Færsluflokkur: Dægurmál
27.9.2011 | 12:01
Húsmóðursblinda!!
Ég ætla ekkert að ljúga því að ég sé þessi "ofurhúsmóðir" mundi frekar segja þvert á móti, verð seint kosin "húsmóðir ársins" enda stendur hugur minn ekki til þess. Það eru svo marigir aðrir í kringum mig sem eiga tilkall til þess titils.
Ég hef klúðrað þvotti með þeim hætti að eitt sumarið gekk öll fjölskyldan í ljósbleikum fötum (hvað er með þessa sokka sem virðast komast óséðir inní vasa á hvítum fötum til þess eins að valda skaða?)
Eiginmaðurinn fyrrverandi hafði nú svo mikla trú á húsmóðurhæfileikum mínum að hann spurði hvort hann hefði stækkað, þegar hann stóð í ljósbleiku gallabuxunum sínum (áður hvítu) og skálmarnar náðu rétt niður fyrir hné eftir 100° suðu. Já ég er ekki frá því, sagði ég, því ég vildi nú ekki spilla fyrir trúnni hans á mér. Þegar ég sauð hins vegar lopapeysuna sem tengdó hafði prjónað, þá held ég að hann hafi verið farið að gruna að hann væri nú hættur að stækka svona rosalega.
Ég hef bakað þá ljótustu köku sem ég hef séð, en vinkonur mínar í saumaklúbbnum þótti hún góð, en þó var mikill afgangur. (??) Systur mínar koma mér þó til hjálpar ef ég þarf að halda veislur og jafnvel eins þegar samstarfsfólk mitt hefur þurft að halda veislur, en ég er svo almennileg og býð oftar en ekki fram hjálp mína.
Þær bjóðast þá til að hjálpa mér og enda oftast á að segja: "heyrðu ég skelli bara í franska súkkulaðiköku" fyrir þig. Mér finnst þetta svo flottur frasi, en hef aldrei getað notað hann sjálf, því ég skelli ekki í köku bara si sona. Kaka er stórmál!
Ég er þó ekki versta tilfellið sem ég veit um, því ég á vinkonu sem ætlaði að halda stórveislu fyrir manninn sinn á einhverjum tímamótum og leitaði til mín ( já orðspor flýgur nú hreint ekki það hratt)
Nánast ómótt yfir traustinu sem mér var sýnt og stolt fyrir allan peninginn sagði ég henni bara að "HENDA" í kötbollurnar mína frægu (óskhyggja, ég átti ekkert í þeim og þær voru ekki svo frægar).
Í kjötbollurnar þurfti: Saltkex, nautahakk og lauksúpu= hrært saman og mótaðar bollur
Í sósuna þrufti: sólberjasultu og Chilisósu = hitað og hrært saman
Ég útskýrði af miklum eldmóði, hvernig ætti að bera sig að, vinkonan skrifaði og skrifaði, en þar sem ég á það til að vera örlítið æst, og hef væntanlega ekki alveg raðað setningunum rétt saman, hugsanlega vantað inn orð og orð, enda ætlast ég stundum til að fólk lesi milli línanna það sem uppá vantar.
Eitthvað hafði nú uppskriftin "MÍN" skolast til, því vinkonan sagði svo frá á mánudeginum:"jú jú þetta tókst nú ágætlega, nema bollurnar hrundu alltaf í sundur" ég bað hana þá að lýsa bollugerðinni:
"Ég steikti hakkið, eldaði súpuna og svo þegar ég ætlaði að fara að bæta Ritskexinu útí, þá vildu þær ekki haldast saman bollurnar" en ég fann ráð við því sagði hún alveg stolt með titrandi röddu, "ég barði bara kexið inní bollurnar undir rennandi vatni og þá héldust þær saman, ég er reyndar alveg marin í lófunum, því það var svo erfitt að móta þær með kexinu í. Svo þegar fólk stakk kokteilpinnum i bollurnar þá hrundu þær allar aftur í hakk og kex. En mér tókst vel upp með sósurnar" sagði hún stolt.
Sósur? spurði ég, það átti bara að vera ein sósa, nei ég gerði tvær, sæta sósan =sólberjasultan og súra sósan = chilisósan. Þar sem hún var svo stolt yfir þessu, enda hennar fyrsta veisla þá sagði ég ekkert, en hún mun ekki sjá um mínar veislur í framtíðinni.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.9.2011 | 10:37
Er hefndin er sæt?
Óskemmtileg var uppákoman sem ég lenti í ekki alls fyrir löngu, en veit ég vel að ég er svolítið ónett (lesist brussa) já og á það til að vera örlítið fljótfær og hvatvís (lesist óforskömmuð) Ég var stödd á skemmtistað og lenti í því óskemmtilega atviki að þurfa að hella bailysdrykk yfir mann, en hann var svo leiðinlegur að hjá því varð ekki komist (ég tek það fram að það var hans glas). Hann hafði móðgað mann og annan, þannig að þetta var eiginlega það eina í stöðunni til að lækka í honum rostann, en ég er kona athafna og bregst við af fullu afli ef þurfa þykir.
Ég gekk síðan hnarreist full réttlætiskenndar með þetta "voðaverk" mitt í burtu til að fara á barinn, meðan verið væri að þrífa upp þetta klínstur við borðið, ekki vottur af skömm í brjósti mér. Ég var í mínu fínasta pússi, rándýrum nýjum kjól og mjög hælaháum skóm sem ég þurfti alveg að vanda mig við að ganga á.
Hitti ég gamla vinkonu þar sem ég stend við barinn eilítið í skugga, vildi vera örugg með að fá ekki yfir mig drykk, (maður veit jú aldrei hvað fólk tekur uppá, já muna að drekka bara gin í sóda) þar sem við stöndum þarna spjallandi sé ég ekki einhvern illa fullan mann koma í loftköstum niður tröppurnar með fullt rauðvínsglas í hendinni og vildi ekki betur til en svo að hann lenti á mér, glasið tæmdist yfir hár og andlit og lak hratt og örugglega á rándýra kjólinn minn og ég hentist út í hrufóttan vegg og hjó næstum ermina af við öxl og kjóllinn var eins og gatasigti á annarri hliðinni. Hvað er líka verið að gera með svona stórhættulega veggi á almenningsstöðum?
"þarna skall hurð nærri hælum" sagði hinn "fljúgandi skemmtikraftur" og brosti glaður, "glasið brotnaði ekki einu sinni" en þegar hann var að standa upp aftur notaði hann mig sem vogarstöng og ég þetta líka fisið sem ég er eða þannig, hentist á gólfið með þeim afleiðingum að hællinn fór undan öðrum skónum mínum.
Þegar ég kom til baka störðu allir við borðið mitt (líka beilísgaurinn sem glotti) og var ég spurð hvort ég hefði lent í árekstri. Ha árekstri! sagði ég móðguð, nei ég fékk 120 kg. mann yfir mig og 1 rauðvínsglas og eitt stk. vegg og kannski má kalla það árekstur en ég er alla vega farin heim, svaraði ég snúðugt.
Ég gekk í burtu teinrétt í baki með hárið í rúst, kjól í henglum á einum hæl, reyndi mitt besta að halda ermi við öxl, og halda kúlinu.
Leigubílstjórinn spurði hvort ég vildi fara uppá Borgarspítala. Nei takk! Farðu með mig heim sagði ég mjög yfirveguð og hugsaði með mér, er hefndin sæt? Ekki fyrir mig, en mun þó fara varlega með áfenga drykki í framtíðinni og ekki spilla þeim á fólk.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)