru ekki að nota neitt of mikið af orðum og hef ég orðið gáttuð á því að komast að því hvað bendingar og hlutir þýða meira en orð. Einnig skaltu heilsa öllum með höfuðhnykk á barnum, þar sem þeir sem þar eru "eiga" þennan bar og líta svo á að þú sért að heimsækja þá (væntanlega þá hvern og einn fyrir sig).
Vinur okkar sagði okkur frá því, þegar við komum á "Rétta" barinn og frétti að ég hefði ætlað inná þennan bar að hann hefði farið inní mið Sardeníu þar sem gilda víst mun strangari barreglur. Þannig er að þar færðu ekki að borga þ.e.a.s. ef þú færð að drekka fyrir það fyrsta og ef þú færð að drekka, færðu ekkert endilega að fara heim, fyrr en formlegt leyfi er á það gefið. Max þessi vinur okkar hafði sem sagt farið að hitta gamlan herfélaga sinn og spurði gamlan mann á bar í hans hverfi hvort hann kannaðist við Alfonso, "NEI" aldrei heyrt á hann minnst svaraði hann og allir aðrir á barnum sem báru við algeru þekkingarleysi.
Max drakk sinn bjór og fór út, þar stóð ung kona og sagði ertu að leita að Alfonso? Já svaraði hann og benti hún honum á húsið beint á móti barnum og sagði: "hann býr þarna" Alfonso tók vel á móti Max vini sínum og bauð honum í kvöldmat ásamt foreldrum sínum, sem bjuggu í sama húsi. Faðirnn reyndist vera gamli maðurinn á barnum og sagði hann að hann hefði haldið að Max væri kannski ennþá í hernum og þeim líkaði ekki við hermenn, eða löggur og þar af ekkert að upplýsa um eitt eða neitt. Konur eru heldur ekki tíðir gestir á börum hér og mér finnst stundum eins og ég sé komin 50 ár aftur í tímann.
Max komst heim til sín eftir 4 daga og þá búin að hitta allt þorpið, borða með þeim og drekka, fékk ekki að borga krónu, þeir láta það ekki spyrjast um sig, en heldur ekki að fara heim fyrr en eftir sómasamlega kynningu.
Talandi um að skreppa í heimsókn
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 09:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.5.2016 | 07:29
Markaðsdagur í Capoterra
Í dag var markaðsdagur í bænum Capoterra sem er næsti bær við Pula, þar sem við gistum og reyndar sami bær og meint brúðkaup dótturinnar mun fara fram eftir 10 daga. Hérna yfir öllu liggur jasmínlyktin í loftinu, enda jasmíntrén í blóma og mikið búið að rigna undanfarnar 2 vikur svo allt er í blóma hérna.
Jasmínlyktin blandaðist saman við sítrónu og lavanderlykt á markaðnum og var ys og þys á þar og húsmæðurnar að kaupa sér grænmeti, ávexti og krydd fyrir vikuna og ég get sagt að þar er ekkert handahóf á valinu, allt vegið og skoðað og metið og smakkað að lokum fyrir kaupin. Ég keypti uþb. 1 kg. af blóðappelsínum og var rukkuð um heil 99 cent ekki einu sinni evru, mér fannst varla taka því að borga það, sama var með laukknippið og steinseljuna, fékk fangið fullt af henni og skoða nú á fullu uppskriftir með steinselju. Blóðappelsínurnar eru svo safaríkar og sætar að það þarf 2 appelsínur í fullt glas af safa. Gaman að kaupa svona ferska ávexti og grænmeti það er svo ólíkt því sem við eigum að venjast vegna flutninga milli landa á þessum vandmeðfarna mat.
Hérna í garðinum er heilt rósmaríntré, en ég leitaði í öllum pottum og beðum eftir einn rigningardag af rósmarín, hvarflaði ekki að mér að "barrtréð" sem var hérna væri rósmarín, en hvað veit maður svo sem, ég kaupi þetta í plastbakka dýrum dómum, hérna vex líka mynta og basilíka svo ég tali nú ekki um lavanderið sem allt angar af núna í bland við Jasmínluktina svo yndislegt er að sitja hérna úti á verönd og lesa.
Ég fór sem sagt á markaðinn með það fyrir augum að kaupa mér strandhandklæði, þar sem hérna hefur verið 23 gráður og hitinn farið talsvert hærra suma dagana og sól á köflum og langaði mig á ströndina. Strandhandklæði núna spurði sölumaðurinn í handklæða og viskustykkjabásnum? Já sagði ég "Il sole" og benti honum á sólina. Nei það kemur ekki sumar fyrr en 1. júní, komdu þá sagði hann og renndi upp úlpunni sinni í 26 stiga hitanum. Ég fékk mér ís.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 08:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)