16.6.2014 | 10:36
Maturinn á Sardeníu.
Maturinn hérna á Sardeníu er að mörgu leyti frábrugðin hinum hefðbundna ítalska mat, þeir hafa t.d. sitt eigið pasta. Mér finnst það nú ekki sérstaklega gott, en það er nú kannski bara það sem maður hefur vanist er best og allt hitt ok að prufa, en fannst áferðin ekki skemmtileg og eitthvað aukabragð.
Þeir eru að sjálfsögðu með mikið af sjávarfangi og þá helst skeljar og kolkrabba, sem og allskonar fisk sem þeir sýna í öllum gluggum á öllum veitingastöðum. Allt sem ég smakkaði þar af sjávarfangi var gott, nema ígulkerið sem ég fékk á matsölustaðnum Su Cumbida, sem vinur minn hafði mælt með og er hann nú innfæddur "Sardi" þannig að ég treysti honum, fékk mér spaghetti Vongole sem var frábært og Zuppa di Cozze, sem var frábært, sló alveg við skeljunum á Snaps, sem mér hafa fram að þessu þótt bestar. Nú lét mig hafa það að fá mér pizzu með sjávarréttum, skil ekki alveg samsetninguna, enda fannst mér það mistök, ostrurnar fengu að bíða, en vinur okkar Andrea fékk þó dóttur mína til að smakka.
Eitt var það sem margir fínni veitingarstaðir bjóða uppá og það eru allskonar ostar, peccorino sem er æðislegur aðeins saltaðri en Parmaosturinn. Nú ekki má gleyma hinum fræga Casu marzu, sem er morandi í lirfum, sem fólk borðar ekki endilega, en þó sumir, hann er mjúkur og sagður mjög sterkur og eftirbragðið getur varað nokkra tíma. Lirfurnar skilja eftir sig gula bletti á fötum, sem gerir það að verkum að fólk klæðir sig gjarnan í gult, þegar það veit að framundan er ostaveisla a-la-lirfur...takk samt kærlega...en nei takk ekki fyrir mig.
Þeir drekka eftirréttavín með þessum ormaosti, einnig drekka Sardeníubúar mesta magn bjórs á íbúa í Evrópu las ég einhversstaðar sem kemur á óvart, þar sem konurnar drekka lítið sem ekkert, annars er unga kynslóðin að taka upp þann sið eins og Ítalir að hafa aperativo, sem er vínglas og allur sá matur sem hver bar hefur á boðstólnum sem þú getur í þig látið, borgar bara frekar hátt verð fyrir glasið. Svo má ekki gleyma limoncelloinu sem er bara eins og að borga reikninginn, þú ert nánast ekki spurð hvort þú viljir það eftir mat, heldur hvort þú viljir limoncello crema, svona beilístýpan af Limoncello, eða hið hefðbundna, en mátt fá þér myrto sem er einhverskonar lauflíkjör...já takk......
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.6.2014 | 11:05
Naglaævintýri í Florence
Ég er ein af þeim óheppnu að vera með neglur úr einskonar pappa eða einhverju mjög lítið sterku efni og þar sem ég er stödd í Flórens og neglurnar mínar afskaplega ræfilslegar þá sá ég þessa fínu snyrtistofu hérna rétt hjá og ákvað nú bara að skella mér, enda kostaði ekki lagfæring nema um 4.500.- krónur og ég er nú fastagestur í lagfæringum og tel mér trú um að ég viti nú eitt og annað um málið og um snyrtimennsku á staðnum og svona, en ég á mér nú mína eigin naglakonu/snyrtifræðing sem skilur mig og ég hana og mun ég eigi gefa hennar nafn upp, nema það byrjar á E og ég segi ekki hina 2 stafina. Við erum á svipuðum aldri (gæti skeikað 15-20 árum) en hún er fullkomin fyrir mig og hlakkar mig alltaf að koma til hennar, í smástund í litun og plokkun og já neglur.
Þar sem ég mæti klukkan 7 um kvöld skv. tímapöntun tekur á móti mér mjög brúnn maður með sítt hár niður á herðar og mjóan hökutopp í útvíðum læknaslopp hnepptum niður á maga. Guð hugsaði ég með mér vonandi er hann ekki að fara að setja á mig neglur (blákalt=fordómar). Ok gefum kvikindinu séns hugsa ég með mér, en ég hafði ítölskumælandi dóttur mína með mér. Hann varð fyrir sjokki við að skoða neglurnar mínar og sagði að ég væri ekki kvenleg..(wriiiiiiiiiiiiiiiiily?) En það mundi breytast núna.
Hann hófst handa og ég hélt ég mundi andast þegar hann raspaði nánast upp að kjúkum, hélt að hann ætlaði í raun og veru að stytta puttana á mér. Svo var hann eitthvað að lufsast með einn bómullarhnoðra sem var uppleystur í frumeindir og allan tímann hugsaði ég til "minnar" konu heima hversu snyrtilegt væri nú hjá henni.
Niðurstaðan er svo þannig að ég þurfti að borga vegna þessara ógurlegu nagla minna 10.500.- en fékk ekta Swarovski stein frían, ég bað ekki um hann og langaði ekki í hann, en vildi ekki gera meira mál, svo hann færi nú ekki að gráta, en hann var gráti næst þegar ég gerði honum þann óleik að mæta með þessar neglur svona ósvífin.
Ég er með útvíðar neglur núna og ekki nóg með það, það eru gelklumpar undir þeim, þar sem hann fyllti uppí allt undir nöglinni að fingri og svo var hann alltaf að festa gúmmíhanskann sinn í líminu, þannig að ég er með búta úr gúmmíhanska líka í þessum hlunkum..
Ég er búin að panta tíma heima, enda með harðsperrur í fingrum og get ekki sett puttana saman.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.6.2014 | 11:01
Það sem kemur mér "spánskt" fyrir sjónir á Sardeníu.
Páskadagur á Cagliari höfuðborg Sardeníu, það er hádegi og ég skondrast út til að taka strætó á ströndina, það er ekki sála á götunum og eftir 40 mínútur gefst ég upp og geng heim aftur, enginn strætó gengur greinilega ekki á páskadag. Sem ég segi þeir fylgja gömlum hefðum, þó það kosti þá peninga frá ferðamönnum, en hvernig kemst fólk á ströndina ef enginn er strætó? Leið eins og Palla sem var einn í heiminum.
Ég komst svo daginn eftir á ströndina, sem er svo falleg og þar var ekki þverfótað fyrir fólki, en Sardeníubúar eða Sardar eru ekki endilega í sólbaði, þeir hanga á ströndunum í öllum fötunum og unga fólkið virðist nota ströndina sem samanstað til að hittast. Allir strandarbarirnir voru fullir af kappklæddu fólki og okkur hinum þessum skrítnu sem finnst það í lagi að fara í sólbað ef hitinn er 25 stig þó það sé ekki komin 15 maí. Þá er vattúlpunum pakkað niður og léttu fötin tekin fram, ekki fyrr.
Þetta þurfti ég nú að fá aðeins nánari upplýsingar um, eins og það að hafa ekki strætó á svona háannatíma eins og páskar eru, en Andrea minn sardeníski vinur sagði mér, að það væri svo mikil sundrung hjá stjórninni, það væru svo margir með svo misjafnar skoðanir, eins og hvað þetta varðar og eins með ströndina, sem er gullfalleg með fallegum börum, en á víð og dreif eru niðurníddar byggingar og órækt sem er alger sjónmengun, hann sagði mér að það væri vegna þess að stjórnin gæti ekki komið sér saman um þetta, einn hlutinn vildi loka öllum börum og hreinsa alla ströndina af ruslbyggingum um leið, en leifa fólki svo að vera frítt á sandinum. Hinn hlutinn vill ekki láta loka strandarbörunum, vegna þess að fólk þarf jú aðstöðu með börn og salerni oþh. Þannig að ekkert er gert, sama gildir um allt tengt ferðamannaiðnaði, eins og það að allt sumarið sagði hann mér að skemmtiferðaskip legðust að höfn á hverjum sunnudegi, en eins og hann sagði þá er hefðin gamla við völd og allt er lokað á sunnudögum, þannig að maður hugsar með sér, er enginn vilji til að bæta atvinnuleysið sem sendir margan unglinginn í burtu af eyjunni eftir nám. Svo virðist ekki vera, eða þá að enginn vill gefa eftir.
Þessi vinur minn sagðist hafa skroppið á barinn á götuhorninu hjá okkur með vini sínum og fékk sér bjór, en þar sem hann er úr öðrum bæ, þá þurfti bareigandinn að kanna hvort hann væri lögregla og sagði við hann eruð þið á bíl (ath. hérna fer allt fram eftir reglum og undir rós ekki bara spurt ertu lögga?) Já við erum á bíl svöruðu þeir og þá kom eigandinn með annan bjór í boði hússins, þá þann þriðja og þegar þeir þáðu hann (áttu víst ekki annarra kosta völ, því ef Sardi býður öðrum sarda eitthvað þá liggur eitthvað þar bak við og þú neitar ekki) því næst sagði hann, þú ert sá sami og ég, hvaðan kemur þú og vinur minn nefndi bæinn, sem er svo lítill að hann er ekki með löggur, svo þá var allt gott, allir sem komið höfðu inn í kippum til að vera til staðar fyrir bareigandann (ef löggan ætlaði sér að skipta sér af barnum) fengu sér bjór og skáluðu við þá. Þegar þeir svo fóru út, þá keypti vinur minn drykk handa öllum á barnum (það er venjan líka) svo þetta var kannski ekki ódýrasti bjór sem hann fékk gefins eftir allt.
Einn siður er sá að þegar þú kemur inná bar, þá heilsar þú öllum sem fyrir eru, ef þú gerir það ekki, þá heilsa þér allir þ.e. ef þeir samþykkja þig, því þeir líta á það að þú sért að koma í þeirra hús, þar sem þetta er jú þeirra bar, þú ert gestur og gestir heilsa!
Önnur regla er á börum á Sardeníu og sagði þessi sami vinur mér frá henni, en hún er sú, að þegar þú kemur inná bar í einhverjum bæ, þá situr gjarnan gamall maður fyrir framan barborðið með hníf og epli. Þú pantar bjór og hann horfir á þig, ef hann skrallar allt eplið þá þýðir það að þú færð þennan bjór en ekki annan, honum líkar ekki við þig. Drekktu bjórinn og farðu og allir vita hvað þetta þýðir, nema náttúrulega íslendingurinn og spurði ég hvað gert yrði ef ég bæði um annan bjór og sá gamli búin að afhýða allt eplið. Þér yrði sagt að það væri ekki til meiri bjór og staðnum væri að loka. þetta er víst eldgamall siður sem tengist langt aftur þegar glæpaklíkur réðu mismunandi bæjum og eða sveitafélegum.
Takk fyrir það.....já það er margt skrítið í kýrhausnum hérna á eyjunni fögru í suðrinu.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2014 | 12:38
Sardenía, eyjan með pálmunum og sítrónutrjánum
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2013 | 01:37
Engin jólauppbót fyrir atvinnulausa.
Æðislegt að fá svona skemmtilegar óvæntar fréttir í desemberbyrjun. Ný ríkisstjórn nýjar hefðir. Engin jólauppbót fyrir þetta atvinnulausa lið. Hvað er málið? Engin desemberuppbót af því að við erum ekki að vinna og þar af leiðandi þurfum við ekkert? Ég spyr er einhver þarna úti á atvinnuleysisbótum sem finnast þær svo háar að viðkomandi "nenni" ekki að fara að vinna? Viðkomandi gefi sig fram, ég þarf að ná tali af honum.'
Við sem höfum ekki fengið vinnu aftur eftir hrun, þar sem við höfum starfað við banka og fjármálastofnanir og þar er ekki fjöldaráðning í gangi. Við erum ekki að stunda kaffihús og barina villt og galið og ég held alveg að við mundum þola þessar auka 50 þús. fyrir skatt án þess að leggjast í "sukk" með allt þetta fjármagn í höndunum. Ég meina það, það er enga von að finna og engar lausnir, ekki fyrir okkur verst settu sem erum búin að missa húsnæði vegna atvinnumissis, ég tel að ég hafi skilið þá félagana Sigmund Davíð og Bjarna Ben. að allir fái ekki leiðréttingu á sínum málum, og að mínar bætur vegna verðtryggðu lánanna frá 2005 sem ég hef greitt af þær renni til eiganda íbúðarinnar í dag eða bankans í mínu tilfelli, já þær fara frá gamla bankanum í formi skatts til nýja bankans. Er ég fífl ef mér finnst þetta ekki í lagi? Ég greiddi þó þessar verðbætur, árið 2005, 2006, 2007 og 2008, þá varð hrun og þá fór að halla undan fæti.
Ég fer í jólaköttinn í ár og gef skít í alla jólabónusa, þarf engan, enda duga 153 þús. vel fyrir öllu jólastússi eða hvað haldið þið?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.11.2013 | 18:20
Hugleiðing fyrir jólin.
Nú eru jólalögin farin að óma á fullu á einni útvarpsstöðinni sem varð til þess að ég fór að hugsa hversu erfiður tími þetta getur verið fyrir fólk. Ekki eru allir svo heppnir að vera í góðri vinnu, heilsuhraustir og með heilbrigð börn og fjölskyldu. En við gerum svo miklar væntingar til okkar sjálfra á þessum tíma, allt skal vera hreint, bakað og já það sem jólin snúast að mestu leyti um, kaupa og kaupa allskonar dót og glingur.
Nú eru svo margir sem eru atvinnulausir og geta ekki keypt mat handa börnunum sínum, hvað þá jólatré eða gjafir, þá hlýtur það að vera mikill streituvaldur að fara í Kringluna, allt uppljómað og verslunarhvetjandi, en viðkomandi á ekki peninga. þannig að við ættum aðeins að staldra við og setja nú gjöf undir tréð í Kringlunni, hljótum öll að geta gefið okkur tíma og gefið eins og 1 gjöf til að gleðja barn, sem ekki býr við þann munað að fá fullt af gjöfum, eins og við höfum kannski getað gefið okkar börnum og það öryggi, og fegurð sem í jólunum felst fyrir barnshjartað. Spenningur jólanna þekkist því miður ekki allstaðar í barni sem hefur verið alið upp við drykkju foreldra og óöryggi, það barn er hugsanlega spennt, en sú spenna er ekki af eftirvæntingu til jólanna.
Þeir sem misst hafa ástvini og eru hugsanlega einmanna, þá er þessi tími mjög erfiður, þar sem jólin eru nú sá tími sem allir njóta samvista við fjölskylduna. Foreldrarnir sem misst hafa barnið sitt úti í heim fíkniefna og eða áfengis, jólin eru nú ekki gleðitími hjá þeim. Ég held að við ættum aðeins að huga að þessu nú þegar jólin nálgast og vera góð við náungann og þá sem við vitum að eiga um sárt að binda, ekkert mál að kíkja í kaffi og dvelja smá stund hjá gamalli frænku eða frænda.
Er aðeins orðin væmin í dag, en það gera jólalögin.
Verum góð við hvort annað eins og Hemmi Gunn sagði og bless, ekkert jólastress.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.10.2013 | 14:05
Fyrir hverja er leigumarkaðurinn?
Ég skrifaði grein um lífið okkar sem þurfum að lifa í þessari svokölluðu "Skjaldborg" sem heimilunum í landinu var lofað. Ástæða þess að ég skrifa um lífið hérna í óörygginu, er nú bara til að vekja aðra til umhugsunar, því ég er ekki viss um að fólk geri sér grein fyrir hvernig lífið er í raun og veru fyrir okkur sem lentum svona illa í hruninu, að það breytti okkar lífsgæðum á þann hátt að ekki sér enn fyrir endann á því.
Þannig lítur þetta út fyrir mér, að við hinir almennu borgarar erum að basla við að semja um skuldir okkar og reyna að bjarga alla vega þeim málum, sem ábyrgðarmenn eru skráðir fyrir. Ég skil ekki enn að stjórnvöld hafi ekki séð það fyrir árið 2008, þegar þúsundir misstu vinnuna sína, að eftir 3-4 ár þá hljóta þessir aðilar að lenda í greiðsluvanda svo stórum að húsnæði þeirra fari í hundraðatali á uppboð, sem og bílar og aðrar eignir. Jú vissulega var fólki bent á að fara til Umboðsmanns Skuldara, sem og ég gerði, það tók 2 ár að skoða mína pappíra og ég fékk að fara í greiðsluskjól, en hversu margir hafa fengið raunverulega þá hjálp án þess að mannréttindi þeirra séu hreinlega brotin, en til að standast það ferli að fá samning, þá máttu ekki lenda í neinu óvæntu, því þá áttu á hættu að verða rekin úr skjólinu (sem gerðist í mínu tilfelli). Skv. talsmanni hjá UMS eru 4820 sem hafa sótt um greiðsluaðlögun, 661 beiðni hefur verið synjað, 605 samningar hafa verið afturkallaðir, 401 umsókn hefur verið lokað án samninga, 426 samningar hafa verið niðurfelldir 331 samningur er í mati og 1898 aðilar eru með samninga sem enn eru í gildi, en við erum að tala um að það eru 5 ár frá hruni og ég get ekki séð að þetta sé nein töfralausn.
Nú þegar íbúðirnar okkar hrannast á uppboð þá spyr ég hvar er þessi leigumarkaður, sem ætti í raun að vera orðin stórfelldur? Þar sem við erum nú hugsanlega flest komin á vanskilaskrá (mjög skemmtilegur endir á fjármálaferli) þá velti ég því fyrir mér hvernig við eigum að geta skilað inn ábyrgð fyrir 3. mánaða leigu með atvinnuleysisbótum, en leigan á meðal íbúð er allt að 250 þúsund kr. á mánuði og þá í útleigu hjá Íbúðalánasjóði fyrir 3. herbergja íbúð. Ég velti þessu bara fyrir mér, hefur engum stjórnmálamanni dottið í hug að út á götu fara að birtast heimilislaust fólk sem er kannski ekki til í að setjast að þar. Að Íbúðalánasjóður skuli krefjast þess að leiguliðar séu ekki á vanskilaskrá, þá er þetta ekki lausnin fyrir okkur sem erum að missa okkar eignir útaf hruninu. Hver fer viljandi á húsaleigumarkaðinn, ef ekki fyrir tilstilli hrunsins og þá hverjir eru þá ekki komnir á vanskilaskrá sem þurfa á þessum leigumarkaði að halda. Alla vega ekki ég.
Já maður verður nú samt að nota tíma í breyttu lífi til að bæta sjálfan sig og gera eitthvað uppbyggilegt, því ósjálfrátt breytist forgangurinn hjá manni, og hlutir eins og kaffihús, læknaheimsóknir, reglubundin krabbameinsskoðun, tannlæknar og hársnyrting eru ekki með í "budgetinu" svo ef þú sérð illa "hárhirtan" einstakling með skemmdar tennur og hugsanlega utanáliggjandi æxli, þá dæmið eigi, þetta gæti bara verið atvinnulaus einstaklingur ég eða þú.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Já þetta hljómar eigingjarnt, en ég spyr bara, hversu lengi þarf að bíða eftir að nefnd skili áliti á skuldamálum heimilanna, bíddu hefur eitthvað breyst sem við vissum ekki um, er þetta ekki búið að vera vitað að heimili í landinu væru á síðustu metrunum í eigu okkar, áður en þau verða keypt upp af sjóðum og þeim sem eiga fyrir kaupum nokkrum blokkum í einu, löngu áður en ný stjórn tók við og já fékk þessi stjórn ekki atkvæði út á það eitt að ætla að ráðast í skuldavanda heimilanna. Nei úps sorry fyrst þurfti nú að klára að lækka veiðigjöldin. Sef nú rólegri af áhyggjum vegna útgerðarinnar.
Ég spyr einmitt hvað verður um mig og mína líka, ég er komin á þann aldur að ég flokkast ekki undir vinsælt vinnuafl og þar sem ég hef starfað alla mína tíð á banka og fjármálamarkaði, þá er ekki um auðugan garð að gresja, þar sem æskudýrkun er meiri á þeim markaði en annarsstaðar, enda á reynsluleysi stjórnenda þátt í stöðu bankamála hér á landi í dag. Þrátt fyrir að ég hafi menntað mig á öðru sviði í atvinnuleysinu, þá er það nú eins og einn vinur minn sagði einhverju sinni:"þegar maður er komin uppí skóstærðina sína í aldri, þá er maður ekki með sem vinnuafl" og er ég komin 19 árum fram yfir mína skóstærð í dag.
Nú er ég búin að vera brátt atvinnulaus í 3 ár, eða frá 2008 og er því að detta útaf atvinnuleysisbótunum eftir nokkra mánuði, þar missi ég mitt fastaland og tekjur útgreiddar kr. 153.000.- hvað er þá til ráða? Fara á bæinn eins og kallað var í gamla daga, þ.e. sækja fjárhagsaðstoð til Garðabæjar, sem ég er svo "heppin" að tilheyra, en þeir hins vegar áskilja sér þann rétt að greiða aðeins helming af reiknuðum framfærslukostnaði eða rétt undir 70 þús kr. á mánuði. Hver vill leigja mér fyrir þann pening. Í alvöru hefur aldrei verið hugsað út í það eftir hrun, með að allt þetta fólk sem fer að birtast með sín sjónvörp og ísskápa út á götu. Hvert eigum við að fara? Tjalda með Hraunvinum eða hvað fara bara á götuna? ég spyr þar sem ég hef enga hugmynd um hvað verður um mig, eftir að hafa alltaf bara unnið eins og venjulegur íslendingur svona 120% vinnu, komið börnum mínum á legg ein og óstudd eins og það er nú oft um grýttan veg að fara, ég spyr hvernig endar líf manneskju sem bara hefur farið að reglum samfélagsins og er að upplifa ótta þess heimilislausa innan tíðar, en mitt heimili fer á uppboð fyrir jól. Já takk aftur frábæru gaurar...ég kýs ykkur örugglega næst.........
Skuldamálin ekki kláruð fyrir jól | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.9.2013 | 12:03
Hvað Virk gerði fyrir mig!
Virk er snilldarstofnun, sem ég var svo lánsöm að frétta af, þegar ég var búin að vera atvinnulaus í einhvern tíma, en ég er ein þeirra heppnu sem hef getað nýtt mér þeirra aðstoð undanfarin ár, en ég hef verið atvinnulaus meira og minna frá 2008, og það hefur ekki góð áhrif á mann að vera atvinnulaus til lengdar.
Hjá Virk er hins vegar frábær hópur fólks með mikla reynslu og þekkingu í að byggja upp brotið fólk, en maður brotnar óhjákvæmilega bara við það eitt að missa vinnuna, þó svo maður viti ekki framhaldið, sem er einskonar rússíbanareið í leiðindum er maður fer að hætta að standa í skilum og hefur ekki kost á því að standa við þær skuldbindingar sem maður gerði á tímum, er maður hafði laun og heilsu. En heilsan er nú ekki sjálfgefin, því eftir langvarandi óvissu og kvíða, þá gefur sig eitt og annað í líkamanum.
Fyrst eftir atvinnumissinn leit ég nú bara á það sem kærkomið frí, enda aldrei fengið svona langt launað frí og alltaf unnið miklu meira en bara 100% vinnu, þannig að ég var bara sátt. Ég skellti mér í langþráð nám og ætlaði svo bara að sigra heiminn með nýja þekkingu að vopni.
Lífið var nú ekki svo einfalt, eftir leit að vinnu í heilt ár, þá fer sjálfsmatið að brotna og kvíðinn að taka völdin, þar sem ég hef verið skilvís fram að þessum harmleik sem ég kýs að kalla það að missa vinnuna og umslögin frá Motus og Intrum streymdu inn um lúguna, var staðan orðin þannig að ég þorði ekki að opna póstinn, og þá varð ég nú að gera eitthvað. Ég fór til þeirra í Virk og var strax send á sjálfstyrkingarnámskeið. Send í Kvíðameðferðarmiðstöðina KMShttp://www.kms.is/ og fór ég þar í viðtöl hjá Helenu Jónsdóttur sem ásamt Kristbjörgu Leifsdóttur hjá Virk hafa algerlega bjargað lífi mínu,með þeim hætti að vera mínar stoð og styttur og hamrað á því við mig að ég kom mér ekki í þessa aðstöðu sjálf og þannig slegið á samviskubitið sem mann nagar, því jú þegar vinir og fjölskylda hafa skrifað uppá ábyrgðir fyrir mann og ég ekki í samningastöðu vegna lágra launa. Gott að heyra frá öðrum að ég sé ekki með einbeittan brotavilja gagnvart lánadrottnum og ég hafi ekki stjórn á þessum aðstæðum sem ég er í núna, heldur séu þær tilkomnar vegna stöðu í þjóðfélaginu og ekkert sem ég get gert, nema að hugsa um framtíðina og reyna að koma mér á þann stað í lífinu að ég óttist ekki nýjan dag.
Hef náð að bjarga bílnum mínum úr klóm tryggingarfélagsins, en ég skuldaði tæplega 10% af upphaflegu skuldabréfi sem á honum hvíldi og fékk að kaupa hann af tryggingarfélaginu á verði eftirstöðva bréfsins. Svo þar var mér létt á alla vega bílinn minn gamla og góða. Svo er að finna út hvað er til ráða er íbúðin fer á uppboð, en það er alla vega seinni tíma vandamál og það hef ég lært að vera ekki að velta mér upp úr einhverju sem ég ekki fæ breytt...leita frekar af leiguíbúð með vetrinum.
Þetta hafa þær hjálpað mér að gera, með því að einangra vandann og halda utan um það sem ég fæ breytt, sleppa hinu og nú er ég búin að fá fyrri krafta og heilsu og stend styrkum fótum við atvinnuleit, enda í góðum höndum hjá Virk.
Vil benda fólki í sömu stöðu og ég að gefast ekki upp, heldur bara fá hjálp. Tala við fólkið í Virk, sem er að vinna í þessum málum alla daga. Ég er alla vega á betri stað í dag, en þegar ég byrjaði hjá Virk og vil þakka þeim stuðninginn, og skilninginn á stöðu minni og met að þær sleppa ekki af mér hendinni strax.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.9.2013 | 14:46
Lífið í "Skjaldborginni"
Lífið í skjaldborginni, er líf sem ég óska engum að lifa í, en í dag 2013 eru svo margir annmarkar á því að hægt sé að láta sér líða vel að ég veit ekki alveg hvar skal byrja.
Ég er ein þeirra sem missti vinnuna mína í hruninu 2008, enda starfsmaður í Íslandsbanka á þeim tíma og var nú ekki ein um það, enda hundruðir sem lentu í því líka, en hef ég þó verið það heppin að fá vinnu af og til tímabundið. Þar sem ég hef sl. 30 ár starfað á fjármálamarkaði eingöngu, þá eru nú ekki miklar líkur að fá vinnu við mitt hæfi, enda ennþá verið að segja upp fólki í banka og fjármálageiranum.
Ég nýtti þó minn tíma í að læra aðra starfsgrein sem ég taldi að mundi gefa af sér vinnu þegar fram líða stundir í ferðamálageiranum og bind ennþá vonir við að fá vinnu í þeim geira.
Nú þar sem ég hef alla mína ævi verið hinn skilvísi greiðandi og bætti við mig vinnu, ef ekki dugðu launin fyrir dagvinnuna, þá er mjög skrítið að lenda í því fyrir "fyrrum skilvísan strangheiðarlegan" bankamann að vera allt í einu komin í vanskil út um allan bæ og vera meðhöndluð sem ég hef aldrei upplifað áður sem einskonar "skuldaglæpon" eins og ég hafi komið mér í þessa stöðu sjálf með einbeittum brotavilja. Enginn samningavilji er fyrir hendi hjá stofnunum, enda svo sem ekki mikið um að semja með kr. 153 þús útborguð laun sem atvinnuleysingi.
Ég upplifi að sjálfsögðu kvíða fyrir framtíðinni, en hvað verður um mann, þegar íbúðin fer á uppboð. Get ekki alveg skilið hvað verður um allt það húsnæði sem fer á uppboð, ég er búin að skoða leigumarkaðinn og hjálp með þessi laun hef ég efni á kjallaraherbergi. Ég sem hélt alltaf að ég mundi lifa ágætislífi og hætta að þurfa að basla þegar börnin mín væru komin á legg, hef borgað minn viðbótarlífeyrissparnað, sem er nú að mestu uppurinn, þar sem ég er búin að taka hann út á þessum árum atvinnuleysis.
Allstaðar finnst mér ég lenda á vegg, ég hef þurft að borga tryggingar af bílnum mínum fyrirfram kr. 155 þús, þar sem mér er að sjálfsögðu ekki treystandi til að borga þær smátt og smátt svona atvinnulaus og siðlaus sem ég hlýt að vera. Það er ekki gott þegar það eru rúmlega mánaðarlaunin mín. Ég var líka rekin úr greiðsluskjóli vegna vangetu til að standa í skilum, en ég lenti í óvæntri greiðslubyrði vegna fjölskyldumála og það er ekki leyfilegt í greiðsluskjólinu. Svo nú velti ég framhaldinu fyrir mér. Hvað verður um okkur þetta venjulega fólk sem lendir í þeim harmleik að missa vinnuna og lendir í þeirri stöðu að allar okkar skuldbindingar eru vanefndar og allt það góða fólk sem í góðri trú skrifar uppá ábyrgðir okkur til handa, enda við ekki orðnir meintir "fjármálaóreiðumenn" á þeim tíma er til skuldarinnar var stofnað, hvar stendur það gagnvart okkur?
Ég vona að mér verði bjargað úr þessari Skjaldborg, kæri mig ekki um að vera hérna, enda ekki gott að vera hérna. Bíð ennþá spennt eftir áhyggjuminna lífi þegar fram liða stundir og skrifa þetta aðeins til að benda á stöðu okkar, en alltaf er verið að tala um að bæta stöðu skuldsettra heimila, ég hef ekki séð mína stöðu batna ennþá.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)