Færsluflokkur: Dægurmál

Uppátækin ýmisleg

Sonur minn títtnefndi var mjög svo uppátektarsamur þegar hann var yngri, hann þurfti alltaf að prufa allt, sem hann fékk "pata" af að væri hættulegt, eða helst bannað. 

Hann tók til einu sinni á heimilinu og henti bara vikursteinunum sem voru á svölunum niður á götu (bjuggum á 2. hæð  og já nýflutt þangað) af því að þá væri svo auðveldara að fara með þá þaðan í ruslið. Auk þess henti hann nokkrum "óbrjótandi" glösum niður líka til að kanna hvort þetta væri nú satt að þau stæðu undir nafni (þau gerðu það ekki, ekkert af þessum 5 sem hann henti niður)

Konan á neðstu hæðinni sem átti garðinn hélt að einhverjir brjálæðingar væru fluttir, því hann framkvæmdi þessa aðgerð um nótt, um sumartímann, ákvað að taka til á svölunum fyrir mömmu sína áður en hún vaknaði. Það var boðað til húsfundar hið snarasta. (ég sá mér ekki fært á að mæta) 

Hann var alltaf að koma heim með allskonar stuff eins og orma sem hann setti á spýtu undir rúmið sitt. Gargaði svo 2 dögum síðar: "hver tók ormana mína?" Já einmitt!!! ég þurfti að fá utanaðkomandi hjálp við að týna þurra ormana upp! ojjjjj 

Við bjuggum á þessum tíma í Grafarvogi og hann uppgötvaði mér til skelfingar einhverja laxeldisstöð í nágrenninu og var nú ekkert smá stoltur að bera björg í bú eins og hann kallaði það (nýbúin að heyra þenna frasa) og vildi endilega hjálpa. Laxinn var viðbjóður á bragðið, en ég eldaði einn, og setti nálgunarbann á laxeldið. Lét hann fyrstan smakka og hvílíkt lýsisbragð, honum fannst laxinn góður, engum öðrum, en hann var alltaf að koma heim með eitthvað svona "stuff" misónytsamlegt.

Hann hlýddi mér alveg  með laxveiðarnar, en þá uppgötvaði hann nýjan ævintýraheim, Sorpu eða öskuhaugana. Nú fóru að berast bílhurðir, hátalarar, grammófónar og fleira mjög þungt dót (bráðnauðsynlegt á hvert heimili), sem hann bar uppí herbergið sitt. Þegar ég meðfærilega jafnaðargeðsmóðirin trylltist yfir þessu, þá fór hann með það til vinar síns og gaf honum. Sá var jafn hrifin, en mamman svo vanþakklát eins og hann sagði.

Hún bannaði honum að koma með þetta rusl heim til sín, en þá fékk sonur hennar góssið bara innpakkað að gjöf......eða eitthvað mér var sama svo lengi sem þetta var úr minni augsjá.

Mikið var ég glöð þegar hjólbörunum var stolið og hann gat ekki selflutt þetta bráðnauðsynlega dót af sorpu lengur. 

 


Sparnaðarráð "hryðja"

Börnin mín lærðu snemma að taka þátt í lífinu með mér, en þegar við ákváðum að skella okkur til Spánar eitt sumarið, þá fengu þau að taka þátt í að safna fyrir ferðinni með mér, við að pakka bréfum í umslög, og þetta sátum við saman við á kvöldin og pökkuðum yfir sjónvarpinu. (Barnaverndarnefnd mundi væntanlega ávíta mig í dag fyrir barnaþrælkun)

Sonurinn tók þetta á allt annað plan en dóttirin, enda hún nú reyndar bara 8 ára um þetta leyti. Hann tók á þá ráð að safna flöskum og dósum og skellti  sér svo bara í strætó með "góssið" í 3-4 svörtum plastpokum. Ekkert að flækja málið bara einhenda sér í hlutina strax, ekkert að blanda mömmu sinni í sínar fjármögnunarleiðir.

Nú ég fór um þetta leyti með þau börnin í Borgarleikhúsið og fékk vinkonu mína með mér, en þurfti helst alltaf að hafa svona "backuppara" ef ég þyrfti að hendast út í hlénu og skilja stelpuna eftir ( já maður lærir svo lengi sem maður lifir)

Eftir hlé bólaði ekkert á "hryðja" og vinkona mín komin með andarteppu af áhyggjum, meðan ég og dóttirin alvanar, prúðbúnar og slaufum prýddar biðum bara eftir uppkallinu sem iðulega kom eftir að hann hafi verið týndur einhvern tíma á svona almenningsstöðum.

Ekkert nafnakall kom og leikritið byrjaði, mér leist nú ekkert á blikuna en þegar ég heyrði einhverjar skruðningar í hinum enda salsins, bað ég allar vættir um vernd og kom ekki "hryðji" vopnaður 3 svörtum plastpokum, fullum af dósum með tilheyrandi látum og fyrirferð yfir allt fólkið í hálfa sætaröð. Það horfðu allir á okkur og sussuðu. Ég leit á fólk á móti með hneykslunarsvip og eins forstokkuð og hægt er að vera, alveg hneyksluð á þessu barni (hefði sennilega selt það á staðnum ef það hefði boðist) Þóttist ekki þekkja pokabarnið og horfði á vinkonu mína eins og hann væri alveg á hennar vegum.

En sætavísan kom samt og talaði við mig  og bað mig að skila þessum ruslapokum, þar sem þeir væru í eigu leikhússins. Ég var alls ekki föl á litinn, þegar ég skrötli fram hjá sætaröðinni með 3 ruslapoka með þeim háværustu dollum sem ég hef fyrir hitt.

Held við höfum verið að sjá Ronju ræningjadóttur, man það þó óglöggt.

Nú hann lét þetta bakslag nú ekki stoppa sig í fjáröfluninni. Fékk hjá konu pabba síns gefins sælgætiskassa og fór nú um hverfið okkar í söluferð á "góssinu"

Hann lenti í einni söluferðinni á samstarfsfélaga móður sinnar, sem spurði hann til styrktar hverju eða hverjum hann væri að selja, því það væri venjan að ef verið væri að ganga hús úr húsi og selja þá ætti það að vera til styrktar einhverju góðu málefni.

Ekki stóð á svarinu: "jú til styrktar mömmu minni og systur sem eru að fara til Spánar"

Mér fannst mjög gaman í vinnunni daginn eftir, þegar ég var spurð hvort sonurinn fengi virkilega ekki að fara með til útlanda, heldur væri sendur í söluferðir til styrktar mér og dótturinni.


Hvatvísin getur orðið manni að falli

Ég hef oft áður sagt að ég sé smá fljótfær, hvatvís og óþolinmóð brussa og þetta getur haft mis slæmar afleiðingar í för með sér.

Ég fékk að kynnast því eitt sinn, þegar ég í fljótfærni hafði smurt drjúgum slatta af kremi í andlitið á mér án þess að kanna nákvæmlega um hvað krem var að ræða.

En þannig var að við vinnufélagarnir vorum að fara út að borða á einn svona frekar fancy stað eftir vinnu og ákváðum við vinkonurnar að hittast áður heima hjá einni og taka okkur til eftir vinnudaginn og fríska aðeins uppá útlitið og fá okkur smá rauðvín áður en haldið skyldi út að borða.

Ég er með þurra húð og var eitthvað óvenju slæm þetta kvöld svo ég fann eitthvað krem inná á baðherbergi og fékk mér slatta af því, til að minnka þurrkin og sagði við vinkonu mína þegar ég kom fram af baðherberginu. "Fékk mér smá krem sem ég fann þarna var það ekki í lagi?" jú jú auðvitað var það í lagi.

Við héldum svo á fyrirhugaðan veitingastað, þar sem hinir vinnufélagarnir voru þegar komnir og biðu okkar á rökkvuðum barnum. Við sátum þar góðan klukkutíma og trítluðum þá inní vel upplýstan salinn, þar sem hópur danskra karla sat á næsta borði við okkur og fannst mér þeir eitthvað vera að pískra og glápa á mig.

Noh hugsaði ég með mér drjúg með mig. Mér hefur nú heldur betur tekist upp með útlitið í kvöld og svo brosti ég mjög blíðlega til þeirra.

brunka

 

Þegar ég svo tók matseðilinn frá andlitinu, æpti vinkona mín upp og sagði: "hvaða krem notaðirðu í andlitið?" jú þetta glæra frá Guerlain sagði ég. Já en það er brúnkukrem sagði hún og allt borðið mitt lá í hláturskrampa. Mér var ekki skemmt og tók servéttuna og setti fyrir andlitið og labbaði fram á snyrtingu eins og múslimakona, þannig að rétt sást í augun.

skítugur

 

Ég var eins og krímugur krakki í framan, illa skítug og ekki einu sinni jafnsvört heldur alveg skellótt og mislit. Ég safnaði saman dekkstu meiktegundum stelpnanna, smurði þeim á mig og leit nú út eins og Wesley Snipes ljóshærð og svört í andlitinu.

Djöfuls dónar eru þessir Danir annars...... 


Ekki sama Jón og séra Þingmaður!!

Hjálpi mér allir heilagir hvað fólk getur verið aumkunarvert yfir frægðarljóma þekktra manna.

nurse 

Ég var stödd í Hagkaup Garðabæ í dag, þar sem boðið var uppá frábæra þjónustu í að mæla kólestról og blóðþrýsting. Ég beið heillengi í röð, meðan sú sem mældi kólestrólið var að ræða við mann á besta aldri og gaf honum alveg mjög rúman tíma og skýrði niðurstöðurnar vel út fyrir honum (sem mér fannst frábært).

Nú var röðin komin að mér og ég settist í stólinn hjá konunni sem var búin að afgreiða mannin og þá kemur þingkona labbandi inn og hin kólestrólmælandi kona sem ég sat hjá nánast henti mér útaf stólnum, því henni var svo í mun að fá þingkonuna í stólinn og mæla kólestrólið hennar. Eflaust miklu meira spennandi kólestról þar á ferð, en í svona meðalmanneskju eins og ég er svona alveg óþekktur sótsvartur almenningur.

hjukka

Þetta var nú frekar pínlegt og vesalings þingkonan spurði hvort hún væri nokkuð að troðast framfyrir okkur "hitt fólkið" nei nei við vorum einskis virði og gátum bara beðið. Hjúkkan sagði mér að hinkra bara meðan hún tæki þingkonuna fram fyrir mig, en hún var sko búin að stinga mig og henti mér sem sagt nánast í burtu með nálina í fingrinum. 

 Ég hafði nú beðið slatta tíma eftir að ég væri afgreidd, svo ég beið talsverða stund í viðbót og sá að hún ætlaði að fremja aðgerð á þingkonunni án þess að virða mig viðlits, alveg rauð í framan af spenningi yfir þessari heppni sinni, svo ég labbaði nú bara í burtu óviss um hvort ég sé dauðvona af háu kólestróli, eða ekki. Þingkonan fékk góða meðhöndlun, en ég dauðvorkenndi henni, sá alveg að henni var ekkert um þennan sleikjuhátt gefið.

Fegin er ég að hafa ekki þessa stjörnudýrkun meðfædda. Hvað mundi gerast hjá svona fólki ef Brad Pitt kæmi nú labbandi!!!Hjálp krullast upp við tilhugsunina og fæ kjánahroll fyrir allan peninginn.


Hætturnar leynast víða

Ég fór í Ikea í gær, sem er nú ekki í frásögur fæarandi, enda staðurinn annálaður helgarstaður okkar Íslendinga.

Það var jólastemming í loftinu þar í gær og jólailmur og troðfullt af fólki og greinilegt að allir eru komnir í jólagírinn snemma í ár.

Þar sem ég ýti á undan mér níðþungri kerrunni fullri af "nauðsynjum" til jólanna, þá finn ég allt í einu hvar buxurnar toguðust niður um mig. Ég hafði fest þær í kerruhjólinu og þær toguðust niður um mig.

 Já ég stóð þarna og gat ekki hreyft mig innan um mannfjöldann og ekki var hjálp að fá hjá vinkonu minni sem emjaði úr hlátri yfir þessum óförum mínum. Mér fannst þetta nú ekki eins fyndið að vera föst við 110 kg þunga kerru og sá fram á að þurfa að láta klippa mig frá henni.

En ég gafst ekki upp og hoppaði á annarri löppinni inní næsta eldhús og hóf að losa mig og það tókst að lokum með því að rífa þær af við hné eða svo. Næst fer ég með hjólaband um ökklana og jafnvel með skæri í vasa.

Við ákváðum svo að fara að fá okkur að borða enda einn af fáum matsölustöðum sem venjulegt fólk hefur orðið efni á að heimsækja.

Það eru alltaf útlendingar að afgreiða í matsölunni sem er í góðu lagi min vegna, en verra að það er ekki alltaf skilningur á því, hvað verið er að biðja um.

Ég bað um  10 kjötbollur og kjúkling. Konan sagði eitthvað óskiljanlegt og ég hváði. Hún endurtók: "vittu sósogsuttu?" já takk sagði ég.  Svo skellti hún einhverju gumsi á disk og ýtti að mér. Ég ýtti því til baka og sagðist vilja kjúkling ekki þetta.

Hún ýtti disknum staðfastlega til baka og sagði: "þú segja kjúklingaréttur og þú BORÐA kjúklingaréttur" ok sagði ég smá hrædd og spurði vinkonu mína ætli ég megi fá mér hvítvín með "kjúklingaréttur"? Þetta var eiginlega bara viðbjóður þessi kjúklingaréttur og kús kússið. Ég hata kúss kúss.

Næst!! muna að panta  bara kjötbollur "sósogsuttu"


Hin ýmsu "horunarkitt"

Er það nú ekki þannig þó svo að við konurnar viljum ekki viðurkenna það, að við viljum vera grannar og flottar. Ég hef nú útlistað það hérna áður að ég á ættir mínar í móðurætt að rekja til Fáskrúðsfjarðar og sú ætt er dökk, franskútlítandi og er smáfólk upp til hópa. Svona rétt rúmlega málbandið á hæð flestir.

thin_thighs-192x300.jpg

Svo er það að það reynist erfitt að virka hávaxinn og grannur ef maður hefur segjum bætt á sig nokkrum grömmum, eftir jól og páska og svona oftar en ekki. 

Ég var að fara á árshátíð með vinnunni minni og ætlaði nú að tjalda mínu flottasta, vera í háum hælum, "Shock Up" og aðhaldssundbol. (jesús hvað ég yrði grönn) verst að ég er nú ekki svo há til hnésins, en með 12 cm hælum yrði ég hávaxin eða 176,5cm (það er hátt)

Við vinkonurnar ákváðum að hittast áður en haldið var út úr bænum, þar sem árshátíðin var haldin í Borgarnesi á hótelinu þar.  Við skelltum okkur í snyrtingu og límdum gervineglur á mig,  lökkuðum okkur og gerðum okkur fínar. Fórum svo í greiðslu í Borgarnesi og máluðum okkur inná herbergjum saman í hóp með rauðvín í glösum. 

En nú vandaðist málið örlítið, en það er erfitt að koma "Sjokkuppi" upp lærin á sér með "eigins" neglur, en gervineglur eru allt annar handleggur. Ok ég hringi í móttökuna og panta gúmmíhanska með rifflum. Stúlkan sagðist nú ekki hafa það í boði, en lofaði að reyna hvað hún gæti.

Á meðan skellti ég mér í hitt "horunarkittið" sem var ennþá meir viðbjóður að troða sér í, hvaða fáviti (lesist: greinilega ekki kona) hefur hannað þetta drasl, ég meina það voru smellur og þurfti gott betur en eina armlengd til að ná til þeirra við lokun á meintum sundbol/(horunarkitti) og bíddu átti ekki að vera aðhald yfir rassinn, ekki bara lína eins og strengur yfir tunglyfirborð? Ekki var heldur gert ráð fyrir brjóstum á þessu drasli, svo ég var orðin skorin á öxlunum við að reyna að koma þessu saman.

Skrifaði kvörtunarbréf í huganum til framleiðandans, fólksins í fyrirtækinu og til landsins sem þessi ósköp voru hönnuð (Berlusconi skyldi nú fá eitt vænt hótunarbréf líka). Ætli ég hafi keypt þetta of lítið kannski? Nei hún sagði að þetta mundi minnka mig um 2 númer. Mig vantaði að minnka mig alla um 2 númer ekki bara eina rönd og mittið.

Nú bankaði einhver og ég stökk fram eldrauð af áreynslu og í slopp (en frekar grönn á svipinn) tók við gúmmíhönskunum eins og það væri eðlilegasti hlutur að panta gúmmíhanska á hóteli (held að stúlkan hafi kannast við sjokköppdæmið). Nú ég rúllaði þessu faglega upp með gúmmíhönskunum upp á mið læri, en þurfti þá að draga andann og þá rúlluðu þær niður í einum rykk niður að hnjám.

Ég tók svo tilhlaup með hjálp vinkvenna minna og upp fóru sokkabuxurnar, en guð ég var að fara í mat og drykk....ætli það sé hjúkka hérna hugsaði ég stíft og reyndi að muna hvað makar vinnufélaganna gerðu, til að setja upp þvaglegg hjá mér, ég meina ég er ekki að fara að stunda neinar klósettferðir í þessu. (of seint að spreyja bara brúnkukremi á fæturna) Vinkonurnar hristu hausinn og sögðu þú ferð ekki í þessu. Jú jú sagði ég, þið sjáið bara um þetta, þetta hlýtur að liðkast með tímanum ekki satt?

Ég fer svo niður og vinkona mín sá um alla mína drykki, svo ég (þá meina ég hún) þyrfti ekki að fara að rúlla þessu sjokköppsdæmi upp aftur. En hún lenti nú í því nokkrum sinnum að koma með mér upp á herbergið, þar sem betri aðstaða er að rúlla upp svona atriði liggjandi í rúmi. (held að við höfum báðar grennst þetta kvöld við allt þetta flandur)

laeri_malband.jpg

Svo þegar ballið var búið og við sátum og spjölluðum spurði vinkona mín mig. Hvernig er þetta drasl naglalakk á þér? mitt er allt krullað. Ég horfði stolt á mínar gervineglur og sagði: "veistu mitt er bara fullkomlega fínt, enda ekki ég búin að berjast við sokkabuxur í allt kvöld". Ég  komst svo að því þegar ég háttaði og stækkaði um alla vega 4 númer þegar ég spratt út úr horunarkittinu, að það var öfugt, og alveg fullt af plássi fyrir rass og brjóst og svona. Næst muna að nota gleraugu við klæðun!


CSI Crime scene/hamfletting

Ég hef reynt að búa mér til mína eigin hefð, eftir að ég varð einhleyp og ákvað að taka í hefðina frá minni æsku rjúpurnar. Hafa rjúpur á aðfangadag og einhvern daginn mundu svo börnin mín minnast á rjúpurnar hennar mömmu og sósuna sem var alltaf best hjá henni (fæ gjarnan svona ofurtrú á mér, þegar ég byrja á einhverju nýju).

rjupa.jpg

Ég fékk rjúpur frá mági mínum og varð nú ekkert smá glöð og þurfti bara að "hátta" þær eins og mamma sagði alltaf, eða "hamfletta" EINMITT JÁ BARA!! Ekkert mál sögðu allir, klippir bara hausinn af og flettir hamnum af.

Ég hugsaði nú með mér að þetta yrði nú ekki mikið mál fyrir mig sem allt getur (þar til annað kemur í ljós). Ég klippti hausinn af, en úps! Það hrundi hálfur Hallormstaðarskógur yfir mig og út um allt (rjúpur að austan) já alveg rétt fóarnið er alltaf fullt af stuffi. Svo klippti ég vængina snyrtilega af og hóf að "klæða" kvikindið úr, en það var einhver fyrirstaða og ég hafði nú ekki fengið neinar upplýsingar um það, þrátt fyrir nána útlistun á hvernig maður bæri sig að, svo ég klippti þetta nú bara. Fiðrið fór út um allt og ekki gat ég tekið það úr hárinu á mér og af augnhárum, þar sem gúmmíhanskarnir voru allir í blóði. En þetta hafðist 1 rjúpa frá og 7 eftir.

Tók næstu rjúpu og var við öllu tilbúin þegar fóarnið klipptist í sundur, engar barrnálar hérna út um allt takk fyrir. 

Var nú komin með talsverða þekkingu á rjúpnaskrokknum. (ætti ég kannski að læra til fuglafræðings?)  Fór út með ruslið og leit í kringum mig. Eldhúsið leit út eins og crimescene úr CSI, allt í blóði, fiðri og barrnálum út um allt. En það versta var afstaðið og íbúðin hálf ónýt, ég var með 8 fínar rjúpur og gleði mín í hámarki, er ég uppgötvaði að það voru engin læri. Voru engar lappir á þessum rjúpum? Ég minntist þess að hafa fengið að borða lærin hjá mömmu þegar hún var að elda sínar rjúpur. 

crime_scene.gif

Í dauðans ofboði hringdi ég í heimildarmann minn sem hafði sagt mér hvernig ég átti að bera mig að og sagði að það vantaði lærin. Ég lísti þessu í smáatriðum hvernig ég hefði "skrallað" þær og þegar ég kom að fyrirstöðunni sagði hún fyrirstaða? "bíddu það eru lappirnar" já takk einmitt það já, ekkert að láta mann vita af því. (hætt við fuglafræðinámið!hentar mér greinilega ekki)

Ætli þeir selji rjúpulæri í Nóatúni? rjupa_tilbuin.jpg


Húsmóðursgenin hvar eru þau?

Ég vildi svo gjarnan að ég væri þessi alltumvefjandi húsmóðir, sem hefði notað tímann í atvinnuleysi mínu núna til sultugerðar, elda eftir uppskriftum, lært að gera sushi, bollakökuskraut og bútasaum Ég er ekki sú húsmóðir, kann þó alveg að elda, en mér hættir til við að ofnota það sem ég læri, ef mér tekst t.d. vel upp með einhvern rétt eftir uppskrift.

Þannig var það með Sesar salatið mitt, sem ég hafði í 2 ár annan hvern dag, nú og bananabrauðið sem ég fékk frá vinnufélaga mínum og ég baka öllum stundum og er búin að gera það að "fræga bananabrauðinu mínu" sem er svo alls ekki mitt heldur stolið af yndislegum sárasaklausum vinnufélga. Skil þó ekki hvað ég á mörg hálf brauð í frystinum, ætli heimilisfólkið sé búið að fá uppí kok af því?  Er alveg að fara að finna nýja uppskrift.

sesarsalat.jpg

Ég fæ heldur aldrei að gera neitt spennandi þegar við systurnar bökum Sörur. Ég er alltaf send í búðina að kaupa einn og einn hlut. Alltaf þegar ég er komin í stellingar að gera nú eitthvað flott og vera svona alvöru með í bakstrinum, þá vantar eitthvað annað úr búðinni. Já "æmontúðem" búin að átta mig að ég er ekkert nauðsynleg við þetta mikilvæga.  Ég er kannski smá hroðvirk, (get viðurkennt það) ég fæ þó stundum að setja súkkulaði á ljótustu kökurnar og fæ líka að eiga þær.  Rjóð af stolti býð ég mínar eigin Sörur (kökur með karakter eins og sagt er þegar eitthvað er ljótt) og segi já hristi þetta bara fram úr erminni svona með jólakortagerðinni.

Já jólakortagerðin hófst við atvinnuleysi númer 1 í hruninu, þegar ég missti vinnuna í Október 2008 og þá skildi nú sparað í svona allskonar... ég fór í Föndru og viðaði að mér allskonar efnum, glimmeri og stuffi sem þarf í kortagerð. 

lina_rut.jpg

Ég settist niður titrandi af eftirvæntingu (kannski var þetta minn nýji vettvangur, fæ pantanir frá fólki sem hefur fengið kort frá mér og ég byrja bara í janúar að gera fyrir fólk kort, þarf aldrei að vinna aftur úti hugsaði ég með mér) og gerði nokkrar "pródótýpur"stældi Línu Rut og allt, ætlaði að gera svona jólasokka á snúru, en þetta leit út eins og tyggjóklessur með glimmeri á bandi.... fékk nokkrar afboðanir með kort eftir jólin, voðalega kurteisislegt...vertu ekkert að senda mér kort elskan, á svo mörg og svona, sé að þú hefur lagt rosalega vinnu í þetta ble ble ble. Ég nota þetta núna sem hótun: "sendi þér heimagert kort ef þú ert svona leiðinleg".

Ég skil nú fyrr en skellur í tönnum, svo ég hugsaði mér, ok ég er ekki með listaverkagenið í mér og fer aldrei í spor Línu Rutar, svo ég ákvað að skella mér á skrautskriftarnámskeið og nú mundi fólki vökna um augun yfir fegurð jólakortanna minna. En eftir 3 kvöld og 2 rauðvínsflöskur var afraksturinn 4 kort (einstaklega fallega skrifuð) og krampi í puttum  og sár á vör, vegna einbeitingar.

Ég setti í þau kort "ATH! kort þetta gildir til ársins 2011". Já þarf að fara að huga að kortagerð þetta árið, allir hinir fengu eðlilega skrifuð kort, en mér finnst ég skuldbundin þessum 4 heppnu kortaþegum  að gera betri kort í hvert sinn... Ætli það sé erfitt að hekla kort eða bútasauma? ljott_kort.jpg


Kókhaldari veit fólk hvað það er???

Ég er meðvirk, hef svo oft rekist á það, hef alveg reynt að fara og "afmeðvirkjast" en svo koma svona atvik sem ég bregst við eins og ég ætti ekki að gera ef ég hefði alveg stjórn á meðvirkninni, sem mér finnst reyndar reglulega leiðinlegt orð.

Ég var með saumaklúbb, þegar berlega kom í ljós hversu meðvirk ég var, en ég fékk símtal um tíuleytið og svaraði eins og ekkert hefði í skorist: "já gott mál elskan þú kemur þá bara heim, þegar búið er að skera þig úr bíóinu" svo settist ég bara og ætlaði að fara að spjalla. Stelpurnar vildu nú fá að vita hverju þetta svar mitt sætti. Ég sagði þá bara að "skaðræðið" sonur minn væri fastur í sætishöldu í bíói og verið væri að bíða eftir slökkviliðinu með klippur til að ná honum úr sætinu.

kiddi_glaepur.jpg

Þær horfðu á mig eins og ég væri viðundur og sögðu að þeirra börnum seinkaði, af því þau misstu af strætó, þá sló það mig já ég er meðvirk eiginlega kannski mjög svo. Mér fannst þetta nefnilega svo eðlilegt.

Skaðræðinu sagðist svo frá: Hann hafði prufað að setja höndina í kókhaldarann í Regnboganum, eftir áskorun frá vini sínum, en hann náði ekki að losa sig aftur. Starfsfólkið var allt komið til hjálpar og ein stúlkan sagði að þetta hefði gerst einu sinni áður, en hún mundi ekki hvað var notað til að losa hann, en þá segir "Skaðræðið" þá var notuð poppkornsolía. Já varst það þú líka þá? spurði stúlkan. Jebb var svarið, en þá fékk ég ekki að eiga "kókhölduna" heldurðu að ég megi það núna?

Nú var komið langt fram yfir áætlaðan bíótíma og bíógestir beðnir að sýna biðlund, þar sem barn væri fast í sætinu, og beðið væri eftir slökkviliðinu með klippur til að klippa sætið og fara með strákinn fastann með sæti á hendinni út, svo hægt væri að hleypa gestunum inn í salinn.

Það þurfti síðan að saga "kókhölduna" af sætinu og skera alveg að hendinni, sem slapp furðu vel, enda "kókhaldan" mjög þykkt plast. 

Það var tekin mynd af "Skaðræðinu" hún hengd upp í miðasölunni (hugsanlega víti til varnar) og hann fékk að eiga kókhölduna sem er algert "prýði" hérna á heimilinu.


Húsmóðursblinda!!

Ég ætla ekkert að ljúga því að ég sé þessi "ofurhúsmóðir" mundi frekar segja þvert á móti, verð seint kosin "húsmóðir ársins" enda stendur hugur minn ekki til þess. Það eru svo marigir aðrir í kringum mig sem eiga tilkall til þess titils.

eg_husmo_irin.jpg

Ég hef klúðrað þvotti með þeim hætti að eitt sumarið gekk öll fjölskyldan í  ljósbleikum fötum (hvað er með þessa sokka sem virðast komast óséðir inní vasa á hvítum fötum til þess eins að valda skaða?)

Eiginmaðurinn fyrrverandi hafði nú svo mikla trú á húsmóðurhæfileikum mínum að hann spurði hvort hann hefði stækkað, þegar hann stóð í ljósbleiku gallabuxunum sínum (áður hvítu) og skálmarnar náðu rétt niður fyrir hné eftir 100° suðu.  Já ég er ekki frá því, sagði ég, því ég vildi nú ekki spilla fyrir trúnni hans á mér. Þegar ég sauð hins vegar lopapeysuna sem tengdó hafði prjónað, þá held ég að hann hafi verið farið að gruna að hann væri nú hættur að stækka svona rosalega.

Ég hef bakað þá ljótustu köku sem ég hef séð, en vinkonur mínar í saumaklúbbnum þótti hún góð, en þó var mikill afgangur. (??) Systur mínar koma mér þó til hjálpar ef ég þarf að halda veislur og jafnvel eins þegar samstarfsfólk mitt hefur þurft að halda veislur, en ég er svo almennileg og býð oftar en ekki fram hjálp mína.

kokukarl.jpg

Þær bjóðast þá til að hjálpa mér og enda oftast á að segja: "heyrðu ég skelli bara í franska súkkulaðiköku" fyrir þig. Mér finnst þetta svo flottur frasi, en hef aldrei getað notað hann sjálf, því ég skelli ekki í köku bara si sona. Kaka er stórmál!

Ég er þó ekki versta tilfellið sem ég veit um, því ég á vinkonu sem ætlaði að halda stórveislu fyrir manninn sinn á einhverjum tímamótum og leitaði til mín ( já orðspor flýgur nú hreint ekki það hratt)

Nánast ómótt yfir traustinu sem mér var sýnt og stolt fyrir allan peninginn sagði ég henni bara að "HENDA" í kötbollurnar mína frægu (óskhyggja, ég átti ekkert í þeim og þær voru ekki svo frægar).

Í kjötbollurnar þurfti: Saltkex, nautahakk og lauksúpu= hrært saman og mótaðar bollur

Í sósuna þrufti: sólberjasultu og Chilisósu = hitað og hrært saman

Ég útskýrði af miklum eldmóði, hvernig ætti að bera sig að, vinkonan skrifaði og skrifaði, en þar sem ég á það til að vera örlítið æst, og hef væntanlega ekki alveg raðað setningunum rétt saman, hugsanlega vantað inn orð og orð, enda ætlast ég stundum til að fólk lesi milli línanna það sem uppá vantar.

 Eitthvað hafði nú uppskriftin "MÍN" skolast til, því vinkonan sagði svo frá á mánudeginum:"jú jú þetta tókst nú ágætlega, nema bollurnar hrundu alltaf í sundur" ég bað hana þá að lýsa bollugerðinni:

"Ég steikti hakkið, eldaði súpuna og svo þegar ég ætlaði að fara að bæta Ritskexinu útí, þá vildu þær ekki haldast saman bollurnar" en ég fann ráð við því sagði hún alveg stolt með titrandi röddu, "ég barði bara kexið inní bollurnar undir rennandi vatni og þá héldust þær saman, ég er reyndar alveg marin í lófunum, því það var svo erfitt að móta þær með kexinu í. Svo þegar fólk stakk kokteilpinnum i bollurnar þá hrundu þær allar aftur í hakk og kex. En mér tókst vel upp með sósurnar" sagði hún stolt.

Sósur? spurði ég, það átti bara að vera ein sósa, nei ég gerði tvær, sæta sósan =sólberjasultan og súra sósan = chilisósan. Þar sem hún var svo stolt yfir þessu, enda hennar fyrsta veisla þá sagði ég ekkert, en hún mun ekki sjá um mínar veislur í framtíðinni.

 

 . retro_houswife_2.jpg


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband