Raunir ferðamannsins....

Ég er oft á flandrinu milli Íslands og Ítalíu og þar sem ekki er flogið beint þangað, nema yfir sumartímann þá þarf ég oftast að millilenda einhversstaðar og taka vél áfram til Mílanó.

Ég var að fljúga út sl.vor með einu lággjaldaflugfélaginu til Stansted í London, og var með 21.5 kg. en leyfileg þyngd er 20 kg, en þar sem handfarangurinn minn var ekki nema brot af því sem leyfilegt er, vonaðist ég til að sleppa við yfirvigt, en NEI! Það jafnast ekki út!

Þar sem ég fann pirringinn hjá stúlkunni við innritunarborðið vaxa við þessa fyrirspurn mína, þá ákvað ég bara að flytja þetta 1 og hálfa kg. yfir í handfarangurinn, en já það má ekki taka krem og ég var með slatta af sólarvörn sem vógu alveg slatta, en tók svo á endanum 1 hælaskó, hinn var fullur af kremum og svo tók ég þunga lopapeysu dótturinnar sem hafði gleymst á Íslandi og hélt á þessu í gegnum tollinn, og auðvitað var ég stoppuð. Af hverju ertu bara með 1 stk.hælaskó spurði tollarinn? "nú þessi skór bjargaði mér frá því að greiða yfirvigt svo ég tók hann bara með í handfarangrinum" svaraði ég (smá hrædd, gæti skór flokkast sem morðvopn?, ég mundi ekki afbera að missa þennan skó)

Luggage1

 

 Ok slapp í gegn á Keflavík en Gatwik...já þar gegndi öðru máli. Ég þurfti að umraða þar, því þú ferð ekki með nema eina tösku í gegn og hún er merkt með RAUÐU og reyndar ert þú líka rauðmerkt sjálf á "boardingpassanum" og það standa verðir sem fylgja því eftir að þú sért með 1 tösku og ekkert annað.

En þú mátt vera í fötum, sem og ég gerð, en það var frekar kalt á Íslandi, þannig að ég var í peysu og kápu, en nú þurfti ég að fara í lopapeysuna sem var sem smurð á mig, þar sem dóttirin er nokkrum (lesist mörgum) kg. léttari en ég, en ég hafði líka pakkað hælaskónum niður, því mér finnst ekkert smart að ferðast með sundrað skópar. (sem gætu einnig flokkast undir morðvopn). Ég þurfti í staðinn að taka jakka dótturinnar (sem smellpassaði EKKI) Ég gekk í gegnum tollinn eins og útbólginn Michelinkarl í frauðplasti og það lak af mér sviti og ég hafði þurft að troða veskinu í litlu handfarangurstöskuna (only one luggage) karlinn með röntgenaugun sá sem fylgdist með rauðmerkta fólkinu sem sagt "okkur lágfargjaldaliðinu".

michelin-man

 

 Það var því frekar sveitt, örlítið pirruð kona sem tróð sér leið gegnum þrönga ganga flugvélarinnar eldrauð í framan. Reif uppúr vösum blöð og bók (sem rauðmiðaeftirlitsgaurinn hafði sagt mér að henda) ég hlýddi ekki. Ég fyllti svo 2 box yfir farþegasætunum, með peysum og jökkum og svona allskonar dóti sem ég hreinsaði af mér. Úff hvað mér var heitt, en pantaði mér samloku og hvítvín, og las grein í nýkeyptu blaði sem fjallaði um að ákveðið lággjaldaflugfélag, hvers ég var að ferðast með, hefðu orðið uppvísir að því að hirða heilan gám af útrunnum samlokum og nota um borð. Úff hvað mér varð óglatt!!!!!!!


Hin magnaða Mílanó og íbúðarmálin þar.

Ég á dóttur sem flutti til Mílanó fyrir 4 árum til náms og hefur hún nú loksins fengið fasta íbúð, með smá "afarkostum" sem sé að eigandinn er með aðgang að einu herberginu, með konu og 2 börn, þegar hann er í Mílanó, en hann býr í Bern í Sviss og kemur reglulega til Ítalíu.

Fram að því að hún fékk þessa íbúð, voru íbúðarmálin hennar mjög skrautleg. Fyrsta íbúðin var þannig að hún var morandi í "bjöllum" hélt stelpan mín, mér sýndist þetta vera hinir mjög svo ekki eftirsóttu sambýlingar "kakkalakkar" en hún flutti þaðan eftir mjög stutta vist. 

naviglio.jpg

Þar sem þetta var árið 2007 gat hún fengið fína íbúð fyrir EUR 1000.- sem voru ISK 90.000.- í versta falli, en fór í 194 þús. árið 2008, en LÍN var ekki endilega að fylgja því eftir þ.e. raunveruleikanum, þannig að nú var bara að finna íbúð á 500 Evrur í hæsta lagi.

Dóttirin lá á netinu, fyrir hvert haustið að finna sér mannsæmandi herbergi/stúdíóíbúð, en sá háttur er á Ítalíu að þú þarft að fara gegnum skrifstofu og borga þeim eitt leiguverð fyrir það, og tryggingu og þess háttar, en þá ertu líka nokkuð viss um góða íbúð. Þetta er ekki fýsilegur kostur fyrir námsmenn, alla vega ekki eftir hrun, þannig að þá er best að finna sér íbúð sjálfur. 

Svo hún auglýsti! Vantar litla íbúð eða herbergi með aðgang að eldhúsi. Er námsmaður.

Flestir vildu mynd af henni! Mynd?? Af hverju vilja þeir mynd spurði hún sig? En svo fóru málin að skýrast svona smátt og smátt. Hún fann eina íbúð, sem henni leist vel á, enda ítalskur námsmaður sem auglýsti og staðsettningin rétt við skólann, hann sagðist vera með tveggja herbergja íbúð.

Hún fór vongóð út eftir jólin, með fasta búsetu í fyrsta sinn áður en hún kæmi á staðinn. Þegar hún svo mætti í íbúðina, voru 2 herbergi, þ.e. 1 herbergi og 1 stofa og 1 rúm. Hún átti sem sagt að deila rúmi með honum. Hvað!! Er eitthvað að því spurði hann??? Já þess vegna vildi hann mynd sem sagt. þar sem hún stóð fyrir utan húsið með ferðatöskur um mitt kvöld hringdi hún í mömmu sína, sem skiptir sér af öllu og googlaði gaurinn nánar og jú jú hann virtist eðlilegur, en fann þó mynd af honum þar sem hann kallaði sig "guy in fridge" já sem sagt ísskápamaðurinn...(hann ætlaði þó ekki að gista í ísskápnum)

guy.jpg

Nú var "ungamamman"  með plan B fyrir hana (vegna reynslu okkar á að hlutirnir voru sjaldnast eins og sagt var frá í auglýsingum) sem var bed and brekfast. Það húsnæði var ekki langt frá "ísskápsgaurnum" og þau hafði ég googlað og sá að þau voru kínversk og þar af leiðandi ekki í ítölsku mafíunni, heldur ekki ísskápsfólk, svo hún fór þangað um mitt kvöld. 

En þegar hjónin fóru í vinnuna klukkan 8 um morguninn,þá átti hún að fara út líka og mátti ekki koma heim fyrr en 8 um kvöldið, þegar þau voru búin að vinna.

Dóttirin rak upp stór augu og sagði ég þarf að fara í sturtu og svona.  Þá var amman fengin úr næsta húsi til að passa hana og sitja yfir meðan morgunmaturinn sem auglýstur hafði verið var borinn fram (kornflex og mjólk) og svo varð hún að fara út á götuna þarna í febrúar og hanga á netkaffi í leit að íbúð til klukkan 8 um kvöldið. Fólkið virtist hafa gengið úr rúmi fyrir hana, því þau gistu í stofunni, samt var þetta var auglýst á viðurkenndum íbúðarvef á Ítalíu. Það eru greinilega engar sérstakar kröfur gerðar til leigusala þarna.

Þetta leiddi til þess að hún tók fyrstu bestu íbúð sem hún fann staðsetta í Navigli sem er góð staðsetning og gat hún labbað í skólann og stutt í skemmtilegt götulíf. Sá galli var hins vegar á gjöf Njarðar að þessi íbúð hafði 2 herbergi. Hún leigði annað og einhver lúðraspilandi lögfræðingur hitt og saman voru þau með eldhús og bað.

Allt í lagi að deila íbúð saman, en það var ekki hægt að læsa herbergjunum, því þau voru bara með rimlagardínum til að loka sig af.

Þetta hefði eflaust gengið, ef gaurinn hefði ekki byrjað alla morgna á því að gera eftirfarandi:

Brjóta 5 valhnetur á eldhúsborðinu með kaffikönnu og hvílíkum látum.

Tala við sjónvarpið og fólkið sem var á skjánum og jafnvel reifst við sjónvarpsfólkið af fullri alvöru.

Æfa nokkra (MARGA) tóna (aldrei laglínu) á lúðurinn. Lúðraði næstum gat á hljóðhimnuna á mér.

Syngja sama lagið 3svar áður en hann fór í vinnu, (held að hann hafi verið með tourette)

Ég var þarna í þessari íbúð í viku, og var alveg úrvinda eftir vikuna. Því hann hvíldist ekki heldur um helgar heldur vaknaði fyrr en aðra daga og spilaði allan daginn á lúðurinn. Svo ætlaði ég alltaf að fara að svara honum, þegar hann öskraði á sjónvarpið. Hélt að hann hefði slasast eða eitthvað þvíumlíkt, en dóttirin var orðin vön þessu og stöðvaði mig.

trompetplayer.jpg

Endanlega gafst dóttir mín að lokum upp á þessu húsnæði,  þegar hann kvartaði undan hávaða frá lyklaborðinu á kvöldin þegar hún var að reyna að læra og  tók því uppá því að hækka sjónvarpið í botn og já eiginlega fældi hana þannig í burtu.

Þá var það næsta íbúð, sem hún fann hjá skólafélugum sínum.

Þar voru nokkrir strákar ítalskir, litlir mömmudrengir sem vantaði greinilega stelpu til að taka til (héldu þeir), en dóttir mín býr ekki yfir þörf fyrir að gera hreint í kringum önnur ungmenni en sjálfa sig, svo hún hélt sig mikið með íslensku stelpunum og gisti þar á gólfi frekar en að vera heima hjá sér. En þær voru á sama róli og hún með mismunandi erfiðum sambýlingum.

Sambýlingarnir hennar voru meira að skemmta sér en læra, þannig að það var party non stop heima við. Þegar hún svo kom heim til að sækja sér eitthvað fyrir skólann, var herbergið hennar fullt af fólki að hvíla sig. Hún uppgötvaði fljótlega að ekki var hægt að læsa herberginu að innan...heldur bara að utan. Ekki gott þegar menn eru ekki tilbúnir að vera með í partýinu stanslausa.

Svo nú eru málin leyst og þykir ekki mikið tiltökumál að fá 4 manna fjölskyldu every now and then inná sig í nokkra daga til viku.

Hún telst bara heppin.

 


Heimsókn í banka með "Hryðja"

Ég var ekki með börnin mín í pössun þegar þau voru lítil, nema hálfan daginn, þar sem frekar erfitt var að fá pössun fyrir "Skaðræðið" hann hafði verið rekin frá dagmömmu (þessi engill) eftir 4 daga, en ég viðurkenni að hann var örlítið fyrirferðamikill.

kiddi_stilltur.jpg

Ég var því oft í allskonar útréttingum með þau með mér, þegar ég var laus úr vinnunni. Ég fór dag einn í banka um mánaðarmót, en þetta var fyrir tíma þess sem allt var læst inni, gjaldkerar og tölvur og svoleiðis, meira svona allt uppá borðinu. (Vel fyrir hrun og svona)

Þar sem ég stend í röð, heyri ég allt í einu eintóna hljóð eins og tölvukerfið væri lasið, eiginlega eins og ýlfur, eða bíb hljóð. Kemur þá bankastjórinn fram og talar við gjaldkerana og snýr sér síðan að mér og spurði hvort það gæti verið að drengurinn minn hefði farið inn þar sem höfuðtölvan var geymd.

Nei sagði ég ósjálfrátt (fyrstu viðbrögð móður) var þegar þarna var komið sögu, ekki tilbúin að játa allt uppá hann (það kom síðar) enda var hann þarna bara uþb. 4 ára.

Hann kom hins vegar glaðbeittur og játaði brotið og sagðist hafa "snúð lyklinum" á stóru tölvunni niðri. Hann hafði sem sagt farið með einbeittan brotavilja og fiktað í höfuðtölvunni og slökkti í leiðinni á henni.

Ekki var hægt að afgreiða um sinn á þessum einstaklega skemmtilega degi um mánaðarmót. Já ég endurtek mánaðarmót sem í þá daga þýddi örtröð í banka, enda engin netviðskipti komin og maður þurfti bara að fara til gjaldkera með alla greiðsluseðlaog bíða í röð.

Ég sá mig knúna til að yfirgefa svæðið með "hryðja" litla og taka út öll mín viðskipti  úr meintum banka. 


Stóra "dvergamálið"

Ég hef oft lent í mjög vandræðalegum uppákomum með son minn hér á árum áður, enda er hann kannski með smá dass af fljótfærni úr móðurfjölskyldunni, þó ég sé nú búin að gera samkomulag við fyrrverandi maka um að allt sem aflaga fer hjá börnunum okkar sé runnið undan rótum föðurfjölskyldunnar, það getur verið gott að eiga svona "blóraböggul" til að nota í lífsbaráttunni.

hamrakiddi.jpg

Ég las oftast bókina um dverginn Daða fyrir börnin mín, áður en farið var að sofa, en Daði var þeim hæfileikum gæddur að geta látið sig hverfa, þegar hann lenti í vandræðum, þá skellti hann yfir sig húfunni sinni sem gerði hann ósýnilegan.

Maður áttar sig ekki alltaf á því hvernig barnshugurinn virkar, ekki átti ég von á því að hann héldi að allir dvergar væru eins og Daði dvergur.

  Þannig var að ég var að bíða í langri röð á pósthúsi og með "skaðræðið" með mér á hjóli með hjálpardekkjum, en hann var snemma farin að hjóla sjálfur. Dóttirin var í vagni fyrir utan stillt að vanda.

Þar sem ég stend í röðinni og bíð meðan "skaðræðið" mokaði upp úr eins og 2 blómabeðum, og færði mold frá einu beði í annað og megnið fór á gólifð. Ég tek það fram að ég reyndi að skamma hann og tala blíðlega og hóta og já já allt sem mér datt í hug, en ég var í mjög langri röð og búin að bíða með hitt barnið í vagni fyrir utan og það hvarflaði ekki að mér að gefast upp.(þá hefði ég aldrei framkvæmt neitt)

Nú kemur mjög lítill maður inn á pósthúsið og stendur í annarri röð og nú segir skaðræðið hátt og snjallt: "ertu alvöru dvergur?" litli maðurinn svaraði honum engu, enda bara að sinna sínum viðskiptum. Skaðræðið sá þá þann kost vænstan að komast að því með því að láta hann bara lenda í vandræðum, sem og hann gerði. Hann hjólaði á dverginn aftur og aftur, sem hvarf náttúrulega ekki. 

Litli maðurinn varð frekar pirraður, ég tek það fram að þegar þarna var komið sögu, eftir að hann hafði í millitíðinni hent blautum frímerkjasvömpum í afgreiðslustúlkurnar, lét ég eins og hann væri ekki á mínum vegum. Sá alveg á fólkinu hugsa: Já já svona krakki með sænskt uppeldi, mamman ræður bara ekkert við hann (hef alveg hugsað svona sjálf).

kiddi_litill.jpg

Þar sem dvergurinn hafði ekki horfið af yfirborðinu, þá kom hann alveg uppað mér og sagði: "mamma þetta er ekki ekta dvergur, hann hverfur ekki, þegar hann lendir í vandræðum" ég leit í aðra átt og óskaði mér að ég yrði að reyk. Hvað var þetta bráðókunna barn að segja við mig?

Mér varð ekki að ósk minni og hét mér að fara aldrei með hann neitt aftur. (sem gleymdist eftir hádegið sama dag enda barnið með englaásjónu á kodda) meira síðar!

 


Mílanó hin frábæra

Ég fæ aldrei nóg af Mílanó. Borgin er í senn lifandi og hávær, en samt alveg hæfilega stór. Navigli er staður sem liggur meðfram síkjum sem eru 5 talsins, það stærsta er Naviglio Grande og Naviglio Pavese er þar rétt hjá. Þarna eru sölumenn frá öllum þjóðum að selja glingur bæði á daginn og kvöldin. 

navigli_1113782.jpg

Allt lifnar við um 6 á kvöldin og er iðandi langt fram á nótt. Þar kemur fólk saman og fær sér aperitivo sem er sérstaklega vinsælt meðal ungs fólks, sem labbar gjarnan á milli staða og fær sér drykk og pizzur á einum stað  (en matur er innifalinn með drykkjum til klukkan 22:00) og á næsta bar er það kannski sushi og eitthvað allt annað á þeim þriðja. Mikið um að hópar hittist og fái sér aperitivo eftir vinnu og vinir hittast og fá sér að borða með kokteilnum sínum áður en farið er heim til að borða kvöldmat. 

 nvaiglio_grande.jpg

Námsmennirnir halda sig nú frekar á Colonne, en þar færðu drykk í plastglasi á spottprís, og svo er labbað á Colonne torgið og fundið sæti þar. Þannig er stanslaus straumur á þessu torgi af ungu fólki sem flandrar á milli og kaupir drykki. Hinir sem fá sér sæti, borga meira og fá þá einnig mat með, eða apertivo til klukkan tíu. Ísbúðirnar eru ekki síður vinsælar hjá ítölunum, þangað fara unglingarnir saman í hópum og einnig er farið á stefnumót í ísbúðunum. Alveg frábær siður finnst mér og gerir borgina svo líflega og skemmtilega á kvöldin.  Ef fótboltaleikur er í gangi þá eru barirnir kyrfilega merktir AC Milan eða Inter Milan og þú vilt ekkert villast á rangan bar, nema vera réttu megin liðsins.

devil.jpg

Nokkrir skemmtilegir matsölustaðir eru einnig á Colonne, verðið er hóflegt á þeim öllum, enda er  þetta er svona frekar staður fyrir yngri kynslóðina. Minn uppáhaldsstaður er Trattoria Toscana þar og fleiri staðir allt í kring eru æðislega skemmtilegir og yndislegt að sitja úti og horfa á lífið.

 

Svo er hægt að fara á Armani Cafe eða Just Cavalli og fá sér apertivo sem kostar alla vega þrefalt meira en á Colonne. Fer bara eftir smekk hvers og eins.

 

 


Hin ýmsu "horunarkitt"

Er það nú ekki þannig þó svo að við konurnar viljum ekki viðurkenna það, að við viljum vera grannar og flottar. Ég hef nú útlistað það hérna áður að ég á ættir mínar í móðurætt að rekja til Fáskrúðsfjarðar og sú ætt er dökk, franskútlítandi og er smáfólk upp til hópa. Svona rétt rúmlega málbandið á hæð flestir.

thin_thighs-192x300.jpg

Svo er það að það reynist erfitt að virka hávaxinn og grannur ef maður hefur segjum bætt á sig nokkrum grömmum, eftir jól og páska og svona oftar en ekki. 

Ég var að fara á árshátíð með vinnunni minni og ætlaði nú að tjalda mínu flottasta, vera í háum hælum, "Shock Up" og aðhaldssundbol. (jesús hvað ég yrði grönn) verst að ég er nú ekki svo há til hnésins, en með 12 cm hælum yrði ég hávaxin eða 176,5cm (það er hátt)

Við vinkonurnar ákváðum að hittast áður en haldið var út úr bænum, þar sem árshátíðin var haldin í Borgarnesi á hótelinu þar.  Við skelltum okkur í snyrtingu og límdum gervineglur á mig,  lökkuðum okkur og gerðum okkur fínar. Fórum svo í greiðslu í Borgarnesi og máluðum okkur inná herbergjum saman í hóp með rauðvín í glösum. 

En nú vandaðist málið örlítið, en það er erfitt að koma "Sjokkuppi" upp lærin á sér með "eigins" neglur, en gervineglur eru allt annar handleggur. Ok ég hringi í móttökuna og panta gúmmíhanska með rifflum. Stúlkan sagðist nú ekki hafa það í boði, en lofaði að reyna hvað hún gæti.

Á meðan skellti ég mér í hitt "horunarkittið" sem var ennþá meir viðbjóður að troða sér í, hvaða fáviti (lesist: greinilega ekki kona) hefur hannað þetta drasl, ég meina það voru smellur og þurfti gott betur en eina armlengd til að ná til þeirra við lokun á meintum sundbol/(horunarkitti) og bíddu átti ekki að vera aðhald yfir rassinn, ekki bara lína eins og strengur yfir tunglyfirborð? Ekki var heldur gert ráð fyrir brjóstum á þessu drasli, svo ég var orðin skorin á öxlunum við að reyna að koma þessu saman.

Skrifaði kvörtunarbréf í huganum til framleiðandans, fólksins í fyrirtækinu og til landsins sem þessi ósköp voru hönnuð (Berlusconi skyldi nú fá eitt vænt hótunarbréf líka). Ætli ég hafi keypt þetta of lítið kannski? Nei hún sagði að þetta mundi minnka mig um 2 númer. Mig vantaði að minnka mig alla um 2 númer ekki bara eina rönd og mittið.

Nú bankaði einhver og ég stökk fram eldrauð af áreynslu og í slopp (en frekar grönn á svipinn) tók við gúmmíhönskunum eins og það væri eðlilegasti hlutur að panta gúmmíhanska á hóteli (held að stúlkan hafi kannast við sjokköppdæmið). Nú ég rúllaði þessu faglega upp með gúmmíhönskunum upp á mið læri, en þurfti þá að draga andann og þá rúlluðu þær niður í einum rykk niður að hnjám.

Ég tók svo tilhlaup með hjálp vinkvenna minna og upp fóru sokkabuxurnar, en guð ég var að fara í mat og drykk....ætli það sé hjúkka hérna hugsaði ég stíft og reyndi að muna hvað makar vinnufélaganna gerðu, til að setja upp þvaglegg hjá mér, ég meina ég er ekki að fara að stunda neinar klósettferðir í þessu. (of seint að spreyja bara brúnkukremi á fæturna) Vinkonurnar hristu hausinn og sögðu þú ferð ekki í þessu. Jú jú sagði ég, þið sjáið bara um þetta, þetta hlýtur að liðkast með tímanum ekki satt?

Ég fer svo niður og vinkona mín sá um alla mína drykki, svo ég (þá meina ég hún) þyrfti ekki að fara að rúlla þessu sjokköppsdæmi upp aftur. En hún lenti nú í því nokkrum sinnum að koma með mér upp á herbergið, þar sem betri aðstaða er að rúlla upp svona atriði liggjandi í rúmi. (held að við höfum báðar grennst þetta kvöld við allt þetta flandur)

laeri_malband.jpg

Svo þegar ballið var búið og við sátum og spjölluðum spurði vinkona mín mig. Hvernig er þetta drasl naglalakk á þér? mitt er allt krullað. Ég horfði stolt á mínar gervineglur og sagði: "veistu mitt er bara fullkomlega fínt, enda ekki ég búin að berjast við sokkabuxur í allt kvöld". Ég  komst svo að því þegar ég háttaði og stækkaði um alla vega 4 númer þegar ég spratt út úr horunarkittinu, að það var öfugt, og alveg fullt af plássi fyrir rass og brjóst og svona. Næst muna að nota gleraugu við klæðun!


CSI Crime scene/hamfletting

Ég hef reynt að búa mér til mína eigin hefð, eftir að ég varð einhleyp og ákvað að taka í hefðina frá minni æsku rjúpurnar. Hafa rjúpur á aðfangadag og einhvern daginn mundu svo börnin mín minnast á rjúpurnar hennar mömmu og sósuna sem var alltaf best hjá henni (fæ gjarnan svona ofurtrú á mér, þegar ég byrja á einhverju nýju).

rjupa.jpg

Ég fékk rjúpur frá mági mínum og varð nú ekkert smá glöð og þurfti bara að "hátta" þær eins og mamma sagði alltaf, eða "hamfletta" EINMITT JÁ BARA!! Ekkert mál sögðu allir, klippir bara hausinn af og flettir hamnum af.

Ég hugsaði nú með mér að þetta yrði nú ekki mikið mál fyrir mig sem allt getur (þar til annað kemur í ljós). Ég klippti hausinn af, en úps! Það hrundi hálfur Hallormstaðarskógur yfir mig og út um allt (rjúpur að austan) já alveg rétt fóarnið er alltaf fullt af stuffi. Svo klippti ég vængina snyrtilega af og hóf að "klæða" kvikindið úr, en það var einhver fyrirstaða og ég hafði nú ekki fengið neinar upplýsingar um það, þrátt fyrir nána útlistun á hvernig maður bæri sig að, svo ég klippti þetta nú bara. Fiðrið fór út um allt og ekki gat ég tekið það úr hárinu á mér og af augnhárum, þar sem gúmmíhanskarnir voru allir í blóði. En þetta hafðist 1 rjúpa frá og 7 eftir.

Tók næstu rjúpu og var við öllu tilbúin þegar fóarnið klipptist í sundur, engar barrnálar hérna út um allt takk fyrir. 

Var nú komin með talsverða þekkingu á rjúpnaskrokknum. (ætti ég kannski að læra til fuglafræðings?)  Fór út með ruslið og leit í kringum mig. Eldhúsið leit út eins og crimescene úr CSI, allt í blóði, fiðri og barrnálum út um allt. En það versta var afstaðið og íbúðin hálf ónýt, ég var með 8 fínar rjúpur og gleði mín í hámarki, er ég uppgötvaði að það voru engin læri. Voru engar lappir á þessum rjúpum? Ég minntist þess að hafa fengið að borða lærin hjá mömmu þegar hún var að elda sínar rjúpur. 

crime_scene.gif

Í dauðans ofboði hringdi ég í heimildarmann minn sem hafði sagt mér hvernig ég átti að bera mig að og sagði að það vantaði lærin. Ég lísti þessu í smáatriðum hvernig ég hefði "skrallað" þær og þegar ég kom að fyrirstöðunni sagði hún fyrirstaða? "bíddu það eru lappirnar" já takk einmitt það já, ekkert að láta mann vita af því. (hætt við fuglafræðinámið!hentar mér greinilega ekki)

Ætli þeir selji rjúpulæri í Nóatúni? rjupa_tilbuin.jpg


Húsmóðursgenin hvar eru þau?

Ég vildi svo gjarnan að ég væri þessi alltumvefjandi húsmóðir, sem hefði notað tímann í atvinnuleysi mínu núna til sultugerðar, elda eftir uppskriftum, lært að gera sushi, bollakökuskraut og bútasaum Ég er ekki sú húsmóðir, kann þó alveg að elda, en mér hættir til við að ofnota það sem ég læri, ef mér tekst t.d. vel upp með einhvern rétt eftir uppskrift.

Þannig var það með Sesar salatið mitt, sem ég hafði í 2 ár annan hvern dag, nú og bananabrauðið sem ég fékk frá vinnufélaga mínum og ég baka öllum stundum og er búin að gera það að "fræga bananabrauðinu mínu" sem er svo alls ekki mitt heldur stolið af yndislegum sárasaklausum vinnufélga. Skil þó ekki hvað ég á mörg hálf brauð í frystinum, ætli heimilisfólkið sé búið að fá uppí kok af því?  Er alveg að fara að finna nýja uppskrift.

sesarsalat.jpg

Ég fæ heldur aldrei að gera neitt spennandi þegar við systurnar bökum Sörur. Ég er alltaf send í búðina að kaupa einn og einn hlut. Alltaf þegar ég er komin í stellingar að gera nú eitthvað flott og vera svona alvöru með í bakstrinum, þá vantar eitthvað annað úr búðinni. Já "æmontúðem" búin að átta mig að ég er ekkert nauðsynleg við þetta mikilvæga.  Ég er kannski smá hroðvirk, (get viðurkennt það) ég fæ þó stundum að setja súkkulaði á ljótustu kökurnar og fæ líka að eiga þær.  Rjóð af stolti býð ég mínar eigin Sörur (kökur með karakter eins og sagt er þegar eitthvað er ljótt) og segi já hristi þetta bara fram úr erminni svona með jólakortagerðinni.

Já jólakortagerðin hófst við atvinnuleysi númer 1 í hruninu, þegar ég missti vinnuna í Október 2008 og þá skildi nú sparað í svona allskonar... ég fór í Föndru og viðaði að mér allskonar efnum, glimmeri og stuffi sem þarf í kortagerð. 

lina_rut.jpg

Ég settist niður titrandi af eftirvæntingu (kannski var þetta minn nýji vettvangur, fæ pantanir frá fólki sem hefur fengið kort frá mér og ég byrja bara í janúar að gera fyrir fólk kort, þarf aldrei að vinna aftur úti hugsaði ég með mér) og gerði nokkrar "pródótýpur"stældi Línu Rut og allt, ætlaði að gera svona jólasokka á snúru, en þetta leit út eins og tyggjóklessur með glimmeri á bandi.... fékk nokkrar afboðanir með kort eftir jólin, voðalega kurteisislegt...vertu ekkert að senda mér kort elskan, á svo mörg og svona, sé að þú hefur lagt rosalega vinnu í þetta ble ble ble. Ég nota þetta núna sem hótun: "sendi þér heimagert kort ef þú ert svona leiðinleg".

Ég skil nú fyrr en skellur í tönnum, svo ég hugsaði mér, ok ég er ekki með listaverkagenið í mér og fer aldrei í spor Línu Rutar, svo ég ákvað að skella mér á skrautskriftarnámskeið og nú mundi fólki vökna um augun yfir fegurð jólakortanna minna. En eftir 3 kvöld og 2 rauðvínsflöskur var afraksturinn 4 kort (einstaklega fallega skrifuð) og krampi í puttum  og sár á vör, vegna einbeitingar.

Ég setti í þau kort "ATH! kort þetta gildir til ársins 2011". Já þarf að fara að huga að kortagerð þetta árið, allir hinir fengu eðlilega skrifuð kort, en mér finnst ég skuldbundin þessum 4 heppnu kortaþegum  að gera betri kort í hvert sinn... Ætli það sé erfitt að hekla kort eða bútasauma? ljott_kort.jpg


Kílóatap á útsölu?

Ég viðurkenni að eftir að ég átti mitt síðasta barn, hefur verið talsvert erfitt að ná af sér aukakílóunum 22 sem skullu á mér. Finnst þó aðeins verið farið að ganga á þau núna bara síðustu vikuna, enda á danska kúrnum.

Hef prófað þá marga. Fjölþjóðakúrinn minn fannst mér bestur en hann hélt fæðingarkílóunum alveg pikkföstum. Hann samanstóð af Ota hafragraut á morgnana = danskur, Kebap í hádeginu = tyrkneskur, kók með =amerískur,  kvöldið samanstóð svo kannski af steiktum fiski  og rauðum kartöflum = íslenskur.

Mér hættir til að kaupa allan fjandann með það fyrir augum að tapa kílóum, hver hefur svo sem ekki farið á sítrónukúrinn, þar til glerungurinn var við það að falla í frjálsu falli af tönnum. Ég prufaði Skarsdale. Ég svaf nokkrar nætur í svörtum plastpoka til að tapa vatni...(ekki gott þegar síminn hringdi um miðja nótt og ég gleymdi að ég væri í ruslapoka) Herbalife, plástrar! já einmitt þeir taka þetta yfir nóttina segja þeir sem selja, eina sem ég varð vör við að ég grenntist um 0,002 míkrógrömm, eða sem svarar þyngd plástursins þegar ég reif hann af.

Ég sá auglýst í heilsuræktinni minni. SOGÆÐANUDD sem mundi losa mann strax við 1.5 kg. ég hentist að borðinu æst og rjóð í kinnum svo ég mundi nú ekki missa af þessu og pantaði strax 3 kg. þ.e. 2 nuddtíma. 

Nú mér var sagt að fara úr öllu (ég fékk það svo staðfest hjá vinkonu minni síðar sem hafði farið að svo átti að gera) Öllu spurði ég aum, en ég er ekkert sérlega spennt að vera ber hjá einhverjum nuddgæja. Já öllu sagði stúlkan í afgreiðslunni, en farðu í þenna slopp og þessa "flippflopsa" eða hvað þeir nú heita skórnir sem eru eins og bréf.

Hálf berskjölduð kom ég að nuddstofunni, og nuddarinn var pólskur (ekki fordómar, er svo sem sama hvort nuddarar séu færeyskir, Búrmískir bara ef ég skil þá og þeir mig.)

Lei dán on jor stommek" sagði hann og ég lagðist varlega með 2 handklæði yfir mér eitt yfir baki og annað yfir neðrihlutanum. Ég var nú ánægð með það. Svo byrjaði hann að nudda og nuddaði með þvílíku offorsi að ég fékk samstundis legusár eða núningssár á hnén og svo þeyttist handklæðið af bakinu og lenti á gólfinu.

Ég hélt hinu með annarri hendinni og hina þurfi ég að nota til að fleygjast ekki útaf bekknum. Ég er nú langt því frá að vera eitthvað fis, en önnur höndin dugði ekki svo ég þurti að sleppa handklæðinu á neðri helmingnum og þá segir vinurinn: "where is the other towell?" (hélt hann að ég hefði stungið því í vasann sem ég var ekki með) I don´t know mjálmaði ég ámátlega, en þó feginn að hann sleppti löppinni sem snöggvast. "Where did you put the towel?" Maybeonðeflor sagði ég lágt og leið eins og ég hefði verið að fremja glæp.

Hann var nú frekar móðgaður og sótti handklæðið og henti því á bakið á mér og ég notaði báðar hendurnar til að halda meintum handklæðum á baki og rassi. Nú fékk ég þó bara sár á olnbogana eða nuddsár, þar sem ég var alveg stíf af kvölum.

Aumari en allt sem ég hef áður upplifað, skjögraði ég niður af bekknum, eftir nuddið og hugsaði (AFPANTA NÆSTU KG/NUDD) öll í sárum og rauð á lærum og fótum, sem átti eftir að breytast í svart mar. Vindur ekki vinurinn sér að mér og sagði í  pirruðum tón. Next tim not so naket please!!!!Wott var ég að brjóta af mér?? Var ég í falinni myndavél? . Ég vældi áfram ámátlega að stelpurnar hefðu sagt mér að fara úr öllu. Kannski ég fari í nærbuxum næst svo ég geti nú stolið handklæðunum báðum. Eða verður næst? Held ekki! Ég held ég sé alveg að ná mér að nuddmeiðslunum hálfu ári síðar, en fæðingarkílóin eru nú enn á sínum stað enda dóttirin bara 27 ára, kannski ég fái mér bara plástur aftur.

 

 


Kókhaldari veit fólk hvað það er???

Ég er meðvirk, hef svo oft rekist á það, hef alveg reynt að fara og "afmeðvirkjast" en svo koma svona atvik sem ég bregst við eins og ég ætti ekki að gera ef ég hefði alveg stjórn á meðvirkninni, sem mér finnst reyndar reglulega leiðinlegt orð.

Ég var með saumaklúbb, þegar berlega kom í ljós hversu meðvirk ég var, en ég fékk símtal um tíuleytið og svaraði eins og ekkert hefði í skorist: "já gott mál elskan þú kemur þá bara heim, þegar búið er að skera þig úr bíóinu" svo settist ég bara og ætlaði að fara að spjalla. Stelpurnar vildu nú fá að vita hverju þetta svar mitt sætti. Ég sagði þá bara að "skaðræðið" sonur minn væri fastur í sætishöldu í bíói og verið væri að bíða eftir slökkviliðinu með klippur til að ná honum úr sætinu.

kiddi_glaepur.jpg

Þær horfðu á mig eins og ég væri viðundur og sögðu að þeirra börnum seinkaði, af því þau misstu af strætó, þá sló það mig já ég er meðvirk eiginlega kannski mjög svo. Mér fannst þetta nefnilega svo eðlilegt.

Skaðræðinu sagðist svo frá: Hann hafði prufað að setja höndina í kókhaldarann í Regnboganum, eftir áskorun frá vini sínum, en hann náði ekki að losa sig aftur. Starfsfólkið var allt komið til hjálpar og ein stúlkan sagði að þetta hefði gerst einu sinni áður, en hún mundi ekki hvað var notað til að losa hann, en þá segir "Skaðræðið" þá var notuð poppkornsolía. Já varst það þú líka þá? spurði stúlkan. Jebb var svarið, en þá fékk ég ekki að eiga "kókhölduna" heldurðu að ég megi það núna?

Nú var komið langt fram yfir áætlaðan bíótíma og bíógestir beðnir að sýna biðlund, þar sem barn væri fast í sætinu, og beðið væri eftir slökkviliðinu með klippur til að klippa sætið og fara með strákinn fastann með sæti á hendinni út, svo hægt væri að hleypa gestunum inn í salinn.

Það þurfti síðan að saga "kókhölduna" af sætinu og skera alveg að hendinni, sem slapp furðu vel, enda "kókhaldan" mjög þykkt plast. 

Það var tekin mynd af "Skaðræðinu" hún hengd upp í miðasölunni (hugsanlega víti til varnar) og hann fékk að eiga kókhölduna sem er algert "prýði" hérna á heimilinu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband