Fóbíur!!!!

Könguló

Ég er með fóbíur já ekki bara eina heldur fleiri, ég er hrædd við köngulær og það er dóttir mín líka (tilviljun?) Ég er líka lofthrædd, ég hræðist að tala fyrir framan fullt af fólki ofl.

Ég veit ekki af hverju ég hræðist köngulær en  ég kom eitt sinn heim frá Spáni með þessa líka vænu köngulóna sem kom upp úr ferðatöskunni og kom sér fyrir  á stofuveggnum hjá mér og var á stærð við hnefa og ég var þess viss að nú væru dagar mínir taldir og þar sem ég beið yfirvofandi árás stjörf af hræslu, hvít í framan eins og magnyltafla, veljandi líkklæðin í huganum hringdi ég í 112, sem bentu mér á að hringja í Tilraunastofuna á Keldum og tala við köngulóarsérfræðing þar, sem og ég gerði og með titrandi hvíslandi röddu svo ég mundi ekki æsa kvikindið til aðgerða, sagði ég manninum við hvað ég ætti að etja. Hann sagði að hugsanlega væri hún skaðlaus, (hugsanlega ekki!). Best væri að ryksuga hana upp og láta ryksuguna ganga í einhvern tíma og þá ætti hún að vera dauð. Ég gekk í áttina að veggnum vopnuð ryksugu í annarri hendi, síminn var í hinni, vildi hafa vitni þegar ráðist yrði á mig, hægt en örugglega beindi ég ryksugurörinu að kvikindinu sem sogaðist inn með látum og síðan hélt  ég út á plan með ryksuguna (og já manninn í símanum) og fann þar mann sem átti leið um hverfið og bað ég hann að henda fyrir mig ryksugunni í ruslið, sem hann samþykkti en spurði mig hvort ég mundi vera til í að slökkva á henni á meðan já einmitt en ekki alveg strax sagði ég en afréð að segja honum ekki að í raun og veru væri þetta líkkista undir könguló. Þakkaði honum pent og tók úr sambandi og enn beið nýji vinurinn minn í símanum, rétt svona meðan ég henti öllum ferðatöskunum útá svalir, þar sem þær biðu vinkonu minnar sem er ekki hrædd við þær, eiginlega bara hrifin af þeim köngulóm.

Leysti ég nú manninn undan ábyrgð í símanum, en þó ekki fyrr en ég hafði sagt honum frá því að ég þekkti nú til þessara spænsku kvikinda, hefði áður lent í þeim, en var þá stödd á Majorka og á stuttbuxum eiginmannsins sem lágu á rúminu var sú stærsta padda sem ég hef séð og spurði hann við mig hvort ég væri ekki orðin of gömul að hræða hann með svona áberandi gervilegri plastpöddu, og í þeim orðum ætlaði hann að grípa hana en hún stökk á hann og ég hljóp inná bað og læsti að mér. Hann barði á hurðina og bað mig að opna. Nei aldrei fyrr en þú ert búin að koma þessu út sagði ég, fegin að hafa náð að verða á undan honum í skjól. Í því heyrði ég hvílík læti og sá vesalings manninn fyrir mér liggjandi á gólfinu í slag við þetta dýr, en hann hafði þá bara brotið kúst og nokkra stóla i tilraun til að drepa gaurinn, sem komst undan og út á svalir og eftir það voru þær læstar.

Ég eyði drjúgum tíma á sumrin í að köngulóarhreinsa svalirnar og er komin með gott ráð þar sem ég nota gaskveikjara og brenni eggin þegar þær eru búnar að fylla alla stóla og öll borð með þessu og svo svíð ég þær að lokum. Já kallið mig morðingja, en á ég þessar svalir eða þær? Einnig er ég lofthrædd og geng alltaf þétt upp við hús með svölum ef þær eru hærri en meter frá jörðunni, stirðna og sundlar og ef ég lendi í aðstæðum hátt uppi, þá bara bið ég til guðs, allah og fleiri kappa og lofa að ganga í klaustur ef ég kemst heil niður, hef ekki staðið við það ennþá.  Ég skil hins vega ekki annarra fóbíur, á t.d. eina vinkonu sem er sjúklega hrædd við gluggaumslög. Ég meina þeim er hægt að henda í ruslið, án þess að eiga það á hættu að þau komi aftur skríðandi uppúr og þó?

Hvað heitir það aftur jú ÍTREKUN!!!!


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Er í kasti. ARG

Jenný Anna Baldursdóttir, 15.9.2011 kl. 18:46

2 Smámynd: www.zordis.com

Hárfroða eða raksápa er betri leið til að króa af kónguló!  Ég elska þær og rækta nokkrar í Citýinu. 

www.zordis.com, 15.9.2011 kl. 22:07

3 identicon

Hvernig er hægt að vera svona fyndin alltaf elsku Gusla mín

Jóhanna (IP-tala skráð) 16.9.2011 kl. 13:03

4 identicon

Hefði viljað sjá þig og þessa frá Spáni. Fjöllin í Tælandi væru ekkert fyrir þig, þú sást mína vinkonu sem ég hitti þar:)

Steinvör (IP-tala skráð) 16.9.2011 kl. 17:08

5 identicon

tu ert yndislegust!

Inga HRefna (IP-tala skráð) 17.9.2011 kl. 16:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband