20.9.2011 | 00:16
Ferðalög Ítalía 2
Í Genóva er ég stödd til að læra Ítölsku í skóla sem er staddur í miðjum bænum uppá hæð, og er í húsi sem einnig er íbúðarhús, en minnir á höll að utan. Finnst mér alger forréttindi að fá að vera í þessum skóla sem heitir Scuola Tricolore, en hann er rekin af pari sem er hollenski skólastjórinn og ítalska kærastan hans, þau tóku okkur eins og fjölskyldumeðlimum enda ekki fleiri en 3 í hverjum bekk.
Ástæða þess að ég valdi Genóva frekar en t.d. San Remo, er vegna fordóma og viðurkenni ég það fúslega, áleit eftir mikla yfirsetu yfir skólum að það væri of mikið af túristum í San Remo, enda staðsetningin nánast upp við Frakkland og ekki nógu ítalskur að mér fannst, annar skóli kom til greina sem heitir Piccola Universita'Italiana og er alveg Suður við Messina í Calabriahéraðinu. (eftir lestur Gómorra kom það ekki til greina já veit það fordómar) Þar sem ég hafði nú líka verið í suðrinu í Campagne héraðinu áður og verðið Riminiaðdáandi til margra ára á austurströndinni, þá ákvað ég að skella mér á vestur á Liguriaströndina sem hýsir Genóva.
Þegar ég kom að kvöldlagi eftir frekar misheppnaða för frá Íslandi, þá blasti þessi sjón við mér og allt annað vék úr huganum. En Genóva er byggð í svokallað panorama utan um höfnina. Hér á árum áður var mikið um sjóræningja og fleiri sem sóttust eftir borginni, vegna legu hennar og brugðu Genóvabúar á það ráð að byggja göturnar í völundarhús upp frá höfninni, sem kallast Porto Antico eða gamla höfnin, til að villa um fyrir misyndismönnunum.
Það átti nú eftir að bitna á mér illilega, enda ekki með gps innbyggt, en skólastjórinn kenndi okkur strax það ráð að leita alltaf niður á við. En þetta eru mestu ranghalar sem hugsast getur, og svo þröngar göturnar að maður gat snert húsin beggja vegna sumsstaðar.
Gamli bærinn upp af höfninni, var einskonar Sódóma Genóvu hér áður, en Þegar G8 ráðstefnan var haldin þar í júlí 2001, þá hafi áður verið lokað fyrir allar útgönguleiðir úr hverfinu og öllum eiturlyfjaneytendum og gleðikonum og öðrum sem óprýða þóttu miðbæinn verið sópað í burtu, götur þrifnar og snyrtar og húsin leigð ungu fjölskyldufólki.
Þetta eru mjög skemmtilegar og líflegar götur á daginn, en ekki fannst mér nú þægilegt að labba þarna um á kvöldin, þó fullt væri af fólki en hvort það var minn hugarburður eða ekki, þá fannst mér alltaf einhver ljótleiki hvíla yfir þessum bæjarhluta og var aldrei alveg örugg þarna.
Við skólafélagarnir hittumst gjarnan á bar þarna í gamla hverfinu og þar voru svona 12 barir á smá torgi og yfir öllum borðum voru stórar sólhlífar uppsspenntar á kvöldin, ekki til að forðast sólina, heldur egg sem íbúarnir í kring hentu eftir klukkan 12 á kvöldin í okkur skemmtanaglöðu námsmennina og aðrar barflugur. Einstaklega skemmtilegt að fara heim með egg í hári og fötum ef maður var ekki nógu vel varin.
í Porto Antico er notalegt að sitja á bar langt úti í sjó, þar sem sést yfir alla höfnina, allan fjallahringinn og hlusta á ítalska ljúfa músík og fá sér "aperitivo", sem er mjög vinsælt þarna sérstaklega fyrir námsmenn, en þá færðu þér drykk og færð mat með milli 7-10 á kvöldin, en borgar bara fyrir drykkinn.
Þarna í Genóva eru pálmatré niður við höfnina, en það er ekki svo algeng sjón Ítalíu, enda hefur víst herjað á pálmatrén, einhver pöddufaraldur sem éta trén að innan og er mjög algengt að sjá pálmatré án blaða, en þau virðast hafa sloppið í Genóva.
Niður við höfnina er mjög vinsælt sædýrasafn, eiginlega er flest sem dregur athygli fólks staðsett þar eins og t.d. gömul skip (draugaskip), útileikhús, matsölustaðir, útsýniskúla sem hangir í þar til gerðum krönum. (Eflaust flott útsýni, en mundi aldrei fara í slíkt vegna hæðar)
Einnig er plöntusafn í glærri kúlu og er hún eiginlega útí sjó. Ég hef nú ekki orðið svo fræg að fara þangað heldur enda alltaf biðröð í nokkra km. þegar ég hef ætlað að gefa mér tíma, en það er alltaf pláss á barnum góða sem ég sé yfir plöntusafnið. Er það ekki bara gott?
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.9.2011 | 17:59
Ferðapistill / Ítalía 1
Ég elska að ferðast, og hef ferðast mikið um Ítalíu, enda á ég dóttur búsetta þar, svo það liggur beinast við að sameina ást mína á Ítalíu og heimsókn til hennar.
Í suðrinu við þá fallegustu strönd sem ég hef augum litið Amalfiströndina er Positano, lítill bær, gjarnan kallaður perla Amalfistrandarinnar. Bærinn virðist hanga í fjallinu og ég viðurkenni að ferðin til Positano frá Napoli, var skelfileg fyrir lofthræðslupúkann sem ég er.
Georgio sem var sendur af hótelinu að sækja okkur til Napólí spilaði panflautumúsík á fullu blasti og keyrði eins og brjálæðingur kannski vanur að fólk væri í hræðslukasti í bílnum hans og best fyrir hann að koma því sem fyrst á leiðarenda. Ekki var laust við að ég riðaði þegar ég kom á hótelið eftir ökuferðina. Það gleymdist þó fljótt þegar yndislegur jasmín/sítrónu og einhversskonar kryddilmur læddist að vitum mínum og ævintýraljóminn á þessum stað blindaði mig svo, að ég gleymdi ferðinni. (þar til næst)
Positano er mjög rómantískur bær og yndisleg að sitja á stórum svölunum sem við höfðum og horfa á útsýnið á daginn og ekki síður ákvöldin, þegar bærinn var á að líta eins og upplýst póstkort.
Sjórinn við Positano er einn sá tærasti sem ég hef séð við strendur Ítalíu og þarna er mikil sítrónurækt og því allskonar sítrónuréttir í boði. Einnig rækta þeir þarna í suðrinu mikið af því sem þeir stoltir kalla sitt náttúrulega viagra, eða chili og er hægt að fá allt frá chili kjötréttum, chilisúkkulaði og jafnvel chili-ís svo fátt eitt sé nefnt.
Við vorum þarna um páska og var mjög gaman að fylgjast með þeirra háttum eins og þegar hálfur bærinn bæði börn og fullorðin virtust taka þátt í göngu krists (fræddi Georgio okkur) á föstudaginn langa, berandi stóran kross á milli sín og aðrir með kerti og allir klæddir í hvíta kyrtla. Mjög magnað!
Þar sem bærinn er í fjalli og vegirnir afskaplega þröngir, þá eru tröppur frá strönd og upp fjallið á milli húsanna og já ég segi nú bara kirkjutröppurnar á Akureyri hvað? Ég held að ég hafi verið með strengi í fótum uppá hvern dag þarna í 8 daga.
Hægt er að taka rútuna til Salerno og Amalfi sem eru báðir yndislegir bæir, en ég segi taka rútuna, því ekki mundi ég vilja keyra á þessum syllum, en þeir virðast geta keyrt þessa þröngu vegi og mætt bílum, en ég varð ansi oft að loka augunum og biðja til guðs og lofa bót og betrun ef ég hefði ferðina af.
Það er síðan stutt að fara til Sorrento sem er yndislegur bær og þar eru til dæmis appelsínutré og sítrónutré á öllum götum miðbæjarins og er ekki ónýtt að fara og versla og kippa með sér einni appelsínu á leið úr búðinni af næsta tré.
þar sem ég hafði lesið bókina Gómorra um Napólímafíuna skömmu áður en ég fór til Positano, þar sem höfundur lýsir því hvernig farið var með jörðina í Campagne héraðinu. Heilu geislavirku hlössunum var komið fyrir þar í jörðu ásamt fleira mengandi rusli, þá var það nú eiginlega það eina sem skyggði á hamingjuna yfir því að vera þarna. Hvernig er hægt að eyðileggja paradís með gróðrahyggjunni einni saman.
En á þetta var aldrei minnst á af Georgio bílstjóranum okkar vingjarnlega, sem þjónaði einnig fríviljugt sem leiðsögumaður. (Hann skildi aldrei ensku, þegar reynt var að spyrja hann út í þetta, hann hækkaði bara í fj...panflautumúsíkinni) Hann benti okkur þó á marga skemmtilega svæði, enda hann búsettur í Positano. Einn stað sagði hann að við yrðum að skoða og það var Capri. Sem við gerðum en síðar meira um það.
Positano er sá staður sem ég kalla paradís á jörðu og mun fara þangað aftur þó síðar verði.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.9.2011 | 13:09
Samband bíla og konu
Bílar eru fyrir mér bara svona "þægindargræja" til að komast milli staða og skilgreini ég þá annað hvort sem græna, svarta nú eða rauða sem sagt eftir litum. Ég er ekkert að velta því fyrir mér hversu mörg "kúbikk" þeir eða eru eða þannig hlutum.
Eftir að ég varð einhleyp og mitt hlutskipti varð að fara með minn bíl á verkstæði og átti kannski erfitt með að lýsa nákvæmlega hvar eitthvað hljóð kom (fyrir aftan farþegasætið??) þá kannski eðlilega fannst mér ég meðhöndluð eins og fáviti og fékk á tilfinninguna að bifvélavirkinn hugsaði: " já já þessi kallinn LJÓSKAN ganga þær nú nokkuð á öllum ætli það sé ekki bara rúðuþurrkurnar sem þarf að skipta um og þá þegir hún, ekkert að þessum bíl"
Jæja ég er kannski ljóshærð en ekki heiladauð, svo ég tók á það ráð í hvert sinn sem ég fór með öldruðu Toyotuna mína (lesist: hvítur bíll) að spyrja hvað hefði nú verið að. Ég eignaðist nýtt orðasafn, svona eins og jú jú kúplíngin er nú að gefa sig, viftureimin er slök, hljóðkúturinn götóttur og eitt orð sem átti eftir að breyta lífi mínu "spindilkúlurnar".
Með þetta orð í farteskinu voru mér allir vegir færir, ef ég fór á verkstæði, þá sagði ég gjarnan: "það er eitthvað að og ég hallast að því að það séu spindilkúlurnar" það passaði verkstæðismaðurinn hofði á mig með aðdáun. Þarna fór kona með þekkingu. Ég fullyrði að bílaviðgerðareikninarnir mínir snarlækkuðu með þessari nýtilkomnu þekkingu minni. Já það er gott að vera klár.
Einu sinni sem oftar er ég stödd á Ítalíu og er að keyra í Toscana á leið minni til Flórens, þegar ég varð vör við að það kom gífurleg þoka allt í einu, og heyrðist rosalegt hljóð undan Ford Focusnum (ég veit það núna á eins bíl í dag). Ég var ásamt nokkrum systrum á ferð og þær sögðu mér að það kæmu eldglæringar undan bílnum (sjálfsagt laust púströr) en þokuna gat ég ekki skýrt því hún var bara í kringum minn bíl.
Ég fann verkstæði og sagði mágum mínum að ég skildi bara annast þetta, væri búin að taka námskeið í ítölsku og ég væri bara góð í þessu. Ég ætlaði nú ekki að láta einhvern Ítala plata mig íslensku ljóskuna, sem vissi nú eitt og annað um bíla.
Macchina Rotto (ónýtur bíll) sagði ég við manninn á verkstæðinu. Si si sagði hann, en hvernig segi ég nú spindilkúlur á ítölsku (það var EKKI í bókinni, muna kaupa bók á ítölsku um viðgerðir bíla). Ég ákvað því að reyna enskuna hmmmmmm: I think the "SPÆNDELBALLS" are broken byrjaði ég, hann varð ekkert hrifin og sagði: No capisco og ég reyndi aftur "IL SPJUNDELBALLINO" ?? (enginn hrifning) No capisco sagði hann og hristi hausinn. Vesen nú fyrst hann vildi ekki hjálp, þá varð hann bara að finna út úr þessu sjálfur.
Þetta endaði vel, það vantaði víst bara vatn á vatnskassann (Aquakassino???) og púströrið var laust (vissi það nú) en hvernig ætli maður segi púströr á ítölsku?????
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.9.2011 | 18:52
"Hryðjuverkabarnið" kynnt til sögunnar
Fyrirsögnin kann að hljóma skelfilega og má vera að ég fái á mig barnaverndarnefnd, só bí itt. Ég á 2 yndisleg börn og eina fósturdóttur. Dóttir mín hefur alltaf verið prúð og pen (eins og móðurin) en sonurinn hefur nú ýmist gengið undir nöfnunum, hryðjuverkabarnið, skaðræðið, eða jafnvel glæpabarnið) og fósturdóttirin hefur nú alveg fengið "dass" af glæpagenum í sig (úr föðurættinni að sjálfsögðu)
Skaðræðið hefur farið með látum gegnum lífið og ég hef oftar en ekki efast um að ég sé hæf sem móðir. Það eru ófá uppátækin sem hann hefur tekið uppá og það "besta" við þau að ég hef nú oftast fengið að vera óbeinn þáttakandi í þeim verandi mamman.
Hann var mjög fyrirferðamikið og afkastamikið barn og á tímabili held ég að ég hafi ég verið álitin starfsmaður á Borgarspítalanum, því það var bara opnað fyrir okkur strax og við birtumst, enda oftast um svona sæmilega akút tilfelli að ræða eins og gleyptur slatti af Nitroglyserintöflum, (sprenigtöflum) blátt barn með tappa fast í koki, hjól fast á hendi og ör í gegnum hendi svo fátt eitt sé nefnt.
Ég sem vildi svo gjarnan vera hin fullkomna móðir, var alltaf að reyna að finna farveg fyrir athafnasemi "skaðræðisins", skráði hann í handbolta, fótbolta ofl. en hann gleymdi sér alltaf í markinu og fór út að skoða flugur og svona þegar hann átti að verja. Hann varð ekkert vinsæll markmaður.
Bogfimi skildi það vera!! Hæfilega hættulegt og þar af leiðandi spennandi. Nú upphófst yndislegur tími, hann fór á æfingar tvisvar í viku í heilar 2 vikur og fannst hann nú nógu góður til að hefjast handa heima við.
Ég fékk hringingu (sem áttu eftir að verða ófáar) í vinnuna og Kristín á símanum sagði. Guðlaug mín vertu alveg róleg (hún byrjaði snemma að "skrína" símtölin til mín) en sonur þinn skaut vin sinn í höndina með boga og nær ekki örinni út (það var eina áhyggjuefnið) svo þú þarft að fara heim. Keyrðu varlega sagði hún, sem ég gerði ekki.
Ég fór með slasaða vininn uppá spítala og "skaðræðið" í aftursætinu, því hann átti jú örina og vildi hana aftur. Vinurinn fékk stífkrampasprautu, enda með gat í gegnum höndina. Örin var tekin í gíslingu.
Skaðræðið var alveg hissa að hvað ég var pirruð, ekki var það ég sem tapað strýheilli ör. Vinurinn fékk mikla athygli útá gatið á höndinni, enda eins og gatið á Jesú. þannig að skaðræðið mitt kom eiginlega langverst út úr þessu bogfimimáli að hans mati.
Þetta er eitt brotabrot af skrautlegum ferli litla "hryðjuverkabarnsins" míns.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.9.2011 | 10:25
Ég mun aldrei giftast Kínverja!
Þegar menn eru atvinnulausir í lengri tíma, virðist sem sem maður stirðni upp víðast hvar, ég meina af hverju er ég með vöðvabólgu? Ég þarf að komast í nudd. Kínverskur nuddari? Nei takk!
Ég er ekki með fordóma, en kínverskur nuddari kemur ekki til greina! Ég lenti í því að fá illt í annað hnéð, þar sem ég hafði farið á bananabát á ströndum Spánar ásamt systrum mínum og verið hent af viðkomandi banana með þessum afleiðinugm. (vildi ég gæti sagt að það hefðu tekið sig upp gömul íþróttameiðsl en svo er ekki).
Ég fór til kínverja sem átti að töfra mig i lag á örskotsstundu, reyndi að útskýra hnjámeiðslin. Hann sagði þá: "Signola Signola úl födunum og sú liggja hénna á maga. Ég hlýddi og viti menn, stekkur þá ekki uppá bakið á mér þessi fullvaxni Kínverji og byrjar að rölta um bakið á mér. Ég hef væntanlega stífnað eitthvað upp (mjög óvön fótgangandi fólki á baki) því hann nánast gargaði á mig: "Slappadaf, slappadaf, veltu ekki sonna sdýf. Ég róaðist. "Sonna Sonna já setta miklu bedla" sagði hann.
Svo þegar umferðinni hætti á bakinu sagði hann: "snúdu ther vid" og svo setti hann ljósalampa á magann á mér. (já örugglega mjög gott fyrir hnéð hugsaði ég).
Nú sú fín, fala heim og pissa mikid mikid og koma aftul bládum.
Já takk væni hugsaði ég og hugsaði með mér, hingað aftur? NEI finndu þér einhvern annan til að rölta á.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.9.2011 | 01:30
Fyrstu kynnin gleymast ei!
Ég var frekar rólegt feimið ungmenni, var bara í Versló, skemmti mér hæfilega, kynntist mannsefninu mínu sem við skulum kalla X þegar ég var á tvítugsaldrinum, eða barnung leyfi ég mér að segja.
Ég var sem sagt nýbúin að kynnast Xinu þegar hann bað mig að koma með sér til vinar síns og konu, sem bjuggu í foreldrahúsum vinarins. Þau voru með húsið á sölu og Xið ætlaði að hjálpa þeim enda smiður. Ekki málið sagði ég, en ég bíð í bílnum (feimin og svona). Ég beið og beið, að mér fannst heila eilífð, en þar sem sambandið var á byrjunarstigi sýndi ég ótrúlegt rólyndi, enda jafnaðargeðsmanneskja. (muna: venja hann af svona dónaskap síðar)
Svo fór þó að hann kallaði út og sagði mér að koma inn og slökkva á bílnum, en við vorum á mini couper bil mömmu hans. Slökkva á bílnum! Já væntanlega hefur hann meint taka lyklana úr og svona, sem ég gerði, en þá tók bíllinn undir sig stökk, og hentist yfir grindverkið sem var á milli mín og garðsins. Ég náði lyklinum út og kom labbandi með allan þann virðuleika sem ég gat miðað við aðstæður, með kúlu á enni, róleg og bein í baki (vel upp alin). Ég rétti Xinu lyklana og sagði svona útundan mér: " hann rann smá"
Pabbinn kom skömmu síðar sótrauður í framan og spurði Xið hvað bíllinn væri að gera útí blómabeðinu sínu og girðingin öll í henglum? Xið leit á mig og sagði: "hvað meinarðu með að bíllinn hafi runnið? Það er júlí!! ekki startaðir þú honum í gír?"
Ég þetta ljúfa sakleysislega man svaraði honum, ja ég veit ekki alveg hvort ég startaði honum, en ég náði ekki lyklinum svo ég sneri honum kannski smá, ég var svoldið titrandi í röddinni og við það að fara að gráta, en bílnum var bakkað úr blómabeðinu og Xið kippti girðingunni í lag, ég róaðist smátt og smátt og hélt áfram að vera settleg og pen og eins frambærileg og ég gat.
Foreldrarnir voru að fara í leikhús og okkur var boðið í mat og bjór og var ég nú ekki vön bjórdrykkju og örlítið trekkt eftir magnaða innkomu mína í líf þeirra, svo ég drakk ansi mikið og varð ég nú svona líka illa lasin, að ég kastaði upp á baðherberginu, í vaskinn, baðkarið og já á hurðina, sofnaði svo á gólfinu, enda þreytt eftir allt álagið og pressuna sem hafði verið á mér.
Þegar foreldrarnir komu heim var farið að leita að mér og þurfti að brjóta upp hurðina, þar sem ég svaf eins og engill, en mér var komið fyrir í rúmi foreldranna og farið með mig heim um nóttina.
Ég gat ekki beðið með að hitta þau aftur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.9.2011 | 15:36
Um sjálfa mig.
Þegar maður tekur ákvörðun að blogga og hleypa þar með fólki í líf sitt, finnst mér ég þurfa að skilgreina manneskjuna á bak við skrifin. Þar sem ég segist vera af óræðum uppruna, má ekki svo skilja að ég viti ekki hvaðan ég er, nei alls ekki. Ég á föður sem er hávaxinn, bláeygður og ljós yfirlitum og móður sem er alger andstæða þ.e. svarthærð, brúneygð með brúna húð, og er hún rétt rúmlega málbandið á hæð eða rétt um 150+cm ef vel er teygt úr henni.
Mamma mín er ættuð að austan og þar eru náttúrulega frönsku genin komin og er öll hennar ætt lágvaxin og svarthærð með brún augu og jú jú þennan líka svakalega fallega ljósbrúna húðlit.
Ég aftur á móti fékk dass af albínisma í mig, en það þýðir að ég er með gölluð litagen, ég er ljósrauð á litinn og albinóinn lýsir sér þannig að ég þarf að skilgreina hálsinn frá hárröndinni með því að teikna alla aukahlutina á mig sem virðast að öðrum kosti vanta í andlitið. Ég er samlit í framan og liturinn rennur útí eitt, þar til ég hef teiknað eftirfarandi: 2 stk. augabrúnir (verða oft mislangar og misbreiðar þar sem enginn litur er til að fara eftir) Augnahárin, hvít fyrir möskurun ef það orð má nota. Teikna svo varirnar og þá er ég komin. Flestir koma bara með þessa aukahluti með sér og þurfa aldrei að skilgreina svæðið milli hálss og hárs.
Ég á stóran hóp systkina og erum við eins og mislitur sauðahópur, enginn hefur sama háralit, og enginn hefur sama augnlit, og öll hafa þau fallegan húðlit. Ekki ég, ég verð rauð í sól, svo verð ég ennþá rauðari og svo verð ég aftur fölbleik og enda stundum beislitiðuð í besta falli og þá svæðisskipt (sjá mynd sem gæti vel verið ég eftir sólbað)
Ég er fljótfær, seinþroska, hvatvís, brussa sem framkvæmi áður en ég hugsa. Ég á stóran frábæran vinahóp, á öllum aldri, enda þó ég sé á jafnaðaraldri eins og ég kýs að kalla það, (þ.e. á jafnmikið eftir og ég hef lifað fram að þessu) þá er ekki laust við að ég telji mig fyrirbura í þroska og finnst oft að ég hafi fæðst svona 27 árum fyrir tímann. Flestir vina minna koma úr bankageiranum og eru einstaklega skemmtilegt fólk, sem þolir mér seinþroskann og fljótfærnina.
Ég á svo tvö börn og nokkur lánsbörn sem ég skilgreini kannski síðar. Ég er sem sagt hálfgerður hobbiti eða 164 og hálfur cm með dass af albinóa í mér og þar hafið þið það. Góða helgi!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.9.2011 | 11:53
Af hverju að blogga?

Ég hef verið spurð að því, af hverju fólk sé að blogga, ég get ekki svarað því, en ég ætla að blogga af því einfaldlega að mér leiðist!!! Já hef verið atvinnulaus í 1 ár og það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að prjóna margar lopapeysur (lesist 6 vettlingastroff og 2 uppköst að peysu).
Ég hef alltaf unnið "brotnum höndum" eins og dóttir mín orðaði það þegar hún var yngri, alla mína hunds og kattar tíð, frá því ég steig mín fyrstu skref 9 ára við að passa börn og verið lengst af í fjármálageiranum eða sl. 30 ár, algerlega á rangri hillu, en náði ekki að átta mig á því, þar sem ég var svo upptekin við það aðreyna að muna hvaða fyrirtæki ég væri að vinna hjá hverju sinni, en ég hef verið seld 5 sinnum (ekki ég ein og sér, heldur fjármálafyrirtækin sem ég vann hjá) sameinuð einu sinni, keypt einu sinni og þá rekin 1 sinni í hruninu.
Ég er farin að skilja fyrr en skellur í tönnum, já það er verið að reyna að segja mér eitthvað! Ég ætla að skipta um starfsvettvang, en til þess þarf ég að fara í skóla.
Ég hef ekki verið í skóla í langan tíma, séu undanskilin námskeið í leiðindum, ég meina fjármálum. Á ég að koma með nesti? Er teygjutvist ennþá vinsælt í frímínútum? Tek ég epli með handa kennaranum svo ég verði leiðinlegi vinsæli karlinn á fremsta bekk, dílótt í framan af æsingi við að gera vel? Þarf ég stóra skólatösku, eða dugar þessi frá því í 6 ára bekk með myndinni framan á???? Maður spyr sig?
Alla vega eigið dásamlegan dag, ég er farin að leita af pennastokknum mínum og ydda blýantana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
15.9.2011 | 18:08
Fóbíur!!!!

Ég er með fóbíur já ekki bara eina heldur fleiri, ég er hrædd við köngulær og það er dóttir mín líka (tilviljun?) Ég er líka lofthrædd, ég hræðist að tala fyrir framan fullt af fólki ofl.
Ég veit ekki af hverju ég hræðist köngulær en ég kom eitt sinn heim frá Spáni með þessa líka vænu köngulóna sem kom upp úr ferðatöskunni og kom sér fyrir á stofuveggnum hjá mér og var á stærð við hnefa og ég var þess viss að nú væru dagar mínir taldir og þar sem ég beið yfirvofandi árás stjörf af hræslu, hvít í framan eins og magnyltafla, veljandi líkklæðin í huganum hringdi ég í 112, sem bentu mér á að hringja í Tilraunastofuna á Keldum og tala við köngulóarsérfræðing þar, sem og ég gerði og með titrandi hvíslandi röddu svo ég mundi ekki æsa kvikindið til aðgerða, sagði ég manninum við hvað ég ætti að etja. Hann sagði að hugsanlega væri hún skaðlaus, (hugsanlega ekki!). Best væri að ryksuga hana upp og láta ryksuguna ganga í einhvern tíma og þá ætti hún að vera dauð. Ég gekk í áttina að veggnum vopnuð ryksugu í annarri hendi, síminn var í hinni, vildi hafa vitni þegar ráðist yrði á mig, hægt en örugglega beindi ég ryksugurörinu að kvikindinu sem sogaðist inn með látum og síðan hélt ég út á plan með ryksuguna (og já manninn í símanum) og fann þar mann sem átti leið um hverfið og bað ég hann að henda fyrir mig ryksugunni í ruslið, sem hann samþykkti en spurði mig hvort ég mundi vera til í að slökkva á henni á meðan já einmitt en ekki alveg strax sagði ég en afréð að segja honum ekki að í raun og veru væri þetta líkkista undir könguló. Þakkaði honum pent og tók úr sambandi og enn beið nýji vinurinn minn í símanum, rétt svona meðan ég henti öllum ferðatöskunum útá svalir, þar sem þær biðu vinkonu minnar sem er ekki hrædd við þær, eiginlega bara hrifin af þeim köngulóm.
Leysti ég nú manninn undan ábyrgð í símanum, en þó ekki fyrr en ég hafði sagt honum frá því að ég þekkti nú til þessara spænsku kvikinda, hefði áður lent í þeim, en var þá stödd á Majorka og á stuttbuxum eiginmannsins sem lágu á rúminu var sú stærsta padda sem ég hef séð og spurði hann við mig hvort ég væri ekki orðin of gömul að hræða hann með svona áberandi gervilegri plastpöddu, og í þeim orðum ætlaði hann að grípa hana en hún stökk á hann og ég hljóp inná bað og læsti að mér. Hann barði á hurðina og bað mig að opna. Nei aldrei fyrr en þú ert búin að koma þessu út sagði ég, fegin að hafa náð að verða á undan honum í skjól. Í því heyrði ég hvílík læti og sá vesalings manninn fyrir mér liggjandi á gólfinu í slag við þetta dýr, en hann hafði þá bara brotið kúst og nokkra stóla i tilraun til að drepa gaurinn, sem komst undan og út á svalir og eftir það voru þær læstar.
Ég eyði drjúgum tíma á sumrin í að köngulóarhreinsa svalirnar og er komin með gott ráð þar sem ég nota gaskveikjara og brenni eggin þegar þær eru búnar að fylla alla stóla og öll borð með þessu og svo svíð ég þær að lokum. Já kallið mig morðingja, en á ég þessar svalir eða þær? Einnig er ég lofthrædd og geng alltaf þétt upp við hús með svölum ef þær eru hærri en meter frá jörðunni, stirðna og sundlar og ef ég lendi í aðstæðum hátt uppi, þá bara bið ég til guðs, allah og fleiri kappa og lofa að ganga í klaustur ef ég kemst heil niður, hef ekki staðið við það ennþá. Ég skil hins vega ekki annarra fóbíur, á t.d. eina vinkonu sem er sjúklega hrædd við gluggaumslög. Ég meina þeim er hægt að henda í ruslið, án þess að eiga það á hættu að þau komi aftur skríðandi uppúr og þó?
Hvað heitir það aftur jú ÍTREKUN!!!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)