22.9.2011 | 23:53
5 landa sýn á einum degi!
Ég ákvað hérna um árið að skella mér í nám til Genóva á Ítalíu og fór glöð og reif að heiman með útprentun úr "Gúggul örþ" leiðbeiningar, en þar sem ég er nú svo vel áttuð (algerlega eigin hugarórar) þá ætti ég nú að geta ratað.
Ekki veit ég af hverju ég hef alltaf talið mig með innbyggt GPS, því það er svo fjarri sanni. Geta fjölskyldumeðlimir ekki sagt annað mér til hróss að þeir hafa nú fengið að kynnast Mallorca betur en þeir hefðu viljað eins og t.d. á leið frá Cala'dor í miðbæinn sem tekur uþb. korter, en ekki með minni hjálp (tókum Palma leiðina á þetta) eftir hraðbrautinni með nokkrar fjölskyldur af hótelinu með okkur, þar sem menn eru svo almennilegir og hjálpfúsir. Ferðin tók 3 klukkutíma og 45 mínútur og fólk var svangt og úrillt. Ákvörðun var tekin ég mun ekki hjálpa fólki að rata aftur, Vanþakkláta pakk!
Þetta er nú ekkert ljótt útsýni þarna í Cala´dor
Sem sagt þennan dag lagði ég af stað frá Íslandi til Stokkhólms, þar sem ég tók Sasvélina til Mílanó og þaðan er um tveggja klukkustunda keyrsla til Genóva.
Glöð og reif og sjálfstæð kona sótti bílaleigubílinn og afþakkaði pent GPS, með "ég er nú meðetta góurinn" svip.
Ég hélt nú til Genóva upprifin af þessari hugmynd minni, að hafa skellt mér ein í nám, gaman að hlusta á Ítalska músík og renna eftir hraðbrautum Ítalíu.
Það eina sem skyggði á gleði mína og hamingju var að ég fékk leigðan Fiat Punto sem var beinskiptur (óskiptanlegur á köflum) Ég keyrði því ekkert mjög hratt og skildi ekki í fyrstu hvað margir flautuðu á mig, en ekki gat ég gert að því að ég komst ekki hærra en í 3. gír, (hinir gírarnir örugglega bilaðir) auk þess þurfti ég nú líka að lesa á google earth útprentunina mína fínu.
Þetta var ekkert mál, ég elti Gen...eitthvað alveg örugg með mig, fór inná hraðbraut og útaf hraðbraut, en þegar ég sá sama betlarann 3 tímum eftir að hafa séð hann fyrst, fóru nú að renna á mig 2 grímur. Er verið að elta mig? Ég hugsaði með mér eru svona Roadcrimes bara í Florida? Örugglega ekki!. Ég teygði mig í veskið og hélt á því, ætlaði nú ekki að láta kippa því úr framsætinu, þar sem náttúrulega engin læsing var á þessum bíl (væntanlega samsæri milli þessarra glæpona sem þóttust vera að betla og bílaleigunnar) gott ég sá við þeim áður en þeim hafði tekist að ræna mig og drepa og henda mér útí vegakant .
Ég og Puntoinn keyrðum uppímót í ansi langan tíma og ég mundi jú að Genova er niður af hálendi, en fjandinn hafi það, svo kom skilti "Lake Como" ha hvað er það nú að ger hérna hugsaði ég, já ætli þetta sé ekki bara auglýsing (farið endilega héðan til Comovatns).
Nú lenti ég í langri bílaröð og hugsaði með mér. "Genóva svona vinsæll staður! Gaman" en svo kom hermannaklæddur dáti að mér og sagði: "Willkommen zum Sweitzerland" Wott! but I´m going to Genova sagði ég móðguð. Ja bitte, das ist nicht hier! Hann bauð mér að snúa við á torginu og fara til Ítalíu aftur og keyra í hina áttina. Hvað eru þessi lönd líka að vera með svona nánast eins nöfn...Genóva, Genive!
Ég elti nú alveg rétt skilti Genóva enda ekki hægt að elta Genive, þar sem ég var á leið þaðan! Nú var farið að rigna og dimman hvolfdist yfir mig, og ég beið bara eftir ráninu á mér og bílnum, sem hlaut að fara að skella á (hafði nú samt væntanlega aðeins hægt á glæpagenginu með því að skella mér til Sviss) en þar sem hraðbrautirnar eru ekki upplýstar þá var eina sem glitti á í þokunni eldflugurnar sem ég er nú ekki sérstaklega hrifin af. "Paranojan" alveg í hámarki, því ég var viss um að þær væru að reyna að komast inní bílinn,( ekkert smá eftirsóttur bíll).
Í þessu hringir dóttir mín, þar sem ég var alveg að bugast og langaði bara heim, týnd í ölpunum með mafíuna á hælunum (þegar þarna var komið var það alla vega mafían) og sagði ég grátandi við hana, bíllinn er ólæsanlegur og ég held ég sé í lífshættu. Róleg mamma mín sagði hún og minnti mig á það þegar hún fór til Grikklands í sjálfboðavinnu hversu skelfilegt henni hefði þótt fyrsta kvöldið en hvernig allt hefði svo lagast í sólinni daginn eftir. (Ég mundi nú væntanlega ekki lifa svo lengi hugsaði ég, en sagði ekkert).
Ég kom svo að fjallsbrúninni uppúr miðnætti og þar sem Genóva tók á móti mér upplýst og falleg. En hvar skyldi nú hótel Helvetia vera, ég var nú ekki með það útprentað, hélt að ég mundi nú bara finna torg og þar væri það, en ok sá það að Genóva er stórborg! Ok ég var svöng og ég var þyrst og í lífshættu og sá Hótel Hilton blasa við, keyrði þangað í einum rykk, en lenti á bak við hótelið (mjög miklir ranghalar í þessari borg og allt einstefnugötur).
Með engan bakkgír (já já sjálfsagt gleymst að setja hann í bílinn!!enn önnur vísbending um samsærið gegn mér, ætli bremsurnar virki nokkuð?) neyddist ég til að keyra yfir nokkra plastruslagáma og þar spratt upp allskonar fólk eins og gorkúlur sem var greinilega búið að koma sér fyrir til hvíldar fyrir nóttina.
Ég drap engann, en fékk símtal frá systur og þar sem ég æpti móðursýkislega í símann ég er að keyra á fólk og gáma og það er verið að elta mig. Róaðu þig, var sagt frá Íslandi, andaðu djúpt (já þau geta sagt það öll á lífi og verða á lífi næsta dag eitthvað annað en ég) farðu að anddyrinu. (auðvelt að segja það, en verra að finna leiðina að því).
Ég renndi svo upp að anddyrinu, lagaði aðeins hárið sem hafði ýfst smá í rakanum (eða var eins og hárið á Jimi Hendrix) vafði veskið um höndina og tók ferðatöskurnar með mér inn og bað stúlkuna í gestamóttökunni að panta fyrir mig leigubíl. Hún horfði á mig og síðan á Puntóinn."Si si" sagði hún, for you and the car? Yes sagði ég ekki laust við smá móðgunartón í röddinni og horfði á hana hugsa: "hvurn fjandann er svona ljóska að ferðast ein um miðja nótt vitandi ekki neitt í sinn haus" Ég gekk hnarreist út, eins og þetta væri daglegt brauð hjá mér að panta leigubíl til að vísa veginn.
Ég elti að Hótelinu við Piazza della Nunziata. Ég fékk grátkast við komuna þar. Þetta var ljótt herbergi og hér ætlaði ég ekki að búa. Engar svalir til að sitja á og fá sér hvítvín, svona rétt meðan menn voru að læra. Ég ætla heim á morgun, ákvað ég. Það breyttist daginn eftir þegar ég sá borgina í sólarljósi og ég var bara nokkuð stolt af því að hafa farið á einum degi: Ísland/Svíþjóð/Ítalía/Swiss og aftur Ítalía.
Bloggar | Breytt 23.9.2011 kl. 00:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.9.2011 | 14:16
Ferðalög Ítalía 4/Milanó
Uppáhaldsborgin mín á Ítalíu er Mílanó, já kannski vegna þess að það er sú borg sem ég hef kynnst best, þar sem dóttir mín hefur búið þar undanfarin 4 ár. Það er eitthvað svo notalegt þar, þó um stórborg sé að ræða þá er hún heillandi í mínum augum, auðvelt að ferðast milli staða. Ja nema ef um verkfall strætóbílstjóra og lestarstjóra sé að ræða, sem gerist ansi oft á föstudagseftirmiðdögum, en þá er ekki svo langt að labba heim, þar sem þetta eru ekki svo miklar vegalengdir þarna í miðborginni.
Duomotorgið þarna sem dóttir mín veður í "konfetti" eftir Carnival í mars,(mér virðist alltaf vera einhverskonar Carnival í gangi, krakkar klæddir sem prinsessur og skógardýr) er skemmtilegt torg og alltaf fullt af lífi þar og einnig er sú fallegasta kirkja sem ég hef komið í Duomokirkjan staðsett á torginu. Já mér finnst hún fallegri en Péturskirkjan í Róm og einnig Markúsarkirkjan í Feneyjum. Hún er hæfilega stór og alltaf finnst mer nú nauðsynlegt að koma þarna aðeins við í hvert sinn sem ég heimsæki Milanó
Núna er tískuvika í Milanó og verið að sýna kvenfatatískuna fyrir 2012 og er þá eins og borgin fyllist af fallegu fólki, það er alveg frábært að sitja við Duomotorgið og fá sér kaffi eða hvítvínsglas, jafnvel þó það kosti þrefalt meira en í næstu götu, enda þjónarnir oft allt að því hanskaklæddir og í kjólfötum (það kostar líka að vera fínn) það er eins og maður sé á tískusýningu utandyra og keppist fólk um að vera sem best til fara, labbandi með Armani og Guccipokana sína frá San Babila að Duomo.
Skemmtilegasti matsölustaðurinn sem ég hef farið á er Trattoria Toscana, sem er við Corso Lodi, en þar er frábært að koma að hurð sem lætur lítið yfir sér frá götunni, en þegar inn er komið, labbar maður í gegnum eldhúsið (ætli íslenska heilbriðgiseftirlitið mundi samþykkja það) og þá er komin stærðarinnar matsalur sem er að hluta til undir glerlofti og að hluta til úti, og barinn er svo alveg undir beru lofti, með voldugum sófasettum og er þakinu þá rennt yfir ef rignir, en trén njóta sín vel þarna inni/úti.
Þarna er mjög vinsælt að fá sér aperitivi, sem er allsráðandi í Milanó milli 6-22 á kvöldin, en þá bjóða staðirnir uppá smárétti sem fylgja hverju keyptu glasi á staðnum.
Við höfum líka farið þarna að borða ef eitthvað skemmtilegt er um að vera, eins og þegar dóttir mín útskrifaðist úr IED sem gerir henni kleift að gera fólk smart fyrir myndatökur og tískusýningar og er hún nú önnum kafin við að "raða fólki rétt saman" hjá CK sem hún vinnur hjá í Mílanó núna á tískuvikunni sennilega draumur allra stúlkna með tískuvit.
Buenos Aires er rosalega skemmtileg gata, alltaf fullt af sölukörlum og blómasölum og hægt að gera góð kaup hjá Kínversku skósölumönnunum, sem koma út úr Kínahverfinu sem ég mun gera skil síðar, en það er ótrúlegt að fara þangað og vera komin í allt annan heim inni í miðri Mílanóborg.
Hérna var verið að hefja verslunarferð á Buenos Aries, en þar eru hæfilega stórar búðir eins og H&M. Mangó og Zara og Kikó snyrtivörubúðin sem er frábær og ekki spillir verðið fyrir, en þar sem þetta er ítölsk framleiðsla þá kostar allt svona 30% af því sem við íslensku konurnar þurfum að borga fyrir snyrtidót hérna heima.
Ég elska menninguna í Mílanó, Aperitivikúltúrinn og matinn og kvöldstemminguna sem er allsráðandi öll kvöld vikunnar og hvernig kúltúrinn er mismunandi eftir svæðum. En ég mun gera því skil síðar og segi bara Ciao tutti!!!
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 23:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.9.2011 | 10:37
Er hefndin er sæt?
Óskemmtileg var uppákoman sem ég lenti í ekki alls fyrir löngu, en veit ég vel að ég er svolítið ónett (lesist brussa) já og á það til að vera örlítið fljótfær og hvatvís (lesist óforskömmuð) Ég var stödd á skemmtistað og lenti í því óskemmtilega atviki að þurfa að hella bailysdrykk yfir mann, en hann var svo leiðinlegur að hjá því varð ekki komist (ég tek það fram að það var hans glas). Hann hafði móðgað mann og annan, þannig að þetta var eiginlega það eina í stöðunni til að lækka í honum rostann, en ég er kona athafna og bregst við af fullu afli ef þurfa þykir.
Ég gekk síðan hnarreist full réttlætiskenndar með þetta "voðaverk" mitt í burtu til að fara á barinn, meðan verið væri að þrífa upp þetta klínstur við borðið, ekki vottur af skömm í brjósti mér. Ég var í mínu fínasta pússi, rándýrum nýjum kjól og mjög hælaháum skóm sem ég þurfti alveg að vanda mig við að ganga á.
Hitti ég gamla vinkonu þar sem ég stend við barinn eilítið í skugga, vildi vera örugg með að fá ekki yfir mig drykk, (maður veit jú aldrei hvað fólk tekur uppá, já muna að drekka bara gin í sóda) þar sem við stöndum þarna spjallandi sé ég ekki einhvern illa fullan mann koma í loftköstum niður tröppurnar með fullt rauðvínsglas í hendinni og vildi ekki betur til en svo að hann lenti á mér, glasið tæmdist yfir hár og andlit og lak hratt og örugglega á rándýra kjólinn minn og ég hentist út í hrufóttan vegg og hjó næstum ermina af við öxl og kjóllinn var eins og gatasigti á annarri hliðinni. Hvað er líka verið að gera með svona stórhættulega veggi á almenningsstöðum?
"þarna skall hurð nærri hælum" sagði hinn "fljúgandi skemmtikraftur" og brosti glaður, "glasið brotnaði ekki einu sinni" en þegar hann var að standa upp aftur notaði hann mig sem vogarstöng og ég þetta líka fisið sem ég er eða þannig, hentist á gólfið með þeim afleiðingum að hællinn fór undan öðrum skónum mínum.
Þegar ég kom til baka störðu allir við borðið mitt (líka beilísgaurinn sem glotti) og var ég spurð hvort ég hefði lent í árekstri. Ha árekstri! sagði ég móðguð, nei ég fékk 120 kg. mann yfir mig og 1 rauðvínsglas og eitt stk. vegg og kannski má kalla það árekstur en ég er alla vega farin heim, svaraði ég snúðugt.
Ég gekk í burtu teinrétt í baki með hárið í rúst, kjól í henglum á einum hæl, reyndi mitt besta að halda ermi við öxl, og halda kúlinu.
Leigubílstjórinn spurði hvort ég vildi fara uppá Borgarspítala. Nei takk! Farðu með mig heim sagði ég mjög yfirveguð og hugsaði með mér, er hefndin sæt? Ekki fyrir mig, en mun þó fara varlega með áfenga drykki í framtíðinni og ekki spilla þeim á fólk.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
20.9.2011 | 22:33
Ferðalög Ítalía 3/ Portofino
Þar sem ég ér stödd á markaði á miðju torginu í Santa Margherita, litlum bæ sem liggur á vesturstönd Ítalíu, Liguria ströndinni, sé ég hvað Roberto karlinn er að selja afurðir sínar innan um alla hina bændurna. Á torginu er skarkali og erill og ilmur í loftinu af nýjum ferskjum, appelsínum, sítrónum og kryddinu sem er í boði og ljúfir tónar berast um torgið þar sem rómantískur gítarspilari syngur og spilar fyrir viðstadda.
Santa M. er bær sem er næsti bær við Portofino, ansi líflegur bær enda aðeins yngra fólk, en það sem sækir í Portofino, en þar er mikill fjöldi af amerískum ellilífeyrisþegum og eiginlega held ég að orðsporið sé meira en mér fannst í staðinn spunnið, ég heillaðist af stöðunum í kring miklu frekar. Allt óheyrilega dýrt og næstum þurfti kúlulán til að fá sér kaffibolla við höfnina þar.
Við vinkonurnar höfðum verið deginum áður á ströndinni sem fylgdi með hótelinu okkar sem var staðsett við höfnina í S.M. en þar hittum við fyrir þennan sama Roberto sem sá um rekstur strandarinnar og úthlutaði bekkjum og handklæðum, eiginkonan sá um strandbarinn og matseldina, ásamt tengddætrunum, en synirnir voru nú svona meira í að leika sér við börnin á ströndinni.
Ég fór að fylgjast með þessari ítölsku fjölskyldu sem var alveg eins og ég hef alltaf talið mér trú um að ítalskar fjölskyldur væru. Mamman réði öllu og rak fólkið sitt til og frá, sendi tengdadætrunum illt auga, ef þær gleymdu sér í spjalli, en klappaði sonum sínum og tróð uppí börnin einhverju góðgæti og sendi þá út að leika.
Hún bjó til eigið pasta og sótti sítrónur af næsta tré sem hún var með út um allt í blómapottum. Heimagerð ólífuolía var að sjálfsögðu með og pastað með nýtíndum bláskeljum (pasta Cozze) var eitt það allra besta sem ég hef smakkað. Auðvitað máttum við svo til með að prófa nýjustu afurðina þeirra sem var Limoncello, (sítrónulíkjör). Allt á boðstólnum þarna virtist úr þeirra eigin garði eða beint frá framleiðanda, í þessu tilfelli fjölskyldu Robertos. "Vino di casa" var svo drukkið með þessu og ég er ekki frá því að þetta hafi verið ein ljúfasta máltíð sem ég hef smakkað.
S.M. er er einstaklega fallegur bær og yndislegt að sitja á svölunum og horfa á snekkjurnar og unglingana sem koma uppúr 6 á morgnana (já menn vakna snemma!) að spúla og þrífa bátana fyrir eigendurna, sem skelltu sér í bæinn á meðan. Sjávarloftið blandað jasminilmi gerir það að verkum að maður vill ekki fara inn, gerir flest útivið, fær morgunmatinn uppá svalir (Prinsessur mega það!) borðum úti, og drekkum þessa fegurð í okkur fyrir allan peninginn.
Þó er mjög dýrt að vera þarna, enda árið 2007, þegar þessi ferð var farin (fyrir tíð smurðra samloka í nesti til utanlandsferða)
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.9.2011 | 12:23
Bloggdólgar, flugdólgar og aðrir dólgar!!!
Vinkona mín spurði mig hvort ég ætlaði að verða næsti "bloggdólgur" hm hugsaði ég, því ég áttaði mig ekki alveg á því hvað það felur í sér að vera bloggdólgur, þekki fbdólgana með tilvitnanirnar í Oscar Wilde 5 sinnum á dag en varð þá hugsað til flugdólgsins sem ég var svo "heppin" að hafa í sæti fyrir aftan mig í 7 tíma ferð til Kaupmannahafnar, (já það var bilun og svona)
Ég var á ferð þangað til að fara með litlu fósturdóttur mína og frænku í Tívólí, en það voru verðlaun fyrir að standa sig vel í skólanum. Systur mínar nokkrar voru með í för og vinkona sem er mjög flughrædd. Þessi sem fer í frauðplasti inní vélina, búin að gleypa 3 róandi og skola þeim niður með bjór, situr með hvíta hnúana og heldur sætinu fyrir framan sig í gíslingu. En hún er mjög skemmtileg þegar á ferðina líður og er ekki neinum til vandræða, brosir og verslar bara svona í rólegheitum. (spennt í beltin og að sjálfsögðu með hjálminn á höfðinu)
Nú þegar við höfðum setið "spennt" í beltin á jörðu niðri í svona 2 tíma, og litla frænka mín var farin að ókyrrast hún vildi komast í tívolíið, þá var "skemmtikrafturinn" í sætinu fyrir aftan okkur orðin svo vel slompuð að hún var farin að syngja hástöfum, (kona á miðjum aldri með vinkonu sinni, sem var nú tekin að síga neðar og neðar í sætið). Flugfreyjan kom og bað hana að leggja líters Grand flöskuna niður ekki væri heimilt að vera með vín, nema það sem selt væri um borð.
Það er sko svo léleg þjónusta "hédddna" sagði hún að maður verður að fá eitthvað við þessum "þosda" Vesalings ameríski maðurinn sem sat við hliðina á henni, bað ítrekað um að fá að standa bara, þar sem ekki var laust sæti í vélinni. Hún var komin svona kæruleysislega með volduga löppina yfir hann og hann varð eiginlega svona hálfgrænn í framan greyið. Ekki öfundaði ég hann nú, þegar hún ákvað að taka upp "snakk" sem hún hafði keypt í fríhöfninni. Já "HÁKARLABOXIÐ" og sagði með hákarlabitann lafandi út úr sér, Vúddjúlækasjork? No? Grend Meiriner? No? Jú amerikens ar allalæk og svo kallaði hún yfir næstu sætisraðir, er ég kannski dóni að opna hákarlabox?
Já nú var hæglætisljúfmenninu með jafnaðargeðið mér (það segir vinkona mín alla vega) nóg boðið!.
"Já þú ert dóni og ógeðsleg lykt hérna og það hlýtur að standa í einhverjum flugreglum að hákarl sé bannvara um borð og ef þú hættir þessu ekki og lokar þessu boxi, þá læt ég setja á þig nálgunarbann og henda þér útá væng" hvæsti ég kurteisislega.
Hún var frekar móðguð yfir þessari óvægnu árás á sig, sem var bara aðeins að fá sér drykk og snakk, þá sjaldan menn lyfta sér upp.
Þannig að þá ákvað hún að verða flughrædd, hringdi stanslaust á flugþjóninn, (flugfreyjurnar voru allt í einu uppteknar annarsstaðar) og sagði hvenær hröpum við??? Viltu ekki blað að lesa sagði flugþjónninn elskulega? "Nei ætla ekki að vera öll í prentsvertu þegar við lendum í Atlandshafinu" og litla frænka mín spurði: "Erum við ekki í vitlausri flugvél, ég hélt að við ætluðum að lenda í Kaupmannahöfn?"
Vinkona mín (sú flughrædda) var nánast búin að brjóta sætisbakið fyrir framan sig, af hræðslu, þegar hún heyrði þetta með hrapið. Náði í vestið undan sætinu (betra að vera við öllu búin) og bað mig að leita uppi björgunarbátinn, þar sem hún hreyfir sig ekki úr beltinu fyrr en vélin er að fullu stöðvuð.
Sem betur fer týndist þessi "skemmtikraftur" við komuna til Kaupmannahafnar, en hún ranglaði í vitlausa röð og endaði í Svíþjóð, við sáum vinkonuna sem leitaði að henni út um allt með veskið hennar og síma. Mér fannst það ekkert leiðinlegt.
Já svo er það "sjúklingadólgarnir" þessir sem liggja á bjöllunni, ætla að fá 1. flokks þjónustu og kvarta ef þeir lenda í herbergi með öðrum. Halda að þeir séu á "hótel Sanderson" Lenti í herbergi með svona "dólg" einu sinni, sem trylltist ef ég setti sjónvarpið á (lágt stillt) en kveikti svo á fréttunum og ég er ekki frá því að ég hafi fengið gat á hljóðhimnuna við hávaðann. Dauðir hefðu risið upp! Gangastúlkan kom og gargaði hvort hann væri heyrnaskertur? Nei bara að yfirgnæfa hávaðann í henni hérna við hliðina sagði hann. Ég lagði frá mér prjónana, ákveðin í að valda ekki svona miklum hávaða framar.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 14:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20.9.2011 | 00:16
Ferðalög Ítalía 2
Í Genóva er ég stödd til að læra Ítölsku í skóla sem er staddur í miðjum bænum uppá hæð, og er í húsi sem einnig er íbúðarhús, en minnir á höll að utan. Finnst mér alger forréttindi að fá að vera í þessum skóla sem heitir Scuola Tricolore, en hann er rekin af pari sem er hollenski skólastjórinn og ítalska kærastan hans, þau tóku okkur eins og fjölskyldumeðlimum enda ekki fleiri en 3 í hverjum bekk.
Ástæða þess að ég valdi Genóva frekar en t.d. San Remo, er vegna fordóma og viðurkenni ég það fúslega, áleit eftir mikla yfirsetu yfir skólum að það væri of mikið af túristum í San Remo, enda staðsetningin nánast upp við Frakkland og ekki nógu ítalskur að mér fannst, annar skóli kom til greina sem heitir Piccola Universita'Italiana og er alveg Suður við Messina í Calabriahéraðinu. (eftir lestur Gómorra kom það ekki til greina já veit það fordómar) Þar sem ég hafði nú líka verið í suðrinu í Campagne héraðinu áður og verðið Riminiaðdáandi til margra ára á austurströndinni, þá ákvað ég að skella mér á vestur á Liguriaströndina sem hýsir Genóva.
Þegar ég kom að kvöldlagi eftir frekar misheppnaða för frá Íslandi, þá blasti þessi sjón við mér og allt annað vék úr huganum. En Genóva er byggð í svokallað panorama utan um höfnina. Hér á árum áður var mikið um sjóræningja og fleiri sem sóttust eftir borginni, vegna legu hennar og brugðu Genóvabúar á það ráð að byggja göturnar í völundarhús upp frá höfninni, sem kallast Porto Antico eða gamla höfnin, til að villa um fyrir misyndismönnunum.
Það átti nú eftir að bitna á mér illilega, enda ekki með gps innbyggt, en skólastjórinn kenndi okkur strax það ráð að leita alltaf niður á við. En þetta eru mestu ranghalar sem hugsast getur, og svo þröngar göturnar að maður gat snert húsin beggja vegna sumsstaðar.
Gamli bærinn upp af höfninni, var einskonar Sódóma Genóvu hér áður, en Þegar G8 ráðstefnan var haldin þar í júlí 2001, þá hafi áður verið lokað fyrir allar útgönguleiðir úr hverfinu og öllum eiturlyfjaneytendum og gleðikonum og öðrum sem óprýða þóttu miðbæinn verið sópað í burtu, götur þrifnar og snyrtar og húsin leigð ungu fjölskyldufólki.
Þetta eru mjög skemmtilegar og líflegar götur á daginn, en ekki fannst mér nú þægilegt að labba þarna um á kvöldin, þó fullt væri af fólki en hvort það var minn hugarburður eða ekki, þá fannst mér alltaf einhver ljótleiki hvíla yfir þessum bæjarhluta og var aldrei alveg örugg þarna.
Við skólafélagarnir hittumst gjarnan á bar þarna í gamla hverfinu og þar voru svona 12 barir á smá torgi og yfir öllum borðum voru stórar sólhlífar uppsspenntar á kvöldin, ekki til að forðast sólina, heldur egg sem íbúarnir í kring hentu eftir klukkan 12 á kvöldin í okkur skemmtanaglöðu námsmennina og aðrar barflugur. Einstaklega skemmtilegt að fara heim með egg í hári og fötum ef maður var ekki nógu vel varin.
í Porto Antico er notalegt að sitja á bar langt úti í sjó, þar sem sést yfir alla höfnina, allan fjallahringinn og hlusta á ítalska ljúfa músík og fá sér "aperitivo", sem er mjög vinsælt þarna sérstaklega fyrir námsmenn, en þá færðu þér drykk og færð mat með milli 7-10 á kvöldin, en borgar bara fyrir drykkinn.
Þarna í Genóva eru pálmatré niður við höfnina, en það er ekki svo algeng sjón Ítalíu, enda hefur víst herjað á pálmatrén, einhver pöddufaraldur sem éta trén að innan og er mjög algengt að sjá pálmatré án blaða, en þau virðast hafa sloppið í Genóva.
Niður við höfnina er mjög vinsælt sædýrasafn, eiginlega er flest sem dregur athygli fólks staðsett þar eins og t.d. gömul skip (draugaskip), útileikhús, matsölustaðir, útsýniskúla sem hangir í þar til gerðum krönum. (Eflaust flott útsýni, en mundi aldrei fara í slíkt vegna hæðar)
Einnig er plöntusafn í glærri kúlu og er hún eiginlega útí sjó. Ég hef nú ekki orðið svo fræg að fara þangað heldur enda alltaf biðröð í nokkra km. þegar ég hef ætlað að gefa mér tíma, en það er alltaf pláss á barnum góða sem ég sé yfir plöntusafnið. Er það ekki bara gott?
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.9.2011 | 17:59
Ferðapistill / Ítalía 1
Ég elska að ferðast, og hef ferðast mikið um Ítalíu, enda á ég dóttur búsetta þar, svo það liggur beinast við að sameina ást mína á Ítalíu og heimsókn til hennar.
Í suðrinu við þá fallegustu strönd sem ég hef augum litið Amalfiströndina er Positano, lítill bær, gjarnan kallaður perla Amalfistrandarinnar. Bærinn virðist hanga í fjallinu og ég viðurkenni að ferðin til Positano frá Napoli, var skelfileg fyrir lofthræðslupúkann sem ég er.
Georgio sem var sendur af hótelinu að sækja okkur til Napólí spilaði panflautumúsík á fullu blasti og keyrði eins og brjálæðingur kannski vanur að fólk væri í hræðslukasti í bílnum hans og best fyrir hann að koma því sem fyrst á leiðarenda. Ekki var laust við að ég riðaði þegar ég kom á hótelið eftir ökuferðina. Það gleymdist þó fljótt þegar yndislegur jasmín/sítrónu og einhversskonar kryddilmur læddist að vitum mínum og ævintýraljóminn á þessum stað blindaði mig svo, að ég gleymdi ferðinni. (þar til næst)
Positano er mjög rómantískur bær og yndisleg að sitja á stórum svölunum sem við höfðum og horfa á útsýnið á daginn og ekki síður ákvöldin, þegar bærinn var á að líta eins og upplýst póstkort.
Sjórinn við Positano er einn sá tærasti sem ég hef séð við strendur Ítalíu og þarna er mikil sítrónurækt og því allskonar sítrónuréttir í boði. Einnig rækta þeir þarna í suðrinu mikið af því sem þeir stoltir kalla sitt náttúrulega viagra, eða chili og er hægt að fá allt frá chili kjötréttum, chilisúkkulaði og jafnvel chili-ís svo fátt eitt sé nefnt.
Við vorum þarna um páska og var mjög gaman að fylgjast með þeirra háttum eins og þegar hálfur bærinn bæði börn og fullorðin virtust taka þátt í göngu krists (fræddi Georgio okkur) á föstudaginn langa, berandi stóran kross á milli sín og aðrir með kerti og allir klæddir í hvíta kyrtla. Mjög magnað!
Þar sem bærinn er í fjalli og vegirnir afskaplega þröngir, þá eru tröppur frá strönd og upp fjallið á milli húsanna og já ég segi nú bara kirkjutröppurnar á Akureyri hvað? Ég held að ég hafi verið með strengi í fótum uppá hvern dag þarna í 8 daga.
Hægt er að taka rútuna til Salerno og Amalfi sem eru báðir yndislegir bæir, en ég segi taka rútuna, því ekki mundi ég vilja keyra á þessum syllum, en þeir virðast geta keyrt þessa þröngu vegi og mætt bílum, en ég varð ansi oft að loka augunum og biðja til guðs og lofa bót og betrun ef ég hefði ferðina af.
Það er síðan stutt að fara til Sorrento sem er yndislegur bær og þar eru til dæmis appelsínutré og sítrónutré á öllum götum miðbæjarins og er ekki ónýtt að fara og versla og kippa með sér einni appelsínu á leið úr búðinni af næsta tré.
þar sem ég hafði lesið bókina Gómorra um Napólímafíuna skömmu áður en ég fór til Positano, þar sem höfundur lýsir því hvernig farið var með jörðina í Campagne héraðinu. Heilu geislavirku hlössunum var komið fyrir þar í jörðu ásamt fleira mengandi rusli, þá var það nú eiginlega það eina sem skyggði á hamingjuna yfir því að vera þarna. Hvernig er hægt að eyðileggja paradís með gróðrahyggjunni einni saman.
En á þetta var aldrei minnst á af Georgio bílstjóranum okkar vingjarnlega, sem þjónaði einnig fríviljugt sem leiðsögumaður. (Hann skildi aldrei ensku, þegar reynt var að spyrja hann út í þetta, hann hækkaði bara í fj...panflautumúsíkinni) Hann benti okkur þó á marga skemmtilega svæði, enda hann búsettur í Positano. Einn stað sagði hann að við yrðum að skoða og það var Capri. Sem við gerðum en síðar meira um það.
Positano er sá staður sem ég kalla paradís á jörðu og mun fara þangað aftur þó síðar verði.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.9.2011 | 13:09
Samband bíla og konu
Bílar eru fyrir mér bara svona "þægindargræja" til að komast milli staða og skilgreini ég þá annað hvort sem græna, svarta nú eða rauða sem sagt eftir litum. Ég er ekkert að velta því fyrir mér hversu mörg "kúbikk" þeir eða eru eða þannig hlutum.
Eftir að ég varð einhleyp og mitt hlutskipti varð að fara með minn bíl á verkstæði og átti kannski erfitt með að lýsa nákvæmlega hvar eitthvað hljóð kom (fyrir aftan farþegasætið??) þá kannski eðlilega fannst mér ég meðhöndluð eins og fáviti og fékk á tilfinninguna að bifvélavirkinn hugsaði: " já já þessi kallinn LJÓSKAN ganga þær nú nokkuð á öllum ætli það sé ekki bara rúðuþurrkurnar sem þarf að skipta um og þá þegir hún, ekkert að þessum bíl"
Jæja ég er kannski ljóshærð en ekki heiladauð, svo ég tók á það ráð í hvert sinn sem ég fór með öldruðu Toyotuna mína (lesist: hvítur bíll) að spyrja hvað hefði nú verið að. Ég eignaðist nýtt orðasafn, svona eins og jú jú kúplíngin er nú að gefa sig, viftureimin er slök, hljóðkúturinn götóttur og eitt orð sem átti eftir að breyta lífi mínu "spindilkúlurnar".
Með þetta orð í farteskinu voru mér allir vegir færir, ef ég fór á verkstæði, þá sagði ég gjarnan: "það er eitthvað að og ég hallast að því að það séu spindilkúlurnar" það passaði verkstæðismaðurinn hofði á mig með aðdáun. Þarna fór kona með þekkingu. Ég fullyrði að bílaviðgerðareikninarnir mínir snarlækkuðu með þessari nýtilkomnu þekkingu minni. Já það er gott að vera klár.
Einu sinni sem oftar er ég stödd á Ítalíu og er að keyra í Toscana á leið minni til Flórens, þegar ég varð vör við að það kom gífurleg þoka allt í einu, og heyrðist rosalegt hljóð undan Ford Focusnum (ég veit það núna á eins bíl í dag). Ég var ásamt nokkrum systrum á ferð og þær sögðu mér að það kæmu eldglæringar undan bílnum (sjálfsagt laust púströr) en þokuna gat ég ekki skýrt því hún var bara í kringum minn bíl.
Ég fann verkstæði og sagði mágum mínum að ég skildi bara annast þetta, væri búin að taka námskeið í ítölsku og ég væri bara góð í þessu. Ég ætlaði nú ekki að láta einhvern Ítala plata mig íslensku ljóskuna, sem vissi nú eitt og annað um bíla.
Macchina Rotto (ónýtur bíll) sagði ég við manninn á verkstæðinu. Si si sagði hann, en hvernig segi ég nú spindilkúlur á ítölsku (það var EKKI í bókinni, muna kaupa bók á ítölsku um viðgerðir bíla). Ég ákvað því að reyna enskuna hmmmmmm: I think the "SPÆNDELBALLS" are broken byrjaði ég, hann varð ekkert hrifin og sagði: No capisco og ég reyndi aftur "IL SPJUNDELBALLINO" ?? (enginn hrifning) No capisco sagði hann og hristi hausinn. Vesen nú fyrst hann vildi ekki hjálp, þá varð hann bara að finna út úr þessu sjálfur.
Þetta endaði vel, það vantaði víst bara vatn á vatnskassann (Aquakassino???) og púströrið var laust (vissi það nú) en hvernig ætli maður segi púströr á ítölsku?????
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.9.2011 | 18:52
"Hryðjuverkabarnið" kynnt til sögunnar
Fyrirsögnin kann að hljóma skelfilega og má vera að ég fái á mig barnaverndarnefnd, só bí itt. Ég á 2 yndisleg börn og eina fósturdóttur. Dóttir mín hefur alltaf verið prúð og pen (eins og móðurin) en sonurinn hefur nú ýmist gengið undir nöfnunum, hryðjuverkabarnið, skaðræðið, eða jafnvel glæpabarnið) og fósturdóttirin hefur nú alveg fengið "dass" af glæpagenum í sig (úr föðurættinni að sjálfsögðu)
Skaðræðið hefur farið með látum gegnum lífið og ég hef oftar en ekki efast um að ég sé hæf sem móðir. Það eru ófá uppátækin sem hann hefur tekið uppá og það "besta" við þau að ég hef nú oftast fengið að vera óbeinn þáttakandi í þeim verandi mamman.
Hann var mjög fyrirferðamikið og afkastamikið barn og á tímabili held ég að ég hafi ég verið álitin starfsmaður á Borgarspítalanum, því það var bara opnað fyrir okkur strax og við birtumst, enda oftast um svona sæmilega akút tilfelli að ræða eins og gleyptur slatti af Nitroglyserintöflum, (sprenigtöflum) blátt barn með tappa fast í koki, hjól fast á hendi og ör í gegnum hendi svo fátt eitt sé nefnt.
Ég sem vildi svo gjarnan vera hin fullkomna móðir, var alltaf að reyna að finna farveg fyrir athafnasemi "skaðræðisins", skráði hann í handbolta, fótbolta ofl. en hann gleymdi sér alltaf í markinu og fór út að skoða flugur og svona þegar hann átti að verja. Hann varð ekkert vinsæll markmaður.
Bogfimi skildi það vera!! Hæfilega hættulegt og þar af leiðandi spennandi. Nú upphófst yndislegur tími, hann fór á æfingar tvisvar í viku í heilar 2 vikur og fannst hann nú nógu góður til að hefjast handa heima við.
Ég fékk hringingu (sem áttu eftir að verða ófáar) í vinnuna og Kristín á símanum sagði. Guðlaug mín vertu alveg róleg (hún byrjaði snemma að "skrína" símtölin til mín) en sonur þinn skaut vin sinn í höndina með boga og nær ekki örinni út (það var eina áhyggjuefnið) svo þú þarft að fara heim. Keyrðu varlega sagði hún, sem ég gerði ekki.
Ég fór með slasaða vininn uppá spítala og "skaðræðið" í aftursætinu, því hann átti jú örina og vildi hana aftur. Vinurinn fékk stífkrampasprautu, enda með gat í gegnum höndina. Örin var tekin í gíslingu.
Skaðræðið var alveg hissa að hvað ég var pirruð, ekki var það ég sem tapað strýheilli ör. Vinurinn fékk mikla athygli útá gatið á höndinni, enda eins og gatið á Jesú. þannig að skaðræðið mitt kom eiginlega langverst út úr þessu bogfimimáli að hans mati.
Þetta er eitt brotabrot af skrautlegum ferli litla "hryðjuverkabarnsins" míns.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.9.2011 | 10:25
Ég mun aldrei giftast Kínverja!
Þegar menn eru atvinnulausir í lengri tíma, virðist sem sem maður stirðni upp víðast hvar, ég meina af hverju er ég með vöðvabólgu? Ég þarf að komast í nudd. Kínverskur nuddari? Nei takk!
Ég er ekki með fordóma, en kínverskur nuddari kemur ekki til greina! Ég lenti í því að fá illt í annað hnéð, þar sem ég hafði farið á bananabát á ströndum Spánar ásamt systrum mínum og verið hent af viðkomandi banana með þessum afleiðinugm. (vildi ég gæti sagt að það hefðu tekið sig upp gömul íþróttameiðsl en svo er ekki).
Ég fór til kínverja sem átti að töfra mig i lag á örskotsstundu, reyndi að útskýra hnjámeiðslin. Hann sagði þá: "Signola Signola úl födunum og sú liggja hénna á maga. Ég hlýddi og viti menn, stekkur þá ekki uppá bakið á mér þessi fullvaxni Kínverji og byrjar að rölta um bakið á mér. Ég hef væntanlega stífnað eitthvað upp (mjög óvön fótgangandi fólki á baki) því hann nánast gargaði á mig: "Slappadaf, slappadaf, veltu ekki sonna sdýf. Ég róaðist. "Sonna Sonna já setta miklu bedla" sagði hann.
Svo þegar umferðinni hætti á bakinu sagði hann: "snúdu ther vid" og svo setti hann ljósalampa á magann á mér. (já örugglega mjög gott fyrir hnéð hugsaði ég).
Nú sú fín, fala heim og pissa mikid mikid og koma aftul bládum.
Já takk væni hugsaði ég og hugsaði með mér, hingað aftur? NEI finndu þér einhvern annan til að rölta á.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)