Færsluflokkur: Bílar og akstur
26.4.2012 | 17:56
Bíladólgar fjölskyldunnar.
Ég hef aldrei gert mig út sem einhvern frábæran ökumann, sérstaklega ekki eftir að vinkonur mínar hafa í gegnum tíðina verifð að skjóta á mig í hvert sinn sem þær sitja í bíl með mér. Kalla mig Schumacker eða hvað hann nú heitir.
Held reyndar að þetta sé í blóðinu, jafnvel þó pabbi minn hafi verið atvinnubílstjóri í mörg ár og tjónalaus með öllu, þá held ég að við systurnar höfum ekkert endilega fengið þann bílaeiginleika í arf. Alla vega á ég systur sem keyra ekkert sérstaklega vel og frænkur sem eru jafnlélegar.
Ein frænkan gefur alltaf í á hraðahindrun (eins og henni finnist hraðahindrunin vera leið til að yfirstíga með hraða) og maður má þakka fyrir að halda tönnum og fyllingum, en ég mundi nú ekki segja að ég gengi svo langt að setja á mig hjálm vegna fyrirhugaðra höfuðmeiðsla, en nánast. Hef nú fengið ansi margar kúlurnar í ferðum með henni.
Ein er svo heppin að hafa alveg óvart keyrt bíl inní bakarí og var það nú ekki lítill bíll heldur svona amerískur kaggi, og hún þurfti alveg að hafa fyrir því að keyra uppá gangstétt og inní gegnum glugga og hurð að afgreiðsluborðinu. Keypti einn snúð í leiðinni.
Síðan fór hún "óvart" með bensínslönguna með sér á brott frá bensínstöðinni (já það hefur í raun og veru gerst er ekki bara brandari á fb.) Sem sagt ég á ættir að rekja í annan stað atvinnubílstjóra og hins vega "ekkert sérstaklega góðra" bílstjóra.
Ég fékk sem sagt ekk sérstaklega góðu genin. Eins og ég hef áður sagt, þá erum við ég og bílar ekkert sérstaklega að "Bonda" Fyrsti bíllinn sem ég eignaðist alein var Toyota Corolla eftir sameign með eiginmanninum á allskonar bílum, sem ég tel ekki með, enda keyrði ég þá sjaldnast, heldur lét hann um málið, held líka að hann hafi ekki alveg treyst mér, hvorki til að keyra og þá síður að rata.
Toyotan endaði sinn feril aftan á hinum bílnum sem var í bænum um verslunarmannahelgina 1996, en held að við höfum verið þeir einu sem vorum á ferð í Reykjavík þá helgina, sá var stopp á rauðu ljósi. Ég sá hann ekki!
Ég var núna að skoða brot í stuðaranum hjá mér, skrítið...ég hef ekki keyrt uppá gangstéttir í langan tíma..held að bíllinn minn sé of nálægt götunni, nú eða einhver vísvitandi lamið stuaðarann í sundur. Þarf að fara að huga að öruggu stæði hérna á Álftanesinu
22.1.2012 | 13:20
Kona og bílar!
Gleðilegt ár! Vonandi verður þetta ár betra en síðasta. Kannski fær maður vinnu á nýjum vettvangi, kannski ekki, maður tekur ekkert sem gefið eftir hrun. Kannski er maður bara hættur vinnu á miðjum aldri og getur farið að huga að áhugamálum sínum sem eru í mínu tilfelli ekki bílar.
Besta vinkona mín segir að ég sé ömurlegur bílstjóri! Mig sárnar, hugsa með mér að bæði börnin mín séu lifandi og vinkona mín líka, reyndar þegar ég var andvaka í nótt yfir þessari yfirlýsingu frá henni, þá fór ég að hugsa. Hún er alltaf á sínum bíl ef við erum að flandrast eitthvað og þegar við erum að ferðast fæ ekki ekki að snerta bílaleigubílinn hmmm.... já ég sem hélt að hún vildi að ég væri "navigatorinn" sem getur ekki verið miðað við mína sögu af "rötun" á staði. Ég sem enda í Genieve í Sviss í stað Genoa á Ítalíu. Aha æm on tú her!!!
Ég fór að hugsa um fortíð mína og samband mitt við bíla í gegnum árin. Jahá þarna kom það! Elsta systir mín skildi við 1. mann sinn (af tiltölulega háum fjölda eiginmanna) og fékk bílinn þeirra hjóna í sinn hlut, en þar sem hún var barnung við giftingu og nýkomin með bílpróf og hafði endað fyrstu ökuferðina sína á Miklubrautinni með 3 dekk, þar sem 1 dekkið hafði tekið uppá því að yfirgefa bílinn og fara á undan þeim, áttaði hún sig á því að henni var ekki ætlað að keyra bíla. (nema þetta hafi verið trikk hjá husbandinu til að losa hana undan þeirri ætlun sinni) Alla vega það tókst og þegar hún svo varð einstæð með 1 barn þá þurfti hún einhvern til að keyra sig.
Ég var glöð og sæl, nýkomin með bílpróf og var svo hamingjusöm að hafa þennan Fiat Uno algerlega fyrir mig. En ég kunni ekkert með hann að fara og held að verðgildi hans hafi rýrnað á þessum mánuðum um 90% en ég setti aldrei olíu á hann, kannski bensín þegar hann var farinn að hiksta og svo endaði ég eina ferðina uppá kantsteini sem lá á hliðinni við Umferðamiðstöðina. Ég sá hann ekki (svo ekki við mig að sakast sagði ég) en bíllinn rann uppá steininn og vó þar salt. Það þurfti 6 fíleflda karlmenn að bera bílinn af steininum og við mikinn hlátur þeirra keyrði ég í burtu sem óð væri eldrauð í framan.
Ég hef áður skrifað um bíl tengdamóður minnar sem ég rétt missti inní garð, við lítinn fögnuð foreldra vina minna, án þess að vera ökumaður bílsins þannig að já ég er að átta mig á "VANTRAUSTINU". Fiatinn var nú ekki alveg búin að fá sína útreið, ég átti enn nóg eftir. Mér hætti til að vanmeta "breiddina" á þessum ponsulitla bíl og sneiddi af báða hliðarspeglana í innlögnum í stæði.
Einn daginn í sól og blíðu var ég að skutla systur minni og barni ásamt kærasta (sem síðar varð eiginmaður númer 3 eða 4 man það ekki alveg) og allt í einu skall á hvílík þoka og ég setti rúðuþurrkurnar á á fullt en ekkert dugði, ég sá varla neitt, en heim ætlaði ég með fólkið mitt og það tókst að lokum. Þegar við svo stigum út var sól allstaðar nema í kringum bílinn, svo ég opnaði húddið og hafði með mér kókflösku til að berja í startpunginn (maður kunni nú trix í den) en þá skaust lok af vatnskassanum uppúr með hvílíkum látum og upp kom hvílík gusa. Ég hringdi í pabba sem var rosalega hrifin eða þannig. Settirðu ekki vatn á vatnskassann stelpa sagði hann? Nei það er nóg af rúðupissi og ég nota það svo lítið. Hann hristi hausinn og græjaði "karið" á staðnum.
Svo dag einn var ég að skutla barni systur minnar til dagmömmu með 3 aðrar systur með mér um borð og er að keyra frá heimilinu, þá sé ég hvar systir mín hoppar og veifar höndunum og ég segi við barnið: "veifaðu mömmu elskan hún er að vinka þér"
Verð að viðurkenna að mér fannst bíllinn aðeins halla til annarrar hliðar, en var svo hissa og glöð hvað margir vinkuðu okkur og við systurnar sögðum við hvor aðra, vá hvað allir eru vinalegir í morgunsárið, en þegar allt í einu allir farþegarnir voru komnir sömu megin, þá ákvað ég að stoppa, því ég hafði heyrt einhvern hávaða en hækkaði þá bara útvarpið og þá hvarf hann. Það var hvellsprunigð og já kallið mig ljósku, en þegar maður er að stíga sín fyrstu skref (hjólför) þá er maður ekkert með svona í blóðinu.
Fiatinn endaði á sölu, því eiginmaðurinn fyrrverandi var svo ergilegur hvernig "farið var með bílinn" sagði hann...held nú að þetta hafi frekar verið afbrýðisemi. En hvað sem því líður þá er þetta fyrsti bíllinn sem ég hafði undir höndum eftir bílpróf og þeir eru búnir að vera nokkrir síðan.
Kannski hefur vinkona mín rétt fyrir sér. Ætli það sé hægt að taka "endurtektarökupróf" og þá ætla ég ekki til ökukennarans sem kenndi mér, svo mikið er víst.) Mig grunar nefnilega að ökukennarinn hafi sleppt mér í gegn, þar sem hann var svo nervös eftir að ég keyrði niður 2 menn í einu á Vesturgötunni á sunnudagsmorgni eftir 25 ökutíma. (þeir slösuðust lítið)
Segi nú bara bless er að fara í bíltúr svo haldið ykkur heima.
18.9.2011 | 13:09
Samband bíla og konu
Bílar eru fyrir mér bara svona "þægindargræja" til að komast milli staða og skilgreini ég þá annað hvort sem græna, svarta nú eða rauða sem sagt eftir litum. Ég er ekkert að velta því fyrir mér hversu mörg "kúbikk" þeir eða eru eða þannig hlutum.
Eftir að ég varð einhleyp og mitt hlutskipti varð að fara með minn bíl á verkstæði og átti kannski erfitt með að lýsa nákvæmlega hvar eitthvað hljóð kom (fyrir aftan farþegasætið??) þá kannski eðlilega fannst mér ég meðhöndluð eins og fáviti og fékk á tilfinninguna að bifvélavirkinn hugsaði: " já já þessi kallinn LJÓSKAN ganga þær nú nokkuð á öllum ætli það sé ekki bara rúðuþurrkurnar sem þarf að skipta um og þá þegir hún, ekkert að þessum bíl"
Jæja ég er kannski ljóshærð en ekki heiladauð, svo ég tók á það ráð í hvert sinn sem ég fór með öldruðu Toyotuna mína (lesist: hvítur bíll) að spyrja hvað hefði nú verið að. Ég eignaðist nýtt orðasafn, svona eins og jú jú kúplíngin er nú að gefa sig, viftureimin er slök, hljóðkúturinn götóttur og eitt orð sem átti eftir að breyta lífi mínu "spindilkúlurnar".
Með þetta orð í farteskinu voru mér allir vegir færir, ef ég fór á verkstæði, þá sagði ég gjarnan: "það er eitthvað að og ég hallast að því að það séu spindilkúlurnar" það passaði verkstæðismaðurinn hofði á mig með aðdáun. Þarna fór kona með þekkingu. Ég fullyrði að bílaviðgerðareikninarnir mínir snarlækkuðu með þessari nýtilkomnu þekkingu minni. Já það er gott að vera klár.
Einu sinni sem oftar er ég stödd á Ítalíu og er að keyra í Toscana á leið minni til Flórens, þegar ég varð vör við að það kom gífurleg þoka allt í einu, og heyrðist rosalegt hljóð undan Ford Focusnum (ég veit það núna á eins bíl í dag). Ég var ásamt nokkrum systrum á ferð og þær sögðu mér að það kæmu eldglæringar undan bílnum (sjálfsagt laust púströr) en þokuna gat ég ekki skýrt því hún var bara í kringum minn bíl.
Ég fann verkstæði og sagði mágum mínum að ég skildi bara annast þetta, væri búin að taka námskeið í ítölsku og ég væri bara góð í þessu. Ég ætlaði nú ekki að láta einhvern Ítala plata mig íslensku ljóskuna, sem vissi nú eitt og annað um bíla.
Macchina Rotto (ónýtur bíll) sagði ég við manninn á verkstæðinu. Si si sagði hann, en hvernig segi ég nú spindilkúlur á ítölsku (það var EKKI í bókinni, muna kaupa bók á ítölsku um viðgerðir bíla). Ég ákvað því að reyna enskuna hmmmmmm: I think the "SPÆNDELBALLS" are broken byrjaði ég, hann varð ekkert hrifin og sagði: No capisco og ég reyndi aftur "IL SPJUNDELBALLINO" ?? (enginn hrifning) No capisco sagði hann og hristi hausinn. Vesen nú fyrst hann vildi ekki hjálp, þá varð hann bara að finna út úr þessu sjálfur.
Þetta endaði vel, það vantaði víst bara vatn á vatnskassann (Aquakassino???) og púströrið var laust (vissi það nú) en hvernig ætli maður segi púströr á ítölsku?????
Bílar og akstur | Breytt s.d. kl. 13:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)