Litlu sigrarnir!!!

Ég á barnabarn sem er með einhverfu og er hann alveg einstaklega skemmtilegur og gáfaður (ekki langt að sækja það) en mig langar að lýsa venjulegum degi í okkar lífi.   Ég hef verið hjá mömmu hans og bróður í smá tíma þar sem pabbinn vinnur erlendis og yngri sonurinn er á öðru ári og fyrirferðamikill eftir því, fór snemma að ganga og græja og gera.

Hann vaknaði klukkan 5 á laugardagsmorgni og mamman og yngri bróðir sofandi og ég var ekki tilbúin að fara fram í stofu að horfa á "Blippa" sem er fullorðinn maður í krúttlegum krakkafötum og talar eins og smábarn og heldur að hann sé krútt, dansar gjarnan og er svona eins og 3 ára gutti nema með skeggrót og svo langt frá því að vera fyndinn að manni langar að meiða hann.  Hann er þó með fræðandi efni og er mitt barnabarn einstaklega áhugasamur um flugvélar og stórar vinnuvélar og kann öll nöfnin á þeim á ensku og íslensku þar sem Blippi er enskur.  Hann dansar líka og já sama krúttið í dansi eða ekki að mínu mati.  Kann að vera að ég sé komin með nóg þar sem við horfum á þetta daglega.   

Nóg um Blippa. Ég sótti Ipadinn hans en hann dugði í 4 og hálfa mínútu og svo var hann orðinn leiður á honum.   Nú þá sló hann mig í svona klukkutíma og heimtaði að fara fram.  Ég reyndi hvað ég gat að halda honum inní herbergi.  Hann tók kast og sparkaði og barðist enda ósofinn og jú ég líka.  Ég fékk þá í mig borð og stól (barnaborð úr Ikea og ekkert mjög þungt) nokkur umferðaskilti.  Fólk horfir oft á mann þegar maður er að reyna að koma honum upp úr sundlaugum eða úr Costco (sem er "horror" fyrir einhverfa strákinn minn).  Hann tapar sér úr reiði og lúber mann eins og harðfisk og maður finnur augngoturnar á sér.  Ekkert sem hægt er að gera nema að koma honum úr aðstæðunum og verjast höggum.

Hérna heima ef hann er illa upplagður þá getur verið erfitt að fá hann til að fara að sofa eða bara gera eitthvað sem hann á að geta gert og hann ekki vill. Hann lemur viðkomandi sem er með þessar kröfur og síðan bróður sinn sem er nú búin að læra það að henda sér í gólfið þegar hann sér að hann nálgast. Þá er sjónvarpið eftir, það er ekkert að fara neitt  en það hefur tekið ansi mörg högg og allskonar hlutir dottið úr því og enn virkar það samt fínt sem er gott. Við reynum að sjálfsögðu að stoppa þetta áður en allt verður vitlaust en svona er líf margra sem eiga börn með einhverfu hver dagur, hver búðarferð, sundferð, rólóferð getur endað í kasti.

Eftir svona kast er hann algerlega búin á því og vill bara fara í kojuna sína og mamma hans á að sitja í stól hjá honum og ekki tala, ekki lesa og alls ekki syngja. (alla vega ekki ég) Hann fær þá stundum bara að horfa á eitthvað sjónvarpsefni sem hann slakar á við og er gjarnan valið milli forma fyrir lengra komna.   Ég veit að pentagon og decagon eru form en þekki ekki einhver form í Prism....ofl. dularfull form en þetta róar hann og það er allt sem við viljum.   

 Barnabarnið mitt sér almennt ekki börn og horfir í gegnum þau, vill frekar tala við fullorðna, eða tala við er kannski ekki rétta orðið hann segir random hluti eins og: " góðan daginn ég ætla að fá eitt barnabox með ostborgara og súkkulaðishake, nei takk ekkert fleira og næsta lúga takk". Hann getur frætt mann um öll heimsins form, stjörnur, tungl og fleira þá getur hann ekki sagt hvað hann heitir og að hann sé 4 ára.

Við fórum á Sólheima í Grímsnesi um helgina og litli bróðir hans datt og viti menn stóri bróðirinn tók í hendina á honum og leiddi hann.  Amman fékk nú kökk í hálsinn og gleymdi öllum spörkum og höggum þar til næst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband