Hin ýmsu "horunarkitt"

Er það nú ekki þannig þó svo að við konurnar viljum ekki viðurkenna það, að við viljum vera grannar og flottar. Ég hef nú útlistað það hérna áður að ég á ættir mínar í móðurætt að rekja til Fáskrúðsfjarðar og sú ætt er dökk, franskútlítandi og er smáfólk upp til hópa. Svona rétt rúmlega málbandið á hæð flestir.

thin_thighs-192x300.jpg

Svo er það að það reynist erfitt að virka hávaxinn og grannur ef maður hefur segjum bætt á sig nokkrum grömmum, eftir jól og páska og svona oftar en ekki. 

Ég var að fara á árshátíð með vinnunni minni og ætlaði nú að tjalda mínu flottasta, vera í háum hælum, "Shock Up" og aðhaldssundbol. (jesús hvað ég yrði grönn) verst að ég er nú ekki svo há til hnésins, en með 12 cm hælum yrði ég hávaxin eða 176,5cm (það er hátt)

Við vinkonurnar ákváðum að hittast áður en haldið var út úr bænum, þar sem árshátíðin var haldin í Borgarnesi á hótelinu þar.  Við skelltum okkur í snyrtingu og límdum gervineglur á mig,  lökkuðum okkur og gerðum okkur fínar. Fórum svo í greiðslu í Borgarnesi og máluðum okkur inná herbergjum saman í hóp með rauðvín í glösum. 

En nú vandaðist málið örlítið, en það er erfitt að koma "Sjokkuppi" upp lærin á sér með "eigins" neglur, en gervineglur eru allt annar handleggur. Ok ég hringi í móttökuna og panta gúmmíhanska með rifflum. Stúlkan sagðist nú ekki hafa það í boði, en lofaði að reyna hvað hún gæti.

Á meðan skellti ég mér í hitt "horunarkittið" sem var ennþá meir viðbjóður að troða sér í, hvaða fáviti (lesist: greinilega ekki kona) hefur hannað þetta drasl, ég meina það voru smellur og þurfti gott betur en eina armlengd til að ná til þeirra við lokun á meintum sundbol/(horunarkitti) og bíddu átti ekki að vera aðhald yfir rassinn, ekki bara lína eins og strengur yfir tunglyfirborð? Ekki var heldur gert ráð fyrir brjóstum á þessu drasli, svo ég var orðin skorin á öxlunum við að reyna að koma þessu saman.

Skrifaði kvörtunarbréf í huganum til framleiðandans, fólksins í fyrirtækinu og til landsins sem þessi ósköp voru hönnuð (Berlusconi skyldi nú fá eitt vænt hótunarbréf líka). Ætli ég hafi keypt þetta of lítið kannski? Nei hún sagði að þetta mundi minnka mig um 2 númer. Mig vantaði að minnka mig alla um 2 númer ekki bara eina rönd og mittið.

Nú bankaði einhver og ég stökk fram eldrauð af áreynslu og í slopp (en frekar grönn á svipinn) tók við gúmmíhönskunum eins og það væri eðlilegasti hlutur að panta gúmmíhanska á hóteli (held að stúlkan hafi kannast við sjokköppdæmið). Nú ég rúllaði þessu faglega upp með gúmmíhönskunum upp á mið læri, en þurfti þá að draga andann og þá rúlluðu þær niður í einum rykk niður að hnjám.

Ég tók svo tilhlaup með hjálp vinkvenna minna og upp fóru sokkabuxurnar, en guð ég var að fara í mat og drykk....ætli það sé hjúkka hérna hugsaði ég stíft og reyndi að muna hvað makar vinnufélaganna gerðu, til að setja upp þvaglegg hjá mér, ég meina ég er ekki að fara að stunda neinar klósettferðir í þessu. (of seint að spreyja bara brúnkukremi á fæturna) Vinkonurnar hristu hausinn og sögðu þú ferð ekki í þessu. Jú jú sagði ég, þið sjáið bara um þetta, þetta hlýtur að liðkast með tímanum ekki satt?

Ég fer svo niður og vinkona mín sá um alla mína drykki, svo ég (þá meina ég hún) þyrfti ekki að fara að rúlla þessu sjokköppsdæmi upp aftur. En hún lenti nú í því nokkrum sinnum að koma með mér upp á herbergið, þar sem betri aðstaða er að rúlla upp svona atriði liggjandi í rúmi. (held að við höfum báðar grennst þetta kvöld við allt þetta flandur)

laeri_malband.jpg

Svo þegar ballið var búið og við sátum og spjölluðum spurði vinkona mín mig. Hvernig er þetta drasl naglalakk á þér? mitt er allt krullað. Ég horfði stolt á mínar gervineglur og sagði: "veistu mitt er bara fullkomlega fínt, enda ekki ég búin að berjast við sokkabuxur í allt kvöld". Ég  komst svo að því þegar ég háttaði og stækkaði um alla vega 4 númer þegar ég spratt út úr horunarkittinu, að það var öfugt, og alveg fullt af plássi fyrir rass og brjóst og svona. Næst muna að nota gleraugu við klæðun!


CSI Crime scene/hamfletting

Ég hef reynt að búa mér til mína eigin hefð, eftir að ég varð einhleyp og ákvað að taka í hefðina frá minni æsku rjúpurnar. Hafa rjúpur á aðfangadag og einhvern daginn mundu svo börnin mín minnast á rjúpurnar hennar mömmu og sósuna sem var alltaf best hjá henni (fæ gjarnan svona ofurtrú á mér, þegar ég byrja á einhverju nýju).

rjupa.jpg

Ég fékk rjúpur frá mági mínum og varð nú ekkert smá glöð og þurfti bara að "hátta" þær eins og mamma sagði alltaf, eða "hamfletta" EINMITT JÁ BARA!! Ekkert mál sögðu allir, klippir bara hausinn af og flettir hamnum af.

Ég hugsaði nú með mér að þetta yrði nú ekki mikið mál fyrir mig sem allt getur (þar til annað kemur í ljós). Ég klippti hausinn af, en úps! Það hrundi hálfur Hallormstaðarskógur yfir mig og út um allt (rjúpur að austan) já alveg rétt fóarnið er alltaf fullt af stuffi. Svo klippti ég vængina snyrtilega af og hóf að "klæða" kvikindið úr, en það var einhver fyrirstaða og ég hafði nú ekki fengið neinar upplýsingar um það, þrátt fyrir nána útlistun á hvernig maður bæri sig að, svo ég klippti þetta nú bara. Fiðrið fór út um allt og ekki gat ég tekið það úr hárinu á mér og af augnhárum, þar sem gúmmíhanskarnir voru allir í blóði. En þetta hafðist 1 rjúpa frá og 7 eftir.

Tók næstu rjúpu og var við öllu tilbúin þegar fóarnið klipptist í sundur, engar barrnálar hérna út um allt takk fyrir. 

Var nú komin með talsverða þekkingu á rjúpnaskrokknum. (ætti ég kannski að læra til fuglafræðings?)  Fór út með ruslið og leit í kringum mig. Eldhúsið leit út eins og crimescene úr CSI, allt í blóði, fiðri og barrnálum út um allt. En það versta var afstaðið og íbúðin hálf ónýt, ég var með 8 fínar rjúpur og gleði mín í hámarki, er ég uppgötvaði að það voru engin læri. Voru engar lappir á þessum rjúpum? Ég minntist þess að hafa fengið að borða lærin hjá mömmu þegar hún var að elda sínar rjúpur. 

crime_scene.gif

Í dauðans ofboði hringdi ég í heimildarmann minn sem hafði sagt mér hvernig ég átti að bera mig að og sagði að það vantaði lærin. Ég lísti þessu í smáatriðum hvernig ég hefði "skrallað" þær og þegar ég kom að fyrirstöðunni sagði hún fyrirstaða? "bíddu það eru lappirnar" já takk einmitt það já, ekkert að láta mann vita af því. (hætt við fuglafræðinámið!hentar mér greinilega ekki)

Ætli þeir selji rjúpulæri í Nóatúni? rjupa_tilbuin.jpg


Húsmóðursgenin hvar eru þau?

Ég vildi svo gjarnan að ég væri þessi alltumvefjandi húsmóðir, sem hefði notað tímann í atvinnuleysi mínu núna til sultugerðar, elda eftir uppskriftum, lært að gera sushi, bollakökuskraut og bútasaum Ég er ekki sú húsmóðir, kann þó alveg að elda, en mér hættir til við að ofnota það sem ég læri, ef mér tekst t.d. vel upp með einhvern rétt eftir uppskrift.

Þannig var það með Sesar salatið mitt, sem ég hafði í 2 ár annan hvern dag, nú og bananabrauðið sem ég fékk frá vinnufélaga mínum og ég baka öllum stundum og er búin að gera það að "fræga bananabrauðinu mínu" sem er svo alls ekki mitt heldur stolið af yndislegum sárasaklausum vinnufélga. Skil þó ekki hvað ég á mörg hálf brauð í frystinum, ætli heimilisfólkið sé búið að fá uppí kok af því?  Er alveg að fara að finna nýja uppskrift.

sesarsalat.jpg

Ég fæ heldur aldrei að gera neitt spennandi þegar við systurnar bökum Sörur. Ég er alltaf send í búðina að kaupa einn og einn hlut. Alltaf þegar ég er komin í stellingar að gera nú eitthvað flott og vera svona alvöru með í bakstrinum, þá vantar eitthvað annað úr búðinni. Já "æmontúðem" búin að átta mig að ég er ekkert nauðsynleg við þetta mikilvæga.  Ég er kannski smá hroðvirk, (get viðurkennt það) ég fæ þó stundum að setja súkkulaði á ljótustu kökurnar og fæ líka að eiga þær.  Rjóð af stolti býð ég mínar eigin Sörur (kökur með karakter eins og sagt er þegar eitthvað er ljótt) og segi já hristi þetta bara fram úr erminni svona með jólakortagerðinni.

Já jólakortagerðin hófst við atvinnuleysi númer 1 í hruninu, þegar ég missti vinnuna í Október 2008 og þá skildi nú sparað í svona allskonar... ég fór í Föndru og viðaði að mér allskonar efnum, glimmeri og stuffi sem þarf í kortagerð. 

lina_rut.jpg

Ég settist niður titrandi af eftirvæntingu (kannski var þetta minn nýji vettvangur, fæ pantanir frá fólki sem hefur fengið kort frá mér og ég byrja bara í janúar að gera fyrir fólk kort, þarf aldrei að vinna aftur úti hugsaði ég með mér) og gerði nokkrar "pródótýpur"stældi Línu Rut og allt, ætlaði að gera svona jólasokka á snúru, en þetta leit út eins og tyggjóklessur með glimmeri á bandi.... fékk nokkrar afboðanir með kort eftir jólin, voðalega kurteisislegt...vertu ekkert að senda mér kort elskan, á svo mörg og svona, sé að þú hefur lagt rosalega vinnu í þetta ble ble ble. Ég nota þetta núna sem hótun: "sendi þér heimagert kort ef þú ert svona leiðinleg".

Ég skil nú fyrr en skellur í tönnum, svo ég hugsaði mér, ok ég er ekki með listaverkagenið í mér og fer aldrei í spor Línu Rutar, svo ég ákvað að skella mér á skrautskriftarnámskeið og nú mundi fólki vökna um augun yfir fegurð jólakortanna minna. En eftir 3 kvöld og 2 rauðvínsflöskur var afraksturinn 4 kort (einstaklega fallega skrifuð) og krampi í puttum  og sár á vör, vegna einbeitingar.

Ég setti í þau kort "ATH! kort þetta gildir til ársins 2011". Já þarf að fara að huga að kortagerð þetta árið, allir hinir fengu eðlilega skrifuð kort, en mér finnst ég skuldbundin þessum 4 heppnu kortaþegum  að gera betri kort í hvert sinn... Ætli það sé erfitt að hekla kort eða bútasauma? ljott_kort.jpg


Kílóatap á útsölu?

Ég viðurkenni að eftir að ég átti mitt síðasta barn, hefur verið talsvert erfitt að ná af sér aukakílóunum 22 sem skullu á mér. Finnst þó aðeins verið farið að ganga á þau núna bara síðustu vikuna, enda á danska kúrnum.

Hef prófað þá marga. Fjölþjóðakúrinn minn fannst mér bestur en hann hélt fæðingarkílóunum alveg pikkföstum. Hann samanstóð af Ota hafragraut á morgnana = danskur, Kebap í hádeginu = tyrkneskur, kók með =amerískur,  kvöldið samanstóð svo kannski af steiktum fiski  og rauðum kartöflum = íslenskur.

Mér hættir til að kaupa allan fjandann með það fyrir augum að tapa kílóum, hver hefur svo sem ekki farið á sítrónukúrinn, þar til glerungurinn var við það að falla í frjálsu falli af tönnum. Ég prufaði Skarsdale. Ég svaf nokkrar nætur í svörtum plastpoka til að tapa vatni...(ekki gott þegar síminn hringdi um miðja nótt og ég gleymdi að ég væri í ruslapoka) Herbalife, plástrar! já einmitt þeir taka þetta yfir nóttina segja þeir sem selja, eina sem ég varð vör við að ég grenntist um 0,002 míkrógrömm, eða sem svarar þyngd plástursins þegar ég reif hann af.

Ég sá auglýst í heilsuræktinni minni. SOGÆÐANUDD sem mundi losa mann strax við 1.5 kg. ég hentist að borðinu æst og rjóð í kinnum svo ég mundi nú ekki missa af þessu og pantaði strax 3 kg. þ.e. 2 nuddtíma. 

Nú mér var sagt að fara úr öllu (ég fékk það svo staðfest hjá vinkonu minni síðar sem hafði farið að svo átti að gera) Öllu spurði ég aum, en ég er ekkert sérlega spennt að vera ber hjá einhverjum nuddgæja. Já öllu sagði stúlkan í afgreiðslunni, en farðu í þenna slopp og þessa "flippflopsa" eða hvað þeir nú heita skórnir sem eru eins og bréf.

Hálf berskjölduð kom ég að nuddstofunni, og nuddarinn var pólskur (ekki fordómar, er svo sem sama hvort nuddarar séu færeyskir, Búrmískir bara ef ég skil þá og þeir mig.)

Lei dán on jor stommek" sagði hann og ég lagðist varlega með 2 handklæði yfir mér eitt yfir baki og annað yfir neðrihlutanum. Ég var nú ánægð með það. Svo byrjaði hann að nudda og nuddaði með þvílíku offorsi að ég fékk samstundis legusár eða núningssár á hnén og svo þeyttist handklæðið af bakinu og lenti á gólfinu.

Ég hélt hinu með annarri hendinni og hina þurfi ég að nota til að fleygjast ekki útaf bekknum. Ég er nú langt því frá að vera eitthvað fis, en önnur höndin dugði ekki svo ég þurti að sleppa handklæðinu á neðri helmingnum og þá segir vinurinn: "where is the other towell?" (hélt hann að ég hefði stungið því í vasann sem ég var ekki með) I don´t know mjálmaði ég ámátlega, en þó feginn að hann sleppti löppinni sem snöggvast. "Where did you put the towel?" Maybeonðeflor sagði ég lágt og leið eins og ég hefði verið að fremja glæp.

Hann var nú frekar móðgaður og sótti handklæðið og henti því á bakið á mér og ég notaði báðar hendurnar til að halda meintum handklæðum á baki og rassi. Nú fékk ég þó bara sár á olnbogana eða nuddsár, þar sem ég var alveg stíf af kvölum.

Aumari en allt sem ég hef áður upplifað, skjögraði ég niður af bekknum, eftir nuddið og hugsaði (AFPANTA NÆSTU KG/NUDD) öll í sárum og rauð á lærum og fótum, sem átti eftir að breytast í svart mar. Vindur ekki vinurinn sér að mér og sagði í  pirruðum tón. Next tim not so naket please!!!!Wott var ég að brjóta af mér?? Var ég í falinni myndavél? . Ég vældi áfram ámátlega að stelpurnar hefðu sagt mér að fara úr öllu. Kannski ég fari í nærbuxum næst svo ég geti nú stolið handklæðunum báðum. Eða verður næst? Held ekki! Ég held ég sé alveg að ná mér að nuddmeiðslunum hálfu ári síðar, en fæðingarkílóin eru nú enn á sínum stað enda dóttirin bara 27 ára, kannski ég fái mér bara plástur aftur.

 

 


Kókhaldari veit fólk hvað það er???

Ég er meðvirk, hef svo oft rekist á það, hef alveg reynt að fara og "afmeðvirkjast" en svo koma svona atvik sem ég bregst við eins og ég ætti ekki að gera ef ég hefði alveg stjórn á meðvirkninni, sem mér finnst reyndar reglulega leiðinlegt orð.

Ég var með saumaklúbb, þegar berlega kom í ljós hversu meðvirk ég var, en ég fékk símtal um tíuleytið og svaraði eins og ekkert hefði í skorist: "já gott mál elskan þú kemur þá bara heim, þegar búið er að skera þig úr bíóinu" svo settist ég bara og ætlaði að fara að spjalla. Stelpurnar vildu nú fá að vita hverju þetta svar mitt sætti. Ég sagði þá bara að "skaðræðið" sonur minn væri fastur í sætishöldu í bíói og verið væri að bíða eftir slökkviliðinu með klippur til að ná honum úr sætinu.

kiddi_glaepur.jpg

Þær horfðu á mig eins og ég væri viðundur og sögðu að þeirra börnum seinkaði, af því þau misstu af strætó, þá sló það mig já ég er meðvirk eiginlega kannski mjög svo. Mér fannst þetta nefnilega svo eðlilegt.

Skaðræðinu sagðist svo frá: Hann hafði prufað að setja höndina í kókhaldarann í Regnboganum, eftir áskorun frá vini sínum, en hann náði ekki að losa sig aftur. Starfsfólkið var allt komið til hjálpar og ein stúlkan sagði að þetta hefði gerst einu sinni áður, en hún mundi ekki hvað var notað til að losa hann, en þá segir "Skaðræðið" þá var notuð poppkornsolía. Já varst það þú líka þá? spurði stúlkan. Jebb var svarið, en þá fékk ég ekki að eiga "kókhölduna" heldurðu að ég megi það núna?

Nú var komið langt fram yfir áætlaðan bíótíma og bíógestir beðnir að sýna biðlund, þar sem barn væri fast í sætinu, og beðið væri eftir slökkviliðinu með klippur til að klippa sætið og fara með strákinn fastann með sæti á hendinni út, svo hægt væri að hleypa gestunum inn í salinn.

Það þurfti síðan að saga "kókhölduna" af sætinu og skera alveg að hendinni, sem slapp furðu vel, enda "kókhaldan" mjög þykkt plast. 

Það var tekin mynd af "Skaðræðinu" hún hengd upp í miðasölunni (hugsanlega víti til varnar) og hann fékk að eiga kókhölduna sem er algert "prýði" hérna á heimilinu.


Feneyjar/drottning Adríahafsins/eða sökkvandi borgin?

Feneyjar eyjaklasinn norðanlega á austurströnd Ítalíu, eru ofmetnar að mínu mati, eða alla vega þegar ég var stödd þar í júlí í 40 stiga hita, þá fannst mér nú ekkert rosalega sjarmerandi við þennan stað. Feneyjar eru reistar á mörgum hólmum og er helsti ferðamáti fólksins á bátum enda síki í stað gatna víðast hvar.

gondola.jpg Gondólarnir eru  vinsæll ferðamáti fyrir túrista og þá ekki síður fyrir brúðhjón, en þeir eru rándýrir og kostar um 100 evrur að fara í hálftíma ferð með ræðara. 

Ekki finnst mér nú neitt svo rómantískt við þessa báta eftir að leiðsögumaðurinn okkar sagði frá því að ein margra sögusagna um gondólana væri sú að þeir hefðu verið notaðir sem nokkurskonar líkkistur um árið 1600 þegar plágan geisaði og það væri ástæðan fyrir svarta litnum og lögun bátanna, sem eru breiðari í annan endann, til að hægt væri að stafla líkum um borð.  Það var svo árið 1633 að bannað var mála þá í litum og þar sem tjaran var vatnsheld, þá voru þeir bara tjargaðir svartir og héldust þannig fram á daginn í dag. Ég sá alla vega ekki neina aðra liti á gondólunum, þegar ég sigldi um sýkin.

 

 En sagan segir líka að Gondólar hefðu verið faratæki efnameiri fólksins í Feneyjum, sem klæddu sig upp fyrir ferðirnar til að sýna sig og sjá aðra og er mismikið lagt í innviði gondólanna, sumir flauelskæddir og gullskreyttir, meðan aðrir eru hráir að innan.

Nú Feneyjar eru náttúrulega ekki alveg ómögulegar, þó ég sé ekki eins heilluð af þeim og flestir virðast vera, en mér fannst ég bara vera að sigla á skítugum polli, og ræðarinn sem söng af innlifun, var nú svo sem krúttlegur og virtist ekki finna neina lykt, en sum síkin voru verri en önnur og stundum fannst mér ég vera að kafna þarna í þessum skítapolli í 40 stiga hitanum.

Markúsartorgið er þungamiðja eyjarinnar og er gaman að sitja þar og horfa á túristana í dúfnahópnum sískemmtilega og ekki verra ef maður er efnaður og getur leyft sér að borga 2000 ísl. krónur fyrir kaffibollann (reyndar árið 2008, þegar krónan var sem veikust).

san_marco_1.jpg

Mjög algengt er að sjá brúðhjón og hóp af veislugestum þarna á torginu á leið í gondólaflakk. 

Markúsarkirkjan er náttúrulega einhver sú fallegasta og frægasta kirkja heimsbyggðarinnar, enda hvelfingin úr gulli og er talið að um 600 ár hafi tekið að gera hana, en menn verða að þola vopnaleit og afhenda myndavélar, eins eru þeir með "dresskód" þú mátt ekki vera með berar axlir og karlmenn ekki vera í stuttbuxum. 

 

 

 

kvold_i_feneyjum.jpg

Feneyjar og Mestre eru tengdar saman með brú en í Mestre  eru mikið af  hótelum og verslunum og vöruhúsum og gaman að skoða þar ítalskan tískuvarning. Feneyjar eru frægir fyrir grímurnar sínar og finnst mérað menn eigi að láta það eftir sér  að kaupa sér eina slíka, enda vandaðar og mjög fallegar. Feneyjarkristallinn er líka ofsalega fallegur og hæglega hægt að gleyma sér fyrir framan gluggana á búðunum sem eru í röðum þarna.feneyjar_grima_1.jpg

 


Húsmóðursblinda!!

Ég ætla ekkert að ljúga því að ég sé þessi "ofurhúsmóðir" mundi frekar segja þvert á móti, verð seint kosin "húsmóðir ársins" enda stendur hugur minn ekki til þess. Það eru svo marigir aðrir í kringum mig sem eiga tilkall til þess titils.

eg_husmo_irin.jpg

Ég hef klúðrað þvotti með þeim hætti að eitt sumarið gekk öll fjölskyldan í  ljósbleikum fötum (hvað er með þessa sokka sem virðast komast óséðir inní vasa á hvítum fötum til þess eins að valda skaða?)

Eiginmaðurinn fyrrverandi hafði nú svo mikla trú á húsmóðurhæfileikum mínum að hann spurði hvort hann hefði stækkað, þegar hann stóð í ljósbleiku gallabuxunum sínum (áður hvítu) og skálmarnar náðu rétt niður fyrir hné eftir 100° suðu.  Já ég er ekki frá því, sagði ég, því ég vildi nú ekki spilla fyrir trúnni hans á mér. Þegar ég sauð hins vegar lopapeysuna sem tengdó hafði prjónað, þá held ég að hann hafi verið farið að gruna að hann væri nú hættur að stækka svona rosalega.

Ég hef bakað þá ljótustu köku sem ég hef séð, en vinkonur mínar í saumaklúbbnum þótti hún góð, en þó var mikill afgangur. (??) Systur mínar koma mér þó til hjálpar ef ég þarf að halda veislur og jafnvel eins þegar samstarfsfólk mitt hefur þurft að halda veislur, en ég er svo almennileg og býð oftar en ekki fram hjálp mína.

kokukarl.jpg

Þær bjóðast þá til að hjálpa mér og enda oftast á að segja: "heyrðu ég skelli bara í franska súkkulaðiköku" fyrir þig. Mér finnst þetta svo flottur frasi, en hef aldrei getað notað hann sjálf, því ég skelli ekki í köku bara si sona. Kaka er stórmál!

Ég er þó ekki versta tilfellið sem ég veit um, því ég á vinkonu sem ætlaði að halda stórveislu fyrir manninn sinn á einhverjum tímamótum og leitaði til mín ( já orðspor flýgur nú hreint ekki það hratt)

Nánast ómótt yfir traustinu sem mér var sýnt og stolt fyrir allan peninginn sagði ég henni bara að "HENDA" í kötbollurnar mína frægu (óskhyggja, ég átti ekkert í þeim og þær voru ekki svo frægar).

Í kjötbollurnar þurfti: Saltkex, nautahakk og lauksúpu= hrært saman og mótaðar bollur

Í sósuna þrufti: sólberjasultu og Chilisósu = hitað og hrært saman

Ég útskýrði af miklum eldmóði, hvernig ætti að bera sig að, vinkonan skrifaði og skrifaði, en þar sem ég á það til að vera örlítið æst, og hef væntanlega ekki alveg raðað setningunum rétt saman, hugsanlega vantað inn orð og orð, enda ætlast ég stundum til að fólk lesi milli línanna það sem uppá vantar.

 Eitthvað hafði nú uppskriftin "MÍN" skolast til, því vinkonan sagði svo frá á mánudeginum:"jú jú þetta tókst nú ágætlega, nema bollurnar hrundu alltaf í sundur" ég bað hana þá að lýsa bollugerðinni:

"Ég steikti hakkið, eldaði súpuna og svo þegar ég ætlaði að fara að bæta Ritskexinu útí, þá vildu þær ekki haldast saman bollurnar" en ég fann ráð við því sagði hún alveg stolt með titrandi röddu, "ég barði bara kexið inní bollurnar undir rennandi vatni og þá héldust þær saman, ég er reyndar alveg marin í lófunum, því það var svo erfitt að móta þær með kexinu í. Svo þegar fólk stakk kokteilpinnum i bollurnar þá hrundu þær allar aftur í hakk og kex. En mér tókst vel upp með sósurnar" sagði hún stolt.

Sósur? spurði ég, það átti bara að vera ein sósa, nei ég gerði tvær, sæta sósan =sólberjasultan og súra sósan = chilisósan. Þar sem hún var svo stolt yfir þessu, enda hennar fyrsta veisla þá sagði ég ekkert, en hún mun ekki sjá um mínar veislur í framtíðinni.

 

 . retro_houswife_2.jpg


Garda /lago di Garda

Gardavatn er stærsta stöðuvatn Ítalíu eða uþb. 370 ferkílómetrar og er staðsett milli Lombardihéraðsins og héraðsins sem liggur að Feneyjum og liggur norðurhluti þess innan um háa Alpanna, en Pósléttan umlykur syðsta hluta vatnsins.Gardavatnið

Vatnið er einstaklega fallega blátt og útsýnið mjög fjölbreytt eftir því hvar maður er staðsettur. Í vatninu eru nokkrar eyjur, sú stærsta heitir Isola del Garda, og síðan eru minni eyjur eins og Isola dell´Olivo (Ólífueyjan) og Isola dei Conigli eins og hún er kölluð (Kanínueyjan) ofl. litlar eyjur.

Ég fór til Soiano del Lago við Gardavatn, með dóttur minni sumarið 2006, þegar Heimsmeistarakeppnin í fótbolta stóð sem hæst. Við tókum lestina frá Milanó og er það tæplega klukkustundarferð í lest til Desenzano, sem er einn af fallegri bæjum sem ég hef komið til. Þaðan tókum við leigubíl uppí Soiano del Lago, sem er afar lítill bær með um 1500 íbúum, staðsettur í Brescia í Lombardihéraðinu.lake_garda.jpg

Ólífutré, Sedrusviður, pálmar og magnólíutré setja svip sinn á þetta svæði og aðkoman að hótelinu sem við gistum á sem heitir San Rocco, er í gegnum Ólífutrjálundi, þar sem allt var þakið í litlum netum meðfram vegum og göngustígum, enda var verið að tína ólífurnar af trjánum. 

san_rocco_sundl.jpg

Þarna á hótelinu var 5 stjörnu matsölustaður og var hann stækkaður verulega á föstudagskvöldum, þegar ítölsku fjölskyldurnar komu þangað með "family grande". Caprese salatið þarna smakkaðist einstaklega vel (einfalt og ferskt) og vínþjónninn valdi vín með hverjum rétt fyrir sig, fyrir okkur mæðgurnar og leið manni eins og maður væri eðalborin.san_rocco.jpg

.Olíur

Þetta frábæra íbúðarhótel sem við gistum á var rekið af móður og syni, en hann sá um rekstur hótelsins, sem minnti frekar á óðal, en mamman sá um framleiðslu á Ólífuolíu og sápum og öðrum afurðum ólífutrjánna. En þarna á lóðinni var lítil verksmiðja og verslun með ólífuolíu og ólífum og fleira sem þau framleiddu þarna fjölskyldan.

Við skelltum okkur inní litla bæinn daginn sem Ítalía var að spila og fundum lítinn bar eftir langa göngu, en engin strætó virtist ganga þarna og engir leigubílar voru heldur á svæðinu. Við fundum bar sem var reyndar sá eini í bænum og þar var stórt sjónvarp í garðinum og greinilega megnið af bæjarbúum mættir, en við vorum sennilega einu útlendingarnir þarna. En það var nú í góðu lagi, þar sem við héldum með Ítalíu. Að horfa á fótbolta með Ítölum er bara frábært, maður lendir inní einhverju andrúmslofti sem er svo töfrandi og óraunverulegt að það er eins og maður sé komin í annan heim. Allir klappa og garga og tala og steyta hnefann og rífast sín á milli yfir dómaranum og hinu liðinu sem EKKERT GETA....

 garda_hus.jpg

Þegar við báðum barþjóninn á staðnum að hringja á leigubíl, þá sagði hann okkur að það væru engir leigubílar þarna, en þar sem við höfðum haldið með Ítalíu, þá kallaði hann á einn gaur sem var þarna í rólegheitum að spila pool og skipaði honum að keyra þetta fólk heim á hótel, en viðskiptavinum er skutlað heim sagði hann...frekar vorum við hissa, en hrifnar að þurfa ekki að labba í myrkrinu, en það virðist sem þeir spari götuljós verulega á þessum slóðum.


Fiskihátíðin í Camogli (sagre del pesce)

Fiskihátíðin "Sagre del pesce" einnig kölluð "Feste del Mare" sem haldin er í maí ár hvert í Camogli, litlum bæ í nágrenni  Genóva, einnig kallaður "Fiskibær Ítölsku Riverunnar". Leiðin til Camogli frá Genóva er með ferju sem fer frá gömlu höfninni þar eða "Porto Antico".

Camogli

Ferðin ein og sér er algert ævintýri útaf fyrir sig, þar sem austurstönd Ítalíu er meira og minna eins og póstkort, svo falleg og hrikaleg og hver bærinn á fætur öðrum hangir í fjallinu hátt yfir flæðarmálinu, þannig að manni sundlar við það eitt að horfa á þá. (þ.e. við sem erum  lofthrædd)

Í Maí árið 2007 fórum við nemendur Tricolore skólans í Genóva á fiskihátíðina í Camogli. Þetta var svona tæplega klukkustundarferð með ferju en Camogli er rétt við hornið  á Portofino og er baðströnd eiginlega í miðjum bænum, eða upphafið að bænum eftir því hvernig á það er litið. 

Aðalgatan liggur niður að ströndinni, en meðfram götunni eru matsölustaðir í svona einskonar tröppugangi og yndislegt að sitja við opna gluggana, eða jafnvel heilu veggirnir eru úr gleri sem eru opnaðir út á vorin og síðan lokað á haustin sagði  þjónninn okkar.

camogli_portofino1.jpg Mikill erill og læti voru strax við bryggjuna þegar við stigum uppúr ferjunni, enda fer aðalfjörið að mestu leyti fram á þar, sölubásar og strákar að spila á hljóðfæri og lyktin sem tók á móti okkur var ef hægt er að orða það sem einhversskonar sítrónuilmandi  djúpsteikt sardínulykt, en þó fersk og ekki íþyngjandi, eins og maður gæti haldið er þegar verið er að steikja nokkur hundruð kg. af sardínum.  

Allir sem maður mætir eru  með kramarhús, eða litla bakka með sardínum, majónes og sítrónum og borða þær með fingrunum og ekki síður krakkarnir sem kunna greinilega að meta þetta.

sagradelpesce.jpg

Allir matsölustaðirnir bjóða eingöngu uppá fisk þennan dag, alla vega fundum við stöllurnar enga staði sem seldu pizzur eða nokkuð annað en skeljar og fisk þennan dag.

folk_a_bor_a.jpg

Það er varla fótandi fyrir fólki, hvaðanæva að úr nágrannabyggðum og bara fá Genóva voru ferjur á klukkustundarfresti þennan dag til Camogli.  Stórum pottum og stórum grillum eru haganlega komið fyrir undir tjöldum, eða undir berum himni og þar eru heilu fjölskyldurnar að steikja, grilla og afgreiða sjávarfangið og biðraðir eftir þessu góðgæti með fram allri bryggjunni.

Erfitt reyndist okkur að fá pláss til að setjast niður á,  þannig að við enduðum á baðströndinni á strandbarnum, þar sem við biðum eftir að mesta örtröðin gengi yfir og hægt væri að setjast við eitt af þessum skemmtilegu stöðum með útsýni yfir sjóinn og höfnina.

matur_camoglie.jpgskeljar.jpg

Biðin var þó vel þess virði, það var farið að rökkva og liturinn á bænum ævintýralegur eiginlega appelsínugulur  (sjá mynd) og  við fengum nokkra fiskrétti alla hver öðrum betri og skoluðum að sjálfsöðu þessu niður með víni hússins sem passaði einstaklega vel með sjávarfanginu. Saluta!

 sniglar.jpgstor_pottur.jpg


Gæludýr fjölskyldunnar

Börnunum mínum langaði alltaf að eignast gæludýr þegar þau voru lítil, sérstaklega langaði þeim í hund, en á tímabili vildi dóttirin flóðhest, en ég var svo "heppin" að þau voru bæði með ofnæmi fyrir hundahárum og já fyrir kattarhárum líka, þannig að það varð fljótt úr sögunni.

Börnin

Þar sem suðað var á hverjum degi, þá lét ég undan einhverju sinni, þegar dóttir mín fékk í afmælisgjöf hamstur í búri með öllu tilheyrandi, sérstaklega þar sem þau höfðu orðið uppvís að því að eyðileggja heilt hreiður í sumarbústaðnum hjá afa og ömmu, til að eignast sitt eigið gæludýr.

En afi hafði verið að sýna þeim þrastarhreiður og hvernig mamman sæti á eggjunum til að unga þeim út, sagði þeim að fara mjög varlega til að styggja ekki mömmuna, því hún yrði að vera stanslaust á eggjunum, svo úr þeim kæmu ungar.

Einhver styggð komst á þröstinn og flaug hann af hreiðrinu, svo "Skaðræðið" tók á það ráð að "bjarga" komandi ungum með því að skella þeim í rassvasann á systur sinni, og slá þannig 2 flugur í einu höggi. þ.e. bjarga ungunum og eignast gæludýr. Síðan hrinti hann systur sinni lauslega, til að hún mundi setjast á eggin og unga "gæludýrunum" út sem fyrst.

Kemur svo dóttirin hágrátandi öll í eggjarauðu og sagði að bróðir sinn hefði hrint sér. Afi varð öskuillur og húðskammaði "Skaðræðið" en hann bar því við að hann hefði nú verið að bjarga þessum ungum og þar sem alltaf væri verið að klifa á því að litla systir hans væri svo létt, þá var hann ekki að átta sig á því hvernig hún braut eggin. Ekki varð úr fjölgun í fjölskyldunni þarna svona "dýralega" séð.

Anna reið

Þegar dóttirin varð 4. ára fékk hún sem sagt hamstur í búri að gjöf frá "velviljuðum" fjölskyldumeðlim og nú tók við skemmtilegur tími, með tilheyrandi flandri uppá dýraspítala. "Skaðræðinu" fannst óskaplega gaman að fara hratt og áleit að sjálfsögðu að Snúlli hamstur væri sama sinnis. 

Þannig að nú skyldi gera vel við hamsturinn og í þeirri tilraun var Snúlli litli settur uppá leikfangamótorhjól sem var upptrekkt og fór á ógnarhraða um alla íbúðina með Snúlla stjarfan á hjólinu.  Ferðinni lauk svo á vegg , með þeim afleiðingum að Snúlli missti eina tönn og ég er ekki frá því að hann hafi fengið einhverja höfuðáverka, því hann fór að hegða sér mjög undarlega.

Hamstur

"Skaðræðinu" þótti þetta mjög leiðinlegt, og ætlaði að kanna með mótorhjólahjálma á hamstra fyrir næstu ferð hans. Snúlli varð nú mjög árásargjarn og reyndi að naga sig út úr búrinu með þessari einu tönn sem eftir var og nagaði allar snúrur í sundur sem hann komst í og ég lenti í rafmagnslosti oftar en ekki, þegar ég var að taka úr sambandi græjur á heimilinu. Tönnin óx þó og ég fékk ekki Dýraverndunarsamtökin á mig, enda hvarf mótorhjólið á einhvern dularfullan hátt og Snúlli lifði lengi vel eftir þetta.

Hér eftir setti ég mörkin við gullfiska, en þá hafði verið gerð tilraun til ánamaðkaræktunnar, Kanína var fengin á heimilið um tíma og loks páfagaukur og svo síðast nokkrir gullfiskar og ekki verða fleiri dýr á mínu heimili svo mikið er víst.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband