Færsluflokkur: Dægurmál

Leynist lítill Stenmark í Stelpunni?

Nei ég held ekki.  Skíðaferill minn spannar nú alveg 25 ár, en eiginlega er hægt að "súmma" hann upp í 3 ferðir, sem allar enduðu með skelfingu.

Taka 1. Ég giftist inní hvílíka skíðafjölskyldu að það hálfa væri meira en nóg, eiginmaður minn var svona Stenmarkstýpan, með allt á tæru og skíðin eins og eðlileg framlenging á fótunum.  Nú skyldi farið með barnunga brúðina sína á Akureyri í skíðaferð, leigð voru handa mér skíði og öll stórfjölskyldan mætt í fjallið klukkan 9:00 á staðartíma. Ég gekk með skíðin að lyftunni og eiginmaðurinn sagði komdu með mér í stólinn. Já já þetta hljómaði nú ekkert svo illa, ég gat hæglega setið í einhverjum stól og látið flytja mig þarna upp á topp. En guð minn góður mig sundlaði, og ég fraus og missti á einhverjum tíma meðvitundina, ég er svo lofthrædd. Svo þegar upp var komið og honum tókst að opna slána, sem ég var föst við og ýta mér út úr sætinu, ég man ekkert þegar hér var komið, enda stjörf af hræðslu. En jú jú mér tókst að renna mér niður brekkuna (stallinn) og fannst þetta nú ekki mikið mál, en þá var allt fjallið eftir.

Stenmark (eiginmaðurinn) kenndi mér að fara í plóg og ég gerði það, myndaði svona þrefalt V og held að fæturnir hafi verið í sitthvoru póstnúmerinu, svo góðan plóg tók ég.... hann var nú ekki sá þolinmóðasti og þegar ég ætlaði að bremsa einhverju sinni með tánni, þá vildi ekki betur til en að ég festi tána í skafli og sneri mig og fékk þar með mín fyrstu íþróttameiðsli. Nú ég komst niður með því að labba á hlið og beit á jaxlinn, þar sem mig verkjaði svo í hnéð.  Komst við illan leik niður á plan og ætlaði úr þessu spaðarusli, en úps! þá fór ég af stað, aftur á bak og yfir götu og út í grjót og endaði á góðum hnullung, ég hélt nú að þarna væru dagar mínir taldir.  Ég settist öll "krambóleruð" og skíðaferðin hjá mér á enda, þegar Stenmark kom og spurði hvað ég væri að gera hérna megin fjallsins....Skoða steina hvæsti ég milli tannanna, og eftir það var ég á hótelinu að passa börn, með hækjur.

Taka 2. Allmörgum árum síðar, ákvað vinnustaðurinn minn að halda í skíðaferð og vinkona mín hvatti mig að koma, enda hún alinn upp á Akureyri og væntanlega fæðst með skíðin á löppunum. Ég hugsaði nú með mér, ég er þroskaðri en síðast og verð ein, enginn Stenmark að siða mig og kenna, hann ætlaði að vera heima með skíðabörnin sem voru komin í heiminn og voru lasin. Jú ég ætla get og skal. Átti þessi splunkunýju ónotuðu skíði, sem ég tók með mér.  Leggjandi allt mitt traust á vinkonu mína, sem sagði mér að hoppa allt í einu, þegar upp var komin, en ég var þá meðvitundarlaus, þar sem lofthræðslan hafði greinilega ekki "þroskast" af mér. Stökktu sagði hún stökktu! en ég var komin framhjá og var að fara niður aftur, guð minn góður átti ég eftir að deyja hérna, svo ég stökk rétt áður en ég kom að niðurferðinni og jú jú þetta var í lagi,  lenti bara vel eftir stökkið, en datt svo aftur á skíðin í "slow motion" og nema hvað ég rann af stað, inní þvöguna hjá vinnufélugunum, sem voru að opna kampavín í tilefni þess að allir voru komnir upp.  Ég tók nokkra vinnufélaga með mér og festi stafina mína í öðrum. Kolla vinkona mín öskraði og öskraði farðu í plóginn...hvernig átti ég að gera það með rassinn á afturhluta skíðanna. Ferðin jókst og fólkinu tókst fimlega að losa sig undan mér, en ég hélt áfram að renna. Kemur þá ekki engill sem var að vinna mér mér, afskaplega druslulegur greyið, hafði greinilega lent fyrir skíðastaf (num mínum) og renndi hann sér fyrir framan mig og stöðvaði mig, reisti mig við og fór með mig í plóg niður. Ég elska þennan mann enn í dag, en ber við minnisleysi hver þetta var, enda ekki alveg með á nótunum. Ég var töskuberi, það sem eftir lifði ferðarinnar. 

Taka 3. Nú þar sem skíðabörnin okkar fengu skíði í vöggugjöf, var alltaf sama viðkvæðið um helgar, komum uppí fjall!!! Ég var búin að nota allar slíkar helgar í bráðatiltekt og allskonar svo ég þyrfti ekki að fara með, en börnin mín voru svo spennt að sína mömmu sinni hvað þau voru klár, svo ég lét til leiðast, ef þau gætu þetta, þá hlyti ég að vera með eitthvað skíðagen í mér. Ég fór í barnabrekkuna og tókst að bæta mig verulega, var komin með báða fæturna í sama póstnúmer, nánast hætt í plógnum, og er að renna mér niður í 5 sinn, alveg brosandi stolt og sá að börnin mín voru það líka, þegar þau þeystust fram hjá mér í hraðlyftu, ég var í byrjendalyftunni. Þar sem ég hugsaði með mér já þetta er líklega að koma, þá fann ég allt í einu hræðilegan sársauka í rassi og læri og hafði ég fengið einn lítinn skíðasnilling inní bakið á mér, og við ultum niður brekkuna með skíðin í ruglinu og stafina í ennþá meira rugli. Stenmark kom nú og leysti okkur í sundur, nema hvað skíðin mín fóru sjálf niður á meiri hraða, en þau höfðu prufað áður. Ég var marin frá kálfa og uppá haus, og gat ekki legið í viku, tók þessi glansandi fínu skíði og pakkaði þeim niður og beið í bílnum þar til fjölskyldan var búin að fá nóg.

Ég lánaði skíðin mín, vinkonu sonar míns og bað hana að skila þeim ekki aftur í bráð. 


Dauði húsmóðurinnar.

Núna er ég búin að já mig sigraða, ég er ekki sérstök húsmóðir og verð það aldrei. Eiginlega verð ég að segja að ég sé búin að tapa endanlega því, sem heitir "húsmóðursgen", sem ég hélt mig hafa, en hef þó orðið áþreifanlega vör við það í gegnum tíðina, hvað ég slepp vel við bakstur og fleira í öllum veislum á vegum fjölskyldunnar. Kannski verið að reyna að segja mér eitthvað.  Fyrir ári, brenndi ég heimilið á aðfangadag, sauð Farmers Market peysu dótturinnar og eyðilagði kalkún.

Þegar dóttir mín sagði við mig um daginn, að hún hefði verið að tala við vinkonur sínar búsettar á Ítalíu um hvað þær söknuðu  mömmumatarins, þegar þær eru á Ítalíu, þá hafi hún ekki munað eftir neinu sem hún saknaði. Þetta stakk í hjartað, en bíddu við hvað með rjúpurnar mínar og frægu ísana mína hugsaði ég?  Ég hef á hverju ári gert sítrónuís sem ég taldi að allir elskuðu, en ég hef haldið að þeir væru partur af hefð og börnin mín mundu nú um ókomin ár biðja um sítrónuísinn minn góða.

Nú í ár skyldi nú verða boðið uppá óaðfinnanlegan mat, lax, endur og sítrónuís og ég ætlaði að tæma ótal sítrónur og fylla með hinum bragðgóða ís, hef nefnilega ekki nennt því undanfarið og frekar skellt ísnum í form. Nei "Ala Italia Gelate limone" skyldi það verða. 

Ég fékk Helenu fósturdóttur mína til að tæma 20 sítrónur og lagði upp með bros á vör í svuntu með sítrónuskreytingu á (til að peppa upp stemminguna) og hlustandi á jólalög í útvarpinu og í fínu jólaskapi og ekki aðeins skyldi gerður sítrónuís heldur mundi ég "henda í nokkrar lakkrístoppa" í leiðinni úr hvítunum sem gengu af. 

Nú nú ég fann upp nýtt ráð til að fá sítrónurnar til að haldast uppréttar í frystinum og setti þær í eggjabakkana sem tæmdust óðum. Setti stuffið í frystinn og lokaði, en heyrði þá hljóð sem sagði mér að bakkinn hefði ekki haldið sítrónunum og jú jú það reyndist rétt, ísinn lak niður 2 hæðir í frystinum. Ég lét þetta ekkert á mig fá, þreif þetta upp, með einbeittan vilja um að takast betur upp næst, þá setti ég sítrónurnar í glös, ætlaði svo að loka mjög varlega, en missti óvart skúffuna niður á gólf, enda allt svo sleipt eftir ísinn sem ekki var hægt að þrífa allan af, þar sem hann fraus fastur  um leið og ég reyndi að þurrka hann upp. Nú var gólfið allt í ís og glerbrotum. Við Helena náðum þó í 5 sítrónuísa og þeir eru ennþá inní ísskáp.??

 Já þá var komið að lakkrístoppunum, ég fengi nú alla vega slatta úr þessum 20 eggjahvítum, fann uppskriftina, en átti ekki sykur og púðursykurinn var allur grjótharður, en ég kunni nú ráð við því, setti hann í skál með vatni í örbylgjuofn, en illa gekk að þeyta hann með hvítunum svo topparnir láku út um allt, en ég fann ráð við því með því að skella í smá flórsykri. Þetta fór þó svo að botninn var fastur við plötuna og topparnir lausir ofan á eins og lok. En þær voru góðar bara ekki hægt að borða þær, nema með skeið. Það eru enn til svona lakkrístoppakurl.

Ég gafst upp og tók deigið sem ég hafði keypt í Ikea, setti það á bökunarpappír og lét Það á rimlagrind og þær komu út eins og bugður, en brögðuðust bara vel skilst mér. 

Ég játa mig sigraða upp og gerist styrktaraðili Jóa Fel. Set fagmann í verkið. 


Kona fer til læknis? Eða ætti hún nokkuð að gera það?

Ég fékk slæmsku í magann fyrir rúmu ári síðan og fór til heimilislæknis. Sem er nú ekki í frásögur færandi, nema að ég er ekki með neinn ákveðinn lækni, þar sem tískustraumar í læknamálum í mínu bæjarfélagi er þannig að það eru nýútskrifuð læknabörn sem eru í 4 mánuði í senn og ekki fastur læknir í mínu tilfelli á þessum tíma.

Þetta er slæmt ef maður stríðir við  einhvern heilsubrest. Ég fór sem sagt með magavesenið mitt til læknis og fékk þá spurningu hvort ég ætti ekki vini? jú jú alveg nóg af þeim, ég var sem sagt ekki þangað komin til að borga 1000 kr. fyrir tjatt. Já sagði hann unglingsstúlkur lenda nú oft í svona og þá vantar þeim kannski vin og geta hringt í síma rauða krossins. Já sagði ég og benti honum á þá staðreynd að ég væri 54 ára gömul. Honum var alveg sama, nennti mér sko ekki.

Já ég er með magaverk og niðurgang! sagði ég og hann horfði nú á mig með svipnum, já já þessi týpan veit allt, sjúkdómsgreinir sig sjálf bara.  Já setjum þig á þunglyndislyf.....já og þá lagast niðurgangurinn spurði ég eins og fáviti?  Skoðum málið sagði hann og sendi mig heim með þunglyndislyf.

Ég fór heim og eftir nokkra daga googlaði ég þetta lyf, sem var við m.a. geðklofa, og hafði hugsanlega eftirtaldar aukaverkanir með í för og skyldi hætta inntöku lyfs strax yrði þeirra vart:

Munnþurrkur, já ég gat ekki talað fyrir bómull í munni,

Sjáanleg útbrot ( Nú nú voru þetta ekki mislinga og rauðir hundar sem komu hvert á eftir öðru)

Bjúgur var einn af aukaverkununum...aha þarna kom það af hverju ég þrýstist út um öll fötin mín eins og Michelin karlinn.

Já svo kom aukaverkunin sem varð til þess að ég staldraði við. Ef þú ert með aukna svitamyndun og hjartaflökt, þá skaltu leita læknis tafarlaust og hætta að taka lyfið.. og þarna sem ég rann um allt borð vegna sveittra bjúgóttra handleggja með hjartslátt um allt meira að segja í hárinu, þá sagði ég nú hingað og ekki lengra.

Ég var enn slæm í maganum, en núna var ég með fullt af allskona fríum aukaverkunum. 

Kona á mínum aldri  á ekki að fara til læknis, frekar að fara bara með sjúkrabíl á bráðamóttöku og segjast vera með verk fyrir brjósit, ætli þeir mundu amputera af mér löppina þá???


Vatnslásinn stýflaði, eða hvað?

Það stýflaðist hjá mér eldhúsvaskurinn núna um helgina, ekki að það sé neitt tiltökumál, en þegar maður er ekkert vel að sér í uppbyggingu pípulagna, þá getur þetta verið stórmál í tilfelli eins og hjá mér.

stifla_061204

  

Hélt nú ekki að þetta væri neitt mál, bara kaupa "mistermösköl" eins og þeir auglýsa svo grimmt í sjónvarpinu, leysir upp erfiðustu stýflur og hvað gat ég hafa sett í vaskinn sem var erfiðara en að mr. muscle réði  við.  Ég hellti skv. upplýsingum á brúsanum helming í niðurfallið og skutlaði hinu í sturtuna, (sem forvörn) ég vil helst ekki eiga svona eitur á heimilinu, ég lét þetta bíða í niðurfallinu í eldhúsinu í sólarhring til að vera örugg og skellti svo uppþvottavélinni í gang.

Nú ekkert gerðist nema það koma allt vatnið úr uppþvottavélinni upp úr vasknum, yfir allt og niður á gólf, baneitrað mistermuskölvatn. Ég tók pott og skálar og fyllti með vatni og hellti í baðvaskinn, og alltaf streymdi þetta miður lekkera vatn uppúr vasknum. 

Þá var næsta ráð að losa "vatnslásinn" ég var ekki alveg með það á hreinu hvar hann var og losaði alla hringi af öllum rörum og hreinsaði, það kom fullt af svörtu stuffi, brenndu stuffi, hver hefur sett Eyjafjallaösku í vaskinn minn? hugsaði ég og þreif og þreif, tók svo að lokum drullusokk, og hamaðist á niðurfallinu og meira stuff kom upp, en viti menn, nú var uppþvottavélin farin að leka um allt gólf. Hvernig má þetta vera, þegar ég er búin að þrífa öll rör og vatnslás og meira til.

Það þarf örugglega að brjóta upp svalirnar hjá mér, því ekki er þessi stýfla neitt á auðfinnanlegum stað.

Eigið gott kvöld, ég ætla að fara að þrífa upp vatn og athuga hvort hægt verði að brjóta upp bílaplanið ef í hart fer. 

drulli

Stórleikur í eldhúsinu

Ég verð nú að segja það að ég átti stórleik hérna í eldhúsinu áðan, er aðeins að jafna mig eftir að hafa farið hamförum hérna út um allt.

Ég var að þrífa hérna í eldhúsinu í morgun og varð á að missa eina dós af Coke Zero á gólfið. Bara litla dós, en vá hvílíkt magn í einni dós! Þar sem ég stend gráti næst og íhugi hvernig best sé að snúa sér í þessu, með lekand kók úr andlitinu og sá illa út, hélt mér hefði sortnað fyrir augum, en sá það þegar ég tók gleraugun af mér að þau voru bara öll í kóki.  

Já skipulagsgáfan mín? Hm. best að byrja á loftinu, þar sem þá mundi ég ekki vera með þennan úða yfir mig meðan ég þrifi gólfið. Gott að hafa tekið exceltíma og forgangsraða. Já eða taka mesta pollinn af gólfinu svo ég beri ekki allt út um allt?

Skemmtileg tímasetning fyrir straubrettið að láta líða yfir sig fyrir framan þvottahúshurðina og ég kemst ekki inn til að ná í moppuna, fyrr en ég brýst inn, með látum (vildi að ég gæti sagt að gleðin hafi skinið úr andlitinu) en ég hrifsaði moppuna pirruð og er búin að vera að þrífa í svona hálftíma og ég er ekkert að grínast þegar ég segi, Kókið fór allstaðar, ég er að meina það eru blettir á lofti, veggjum (inní herbergi nánast) það er allt í kóki hérna.

Varð að fá smá útrás, en þegar ég fór út með 3 poka af kókblautum eldhúsrúllum í rusl (jú jú mikið rétt, tuskurnar voru inní þvottahúsi) þá kallaði litli strákurinn í íbúðinni við hliðiðna á mér  mig STELPU og það reddaði deginum sem byrjaði nú ekki svo vel. Ég geng nú um brosandi (klínstruð) og það brakar í hverju spori, ætli kók sé gott fyrir steinagólf?

Er farin í næstu hús að kanna skemmdir vegna kóks. Hef með mér tusku.! 


Gamlárskvöld síðustu ára.

Enn er gamlárskvöld að renna upp. Sá mest ógnvekjandi dagur í lífinu mínu, er alltaf jafn kvíðin og aldrei eins glöð og þegar nýjársdagur rennur upp og allir með hendur og fætur á sínum stað á mínu heimili.

kiddi_litill

 

Þannig er mál með vexti að "Hryðji" sonur minn er sprengjuóður og hefur  verið frá því hann fór að hafa vit. En honum hefur nú ekki alltaf þótt sprengjurnar nógu öflugar, þannig að ég var þessi "heppna" mamma að hann var alltaf að styrkja sprengjurnar sínar með einhverju "stuffi" sem ég gat bara ekki munað hvað hét hverju sinni, enda allt gert í samráði við "félaga hans í apótekum bæjarins" ég gafst upp á að fylgjast með þessu fyrir löngu, enda þýddi það ekkert, þegar ég tók mig til og ákvað að taka ströngu móðurina á sprengjumálin, þá fann ég bara síðar skálar með dularfullu dufti út um alla íbúð á hinum undarlegustu stöðum, svo ég játaði mig sigraða.

Ekki þýddi heldur að reka hann frá húsinu, því við bjuggum fyrir neðan elliheimili og þá fór hann bara þangað með sínar sprengjur, og ég veit ekki hvort það var ýmyndun ein, en mér fannst alltaf meira um sjúkrabíla á þessu tímabili fyrir utan elliheimilið.

Nú ein áramótin tókst honum, að kveikja á rakettu á leið okkar uppá hæðina fyrir ofan húsið, er ekki ennþá búin að átta mig á því hvernig, en hún fór af stað í miðri gönguferð og slapp inni rakettupoka mágs míns, hann fuðraði upp með hvelli og frakkinn hans fór í tætlur og tók af við mitti, en sem betur fer varð ekki slys á mönnum.

Honum tóks líka að "missa" eina rakettu inní bíl, sem var sem betur fer ónýtur á stæðinu, enda var hann nú ekki ökufær eftir að rakettan sprakk inní honum.

Hann kom eitt kvöld daginn fyrir gamlárskvöld í lögreglufylgd heim, þar sem hann hafði verið ásakaður um að hafa kveikt á blysi í strætó og brennt sætið þar. Hann sór að það hefði ekki verið hann sem gerði neitt slíkt, enda vanur í "sprengjubransanum". Ég rak hann uppí herbergið sitt, eftir að ég var búin að klippa sviðnað hárið og setja plástur á nefið og snyrta brenndar augnabrúnirnar og sýndi honum sjálfan sig í speglinum, þar sem hann var kolsvartur af bruna og spurði hvort hann ætlaði að standa fast við söguna um að hafa ekkert gert af sér?

Hann var í straffi daginn eftir og var kominn uppí rúm rétt uppúr miðnætti, en vaknaði svo fyrir sex um morguninn og gerði hvað?

Nú nema sótti allar sprungnu og hálfsprungnu sprengjurnar og tók þær inní herbergi til snyrtingar, við rosalegan fögnuð móður sinnar.

Guð hvað ég verð glöð ef allir halda öllum puttum á morgun og segi því Gleðilegt nýtt og heilt ár og áramót...ég verð á bíl!!!!! 


Aðfangadagskvöld

 

Í dag aðfangadag átti ég stórleik, ég veit vel og hef oft sagt það að ég er ekkert að skora feitt í eldhúsinu öllum stundum og ég hef  svo sem soðið ullarföt í þvotti og fleira, en á aðfangadag? Er eitthvað sem hefði mátt fara öðruvísi? Já Allt!

Ég eldaði kalkún skv. uppskrift og átti að setja vel vætt viskustykki á hann útatað í smjöri. Sem ég gerði og viti menn jú viskustykkið brenndi sig inní húðina, það var ekkert sérstaklega gott bragð af skinninu og það var köflótt! já svona með bláum köflum.

Nú meðan kalkúninn var að viskustykkjavæðast í ofninum skellti ég fötum dótturinnar sem hún kom með frá Ítalíu, meðal annars fínu lopapeysunni sem hún fékk ekki alls fyrir löngu og setti ég þetta á ullarprógram hélt ég, en út kom ponsulítil peysa sem mundi passa á álf með alltof stórum tölum sem var eiginlega algerlega ofaukið á þessa nýtilkomnu "babybornpeysu".  Stelpan mín var sár, hún er oft mjög sár þegar ég þvæ af henni fötin.

Já ég hugsaði með mér að best væri að skella sér í sturtu meðan stelpan reyndi að teygja peysuna til sem tókst svona líka bara vel, gæti hæglega komið henni utanum 2 ára barn eða svo. Ég var búin að gera baðið allt jólafínt og kveikja á kertum, tók með mér jólafötin og setti þau á bekk og fór í sturtuna og fannst eins og kertin flöktu óvenjulega mikið.  Þegar ég uppgötvaði að þetta voru ekki bara kertin, heldur hafði eldur læðst í handklæðið á slánni og brennt það og nærfötin mín bráðnuðu og hluti fatanna brann inní handklæðið. (ath. nylon brennur illa!!!)

Þessu var hent inní sturtuna, og hent í ruslið afar hljóðlega, vildi ekki láta vita að ég hafi farið úr einni eyðileggingunni í aðra. Krakkarnir höfðu þó orð á því hvað veggurinn væri svartur og mikill reykur af kertunum.

Nú ég brenndi mig svo á puttanum, þegar ég var að reyna að skafa viskustykkið uppúr kalkúnanum og fannst nóg um og held ég að kalkúni sé ekkert svo hollur, alla vega ekki mín uppskrift...

Þetta voru góðar endur sem við höfðum svo í matinn í kvöld og ég er buguð af eyðileggingu og þreytu...held ég fari að leggja mig.

Ég ákvað að vera bara ófín þessi jól og málaði mig ekki, vildi ekki taka séns á því að  reka maskara í augu, eða eitthvað annað.

Ég ætla að skipta um battery í reykskynjaranum til öryggis. 

Gleðileg Jól og farið varlega með kertin. 


Jólin koma

Sonur minn hinn hugmyndaríki hafði einstaklega gaman af jólunum, svo ég tali nú ekki um áramótin, sem byrjuðu að telja frá 1. janúar ár hvert og var strikað yfir dag hvern á dagatalinu fram til næstu áramóta.

Allt annað var EKKI í forgangi.  Hann hafði þó óbilandi trú á jólasveinunum og að þeir væru á sama plani og hann. Hann sendi þeim margan póstinn í skóinn sinn í von um að geta einhverju breytt.

T.d. var bréf í skónum kvöld eitt. Sæll jólasveinn, veit ég er ekki búin að vera stilltur, en viltu ekki gefa systur minni frekar "kartöbbluna" ef þú þarft að gefa hana, hún elskar "kartöbblur" en ekki ég. Takk samt fyrir síðustu "kartöbblu"  mamma eldaði hana og mér fannst hún bara góð. En ég er alveg með nóg af þeim í bili. 

Næsta dag var svo. Kæri jólasveinn.. mig langar mest í kínverja, ef þú átt enga, þá get ég alveg fengið blys, en ekki stjörnuljós takk, systir mín á næsta skó við hliðina á mér, henni finnst gaman að fá stjörnuljós.

Svo kom: Jólasveinn! ég veit að ég er ekki búin að vera neitt sérstaklega þægur, en ef þú gefur mér ragettur og blys skal ég lofa að ég set ekki fleiri hurðasprengjur til að vakna þegar þú kemur og ég lofa að setja ekki fleiri rakvélablöð í skóinn, það var bara til að sjá í hvaða blóðflokki þú værir eða til að gá hvort mamma og pabbi væru með sár á "puttonum" daginn eftir, en Siggi í mínum bekk sagði að mamma sín setti í hans skó. Ég trúi því nú ekki, því mamma er öll óskorin ennþá!

Kæri Kertasníkir þú ert bestur, mér finnst svo flott að þú skulir borða kertin sem ég set hérna í skóinn að ég ætla bara að biðja þig að gefa mér enga "kartöbblu" Anna systir mín elskar "kartöbblur" ég ætla að gefa þér þessi kerti sem mamma var að kaupa og þau voru rosalega dýr. Ég tók allar hurðasprengjur og allt svona skaðlegt dót, svo þú komist óhindraður í skóinn minn. En ef þú heldur að ég hafi verið óþekkur, þá er það ekki rétt, Anna var miklu verri, það sá það bara enginn. Ég get sagt þér allt sem hún gerði ef þú átt nóg af kartöbblum, en talaðu við mig fyrst. Svo finnast henni "kartöbblur" ofsa góðar. En hún gubbar alltaf eftir þær, held að það sé útaf óþekkt. Held það í alvöru en ég er búin að vera rosalega stilltur. Kæri Jóli endilega lestu þetta bréf, og ef þú þarft að gefa "kartöbblu" þá veistu að Anna er ánægð með hana. Ekki ég.

Ég vil frekar dót og finnst ég eiga það skilið núna ég fann jólatré á götunni. Gaf mömmu það, það er frekar lítið en mamma sagði að það væri krútt. Komst ekki nema 3-4 kúlur á það, en samt var það mjög flott, held að ég hafi sparað mömmu fullt af peningum, það hlýtur að teljast með þegar maður fær í skóinn. já Jóli ég á stígvélið þetta stóra, og skóna þessa fínu. Systir mín á skóna sem eru fyrir neðan glugga, hún nennti ekki að setja þá í gluggann.

þinn vinur.

Kiddi.

p.s. ég er mjög ánægður með allt sem ég hef fengið! 

aftur þinn sami vinur Kiddi.

 


Hryðji fær sér bíl!

Já börnin eldast víst og taka bílpróf eins og við hin. Það gerði "hryðji" líka. Hann stóð með glænýtt ökuskírteini daginn sem hann varð 17 ára, en þar sem hann hafði takmarkaðan aðgang að heimilisbílnum, þá ákvað hann bara að kaupa sér bíl sjálfur.

Hann fann bíl í smáauglýsingu ja bíl? Bleikan Peugot, sem var bara smá bilaður sagði hann mér, en vildi óður og uppvægur keyra mig í vinnu einhvern daginn og þáði ég það, þar sem hann hafði vaknað eldsnemma og var svo glaður og tilbúin að ég fékk ekki af mér að neita honum um að keyra mig á "nýja" bílnum.

Ég settist upp í bílinn og lokaði á eftir mér, en hélt þá á handfanginu, ekki málið sagði sonurinn stoltur, smá skrúfa laus, hentu þessu bara í aftursætið ég laga þetta.  En hurðin lokast kannski ekki alveg sagði hann. Hvað segirðu ekki alveg meinarðu að hún sé svona mikið lokuð þ.e. ALLS EKKI lokuð?

Róaðu þig kona ég er ekki milli sem get keypt mér splunkunýjan bíl.  Ok ég ákvað að þegja, enda var hann mjög stoltur af þessu bleika "bílyldi" eða já sem varla var hægt að kalla bíl, enda algert hræ og sagði hann mér síðar að hann hefði fengið hann gefins. (hvílíkur bjarnargreiði). Við vorum komin niður í Ártúnsbrekku þá stoppar bíllinn og sonurinn fer að snúa honum við.

Hvað ertu að gera æpti ég stíf af hræðslu, haldandi í falsinn á hurðinni svo ég mundi ekki detta út, en það var bara eitt öryggisbelti og það var í skottinu (laust). Æi þetta gerist alltaf af og til, þá er ekki hægt að keyra nema í bakkgír, en mamma ekki málið ég bakka þér bara í vinnuna, en við þurfum að bíða svona 10 mín. áður en hann kemst í stuð.

Barnaverndarnefnd hefði átt að vera á staðnum! Hún var það ekki.   Ég andaði djúpt og hugsaði um stolt hjálpsamt barnið mitt að skutla mér í vinnuna, svo ég róaði mig og taldi uppá 23.598 áður en ég sagði: "hvað meinarðu að það sé ekki hægt að keyra lengur áfram?" jú sko hann lætur svona víst stundum og gaurinn sagði mér bara að bakka honum í svona korter og þá get ég keyrt hann áfram.

Ég hef ekki það mikið vit á bílum, þannig að ég þagði bara og létt hann bakka mér í vinnuna sem var já á þeim afskekkta stað Laugaveginum.

Hann átti þennan bíl alltof lengi, en hann fékk ekki að bakka mér neitt aftur. Ég mætti lifandi í vinnuna, örlítið rjóð í vöngum, það var sko ekki miðstöð í bílnum og hárið á mér nýblásið og fínt, eftir gustinn sem kom innum "rifuna" á hurðinni......


Veikindahrinan

Börnin mín eru mjög heilsuhraust sem betur fer, en þau eiga frænku sem greindist með hvítblæði og eftir það fór skaðræðið mitt sonurinn að fá hin ýmsu einkenni.

Hann fékk krabbamein einn daginn hélt hann, alveg fullviss um að nú væri hann að deyja. Þar sem hann grét aldrei og fann aldrei til við högg þá hélt ég að hann væri tilfinningalaus, þannig að mér leist nú ekkert svo vel á þetta, þar sem hann grét af kvölum. Ég er með krabbamein í kjálkanum vældi hann heila helgi, þar til ég gafst upp og fór á læknavaktina með hann.

Ég var svo heppinn að minn heimilislæknir var á vaktinni og skoðaði hann vel og vandlega og kom svo fram til mín (ég beið frammi já já tárist af hneyksli, en það líður yfir mig ef ég sé blóð og sprautur) og sagði að stráksi hefði verið búin að blása upp svo margar vatnsblöðrur að kjálkarnir og eitlarnir hefðu bólgnað. Hann ætti að hvíla sig á vatnsblöðrum í svona mánuð. Ég var mjög vinaleg á leiðinni heim við hann með samanbitnar tennur og svolítið skömmustuleg yfir að hafa farið á læknavaktina, ég meina þar sem fólk kemur dauðveikt.

Hann fékk Astmakast og lungnabólgu strax  daginn eftir hélt hann  (var reyndar með astma) og ég var að keyra hann í skólann og hann byrjar í bílnum; "mamma ég næ ekki andanum" fínt sagði ég, enn frekar pirruð eftir heimsóknina daginn áður á læknavaktina. "Ha fínt finnst þér það fínt" já leiðinlegt en hvað viltu að ég geri sagði ég og leit ekki einu sinni á hann. Varstu kannski að gleypa blöðrur núna??" Nei í alvöru mamma ég er að deyja ég næ ekki andanum" ok settu hausinn út um gluggann sagði ég alveg frekar pirruð. 

Hann fór hálfur út um gluggann svo eftir stóðu fætur við ökla inní bílnum, ég heyrði reyndar smá svona soghljóð og þegar ég kippti honum inn í bílinn sá ég að hann var orðinn örlítið blár ( lesist helblár) kringum munninn og ég sneri við á punktinum og hentist inná læknavaktina í Grafarvoginum og ég ætla ekki að hafa það eftir sem læknirinn sagði við mig eftir að sonurinn hafi sagt að ég hafi sagt honum að þetta væri bara fínt og að mér væri alveg sama.

Ég ber við algeru minnisleysi.

Þetta er ættgengt því annar fjölskyldumeðlimur fær gjarnan svona allskonar  

Það var hablið og fuglaflensan.....já viðkomandi fékk gefins körfu fyrir jól ein og í því var Belnoughat súkkulaði sem er með innihaldslýsingu á ensku og arabísku, og jú jú það var væntanlega flórsykur á því.  Hann borðaði það og sá síðan að það var skrifað á arabísku utan á umbúðirnar og þar af leiðandi hlyti nú að vera búið að strá "Miltisbrandi" í súkkulaðið, þar sem við hin hefðum talið vera flórsykur.

Hann hringdi í mömmu sína og símtalið var nokkurn veginn svona:

"mamma það er örugglega miltisbrandur í þessu súkkulaði sem ég var að borða"

Já en leiðinlegt og hvað á ég að gera og af hverju heldurðu það?

"ok róleg á umhyggjunni, en þú segir eitthvað annað þegar ég verð dauður. Vertu blessuð mamma"

3 mín síðar:

"mamma ég er með öll einkenni "habls" ég var að googla það"

já er það og hvernig lýsir það sér?

"ég næ ekki andanum og ég er allur rauðflekkóttur"

já ef þú ert dauður þegar ég kem heim þá læt ég þig vita.

"gaman að eiga svona mömmu takk fyrir allt!"

3og 3/4 mín síðar.

"Mamma ég er að deyja"

Krakki ég á eitt orð handa þér og það er ÞEGIÐU og láttu mig í friði ég er úti að borða, ég skal skammast mín ef þú deyrð, en hvernig eru einkennin núna.

"næ ekki andanum"

Er það verra en þegar þú fékkst fuglaflensuna eftir að við gengum gegnum kínverska matarganginn í Hagkaup í gær?

"já ok er ég kannski svolítið paranojd"

ha þú NEI!!!

Sendi sjúkrabíl þegar þú hringir næst og já ég spyr þig ekki um leyfi. Eftir næsta símtal verður  sendur sjúkrabíll til þín og dælt upp úr þér og svona kannski verðurðu settur í gifsbuxur(til vonar og vara)

"Mamma Takk þú ert æðisleg" Ég ætti að hringja í barnaverndarnefndina og klaga þig"

Já ætlarðu að gera það áður en þú deyrð úr "hablinu" eða eftir fuglaflensuna og klamadýjuna sem þú hélst að þú hefðir fengið, þegar þú skarst þig á skel á ströndinni á Ítalíu, þegar þú varst 11 ára? 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband