Pula á Sardeníu og dularfulli kindahópurinn.

Þar sem ég kem keyrandi út frá húsinu sem ég leigi hérna í Pula niður götuna á fína Audi bílaleigubílnum, bregður mér illilega, það kemur hópur af kindum á móti mér og virðast einar, en með einbeittan vilja að komast sem fyrst á leiðarenda.  Ég fraus við stýrið, enda ekki á hverjum degi að maður mæti svona kindahóp í miðjum bæ virtust einar og ég lokaði augunum og bað til guðs að þær mundu ekki skemma fína bílaleigubílinn. Það kom á daginn að þær voru ekki einar, það var hundur með þeim, já alveg heill hundur til að stýra öllum 50 kindunum og lömbunum á grasbalann sem var á milli hússins míns og götunnar, en þangað var för þeirra heitið. Þær röðuðu sér svo niður í beina línu og borðuðu blómin og grasið og eftir svona korter var þeim hóað saman (af hundinum) og yfirgáfu svæðið. Ég spurði Sardeníska tengdason minn hvað væri eiginlega í gangi og sagði hann að þetta væri eðlilegt og ástæða þess að ekki væri neinn smali eða maður með þeim væri sú að það væri ólöglegt að stela grasi og þeir vildu ekki verða teknir við þá iðju. Ég hitti svo strák sem er bóndi og hann sá þennan sama kindahóp í gær fyrir utan hjá mér og þekkti að sjálfsögðu hundinn og sagði mér að hann ætti í meiriháttar veseni með þessar kindur því eigandinn sigaði þeim einnig á hans land og lét sig svo hverfa á meðan, eins og þær hefðu bara tekið það uppá sitt einsdæmi að skondrast á hans landsvæði og fá sér að snæða.

Ég hélt að ég gæti ekki orðið meira undrandi, þar til ég mætti asna með kerru aftan í sér og unglingur í kerrunni. Fannst eins og ég væri komin langt aftur í aldir, og mun ekki vera á "flipflopsum" labbandi í bráð, þar sem göturnar eru allar í lambaskít og hestaskít eða allt þar til rignir, sem gerist einu sinni í mánuði eða svo. Hérna er einnig allt morandi í flækingshundum, sem liggja fyrir framan súpermarkaðinn og betla alveg hellingur af þeim. Annars er allt svo þrifalegt hérna, að ég hef nú trú á því að nágrannar mínir fari út með skóflu og kúst og þrífi þetta upp. Nú heyri ég í bjöllu og þær eru mættar aftur, og ég er farin að fylgjast með kindunum "mínum".


"Óhreinu börnin hennar Evu"

"Aldraðir og öryrkjar" eru oftast nefndir saman sem ein heild, oftast tengt neikvæðri umræðu, sem flokkur sem er bara með vesen og usla. Ég sé ekki að 20 ára öryrki eigi neitt sameiginlegt með öldruðum, annað en vera settur í sama "ruslflokk" og ekki skrítið að fáir hafi mætt í mótmæli við Tryggingarstofnun Ríkisins í gær, þar sem fæstir vilja láta opinbera sig sem þetta "vesenisfólk" í þessum flokki. Fólk hefur bara frekar kosið að vera bak við luktar dyr, en að birtast opinberlega sem þessir "vesenistar" að krefjast mannréttinda eins og hver annar, á þess að þurfa í dag 2016?

Ég á aldraðan föður sem hefur alla sína ævi verið hress og heilbrigður og hafði aldrei farið til læknis fyrr en fyrir 2 árum, eftir andlát móður minnar, þá fór hann að kenna sér meins í hjarta  og víðar og fór á spítala, þar fannst ekki skrifaður stafur um hann, enda ávallt getað haldið sig heima, án lyfja og lækna. Hann fór í meðferð við krabbameini og sl. sumar og var svo slappur, að hann gat ekki verið heima eftir nokkrar tilraunir til þess. Hann endaði á Landakoti til endurhæfingar og var þar, þar til núna í janúar, en þá var hann orðin leiður og langaði að kíkja heim til sín, enda ekki komist heim um jól eða áramót. Nú hann var síðan of slappur og lasin til að komast aftur á Landakot og viti menn, þá var hann bara útskrifaður. Hann var of veikur til að komast á spítalann og því bara útskrifaður.

Við fengum að tala við félagsráðgjafa Landakots, sem tjáði okkur að við þyrftum að sækja strax um hjúkrunarheimili og skrifa undir fyrir hans hönd svo umsóknin kæmist strax í ferli. Ég skrifaði undir fyrir hans hönd, og var þeirri umsókn synjað strax á þeim forsendum að hann hefði ekki skrifað undir sjálfur. Félagsráðgjafinn tjáði okkur einnig að 200 manns væru á biðlista eftir hjúkrunarheimili, 100 sem væru innlagðir á spítala og 100 aðrir sem væru heima. Einnig sagði hún okkur að hún vildi bara vera hreinskilin og að einungis 30% þeirra á biðlistanum kæmust inn á þessi hjúkrunarheimili, hinir 70% lifðu ekki biðina af.

Nú er faðir minn í dag 87 ára gamall og er heima, hann getur ekki farið hjálparlaust fram úr rúminu og hann getur þar af leiðandi ekki náð sér í vatnsglas, hvað þá annað, hann á erfitt með að rísa upp úr rúminu. Hann fær heimahjúkrun og mat sendan í poka sem hengdur er utan á hurðarhún íbúðarinnar. Hann getur ekki sótt matinn. Við fengum synjun númer 2 á umsókn um hjúkrunarheimili á þeim forsendum að ekki væri komin nægjanleg reynsla á veru hans heima. 2 mánuðir rúmfastur eru ekki næg ástæða að þeirra mati til þess að samþykkja umsókn, hvað þá koma honum í þessa bið, ef hann yrði nú einn af þessum heppnu 30% sem komast inn fyrir andlát.

Ágætu drengir (og stúlkur) á Alþingi, þíð eigið eftir að eldast ef guð lofar og þið munið vilja fá að eldast með reisn og ekki vera uppá aðra komin. Ef þetta verður til að vekja ykkur til umhugsunar þó ekki væri, nema til að minna ykkur á það að þið eigið eftir að lenda í þessum "ruslflokki" sjálf.

 

 


Hvar er verkvitið?

Ég hef aldrei logið því að ég hafi verkvit í allskonar svona heimilisverkum, en nú brá svo við um daginn að ég fékk ógeð á sumarhúsgögnunum mínum sem voru öll farin að flagna og farið að skína í bert tré.

Ég skellti mér í Húsasmiðjuna og keypti hvítt lakk og nú átti að lyfta svölunum upp. Ég byrjaði reyndar á því að skúra svalirnar, hófst svo handa við að raspa gamalt lakk með sandpappír. Því næst lakkaði ég 2 borð og 4 stóla, en hundurinn á heimilinu lá í sófanum og horfði á mig, en hann er að fara úr hárum greyið og sækir mikið í að vera á svölunum og horfa á heiminn.  Hann rak sig í lakkið og missti ég rúmlega helming af því á nýskúruðuu svalirnar. (hef ekki fundið út hvernig leysa beri lakk af flísum)

Nú í dag ætlaði ég svo að fara umferð nr. 2 og viti menn húsgögnin voru öll loðin, enda hundurinn svartur labrador og stólarnir voru eins og þeir væru með gærum og líka borðplöturnar. Ég tók mestu hárin sem náðust og málaði yfir hin. Þurfti svo að færa eitt borðið milli staða og missti það ofan í blómaker, þar sem það lokaðist óvart.

Ég er núna með hvítt hár,hundurinn hvítleitur á köflum og blómin hvítlökkuð og ofan í loðnu borðin eru nú föst gul blóm. Ég gefst upp enda er farið að rigna.


Fólkið í Mílanó

Mílanókonur eru tvennskonar, annars vegar þessar sem mæta í vinnu með strætó eða metró og klæða sig eftir veðri og svona frekar með tilliti til þæginda, svona gallabuxur, strigaskór og þessu blessuðu vattúlpum sem allir ítalir virðast eiga.  Þær eru þó allar í ítölskum merkjum og fágaðar í útliti allt frá Prada, Armani til Chanel, sem hinn almenni Ítali virðist alveg hafa efni á. Þessar konur eru oft frekar lítið málaðar og bara svona venjuleg meðalkona.  Hin tegundin er svo sú uppstílaða sem hangir á Duomotorginu, sem er dýrasta svæðið í Mílanó og sötra hvítvín, eða spritz og narta í eina og eina ólífu, þær eru undantekningarlaust mjög grannar, enda allir ítalir uppteknir af þyngd og á það jafnt við um karla og konur. Þær eru kallaðar ljóshærðar, þó svarta hárið sé litað og oftast nýklipptar og flott greiddar, enda vinna þessar konur ekki og sitja bara á kaffihúsunum milli þess sem þær versla í merkjavörubúðunum. Þær er líka oftast með burberryklæddan smáhund með glitrandi ól með sér og bera sjálfar svona um kg af gulli á sér. Þessar konur eru í háum hælum alltaf og hver annarri glæsilegri og flottari, með stútvarir eftir nokkrar aðgerðir á andliti og hrukkulausar.  Labbi maður framhjá aftur eftir 2-3 tíma sitja þær ennþá með glösin sín, en ekkert að borða, held að ef maður mundi spyrja þessar konur hvenær þær borðuðu súkkulaði síðast, þyrftu þær langan umhugsunarfrest. Held ekki að margar ítalskar konur leyfi sér slíkt á daglegum basa. Þú sérð ekki þessar konur snerta flögurnar sem fylgja með drykkjunum, nei eins og ég segi þær narta kannski í ólífurnar brot úr deginum.  

Ítölsku Mílanómennirnir eru annað hvort algerir plebbar (í augum íslendingsins sem er sjálfur svo smart) í merkjavörum þó, en eitthvað svo illa raðaðir saman. Þó eru flestir í merkjavöru þó ósmartir séu. Oftast í vattvestinu fræga. Meirihlutinn  eru þó eins og klipptir út úr tískublaði, hvílíkt stíliseraðir í flottum fötum, þessi typisku sólgleraugu, trefil, raðað hár og svo í þessum skemmtilegu vattvestum utan yfir allt jakkafötin líka. Karlmennirnir eru ekkert síður með Pradapoka eða Armanipoka og eru alveg jafn lengi að velja sér föt og taka sig til, ef ekki lengur.  Sem sagt viljirðu líta út eins og ítali, eru rayban/chanel/prada sólgleraugu must.

Vattúlpan þeirra fræga vel aðsniðin í mittið.

Stór Merkjavörupoki (ath. er margnotaður og einhverskonar stöðutákn) 

já og bara fullt af pening, eða kaupa þetta dót hjá sölumönnunum á 10 evrur og eiga á hættu að vera tekin.....svo er bara fínt að vera Íslendingur.... 


Fólkið á Sardeníu

Fólkið á Sardeníu minnir um margt á okkur íslendina, er svona frekar afskipt, mjög ólíkt ítölum frá meginlandinu, þar sem þeir skipta sér af öllu og eru helst með nefið ofan í manni, meðan pantaður er matur á veitingahúsi.  Menning þeirra og siðferði hefur alveg haldið sér óbreytt og tala þeir sardenísku, sem á ekkert mikið skylt við ítölsku í eyrum íslendingsins.

Sardeníubúar eru einstaklega lágvaxnir og er ég með mína 164 og 1/2 cm hávaxin hérna, sem er alveg dásamleg upplifun. Ég gnæfi yfir þá í strætó og líður eins og Gulliver í Putalandi, gæti vel ýmindað mér að meðalhæð kvenna hérna sé um 156 cm og karla ekki mikið  hærri en 170 cm. Þetta er mjög skrítin tilfinning að vera allt í einu orðin hávaxin á heilli eyju, en reyndar hef ég ekki farið um hana alla, en fólkið hérna í höfuðborginin Cagliari kemur mér svona fyrir sjónir.

Klæðnaðurinn hérna er um margt frábrugðin Mílanóbúum t.d. en hérna finnst enginn H&M búð, ekki mikið úrval af búðum svo sem, en allir ungir menn klæðast eins og það eru joggingbuxurnar gráu, sem voru á Íslandi fyrir margt löngu, þeir sem taka stælinn alla leið, eru í leðurlíkisjoggingalla og allir í íþróttaskóm, sem er náttúrulega mjög skynsamlegt. Ég hef aldrei séð jafn margar tegundir af íþróttaskóm og hérna á Sardeníu. 

Klæðnaður ungra kvenna er svo alveg sér á parti, en allar eru þær klæddar í leggings, eða gammosínur eins og við vorum með börnin okkar í og í þessum óhefðbundnu íþróttaskóm með hælum eða þykkum botni, ekki veitir af, þar sem þær eru allar eins og áður sagði  frekar lágvaxnar. Við þetta klæðast þær svo ítölsku vattúlpunum sem virðist vera eign hvers einasta ítala, þær eru oftast í mittisúlpum, og finnst manni skjóta skökku við að vera í dúnúlpu við sokkabuxur. Við þetta bera þær svo allar plasttöskur frá Armani Jeans í öllum litum. Ekki má gleyma kinnalitnum sem þær setja yfir allan vangann, hélt ég fyrst að þetta væri óvart, þar til ég sá allar með fölbleika litaða vanga.

Fólkið hérna á eyjunni er með mjög svona fornaldarlegan hugsunarhátt, eins og þessar hefðir sem þeir halda ennþá í. þegar þú ferð á matsölustað, þá eru flest borðin með karlmönnum sem eru kannski svona 12-16 saman og allir að borða og drekka. Ef pör eru saman að borða, þá er konan með vatn, nánast undantekningarlaust og karlinn með bjór eða rauðvín, hún fær sér svo kaffi, hann kaffi og limoncello. Einnig á flestum börum voru eingöngu útlendar konur með bjór, en þó svona ein og ein frá Sardeníu.   Þegar ég spurði Andrea vin minn frá Sardeníu, þá sagi hann, já konur drekka ekki, þú ferð ekki á barina hérna eins og í Mílanó, það yrði bara horft á þig eins og þú værir eitthvað skrítin og þegar ég spurði hann af hverju karlar væru alltaf einir úti að borða, þá sagði hann í 1. lagi, þá eru konurnar í megrun og í öðru lagi þá eru þær heima að passa börnin. Er það nema von að þær þrói  með sér fýlusvip frá því þær fermast og uppúr, ég spurði út í það líka og þá sagði hann mér að það viðgengist á Sardeníu að vera alltaf óánægð með það sem þú hefur, annars lítur út eins og maðurinn þurfi ekki að leggja harðar að sér með sambandið og getur hætt að kaupa gjafir handa kærustinni.

 

Ég fór ein á bar og pantaði mér kokteil og fór síaðan ein út að borða og fékk mér áberandi rauðvínsflösku með pizzunni og kaffi og limoncello á eftir þessu, ég  var meira að gera þetta til að mótmæla þessum fornaldarhugsunarhætti, en gat öllum verið meira sama...já held það, en það var glápt á þennan hræðilega alka sem ég var og gat mér verið meira sama.....já já alveg...


Maturinn á Sardeníu.

Maturinn hérna á Sardeníu er að mörgu leyti frábrugðin hinum hefðbundna ítalska mat, þeir hafa t.d. sitt eigið pasta. Mér finnst það nú ekki sérstaklega gott, en það er nú kannski bara það sem maður hefur vanist er best og allt hitt ok að prufa, en fannst áferðin ekki skemmtileg og eitthvað aukabragð.

Þeir eru að sjálfsögðu með mikið af sjávarfangi og þá helst skeljar og kolkrabba, sem og allskonar fisk sem þeir sýna í öllum gluggum á öllum veitingastöðum. Allt sem ég smakkaði þar af sjávarfangi var gott, nema ígulkerið sem ég fékk á matsölustaðnum  Su Cumbida, sem vinur minn hafði mælt með og er hann nú innfæddur "Sardi" þannig að ég treysti honum, fékk mér spaghetti Vongole sem var frábært og Zuppa di Cozze, sem var frábært,  sló alveg við skeljunum á Snaps, sem mér hafa fram að þessu þótt bestar. Nú lét mig hafa það að fá mér pizzu með sjávarréttum, skil ekki alveg samsetninguna, enda fannst mér það mistök, ostrurnar fengu að bíða, en vinur okkar Andrea fékk þó dóttur mína til að smakka. 

 Eitt var það sem margir fínni veitingarstaðir bjóða uppá og það eru allskonar ostar, peccorino sem er æðislegur aðeins saltaðri en Parmaosturinn. Nú ekki má gleyma hinum fræga Casu marzu, sem er morandi í lirfum, sem fólk borðar ekki endilega, en þó sumir, hann er mjúkur og sagður mjög sterkur og eftirbragðið getur varað nokkra tíma. Lirfurnar skilja eftir sig gula bletti á fötum, sem gerir það að verkum að fólk klæðir sig gjarnan í gult, þegar það veit að framundan er ostaveisla a-la-lirfur...takk samt kærlega...en nei takk ekki fyrir mig.

Þeir drekka eftirréttavín með þessum ormaosti, einnig drekka Sardeníubúar mesta magn bjórs á íbúa í Evrópu las ég einhversstaðar sem kemur á óvart, þar sem konurnar drekka lítið sem ekkert, annars er unga kynslóðin að taka upp þann sið eins og Ítalir að hafa aperativo, sem er vínglas og allur sá matur sem hver bar hefur á boðstólnum sem þú getur í þig látið, borgar bara frekar hátt verð fyrir glasið. Svo má ekki gleyma limoncelloinu sem er bara eins og að borga reikninginn, þú ert nánast ekki spurð hvort þú viljir það eftir mat, heldur hvort þú viljir limoncello crema, svona beilístýpan af Limoncello, eða hið hefðbundna, en mátt fá þér myrto sem er einhverskonar lauflíkjör...já takk......

 


Naglaævintýri í Florence

Ég er ein af þeim óheppnu að vera með neglur úr einskonar pappa eða einhverju mjög lítið sterku efni og þar sem ég er stödd í Flórens og neglurnar mínar afskaplega ræfilslegar þá sá ég þessa fínu snyrtistofu hérna rétt hjá og ákvað nú bara að skella mér, enda kostaði ekki lagfæring nema um 4.500.- krónur og ég er nú fastagestur í lagfæringum og tel mér trú um að ég viti nú eitt og annað um málið og  um snyrtimennsku á staðnum og svona, en ég á mér nú mína eigin naglakonu/snyrtifræðing sem skilur mig og ég hana og mun ég eigi gefa hennar nafn upp, nema það byrjar á E og ég segi ekki hina 2 stafina. Við erum á svipuðum aldri (gæti skeikað 15-20 árum) en hún er fullkomin fyrir mig og hlakkar mig alltaf að koma til hennar, í smástund í litun og plokkun og já neglur.

Þar sem ég mæti klukkan 7 um kvöld skv. tímapöntun tekur á móti mér mjög brúnn maður með sítt hár niður á herðar og mjóan hökutopp í útvíðum læknaslopp hnepptum niður á maga. Guð hugsaði ég með mér vonandi er hann ekki að fara að setja á mig neglur (blákalt=fordómar). Ok gefum kvikindinu séns hugsa ég með mér, en ég hafði ítölskumælandi dóttur mína með mér. Hann varð fyrir sjokki við að skoða neglurnar mínar og sagði að ég væri ekki kvenleg..(wriiiiiiiiiiiiiiiiily?) En það mundi breytast núna.

Hann hófst handa og ég hélt ég mundi andast þegar hann raspaði nánast upp að kjúkum, hélt að hann ætlaði í raun og veru að stytta puttana á mér. Svo var hann eitthvað að lufsast með einn bómullarhnoðra sem var uppleystur í frumeindir og allan tímann hugsaði ég til "minnar" konu heima hversu snyrtilegt væri nú hjá henni.

Niðurstaðan er svo þannig að ég þurfti að borga vegna þessara ógurlegu nagla minna 10.500.- en fékk ekta Swarovski stein frían, ég bað ekki um hann og langaði ekki í hann, en vildi ekki gera meira mál, svo hann færi nú ekki að gráta, en hann var gráti næst þegar ég gerði honum þann óleik að mæta með þessar neglur svona ósvífin.

Ég er með útvíðar neglur núna og ekki nóg með það, það eru gelklumpar undir þeim, þar sem hann fyllti uppí allt undir nöglinni að fingri og svo var hann alltaf að festa gúmmíhanskann sinn í líminu, þannig að ég er með búta úr gúmmíhanska líka í þessum hlunkum..

Ég er búin að panta tíma heima, enda með harðsperrur í fingrum og get ekki sett puttana saman.


Það sem kemur mér "spánskt" fyrir sjónir á Sardeníu.

Páskadagur á Cagliari höfuðborg Sardeníu, það er hádegi og ég skondrast út til að taka strætó á ströndina, það er ekki sála á götunum og eftir 40 mínútur gefst ég upp og geng heim aftur, enginn strætó gengur greinilega ekki á páskadag. Sem ég segi þeir fylgja gömlum hefðum, þó það kosti þá peninga frá ferðamönnum, en hvernig kemst fólk á ströndina ef enginn er strætó? Leið eins og Palla sem var einn í heiminum.

Ég komst svo daginn eftir á ströndina, sem er svo falleg og þar var ekki þverfótað fyrir fólki, en Sardeníubúar eða Sardar eru ekki endilega í sólbaði, þeir hanga á ströndunum í öllum fötunum og unga fólkið virðist nota ströndina sem samanstað til að hittast. Allir strandarbarirnir voru fullir af kappklæddu fólki og okkur hinum þessum skrítnu sem finnst það í lagi að fara í sólbað ef hitinn er 25 stig þó það sé ekki komin 15 maí. Þá er vattúlpunum pakkað niður og léttu fötin tekin fram, ekki fyrr.

Þetta þurfti ég nú að fá aðeins nánari upplýsingar um, eins og það að hafa ekki strætó á svona háannatíma eins og páskar eru, en Andrea minn sardeníski vinur sagði mér, að það væri svo mikil sundrung hjá stjórninni, það væru svo margir með svo misjafnar skoðanir, eins og hvað þetta varðar og eins með ströndina, sem er gullfalleg með fallegum börum, en á víð og dreif eru niðurníddar byggingar og órækt sem er alger sjónmengun, hann sagði mér að það væri vegna þess að stjórnin gæti ekki komið sér saman um þetta, einn hlutinn vildi loka öllum börum og hreinsa alla ströndina af ruslbyggingum um leið, en leifa fólki svo að vera frítt á sandinum. Hinn hlutinn vill ekki láta loka strandarbörunum, vegna þess að fólk þarf jú aðstöðu með börn og salerni oþh. Þannig að ekkert er gert, sama gildir um allt tengt ferðamannaiðnaði, eins og það að allt sumarið sagði hann mér að skemmtiferðaskip legðust að höfn á hverjum sunnudegi, en eins og hann sagði þá er hefðin gamla við völd og allt er lokað á sunnudögum, þannig að maður hugsar með sér, er enginn vilji til að bæta atvinnuleysið sem sendir margan unglinginn í burtu af eyjunni eftir nám. Svo virðist ekki vera, eða þá að enginn vill gefa eftir. 

Þessi vinur minn sagðist hafa skroppið á barinn á götuhorninu hjá okkur með vini sínum og fékk sér bjór, en þar sem hann er úr öðrum bæ, þá þurfti bareigandinn að kanna hvort hann væri lögregla og sagði við hann eruð  þið á bíl (ath. hérna fer allt fram eftir reglum og undir rós ekki bara spurt ertu lögga?) Já við erum á bíl svöruðu þeir og þá kom eigandinn með annan bjór í boði hússins, þá þann þriðja og þegar þeir þáðu hann (áttu víst ekki annarra kosta völ, því ef Sardi býður öðrum sarda eitthvað þá liggur eitthvað þar bak við og þú neitar ekki) því næst sagði hann, þú ert sá sami og ég, hvaðan kemur þú og vinur minn nefndi bæinn, sem er svo lítill að hann er ekki með löggur, svo þá var allt gott, allir sem komið höfðu inn í kippum til að vera til staðar fyrir bareigandann (ef löggan ætlaði sér að skipta sér af barnum) fengu sér bjór og skáluðu við þá. Þegar þeir svo fóru út, þá keypti vinur minn drykk handa öllum á barnum (það er venjan líka) svo þetta var kannski ekki ódýrasti bjór sem hann fékk gefins eftir allt. 

Einn siður er sá að þegar þú kemur inná bar, þá heilsar þú öllum sem fyrir eru, ef þú gerir það ekki, þá heilsa þér allir þ.e. ef þeir samþykkja þig, því þeir líta á það að þú sért að koma í þeirra hús, þar sem þetta er jú þeirra bar, þú ert gestur og gestir heilsa! 

Önnur regla er á börum á Sardeníu og sagði þessi sami vinur mér frá henni, en hún er sú, að þegar þú kemur inná bar í einhverjum bæ, þá situr gjarnan gamall maður fyrir framan barborðið með hníf og epli. Þú pantar bjór og hann horfir á þig, ef hann skrallar allt eplið þá þýðir það að þú færð þennan bjór en ekki annan, honum líkar ekki við þig. Drekktu bjórinn og farðu og allir vita hvað þetta þýðir, nema náttúrulega íslendingurinn og spurði ég hvað gert yrði ef ég bæði um annan bjór og sá gamli búin að afhýða allt eplið. Þér yrði sagt að það væri ekki til meiri bjór og staðnum væri að loka. þetta er víst eldgamall siður sem tengist langt aftur þegar glæpaklíkur réðu mismunandi bæjum og eða sveitafélegum.

Takk fyrir það.....já það er margt skrítið í kýrhausnum hérna á eyjunni fögru í suðrinu. 


Sardenía, eyjan með pálmunum og sítrónutrjánum

Sardenía, kemur á óvart, þegar maður kemur frá Ítalíu, það sem ólíkt frá Ítalíu er að allt fullt hérna af pálmatrjám, sem er ekki algengt á Ítalíu og svo eru þessi yndislegu sítrónutré og appelsínutré á öllum götum, bara eins og ljósastaurarnir, alveg sjálfsagður hlutur.
Þetta er þó svo fallegt að íslendingurinn tekur andköf. Í apríl, er allt í blóma, allt í blómstrandi fjólubláum trjám, sem eru að byrja að verða græn, núna þegar liður á mánuðinn.
 
Í garðinum okkar við Via Lengiano eru sítrónutrén í blóma og karlinn hérna á horninu selur okkur lífrænt ræktaða ávexti, en er einnig með rauðvín á stórum kútum í búðinni og er búin að taka til í taupoka, kókflöskur fylltar af rauðvíni og ávexti fyrir gamalmennin í hverfinu, réttir yfir búðarborðið og skrifar svo hjá þeim. Skemmtilega gamaldags og notalegt, ef enginn er í búðinni og hurðin læst, þá er vinurinn bara á næsta bar og kemur eftir svona tíu mínútur til baka, maður bara bíður, svo gefur hann manni að smakka allt það nýjasta sem árstíminn hefur uppá að bjóða.  Hann sendi mig með ætisþistla heim og uppskrift hvernig ætti að framreiða þá.  Seldi mér svo 2 lítra vatnsflösku af rauðvíni, sem er nú ennþá nánast óhreyft, fannst smá límbragð af því, en það er kannski bara spurning um vana eða smekk.
 
Við eignuðumst einnig fyrsta daginn okkar á Sardeníu, vinkonu í skranbúðinni sem selur strætómiða, en þar úir og grúir af allskonar dóti, minjagripum og handklæðum, böngsum ofl. og innan um allt þetta, nánast eins og byggt í kringum hana situr hún eldri kona með hálf appelsínugult hár og reykir. Leggur lykkju á leið sína ef hún sér okkur á strætóstöðinni, til að spjalla og forvitnast um hvað við erum nú að bardúsa hérna. Yndislega skemmtileg kerling.
 
179 
Hérna er útsýnið af svölunum okkar, pálmatré og sítrónutrén vaxa allstaðar, jafnvel notuð sem klórutré fyrir kisurnar í garðinum. Þetta er róleg og yfirlætislaus eyja, sem er bara í hægagangi, smá á eftir finnst manni á margan hátt, en svo notalegt yfirbragð yfir öllu, hérna í Cagliari sem er höfuðborgin og stærsta borgin á eyjunni.
175

Engin jólauppbót fyrir atvinnulausa.

Æðislegt að fá svona skemmtilegar óvæntar fréttir í desemberbyrjun. Ný ríkisstjórn nýjar hefðir. Engin jólauppbót fyrir þetta atvinnulausa lið. Hvað er málið? Engin desemberuppbót af því að við erum ekki að vinna og þar af leiðandi þurfum við ekkert? Ég spyr er einhver þarna úti á atvinnuleysisbótum sem finnast þær svo háar að viðkomandi "nenni" ekki að fara að vinna? Viðkomandi gefi sig fram, ég þarf að ná tali af honum.'

 Við sem höfum ekki fengið vinnu aftur eftir hrun,  þar sem við höfum starfað við banka og fjármálastofnanir og þar er ekki fjöldaráðning í gangi.  Við erum ekki að stunda kaffihús og barina villt og galið og ég held alveg að við mundum þola þessar auka 50 þús. fyrir skatt án þess að leggjast í "sukk" með allt þetta fjármagn í höndunum. Ég meina það, það er enga von að finna og engar lausnir, ekki fyrir okkur verst settu sem erum búin að missa húsnæði vegna atvinnumissis, ég tel að ég hafi skilið þá félagana Sigmund Davíð og Bjarna Ben. að allir fái ekki leiðréttingu á sínum málum,   og að mínar bætur vegna verðtryggðu lánanna frá 2005 sem ég hef greitt af þær renni til eiganda íbúðarinnar í dag eða bankans í mínu tilfelli, já þær fara frá gamla bankanum í formi skatts til nýja bankans. Er ég fífl ef mér finnst þetta ekki í lagi? Ég greiddi þó þessar verðbætur, árið 2005, 2006, 2007 og 2008, þá varð hrun og þá fór að halla undan fæti.

Ég fer í jólaköttinn í ár og gef skít í alla jólabónusa, þarf engan, enda duga 153 þús. vel fyrir öllu jólastússi eða hvað haldið þið? 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband