Madrid

Ég ákvað að skella mér til Madrid höfuðborgar Spánar ásamt syni mínum sem búsettur er í San Miguel de Salinas.  Við vorum á góðum bílaleigubíl og lögðum af stað snemma morguns til að losna við mestu umferðina.  Það var skrítið að eftir 2 tíma í akstri vorum við komin úr appelsínuökrunum og við tóku möndlutré í fullum blóma, en þau eru búin með sinn blómatíma hérna í suðrinu og virðist gróðurinn alveg mánuði á eftir  því sem hann er í blóma hérna og því sem norðar kom. Hitinn lækkaði líka markvisst og lögðum við af stað í 16 stigum en enduðum í Madrid í 9 stigum. 

Það er þægilegt vegakerfið hérna á Spáni og ekki mikið mál að keyra svona yfir landið og dásamlega fallegt vínviðurinn og ólífutrén á ökrum hálfa leiðina ásamt blómstrandi möndlutrjánum hvítu og bleiku. Hvítu trén gefa beiskar möndlur og þau bleiku sætar segja mér heimamenn.  Nú það gegnir öðru máli með akstur í stórborginni Madrid og var ég ekki mjög örugg með mig, enda annálaður lélegur bílstjóri og langaði mig alveg að loka augunum í hringtorgum með 4 akreinum, en ég var þó búin að læra að ytri hringurinn á réttinn, ekki sá innsti.  Ég var sem betur fer með son minn mér við hlið sem var mín hjálparhella og "GPSari" sagði mér að beygja hérna og þarna. Komst ég nokkuð heil út úr akstri mínum í Madrid, lenti á einum stólpa sem var sem betur fer fóðraður með mjúku frauðplasti vegna fólks eins og mér sem eiga í erfiðleikum að troða sér í lítil stæði enda var ég á "stórum" bíl (Renault clio).

Madrid er falleg borg og margir mjög fallegir staðir í henni sem vert er að skoða og húsin eru rosalega falleg og vorum við á hóteli sem var skemmtilega byggt og aðeins í útjaðri borgarinnar, sem var allt í lagi þar sem við vorum á bíl, en það var mjög dýrt að leggja í bílastæði og reiknaðist mér til að ég hafi greitt um 7500 ísl. kr. í bílastæði í þessa 2 sólarhringa sem við vorum í Madrid.  Við borðuðum á mjög skemmtilegum stað rétt fyrir neðan Plaza Mayor torgið á móti markaðshúsinu og var þessi staður eins og gamalt klaustur og virtist vera að hruni komið en mjög skemmtilega innréttað með altaristöflu og trúarlegum myndum og skrauti og fullt af stórum kertum.  Fengum frábæra máltíð þarna en það er mun dýrara í Madrid en hérna í suðrinu alveg helmingi dýrara og sumsstaðar þrefalt dýrara en er svo sem vel þess virði.

Plaza Mayor er torg sem er með fullt af veitingastöðum og mikið um allskonar uppákomur. Það var byggt árið 1619.  Við borðuðum á einum af veitingastöunum þar og var það skemmtileg upplifun ágætis matur og mikið af fólki á torginu, en uppsprengt verð eins og hætt er við á fjölförnum túristastöðum.

Við löbbuðum svo niður að Puerta del Sol sem er annað skemmtilegt torg þar sem hin fræga klukka er sem sjónvarpað er frá síðustu 12 sekúndur til miðnættis og vínberin 12 borðuð sem eiga að boða 12 góða komandi mánuði og þetta hefur verið gert um hver áramót síðan 1962. Í kringum það torg er allt fullt af göngutötum með öllum helstu búðum sem konur þurfa að kíkja í þegar í útlönd er komið.

Madrid er æðisleg borg falleg og fjöbreytt og iðandi af lífi og fjöri eins og stórborg á að vera.

 


San Miguel de Salinas (eða SM bærinn við saltvötnin)

San Miquel er lítill bær sem stendur við saltvötnin sem sögð eru hafa lækningarmátt og ég trúi því einfaldlega þar sem ég finn mun á mér heilsufarslega eftir nokkra daga veru hérna. Saltvötnin eru frá því að vera allt að því grá og görótt út í blá og í sólinni eru þau bleik, oftast er nú sól svo þau eru bara bleiku vötnin og er yndislegt að horfa yfir þau og sjá saltfjöllin sem standa allt í kringum þau. Ég bý í þetta sinn á Kirkjutorginu og fyrir framan gluggann minn eru pálmartré svo ekki þarf málverk á veggina hérna. Við höfum verið að fylgjast með undirbúningi páskanna en fólkið sem tekur þátt í páskagöngunni byrjar að æfa gönguna og trumbusláttinn í febrúar og eru nokkur kvöld í viku sem ekki heyrist neitt nema trommusláttur og músík og finnst mér fróðlegt að fylgjast með þessu og sjá metnaðinn í fólkinu sem er allt frá börnum uppí aldraða karla.

Ég hef lagt komur mínar undanfarin ár hingað til San Miquel og á orðið mjög erfitt með að slíta mig frá þessum bæ, þar sem allt er svo rólegt og þægilegt. Í þessum litla bæ eru fjöldinn allur af veitingastöðum, kínverskur, inverskur, marrókanskur, enskur staður Mt. Street, ítalskur, norskir staðir, en Norðmenn eru búnir að yfirtaka litlu hellana hérna sem voru í eigu spánverja og hafa þeir hækkað verðið verulega á matseðlinum en þessir hellar Las Cuevas eru mjög sjarmerandi og gott að borða í þeim. Sjálfsögðu eru líka nokkrir spánskir frábærir staðir hérna.  Hérna kostar mjög lítið að borða úti og fær maður 3 rétta máltíð með vínflösku kaffi og desert á 14 evrur. Hérna er ódýrt að lifa og er fólk almennt að greiða um og undir 50 þús íslenskum krónum í húsaleigu.

Í dag miðvikudag er markaðsdagur í litla bænum mínum og er ys og þys og allar húsmæður bæjarins eru mættar til að kaupa inn fyrir heimilið og bærinn iðar af lífi og fjöri. Allir ávaxtabændurnir kalla hver í kapp við annan sín tilboð á þessu og hinu og reyna að bjóða betur en bóndinn við hliðina.

Það angar allur bærinn af kryddlykt og nokkrir eru að selja grillaða kjúklinga og er gott að kippa með sér einu stykki í lok markaðsferðarinnar. Sígauninn er á sínum stað með harmonikkuna sína og lætur litla reytta og skítuga hundinn sinn betla pening og ef maður gefur honum, þá dansar hundurinn fyrir mann en ekki virðist hann nú hamingjusamur greyið og eigandinn lætur hann heyra það ef hann dansar ekki nægilega lengi fyrir mann.

Á markaðnum er hægt að gera góð kaup og stundum finnst maður varla taka því að borga þegar maður hefur fyllt heilu pokana af ávöxtum og grænmeti og borgar nokkra hundraðkalla fyrir það. Svo er nú gott að geta sest  niður í enda götunnar eftir að hafa ráfað um markaðinn og fá sér kaffibolla og slaka á. 

Hérna í bænum er íslensk fasteignasala Zalt Properties og einnig íslensk snyrtistofa Fancy beuty saloon og þarf maður ekki að sækja neitt út fyrir bæinn. 

Ég er ástfanginn af þessum litla bæ og enda sjálfsagt hérna þegar ég verð stór eins og maður sagði þegar maður var "minni"


Það er ekki allt bara í fína í Kína!

Með veru minni í Kína í borginni Nantong lærði ég mikið sem kom mér á óvart flest allt jákvætt og virðist vera að það sé leið til að halda reglu og nokkurn veginn stjórn hérna í þessu stóra landi með allan þennan fólksfjölda. Bara á hátíðisdögum leggjast um 42 milljónir manna í ferðalög innan landsins og auðvitað þarf aga til að hafa stjórn á þessu öllu, þó sumt finnist manni skrítið eða hreinlega kjánalegt. Mér þótti til dæmis skrítið að þurfa að skrá mig inní landið á lögreglustöð til að fá að vera þarna í heimsókn og  innan 24 tíma eftir að ég lenti í Shanghæ. Það er þó gert til að staðsetja alla sem inní landið koma í hús og geta hótel verið ábyrgðarmenn fyrir viðkomandi, vinnuveitendur eða eins og í okkar tilfelli "vinur" eða bílstjórinn hans tengdasonar míns. Enginn er hérna í landinu án ábyrgðar.

Stundum gat ég ekki varist brosi þegar kínversku vinir okkar fullyrtu að allt væri einfaldlega best í Kína þrátt fyrir að hafa aldrei farið út fyrir landsteinana, þeir þurftu þess ekkert til að vita það að í Kína væri allt best, þeim er einfaldlega sagt það og það stendur.

Bílstjórinn sagði okkur líka ljóta sögu og harðbannaði okkur að fara í verslunarmiðstöðvar um helgar með litla prinsinn okkar, því að um 100 börn týndust reglulega um helgar þar sem þeim væri stolið og seld sem líffæragjafar. Sagði mikið svartamakraðsbrask með börn, það kom mér þó mikið á óvart þar sem kínverjar dýrka börn og litli okkar fékk aldrei frið, allir að strjúka honum og gefa honum eitthvað. Einnig harðbannaði hann mér að fara einni út eitt kvöld þegar ég ætlaði að kaupa ís handa litlu krökkunum sem voru í heimsókn, hann heimtaði að fara með mér. Ég þáði það nú ekki, enda hélt ég nú að ég gæti barið hvern þann kínverja sem reyndi að abbast uppá mig. Þetta var mér sagt og ég sel það ekki dýrara en ég keypti það en þetta kom þó frá heimamanni sem finnst allt best í Kína.

Bílamálin var líka eitt sem mér fannst nú í hálfgerðum ólestri, þrátt fyrir að flestir bílar séu orðnir rafmagnsbílar eða hybrid og heyrist því ekki mikið í umferðinni nema bílaflaut sem þeir nota held ég bara svona til að segja hæ! Þeir klippa gjarnan úr bílunum bílbeltin og ekki er um auðugan garð að gresja í barnabílastólamálum. Við þurftum að ferðast með litla gaurinn lausan í leigubílum, þegar við fórum milli staða og það var erfitt að venjast því, en þar sem við máttum ekki keyra og hefðum ekki getað það heldur þar sem öll skilti eru á kínversku svo við hefðum verið fljót að villast.  Við reyndum því að nota bílstjóra tengdasonarins sem mest við gátum enda við með okkar bílstól fyrir barnið þar.

Eitt fannst mér líka ekki gott að það virtust sem allar vörur væru útrunnar í öllum búðum og bara hending að fá vörur sem voru rétt nýútrunnar og vorum við alltaf fljót að kaupa upp lagerinn ef við fundum slíkar vörur. Ávextirnir þeirra og fiskur og kjöt var þó alltaf nýtt og ferskt. 

Ein sjónvarpsstöð CGTN (China global television network) sendi út á ensku og var mjög gaman að fylgjast með þar, þeir fluttu náttúrulega allt aðrar fréttir en við eigum að venjast og var einstaklega gaman að horfa á svona spjallþætti, en ef einhver hafði eitthvað miður gott að segja um Kína þá voru þáttarstjórnendur sem gjarnarn voru mjög svo röggsamir Helga Seljan týpur snöggir að þagga niður í viðkomandi. Aðallega var þó fjallað um uppbyggingu og það sem var vel gert og hver segir svo sem að það sé ekki bara gott.

Þetta var svona mín upplifun af því sem mér þótti ekki gott í Kína en landið er samt vel þess virði að heimsækja enda einstaklega fallegt land og ljúft fólk sem það byggir.

Kveðja frá Kína.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband