Feneyjar/drottning Adríahafsins/eða sökkvandi borgin?

Feneyjar eyjaklasinn norðanlega á austurströnd Ítalíu, eru ofmetnar að mínu mati, eða alla vega þegar ég var stödd þar í júlí í 40 stiga hita, þá fannst mér nú ekkert rosalega sjarmerandi við þennan stað. Feneyjar eru reistar á mörgum hólmum og er helsti ferðamáti fólksins á bátum enda síki í stað gatna víðast hvar.

gondola.jpg Gondólarnir eru  vinsæll ferðamáti fyrir túrista og þá ekki síður fyrir brúðhjón, en þeir eru rándýrir og kostar um 100 evrur að fara í hálftíma ferð með ræðara. 

Ekki finnst mér nú neitt svo rómantískt við þessa báta eftir að leiðsögumaðurinn okkar sagði frá því að ein margra sögusagna um gondólana væri sú að þeir hefðu verið notaðir sem nokkurskonar líkkistur um árið 1600 þegar plágan geisaði og það væri ástæðan fyrir svarta litnum og lögun bátanna, sem eru breiðari í annan endann, til að hægt væri að stafla líkum um borð.  Það var svo árið 1633 að bannað var mála þá í litum og þar sem tjaran var vatnsheld, þá voru þeir bara tjargaðir svartir og héldust þannig fram á daginn í dag. Ég sá alla vega ekki neina aðra liti á gondólunum, þegar ég sigldi um sýkin.

 

 En sagan segir líka að Gondólar hefðu verið faratæki efnameiri fólksins í Feneyjum, sem klæddu sig upp fyrir ferðirnar til að sýna sig og sjá aðra og er mismikið lagt í innviði gondólanna, sumir flauelskæddir og gullskreyttir, meðan aðrir eru hráir að innan.

Nú Feneyjar eru náttúrulega ekki alveg ómögulegar, þó ég sé ekki eins heilluð af þeim og flestir virðast vera, en mér fannst ég bara vera að sigla á skítugum polli, og ræðarinn sem söng af innlifun, var nú svo sem krúttlegur og virtist ekki finna neina lykt, en sum síkin voru verri en önnur og stundum fannst mér ég vera að kafna þarna í þessum skítapolli í 40 stiga hitanum.

Markúsartorgið er þungamiðja eyjarinnar og er gaman að sitja þar og horfa á túristana í dúfnahópnum sískemmtilega og ekki verra ef maður er efnaður og getur leyft sér að borga 2000 ísl. krónur fyrir kaffibollann (reyndar árið 2008, þegar krónan var sem veikust).

san_marco_1.jpg

Mjög algengt er að sjá brúðhjón og hóp af veislugestum þarna á torginu á leið í gondólaflakk. 

Markúsarkirkjan er náttúrulega einhver sú fallegasta og frægasta kirkja heimsbyggðarinnar, enda hvelfingin úr gulli og er talið að um 600 ár hafi tekið að gera hana, en menn verða að þola vopnaleit og afhenda myndavélar, eins eru þeir með "dresskód" þú mátt ekki vera með berar axlir og karlmenn ekki vera í stuttbuxum. 

 

 

 

kvold_i_feneyjum.jpg

Feneyjar og Mestre eru tengdar saman með brú en í Mestre  eru mikið af  hótelum og verslunum og vöruhúsum og gaman að skoða þar ítalskan tískuvarning. Feneyjar eru frægir fyrir grímurnar sínar og finnst mérað menn eigi að láta það eftir sér  að kaupa sér eina slíka, enda vandaðar og mjög fallegar. Feneyjarkristallinn er líka ofsalega fallegur og hæglega hægt að gleyma sér fyrir framan gluggana á búðunum sem eru í röðum þarna.feneyjar_grima_1.jpg

 


Húsmóðursblinda!!

Ég ætla ekkert að ljúga því að ég sé þessi "ofurhúsmóðir" mundi frekar segja þvert á móti, verð seint kosin "húsmóðir ársins" enda stendur hugur minn ekki til þess. Það eru svo marigir aðrir í kringum mig sem eiga tilkall til þess titils.

eg_husmo_irin.jpg

Ég hef klúðrað þvotti með þeim hætti að eitt sumarið gekk öll fjölskyldan í  ljósbleikum fötum (hvað er með þessa sokka sem virðast komast óséðir inní vasa á hvítum fötum til þess eins að valda skaða?)

Eiginmaðurinn fyrrverandi hafði nú svo mikla trú á húsmóðurhæfileikum mínum að hann spurði hvort hann hefði stækkað, þegar hann stóð í ljósbleiku gallabuxunum sínum (áður hvítu) og skálmarnar náðu rétt niður fyrir hné eftir 100° suðu.  Já ég er ekki frá því, sagði ég, því ég vildi nú ekki spilla fyrir trúnni hans á mér. Þegar ég sauð hins vegar lopapeysuna sem tengdó hafði prjónað, þá held ég að hann hafi verið farið að gruna að hann væri nú hættur að stækka svona rosalega.

Ég hef bakað þá ljótustu köku sem ég hef séð, en vinkonur mínar í saumaklúbbnum þótti hún góð, en þó var mikill afgangur. (??) Systur mínar koma mér þó til hjálpar ef ég þarf að halda veislur og jafnvel eins þegar samstarfsfólk mitt hefur þurft að halda veislur, en ég er svo almennileg og býð oftar en ekki fram hjálp mína.

kokukarl.jpg

Þær bjóðast þá til að hjálpa mér og enda oftast á að segja: "heyrðu ég skelli bara í franska súkkulaðiköku" fyrir þig. Mér finnst þetta svo flottur frasi, en hef aldrei getað notað hann sjálf, því ég skelli ekki í köku bara si sona. Kaka er stórmál!

Ég er þó ekki versta tilfellið sem ég veit um, því ég á vinkonu sem ætlaði að halda stórveislu fyrir manninn sinn á einhverjum tímamótum og leitaði til mín ( já orðspor flýgur nú hreint ekki það hratt)

Nánast ómótt yfir traustinu sem mér var sýnt og stolt fyrir allan peninginn sagði ég henni bara að "HENDA" í kötbollurnar mína frægu (óskhyggja, ég átti ekkert í þeim og þær voru ekki svo frægar).

Í kjötbollurnar þurfti: Saltkex, nautahakk og lauksúpu= hrært saman og mótaðar bollur

Í sósuna þrufti: sólberjasultu og Chilisósu = hitað og hrært saman

Ég útskýrði af miklum eldmóði, hvernig ætti að bera sig að, vinkonan skrifaði og skrifaði, en þar sem ég á það til að vera örlítið æst, og hef væntanlega ekki alveg raðað setningunum rétt saman, hugsanlega vantað inn orð og orð, enda ætlast ég stundum til að fólk lesi milli línanna það sem uppá vantar.

 Eitthvað hafði nú uppskriftin "MÍN" skolast til, því vinkonan sagði svo frá á mánudeginum:"jú jú þetta tókst nú ágætlega, nema bollurnar hrundu alltaf í sundur" ég bað hana þá að lýsa bollugerðinni:

"Ég steikti hakkið, eldaði súpuna og svo þegar ég ætlaði að fara að bæta Ritskexinu útí, þá vildu þær ekki haldast saman bollurnar" en ég fann ráð við því sagði hún alveg stolt með titrandi röddu, "ég barði bara kexið inní bollurnar undir rennandi vatni og þá héldust þær saman, ég er reyndar alveg marin í lófunum, því það var svo erfitt að móta þær með kexinu í. Svo þegar fólk stakk kokteilpinnum i bollurnar þá hrundu þær allar aftur í hakk og kex. En mér tókst vel upp með sósurnar" sagði hún stolt.

Sósur? spurði ég, það átti bara að vera ein sósa, nei ég gerði tvær, sæta sósan =sólberjasultan og súra sósan = chilisósan. Þar sem hún var svo stolt yfir þessu, enda hennar fyrsta veisla þá sagði ég ekkert, en hún mun ekki sjá um mínar veislur í framtíðinni.

 

 . retro_houswife_2.jpg


Garda /lago di Garda

Gardavatn er stærsta stöðuvatn Ítalíu eða uþb. 370 ferkílómetrar og er staðsett milli Lombardihéraðsins og héraðsins sem liggur að Feneyjum og liggur norðurhluti þess innan um háa Alpanna, en Pósléttan umlykur syðsta hluta vatnsins.Gardavatnið

Vatnið er einstaklega fallega blátt og útsýnið mjög fjölbreytt eftir því hvar maður er staðsettur. Í vatninu eru nokkrar eyjur, sú stærsta heitir Isola del Garda, og síðan eru minni eyjur eins og Isola dell´Olivo (Ólífueyjan) og Isola dei Conigli eins og hún er kölluð (Kanínueyjan) ofl. litlar eyjur.

Ég fór til Soiano del Lago við Gardavatn, með dóttur minni sumarið 2006, þegar Heimsmeistarakeppnin í fótbolta stóð sem hæst. Við tókum lestina frá Milanó og er það tæplega klukkustundarferð í lest til Desenzano, sem er einn af fallegri bæjum sem ég hef komið til. Þaðan tókum við leigubíl uppí Soiano del Lago, sem er afar lítill bær með um 1500 íbúum, staðsettur í Brescia í Lombardihéraðinu.lake_garda.jpg

Ólífutré, Sedrusviður, pálmar og magnólíutré setja svip sinn á þetta svæði og aðkoman að hótelinu sem við gistum á sem heitir San Rocco, er í gegnum Ólífutrjálundi, þar sem allt var þakið í litlum netum meðfram vegum og göngustígum, enda var verið að tína ólífurnar af trjánum. 

san_rocco_sundl.jpg

Þarna á hótelinu var 5 stjörnu matsölustaður og var hann stækkaður verulega á föstudagskvöldum, þegar ítölsku fjölskyldurnar komu þangað með "family grande". Caprese salatið þarna smakkaðist einstaklega vel (einfalt og ferskt) og vínþjónninn valdi vín með hverjum rétt fyrir sig, fyrir okkur mæðgurnar og leið manni eins og maður væri eðalborin.san_rocco.jpg

.Olíur

Þetta frábæra íbúðarhótel sem við gistum á var rekið af móður og syni, en hann sá um rekstur hótelsins, sem minnti frekar á óðal, en mamman sá um framleiðslu á Ólífuolíu og sápum og öðrum afurðum ólífutrjánna. En þarna á lóðinni var lítil verksmiðja og verslun með ólífuolíu og ólífum og fleira sem þau framleiddu þarna fjölskyldan.

Við skelltum okkur inní litla bæinn daginn sem Ítalía var að spila og fundum lítinn bar eftir langa göngu, en engin strætó virtist ganga þarna og engir leigubílar voru heldur á svæðinu. Við fundum bar sem var reyndar sá eini í bænum og þar var stórt sjónvarp í garðinum og greinilega megnið af bæjarbúum mættir, en við vorum sennilega einu útlendingarnir þarna. En það var nú í góðu lagi, þar sem við héldum með Ítalíu. Að horfa á fótbolta með Ítölum er bara frábært, maður lendir inní einhverju andrúmslofti sem er svo töfrandi og óraunverulegt að það er eins og maður sé komin í annan heim. Allir klappa og garga og tala og steyta hnefann og rífast sín á milli yfir dómaranum og hinu liðinu sem EKKERT GETA....

 garda_hus.jpg

Þegar við báðum barþjóninn á staðnum að hringja á leigubíl, þá sagði hann okkur að það væru engir leigubílar þarna, en þar sem við höfðum haldið með Ítalíu, þá kallaði hann á einn gaur sem var þarna í rólegheitum að spila pool og skipaði honum að keyra þetta fólk heim á hótel, en viðskiptavinum er skutlað heim sagði hann...frekar vorum við hissa, en hrifnar að þurfa ekki að labba í myrkrinu, en það virðist sem þeir spari götuljós verulega á þessum slóðum.


Fiskihátíðin í Camogli (sagre del pesce)

Fiskihátíðin "Sagre del pesce" einnig kölluð "Feste del Mare" sem haldin er í maí ár hvert í Camogli, litlum bæ í nágrenni  Genóva, einnig kallaður "Fiskibær Ítölsku Riverunnar". Leiðin til Camogli frá Genóva er með ferju sem fer frá gömlu höfninni þar eða "Porto Antico".

Camogli

Ferðin ein og sér er algert ævintýri útaf fyrir sig, þar sem austurstönd Ítalíu er meira og minna eins og póstkort, svo falleg og hrikaleg og hver bærinn á fætur öðrum hangir í fjallinu hátt yfir flæðarmálinu, þannig að manni sundlar við það eitt að horfa á þá. (þ.e. við sem erum  lofthrædd)

Í Maí árið 2007 fórum við nemendur Tricolore skólans í Genóva á fiskihátíðina í Camogli. Þetta var svona tæplega klukkustundarferð með ferju en Camogli er rétt við hornið  á Portofino og er baðströnd eiginlega í miðjum bænum, eða upphafið að bænum eftir því hvernig á það er litið. 

Aðalgatan liggur niður að ströndinni, en meðfram götunni eru matsölustaðir í svona einskonar tröppugangi og yndislegt að sitja við opna gluggana, eða jafnvel heilu veggirnir eru úr gleri sem eru opnaðir út á vorin og síðan lokað á haustin sagði  þjónninn okkar.

camogli_portofino1.jpg Mikill erill og læti voru strax við bryggjuna þegar við stigum uppúr ferjunni, enda fer aðalfjörið að mestu leyti fram á þar, sölubásar og strákar að spila á hljóðfæri og lyktin sem tók á móti okkur var ef hægt er að orða það sem einhversskonar sítrónuilmandi  djúpsteikt sardínulykt, en þó fersk og ekki íþyngjandi, eins og maður gæti haldið er þegar verið er að steikja nokkur hundruð kg. af sardínum.  

Allir sem maður mætir eru  með kramarhús, eða litla bakka með sardínum, majónes og sítrónum og borða þær með fingrunum og ekki síður krakkarnir sem kunna greinilega að meta þetta.

sagradelpesce.jpg

Allir matsölustaðirnir bjóða eingöngu uppá fisk þennan dag, alla vega fundum við stöllurnar enga staði sem seldu pizzur eða nokkuð annað en skeljar og fisk þennan dag.

folk_a_bor_a.jpg

Það er varla fótandi fyrir fólki, hvaðanæva að úr nágrannabyggðum og bara fá Genóva voru ferjur á klukkustundarfresti þennan dag til Camogli.  Stórum pottum og stórum grillum eru haganlega komið fyrir undir tjöldum, eða undir berum himni og þar eru heilu fjölskyldurnar að steikja, grilla og afgreiða sjávarfangið og biðraðir eftir þessu góðgæti með fram allri bryggjunni.

Erfitt reyndist okkur að fá pláss til að setjast niður á,  þannig að við enduðum á baðströndinni á strandbarnum, þar sem við biðum eftir að mesta örtröðin gengi yfir og hægt væri að setjast við eitt af þessum skemmtilegu stöðum með útsýni yfir sjóinn og höfnina.

matur_camoglie.jpgskeljar.jpg

Biðin var þó vel þess virði, það var farið að rökkva og liturinn á bænum ævintýralegur eiginlega appelsínugulur  (sjá mynd) og  við fengum nokkra fiskrétti alla hver öðrum betri og skoluðum að sjálfsöðu þessu niður með víni hússins sem passaði einstaklega vel með sjávarfanginu. Saluta!

 sniglar.jpgstor_pottur.jpg


Gæludýr fjölskyldunnar

Börnunum mínum langaði alltaf að eignast gæludýr þegar þau voru lítil, sérstaklega langaði þeim í hund, en á tímabili vildi dóttirin flóðhest, en ég var svo "heppin" að þau voru bæði með ofnæmi fyrir hundahárum og já fyrir kattarhárum líka, þannig að það varð fljótt úr sögunni.

Börnin

Þar sem suðað var á hverjum degi, þá lét ég undan einhverju sinni, þegar dóttir mín fékk í afmælisgjöf hamstur í búri með öllu tilheyrandi, sérstaklega þar sem þau höfðu orðið uppvís að því að eyðileggja heilt hreiður í sumarbústaðnum hjá afa og ömmu, til að eignast sitt eigið gæludýr.

En afi hafði verið að sýna þeim þrastarhreiður og hvernig mamman sæti á eggjunum til að unga þeim út, sagði þeim að fara mjög varlega til að styggja ekki mömmuna, því hún yrði að vera stanslaust á eggjunum, svo úr þeim kæmu ungar.

Einhver styggð komst á þröstinn og flaug hann af hreiðrinu, svo "Skaðræðið" tók á það ráð að "bjarga" komandi ungum með því að skella þeim í rassvasann á systur sinni, og slá þannig 2 flugur í einu höggi. þ.e. bjarga ungunum og eignast gæludýr. Síðan hrinti hann systur sinni lauslega, til að hún mundi setjast á eggin og unga "gæludýrunum" út sem fyrst.

Kemur svo dóttirin hágrátandi öll í eggjarauðu og sagði að bróðir sinn hefði hrint sér. Afi varð öskuillur og húðskammaði "Skaðræðið" en hann bar því við að hann hefði nú verið að bjarga þessum ungum og þar sem alltaf væri verið að klifa á því að litla systir hans væri svo létt, þá var hann ekki að átta sig á því hvernig hún braut eggin. Ekki varð úr fjölgun í fjölskyldunni þarna svona "dýralega" séð.

Anna reið

Þegar dóttirin varð 4. ára fékk hún sem sagt hamstur í búri að gjöf frá "velviljuðum" fjölskyldumeðlim og nú tók við skemmtilegur tími, með tilheyrandi flandri uppá dýraspítala. "Skaðræðinu" fannst óskaplega gaman að fara hratt og áleit að sjálfsögðu að Snúlli hamstur væri sama sinnis. 

Þannig að nú skyldi gera vel við hamsturinn og í þeirri tilraun var Snúlli litli settur uppá leikfangamótorhjól sem var upptrekkt og fór á ógnarhraða um alla íbúðina með Snúlla stjarfan á hjólinu.  Ferðinni lauk svo á vegg , með þeim afleiðingum að Snúlli missti eina tönn og ég er ekki frá því að hann hafi fengið einhverja höfuðáverka, því hann fór að hegða sér mjög undarlega.

Hamstur

"Skaðræðinu" þótti þetta mjög leiðinlegt, og ætlaði að kanna með mótorhjólahjálma á hamstra fyrir næstu ferð hans. Snúlli varð nú mjög árásargjarn og reyndi að naga sig út úr búrinu með þessari einu tönn sem eftir var og nagaði allar snúrur í sundur sem hann komst í og ég lenti í rafmagnslosti oftar en ekki, þegar ég var að taka úr sambandi græjur á heimilinu. Tönnin óx þó og ég fékk ekki Dýraverndunarsamtökin á mig, enda hvarf mótorhjólið á einhvern dularfullan hátt og Snúlli lifði lengi vel eftir þetta.

Hér eftir setti ég mörkin við gullfiska, en þá hafði verið gerð tilraun til ánamaðkaræktunnar, Kanína var fengin á heimilið um tíma og loks páfagaukur og svo síðast nokkrir gullfiskar og ekki verða fleiri dýr á mínu heimili svo mikið er víst.


5 landa sýn á einum degi!

Ég ákvað hérna um árið að skella mér í nám til Genóva á Ítalíu og fór glöð og reif að heiman með útprentun úr "Gúggul örþ" leiðbeiningar, en þar sem ég er nú svo vel áttuð (algerlega eigin hugarórar) þá ætti ég nú að geta ratað.

Ekki veit ég af hverju ég hef alltaf talið mig með innbyggt GPS, því það er svo fjarri sanni. Geta fjölskyldumeðlimir ekki sagt annað mér til  hróss að þeir hafa nú fengið að kynnast Mallorca betur en þeir hefðu viljað eins og t.d. á leið frá Cala'dor í miðbæinn sem tekur uþb. korter, en ekki með minni hjálp (tókum Palma leiðina á þetta) eftir hraðbrautinni með nokkrar fjölskyldur af hótelinu með okkur, þar sem menn eru svo almennilegir og hjálpfúsir. Ferðin tók 3 klukkutíma og 45 mínútur og fólk var svangt og úrillt. Ákvörðun var tekin ég mun ekki hjálpa fólki að rata aftur, Vanþakkláta pakk!

calador.gifhofnin_i_calador.jpg

Þetta er nú ekkert ljótt útsýni þarna í Cala´dor

 

 

Sem sagt þennan dag  lagði ég af stað frá Íslandi til Stokkhólms, þar sem ég tók Sasvélina til Mílanó og þaðan er um tveggja klukkustunda keyrsla til Genóva.

Glöð og reif og sjálfstæð kona sótti bílaleigubílinn og afþakkaði pent GPS,  með "ég er nú meðetta góurinn" svip. 

Ég hélt nú til Genóva upprifin af þessari hugmynd minni, að hafa skellt mér ein í nám, gaman að hlusta á Ítalska músík og renna eftir hraðbrautum Ítalíu.

Það eina sem skyggði á gleði mína og hamingju var að ég fékk leigðan Fiat Punto sem var beinskiptur (óskiptanlegur á köflum) Ég keyrði því ekkert mjög hratt og skildi ekki í fyrstu hvað margir flautuðu á mig, en ekki gat ég gert að því að ég komst ekki hærra en í 3. gír, (hinir gírarnir örugglega bilaðir) auk þess þurfti ég nú líka að lesa á google earth útprentunina mína fínu.

Þetta var ekkert mál, ég elti Gen...eitthvað alveg örugg með mig, fór inná hraðbraut og útaf hraðbraut, en þegar ég sá sama betlarann 3 tímum eftir að hafa séð hann fyrst, fóru nú að renna á mig 2 grímur. Er verið að elta mig? Ég hugsaði með mér eru svona Roadcrimes bara í Florida? Örugglega ekki!. Ég teygði mig í veskið og hélt á því, ætlaði nú ekki að láta kippa því úr framsætinu, þar sem náttúrulega engin læsing var á þessum bíl (væntanlega samsæri milli þessarra glæpona sem þóttust vera að betla og bílaleigunnar) gott ég sá við þeim áður en þeim hafði tekist að ræna mig og drepa og henda mér útí vegakant .  

Ég og Puntoinn keyrðum uppímót í ansi langan tíma og ég mundi jú að Genova er niður af hálendi, en fjandinn hafi það, svo kom skilti "Lake Como" ha hvað er það nú að ger hérna hugsaði ég, já ætli þetta sé ekki bara auglýsing (farið endilega héðan til Comovatns).

Nú lenti ég í langri bílaröð og hugsaði með mér. "Genóva svona vinsæll staður! Gaman" en svo kom hermannaklæddur dáti að mér og sagði: "Willkommen zum Sweitzerland" Wott! but I´m going to Genova sagði ég móðguð. Ja bitte, das ist nicht hier!  Hann bauð mér að snúa við á torginu og fara til Ítalíu aftur og keyra í hina áttina. Hvað eru þessi lönd líka að vera með svona nánast eins nöfn...Genóva, Genive!Milkakúin

lakecomo_2.jpg

Ég elti nú alveg rétt skilti Genóva enda ekki hægt að elta Genive, þar sem ég var á leið þaðan! Nú var farið að rigna og dimman hvolfdist yfir mig, og ég beið bara eftir ráninu á mér og bílnum, sem hlaut að fara að skella á (hafði nú samt væntanlega aðeins hægt á glæpagenginu með því að skella mér til Sviss) en þar sem hraðbrautirnar eru ekki upplýstar þá var eina sem glitti á í þokunni eldflugurnar sem ég er nú ekki sérstaklega hrifin af. "Paranojan" alveg í hámarki, því ég var viss um að þær væru að reyna að komast inní bílinn,( ekkert smá eftirsóttur bíll).

Í þessu hringir dóttir mín, þar sem  ég var alveg að bugast og langaði bara heim, týnd í ölpunum með mafíuna á hælunum (þegar þarna var komið var það alla vega mafían) og sagði ég grátandi við hana, bíllinn er ólæsanlegur og ég held ég sé í lífshættu. Róleg mamma mín sagði hún og minnti mig á það þegar hún fór til Grikklands í sjálfboðavinnu hversu skelfilegt henni hefði þótt fyrsta kvöldið en hvernig allt hefði svo lagast í sólinni daginn eftir. (Ég mundi nú væntanlega ekki lifa svo lengi hugsaði ég, en sagði ekkert).

Ég kom svo að fjallsbrúninni uppúr miðnætti og þar sem Genóva tók á móti mér upplýst og falleg. En hvar skyldi nú hótel Helvetia vera, ég var nú ekki með það útprentað, hélt að ég mundi nú bara finna torg og þar væri það, en ok sá það að  Genóva er stórborg! Ok ég var svöng og ég var þyrst og í lífshættu og sá Hótel Hilton blasa við, keyrði þangað í einum rykk, en lenti á bak við hótelið (mjög miklir ranghalar í þessari borg og allt einstefnugötur).

 Með engan bakkgír (já já sjálfsagt gleymst að setja hann í bílinn!!enn önnur vísbending um samsærið gegn mér, ætli bremsurnar virki nokkuð?) neyddist ég til að keyra yfir nokkra plastruslagáma og þar spratt upp allskonar fólk eins og gorkúlur sem var greinilega búið að koma sér fyrir til hvíldar fyrir nóttina.

tramp1.gif

Ég drap engann, en fékk símtal frá systur og þar sem ég æpti móðursýkislega í símann ég er að keyra á fólk og gáma og það er verið að elta mig.  Róaðu þig, var sagt frá Íslandi, andaðu djúpt (já þau geta sagt það öll á lífi og verða á lífi næsta dag eitthvað annað en ég) farðu að anddyrinu. (auðvelt að segja það, en verra að finna leiðina að því). 

Ég renndi svo upp að anddyrinu, lagaði aðeins hárið sem hafði ýfst smá í rakanum (eða var eins og hárið á Jimi Hendrix) vafði veskið um höndina og tók ferðatöskurnar með mér inn og bað stúlkuna í gestamóttökunni að panta fyrir mig leigubíl. Hún horfði á mig og síðan á Puntóinn."Si si" sagði hún, for you and the car? Yes sagði ég ekki laust við smá móðgunartón í röddinni og horfði á hana hugsa: "hvurn fjandann er svona ljóska að ferðast ein um miðja nótt vitandi ekki neitt í sinn haus" Ég gekk hnarreist út, eins og þetta væri daglegt brauð hjá mér að panta leigubíl til að vísa veginn.

Ég elti að Hótelinu við Piazza della Nunziata. Ég fékk grátkast við komuna þar. Þetta var ljótt herbergi og hér ætlaði ég ekki að búa. Engar svalir til að sitja á og fá sér hvítvín, svona rétt meðan menn voru að læra. Ég ætla heim á morgun,  ákvað ég.  Það breyttist daginn eftir þegar ég sá borgina í sólarljósi og ég var bara nokkuð stolt af því að hafa farið á einum degi: Ísland/Svíþjóð/Ítalía/Swiss og  aftur Ítalía.


Ferðalög Ítalía 4/Milanó

Uppáhaldsborgin mín á Ítalíu er Mílanó, já kannski vegna þess að það er sú borg sem ég hef kynnst best, þar sem dóttir mín hefur búið þar undanfarin 4 ár.  Það er eitthvað svo notalegt þar, þó um stórborg sé að ræða þá er hún heillandi í mínum augum, auðvelt að ferðast milli staða. Ja nema ef um verkfall strætóbílstjóra og lestarstjóra sé að ræða, sem gerist ansi oft á föstudagseftirmiðdögum, en þá er ekki svo langt að labba heim, þar sem þetta eru ekki svo miklar vegalengdir þarna í miðborginni.

DuomoDuomotorgið þarna sem dóttir mín veður í "konfetti"  eftir Carnival í mars,(mér virðist alltaf vera einhverskonar Carnival í gangi, krakkar klæddir sem prinsessur og skógardýr) er skemmtilegt torg og alltaf fullt af lífi þar og einnig er sú fallegasta kirkja sem ég hef komið í Duomokirkjan staðsett á torginu.  Já mér finnst hún fallegri en Péturskirkjan í Róm og einnig Markúsarkirkjan í Feneyjum. Hún er hæfilega stór og alltaf finnst mer nú nauðsynlegt að koma þarna aðeins við í hvert sinn sem ég heimsæki Milanó

 duomomilano.jpg

Núna er tískuvika í Milanó og verið að sýna kvenfatatískuna fyrir 2012 og er þá eins og borgin fyllist af fallegu fólki, það er alveg frábært að sitja við Duomotorgið og fá sér kaffi eða hvítvínsglas, jafnvel þó það kosti þrefalt meira en í næstu götu, enda þjónarnir oft allt að því hanskaklæddir og í kjólfötum (það kostar líka að vera fínn) það er eins og maður sé á tískusýningu utandyra og keppist fólk um að vera sem best til fara, labbandi með Armani og Guccipokana sína frá San Babila að Duomo. 

Sætur strákurTrattoria

Skemmtilegasti matsölustaðurinn sem ég hef farið á er Trattoria Toscana, sem er við Corso Lodi, en þar er frábært að koma að hurð sem lætur lítið yfir sér frá götunni, en þegar inn er komið, labbar maður í gegnum eldhúsið (ætli íslenska heilbriðgiseftirlitið mundi samþykkja það) og þá er komin stærðarinnar matsalur sem er að hluta til undir glerlofti og að hluta til úti, og barinn er svo alveg undir beru lofti, með voldugum sófasettum og er þakinu þá rennt yfir ef rignir, en trén njóta sín vel þarna inni/úti.

Trattoria Toscana

Þarna er mjög vinsælt að fá sér aperitivi, sem er allsráðandi í Milanó milli 6-22 á kvöldin, en þá bjóða staðirnir uppá smárétti sem fylgja hverju keyptu glasi á staðnum.

Við höfum líka farið þarna að borða ef eitthvað skemmtilegt er um að vera, eins og þegar dóttir mín útskrifaðist úr IED sem gerir henni kleift að gera fólk smart fyrir myndatökur og tískusýningar og er hún nú önnum kafin við að "raða fólki rétt saman" hjá  CK sem hún vinnur hjá í Mílanó núna á tískuvikunni sennilega draumur allra stúlkna með tískuvit.

 

Buenos Aires er rosalega skemmtileg gata, alltaf fullt af sölukörlum og blómasölum og hægt að gera góð kaup hjá Kínversku skósölumönnunum, sem koma út úr Kínahverfinu sem ég mun gera skil síðar, en það er ótrúlegt að fara þangað og vera komin í allt annan heim inni í miðri Mílanóborg.

Buones Aries AnnaHérna var verið að hefja verslunarferð á Buenos Aries, en þar eru hæfilega stórar búðir eins og H&M. Mangó og Zara og Kikó snyrtivörubúðin sem er frábær og ekki spillir verðið fyrir, en þar sem þetta er ítölsk framleiðsla þá kostar allt svona 30% af því sem við íslensku konurnar þurfum að borga fyrir snyrtidót hérna heima.

Ég elska menninguna í Mílanó, Aperitivikúltúrinn og matinn og kvöldstemminguna sem er allsráðandi öll kvöld vikunnar og hvernig kúltúrinn er mismunandi eftir svæðum. En ég mun gera því skil síðar og segi bara Ciao tutti!!!

 


Er hefndin er sæt?

Óskemmtileg var uppákoman sem ég lenti í ekki alls fyrir löngu, en veit ég vel að ég er svolítið ónett (lesist brussa) já og á það til að vera örlítið fljótfær og hvatvís (lesist óforskömmuð) Ég var stödd á skemmtistað og lenti í því óskemmtilega atviki að þurfa að hella bailysdrykk yfir mann, en hann var svo leiðinlegur að hjá því varð ekki komist (ég tek það fram að það var hans glas). Hann hafði móðgað mann og annan, þannig að þetta var eiginlega það eina í stöðunni til að lækka í honum rostann, en ég er kona athafna og bregst við af fullu afli ef þurfa þykir.

Prinsessa

Ég gekk síðan hnarreist full réttlætiskenndar með þetta "voðaverk" mitt í burtu til að fara á barinn, meðan verið væri að þrífa upp þetta klínstur við borðið, ekki vottur af skömm í brjósti mér.  Ég var í mínu fínasta pússi, rándýrum nýjum kjól og mjög hælaháum skóm sem ég þurfti alveg að vanda mig við að ganga á.

Hitti ég gamla vinkonu þar sem ég stend við barinn eilítið í skugga, vildi vera örugg með að fá ekki yfir mig drykk, (maður veit jú aldrei hvað fólk tekur uppá, já  muna að drekka bara gin í sóda) þar sem við stöndum þarna spjallandi  sé ég ekki einhvern illa fullan mann koma í loftköstum niður tröppurnar með fullt rauðvínsglas í hendinni og vildi ekki betur til en svo að hann  lenti á mér, glasið tæmdist yfir hár og andlit og lak hratt og örugglega á rándýra kjólinn minn og ég hentist út í hrufóttan vegg og hjó næstum ermina af við öxl og kjóllinn var eins og gatasigti á annarri hliðinni. Hvað er líka verið að gera með svona stórhættulega veggi á almenningsstöðum?

"þarna skall hurð nærri hælum" sagði hinn "fljúgandi skemmtikraftur" og brosti glaður, "glasið brotnaði ekki einu sinni" en þegar hann var að standa upp aftur notaði hann mig sem vogarstöng og ég þetta líka fisið sem ég er eða þannig, hentist á gólfið með þeim afleiðingum að hællinn fór undan öðrum skónum mínum.

Skór

Þegar ég kom til baka störðu allir við borðið mitt (líka beilísgaurinn sem glotti) og var ég spurð hvort ég hefði lent í árekstri. Ha árekstri! sagði ég móðguð, nei ég fékk 120 kg. mann yfir mig og 1 rauðvínsglas og eitt stk. vegg og kannski má kalla það árekstur en ég er alla vega farin heim, svaraði ég snúðugt.

Ég gekk í burtu teinrétt í baki með hárið í rúst, kjól í henglum á einum hæl, reyndi mitt besta að halda ermi við öxl, og halda kúlinu. 

Leigubílstjórinn spurði hvort ég vildi fara uppá Borgarspítala. Nei takk!  Farðu með mig heim sagði ég mjög yfirveguð  og hugsaði með mér, er hefndin sæt? Ekki fyrir mig, en mun þó fara varlega með áfenga drykki í framtíðinni og ekki spilla þeim á fólk.

 

 


Ferðalög Ítalía 3/ Portofino

Þar sem ég ér stödd á markaði á miðju torginu í Santa Margherita, litlum bæ sem liggur á vesturstönd Ítalíu, Liguria ströndinni, sé ég hvað Roberto karlinn er að selja afurðir sínar innan um alla hina bændurna. Á torginu er skarkali og erill og ilmur í loftinu af nýjum ferskjum, appelsínum, sítrónum og kryddinu sem er í boði og ljúfir tónar berast um torgið þar sem rómantískur gítarspilari syngur og spilar fyrir viðstadda.

Sítrónur

Santa M. er bær sem er næsti bær við Portofino, ansi líflegur bær enda aðeins yngra fólk, en það sem sækir í Portofino, en þar er mikill fjöldi af amerískum ellilífeyrisþegum og eiginlega held ég að orðsporið sé meira en mér fannst í staðinn spunnið, ég heillaðist af stöðunum í kring miklu frekar. Allt óheyrilega dýrt og næstum þurfti kúlulán til að fá sér kaffibolla við höfnina þar.

Santa M.

Við vinkonurnar höfðum verið deginum áður á ströndinni  sem fylgdi með hótelinu okkar sem var staðsett við höfnina í S.M. en þar hittum við fyrir þennan sama Roberto sem sá um rekstur strandarinnar og úthlutaði bekkjum og handklæðum, eiginkonan sá um strandbarinn og matseldina, ásamt tengddætrunum, en synirnir voru nú svona meira í að leika sér við börnin á ströndinni.

 

Ég fór að fylgjast með þessari ítölsku fjölskyldu sem var alveg eins og ég hef alltaf talið mér trú um að ítalskar fjölskyldur væru. Mamman réði öllu og rak fólkið sitt til og frá, sendi tengdadætrunum illt auga, ef þær gleymdu sér í spjalli, en klappaði sonum sínum og tróð uppí börnin einhverju góðgæti og sendi þá út að leika.

Cozze

Hún bjó til eigið pasta og sótti sítrónur af næsta tré sem hún var með út um allt í  blómapottum. Heimagerð ólífuolía var að sjálfsögðu með og pastað með nýtíndum bláskeljum (pasta Cozze) var eitt það allra besta sem ég hef smakkað.  Auðvitað máttum við svo til með að prófa nýjustu afurðina þeirra sem var Limoncello, (sítrónulíkjör).  Allt á boðstólnum þarna virtist úr þeirra eigin garði eða beint frá framleiðanda, í þessu tilfelli fjölskyldu Robertos. "Vino di casa" var svo drukkið með þessu og ég er ekki frá því að þetta hafi verið ein ljúfasta máltíð sem ég hef smakkað.

Limoncello S.M. er er einstaklega fallegur bær og yndislegt að sitja á svölunum og horfa á snekkjurnar og unglingana sem koma uppúr 6 á morgnana (já menn vakna snemma!) að spúla og þrífa bátana fyrir eigendurna, sem skelltu sér í bæinn á meðan. Sjávarloftið blandað jasminilmi gerir það að verkum að maður vill ekki fara inn, gerir flest útivið, fær morgunmatinn uppá svalir (Prinsessur mega það!) borðum úti, og drekkum þessa fegurð í okkur fyrir allan peninginn.

Þó er mjög dýrt að vera þarna, enda árið 2007, þegar þessi ferð var farin (fyrir tíð smurðra samloka í nesti til utanlandsferða)


Bloggdólgar, flugdólgar og aðrir dólgar!!!

Vinkona mín spurði mig hvort ég ætlaði að verða næsti "bloggdólgur" hm hugsaði ég, því ég áttaði mig ekki alveg á því hvað það felur í sér að vera bloggdólgur, þekki fbdólgana með tilvitnanirnar í Oscar Wilde 5 sinnum á dag en varð þá hugsað til flugdólgsins sem ég var svo "heppin" að hafa í sæti fyrir aftan mig í 7 tíma ferð til Kaupmannahafnar, (já það var bilun og svona)

Handjárn

Ég var á ferð þangað til að fara með litlu fósturdóttur mína og frænku í Tívólí, en það voru verðlaun fyrir að standa sig vel í skólanum. Systur mínar nokkrar voru með í för og vinkona sem er mjög flughrædd. Þessi sem fer í frauðplasti inní vélina, búin að gleypa 3 róandi og skola þeim niður með bjór, situr með hvíta hnúana og heldur sætinu fyrir framan sig í gíslingu. En hún er mjög skemmtileg þegar á ferðina líður og er ekki neinum til vandræða, brosir og verslar bara svona í rólegheitum. (spennt í beltin og að sjálfsögðu með hjálminn á höfðinu)

Nú þegar við höfðum setið "spennt" í beltin á jörðu niðri í svona 2 tíma, og litla frænka mín var farin að ókyrrast hún vildi komast í tívolíið, þá var "skemmtikrafturinn" í sætinu fyrir aftan okkur orðin svo vel slompuð að hún var farin að syngja hástöfum, (kona á miðjum aldri með vinkonu sinni, sem var nú tekin að síga neðar og neðar í sætið). Flugfreyjan kom og bað hana að leggja líters Grand flöskuna  niður ekki væri heimilt að vera með vín, nema það sem selt væri um borð.

Það er sko svo léleg þjónusta "hédddna" sagði hún að maður verður að fá eitthvað við þessum "þosda" Vesalings ameríski maðurinn sem sat við hliðina á henni, bað ítrekað um að fá að standa bara, þar sem ekki var laust sæti í vélinni. Hún var komin svona kæruleysislega með volduga löppina yfir hann og hann varð eiginlega svona hálfgrænn í framan greyið.  Ekki öfundaði ég hann nú, þegar hún ákvað að taka upp "snakk" sem hún hafði keypt í fríhöfninni. Já "HÁKARLABOXIÐ" og sagði með hákarlabitann lafandi út úr sér, Vúddjúlækasjork? No? Grend Meiriner? No? Jú amerikens ar allalæk og svo kallaði hún yfir næstu sætisraðir, er ég kannski dóni að opna hákarlabox?

Já nú var hæglætisljúfmenninu með jafnaðargeðið mér (það segir vinkona mín alla vega) nóg boðið!.

"Já þú ert dóni og ógeðsleg lykt hérna og það hlýtur að  standa í  einhverjum flugreglum að hákarl sé bannvara um borð og ef þú hættir þessu ekki og lokar þessu boxi, þá læt ég setja á þig nálgunarbann og henda þér útá væng" hvæsti ég kurteisislega.

Hún var frekar móðguð yfir þessari óvægnu árás á sig, sem var bara aðeins að fá sér drykk og snakk, þá sjaldan menn lyfta sér upp.

Þannig að þá ákvað hún að verða flughrædd, hringdi stanslaust á flugþjóninn, (flugfreyjurnar voru allt í einu  uppteknar annarsstaðar) og sagði hvenær hröpum við??? Viltu ekki blað að lesa sagði flugþjónninn elskulega? "Nei ætla ekki að vera öll í prentsvertu þegar við lendum í Atlandshafinu" og litla frænka mín spurði: "Erum við ekki í vitlausri flugvél, ég hélt að við ætluðum að lenda í Kaupmannahöfn?"

Vinkona mín (sú flughrædda) var nánast búin að brjóta sætisbakið fyrir framan sig, af hræðslu, þegar hún heyrði þetta með hrapið. Náði í vestið undan sætinu (betra að vera við öllu búin) og bað mig að leita uppi björgunarbátinn, þar sem hún hreyfir sig ekki úr beltinu fyrr en vélin er að fullu stöðvuð. 

Flugdólgur

Sem betur fer týndist þessi "skemmtikraftur" við komuna til Kaupmannahafnar, en hún ranglaði í vitlausa röð og endaði í Svíþjóð, við sáum vinkonuna sem leitaði að henni út um allt með veskið hennar og síma.  Mér fannst það ekkert leiðinlegt.

Já svo er það "sjúklingadólgarnir" þessir sem liggja á bjöllunni, ætla að fá 1. flokks þjónustu og kvarta ef þeir lenda í herbergi með öðrum. Halda að þeir séu á "hótel Sanderson" Lenti í herbergi með svona "dólg" einu sinni, sem trylltist  ef ég setti sjónvarpið á (lágt stillt) en kveikti svo á fréttunum og ég er ekki frá því að ég hafi fengið gat á hljóðhimnuna við hávaðann. Dauðir hefðu risið upp! Gangastúlkan kom og gargaði hvort hann væri heyrnaskertur? Nei bara að yfirgnæfa hávaðann í henni hérna við hliðina sagði hann. Ég lagði frá mér prjónana, ákveðin í að valda ekki svona miklum hávaða framar.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband