17.9.2011 | 01:30
Fyrstu kynnin gleymast ei!
Ég var frekar rólegt feimið ungmenni, var bara í Versló, skemmti mér hæfilega, kynntist mannsefninu mínu sem við skulum kalla X þegar ég var á tvítugsaldrinum, eða barnung leyfi ég mér að segja.
Ég var sem sagt nýbúin að kynnast Xinu þegar hann bað mig að koma með sér til vinar síns og konu, sem bjuggu í foreldrahúsum vinarins. Þau voru með húsið á sölu og Xið ætlaði að hjálpa þeim enda smiður. Ekki málið sagði ég, en ég bíð í bílnum (feimin og svona). Ég beið og beið, að mér fannst heila eilífð, en þar sem sambandið var á byrjunarstigi sýndi ég ótrúlegt rólyndi, enda jafnaðargeðsmanneskja. (muna: venja hann af svona dónaskap síðar)
Svo fór þó að hann kallaði út og sagði mér að koma inn og slökkva á bílnum, en við vorum á mini couper bil mömmu hans. Slökkva á bílnum! Já væntanlega hefur hann meint taka lyklana úr og svona, sem ég gerði, en þá tók bíllinn undir sig stökk, og hentist yfir grindverkið sem var á milli mín og garðsins. Ég náði lyklinum út og kom labbandi með allan þann virðuleika sem ég gat miðað við aðstæður, með kúlu á enni, róleg og bein í baki (vel upp alin). Ég rétti Xinu lyklana og sagði svona útundan mér: " hann rann smá"
Pabbinn kom skömmu síðar sótrauður í framan og spurði Xið hvað bíllinn væri að gera útí blómabeðinu sínu og girðingin öll í henglum? Xið leit á mig og sagði: "hvað meinarðu með að bíllinn hafi runnið? Það er júlí!! ekki startaðir þú honum í gír?"
Ég þetta ljúfa sakleysislega man svaraði honum, ja ég veit ekki alveg hvort ég startaði honum, en ég náði ekki lyklinum svo ég sneri honum kannski smá, ég var svoldið titrandi í röddinni og við það að fara að gráta, en bílnum var bakkað úr blómabeðinu og Xið kippti girðingunni í lag, ég róaðist smátt og smátt og hélt áfram að vera settleg og pen og eins frambærileg og ég gat.
Foreldrarnir voru að fara í leikhús og okkur var boðið í mat og bjór og var ég nú ekki vön bjórdrykkju og örlítið trekkt eftir magnaða innkomu mína í líf þeirra, svo ég drakk ansi mikið og varð ég nú svona líka illa lasin, að ég kastaði upp á baðherberginu, í vaskinn, baðkarið og já á hurðina, sofnaði svo á gólfinu, enda þreytt eftir allt álagið og pressuna sem hafði verið á mér.
Þegar foreldrarnir komu heim var farið að leita að mér og þurfti að brjóta upp hurðina, þar sem ég svaf eins og engill, en mér var komið fyrir í rúmi foreldranna og farið með mig heim um nóttina.
Ég gat ekki beðið með að hitta þau aftur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.9.2011 | 15:36
Um sjálfa mig.
Þegar maður tekur ákvörðun að blogga og hleypa þar með fólki í líf sitt, finnst mér ég þurfa að skilgreina manneskjuna á bak við skrifin. Þar sem ég segist vera af óræðum uppruna, má ekki svo skilja að ég viti ekki hvaðan ég er, nei alls ekki. Ég á föður sem er hávaxinn, bláeygður og ljós yfirlitum og móður sem er alger andstæða þ.e. svarthærð, brúneygð með brúna húð, og er hún rétt rúmlega málbandið á hæð eða rétt um 150+cm ef vel er teygt úr henni.
Mamma mín er ættuð að austan og þar eru náttúrulega frönsku genin komin og er öll hennar ætt lágvaxin og svarthærð með brún augu og jú jú þennan líka svakalega fallega ljósbrúna húðlit.
Ég aftur á móti fékk dass af albínisma í mig, en það þýðir að ég er með gölluð litagen, ég er ljósrauð á litinn og albinóinn lýsir sér þannig að ég þarf að skilgreina hálsinn frá hárröndinni með því að teikna alla aukahlutina á mig sem virðast að öðrum kosti vanta í andlitið. Ég er samlit í framan og liturinn rennur útí eitt, þar til ég hef teiknað eftirfarandi: 2 stk. augabrúnir (verða oft mislangar og misbreiðar þar sem enginn litur er til að fara eftir) Augnahárin, hvít fyrir möskurun ef það orð má nota. Teikna svo varirnar og þá er ég komin. Flestir koma bara með þessa aukahluti með sér og þurfa aldrei að skilgreina svæðið milli hálss og hárs.
Ég á stóran hóp systkina og erum við eins og mislitur sauðahópur, enginn hefur sama háralit, og enginn hefur sama augnlit, og öll hafa þau fallegan húðlit. Ekki ég, ég verð rauð í sól, svo verð ég ennþá rauðari og svo verð ég aftur fölbleik og enda stundum beislitiðuð í besta falli og þá svæðisskipt (sjá mynd sem gæti vel verið ég eftir sólbað)
Ég er fljótfær, seinþroska, hvatvís, brussa sem framkvæmi áður en ég hugsa. Ég á stóran frábæran vinahóp, á öllum aldri, enda þó ég sé á jafnaðaraldri eins og ég kýs að kalla það, (þ.e. á jafnmikið eftir og ég hef lifað fram að þessu) þá er ekki laust við að ég telji mig fyrirbura í þroska og finnst oft að ég hafi fæðst svona 27 árum fyrir tímann. Flestir vina minna koma úr bankageiranum og eru einstaklega skemmtilegt fólk, sem þolir mér seinþroskann og fljótfærnina.
Ég á svo tvö börn og nokkur lánsbörn sem ég skilgreini kannski síðar. Ég er sem sagt hálfgerður hobbiti eða 164 og hálfur cm með dass af albinóa í mér og þar hafið þið það. Góða helgi!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.9.2011 | 11:53
Af hverju að blogga?
Ég hef verið spurð að því, af hverju fólk sé að blogga, ég get ekki svarað því, en ég ætla að blogga af því einfaldlega að mér leiðist!!! Já hef verið atvinnulaus í 1 ár og það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að prjóna margar lopapeysur (lesist 6 vettlingastroff og 2 uppköst að peysu).
Ég hef alltaf unnið "brotnum höndum" eins og dóttir mín orðaði það þegar hún var yngri, alla mína hunds og kattar tíð, frá því ég steig mín fyrstu skref 9 ára við að passa börn og verið lengst af í fjármálageiranum eða sl. 30 ár, algerlega á rangri hillu, en náði ekki að átta mig á því, þar sem ég var svo upptekin við það aðreyna að muna hvaða fyrirtæki ég væri að vinna hjá hverju sinni, en ég hef verið seld 5 sinnum (ekki ég ein og sér, heldur fjármálafyrirtækin sem ég vann hjá) sameinuð einu sinni, keypt einu sinni og þá rekin 1 sinni í hruninu.
Ég er farin að skilja fyrr en skellur í tönnum, já það er verið að reyna að segja mér eitthvað! Ég ætla að skipta um starfsvettvang, en til þess þarf ég að fara í skóla.
Ég hef ekki verið í skóla í langan tíma, séu undanskilin námskeið í leiðindum, ég meina fjármálum. Á ég að koma með nesti? Er teygjutvist ennþá vinsælt í frímínútum? Tek ég epli með handa kennaranum svo ég verði leiðinlegi vinsæli karlinn á fremsta bekk, dílótt í framan af æsingi við að gera vel? Þarf ég stóra skólatösku, eða dugar þessi frá því í 6 ára bekk með myndinni framan á???? Maður spyr sig?
Alla vega eigið dásamlegan dag, ég er farin að leita af pennastokknum mínum og ydda blýantana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
15.9.2011 | 18:08
Fóbíur!!!!
Ég er með fóbíur já ekki bara eina heldur fleiri, ég er hrædd við köngulær og það er dóttir mín líka (tilviljun?) Ég er líka lofthrædd, ég hræðist að tala fyrir framan fullt af fólki ofl.
Ég veit ekki af hverju ég hræðist köngulær en ég kom eitt sinn heim frá Spáni með þessa líka vænu köngulóna sem kom upp úr ferðatöskunni og kom sér fyrir á stofuveggnum hjá mér og var á stærð við hnefa og ég var þess viss að nú væru dagar mínir taldir og þar sem ég beið yfirvofandi árás stjörf af hræslu, hvít í framan eins og magnyltafla, veljandi líkklæðin í huganum hringdi ég í 112, sem bentu mér á að hringja í Tilraunastofuna á Keldum og tala við köngulóarsérfræðing þar, sem og ég gerði og með titrandi hvíslandi röddu svo ég mundi ekki æsa kvikindið til aðgerða, sagði ég manninum við hvað ég ætti að etja. Hann sagði að hugsanlega væri hún skaðlaus, (hugsanlega ekki!). Best væri að ryksuga hana upp og láta ryksuguna ganga í einhvern tíma og þá ætti hún að vera dauð. Ég gekk í áttina að veggnum vopnuð ryksugu í annarri hendi, síminn var í hinni, vildi hafa vitni þegar ráðist yrði á mig, hægt en örugglega beindi ég ryksugurörinu að kvikindinu sem sogaðist inn með látum og síðan hélt ég út á plan með ryksuguna (og já manninn í símanum) og fann þar mann sem átti leið um hverfið og bað ég hann að henda fyrir mig ryksugunni í ruslið, sem hann samþykkti en spurði mig hvort ég mundi vera til í að slökkva á henni á meðan já einmitt en ekki alveg strax sagði ég en afréð að segja honum ekki að í raun og veru væri þetta líkkista undir könguló. Þakkaði honum pent og tók úr sambandi og enn beið nýji vinurinn minn í símanum, rétt svona meðan ég henti öllum ferðatöskunum útá svalir, þar sem þær biðu vinkonu minnar sem er ekki hrædd við þær, eiginlega bara hrifin af þeim köngulóm.
Leysti ég nú manninn undan ábyrgð í símanum, en þó ekki fyrr en ég hafði sagt honum frá því að ég þekkti nú til þessara spænsku kvikinda, hefði áður lent í þeim, en var þá stödd á Majorka og á stuttbuxum eiginmannsins sem lágu á rúminu var sú stærsta padda sem ég hef séð og spurði hann við mig hvort ég væri ekki orðin of gömul að hræða hann með svona áberandi gervilegri plastpöddu, og í þeim orðum ætlaði hann að grípa hana en hún stökk á hann og ég hljóp inná bað og læsti að mér. Hann barði á hurðina og bað mig að opna. Nei aldrei fyrr en þú ert búin að koma þessu út sagði ég, fegin að hafa náð að verða á undan honum í skjól. Í því heyrði ég hvílík læti og sá vesalings manninn fyrir mér liggjandi á gólfinu í slag við þetta dýr, en hann hafði þá bara brotið kúst og nokkra stóla i tilraun til að drepa gaurinn, sem komst undan og út á svalir og eftir það voru þær læstar.
Ég eyði drjúgum tíma á sumrin í að köngulóarhreinsa svalirnar og er komin með gott ráð þar sem ég nota gaskveikjara og brenni eggin þegar þær eru búnar að fylla alla stóla og öll borð með þessu og svo svíð ég þær að lokum. Já kallið mig morðingja, en á ég þessar svalir eða þær? Einnig er ég lofthrædd og geng alltaf þétt upp við hús með svölum ef þær eru hærri en meter frá jörðunni, stirðna og sundlar og ef ég lendi í aðstæðum hátt uppi, þá bara bið ég til guðs, allah og fleiri kappa og lofa að ganga í klaustur ef ég kemst heil niður, hef ekki staðið við það ennþá. Ég skil hins vega ekki annarra fóbíur, á t.d. eina vinkonu sem er sjúklega hrædd við gluggaumslög. Ég meina þeim er hægt að henda í ruslið, án þess að eiga það á hættu að þau komi aftur skríðandi uppúr og þó?
Hvað heitir það aftur jú ÍTREKUN!!!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)