30.11.2022 | 13:56
Frábæra heilbrigðiskerfið okkar!
Nú er ég kjaftstopp!! Gerist ekki oft. Þannig er að ég á ættingja sem var svo óheppinn að fá ólæknandi blóðsjúkdóm og var hann búin að fara uþb. 20 sinnum á bráðadeildina með 50% blóð og fékk blóð og sendur heim. Ekki virtist vera mikil áhersla lögð á að finna ástæðu blóðleysisins. Hann bjó á 5 hæð í lyftulausi húsi og tók það hann tímana 2 að labba upp en þegar hann var orðin blóðlaus aftur eftir vikuna þá þurfti hann einfaldlega að hringja á sjúkrabíl þar sem hann treysti sér ekki niður sjálfur.
Nú hann fær greiningu í júlí með ólæknandi bráðahvítblæði og fór í meðferð og fékk heimili á sjúkrahótelinu. Viku og viku í senn og sagði hann upp sínu húsnæði, enda ekki fær um að komast þangað upp.
Nú dró mikið af honum og hann endaði í hjartastoppi og öndunarvél og var haldið sofandi í 12 daga og fór síðan á blóðmeinadeildina. Hann hefur verið að braggast smátt og smátt, eins og hægt er að braggast með beinverki öllum stundum og ólæknandi sjúkdóm. Hann gisti náttúrulega á spítalanum í 3 til 4 vikur og fékk síðan aftur að fara á sjúkrahótelið. Nú hann hefur víst dvalið of lengi á þessu sjúkrahóteli skv. staðli einhvers súlurits (verst hvað þetta hvítblæði er ekkert að taka tillit til plássleysis) og var gert að yfirgefa herbergið sitt í dag,. Veit ekki hvort einhverjir hafa lent í að leita að leiguhúsnæði en það er bara EKKI neitt að hafa ekki kjallaraholu, ekki einu sinni geymslu.
Í dag er hann hálfnaður í meðferðinn þessa vikuna sem fer mjög illa í hann með tilheyrandi ógleði og almennum slappleika og er hann fársjúkur af meðferðinni og þurfti að pakka niður dótinu sínu og flytja í bílinn sinn. Þar er hann nú.
Er með þessu verið að reyna að fækka fólki á biðlistunum, látum þennan deyja í bílnum úr kulda, tekst sennilega ekki það er of gott veður.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.11.2022 | 11:32
Piparkökuhúsameistarinn (huglægi)
Ég veit ekki hvað það er að ég telji mig alltaf þurfa að vaða í það á skítugum skónum liggur við að gera hluti sem ég er ekki góð í. Bakstur! ja kannski ekki beint bakstur í þessu tilfelli en ég keypti þar til gert pipakökuhús í Ikea (minni týpuna) sem þurfti að setja saman og skreyta.
Ég fór á flug á heimleið og hugsaði um piparkökuhúsasamkeppnina í Smáralind og hvar mitt hús ætti nú að standa. það var ekki efi eitt augnablik í mínum huga þarna í mínum heimi. Ég velti því fyrir mér hvort ég færi ekki í grúppu sem héti 65 ára og eldri. Þá mundi ég eftir því að maður þarf að baka veggi og þak sjálfur úr hveiti frá Kornax. Ok ekki málið ég geri það eftirminnilegasta hús sem ég hef gert enda ekki annað í stöðunni þar sem þetta var hið fyrsta.
Niðurstaða á fagurlega módelinu mínu huglæga var í reynd svona: Límtúpan var með svo litlu gati að límið komst ekki út en ég gerði aðgerð á túpunni skar hanna upp og sótti klístrugt límið en festi puttana alltaf á milli veggja og þaks og þurfti að þvo mér 10 sinnum í límferlinu.
Við áreynsluna komu nokkur brot í veggina sem ég verð að viðurkenna að er bara sjarmerandi eftir að hafa verið límdir saman með nokkrum límklessum, svona kannski eins og ítölsku gömlu húsin eru. Nú þetta virtist ekki vel gert hjá þeim þarna í Ikea alla vega passaði strompurinn engann veginn á þetta þak en var svona eins og fljótandi ofan á því. Fallegt!
Barnabarnið mitt hafði svo borðað allt skrautið nema nokkur snjókorn svo húsið var skreytt öðru megin.
Ég er hætt að taka niður pantanir fyrir jól og svo eru veggirnir hérna út um allt borð hálfétnir sem sagt ekki sérstaklega bragðgóðar piparkökur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.11.2022 | 17:37
Snillingurinn minn barnabarnið!
Eins og ég hef áður tjáð mig um með yndislega sérstaka barnabarnið mitt og hans sérstöku hæfileika þá getur hann algerlega drepið mann með skemmtilegum setningum sem hann þylur upp eins og "robot" eða í þeim tón sem hann hefur heyrt viðkomandi setningu. Þessa dagana hefur hann einstakan áhuga á geimförum og geimferðum og þylur upp allskonar setningar tengt því á ensku þar sem hann fann þetta "skemmtiefni" á ensku. Hann er gjarnan í stígvélunum sínum að horfa á þetta því geimfararnir eru í einhversskonar stígvélum við "the new spacesuit".
Hann hefur svo þetta einstaka minni að hann horfði á einhverja videómynd þá er ég ekki að tala um kvikmynd, heldur sá hann krakka í rútu á leið í skólan þegar hann var mjög upptekinn af rútum sérstaklega Norðurleið og Teitur rútur. Ég held að þetta hafi verið þegar hann var svona 4 ára sem gera rúmlega 3 ár síðan og ekki man ég þetta. Hann biður um þetta alla daga og svo er það í okkar höndum þ.e. minna og foreldra að reyna að finna þetta. (engin hætta að hann gleymi eða gefist upp).
Nú einnig er hann mjög hrifinn af Subway logo og pepsi max lime enginn sykur alvöru bragð. Hann var hérna hjá mér um helgina, þar sem ég er hans stuðningsforeldri og bað svona 119 sinnum um jóladót og þar sem hann er í hálfgerðu dekri hjá mér fjarri krefjandi bróður sínum þá fór ég í geymsluna og sótti jóladótið og týndi hann upp þar til gert "dót" sem hann hefur svo með sér um alla íbúð og já ég vaknaði með svona hnetubrjótskarl undir bakinu í morgun frekar notalegt og er öll í glimmeri alveg gasalega fín.
Svo þegar hann segir setningu sem er skiljanleg og á við þá stundina eins og "amma viltu koma að hjálpa mér", þá verður maður svo upprifin að manni langar að senda fréttir út um allan heiminn eins og ég í þessu tilviki með jólaskrautið. Hann veit að pabbi kemur um jólin og hann segir "amma taka jólin með fram" því hann er að bíða eftir pabba sínum og hvað er þá betra en að halda bara á jólunum svo þau fari ekki framhjá. Nú færi ég sem sagt "jólin" milli herbergja eftir því hvar hann er.
Ég dey yfir þessu barni
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)