Meðferðarúrræðin á Íslandi

Ég birti þessa grein fyrir stuttu í Kvennablaðinu og ákvað að setja hana hérna á bloggið, þar sem von mín er sú að hún hugsanlega lendi hjá ráðamönnum þjóðarinnar og þeir átti sig á að þetta er EKKI í lagi að hafa ekki nægjanleg úrræði fyrir þá sem eru það veikir að þeir eru hratt og örugglega að drepa sig.

það er ekki það auðveldasta sem móðir gerir, að skrifa um það að eiga son sem er fíkill. Það er erfitt að horfa uppá eymdina og lifa hana á eigin skinni, full vanmáttar sem fylgir því að vera foreldri fíkils. Ég er bara svo sorgmædd yfir því að hann fái ekki þá hjálp sem hann þarf.

Í samfélaginu læknum við sjúklingana okkar og við sem fjölskylda viljum ekki horfa aðgerðarlaus uppá barnið okkar kveljast. „Sonur minn er ekki illur maður“ segir Bubbi m.a. í texta í lagi sínu Syndir feðranna, ég tek undir það – sonur minn er ekki illur maður, en hann er mikið veikur, gerir margt sem við samþykkjum ekki í þjóðfélaginu og þarf hjálp og jú vissulega hefur hann farið í meðferð inná Vog í yfir 20 skipti.

Nú eru væntanlega margir sem hugsa: „Svona fólki er ekki viðbjargandi,“ en hann er sonur minn og ég elska hann eins og þið öll elskið ykkar börn, hann er bara mikið veikur og geti ég hjálpað mun ég gera það og geri mitt besta.“

Vilji hans til að þiggja meðferð gefur manni samt von. Guð minn góður hvað það er samt erfitt að geta ekki hreyft legg eða lið til að koma honum inn á einhvern stað til að hann fái þá hjálp sem hann þarf.

Ég ætla ekki að tíunda í þessari grein það sem ég hef reynt í baráttu minni fyrir betra lífi fyrir hann en þó það að ég hef keyrt hann um nótt í fangageymslur og látið loka hann inni þar til að lögreglan gæti farið með hann á Vog, en þeir eiga þar pláss af og til fyrir einn aðila.

Ég hef farið með hann á Slysó (eins og við köllum það) og reynt að fá hann lagðann inná geðdeild, en hann var ekki í geðrofi og þar af leiðandi ekki innlagnarhæfur, en minnstu munaði að ég færi í geðrof af reiði yfir því hversu máttlaust þetta blessaða heilbrigðisbatterí okkar er. Þá nótt keyrði ég hann í Laugardalinn í tjald sem hann bjó í þá og það var ekki ljúf nótt hjá mér.

Núna er hann búin að vera á biðlista hjá Vogi síðan í janúar og það eru fimm mánuðir. Margir hljóta að hellast úr lestinni við þessa bið og hreinlega deyja, því eins og í tilfelli sonar míns, þá versnar ástandið sem hann býr við með degi hverjum. Hann er búin að vera á götunni núna í einhver tíma og staðan í dag er eftirfarandi: Hann er kominn með pláss innná Hlaðgerðarkoti, en þarf að afeitra sig í 10 daga áður.

Hvað er þá til ráða fyrir mann sem býr á götunni. Jú, hann biður mömmu sína um að afeitra sig.

Ég talaði við fagaðila, og mér var sagt að ég ætti að verða mér úti um eitthvað lyf sem heitir ‘librium’ og afeitra bara krakkann. Já, já bara svona einhendis.

Mér þykir við ansi aftarlega á merinni með meðferðarúrræði – að það sé lagt í hendur mæðranna að afeitra fárveika fíkla – sem vita oft ekki í þennan heim eða annan.

Ég er enginn sérstakur nagli og langar ekkert að vera það, en ég get barist með kjafti og klóm og það ætla ég að gera. Ég er skelfingu lostin og finnst ég ekki ráða við þetta verkefni, er ein með hann hérna og hann hlýtur að fara að fara í fráhvörf.

Fagaðilinn sem ég talaði við benti mér á að fá ‘librium’ hjá heimilislækni mínum, en það tekur minnst viku að ná símasambandi við heimilislækna í dag. Fer ég með hann á læknavaktina? Hringi ég á sjúkrabíl ef hann fer í hjartastopp og fær hann þá hjálp eða verður hann látinn bíða, þar sem hann er ekki í forgangi?

Ég hef horft uppá unga fíkla og fordómana sem þeir fá á LHS en eflaust bara frekar af hræðslu við þá, eða vanþekkingu, ég skil það vel, ég er alveg á þeim stað sjálf núna.

Þarf ég að vakta hann? Já, heldur betur, ég þori ekki út úr húsi og er eiginlega bara orðin fangi heima hjá mér. Ég treysti ekki langt gengnum fíkli í neyslu sem er fastur í líkama sonar míns og ég þekki ekki og veit ekki hvers er megnugur í þessari hörðu neyslu.

Mamman blindast alltaf mest, því hún sér bara litla ljóshærða soninn með englaásjónuna á koddanum, en ekki harðgerðann fíkil sem hefur gert hluti sem mömmur vilja hreint ekki vita af.

Ég veit raunverulega ekkert hvað ég geri í stöðunni ef hann fær kast eða hvernig sem hegðun hans kann að verða þegar fráhvörfin fara að birtast. Ég segi: Við verðum að efla þetta meðferðarbatterí okkar svo við missum ekki börnin okkar í gröfina fyrir aldur fram.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: www.zordis.com

Maður spyr sig.

Einstaklingar sem eru sjúkir þurfa aðstoð og "við" þjóðfélagið verðum að bregðast við.  Það hlýtur að vera hagkvæmara fyrir hag þjóðar, hjarta sálar og líðan sjúklings að fá að fara í þá meðferð er sæmir hverju sinni.

Ísland þetta frábæra land er bara skammsýnt á eigið ágæti, samt erum við heimsmeistarar í öllu.  Best í öllu, nema kanski að gæta og hlúa að hvort öðru.

Minni máttur er EKKERT kúl í íslensku samfélagi, hneisa sem við viljum ekki láta í ljósi.

Fíkn, elli og öryrkja ....  Dásamlega rangt val með íslenska ríkisfanginu.

www.zordis.com, 16.5.2017 kl. 23:25

2 Smámynd: Guðlaug Björk Baldursdóttir

Segðu Zordis mín, þetta er aldrei skoðað til hlítar, hvað kostar t.d. að fá sjúkrabíl með lögreglufyld á heimili, ég vildi óska að ég hefði farið með börnin mín í annað land á sínum tíma, en maður getur verið vitur eftirá og vissi kannski ekki að svona óstjórn yrði í þessu annars dásamlega landi okkar árið 2017. Skammarlegtfrown

Guðlaug Björk Baldursdóttir, 17.5.2017 kl. 04:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband