Færsluflokkur: Dægurmál

Ísland á Biðlista!

Ég get ekki orða bundist yfir grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag um hjón sem þurfa að vera aðskilin, þar sem hún er svo óheppin að vera með heilabilun og hjónin þurfa að eyða ævikvöldinu sínu sitt í hvoru lagi. Þegar kemur að hvíldarinnlögn er minni biðlisti á Húsavík og er henni bara skellt þangað. Hverskonar rugl er þetta eiginlega? Er eitthvað eðlilegt að fólk sem er með þennan sjúkdóm og þarf á sínum nánustu að halda sé bara skutlað á Húsavík eða þangað sem laust er pláss. Hvernig væri nú fyrir stjórnmálamenn að fara að skoða hvað er í gangi í þjóðfélaginu í raun og veru ekki eins og einhverjar hagtölur segja að hlutirnir séu. Er ekki nógu slæmt að greinast með illvígan sjúkdóm svo fólk þurfi ekki líka að glíma við hræðslu og kvíða því fylgjandi og vera aðskilin frá eiginmanni sínum. 

Nú skv. viðtali sem ég átti við forstjóra á hjúkrunarheimili fyrir nokkru kom þar fram að það væru 200 manns á biðlista, 100 heima hjá sér uppá fjölskyldu komin nú eða bara ekki og svo hinir 100 sem væntanlega eru þá á bráðadeild, spítalagöngum og já salernum.  Hún sagði mér að 75% aðila sem væru á þessum biðlistum lifðu ekki nægilega lengi til að komast inná hjúkrunarheimili.  það gerðist hjá pabba mínum, hann dó! Hann var á "biðlista".

Þurfi fólk að fara í hnjáliðaaðgerð, eða mjaðmaliðaaðgerð, þá er nú alla vega árs til tveggja ára bið, en þú getur fengið skjótari biðtíma ef þú nennir að hendast á Akureyri eða Akranes, þar er ekki nema svona mesta lagi hálfs árs bið. Þú lest bara nokkrar bækur á meðan þú ekki getur labbað. Hvað kostar það svo þjóðfélagið að senda sjúklinga í flugvél til þessara staða, væri ekki nær að setja þann kostnað til dæmis bara inn í heilbrigðiskerfið. 

Ég get nú ekki sleppt því að tala um fárveiku fíklana okkar sem bíða eftir innlögn á Vog svo mánuðum skiptir eða allt að 8 mánuðum í sumum tilfellum.  Það fækkar nú reyndar ört á þeim biðlista því mjög margir deyja á þeim, sem er eflaust heppilegt fyrir stjórnvöld.  Það er ekki eins heppilegt fyrir aðstandendurna sem sitja eftir í sorg og fyrir utan hvað það nú kostar að hafa fíkla í neyslu með öllum þeim fylgikvillum sem því tilheyrir.

BIÐLISTI fyrir einhverfu börnin okkar til að komast að í greiningu er svo um 2 ár, við erum að tala um barn sem getur bjargað sér fái það snemmtæka íhlutun og hjálp.  NEI 2 ár og svo eru svörin bara: "þetta er eðlilegur biðtími, ekki til fjármagn" Biðtímar eru eðliegir nánast á öllum sviðum þeirra sem þurfa hjálpar sem leita þarf til í heilbrigðisgeiranum. 8 mánuðir eru líka til að komast að í talþjálfun fyrir einhverfa og önnur eins bið í allt sem snýr að einhverfum börnum.

Eins og félagsráðgjafi barnabarns míns sagði þegar spurt var útí þessa endalausu bið: " Svona er Ísland í dag".


mbl.is 470 km skilja þau að
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rollsinn í sjúkdómum og trabantinn!!!!

Ég er svo gáttuð í dag að ég á ekki orð, var að lesa mér til um börn í fíkniefna og geðvanda og andlát ungs drengs vegna "aðgerðarleysis stjórnvalda" það er lokað vegna sumarleyfa. Já lokað! Þetta er eins og setja krabbameinssjúkling í fyrstu meðferð og segja svo heyrðu það eru ekki til lyf eða allir eru hérna að fara í sumarfrí, komdu við í haust ef þú ert ennþá á lífi. Þetta horfir bara ekkert öðru vísi fyrir mér.  Ég á son sem er mikið veikur og skrifaði ég eftirfarandi grein í Kvennablaðið fyrir ári síðan:

/http://kvennabladid.is/2017/04/29/missum-ekki-bornin-okkar-i-grofina-fyrir-aldur-fram/

Hvað hefur breyst síðan þá: EKKERT!!! nákvæmlega ekkert, sonurinn fékk jú inni á Vogi þann 8. ágúst 2017 eftir að hafa beðið síðan í janúar, en þá hafði hann verið á Hlaðgerðarkoti í nokkra mánuði og var þar enn. Hann er ennþá mikið veikur, var reyndar að koma út af Vogi en þurfti frá að hverfa eftir 10 daga þrátt fyrir að hafa verið 2 vikum áður við dauðans dyr vegna kókaínsofskamts, sem varð honum næstum að bana, en var bjargað fyrir horn af góðum vinum sem komu honum undir læknishendur. Já Vogur gott mál, 10 dagar og hvað svo? Gatan? Vík: lokað vegna sumarleyfa, Hlaðgerðarkot: skrifa niður nafn viðkomandi geta ekki gefið upp hugsanlegan innlagnartíma er það mánuður, ár eða fleiri ár? Krýsuvík: búin að hringja 4 sinnum og ítreka beiðni, sem maður gerir einu sinni í viku milli 10 og 12 ( mjög ólíklegt að sjúklingurinn sjálfur geti passað þann tíma). Ég skil þetta ekki, það kostar svo mikla peninga að hafa svona fársjúka einstaklinga úti í lífinu án lækningu eða án stuðnings og hjálpar.  

Ég hlýt því að spyrja er það sérstök pólitík að meðhöndla fíkla, geðsjúka og aðra sem hafa svona ekki forgangssjúkdóma eins og t.d. sykursýki, sem er svona rollsinn í sjúkdómum mundi ég segja, af því að þetta séu svo ósmartir sjúkdómar eins og mér þykir t.d. Trabant bíllinn vera?


Meðferðarúrræðin á Íslandi

Ég birti þessa grein fyrir stuttu í Kvennablaðinu og ákvað að setja hana hérna á bloggið, þar sem von mín er sú að hún hugsanlega lendi hjá ráðamönnum þjóðarinnar og þeir átti sig á að þetta er EKKI í lagi að hafa ekki nægjanleg úrræði fyrir þá sem eru það veikir að þeir eru hratt og örugglega að drepa sig.

það er ekki það auðveldasta sem móðir gerir, að skrifa um það að eiga son sem er fíkill. Það er erfitt að horfa uppá eymdina og lifa hana á eigin skinni, full vanmáttar sem fylgir því að vera foreldri fíkils. Ég er bara svo sorgmædd yfir því að hann fái ekki þá hjálp sem hann þarf.

Í samfélaginu læknum við sjúklingana okkar og við sem fjölskylda viljum ekki horfa aðgerðarlaus uppá barnið okkar kveljast. „Sonur minn er ekki illur maður“ segir Bubbi m.a. í texta í lagi sínu Syndir feðranna, ég tek undir það – sonur minn er ekki illur maður, en hann er mikið veikur, gerir margt sem við samþykkjum ekki í þjóðfélaginu og þarf hjálp og jú vissulega hefur hann farið í meðferð inná Vog í yfir 20 skipti.

Nú eru væntanlega margir sem hugsa: „Svona fólki er ekki viðbjargandi,“ en hann er sonur minn og ég elska hann eins og þið öll elskið ykkar börn, hann er bara mikið veikur og geti ég hjálpað mun ég gera það og geri mitt besta.“

Vilji hans til að þiggja meðferð gefur manni samt von. Guð minn góður hvað það er samt erfitt að geta ekki hreyft legg eða lið til að koma honum inn á einhvern stað til að hann fái þá hjálp sem hann þarf.

Ég ætla ekki að tíunda í þessari grein það sem ég hef reynt í baráttu minni fyrir betra lífi fyrir hann en þó það að ég hef keyrt hann um nótt í fangageymslur og látið loka hann inni þar til að lögreglan gæti farið með hann á Vog, en þeir eiga þar pláss af og til fyrir einn aðila.

Ég hef farið með hann á Slysó (eins og við köllum það) og reynt að fá hann lagðann inná geðdeild, en hann var ekki í geðrofi og þar af leiðandi ekki innlagnarhæfur, en minnstu munaði að ég færi í geðrof af reiði yfir því hversu máttlaust þetta blessaða heilbrigðisbatterí okkar er. Þá nótt keyrði ég hann í Laugardalinn í tjald sem hann bjó í þá og það var ekki ljúf nótt hjá mér.

Núna er hann búin að vera á biðlista hjá Vogi síðan í janúar og það eru fimm mánuðir. Margir hljóta að hellast úr lestinni við þessa bið og hreinlega deyja, því eins og í tilfelli sonar míns, þá versnar ástandið sem hann býr við með degi hverjum. Hann er búin að vera á götunni núna í einhver tíma og staðan í dag er eftirfarandi: Hann er kominn með pláss innná Hlaðgerðarkoti, en þarf að afeitra sig í 10 daga áður.

Hvað er þá til ráða fyrir mann sem býr á götunni. Jú, hann biður mömmu sína um að afeitra sig.

Ég talaði við fagaðila, og mér var sagt að ég ætti að verða mér úti um eitthvað lyf sem heitir ‘librium’ og afeitra bara krakkann. Já, já bara svona einhendis.

Mér þykir við ansi aftarlega á merinni með meðferðarúrræði – að það sé lagt í hendur mæðranna að afeitra fárveika fíkla – sem vita oft ekki í þennan heim eða annan.

Ég er enginn sérstakur nagli og langar ekkert að vera það, en ég get barist með kjafti og klóm og það ætla ég að gera. Ég er skelfingu lostin og finnst ég ekki ráða við þetta verkefni, er ein með hann hérna og hann hlýtur að fara að fara í fráhvörf.

Fagaðilinn sem ég talaði við benti mér á að fá ‘librium’ hjá heimilislækni mínum, en það tekur minnst viku að ná símasambandi við heimilislækna í dag. Fer ég með hann á læknavaktina? Hringi ég á sjúkrabíl ef hann fer í hjartastopp og fær hann þá hjálp eða verður hann látinn bíða, þar sem hann er ekki í forgangi?

Ég hef horft uppá unga fíkla og fordómana sem þeir fá á LHS en eflaust bara frekar af hræðslu við þá, eða vanþekkingu, ég skil það vel, ég er alveg á þeim stað sjálf núna.

Þarf ég að vakta hann? Já, heldur betur, ég þori ekki út úr húsi og er eiginlega bara orðin fangi heima hjá mér. Ég treysti ekki langt gengnum fíkli í neyslu sem er fastur í líkama sonar míns og ég þekki ekki og veit ekki hvers er megnugur í þessari hörðu neyslu.

Mamman blindast alltaf mest, því hún sér bara litla ljóshærða soninn með englaásjónuna á koddanum, en ekki harðgerðann fíkil sem hefur gert hluti sem mömmur vilja hreint ekki vita af.

Ég veit raunverulega ekkert hvað ég geri í stöðunni ef hann fær kast eða hvernig sem hegðun hans kann að verða þegar fráhvörfin fara að birtast. Ég segi: Við verðum að efla þetta meðferðarbatterí okkar svo við missum ekki börnin okkar í gröfina fyrir aldur fram.

 


Þvegillinn svikuli!

Ég lenti í því í febrúar að þurfa að láta þrífa gang og þvottahús ásamt smáþrifum í eldhúsi og baði í íbúð foreldra minna, vegna sölu á henni eftir andlát þeirra. Við fjölskyldan höfðum gert okkar besta, enda alvanir "þrifarar" þar á ferð en þannig var að foreldrar okkar reyktu í íbúðinni, svo þetta var allmikið verk. Nú við gáfumst upp eftir 3 herbergi, stofu, og þá var gangurinn, hluti baðs og eldhúss eftir sem og þvottahúsið.  Við fundum þessa líka flottu þjónustu á netinu hjá fyrirtæki sem heitir Þvegillinn og þetta væri nú ekki mikið mál, 20þús plús eða mínus, hugsanlega allt að 30 þús. gaf "þrifmaðurinn" okkur upp, nú við mættum og hleyptum honum inn og skruppum svo frá og komum síðar um daginn. Mikil urðu vonbrigði okkar við að sjá að brúnir taumar lágu niður alla veggi á ganginum. Hringdum í "þrifmanninn" og lofaði hann að koma aftur við en benti okkur þó á að honum þætti okkar þrif ekkert betri en sín. Við vorum ekki sammála og kom hann daginn eftir og við hleyptum honum inn fórum í eina búð og komum aftur á innan við hálftíma. Jú allir farnir, gólfið rennblautt og brotinn ljósakúpull í ganginum. Við þurrkuðum upp vatnið hringdum í manninn og spurðum um lokaverð, jú hann hafði verið 12 tíma (okkar tímatafla sagði 4 tíma) og verðið 30 þús. Svo kom reikningurinn og hljóðaði hann uppá 73þús. Við tóku nokkur kvalarfull og í meira lagi vandræðaleg símtöl við konu sem skellti á í annað hvort skipti, þegar við sögðum að "þrifmaðurinn" sjálfur hefði sagt hæsta lagi 30 þús. jú þetta var með vask og allskonar og miklu meiri þrif en til hafði staðið. Ég er mjög róleg að eðlisfari og hef unnið við innheimtumál í mörg ár, trúði ekki alveg systrum mínum, sem eru þó þokkalega kurteisar og stilltar. Hringdi í dag og fékk eftirfarandi svar frá "reiðu innheimtukonunni": "þetta er komið úr mínum höndum og komið í lögfræðiinnheimtu, en skal afturkalla ef þú borgar strax í dag". Ég sagði aumlega: "má ég segja þér þó eitt" "Reiða innheimtukonan":"NEI ég hef ekki áhuga á neinu sem þú hefur að segja." Ég benti henni á að ég væri þó viðskiptavinur, en henni var slétt sama, ég bað hana að ekki skella á mig, fyrr en ég væri búin að segja henni að ég ætlaði að skrifa um þetta, þá skellti hún á. Eftir sat ég titrandi og reiðari en nokkru sinni. Dró andann og taldi uppá milljón, en þar sem ég stend við það sem ég segi, öðruvísin en fyrirtækið Þvegillinn, þá skrifa ég þetta, ég hafði jú lofað henni því. 


"Óhreinu börnin hennar Evu"

"Aldraðir og öryrkjar" eru oftast nefndir saman sem ein heild, oftast tengt neikvæðri umræðu, sem flokkur sem er bara með vesen og usla. Ég sé ekki að 20 ára öryrki eigi neitt sameiginlegt með öldruðum, annað en vera settur í sama "ruslflokk" og ekki skrítið að fáir hafi mætt í mótmæli við Tryggingarstofnun Ríkisins í gær, þar sem fæstir vilja láta opinbera sig sem þetta "vesenisfólk" í þessum flokki. Fólk hefur bara frekar kosið að vera bak við luktar dyr, en að birtast opinberlega sem þessir "vesenistar" að krefjast mannréttinda eins og hver annar, á þess að þurfa í dag 2016?

Ég á aldraðan föður sem hefur alla sína ævi verið hress og heilbrigður og hafði aldrei farið til læknis fyrr en fyrir 2 árum, eftir andlát móður minnar, þá fór hann að kenna sér meins í hjarta  og víðar og fór á spítala, þar fannst ekki skrifaður stafur um hann, enda ávallt getað haldið sig heima, án lyfja og lækna. Hann fór í meðferð við krabbameini og sl. sumar og var svo slappur, að hann gat ekki verið heima eftir nokkrar tilraunir til þess. Hann endaði á Landakoti til endurhæfingar og var þar, þar til núna í janúar, en þá var hann orðin leiður og langaði að kíkja heim til sín, enda ekki komist heim um jól eða áramót. Nú hann var síðan of slappur og lasin til að komast aftur á Landakot og viti menn, þá var hann bara útskrifaður. Hann var of veikur til að komast á spítalann og því bara útskrifaður.

Við fengum að tala við félagsráðgjafa Landakots, sem tjáði okkur að við þyrftum að sækja strax um hjúkrunarheimili og skrifa undir fyrir hans hönd svo umsóknin kæmist strax í ferli. Ég skrifaði undir fyrir hans hönd, og var þeirri umsókn synjað strax á þeim forsendum að hann hefði ekki skrifað undir sjálfur. Félagsráðgjafinn tjáði okkur einnig að 200 manns væru á biðlista eftir hjúkrunarheimili, 100 sem væru innlagðir á spítala og 100 aðrir sem væru heima. Einnig sagði hún okkur að hún vildi bara vera hreinskilin og að einungis 30% þeirra á biðlistanum kæmust inn á þessi hjúkrunarheimili, hinir 70% lifðu ekki biðina af.

Nú er faðir minn í dag 87 ára gamall og er heima, hann getur ekki farið hjálparlaust fram úr rúminu og hann getur þar af leiðandi ekki náð sér í vatnsglas, hvað þá annað, hann á erfitt með að rísa upp úr rúminu. Hann fær heimahjúkrun og mat sendan í poka sem hengdur er utan á hurðarhún íbúðarinnar. Hann getur ekki sótt matinn. Við fengum synjun númer 2 á umsókn um hjúkrunarheimili á þeim forsendum að ekki væri komin nægjanleg reynsla á veru hans heima. 2 mánuðir rúmfastur eru ekki næg ástæða að þeirra mati til þess að samþykkja umsókn, hvað þá koma honum í þessa bið, ef hann yrði nú einn af þessum heppnu 30% sem komast inn fyrir andlát.

Ágætu drengir (og stúlkur) á Alþingi, þíð eigið eftir að eldast ef guð lofar og þið munið vilja fá að eldast með reisn og ekki vera uppá aðra komin. Ef þetta verður til að vekja ykkur til umhugsunar þó ekki væri, nema til að minna ykkur á það að þið eigið eftir að lenda í þessum "ruslflokki" sjálf.

 

 


Hvar er verkvitið?

Ég hef aldrei logið því að ég hafi verkvit í allskonar svona heimilisverkum, en nú brá svo við um daginn að ég fékk ógeð á sumarhúsgögnunum mínum sem voru öll farin að flagna og farið að skína í bert tré.

Ég skellti mér í Húsasmiðjuna og keypti hvítt lakk og nú átti að lyfta svölunum upp. Ég byrjaði reyndar á því að skúra svalirnar, hófst svo handa við að raspa gamalt lakk með sandpappír. Því næst lakkaði ég 2 borð og 4 stóla, en hundurinn á heimilinu lá í sófanum og horfði á mig, en hann er að fara úr hárum greyið og sækir mikið í að vera á svölunum og horfa á heiminn.  Hann rak sig í lakkið og missti ég rúmlega helming af því á nýskúruðuu svalirnar. (hef ekki fundið út hvernig leysa beri lakk af flísum)

Nú í dag ætlaði ég svo að fara umferð nr. 2 og viti menn húsgögnin voru öll loðin, enda hundurinn svartur labrador og stólarnir voru eins og þeir væru með gærum og líka borðplöturnar. Ég tók mestu hárin sem náðust og málaði yfir hin. Þurfti svo að færa eitt borðið milli staða og missti það ofan í blómaker, þar sem það lokaðist óvart.

Ég er núna með hvítt hár,hundurinn hvítleitur á köflum og blómin hvítlökkuð og ofan í loðnu borðin eru nú föst gul blóm. Ég gefst upp enda er farið að rigna.


Naglaævintýri í Florence

Ég er ein af þeim óheppnu að vera með neglur úr einskonar pappa eða einhverju mjög lítið sterku efni og þar sem ég er stödd í Flórens og neglurnar mínar afskaplega ræfilslegar þá sá ég þessa fínu snyrtistofu hérna rétt hjá og ákvað nú bara að skella mér, enda kostaði ekki lagfæring nema um 4.500.- krónur og ég er nú fastagestur í lagfæringum og tel mér trú um að ég viti nú eitt og annað um málið og  um snyrtimennsku á staðnum og svona, en ég á mér nú mína eigin naglakonu/snyrtifræðing sem skilur mig og ég hana og mun ég eigi gefa hennar nafn upp, nema það byrjar á E og ég segi ekki hina 2 stafina. Við erum á svipuðum aldri (gæti skeikað 15-20 árum) en hún er fullkomin fyrir mig og hlakkar mig alltaf að koma til hennar, í smástund í litun og plokkun og já neglur.

Þar sem ég mæti klukkan 7 um kvöld skv. tímapöntun tekur á móti mér mjög brúnn maður með sítt hár niður á herðar og mjóan hökutopp í útvíðum læknaslopp hnepptum niður á maga. Guð hugsaði ég með mér vonandi er hann ekki að fara að setja á mig neglur (blákalt=fordómar). Ok gefum kvikindinu séns hugsa ég með mér, en ég hafði ítölskumælandi dóttur mína með mér. Hann varð fyrir sjokki við að skoða neglurnar mínar og sagði að ég væri ekki kvenleg..(wriiiiiiiiiiiiiiiiily?) En það mundi breytast núna.

Hann hófst handa og ég hélt ég mundi andast þegar hann raspaði nánast upp að kjúkum, hélt að hann ætlaði í raun og veru að stytta puttana á mér. Svo var hann eitthvað að lufsast með einn bómullarhnoðra sem var uppleystur í frumeindir og allan tímann hugsaði ég til "minnar" konu heima hversu snyrtilegt væri nú hjá henni.

Niðurstaðan er svo þannig að ég þurfti að borga vegna þessara ógurlegu nagla minna 10.500.- en fékk ekta Swarovski stein frían, ég bað ekki um hann og langaði ekki í hann, en vildi ekki gera meira mál, svo hann færi nú ekki að gráta, en hann var gráti næst þegar ég gerði honum þann óleik að mæta með þessar neglur svona ósvífin.

Ég er með útvíðar neglur núna og ekki nóg með það, það eru gelklumpar undir þeim, þar sem hann fyllti uppí allt undir nöglinni að fingri og svo var hann alltaf að festa gúmmíhanskann sinn í líminu, þannig að ég er með búta úr gúmmíhanska líka í þessum hlunkum..

Ég er búin að panta tíma heima, enda með harðsperrur í fingrum og get ekki sett puttana saman.


Hugleiðing fyrir jólin.

Nú eru jólalögin farin að óma á fullu á einni útvarpsstöðinni sem varð til þess að ég fór að hugsa hversu erfiður tími þetta getur verið fyrir fólk.  Ekki eru allir svo heppnir að vera í góðri vinnu, heilsuhraustir og með heilbrigð börn og fjölskyldu. En við gerum svo miklar væntingar til okkar sjálfra á þessum tíma, allt skal vera hreint, bakað og já það sem jólin snúast að mestu leyti um, kaupa og kaupa allskonar dót og glingur. 

Nú eru svo margir sem eru atvinnulausir og geta ekki keypt mat handa börnunum sínum, hvað þá jólatré eða gjafir, þá hlýtur það að vera mikill streituvaldur að fara í Kringluna, allt uppljómað og verslunarhvetjandi, en viðkomandi á ekki peninga. þannig að við ættum aðeins að staldra við og setja nú gjöf undir tréð í Kringlunni, hljótum öll að geta gefið okkur tíma og gefið eins og 1 gjöf til að gleðja barn, sem ekki býr við þann munað að fá fullt af gjöfum, eins og við höfum kannski getað gefið okkar börnum og það öryggi, og fegurð sem í jólunum felst fyrir barnshjartað. Spenningur jólanna þekkist því miður ekki allstaðar í barni sem hefur verið alið upp við drykkju foreldra og óöryggi, það barn er hugsanlega spennt, en sú spenna er ekki af eftirvæntingu til jólanna.

Þeir sem misst hafa ástvini og eru hugsanlega einmanna, þá er þessi tími mjög erfiður, þar sem jólin eru nú sá tími sem allir njóta samvista við fjölskylduna. Foreldrarnir sem misst hafa barnið sitt úti í heim fíkniefna og eða áfengis, jólin eru nú ekki gleðitími hjá þeim.  Ég held að við ættum aðeins að huga að þessu nú þegar jólin nálgast og vera góð við náungann og þá sem við vitum að eiga um sárt að binda, ekkert mál að kíkja í kaffi og dvelja smá stund hjá gamalli frænku eða frænda.

Er aðeins orðin væmin í dag, en það gera jólalögin.

Verum góð við hvort annað eins og Hemmi Gunn sagði og bless, ekkert jólastress.


Fyrir hverja er leigumarkaðurinn?

Ég skrifaði grein um lífið okkar sem þurfum að lifa í þessari svokölluðu "Skjaldborg" sem heimilunum í landinu var lofað.  Ástæða þess að ég skrifa um lífið hérna í óörygginu, er nú bara til að vekja aðra til umhugsunar, því ég er ekki viss um að fólk geri sér grein fyrir hvernig lífið er í raun og veru fyrir okkur sem lentum svona illa í hruninu, að það breytti okkar lífsgæðum á þann hátt að ekki sér enn fyrir endann á því.

Þannig lítur þetta út fyrir mér, að við hinir almennu borgarar erum að basla við að semja um skuldir okkar og reyna að bjarga alla vega þeim málum, sem ábyrgðarmenn eru skráðir fyrir.  Ég skil ekki enn að stjórnvöld hafi ekki séð það fyrir árið 2008, þegar þúsundir misstu vinnuna sína, að eftir 3-4 ár þá hljóta þessir aðilar að lenda í greiðsluvanda svo stórum að húsnæði þeirra fari í hundraðatali á uppboð, sem og bílar og aðrar eignir.  Jú vissulega var fólki bent á að fara til Umboðsmanns Skuldara, sem og ég gerði, það tók 2 ár að skoða mína pappíra og ég fékk að fara í greiðsluskjól, en hversu margir hafa fengið raunverulega þá hjálp án þess að mannréttindi þeirra séu hreinlega brotin, en til að standast það ferli að fá samning, þá  máttu ekki lenda í neinu óvæntu, því þá áttu á hættu að verða rekin úr skjólinu (sem gerðist í mínu tilfelli). Skv. talsmanni hjá UMS eru 4820 sem hafa sótt um greiðsluaðlögun, 661 beiðni hefur verið synjað, 605 samningar hafa verið afturkallaðir, 401 umsókn hefur verið lokað án samninga, 426 samningar hafa verið niðurfelldir 331 samningur er í mati og 1898 aðilar eru með samninga sem enn eru í gildi, en við erum að tala um að það eru 5 ár frá hruni og ég get ekki séð að þetta sé nein töfralausn.

Nú þegar íbúðirnar okkar hrannast á uppboð þá spyr ég hvar er þessi leigumarkaður, sem ætti í raun að vera orðin stórfelldur? Þar sem við erum nú hugsanlega flest komin á vanskilaskrá (mjög skemmtilegur endir á fjármálaferli) þá velti ég því fyrir mér hvernig við eigum að geta skilað inn ábyrgð fyrir 3. mánaða leigu með atvinnuleysisbótum, en leigan á meðal  íbúð er allt að 250 þúsund kr. á mánuði og þá í útleigu hjá Íbúðalánasjóði fyrir 3. herbergja íbúð. Ég velti þessu bara fyrir mér, hefur engum stjórnmálamanni dottið í hug að út á götu fara að birtast heimilislaust fólk sem er kannski ekki til í að setjast að þar. Að Íbúðalánasjóður skuli krefjast þess að leiguliðar séu ekki á vanskilaskrá, þá er þetta ekki lausnin fyrir okkur sem erum að missa okkar eignir útaf hruninu. Hver fer viljandi á húsaleigumarkaðinn, ef ekki fyrir tilstilli hrunsins og þá hverjir eru þá ekki komnir á vanskilaskrá sem þurfa á þessum leigumarkaði að halda. Alla vega ekki ég. 

Já maður verður nú samt að nota tíma í breyttu lífi til að bæta sjálfan sig og gera eitthvað uppbyggilegt, því ósjálfrátt breytist forgangurinn hjá manni, og hlutir eins og kaffihús,  læknaheimsóknir, reglubundin krabbameinsskoðun, tannlæknar og hársnyrting eru ekki með í "budgetinu" svo ef þú sérð illa "hárhirtan" einstakling með skemmdar tennur og hugsanlega utanáliggjandi æxli, þá dæmið eigi, þetta gæti bara verið atvinnulaus einstaklingur ég eða þú.

 


Lífið í "Skjaldborginni"

Lífið í skjaldborginni, er líf sem ég óska engum að lifa í, en í dag 2013 eru svo margir annmarkar á því að hægt sé að láta sér líða vel að ég veit ekki alveg hvar skal byrja.

Ég er ein þeirra sem missti vinnuna mína í hruninu 2008, enda starfsmaður í Íslandsbanka á þeim tíma og var nú ekki ein um það, enda hundruðir sem lentu í því líka, en hef ég þó verið það heppin að fá vinnu af og til tímabundið.  Þar sem ég hef sl. 30 ár starfað á fjármálamarkaði eingöngu, þá eru nú ekki miklar líkur að fá vinnu við mitt hæfi, enda ennþá verið að segja upp fólki í banka og fjármálageiranum.

Ég nýtti þó minn tíma í að læra aðra starfsgrein sem ég taldi að mundi gefa af sér vinnu þegar fram líða stundir í ferðamálageiranum og bind ennþá vonir við að fá vinnu í þeim geira.

Nú þar sem ég hef alla mína ævi verið hinn skilvísi greiðandi og bætti við mig vinnu, ef ekki dugðu launin fyrir dagvinnuna, þá er mjög skrítið að lenda í því fyrir "fyrrum skilvísan strangheiðarlegan" bankamann að vera allt í einu komin í vanskil út um allan bæ og vera meðhöndluð sem ég hef aldrei upplifað áður sem einskonar "skuldaglæpon" eins og ég hafi komið mér í þessa stöðu sjálf með einbeittum brotavilja.  Enginn samningavilji er fyrir hendi hjá stofnunum, enda svo sem ekki mikið um að semja með kr. 153 þús útborguð laun sem atvinnuleysingi.

Ég upplifi að sjálfsögðu kvíða fyrir framtíðinni, en hvað verður um mann, þegar íbúðin fer á uppboð. Get ekki alveg skilið hvað verður um allt það húsnæði sem fer á uppboð, ég er búin að skoða leigumarkaðinn og hjálp með þessi laun hef ég efni á kjallaraherbergi.  Ég sem hélt alltaf að ég mundi lifa ágætislífi og hætta að þurfa að basla þegar börnin mín væru komin á legg, hef borgað minn viðbótarlífeyrissparnað, sem er nú að mestu uppurinn, þar sem ég er búin að taka hann út á þessum árum atvinnuleysis.

Allstaðar finnst mér ég lenda á vegg, ég hef þurft að borga tryggingar af bílnum mínum fyrirfram kr. 155 þús, þar sem mér er að sjálfsögðu ekki treystandi til að borga þær smátt og smátt svona atvinnulaus og siðlaus sem ég hlýt að vera. Það er ekki gott þegar það eru rúmlega mánaðarlaunin mín. Ég var líka rekin úr greiðsluskjóli vegna vangetu til að standa í skilum, en ég lenti í óvæntri greiðslubyrði vegna fjölskyldumála og það er ekki leyfilegt í greiðsluskjólinu. Svo nú velti ég framhaldinu fyrir mér. Hvað verður um okkur þetta venjulega fólk sem lendir í þeim harmleik að missa vinnuna og lendir í þeirri stöðu að allar okkar skuldbindingar eru vanefndar og allt það góða fólk sem í góðri trú skrifar uppá ábyrgðir okkur til handa, enda við ekki orðnir meintir "fjármálaóreiðumenn" á þeim tíma er til skuldarinnar var stofnað, hvar stendur það gagnvart okkur?

Ég vona að mér verði bjargað úr þessari Skjaldborg, kæri mig ekki um að vera hérna, enda ekki gott að vera hérna. Bíð ennþá spennt eftir áhyggjuminna lífi þegar fram liða stundir og skrifa þetta aðeins til að benda á stöðu okkar, en alltaf er verið að tala um að bæta stöðu skuldsettra heimila, ég hef ekki séð mína stöðu batna ennþá.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband