Færsluflokkur: Bloggar
5.12.2013 | 01:37
Engin jólauppbót fyrir atvinnulausa.
Æðislegt að fá svona skemmtilegar óvæntar fréttir í desemberbyrjun. Ný ríkisstjórn nýjar hefðir. Engin jólauppbót fyrir þetta atvinnulausa lið. Hvað er málið? Engin desemberuppbót af því að við erum ekki að vinna og þar af leiðandi þurfum við ekkert? Ég spyr er einhver þarna úti á atvinnuleysisbótum sem finnast þær svo háar að viðkomandi "nenni" ekki að fara að vinna? Viðkomandi gefi sig fram, ég þarf að ná tali af honum.'
Við sem höfum ekki fengið vinnu aftur eftir hrun, þar sem við höfum starfað við banka og fjármálastofnanir og þar er ekki fjöldaráðning í gangi. Við erum ekki að stunda kaffihús og barina villt og galið og ég held alveg að við mundum þola þessar auka 50 þús. fyrir skatt án þess að leggjast í "sukk" með allt þetta fjármagn í höndunum. Ég meina það, það er enga von að finna og engar lausnir, ekki fyrir okkur verst settu sem erum búin að missa húsnæði vegna atvinnumissis, ég tel að ég hafi skilið þá félagana Sigmund Davíð og Bjarna Ben. að allir fái ekki leiðréttingu á sínum málum, og að mínar bætur vegna verðtryggðu lánanna frá 2005 sem ég hef greitt af þær renni til eiganda íbúðarinnar í dag eða bankans í mínu tilfelli, já þær fara frá gamla bankanum í formi skatts til nýja bankans. Er ég fífl ef mér finnst þetta ekki í lagi? Ég greiddi þó þessar verðbætur, árið 2005, 2006, 2007 og 2008, þá varð hrun og þá fór að halla undan fæti.
Ég fer í jólaköttinn í ár og gef skít í alla jólabónusa, þarf engan, enda duga 153 þús. vel fyrir öllu jólastússi eða hvað haldið þið?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Já þetta hljómar eigingjarnt, en ég spyr bara, hversu lengi þarf að bíða eftir að nefnd skili áliti á skuldamálum heimilanna, bíddu hefur eitthvað breyst sem við vissum ekki um, er þetta ekki búið að vera vitað að heimili í landinu væru á síðustu metrunum í eigu okkar, áður en þau verða keypt upp af sjóðum og þeim sem eiga fyrir kaupum nokkrum blokkum í einu, löngu áður en ný stjórn tók við og já fékk þessi stjórn ekki atkvæði út á það eitt að ætla að ráðast í skuldavanda heimilanna. Nei úps sorry fyrst þurfti nú að klára að lækka veiðigjöldin. Sef nú rólegri af áhyggjum vegna útgerðarinnar.
Ég spyr einmitt hvað verður um mig og mína líka, ég er komin á þann aldur að ég flokkast ekki undir vinsælt vinnuafl og þar sem ég hef starfað alla mína tíð á banka og fjármálamarkaði, þá er ekki um auðugan garð að gresja, þar sem æskudýrkun er meiri á þeim markaði en annarsstaðar, enda á reynsluleysi stjórnenda þátt í stöðu bankamála hér á landi í dag. Þrátt fyrir að ég hafi menntað mig á öðru sviði í atvinnuleysinu, þá er það nú eins og einn vinur minn sagði einhverju sinni:"þegar maður er komin uppí skóstærðina sína í aldri, þá er maður ekki með sem vinnuafl" og er ég komin 19 árum fram yfir mína skóstærð í dag.
Nú er ég búin að vera brátt atvinnulaus í 3 ár, eða frá 2008 og er því að detta útaf atvinnuleysisbótunum eftir nokkra mánuði, þar missi ég mitt fastaland og tekjur útgreiddar kr. 153.000.- hvað er þá til ráða? Fara á bæinn eins og kallað var í gamla daga, þ.e. sækja fjárhagsaðstoð til Garðabæjar, sem ég er svo "heppin" að tilheyra, en þeir hins vegar áskilja sér þann rétt að greiða aðeins helming af reiknuðum framfærslukostnaði eða rétt undir 70 þús kr. á mánuði. Hver vill leigja mér fyrir þann pening. Í alvöru hefur aldrei verið hugsað út í það eftir hrun, með að allt þetta fólk sem fer að birtast með sín sjónvörp og ísskápa út á götu. Hvert eigum við að fara? Tjalda með Hraunvinum eða hvað fara bara á götuna? ég spyr þar sem ég hef enga hugmynd um hvað verður um mig, eftir að hafa alltaf bara unnið eins og venjulegur íslendingur svona 120% vinnu, komið börnum mínum á legg ein og óstudd eins og það er nú oft um grýttan veg að fara, ég spyr hvernig endar líf manneskju sem bara hefur farið að reglum samfélagsins og er að upplifa ótta þess heimilislausa innan tíðar, en mitt heimili fer á uppboð fyrir jól. Já takk aftur frábæru gaurar...ég kýs ykkur örugglega næst.........
![]() |
Skuldamálin ekki kláruð fyrir jól |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.9.2013 | 12:03
Hvað Virk gerði fyrir mig!
Virk er snilldarstofnun, sem ég var svo lánsöm að frétta af, þegar ég var búin að vera atvinnulaus í einhvern tíma, en ég er ein þeirra heppnu sem hef getað nýtt mér þeirra aðstoð undanfarin ár, en ég hef verið atvinnulaus meira og minna frá 2008, og það hefur ekki góð áhrif á mann að vera atvinnulaus til lengdar.
Hjá Virk er hins vegar frábær hópur fólks með mikla reynslu og þekkingu í að byggja upp brotið fólk, en maður brotnar óhjákvæmilega bara við það eitt að missa vinnuna, þó svo maður viti ekki framhaldið, sem er einskonar rússíbanareið í leiðindum er maður fer að hætta að standa í skilum og hefur ekki kost á því að standa við þær skuldbindingar sem maður gerði á tímum, er maður hafði laun og heilsu. En heilsan er nú ekki sjálfgefin, því eftir langvarandi óvissu og kvíða, þá gefur sig eitt og annað í líkamanum.
Fyrst eftir atvinnumissinn leit ég nú bara á það sem kærkomið frí, enda aldrei fengið svona langt launað frí og alltaf unnið miklu meira en bara 100% vinnu, þannig að ég var bara sátt. Ég skellti mér í langþráð nám og ætlaði svo bara að sigra heiminn með nýja þekkingu að vopni.
Lífið var nú ekki svo einfalt, eftir leit að vinnu í heilt ár, þá fer sjálfsmatið að brotna og kvíðinn að taka völdin, þar sem ég hef verið skilvís fram að þessum harmleik sem ég kýs að kalla það að missa vinnuna og umslögin frá Motus og Intrum streymdu inn um lúguna, var staðan orðin þannig að ég þorði ekki að opna póstinn, og þá varð ég nú að gera eitthvað. Ég fór til þeirra í Virk og var strax send á sjálfstyrkingarnámskeið. Send í Kvíðameðferðarmiðstöðina KMShttp://www.kms.is/ og fór ég þar í viðtöl hjá Helenu Jónsdóttur sem ásamt Kristbjörgu Leifsdóttur hjá Virk hafa algerlega bjargað lífi mínu,með þeim hætti að vera mínar stoð og styttur og hamrað á því við mig að ég kom mér ekki í þessa aðstöðu sjálf og þannig slegið á samviskubitið sem mann nagar, því jú þegar vinir og fjölskylda hafa skrifað uppá ábyrgðir fyrir mann og ég ekki í samningastöðu vegna lágra launa. Gott að heyra frá öðrum að ég sé ekki með einbeittan brotavilja gagnvart lánadrottnum og ég hafi ekki stjórn á þessum aðstæðum sem ég er í núna, heldur séu þær tilkomnar vegna stöðu í þjóðfélaginu og ekkert sem ég get gert, nema að hugsa um framtíðina og reyna að koma mér á þann stað í lífinu að ég óttist ekki nýjan dag.
Hef náð að bjarga bílnum mínum úr klóm tryggingarfélagsins, en ég skuldaði tæplega 10% af upphaflegu skuldabréfi sem á honum hvíldi og fékk að kaupa hann af tryggingarfélaginu á verði eftirstöðva bréfsins. Svo þar var mér létt á alla vega bílinn minn gamla og góða. Svo er að finna út hvað er til ráða er íbúðin fer á uppboð, en það er alla vega seinni tíma vandamál og það hef ég lært að vera ekki að velta mér upp úr einhverju sem ég ekki fæ breytt...leita frekar af leiguíbúð með vetrinum.
Þetta hafa þær hjálpað mér að gera, með því að einangra vandann og halda utan um það sem ég fæ breytt, sleppa hinu og nú er ég búin að fá fyrri krafta og heilsu og stend styrkum fótum við atvinnuleit, enda í góðum höndum hjá Virk.
Vil benda fólki í sömu stöðu og ég að gefast ekki upp, heldur bara fá hjálp. Tala við fólkið í Virk, sem er að vinna í þessum málum alla daga. Ég er alla vega á betri stað í dag, en þegar ég byrjaði hjá Virk og vil þakka þeim stuðninginn, og skilninginn á stöðu minni og met að þær sleppa ekki af mér hendinni strax.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.9.2011 | 14:41
Gæludýr fjölskyldunnar
Börnunum mínum langaði alltaf að eignast gæludýr þegar þau voru lítil, sérstaklega langaði þeim í hund, en á tímabili vildi dóttirin flóðhest, en ég var svo "heppin" að þau voru bæði með ofnæmi fyrir hundahárum og já fyrir kattarhárum líka, þannig að það varð fljótt úr sögunni.
Þar sem suðað var á hverjum degi, þá lét ég undan einhverju sinni, þegar dóttir mín fékk í afmælisgjöf hamstur í búri með öllu tilheyrandi, sérstaklega þar sem þau höfðu orðið uppvís að því að eyðileggja heilt hreiður í sumarbústaðnum hjá afa og ömmu, til að eignast sitt eigið gæludýr.
En afi hafði verið að sýna þeim þrastarhreiður og hvernig mamman sæti á eggjunum til að unga þeim út, sagði þeim að fara mjög varlega til að styggja ekki mömmuna, því hún yrði að vera stanslaust á eggjunum, svo úr þeim kæmu ungar.
Einhver styggð komst á þröstinn og flaug hann af hreiðrinu, svo "Skaðræðið" tók á það ráð að "bjarga" komandi ungum með því að skella þeim í rassvasann á systur sinni, og slá þannig 2 flugur í einu höggi. þ.e. bjarga ungunum og eignast gæludýr. Síðan hrinti hann systur sinni lauslega, til að hún mundi setjast á eggin og unga "gæludýrunum" út sem fyrst.
Kemur svo dóttirin hágrátandi öll í eggjarauðu og sagði að bróðir sinn hefði hrint sér. Afi varð öskuillur og húðskammaði "Skaðræðið" en hann bar því við að hann hefði nú verið að bjarga þessum ungum og þar sem alltaf væri verið að klifa á því að litla systir hans væri svo létt, þá var hann ekki að átta sig á því hvernig hún braut eggin. Ekki varð úr fjölgun í fjölskyldunni þarna svona "dýralega" séð.
Þegar dóttirin varð 4. ára fékk hún sem sagt hamstur í búri að gjöf frá "velviljuðum" fjölskyldumeðlim og nú tók við skemmtilegur tími, með tilheyrandi flandri uppá dýraspítala. "Skaðræðinu" fannst óskaplega gaman að fara hratt og áleit að sjálfsögðu að Snúlli hamstur væri sama sinnis.
Þannig að nú skyldi gera vel við hamsturinn og í þeirri tilraun var Snúlli litli settur uppá leikfangamótorhjól sem var upptrekkt og fór á ógnarhraða um alla íbúðina með Snúlla stjarfan á hjólinu. Ferðinni lauk svo á vegg , með þeim afleiðingum að Snúlli missti eina tönn og ég er ekki frá því að hann hafi fengið einhverja höfuðáverka, því hann fór að hegða sér mjög undarlega.
"Skaðræðinu" þótti þetta mjög leiðinlegt, og ætlaði að kanna með mótorhjólahjálma á hamstra fyrir næstu ferð hans. Snúlli varð nú mjög árásargjarn og reyndi að naga sig út úr búrinu með þessari einu tönn sem eftir var og nagaði allar snúrur í sundur sem hann komst í og ég lenti í rafmagnslosti oftar en ekki, þegar ég var að taka úr sambandi græjur á heimilinu. Tönnin óx þó og ég fékk ekki Dýraverndunarsamtökin á mig, enda hvarf mótorhjólið á einhvern dularfullan hátt og Snúlli lifði lengi vel eftir þetta.
Hér eftir setti ég mörkin við gullfiska, en þá hafði verið gerð tilraun til ánamaðkaræktunnar, Kanína var fengin á heimilið um tíma og loks páfagaukur og svo síðast nokkrir gullfiskar og ekki verða fleiri dýr á mínu heimili svo mikið er víst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.9.2011 | 23:53
5 landa sýn á einum degi!
Ég ákvað hérna um árið að skella mér í nám til Genóva á Ítalíu og fór glöð og reif að heiman með útprentun úr "Gúggul örþ" leiðbeiningar, en þar sem ég er nú svo vel áttuð (algerlega eigin hugarórar) þá ætti ég nú að geta ratað.
Ekki veit ég af hverju ég hef alltaf talið mig með innbyggt GPS, því það er svo fjarri sanni. Geta fjölskyldumeðlimir ekki sagt annað mér til hróss að þeir hafa nú fengið að kynnast Mallorca betur en þeir hefðu viljað eins og t.d. á leið frá Cala'dor í miðbæinn sem tekur uþb. korter, en ekki með minni hjálp (tókum Palma leiðina á þetta) eftir hraðbrautinni með nokkrar fjölskyldur af hótelinu með okkur, þar sem menn eru svo almennilegir og hjálpfúsir. Ferðin tók 3 klukkutíma og 45 mínútur og fólk var svangt og úrillt. Ákvörðun var tekin ég mun ekki hjálpa fólki að rata aftur, Vanþakkláta pakk!
Þetta er nú ekkert ljótt útsýni þarna í Cala´dor
Sem sagt þennan dag lagði ég af stað frá Íslandi til Stokkhólms, þar sem ég tók Sasvélina til Mílanó og þaðan er um tveggja klukkustunda keyrsla til Genóva.
Glöð og reif og sjálfstæð kona sótti bílaleigubílinn og afþakkaði pent GPS, með "ég er nú meðetta góurinn" svip.
Ég hélt nú til Genóva upprifin af þessari hugmynd minni, að hafa skellt mér ein í nám, gaman að hlusta á Ítalska músík og renna eftir hraðbrautum Ítalíu.
Það eina sem skyggði á gleði mína og hamingju var að ég fékk leigðan Fiat Punto sem var beinskiptur (óskiptanlegur á köflum) Ég keyrði því ekkert mjög hratt og skildi ekki í fyrstu hvað margir flautuðu á mig, en ekki gat ég gert að því að ég komst ekki hærra en í 3. gír, (hinir gírarnir örugglega bilaðir) auk þess þurfti ég nú líka að lesa á google earth útprentunina mína fínu.
Þetta var ekkert mál, ég elti Gen...eitthvað alveg örugg með mig, fór inná hraðbraut og útaf hraðbraut, en þegar ég sá sama betlarann 3 tímum eftir að hafa séð hann fyrst, fóru nú að renna á mig 2 grímur. Er verið að elta mig? Ég hugsaði með mér eru svona Roadcrimes bara í Florida? Örugglega ekki!. Ég teygði mig í veskið og hélt á því, ætlaði nú ekki að láta kippa því úr framsætinu, þar sem náttúrulega engin læsing var á þessum bíl (væntanlega samsæri milli þessarra glæpona sem þóttust vera að betla og bílaleigunnar) gott ég sá við þeim áður en þeim hafði tekist að ræna mig og drepa og henda mér útí vegakant .
Ég og Puntoinn keyrðum uppímót í ansi langan tíma og ég mundi jú að Genova er niður af hálendi, en fjandinn hafi það, svo kom skilti "Lake Como" ha hvað er það nú að ger hérna hugsaði ég, já ætli þetta sé ekki bara auglýsing (farið endilega héðan til Comovatns).
Nú lenti ég í langri bílaröð og hugsaði með mér. "Genóva svona vinsæll staður! Gaman" en svo kom hermannaklæddur dáti að mér og sagði: "Willkommen zum Sweitzerland" Wott! but I´m going to Genova sagði ég móðguð. Ja bitte, das ist nicht hier! Hann bauð mér að snúa við á torginu og fara til Ítalíu aftur og keyra í hina áttina. Hvað eru þessi lönd líka að vera með svona nánast eins nöfn...Genóva, Genive!
Ég elti nú alveg rétt skilti Genóva enda ekki hægt að elta Genive, þar sem ég var á leið þaðan! Nú var farið að rigna og dimman hvolfdist yfir mig, og ég beið bara eftir ráninu á mér og bílnum, sem hlaut að fara að skella á (hafði nú samt væntanlega aðeins hægt á glæpagenginu með því að skella mér til Sviss) en þar sem hraðbrautirnar eru ekki upplýstar þá var eina sem glitti á í þokunni eldflugurnar sem ég er nú ekki sérstaklega hrifin af. "Paranojan" alveg í hámarki, því ég var viss um að þær væru að reyna að komast inní bílinn,( ekkert smá eftirsóttur bíll).
Í þessu hringir dóttir mín, þar sem ég var alveg að bugast og langaði bara heim, týnd í ölpunum með mafíuna á hælunum (þegar þarna var komið var það alla vega mafían) og sagði ég grátandi við hana, bíllinn er ólæsanlegur og ég held ég sé í lífshættu. Róleg mamma mín sagði hún og minnti mig á það þegar hún fór til Grikklands í sjálfboðavinnu hversu skelfilegt henni hefði þótt fyrsta kvöldið en hvernig allt hefði svo lagast í sólinni daginn eftir. (Ég mundi nú væntanlega ekki lifa svo lengi hugsaði ég, en sagði ekkert).
Ég kom svo að fjallsbrúninni uppúr miðnætti og þar sem Genóva tók á móti mér upplýst og falleg. En hvar skyldi nú hótel Helvetia vera, ég var nú ekki með það útprentað, hélt að ég mundi nú bara finna torg og þar væri það, en ok sá það að Genóva er stórborg! Ok ég var svöng og ég var þyrst og í lífshættu og sá Hótel Hilton blasa við, keyrði þangað í einum rykk, en lenti á bak við hótelið (mjög miklir ranghalar í þessari borg og allt einstefnugötur).
Með engan bakkgír (já já sjálfsagt gleymst að setja hann í bílinn!!enn önnur vísbending um samsærið gegn mér, ætli bremsurnar virki nokkuð?) neyddist ég til að keyra yfir nokkra plastruslagáma og þar spratt upp allskonar fólk eins og gorkúlur sem var greinilega búið að koma sér fyrir til hvíldar fyrir nóttina.
Ég drap engann, en fékk símtal frá systur og þar sem ég æpti móðursýkislega í símann ég er að keyra á fólk og gáma og það er verið að elta mig. Róaðu þig, var sagt frá Íslandi, andaðu djúpt (já þau geta sagt það öll á lífi og verða á lífi næsta dag eitthvað annað en ég) farðu að anddyrinu. (auðvelt að segja það, en verra að finna leiðina að því).
Ég renndi svo upp að anddyrinu, lagaði aðeins hárið sem hafði ýfst smá í rakanum (eða var eins og hárið á Jimi Hendrix) vafði veskið um höndina og tók ferðatöskurnar með mér inn og bað stúlkuna í gestamóttökunni að panta fyrir mig leigubíl. Hún horfði á mig og síðan á Puntóinn."Si si" sagði hún, for you and the car? Yes sagði ég ekki laust við smá móðgunartón í röddinni og horfði á hana hugsa: "hvurn fjandann er svona ljóska að ferðast ein um miðja nótt vitandi ekki neitt í sinn haus" Ég gekk hnarreist út, eins og þetta væri daglegt brauð hjá mér að panta leigubíl til að vísa veginn.
Ég elti að Hótelinu við Piazza della Nunziata. Ég fékk grátkast við komuna þar. Þetta var ljótt herbergi og hér ætlaði ég ekki að búa. Engar svalir til að sitja á og fá sér hvítvín, svona rétt meðan menn voru að læra. Ég ætla heim á morgun, ákvað ég. Það breyttist daginn eftir þegar ég sá borgina í sólarljósi og ég var bara nokkuð stolt af því að hafa farið á einum degi: Ísland/Svíþjóð/Ítalía/Swiss og aftur Ítalía.
Bloggar | Breytt 23.9.2011 kl. 00:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.9.2011 | 13:09
Samband bíla og konu
Bílar eru fyrir mér bara svona "þægindargræja" til að komast milli staða og skilgreini ég þá annað hvort sem græna, svarta nú eða rauða sem sagt eftir litum. Ég er ekkert að velta því fyrir mér hversu mörg "kúbikk" þeir eða eru eða þannig hlutum.
Eftir að ég varð einhleyp og mitt hlutskipti varð að fara með minn bíl á verkstæði og átti kannski erfitt með að lýsa nákvæmlega hvar eitthvað hljóð kom (fyrir aftan farþegasætið??) þá kannski eðlilega fannst mér ég meðhöndluð eins og fáviti og fékk á tilfinninguna að bifvélavirkinn hugsaði: " já já þessi kallinn LJÓSKAN ganga þær nú nokkuð á öllum ætli það sé ekki bara rúðuþurrkurnar sem þarf að skipta um og þá þegir hún, ekkert að þessum bíl"
Jæja ég er kannski ljóshærð en ekki heiladauð, svo ég tók á það ráð í hvert sinn sem ég fór með öldruðu Toyotuna mína (lesist: hvítur bíll) að spyrja hvað hefði nú verið að. Ég eignaðist nýtt orðasafn, svona eins og jú jú kúplíngin er nú að gefa sig, viftureimin er slök, hljóðkúturinn götóttur og eitt orð sem átti eftir að breyta lífi mínu "spindilkúlurnar".
Með þetta orð í farteskinu voru mér allir vegir færir, ef ég fór á verkstæði, þá sagði ég gjarnan: "það er eitthvað að og ég hallast að því að það séu spindilkúlurnar" það passaði verkstæðismaðurinn hofði á mig með aðdáun. Þarna fór kona með þekkingu. Ég fullyrði að bílaviðgerðareikninarnir mínir snarlækkuðu með þessari nýtilkomnu þekkingu minni. Já það er gott að vera klár.
Einu sinni sem oftar er ég stödd á Ítalíu og er að keyra í Toscana á leið minni til Flórens, þegar ég varð vör við að það kom gífurleg þoka allt í einu, og heyrðist rosalegt hljóð undan Ford Focusnum (ég veit það núna á eins bíl í dag). Ég var ásamt nokkrum systrum á ferð og þær sögðu mér að það kæmu eldglæringar undan bílnum (sjálfsagt laust púströr) en þokuna gat ég ekki skýrt því hún var bara í kringum minn bíl.
Ég fann verkstæði og sagði mágum mínum að ég skildi bara annast þetta, væri búin að taka námskeið í ítölsku og ég væri bara góð í þessu. Ég ætlaði nú ekki að láta einhvern Ítala plata mig íslensku ljóskuna, sem vissi nú eitt og annað um bíla.
Macchina Rotto (ónýtur bíll) sagði ég við manninn á verkstæðinu. Si si sagði hann, en hvernig segi ég nú spindilkúlur á ítölsku (það var EKKI í bókinni, muna kaupa bók á ítölsku um viðgerðir bíla). Ég ákvað því að reyna enskuna hmmmmmm: I think the "SPÆNDELBALLS" are broken byrjaði ég, hann varð ekkert hrifin og sagði: No capisco og ég reyndi aftur "IL SPJUNDELBALLINO" ?? (enginn hrifning) No capisco sagði hann og hristi hausinn. Vesen nú fyrst hann vildi ekki hjálp, þá varð hann bara að finna út úr þessu sjálfur.
Þetta endaði vel, það vantaði víst bara vatn á vatnskassann (Aquakassino???) og púströrið var laust (vissi það nú) en hvernig ætli maður segi púströr á ítölsku?????
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.9.2011 | 10:25
Ég mun aldrei giftast Kínverja!
Þegar menn eru atvinnulausir í lengri tíma, virðist sem sem maður stirðni upp víðast hvar, ég meina af hverju er ég með vöðvabólgu? Ég þarf að komast í nudd. Kínverskur nuddari? Nei takk!
Ég er ekki með fordóma, en kínverskur nuddari kemur ekki til greina! Ég lenti í því að fá illt í annað hnéð, þar sem ég hafði farið á bananabát á ströndum Spánar ásamt systrum mínum og verið hent af viðkomandi banana með þessum afleiðinugm. (vildi ég gæti sagt að það hefðu tekið sig upp gömul íþróttameiðsl en svo er ekki).
Ég fór til kínverja sem átti að töfra mig i lag á örskotsstundu, reyndi að útskýra hnjámeiðslin. Hann sagði þá: "Signola Signola úl födunum og sú liggja hénna á maga. Ég hlýddi og viti menn, stekkur þá ekki uppá bakið á mér þessi fullvaxni Kínverji og byrjar að rölta um bakið á mér. Ég hef væntanlega stífnað eitthvað upp (mjög óvön fótgangandi fólki á baki) því hann nánast gargaði á mig: "Slappadaf, slappadaf, veltu ekki sonna sdýf. Ég róaðist. "Sonna Sonna já setta miklu bedla" sagði hann.
Svo þegar umferðinni hætti á bakinu sagði hann: "snúdu ther vid" og svo setti hann ljósalampa á magann á mér. (já örugglega mjög gott fyrir hnéð hugsaði ég).
Nú sú fín, fala heim og pissa mikid mikid og koma aftul bládum.
Já takk væni hugsaði ég og hugsaði með mér, hingað aftur? NEI finndu þér einhvern annan til að rölta á.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.9.2011 | 01:30
Fyrstu kynnin gleymast ei!
Ég var frekar rólegt feimið ungmenni, var bara í Versló, skemmti mér hæfilega, kynntist mannsefninu mínu sem við skulum kalla X þegar ég var á tvítugsaldrinum, eða barnung leyfi ég mér að segja.
Ég var sem sagt nýbúin að kynnast Xinu þegar hann bað mig að koma með sér til vinar síns og konu, sem bjuggu í foreldrahúsum vinarins. Þau voru með húsið á sölu og Xið ætlaði að hjálpa þeim enda smiður. Ekki málið sagði ég, en ég bíð í bílnum (feimin og svona). Ég beið og beið, að mér fannst heila eilífð, en þar sem sambandið var á byrjunarstigi sýndi ég ótrúlegt rólyndi, enda jafnaðargeðsmanneskja. (muna: venja hann af svona dónaskap síðar)
Svo fór þó að hann kallaði út og sagði mér að koma inn og slökkva á bílnum, en við vorum á mini couper bil mömmu hans. Slökkva á bílnum! Já væntanlega hefur hann meint taka lyklana úr og svona, sem ég gerði, en þá tók bíllinn undir sig stökk, og hentist yfir grindverkið sem var á milli mín og garðsins. Ég náði lyklinum út og kom labbandi með allan þann virðuleika sem ég gat miðað við aðstæður, með kúlu á enni, róleg og bein í baki (vel upp alin). Ég rétti Xinu lyklana og sagði svona útundan mér: " hann rann smá"
Pabbinn kom skömmu síðar sótrauður í framan og spurði Xið hvað bíllinn væri að gera útí blómabeðinu sínu og girðingin öll í henglum? Xið leit á mig og sagði: "hvað meinarðu með að bíllinn hafi runnið? Það er júlí!! ekki startaðir þú honum í gír?"
Ég þetta ljúfa sakleysislega man svaraði honum, ja ég veit ekki alveg hvort ég startaði honum, en ég náði ekki lyklinum svo ég sneri honum kannski smá, ég var svoldið titrandi í röddinni og við það að fara að gráta, en bílnum var bakkað úr blómabeðinu og Xið kippti girðingunni í lag, ég róaðist smátt og smátt og hélt áfram að vera settleg og pen og eins frambærileg og ég gat.
Foreldrarnir voru að fara í leikhús og okkur var boðið í mat og bjór og var ég nú ekki vön bjórdrykkju og örlítið trekkt eftir magnaða innkomu mína í líf þeirra, svo ég drakk ansi mikið og varð ég nú svona líka illa lasin, að ég kastaði upp á baðherberginu, í vaskinn, baðkarið og já á hurðina, sofnaði svo á gólfinu, enda þreytt eftir allt álagið og pressuna sem hafði verið á mér.
Þegar foreldrarnir komu heim var farið að leita að mér og þurfti að brjóta upp hurðina, þar sem ég svaf eins og engill, en mér var komið fyrir í rúmi foreldranna og farið með mig heim um nóttina.
Ég gat ekki beðið með að hitta þau aftur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.9.2011 | 15:36
Um sjálfa mig.
Þegar maður tekur ákvörðun að blogga og hleypa þar með fólki í líf sitt, finnst mér ég þurfa að skilgreina manneskjuna á bak við skrifin. Þar sem ég segist vera af óræðum uppruna, má ekki svo skilja að ég viti ekki hvaðan ég er, nei alls ekki. Ég á föður sem er hávaxinn, bláeygður og ljós yfirlitum og móður sem er alger andstæða þ.e. svarthærð, brúneygð með brúna húð, og er hún rétt rúmlega málbandið á hæð eða rétt um 150+cm ef vel er teygt úr henni.
Mamma mín er ættuð að austan og þar eru náttúrulega frönsku genin komin og er öll hennar ætt lágvaxin og svarthærð með brún augu og jú jú þennan líka svakalega fallega ljósbrúna húðlit.
Ég aftur á móti fékk dass af albínisma í mig, en það þýðir að ég er með gölluð litagen, ég er ljósrauð á litinn og albinóinn lýsir sér þannig að ég þarf að skilgreina hálsinn frá hárröndinni með því að teikna alla aukahlutina á mig sem virðast að öðrum kosti vanta í andlitið. Ég er samlit í framan og liturinn rennur útí eitt, þar til ég hef teiknað eftirfarandi: 2 stk. augabrúnir (verða oft mislangar og misbreiðar þar sem enginn litur er til að fara eftir) Augnahárin, hvít fyrir möskurun ef það orð má nota. Teikna svo varirnar og þá er ég komin. Flestir koma bara með þessa aukahluti með sér og þurfa aldrei að skilgreina svæðið milli hálss og hárs.
Ég á stóran hóp systkina og erum við eins og mislitur sauðahópur, enginn hefur sama háralit, og enginn hefur sama augnlit, og öll hafa þau fallegan húðlit. Ekki ég, ég verð rauð í sól, svo verð ég ennþá rauðari og svo verð ég aftur fölbleik og enda stundum beislitiðuð í besta falli og þá svæðisskipt (sjá mynd sem gæti vel verið ég eftir sólbað)
Ég er fljótfær, seinþroska, hvatvís, brussa sem framkvæmi áður en ég hugsa. Ég á stóran frábæran vinahóp, á öllum aldri, enda þó ég sé á jafnaðaraldri eins og ég kýs að kalla það, (þ.e. á jafnmikið eftir og ég hef lifað fram að þessu) þá er ekki laust við að ég telji mig fyrirbura í þroska og finnst oft að ég hafi fæðst svona 27 árum fyrir tímann. Flestir vina minna koma úr bankageiranum og eru einstaklega skemmtilegt fólk, sem þolir mér seinþroskann og fljótfærnina.
Ég á svo tvö börn og nokkur lánsbörn sem ég skilgreini kannski síðar. Ég er sem sagt hálfgerður hobbiti eða 164 og hálfur cm með dass af albinóa í mér og þar hafið þið það. Góða helgi!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.9.2011 | 11:53
Af hverju að blogga?

Ég hef verið spurð að því, af hverju fólk sé að blogga, ég get ekki svarað því, en ég ætla að blogga af því einfaldlega að mér leiðist!!! Já hef verið atvinnulaus í 1 ár og það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að prjóna margar lopapeysur (lesist 6 vettlingastroff og 2 uppköst að peysu).
Ég hef alltaf unnið "brotnum höndum" eins og dóttir mín orðaði það þegar hún var yngri, alla mína hunds og kattar tíð, frá því ég steig mín fyrstu skref 9 ára við að passa börn og verið lengst af í fjármálageiranum eða sl. 30 ár, algerlega á rangri hillu, en náði ekki að átta mig á því, þar sem ég var svo upptekin við það aðreyna að muna hvaða fyrirtæki ég væri að vinna hjá hverju sinni, en ég hef verið seld 5 sinnum (ekki ég ein og sér, heldur fjármálafyrirtækin sem ég vann hjá) sameinuð einu sinni, keypt einu sinni og þá rekin 1 sinni í hruninu.
Ég er farin að skilja fyrr en skellur í tönnum, já það er verið að reyna að segja mér eitthvað! Ég ætla að skipta um starfsvettvang, en til þess þarf ég að fara í skóla.
Ég hef ekki verið í skóla í langan tíma, séu undanskilin námskeið í leiðindum, ég meina fjármálum. Á ég að koma með nesti? Er teygjutvist ennþá vinsælt í frímínútum? Tek ég epli með handa kennaranum svo ég verði leiðinlegi vinsæli karlinn á fremsta bekk, dílótt í framan af æsingi við að gera vel? Þarf ég stóra skólatösku, eða dugar þessi frá því í 6 ára bekk með myndinni framan á???? Maður spyr sig?
Alla vega eigið dásamlegan dag, ég er farin að leita af pennastokknum mínum og ydda blýantana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)