Brúðkaupsundirbúningur

Hérna hjá okkur á Sardeníu er dóttirin og tilvonandi tengdasonur á fullu í brúðkaupsundirbúningi og var í gær svona undirbúningsmatarkynning á matnum sem á boðstólnum verður í sjálfu brúðkaupinu. Við mættum á Hótel Saint Lucia í bænum Capoterra sem er næsti bær við Pula, lítill og sætur bær. Hótelstjórinn stelpa á sama aldri og dóttir mín, fór með okkur í gegnum alla réttina og þjónar og kokkar kepptust við að upplýsa okkur um innihald og framreiðslu. Held varla að ég hafi áður verið svona södd, en það er með ólíkindum hvað þessar ítölsku konur eru grannar m.v. þessa daglegu 8 rétti eða svo, sem hérna eru borðaðir.  Fyrst voru það forréttirnir sem verða boðnir fram hjá sundlauginni með fordrykknum, 6 réttir þar þurftum við að smakka.  Þá voru það forréttirnir sem verða á borðunum þegar inn er komið eftir athöfnina í garðinum, nokkrar ostategundir, parmaskinka og Salami þeirra Sarda sem er mjög sterk pylsa. Nú þá var komið að nokkrum pastaréttum, og þá var ég orðin södd, en lét mig hafa mjólkursvínið eins og þeir kalla litlu barnasvínin sem er þeirra eftirlæti. Það var frábært á bragðið og svo var það kaka og líkjör og þá kaffi og Limonchello og að sjálfsögðu var hvítvín og rauðvín með matnum. Ég reikna með að þurfa að hringja í Sjóklæðagerðina og biðja þá að sauma brúðarmóðurkjól með þessu áframhaldi, en þar sem ég skildi eftir smávegis af nokkrum pastaréttum, þá kom kokkurinn með angistarfullan svip og spurði mig hvort þetta væri vont. Nei nei molto bueno sagði ég og reyndi að skýra væntanlegt vaxtarlag mitt. Hann skildi mig ekki. Ég fékk ekstra mikið af svíninu, hann hefur ætlað að kanna hvort ég yrði svona ósvífin að leifa því líka. Sagði ekki orð við dótturina sem rétt bragaðaði á réttunum, enda alvön hafandi búið í landi pastaréttanna í 8 ár.

Daginn eftir fóru þau að panta hringana og höfðu reyndar sent hringasmiðnum myndir nokkru áður, en hann sagðist vilja hitta þau aftur og þau mundu þá borga 600 evrur inná hringana. Þau mættu og allt klappað og klárt en hann reyndist ekki vera með posa. Ekki málið sagði hann, skreppið þið bara í apótekið hérna á horninu og borgið honum 600 evrur. Já ég skil, sagði dóttir mín sem skildi alls ekki. Hvað átti hún að segja við apótekarann...ég er að kaupa hring hérna rétt hjá og ætla að borga hann hérna. Apótekarinn var greinilega vanur þessháttar sendingum og sagði ekkert mál, ég borga bara Alfonso og málið dautt.  Ekkert verið að flækja málið, þau spurðu hvort þau fengju kvittun fyrir Alfonso hringasalann. Nei nei alls ekki, ég borga honum bara seinna sagði apótekarinn. Núna eru þau að smakka tertu, ætli þau þurfi að fara á heilsugæsluna til að borga hana maður spyr sig?


1. maí gangan á Sardeníu til 4. maí.

Já 1. maí gangan eins og við þekkjum hana á Íslandi er ekki eins hérna á Sardeníu, en hún er ekki fyrir baráttu verkalýðsins, heldur er þetta 4. daga ganga til heiðurs San Efesio dýrðlings þeirra Sarda. Þeir ganga frá Cagliari þann 1. maí til Sarroch og þaðan til Pula og þá til Nora á ströndina sem heilagur Efesio var hálshöggvin árið 1652, þar sem hann neitaði að hætta krisnu trúboði. Hann var fangelsaður í Cagliari og farið með hann í skjóli nætur á ströndina í Nora svo ekki yrði uppþot af hans fylgjendum, sem skýrir gönguna þessa 4 daga.

Þann 1. maí fór ég í miðbæinn að skoða herlegheitin, aðra eins skrúðgöngu hef ég ekki séð, fleiri fleiri vagnar dregnir af skreyttum nautum fullir af fólki konum og börnum í gullskreyttum þjóðbúningi þeirra Sarda, vagnarnir yfirskreyttir með blómum og trjágreinum,allar götur skreyttar með slaufum skrýddum pálmablöðum og blóm meðfram allri leið dýrðlingsins auk þess sem litlir fánar eru strengdir yfir allar götur og svo ofan á þetta allt, henda þeir miklu magni af rósablöðum á götuna svo mjúkt sé nú fyrir hersinguna að ganga göturnar. Eftir nautunum koma svo prestar, djáknar og nunnur með talnaband í höndum ofan á fermingarvasaklútum, kyrjandi einhverjar bænir og þá síðast pólitíkusar og herforingjar úr hernum. 

Loksins kemur svo Heilagur Efesio í glervagni dregnum af mest skreyttu nautum sem ég hef séð. Ég var spennt, en viti menn kemur þessi drellifíni uppábúni gullskreytti plastkarl í glerbúri fullu af gullgjöfum, sem fólk hefur sett inn til hans til að öðlast betra líf, fá heilsu eða hvað það nú telur sig vanta. Ég fékk hláturskast, hann var eitthvað svo lítið fyrir mann að sjá þessi dýrðlingaplastkarl.images

Hérna er drukkið og borðað og dansað þessa 4 daga, en heilögum Efesio er skellt inn í skreyttar kirkjur yfir blánóttina.  Búðir eru svona opnar eftir hentugleika, en virðist þó ekki bundið við þessa 4 daga, þær eru opnar svona stundum, alltaf á morgnana. Svo loka þær bara svona nokkra tíma getur teygst á tímanum fram eftir kvöldi. Tónleikar voru haldnir hérna á torginu í tilefni dagsins og voru menn með börn sín fram eftir nóttu, bærinn var troðfullur af fólki, þegar ég fór heim um 3 leytið. Daginn eftir var svo búið að þrífa upp öll rósablöðin til þess eins að henda þeim á aftur, þegar skrúðgangan færi til baka.

 


Sendiboðinn skotinn

Hérna á Sardeníu er fólk ekki sett í flokka, það er ekkert aðhafst með fólk sem er lasið á geði, með AHDH eða bra skrítið fólk yfirhöfuð. Það tíðkast ekki hérna að gera neitt mál út af fólki sem á við geðræn vandamál að stríða, það er ekki sent til sálfræðings eða geðlæknis. Það hins vegar er margt spjallað á svona litlum stöðum og ég hef heyrt meira um fólk sem ég þekki ekki neitt heldur en ég veit um sumt af mínu eigin fólki. Óheppnasti gaurinn hérna er án efa Gino, hann á vin Roberto sem er frekar skrítinn, sá talar lítið vegna feimni, nema ef vera skyldi eftir nokkra áfenga drykki. Í vetur skelltu þeir sér til Bali á hótel og voru þreyttir eftir ferðina sem var löng, en ákváðu samt að fara í garðinn og skoða og skella sér aðeins í sólbað.  Á borðinu í garðinum var borð með drykkjum og Roberto spurði hvort þeir ættu að fá sér að drekka, en ekki alveg strax sagði Gino. Nú Roberto stóð upp og fór á salernið og fékk sér drykk í leiðinni, var ekkert að spyrja heldur tók hann með sér og þambaði. Nú hann fór nokkrar svona ferðir og tók sér alltaf drykk í leiðinni, svo fór að Gino spurði hvort Roberto væri ekki til í að koma og athuga með þessa drykki. Nei ég er bara ekert þyrstur svaraði hann. Fljótlega sagðist Gino þreyttur og vildi fara upp að hvíla sig smá, alveg þyrstur fyrir allan peninginn. Daginn eftir sagðist Roberto ætla að fara á barinn og reyna að fá kaffi fyrir þá félaga með bendingum svo hann þyrfti ekki að tala. Það tókst ekki betur en svo að hann endaði á því að sitja á barnum til 1 um nóttina og kom haugfullur uppá herbergi, en hann hafði læst Gino inni á herberginu, þannig að Gino var sem sagt ekki búin að drekka eða borða í 2 daga.

Nú Gino á annan vin sem heitir Marco, sá á kærustu sem heitir Maria og sú var eitthvað að halda við giftan mann og kona þess gaurs hringdi í Gino, enda líka vinkona hans og spurði hann um málið, hann sór allt af sér og þóttist ekkert um málið vita. Bróðir hennar hringdi þá í Gino og hótaði honum lífláti og einnig Marco vinur hans var líka reiður honum fyrir að láta sig ekki vita um málið, eins og hann hefði verið með í þessu framhjáhaldi. Eina sem aumingja Gino hafði af sér gert er að fá sér drykk á barnum sem Maria var að vinna á sama kvöld og atburðurinn átti sér stað. Allt sem sagt gleymt um framhjáhaldið og það allt, en allir reiðir við Gino, sem átti að hafa sagt eða ekki sagt eitthvað við einhvern. Talandi um að skjóta sendiboðann. 

Sjálfur er Gino í sambandi við gifta konu frá Venezuela sem er búin að vera á leiðinni að skilja við manninn sinn sl. 9 ár, fyrst frestaði hún því, vegna þess að hún þurfti dvalarleyfi, nú svo fæddist barnið þeirra hjóna, svo var húsið sem Gino byggði fyrir hana ekki tilbúið, nú svo er það til, en þá á frænka hennar eflaust afmæli, svo já Gino er sennilega ekki heppnasti gaurinn á Sardeniu.


Hádegisverður að hætti ömmu Italia

Sarroch er bær tilvonandi tengdaonar míns hérna á Sardeníu en hann er í svona 6 km fjarlægð frá Pula og um 20 km frá höfuðborginni Cagliari. Sarroch er bær sem er við ströndina, en þar er reyndar olíuhreinsunarstöð sem nær yfir ströndina rúmlega hálfa en þetta er sögð haf verið með fallegri ströndum hérna á Sardeníu. Á árum áður áður en olíuhreinsunarstöðin var sett upp þá sáu þeir um alla peruframleiðslu fyrir eyjuna eða megnið af henni. Í dag þorir fólk ekki að borða ávextina, þar sem það er svo mikil mengun af olíustöðinni. Krabbameinsaukning síðan olíuhriensunarstöðin var sett í gang er sögð vera um 50%, en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það. Flestir íbúar Sarroch vinna við þessa stöð, sem og bróðurpartur íbúa næstu bæja í kring.

Mér var sem sagt boðið í mat í Sarroch til ömmu tengdasonarins tilvonandi, sem er 90 ára gömul, býr í stóru húsi með 2 íbúðum. Yngsta dóttirin býr í íbúðinni á efri hæðinni og sú gamla niðri, en þannig er að þegar eldri systkinin fluttu út, þá tók það næsta við og sú yngsta dagaði uppi þarna.

Nú það voru svona um 18 manns þarna, konur og börn og allir töluðu í kapp við hvert annað, við mig líka, þó ég sé nú ekki alveg talandi á ítölsku hvað þá Sardenísku, sem er alls ólík ítölskunni.  Fyrst var komið með lasagna og þar sem ég hef heyrt að þeir séu alltaf með nokkra rétti,bað ég um lítinn skammt og ég fékk svona uþb. heilt franskbrauð uppá gamla mátann með þessu og rauðvín að sjálfsögðu.  Þá kom sú gamla með kjötbollur og salat og ferska tómata á greinum og radísur, annað franskbrauð kom með því á hvern disk. Nú þá vippaði sú gamla sér að arninum, þar sem heilt lamb á teini grillaðist og náði hún bara í lambið á teininum og hóf að klippa það í sundur (það gera þeir hérna með kjötið klippa það allt í búta með skærum) Ég komst ekki hjá því að fá mér nokkra bita af kjöti, þeir voru einfaldlega settir á diskinn minn. Fransbrauðið var búið sem betur fer og þá voru það nokkrar tegundir af salati með kjötinu.  Kaffi og kökur kom sú gamla svo með stolt á svipinn  og þurfti ég að smakka nokkrar helstu kökur Sardeníu, þá skellti sú gamla sér í garðinn með stiga þrátt fyrir að vera rétt rúmlega málbandið á hæð og ekki virtist hún neitt heilsutæp þrátt fyrir alla mengunina í bænum og kom með nokkrar risaappelsínur og nesboli, sem er svona nokkurskonar ferskjur bara minni og sætari. Enginn fékk að hjálpa þeirri gömlu "hennar boð"  en hún heldur svona mismannmörg matarboð alla sunnudaga. Ég borðaði nú þetta allt sem fyrir mig var lagt, fyrir kurteisis sakir.Hrósaði matnum og fékk með mér heim stóran skammt af lasagna. Stóra spurningin er því sú: passa ég í brúðarmóðurkjólinn? Það kemur í ljós síðar.


Rakarinn í Pula

Hérna í litla bænum Pula á Sardeníu er margt skrítið og skemmtilegt og rakarinn hérna annar af tveim sem eru starfandi hérna í bænum er uppspretta af sögum í öllum veislum og hafa allir sögu af honum að segja. Í fyrsta lagi er hann vinsælli rakarinn hérna af þessum tveim, því Sardeníubúum finnst hann vera töff. Hann er með rastagreiðslu og tagl niður á bak og byrjar daginn á drykk Sarda sem er Spritz og vel áfengur en það er hans morgunmatur.

Tengdasonur minn fór til hans í vikunni og bað um klippingu hann sendi hundinn að sækja dagbókina sína og bað tengdasoninn að koma aðeins á næsta bar meðan hann skoðaði hana. Fékk sér spritz og sagðist alveg upptekinn, en hann ætti lausan tíma um kvöldið. Tengdasonurinn mætti þá á tilsettum tíma ásamt vini sínum sem átti einnig tíma þetta kvöld og þeir mættu á barinn að sjálfsögðu og var rakarinn orðinn vel drukkinn, en sagðist taka einn í einu og hvíla sig á milli. Vinurinn fór fyrstur og leið og beið og tengdasonurinn farinn að undrast um þá og kíkti inn, jú vinur hans sat í stólnum og með helming af hárinu klippt, en rakarinn hafði í fyrsta lagi klippt einhvern frænda sinn og látið hann bíða á meðan, svo eftir það hafði hann farið út að hitta mann (kaupa sér jónu) og var ekki kominn aftur og hafði vinurinn verið svona hálfklipptur í rúma 2 klukkutíma. Þeir félagar fóru aftur á barinn og löngu síðar kom rakarinn á barinn og spurði af hverju hann hefði farið úr stólnum? Hvurslags óþolinmæði þetta nú væri?

Ok þá fæ ég mér einn drykk áður en við klárum sagði hann svo.  Sirka 3 drykkjum síðar og mun léttari pyngju hjá þeim félugum ákvað hann að klára klippinguna á vininum, en tengdasonur minn ákvað að hinkra til næsta dags, enda klukkan orðin 4 að nóttu og ennþá ekki búið að fullklára klippingu vinarins og það hafði tekið 7 tíma, svo hann ákvað að fara til hins rakarans daginn eftir. Vinurinn var þó ágætlega klipptur og nokkuð sáttur, fannst þetta þó fulldýrt, þ.e. allir drykkirnir. Klippingin sjálf kostaði reyndar bara 30 evrur.


Pula á Sardeníu og dularfulli kindahópurinn.

Þar sem ég kem keyrandi út frá húsinu sem ég leigi hérna í Pula niður götuna á fína Audi bílaleigubílnum, bregður mér illilega, það kemur hópur af kindum á móti mér og virðast einar, en með einbeittan vilja að komast sem fyrst á leiðarenda.  Ég fraus við stýrið, enda ekki á hverjum degi að maður mæti svona kindahóp í miðjum bæ virtust einar og ég lokaði augunum og bað til guðs að þær mundu ekki skemma fína bílaleigubílinn. Það kom á daginn að þær voru ekki einar, það var hundur með þeim, já alveg heill hundur til að stýra öllum 50 kindunum og lömbunum á grasbalann sem var á milli hússins míns og götunnar, en þangað var för þeirra heitið. Þær röðuðu sér svo niður í beina línu og borðuðu blómin og grasið og eftir svona korter var þeim hóað saman (af hundinum) og yfirgáfu svæðið. Ég spurði Sardeníska tengdason minn hvað væri eiginlega í gangi og sagði hann að þetta væri eðlilegt og ástæða þess að ekki væri neinn smali eða maður með þeim væri sú að það væri ólöglegt að stela grasi og þeir vildu ekki verða teknir við þá iðju. Ég hitti svo strák sem er bóndi og hann sá þennan sama kindahóp í gær fyrir utan hjá mér og þekkti að sjálfsögðu hundinn og sagði mér að hann ætti í meiriháttar veseni með þessar kindur því eigandinn sigaði þeim einnig á hans land og lét sig svo hverfa á meðan, eins og þær hefðu bara tekið það uppá sitt einsdæmi að skondrast á hans landsvæði og fá sér að snæða.

Ég hélt að ég gæti ekki orðið meira undrandi, þar til ég mætti asna með kerru aftan í sér og unglingur í kerrunni. Fannst eins og ég væri komin langt aftur í aldir, og mun ekki vera á "flipflopsum" labbandi í bráð, þar sem göturnar eru allar í lambaskít og hestaskít eða allt þar til rignir, sem gerist einu sinni í mánuði eða svo. Hérna er einnig allt morandi í flækingshundum, sem liggja fyrir framan súpermarkaðinn og betla alveg hellingur af þeim. Annars er allt svo þrifalegt hérna, að ég hef nú trú á því að nágrannar mínir fari út með skóflu og kúst og þrífi þetta upp. Nú heyri ég í bjöllu og þær eru mættar aftur, og ég er farin að fylgjast með kindunum "mínum".


"Óhreinu börnin hennar Evu"

"Aldraðir og öryrkjar" eru oftast nefndir saman sem ein heild, oftast tengt neikvæðri umræðu, sem flokkur sem er bara með vesen og usla. Ég sé ekki að 20 ára öryrki eigi neitt sameiginlegt með öldruðum, annað en vera settur í sama "ruslflokk" og ekki skrítið að fáir hafi mætt í mótmæli við Tryggingarstofnun Ríkisins í gær, þar sem fæstir vilja láta opinbera sig sem þetta "vesenisfólk" í þessum flokki. Fólk hefur bara frekar kosið að vera bak við luktar dyr, en að birtast opinberlega sem þessir "vesenistar" að krefjast mannréttinda eins og hver annar, á þess að þurfa í dag 2016?

Ég á aldraðan föður sem hefur alla sína ævi verið hress og heilbrigður og hafði aldrei farið til læknis fyrr en fyrir 2 árum, eftir andlát móður minnar, þá fór hann að kenna sér meins í hjarta  og víðar og fór á spítala, þar fannst ekki skrifaður stafur um hann, enda ávallt getað haldið sig heima, án lyfja og lækna. Hann fór í meðferð við krabbameini og sl. sumar og var svo slappur, að hann gat ekki verið heima eftir nokkrar tilraunir til þess. Hann endaði á Landakoti til endurhæfingar og var þar, þar til núna í janúar, en þá var hann orðin leiður og langaði að kíkja heim til sín, enda ekki komist heim um jól eða áramót. Nú hann var síðan of slappur og lasin til að komast aftur á Landakot og viti menn, þá var hann bara útskrifaður. Hann var of veikur til að komast á spítalann og því bara útskrifaður.

Við fengum að tala við félagsráðgjafa Landakots, sem tjáði okkur að við þyrftum að sækja strax um hjúkrunarheimili og skrifa undir fyrir hans hönd svo umsóknin kæmist strax í ferli. Ég skrifaði undir fyrir hans hönd, og var þeirri umsókn synjað strax á þeim forsendum að hann hefði ekki skrifað undir sjálfur. Félagsráðgjafinn tjáði okkur einnig að 200 manns væru á biðlista eftir hjúkrunarheimili, 100 sem væru innlagðir á spítala og 100 aðrir sem væru heima. Einnig sagði hún okkur að hún vildi bara vera hreinskilin og að einungis 30% þeirra á biðlistanum kæmust inn á þessi hjúkrunarheimili, hinir 70% lifðu ekki biðina af.

Nú er faðir minn í dag 87 ára gamall og er heima, hann getur ekki farið hjálparlaust fram úr rúminu og hann getur þar af leiðandi ekki náð sér í vatnsglas, hvað þá annað, hann á erfitt með að rísa upp úr rúminu. Hann fær heimahjúkrun og mat sendan í poka sem hengdur er utan á hurðarhún íbúðarinnar. Hann getur ekki sótt matinn. Við fengum synjun númer 2 á umsókn um hjúkrunarheimili á þeim forsendum að ekki væri komin nægjanleg reynsla á veru hans heima. 2 mánuðir rúmfastur eru ekki næg ástæða að þeirra mati til þess að samþykkja umsókn, hvað þá koma honum í þessa bið, ef hann yrði nú einn af þessum heppnu 30% sem komast inn fyrir andlát.

Ágætu drengir (og stúlkur) á Alþingi, þíð eigið eftir að eldast ef guð lofar og þið munið vilja fá að eldast með reisn og ekki vera uppá aðra komin. Ef þetta verður til að vekja ykkur til umhugsunar þó ekki væri, nema til að minna ykkur á það að þið eigið eftir að lenda í þessum "ruslflokki" sjálf.

 

 


Hvar er verkvitið?

Ég hef aldrei logið því að ég hafi verkvit í allskonar svona heimilisverkum, en nú brá svo við um daginn að ég fékk ógeð á sumarhúsgögnunum mínum sem voru öll farin að flagna og farið að skína í bert tré.

Ég skellti mér í Húsasmiðjuna og keypti hvítt lakk og nú átti að lyfta svölunum upp. Ég byrjaði reyndar á því að skúra svalirnar, hófst svo handa við að raspa gamalt lakk með sandpappír. Því næst lakkaði ég 2 borð og 4 stóla, en hundurinn á heimilinu lá í sófanum og horfði á mig, en hann er að fara úr hárum greyið og sækir mikið í að vera á svölunum og horfa á heiminn.  Hann rak sig í lakkið og missti ég rúmlega helming af því á nýskúruðuu svalirnar. (hef ekki fundið út hvernig leysa beri lakk af flísum)

Nú í dag ætlaði ég svo að fara umferð nr. 2 og viti menn húsgögnin voru öll loðin, enda hundurinn svartur labrador og stólarnir voru eins og þeir væru með gærum og líka borðplöturnar. Ég tók mestu hárin sem náðust og málaði yfir hin. Þurfti svo að færa eitt borðið milli staða og missti það ofan í blómaker, þar sem það lokaðist óvart.

Ég er núna með hvítt hár,hundurinn hvítleitur á köflum og blómin hvítlökkuð og ofan í loðnu borðin eru nú föst gul blóm. Ég gefst upp enda er farið að rigna.


Fólkið í Mílanó

Mílanókonur eru tvennskonar, annars vegar þessar sem mæta í vinnu með strætó eða metró og klæða sig eftir veðri og svona frekar með tilliti til þæginda, svona gallabuxur, strigaskór og þessu blessuðu vattúlpum sem allir ítalir virðast eiga.  Þær eru þó allar í ítölskum merkjum og fágaðar í útliti allt frá Prada, Armani til Chanel, sem hinn almenni Ítali virðist alveg hafa efni á. Þessar konur eru oft frekar lítið málaðar og bara svona venjuleg meðalkona.  Hin tegundin er svo sú uppstílaða sem hangir á Duomotorginu, sem er dýrasta svæðið í Mílanó og sötra hvítvín, eða spritz og narta í eina og eina ólífu, þær eru undantekningarlaust mjög grannar, enda allir ítalir uppteknir af þyngd og á það jafnt við um karla og konur. Þær eru kallaðar ljóshærðar, þó svarta hárið sé litað og oftast nýklipptar og flott greiddar, enda vinna þessar konur ekki og sitja bara á kaffihúsunum milli þess sem þær versla í merkjavörubúðunum. Þær er líka oftast með burberryklæddan smáhund með glitrandi ól með sér og bera sjálfar svona um kg af gulli á sér. Þessar konur eru í háum hælum alltaf og hver annarri glæsilegri og flottari, með stútvarir eftir nokkrar aðgerðir á andliti og hrukkulausar.  Labbi maður framhjá aftur eftir 2-3 tíma sitja þær ennþá með glösin sín, en ekkert að borða, held að ef maður mundi spyrja þessar konur hvenær þær borðuðu súkkulaði síðast, þyrftu þær langan umhugsunarfrest. Held ekki að margar ítalskar konur leyfi sér slíkt á daglegum basa. Þú sérð ekki þessar konur snerta flögurnar sem fylgja með drykkjunum, nei eins og ég segi þær narta kannski í ólífurnar brot úr deginum.  

Ítölsku Mílanómennirnir eru annað hvort algerir plebbar (í augum íslendingsins sem er sjálfur svo smart) í merkjavörum þó, en eitthvað svo illa raðaðir saman. Þó eru flestir í merkjavöru þó ósmartir séu. Oftast í vattvestinu fræga. Meirihlutinn  eru þó eins og klipptir út úr tískublaði, hvílíkt stíliseraðir í flottum fötum, þessi typisku sólgleraugu, trefil, raðað hár og svo í þessum skemmtilegu vattvestum utan yfir allt jakkafötin líka. Karlmennirnir eru ekkert síður með Pradapoka eða Armanipoka og eru alveg jafn lengi að velja sér föt og taka sig til, ef ekki lengur.  Sem sagt viljirðu líta út eins og ítali, eru rayban/chanel/prada sólgleraugu must.

Vattúlpan þeirra fræga vel aðsniðin í mittið.

Stór Merkjavörupoki (ath. er margnotaður og einhverskonar stöðutákn) 

já og bara fullt af pening, eða kaupa þetta dót hjá sölumönnunum á 10 evrur og eiga á hættu að vera tekin.....svo er bara fínt að vera Íslendingur.... 


Fólkið á Sardeníu

Fólkið á Sardeníu minnir um margt á okkur íslendina, er svona frekar afskipt, mjög ólíkt ítölum frá meginlandinu, þar sem þeir skipta sér af öllu og eru helst með nefið ofan í manni, meðan pantaður er matur á veitingahúsi.  Menning þeirra og siðferði hefur alveg haldið sér óbreytt og tala þeir sardenísku, sem á ekkert mikið skylt við ítölsku í eyrum íslendingsins.

Sardeníubúar eru einstaklega lágvaxnir og er ég með mína 164 og 1/2 cm hávaxin hérna, sem er alveg dásamleg upplifun. Ég gnæfi yfir þá í strætó og líður eins og Gulliver í Putalandi, gæti vel ýmindað mér að meðalhæð kvenna hérna sé um 156 cm og karla ekki mikið  hærri en 170 cm. Þetta er mjög skrítin tilfinning að vera allt í einu orðin hávaxin á heilli eyju, en reyndar hef ég ekki farið um hana alla, en fólkið hérna í höfuðborginin Cagliari kemur mér svona fyrir sjónir.

Klæðnaðurinn hérna er um margt frábrugðin Mílanóbúum t.d. en hérna finnst enginn H&M búð, ekki mikið úrval af búðum svo sem, en allir ungir menn klæðast eins og það eru joggingbuxurnar gráu, sem voru á Íslandi fyrir margt löngu, þeir sem taka stælinn alla leið, eru í leðurlíkisjoggingalla og allir í íþróttaskóm, sem er náttúrulega mjög skynsamlegt. Ég hef aldrei séð jafn margar tegundir af íþróttaskóm og hérna á Sardeníu. 

Klæðnaður ungra kvenna er svo alveg sér á parti, en allar eru þær klæddar í leggings, eða gammosínur eins og við vorum með börnin okkar í og í þessum óhefðbundnu íþróttaskóm með hælum eða þykkum botni, ekki veitir af, þar sem þær eru allar eins og áður sagði  frekar lágvaxnar. Við þetta klæðast þær svo ítölsku vattúlpunum sem virðist vera eign hvers einasta ítala, þær eru oftast í mittisúlpum, og finnst manni skjóta skökku við að vera í dúnúlpu við sokkabuxur. Við þetta bera þær svo allar plasttöskur frá Armani Jeans í öllum litum. Ekki má gleyma kinnalitnum sem þær setja yfir allan vangann, hélt ég fyrst að þetta væri óvart, þar til ég sá allar með fölbleika litaða vanga.

Fólkið hérna á eyjunni er með mjög svona fornaldarlegan hugsunarhátt, eins og þessar hefðir sem þeir halda ennþá í. þegar þú ferð á matsölustað, þá eru flest borðin með karlmönnum sem eru kannski svona 12-16 saman og allir að borða og drekka. Ef pör eru saman að borða, þá er konan með vatn, nánast undantekningarlaust og karlinn með bjór eða rauðvín, hún fær sér svo kaffi, hann kaffi og limoncello. Einnig á flestum börum voru eingöngu útlendar konur með bjór, en þó svona ein og ein frá Sardeníu.   Þegar ég spurði Andrea vin minn frá Sardeníu, þá sagi hann, já konur drekka ekki, þú ferð ekki á barina hérna eins og í Mílanó, það yrði bara horft á þig eins og þú værir eitthvað skrítin og þegar ég spurði hann af hverju karlar væru alltaf einir úti að borða, þá sagði hann í 1. lagi, þá eru konurnar í megrun og í öðru lagi þá eru þær heima að passa börnin. Er það nema von að þær þrói  með sér fýlusvip frá því þær fermast og uppúr, ég spurði út í það líka og þá sagði hann mér að það viðgengist á Sardeníu að vera alltaf óánægð með það sem þú hefur, annars lítur út eins og maðurinn þurfi ekki að leggja harðar að sér með sambandið og getur hætt að kaupa gjafir handa kærustinni.

 

Ég fór ein á bar og pantaði mér kokteil og fór síaðan ein út að borða og fékk mér áberandi rauðvínsflösku með pizzunni og kaffi og limoncello á eftir þessu, ég  var meira að gera þetta til að mótmæla þessum fornaldarhugsunarhætti, en gat öllum verið meira sama...já held það, en það var glápt á þennan hræðilega alka sem ég var og gat mér verið meira sama.....já já alveg...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband