Madrid

Ég ákvað að skella mér til Madrid höfuðborgar Spánar ásamt syni mínum sem búsettur er í San Miguel de Salinas.  Við vorum á góðum bílaleigubíl og lögðum af stað snemma morguns til að losna við mestu umferðina.  Það var skrítið að eftir 2 tíma í akstri vorum við komin úr appelsínuökrunum og við tóku möndlutré í fullum blóma, en þau eru búin með sinn blómatíma hérna í suðrinu og virðist gróðurinn alveg mánuði á eftir  því sem hann er í blóma hérna og því sem norðar kom. Hitinn lækkaði líka markvisst og lögðum við af stað í 16 stigum en enduðum í Madrid í 9 stigum. 

Það er þægilegt vegakerfið hérna á Spáni og ekki mikið mál að keyra svona yfir landið og dásamlega fallegt vínviðurinn og ólífutrén á ökrum hálfa leiðina ásamt blómstrandi möndlutrjánum hvítu og bleiku. Hvítu trén gefa beiskar möndlur og þau bleiku sætar segja mér heimamenn.  Nú það gegnir öðru máli með akstur í stórborginni Madrid og var ég ekki mjög örugg með mig, enda annálaður lélegur bílstjóri og langaði mig alveg að loka augunum í hringtorgum með 4 akreinum, en ég var þó búin að læra að ytri hringurinn á réttinn, ekki sá innsti.  Ég var sem betur fer með son minn mér við hlið sem var mín hjálparhella og "GPSari" sagði mér að beygja hérna og þarna. Komst ég nokkuð heil út úr akstri mínum í Madrid, lenti á einum stólpa sem var sem betur fer fóðraður með mjúku frauðplasti vegna fólks eins og mér sem eiga í erfiðleikum að troða sér í lítil stæði enda var ég á "stórum" bíl (Renault clio).

Madrid er falleg borg og margir mjög fallegir staðir í henni sem vert er að skoða og húsin eru rosalega falleg og vorum við á hóteli sem var skemmtilega byggt og aðeins í útjaðri borgarinnar, sem var allt í lagi þar sem við vorum á bíl, en það var mjög dýrt að leggja í bílastæði og reiknaðist mér til að ég hafi greitt um 7500 ísl. kr. í bílastæði í þessa 2 sólarhringa sem við vorum í Madrid.  Við borðuðum á mjög skemmtilegum stað rétt fyrir neðan Plaza Mayor torgið á móti markaðshúsinu og var þessi staður eins og gamalt klaustur og virtist vera að hruni komið en mjög skemmtilega innréttað með altaristöflu og trúarlegum myndum og skrauti og fullt af stórum kertum.  Fengum frábæra máltíð þarna en það er mun dýrara í Madrid en hérna í suðrinu alveg helmingi dýrara og sumsstaðar þrefalt dýrara en er svo sem vel þess virði.

Plaza Mayor er torg sem er með fullt af veitingastöðum og mikið um allskonar uppákomur. Það var byggt árið 1619.  Við borðuðum á einum af veitingastöunum þar og var það skemmtileg upplifun ágætis matur og mikið af fólki á torginu, en uppsprengt verð eins og hætt er við á fjölförnum túristastöðum.

Við löbbuðum svo niður að Puerta del Sol sem er annað skemmtilegt torg þar sem hin fræga klukka er sem sjónvarpað er frá síðustu 12 sekúndur til miðnættis og vínberin 12 borðuð sem eiga að boða 12 góða komandi mánuði og þetta hefur verið gert um hver áramót síðan 1962. Í kringum það torg er allt fullt af göngutötum með öllum helstu búðum sem konur þurfa að kíkja í þegar í útlönd er komið.

Madrid er æðisleg borg falleg og fjöbreytt og iðandi af lífi og fjöri eins og stórborg á að vera.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband