Hin ýmsu "horunarkitt"

Er það nú ekki þannig þó svo að við konurnar viljum ekki viðurkenna það, að við viljum vera grannar og flottar. Ég hef nú útlistað það hérna áður að ég á ættir mínar í móðurætt að rekja til Fáskrúðsfjarðar og sú ætt er dökk, franskútlítandi og er smáfólk upp til hópa. Svona rétt rúmlega málbandið á hæð flestir.

thin_thighs-192x300.jpg

Svo er það að það reynist erfitt að virka hávaxinn og grannur ef maður hefur segjum bætt á sig nokkrum grömmum, eftir jól og páska og svona oftar en ekki. 

Ég var að fara á árshátíð með vinnunni minni og ætlaði nú að tjalda mínu flottasta, vera í háum hælum, "Shock Up" og aðhaldssundbol. (jesús hvað ég yrði grönn) verst að ég er nú ekki svo há til hnésins, en með 12 cm hælum yrði ég hávaxin eða 176,5cm (það er hátt)

Við vinkonurnar ákváðum að hittast áður en haldið var út úr bænum, þar sem árshátíðin var haldin í Borgarnesi á hótelinu þar.  Við skelltum okkur í snyrtingu og límdum gervineglur á mig,  lökkuðum okkur og gerðum okkur fínar. Fórum svo í greiðslu í Borgarnesi og máluðum okkur inná herbergjum saman í hóp með rauðvín í glösum. 

En nú vandaðist málið örlítið, en það er erfitt að koma "Sjokkuppi" upp lærin á sér með "eigins" neglur, en gervineglur eru allt annar handleggur. Ok ég hringi í móttökuna og panta gúmmíhanska með rifflum. Stúlkan sagðist nú ekki hafa það í boði, en lofaði að reyna hvað hún gæti.

Á meðan skellti ég mér í hitt "horunarkittið" sem var ennþá meir viðbjóður að troða sér í, hvaða fáviti (lesist: greinilega ekki kona) hefur hannað þetta drasl, ég meina það voru smellur og þurfti gott betur en eina armlengd til að ná til þeirra við lokun á meintum sundbol/(horunarkitti) og bíddu átti ekki að vera aðhald yfir rassinn, ekki bara lína eins og strengur yfir tunglyfirborð? Ekki var heldur gert ráð fyrir brjóstum á þessu drasli, svo ég var orðin skorin á öxlunum við að reyna að koma þessu saman.

Skrifaði kvörtunarbréf í huganum til framleiðandans, fólksins í fyrirtækinu og til landsins sem þessi ósköp voru hönnuð (Berlusconi skyldi nú fá eitt vænt hótunarbréf líka). Ætli ég hafi keypt þetta of lítið kannski? Nei hún sagði að þetta mundi minnka mig um 2 númer. Mig vantaði að minnka mig alla um 2 númer ekki bara eina rönd og mittið.

Nú bankaði einhver og ég stökk fram eldrauð af áreynslu og í slopp (en frekar grönn á svipinn) tók við gúmmíhönskunum eins og það væri eðlilegasti hlutur að panta gúmmíhanska á hóteli (held að stúlkan hafi kannast við sjokköppdæmið). Nú ég rúllaði þessu faglega upp með gúmmíhönskunum upp á mið læri, en þurfti þá að draga andann og þá rúlluðu þær niður í einum rykk niður að hnjám.

Ég tók svo tilhlaup með hjálp vinkvenna minna og upp fóru sokkabuxurnar, en guð ég var að fara í mat og drykk....ætli það sé hjúkka hérna hugsaði ég stíft og reyndi að muna hvað makar vinnufélaganna gerðu, til að setja upp þvaglegg hjá mér, ég meina ég er ekki að fara að stunda neinar klósettferðir í þessu. (of seint að spreyja bara brúnkukremi á fæturna) Vinkonurnar hristu hausinn og sögðu þú ferð ekki í þessu. Jú jú sagði ég, þið sjáið bara um þetta, þetta hlýtur að liðkast með tímanum ekki satt?

Ég fer svo niður og vinkona mín sá um alla mína drykki, svo ég (þá meina ég hún) þyrfti ekki að fara að rúlla þessu sjokköppsdæmi upp aftur. En hún lenti nú í því nokkrum sinnum að koma með mér upp á herbergið, þar sem betri aðstaða er að rúlla upp svona atriði liggjandi í rúmi. (held að við höfum báðar grennst þetta kvöld við allt þetta flandur)

laeri_malband.jpg

Svo þegar ballið var búið og við sátum og spjölluðum spurði vinkona mín mig. Hvernig er þetta drasl naglalakk á þér? mitt er allt krullað. Ég horfði stolt á mínar gervineglur og sagði: "veistu mitt er bara fullkomlega fínt, enda ekki ég búin að berjast við sokkabuxur í allt kvöld". Ég  komst svo að því þegar ég háttaði og stækkaði um alla vega 4 númer þegar ég spratt út úr horunarkittinu, að það var öfugt, og alveg fullt af plássi fyrir rass og brjóst og svona. Næst muna að nota gleraugu við klæðun!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: www.zordis.com

Dásamleg svona horunarkitt   Ég kalla þig góða að hafa komist á dansleikinn ...

www.zordis.com, 4.10.2011 kl. 13:38

2 identicon

Þú drepur mig krakki!  Neglurnar á mér hafa reyndar aldrei borið þess bætur að hafa verið með í þessari ferð!

Björkin (IP-tala skráð) 4.10.2011 kl. 14:00

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ómægodd þú ert klikkuð. Yndislega klikkuð.

Jenný Anna Baldursdóttir, 4.10.2011 kl. 15:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband