Færsluflokkur: Bloggar
28.8.2025 | 11:00
Ferðalag með "Fávitum"
Ég var á leið til Spánar um daginn með fjölskylduna og erum við með einn einhverfan sem var búin að vera í smá kasti enda nýbúin að upplifa rót og dót og dengs út um alla íbúð þar sem verið var að tæma hana. Síðan förum við um borð í vélina sem leyfir ketti í búri. Við fengum köttinn afhentan þegar við komum um borð og var hann í kattarheldu búri sérstaklega keyptu til ferðalagsins. Nú ekki vildi betur til en hann krafsaði sig út úr búrinu og fór á rölt. Ég skil vel að fólk geti verið hrætt við dýr, ég meina ég er ekkert að elska köngulær og hef nánast flutt út úr íbúð er ég tók eina með mér frá Ítalíu til Íslands, en náði svo að ryksuga kvikindið og henti ryksugunni síðan í rusl. Kona nokkur við hliðina á mér sagðist hafa verið með skjálfta og varla náð andanum allt frá því að búrið hefði komið inn í vélina og var bara að deyja úr oföndun og maðurinn hennar var á milljón að róa blómið. ATH það voru líka 2 hundar um borð en greinilegt að kisan var málið þarna. Nú hann slapp og ég hentist á eftir honum en hann var mjög hæggengur og rólegur eftir sprautu sem hann fékk fyrir flugið en ég henti mér yfir heila sætaröð af "fólkum" og náði kvikindinu. Hélt að konan þyrfti sprautu kattarins númer 2 en hún var sem sagt með ofsahræðslu fyrir köttum. Þar sem ég labbaði með tígristýrið, ég meina kettlinginn hálfsofandi og ekki líklegur til stórræðis gegn henni né nokkrum öðrum þá held ég að hún hafi tæmt súrefnið í vélinni vegna oföndunnar. Ok það er eflaust ekkert fyndið við að vera haldin svona hræðslu og eflaust fer öll skynsemi út um gluggann eða í þessu tilfelli vélinni, en "com on" Einhverfa barnnið var í kasti þar sem hann var svo hræddur um köttinn sinn sem er hans eini vinur og þess vegna var hann tekin með í ferð. Hann stimmaði með látum og var ekki neitt stillt og prútt barn þar á ferð. Viti menn að íslenski geðvondi Georg Bjarnfreðarson var með í för og sat fyrir framan þann einhverfa. Hann stóð upp og öskraði á okkur hvort krakkinn væri eitthvað geðbilaður með þessi læti og blaktandi höndum. Ég benti honum á að lesa sér til um einhverfu og vitkast smá þar sem hann væri greinilega fáfróður með eindæmum. Hann fór! köttur komin í kassann og ferðin hélt áfram og frekari mental skaði var ekki á ferðafélögum eða áhöfn sem var yndisleg. Ég reikna með viku í að jafna mig, það er mjög erfitt að vera á ferð með einhverft barn þegar svo mikið af fáfróðu fólki er með í för. Af hverju ferðast ekki barnahatarar með einkaflugi!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.8.2025 | 13:02
Kashiwa-mochi/Berjamó
Veit einhver hvað Kashiwa-mochi er??? Ekki vissi ég það fyrr en í gær að við ákváðum "spontainiously" að skella okkur í berjamó með 2 stk. stráka! Sá yngri var hrifin enda allt morandi í berjum bæði bláberjum sem hann sagðist elska meira en "rækjuberin" (krækiber). Við vorum ekki með ílát en fundum í dótinu sem var í skottinu á leið á Sorpu frábæra lausn eða eldfast mót sem gæti rúmað hálfa kind og þungt eftir því. Eldra barnið vildi rauð ber og meint KAshiwa-mochi sem er einhversskonar hrísgrjónakúla vafin í laufblað. Við fundum hana ekki, en týndum smá ber með hann frekar ergilegan á kantinum og lofuðum að fara í Krónuna og kanna hvort ekki væri til Kashiwa-mochi. Það var ekki til og þá voru góð ráð dýr! Hann fékk allskonar staðgengla, eins og rifsber í stað rauðu berjanna, kókoshnetu, melónu, Fava baunir, avokadó og fleira sem vonast var til að hann sætti sig við. Hann vildi frekar rauð ber sem vaxa hjá Ísaksskóla og þau voru að sjálfsögðu sótt. Mamman klifraði með skæri og náði í góðan bút af berjum. Heimilið er núna með fullt af berjalyngi, trjábútum og berjum (afsakið umhverfissinnar) en allt er gert til að styggja ekki barnið því það getur kostað slæmt "meltdown". Nú hann gaf sig ekki með þetta Mochi svo hann fann mynd af því þar sem kona var að hekla eitt svona stykki. Nú amma gæti þá bara heklað svona. (Amma kann ekki að hekla) Hann gaf sig ekki því hann vildi svona og sagði nokkur þúsund sinnum:"amma heklaðu" Ég kann að prjóna og já prjónaði bolta og laufblað með línum í og alles algert "meistarastykki" Bíð nú eftir listamannalaunum sem eru nánast aukaatriði, þar sem við erum með ánægt barn með sitt Kashiwa-mochi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.7.2025 | 12:59
Hugur Einhverfra!!!
Stundum mundi ég vilja vera fluga í haus barnabarns míns sem er með dæmigerða einhverfu og sagður "non verbal" enda tjáir hann sig ekki nema brýnustu nauðsyn beri til. Það vildi svo til að mamma hans tók eftir því að hann var haltur og fór að skoða fótinn á honum. Jú jú það var nánast tvöföld tá og blámi byrjaður að dreifa sér uppá rist. Mamman fór á læknavaktina og þar var niðurstaðan að líklega væri hann tábrotinn. Röntgen skyldi það vera og fóru þau þangað. Hann hafði í millitíðinni googlað "röntgen" og sagði við fólkið á röntgendeildinni að HANN vantaði X-Ray af tánni sinni.
Mynd var tekin og hann heimtaði að fá hana með sér heim. Mitt tábrot þar af leiðandi mitt X-RAY.
Hann sættist á að fá útprentaða mynda af "hans" fæti heima en það er áhugamál hans þessa dagana að prenta út hluti.
Hann hefur notað tábrotið óspart og meira að segja fyrir framan ískælinn í Bónus sagði hann hátt og snjallt: "amma ég er sko fótbrotinn og þarf því mjúkan mat". Ég var að fara í jarðarför um daginn og það var sama uppá teningnum,: " ég er fótbrotinn og þarf að hitta prest og beinagrindur" en það hafa dáið ansi margir á skömmum tíma hérna í kringum okkur og hann búin að googla það að á endanum verður bara beinagrindin eftir í jörðinni. Mjög skemmtilegt áhugamál þessa dagana.
Hans áhugamál númer 1,2 og 3 hefur samt verið "Logo" allskonar logo og undanfarna daga hef ég verið fastagestur á Metro að biðja um tvöfaldan ostborgara því hann kemur í svo flottu bréfi og barnið þarf jú mjúkan mat verandi "fótbrotinn". Ég hef fengið frábærar gjafir frá fyrirtækjum sem hann hefur haft þráhyggju fyrir hverju sinni, því þó Metro gefi sig ekki og prenti afmælisblöðrur í öllum litum fyrir hann (sem hann fann á netinu vegna opnunar Metro á sínum tíma) þá hefur Vodafone gefið honum blöðrur því hann getur alveg googlað símanúmer og hringir bara og segir: "Do you have any balloons for me because I need it now?" jú þeir áttu blöðrur og stolt amman yfir litla undrabarninu sem er jú ekkert svo lítill lengur fór með tárin í augunum að sækja fullan poka af blöðrum og öðru dóti með logói.
Víkur nú sögunni af prentarahæfni hans. Hann framleiðir hérna ágætis slatta af útprentuðum myndum af allskonar lógóum sem hann svo bráðvantar daginn eftir (að sjálfsögðu vegna fótbrots sem gerir það að verkum að hann þarf mjúkan mat og þar af leiðandi fara á Aktu taktu)og amma fær sér kaffi sem kemur í merktum bolla frá þeim nú eða Metro sem er vinsælast þessa dagana og svona líka hollt eða þannig.
Hann er með svo mikla þráhyggju og er í svo miklum ham að prenta út myndir að hérna hjá mér lítur út eins og ég sé með útgáfufyrirtæki og í valnum liggja svo 1298 stk af mismunandi hamborgaraboxum og frönskum kartöflum. Jú hann verður svolítið svangur á nóttinni eftir alla þessa útprentun. Ég líka!!!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.9.2024 | 12:13
Kennslustund í framkomu!!!!
Ég var stödd í vikunni með litla barnabarnið mitt sem er með dæmigerða einhverfu og mikla þroskaröskun sem er nú ekki í frásögur færandi. Það eitt og sér er alveg smá biti að kyngja en að þurfa að forðast að fara með hann á staði þar sem fullorðið fólk hegðar sér eins og fávitar er verra mál.
Við vorum í verslun og hann sér konu sem líktist mjög kennara hans fyrir nokkrum árum en hann er mjög minnugur á andlit og já eiginlega allt sem hann hefur heyrt þó hann geti kannski ekki sagt hvað amar að honum eða hvar hann á heima. Hann fór nálægt konunni og sagði hátt og snjallt "HALLÓ" og blaktaði höndunum brosandi af gleði. "þú heitir??" því þetta er svona hans tjáningarmáti og þá á viðkomandi að segja "ég heiti Guðrún kennari" Allt í lagi allir hafa ekki þann skilning að sjá 8 ára strák sem er í stærð fermingarbarns og blaktar höndum af hamingju yfir að hafa hitt þessa konu. Hann faldi sig á bak við mig því hann var feiminn.
Litla blómið "konan" átti eitthvað erfiðan dag og sagði með fyrirlitningu hátt og snjallt: "Vá hvað hann er skrítinn krakki" ég svaraði: já finnst þér það, "leiðinlegt" fyrir þig en hann er einhverfur og sagði hún jafn fúl: "er það já ég skil" en hún skildi ekkert. Hver segir við fötluð börn sem hún gæti hafa gefið sér að skildi eitthvað: "vá hvað þú ert skrítinn" Á maður að þurfa að setja skilti á börnin sín sem eru ekki með alla útlimi eða á einhvern hátt öðruvísi. Góð hugmynd kannski að fara með skilti sem segir: "barnið mitt er í hjólastól af því það vantar á hann fótinn en ég veit af því". Svo væri gott að vera með annað sem segði: "afsakið að þetta pirri þig".
Jæja þurfti aðeins að pirrast yfir þessu því nógu erfitt er að þurfa að taka drenginn með í búðir, það getur kostað nokkra þúsundkalla því ef hann fær flugu í hausinn og vill eitthvað sem maður er ekki til í að kaupa eins og 3 metra jólatré í Cosco, þá er þráhyggjan hans þannig að hann fær kast og leggst á gólfið og sparkar og grætur og þá fær maður nú ekki bara svona ábendingu um barnið sem er mjög gott ef maður hefði ekki tekið eftir því að hann væri smá öðruvísi. Þá fær maður hneykslunarsvipinn gefur manni til kynna að maður sé ófær um að vera með barnið og jafnvel finnur fólk hvöt hjá sér að reyna að reisa hann við og skamma hann ef ég skyldi nú ekki lofta honum og ekki vita hvernig ég á að fara að.
Kæra pirraða fullorðna fólk nú er sá tími sem börn hafa sýnt að þau eiga erfitt eins og fréttir hafa sannað. Reynið sýna umhyggju og smá milidi gagnvart þeim sem eru ekki eftir evrópskum staðli, ekki ganga út frá því að þið vitið allt og beðið sé eftir ykkar áliti og ef þið þurfið að fara á þeim tíma sem fólk er almennt að versla á, endilega takið geðlyfin ykkar, setjið á ykkur súrefnisgrímuna og steinhaldið kj......
Annars góða helgi!!Ég versla bara á Heimkaup
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.11.2022 | 11:32
Piparkökuhúsameistarinn (huglægi)
Ég veit ekki hvað það er að ég telji mig alltaf þurfa að vaða í það á skítugum skónum liggur við að gera hluti sem ég er ekki góð í. Bakstur! ja kannski ekki beint bakstur í þessu tilfelli en ég keypti þar til gert pipakökuhús í Ikea (minni týpuna) sem þurfti að setja saman og skreyta.
Ég fór á flug á heimleið og hugsaði um piparkökuhúsasamkeppnina í Smáralind og hvar mitt hús ætti nú að standa. það var ekki efi eitt augnablik í mínum huga þarna í mínum heimi. Ég velti því fyrir mér hvort ég færi ekki í grúppu sem héti 65 ára og eldri. Þá mundi ég eftir því að maður þarf að baka veggi og þak sjálfur úr hveiti frá Kornax. Ok ekki málið ég geri það eftirminnilegasta hús sem ég hef gert enda ekki annað í stöðunni þar sem þetta var hið fyrsta.
Niðurstaða á fagurlega módelinu mínu huglæga var í reynd svona: Límtúpan var með svo litlu gati að límið komst ekki út en ég gerði aðgerð á túpunni skar hanna upp og sótti klístrugt límið en festi puttana alltaf á milli veggja og þaks og þurfti að þvo mér 10 sinnum í límferlinu.
Við áreynsluna komu nokkur brot í veggina sem ég verð að viðurkenna að er bara sjarmerandi eftir að hafa verið límdir saman með nokkrum límklessum, svona kannski eins og ítölsku gömlu húsin eru. Nú þetta virtist ekki vel gert hjá þeim þarna í Ikea alla vega passaði strompurinn engann veginn á þetta þak en var svona eins og fljótandi ofan á því. Fallegt!
Barnabarnið mitt hafði svo borðað allt skrautið nema nokkur snjókorn svo húsið var skreytt öðru megin.
Ég er hætt að taka niður pantanir fyrir jól og svo eru veggirnir hérna út um allt borð hálfétnir sem sagt ekki sérstaklega bragðgóðar piparkökur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.8.2021 | 13:59
Enn fleiri sögur frá Sardeníu
Ég á vinkonu á Sardeníu sem er gift aðeins eldri manni eða já miklu eldri manni. Hann fékk hjartaáfall og var honum gert að létta sig um 10 kg. og lifa sómasamlegu lífi, ekki kaffi, ekki vín og ekki sígarettur. Fyrir ítala af bestu gerð er það óhugsandi með öllu þar sem þeir lifa fyrir góðan mat, kaffi, vín og sígarettur.
Eiginkonan tók það nú á sig að halda í uppskriftir frá lækninum sem töldu 450 gr. af léttu fuglakjöti í viku hámark og hélt hún það nú ekki vera vandamál. Hófst hún handa við að útbúa mat fyrir vikuna og var samviskusöm með alla rétti, fiskur 3svar í viku, grænmeti og svo fuglakjöt. Skipti út ís fyrir veganís og gerði allskonar breytingar.
Eitthvað hafði hún misskilið grömmin og gaf manni sínum 450 grömm af kjöti í hvert mál og þegar hann kom eftir 4 vikur til læknis aftur hafði hann bætt á sig 6 kg. við mjög litla hrifningu læknisins. Hann sagðist nú halda að hann hafi fylgt öllum hans fyrirmælum í hvívetna og leit á konu sína til að fá hennar samþykki. Hún sagði þá ég kaupi 1 kg. af kjúkling á mánudögum og skipti honum í tvennt og hann fær hálfan og aftur síðan hinn helminginn síðar i vikunni. 100 gr. sem eftir eru gef ég hundinum sagði hún hróðug. Læknirinn sagði henni að hámark 450 gr. á viku hefði verið hans fyrirskipun. Maðurinn hennar á erfitt með andardrátt og getur ekki hneppt skyrtunni sinni en treystir frúnni í blindni að redda þessu. Hann heldur sig þó við bjór zero (alkóhólfrían) og koffínlaust kaffi enda hún með þetta allt á hreinu eiginkonan.
Elska þessar sardenísku konur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2021 | 10:37
Tískan í Miskolc
Það er alltaf gaman að koma til nýrra staða og skoða mannlífið, fólkið, klæðnaðinn og ekki síst hollninguna á fólki. Í Slóvakíu var fólk almennt mjög grannt og mjög alvörugefið og frekar fúllynt á manninn. Eins og þau væru sliguð af áhyggjum og burði með allar heimsins áhyggjur. Gæti verið áhrif fyrri tíðar eða kannski vegna þess að barirnir voru ennþá neðanjarðar og þurfti almennt að labba inná veitingarhús og ef maður vildi hlusta á tónleika eða fá sér vínglas (sem var venjulega ekki til) þá þurfti maður að bogra inní rými neðanjarðar. Tónlist má ekki ennþá spila á götum eða í görðum bara neðanjarðar alla vega í Nitra borginni sem ég var gestur í.
Hérna aftur á móti í Miskolc er glaðlyndara fólk vel í holdum minnir gjarnan á sum ríki í Bandaríkjunum, enda kannski ekki að furða það eru hugsanlega 5 til 10 metrar á milli ísbúða hérna og eru ansi margir labbandi um með ísa hérna á götunum, börn sem og fullorðnir.
Eiginlega er eins og að vera staddur í miðju "krúinu" af Bold and Beutyful. Allar konur með einstaklega mikið og túperað hár, og er hvert hreiðrið af fætur öðru ofan á hausnum á þeim, en líka er snjákahvítt hár, fjólublátt, blágrænt og bleikt í tísku hérna.
Hollningin er sem sagt mismunandi eftir löndum og er eins og vanti hálsinn á marga karlmenn hérna sem eru náttúrulega slavneskir í útliti en virðast eins og hausinn hafi bara verð skrúfaður á búkinn og ég er með verulegar áhyggjur ef þeir fengju skjaldkyrtilsvandamál.
Tískan já hún er dásamleg og mjög litrík eins og maður sé staddur inní sælgætislandi, hvítar buxur með bleikum blómum eru sem sagt mjög vinsælar. Ég elska að sitja á kaffihúsunum hérna í kring og horfa á mannlífið sem er vægast sagt fjölbreytt og litríkt og tískan alveg sér á parti. Sá eina konu í gær í LV gerfidressi sem var samfestingur svartur að aftan en að framan var hann með áteiknuðu belti, hálsmeni, skyrtu og buxur allt í einu fatastykki. Skórnir voru þó ekta Crocks skór og ekki fastir við samfestinginn. Þessi snót var vel í holdum og svo glaðleg og dásamleg að mér fannst dressið bara nokkuð flott. Ekki að ég ætli að kaupa mér svona stykki finnst alltaf smá feik að geta ekki haft beltið allan hringinn nei bara svart bak. Vantaði heildarlookið!
Kveðja frá tískulöggunni í Miskolck
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.7.2021 | 08:25
Sardenía með mínum augum
Sardenía er eins og ég hef áður líst alger paradís, allt á sínum rólyndishraða. Konur og menn fara á markaðinn og kaupa sína daglegu melónu en Sardar borða gjarnan ávexti eftir allar máltíðir. Þeir eru nú ekki að flækja málin neitt sérstaklega og finna lausnir við öllu. Hef aldrei séð lausnamiðaðri fólk en þarna. Vinur tengdasonar míns er einstaklega skemmtilegur gaur og smá vesenisti. Þ.e. hann er frekar mikið fyrir sopann og breytir þá ekki miklu hvort hann er keyrandi á bíl eða traktor á stærð við fragtskip þegar hann fær sér í tánna. Hann ræktar maís og er ötull í vinnu og er eiginlega bara stórbóndi. Eitt sinn var hann á "barnum" og já ekki misskilja að það sé bara einn bar í bænum, nei það er bara einn bar sem þeir félagar mæta á annað er óhugsandi. Þetta er eitt af sérvisku þeirra og óhugsandi að mæta á barinn handan götu heimilisins. Það er bara ekki þeirra bar. Hann var sem sagt á barnum að fá sér bjór og hafði lagt traktornum fyrir framan útkeyrsluna hjá lögreglustöðinni. Það komu 2 löggur inná barinn og gengu að honum og báðu hann að færa tækið. Allir þekkja alla í bænum og jú hann tók með sér bjórinn bað aðra lögguna að halda á honum meðan hann færði tækið. Hann lagði traktornum svo bara ólöglega annarsstaðar meðan löggan geymdi bjórinn hans og svo kom hann bara smá pirraður á þessu veseni.
Sardar eru úrræðagóðir með eindæmum og þessi sami strákur fékk sér vinnu á tímabili þegar uppskeran brást og þeir voru 2 félagar sem sóttu um á einhverjum lúxusveitingastað og þar þurftu þeir að klæðast fatnaði frá staðnum. Það var þó einn galli á gjöf Njarðar að þeir þurftu að kaupa fatnaðinn frá skóm uppí skyrtu. Þeir fundu nú samt slatta af fötum og skóm í hrúgu á staðnum eftir fyrrum starfsmenn og tóku þau bara í notkun. Gallinn var hins vega sá að skórnir voru 2 númerum of litlir þannig að hann gekk um salinn eins og Geisha og vinur hans var í svo síðum buxum að hann var alltaf að detta. Hann var rekinn þegar hann datt á fína frú með súpu en hinn vann í 8 mánuði í þessum litlu skóm og ég er ekki frá því að hann minni á Geishu þegar hann labbar.
Elska þessa Sardeníubúa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.9.2020 | 11:35
Ljóskan í eldhúsinu
Frægðarsögur mínar eru fáar í eldhúsinu og er ég alltaf laus allra mála þegar fjölskyldan heldur boð. Þú skalt bara smyrja flatkökurnar þú gerir það svo vel og ég viðurkenni að ég vanda mig eins og krakki við að hafa best smurðu flatkökurnar. Ég hélt alltaf að ég væri ágætis kokkur en þegar fyrrverandi (skiljanlega) maðurinn minn neitaði að borða kótilettur sem varla sáust fyrir bruna og pipar, en mér þótti mamma alltaf svo mikill plebbi að krydda ekki nóg og steika ekki til dauða matinn, alltaf svo mikið hálfkák að mér fannst. Ég ákvað að vera með meiri "smartnes" í matargerð og gekk skrefinu lengra og brenndi allt!
Ég var í gær að búa til blómkálssúpu frá grunni þar sem tengdamóðir mín var alltaf með svo flotta súpu og ætlaði ég að bæta um betur enda um fleiri krydd að ræða í dag en í þá daga. Ég notað leynitrikk af netinu red curry paste (átti reyndar að vera karrý) og sojasósu, og ég get sagt ykkur sjálf að Gordon Ramsey hefði tryllst yfir bragðinu.
Ég ætlaði nú að "töfrasprota" þetta dæmi, því mér þykir svo flott að geta sagt ég notaði töfrasprota sem ég hef aldrei notað áður. Fann hann inní skáp og setti í samband og byrjaði að mauka blómkálið ekkert gerðist og ég hamaðist á sprotanum og jú það skvettist alveg upp úr pottinum, en svo fóru að koma gráar plastagnir uppá yfirborðið og allt í einu þegar ég lyfti upp sprotanum kom lok fljúgandi á mig sem var einskonar hlíf fyrir þeytarann sjálfann. Ég týndi plastagnirnar bara úr það var ekkert svo rosalega mikið og engann skaðaði. Það er nóg til af súpu ef einhver er svangur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.8.2020 | 14:18
Litlu sigrarnir!!!
Ég á barnabarn sem er með einhverfu og er hann alveg einstaklega skemmtilegur og gáfaður (ekki langt að sækja það) en mig langar að lýsa venjulegum degi í okkar lífi. Ég hef verið hjá mömmu hans og bróður í smá tíma þar sem pabbinn vinnur erlendis og yngri sonurinn er á öðru ári og fyrirferðamikill eftir því, fór snemma að ganga og græja og gera.
Hann vaknaði klukkan 5 á laugardagsmorgni og mamman og yngri bróðir sofandi og ég var ekki tilbúin að fara fram í stofu að horfa á "Blippa" sem er fullorðinn maður í krúttlegum krakkafötum og talar eins og smábarn og heldur að hann sé krútt, dansar gjarnan og er svona eins og 3 ára gutti nema með skeggrót og svo langt frá því að vera fyndinn að manni langar að meiða hann. Hann er þó með fræðandi efni og er mitt barnabarn einstaklega áhugasamur um flugvélar og stórar vinnuvélar og kann öll nöfnin á þeim á ensku og íslensku þar sem Blippi er enskur. Hann dansar líka og já sama krúttið í dansi eða ekki að mínu mati. Kann að vera að ég sé komin með nóg þar sem við horfum á þetta daglega.
Nóg um Blippa. Ég sótti Ipadinn hans en hann dugði í 4 og hálfa mínútu og svo var hann orðinn leiður á honum. Nú þá sló hann mig í svona klukkutíma og heimtaði að fara fram. Ég reyndi hvað ég gat að halda honum inní herbergi. Hann tók kast og sparkaði og barðist enda ósofinn og jú ég líka. Ég fékk þá í mig borð og stól (barnaborð úr Ikea og ekkert mjög þungt) nokkur umferðaskilti. Fólk horfir oft á mann þegar maður er að reyna að koma honum upp úr sundlaugum eða úr Costco (sem er "horror" fyrir einhverfa strákinn minn). Hann tapar sér úr reiði og lúber mann eins og harðfisk og maður finnur augngoturnar á sér. Ekkert sem hægt er að gera nema að koma honum úr aðstæðunum og verjast höggum.
Hérna heima ef hann er illa upplagður þá getur verið erfitt að fá hann til að fara að sofa eða bara gera eitthvað sem hann á að geta gert og hann ekki vill. Hann lemur viðkomandi sem er með þessar kröfur og síðan bróður sinn sem er nú búin að læra það að henda sér í gólfið þegar hann sér að hann nálgast. Þá er sjónvarpið eftir, það er ekkert að fara neitt en það hefur tekið ansi mörg högg og allskonar hlutir dottið úr því og enn virkar það samt fínt sem er gott. Við reynum að sjálfsögðu að stoppa þetta áður en allt verður vitlaust en svona er líf margra sem eiga börn með einhverfu hver dagur, hver búðarferð, sundferð, rólóferð getur endað í kasti.
Eftir svona kast er hann algerlega búin á því og vill bara fara í kojuna sína og mamma hans á að sitja í stól hjá honum og ekki tala, ekki lesa og alls ekki syngja. (alla vega ekki ég) Hann fær þá stundum bara að horfa á eitthvað sjónvarpsefni sem hann slakar á við og er gjarnan valið milli forma fyrir lengra komna. Ég veit að pentagon og decagon eru form en þekki ekki einhver form í Prism....ofl. dularfull form en þetta róar hann og það er allt sem við viljum.
Barnabarnið mitt sér almennt ekki börn og horfir í gegnum þau, vill frekar tala við fullorðna, eða tala við er kannski ekki rétta orðið hann segir random hluti eins og: " góðan daginn ég ætla að fá eitt barnabox með ostborgara og súkkulaðishake, nei takk ekkert fleira og næsta lúga takk". Hann getur frætt mann um öll heimsins form, stjörnur, tungl og fleira þá getur hann ekki sagt hvað hann heitir og að hann sé 4 ára.
Við fórum á Sólheima í Grímsnesi um helgina og litli bróðir hans datt og viti menn stóri bróðirinn tók í hendina á honum og leiddi hann. Amman fékk nú kökk í hálsinn og gleymdi öllum spörkum og höggum þar til næst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)