Færsluflokkur: Ferðalög
20.9.2011 | 00:16
Ferðalög Ítalía 2
Í Genóva er ég stödd til að læra Ítölsku í skóla sem er staddur í miðjum bænum uppá hæð, og er í húsi sem einnig er íbúðarhús, en minnir á höll að utan. Finnst mér alger forréttindi að fá að vera í þessum skóla sem heitir Scuola Tricolore, en hann er rekin af pari sem er hollenski skólastjórinn og ítalska kærastan hans, þau tóku okkur eins og fjölskyldumeðlimum enda ekki fleiri en 3 í hverjum bekk.
Ástæða þess að ég valdi Genóva frekar en t.d. San Remo, er vegna fordóma og viðurkenni ég það fúslega, áleit eftir mikla yfirsetu yfir skólum að það væri of mikið af túristum í San Remo, enda staðsetningin nánast upp við Frakkland og ekki nógu ítalskur að mér fannst, annar skóli kom til greina sem heitir Piccola Universita'Italiana og er alveg Suður við Messina í Calabriahéraðinu. (eftir lestur Gómorra kom það ekki til greina já veit það fordómar) Þar sem ég hafði nú líka verið í suðrinu í Campagne héraðinu áður og verðið Riminiaðdáandi til margra ára á austurströndinni, þá ákvað ég að skella mér á vestur á Liguriaströndina sem hýsir Genóva.
Þegar ég kom að kvöldlagi eftir frekar misheppnaða för frá Íslandi, þá blasti þessi sjón við mér og allt annað vék úr huganum. En Genóva er byggð í svokallað panorama utan um höfnina. Hér á árum áður var mikið um sjóræningja og fleiri sem sóttust eftir borginni, vegna legu hennar og brugðu Genóvabúar á það ráð að byggja göturnar í völundarhús upp frá höfninni, sem kallast Porto Antico eða gamla höfnin, til að villa um fyrir misyndismönnunum.
Það átti nú eftir að bitna á mér illilega, enda ekki með gps innbyggt, en skólastjórinn kenndi okkur strax það ráð að leita alltaf niður á við. En þetta eru mestu ranghalar sem hugsast getur, og svo þröngar göturnar að maður gat snert húsin beggja vegna sumsstaðar.
Gamli bærinn upp af höfninni, var einskonar Sódóma Genóvu hér áður, en Þegar G8 ráðstefnan var haldin þar í júlí 2001, þá hafi áður verið lokað fyrir allar útgönguleiðir úr hverfinu og öllum eiturlyfjaneytendum og gleðikonum og öðrum sem óprýða þóttu miðbæinn verið sópað í burtu, götur þrifnar og snyrtar og húsin leigð ungu fjölskyldufólki.
Þetta eru mjög skemmtilegar og líflegar götur á daginn, en ekki fannst mér nú þægilegt að labba þarna um á kvöldin, þó fullt væri af fólki en hvort það var minn hugarburður eða ekki, þá fannst mér alltaf einhver ljótleiki hvíla yfir þessum bæjarhluta og var aldrei alveg örugg þarna.
Við skólafélagarnir hittumst gjarnan á bar þarna í gamla hverfinu og þar voru svona 12 barir á smá torgi og yfir öllum borðum voru stórar sólhlífar uppsspenntar á kvöldin, ekki til að forðast sólina, heldur egg sem íbúarnir í kring hentu eftir klukkan 12 á kvöldin í okkur skemmtanaglöðu námsmennina og aðrar barflugur. Einstaklega skemmtilegt að fara heim með egg í hári og fötum ef maður var ekki nógu vel varin.
í Porto Antico er notalegt að sitja á bar langt úti í sjó, þar sem sést yfir alla höfnina, allan fjallahringinn og hlusta á ítalska ljúfa músík og fá sér "aperitivo", sem er mjög vinsælt þarna sérstaklega fyrir námsmenn, en þá færðu þér drykk og færð mat með milli 7-10 á kvöldin, en borgar bara fyrir drykkinn.
Þarna í Genóva eru pálmatré niður við höfnina, en það er ekki svo algeng sjón Ítalíu, enda hefur víst herjað á pálmatrén, einhver pöddufaraldur sem éta trén að innan og er mjög algengt að sjá pálmatré án blaða, en þau virðast hafa sloppið í Genóva.
Niður við höfnina er mjög vinsælt sædýrasafn, eiginlega er flest sem dregur athygli fólks staðsett þar eins og t.d. gömul skip (draugaskip), útileikhús, matsölustaðir, útsýniskúla sem hangir í þar til gerðum krönum. (Eflaust flott útsýni, en mundi aldrei fara í slíkt vegna hæðar)
Einnig er plöntusafn í glærri kúlu og er hún eiginlega útí sjó. Ég hef nú ekki orðið svo fræg að fara þangað heldur enda alltaf biðröð í nokkra km. þegar ég hef ætlað að gefa mér tíma, en það er alltaf pláss á barnum góða sem ég sé yfir plöntusafnið. Er það ekki bara gott?
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.9.2011 | 17:59
Ferðapistill / Ítalía 1
Ég elska að ferðast, og hef ferðast mikið um Ítalíu, enda á ég dóttur búsetta þar, svo það liggur beinast við að sameina ást mína á Ítalíu og heimsókn til hennar.
Í suðrinu við þá fallegustu strönd sem ég hef augum litið Amalfiströndina er Positano, lítill bær, gjarnan kallaður perla Amalfistrandarinnar. Bærinn virðist hanga í fjallinu og ég viðurkenni að ferðin til Positano frá Napoli, var skelfileg fyrir lofthræðslupúkann sem ég er.
Georgio sem var sendur af hótelinu að sækja okkur til Napólí spilaði panflautumúsík á fullu blasti og keyrði eins og brjálæðingur kannski vanur að fólk væri í hræðslukasti í bílnum hans og best fyrir hann að koma því sem fyrst á leiðarenda. Ekki var laust við að ég riðaði þegar ég kom á hótelið eftir ökuferðina. Það gleymdist þó fljótt þegar yndislegur jasmín/sítrónu og einhversskonar kryddilmur læddist að vitum mínum og ævintýraljóminn á þessum stað blindaði mig svo, að ég gleymdi ferðinni. (þar til næst)
Positano er mjög rómantískur bær og yndisleg að sitja á stórum svölunum sem við höfðum og horfa á útsýnið á daginn og ekki síður ákvöldin, þegar bærinn var á að líta eins og upplýst póstkort.
Sjórinn við Positano er einn sá tærasti sem ég hef séð við strendur Ítalíu og þarna er mikil sítrónurækt og því allskonar sítrónuréttir í boði. Einnig rækta þeir þarna í suðrinu mikið af því sem þeir stoltir kalla sitt náttúrulega viagra, eða chili og er hægt að fá allt frá chili kjötréttum, chilisúkkulaði og jafnvel chili-ís svo fátt eitt sé nefnt.
Við vorum þarna um páska og var mjög gaman að fylgjast með þeirra háttum eins og þegar hálfur bærinn bæði börn og fullorðin virtust taka þátt í göngu krists (fræddi Georgio okkur) á föstudaginn langa, berandi stóran kross á milli sín og aðrir með kerti og allir klæddir í hvíta kyrtla. Mjög magnað!
Þar sem bærinn er í fjalli og vegirnir afskaplega þröngir, þá eru tröppur frá strönd og upp fjallið á milli húsanna og já ég segi nú bara kirkjutröppurnar á Akureyri hvað? Ég held að ég hafi verið með strengi í fótum uppá hvern dag þarna í 8 daga.
Hægt er að taka rútuna til Salerno og Amalfi sem eru báðir yndislegir bæir, en ég segi taka rútuna, því ekki mundi ég vilja keyra á þessum syllum, en þeir virðast geta keyrt þessa þröngu vegi og mætt bílum, en ég varð ansi oft að loka augunum og biðja til guðs og lofa bót og betrun ef ég hefði ferðina af.
Það er síðan stutt að fara til Sorrento sem er yndislegur bær og þar eru til dæmis appelsínutré og sítrónutré á öllum götum miðbæjarins og er ekki ónýtt að fara og versla og kippa með sér einni appelsínu á leið úr búðinni af næsta tré.
þar sem ég hafði lesið bókina Gómorra um Napólímafíuna skömmu áður en ég fór til Positano, þar sem höfundur lýsir því hvernig farið var með jörðina í Campagne héraðinu. Heilu geislavirku hlössunum var komið fyrir þar í jörðu ásamt fleira mengandi rusli, þá var það nú eiginlega það eina sem skyggði á hamingjuna yfir því að vera þarna. Hvernig er hægt að eyðileggja paradís með gróðrahyggjunni einni saman.
En á þetta var aldrei minnst á af Georgio bílstjóranum okkar vingjarnlega, sem þjónaði einnig fríviljugt sem leiðsögumaður. (Hann skildi aldrei ensku, þegar reynt var að spyrja hann út í þetta, hann hækkaði bara í fj...panflautumúsíkinni) Hann benti okkur þó á marga skemmtilega svæði, enda hann búsettur í Positano. Einn stað sagði hann að við yrðum að skoða og það var Capri. Sem við gerðum en síðar meira um það.
Positano er sá staður sem ég kalla paradís á jörðu og mun fara þangað aftur þó síðar verði.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)