28.8.2019 | 18:34
Ráðgátan leyst um horuðu ítölsku konurnar?
Ég hélt á tímabili að ég væri komin með lausn við vanda okkar kvenna við aukakílóum, þar sem ég fylgdist grant með konum á miðjum aldri borða eins og enginn væri morgundagurinn sína 3-4 rétti í hádeginu og annað eins á kvöldin. Eftir hádegið er svo alltaf borðuð melóna og þar hélt ég að lausnin fælist. Þá tók ég eftir því að þær stoppuðu ekkert við melónusneiðar, heldur kom kaffi og nokkrar sætar kökur svona 8 stk. og stundum ísar og þá lágu einnig nokkrir í valnum.
Ég var væntanlega orðin grunsamleg á heimilinu þar sem ég nánast skráði allt ofan í húsfreyjuna mjóu og viðurkenni að ég óskaði henni stundum þegjandi þörfina þegar hún kom út á verönd með ís fyrir alla og allir afþökkuðu og hún sporðrenndi þeim bara þá öllum.
Svo fór ég að fylgjast með ungu konunum sem ég tók eftir að brostu aldrei. Nú ég sá par koma inná matsölustað sem ég var stödd á. Hann pantaði sér super size pizzu sem var á stærð við öskutunnulok af gömlu týpunni og varla komst fyrir á borðinu og fékk sér sykrað kók með bara villtur fyrir allan peninginn. Sú fúla kærastan skotraði augunum á pizzuna sá ég þegar þjónninn fór að úrbeina og afhausa sardínuna sem hún pantaði sér. Vatn með að sjálfsögðu flatt vatn, ekkert vera að splæsa í bubbluvatn. (væntanlega verið á bíl) Nú með fiskyldinu sem hún var með á disknum sá ég að hún fékk fennelbúta eina 2 eða 3 og alveg hálfan sellerístöngul. Þar sem hún mændi á öskutunnulokspizzuna minnka óðum sá ég alveg glampann í augunum á henni, nartandi í fennelbútinn sinn hvað hana langaði í bita.
Þannig gerir maður nú ekki að fá sér bita sé maður sardenísk kona á stefnumóti enda var hún það ful á svipinn held núna að það sé af hungri og það skýrir ungu fýlupokana, þær narta í sellerstöngla fram að giftingu og þá eru ísarnir teknir upp.
Það skýrir þó ekki dularfullu mjónuna á hinum eldri konum og jú þær brosa alveg!
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 18:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2019 | 14:07
Úrræðagóðu Sardarnir!
Sardar eru afar úrræðagóðir, útsmognir jafnvel örlítið forhertir og með dass af glæpagenum í sér að mínu mati.
Húsfreyjan hérna á heimilinu sagði okkur sögu af því þegar hún var yngri og fór með krakkana í hverfinu inní Cagliari höfuðborgina í bíó. Hún var með nokkra krakka ofaukið miðað við það magn sem mátti vera með í bílnum. Hún var svo sem vön því og kunni ráð ef löggan stoppaði hana.
Allt gekk að óskum þar til þau komu út úr bíóinu og ætluðu heim, þá startaði bíllinn ekki svo hún tók til sinna ráða. Það vildi svo vel til að það var verkstæði á móti bílaplaninu og bifvélavirkinn tók vel í að laga bílinn hennar. Hann skipti um geymi, en bifvélavirkjar á Ítalíu eru frægir fyrir að gera aðeins meira en þeir þurfa svo hann vildi skipta um dekk og bað hana um varadekkið og einnig þurfti hann að skipta um peru að framan. Hún fór og kíkti í skottið eftir varadekkinu og þar sá hún regnhlíf sem hún kannaðist bara ekkert við. Kíkti í kringum sig og sá þá sinn bíl aðeins frá þessum algerlega heill heilsu. Hún kvaddi bifvelavirkjan sem var með sundurtættan bíl á planinu með þeim orðum: "ég borga ekki krónu ég á ekkert í þessum bíl og vertu sæll"
Nú á leiðinni heim var hún stöðvuð af lögreglu vegna fjölda barna í bílnum (hana grunar að bifvélavirkinn hafi verið að verki þar sem hún var vön að ferðast með hálft hverfið af börnum án þess að vera stöðvuð). Eitt barnanna í bílnum var einstaklega hræddur við lögregluna og hún sagði við hann :" Jæja Carlo nú ertu að fara í fangelsi og sérð aldrei fjölskylduna þína aftur" Barnið öskraði og gargaði af öllum illum látum. Hún bað lögregluna um að sleppa sér við sekt þar sem hún yrði að koma þessu "brjálaða" barni heim til sín.
Ekki einasta slapp hún við sekt heldur fékk hún lögreglufylgd heim.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2019 | 13:32
Dramatík í suðrinu
Dóttir mín er sem sagt gift Sarda og þeir eru dramatískir með eindæmum og tengdaforeldrar hennar sem eru yndislegt fólk en með dramatík í blóðinu að hætti Ítala. Hins vegar varð ég vitni að því að hundarnir eru líka dramatískari en gengur og gerist. Þannig var að húsfreyjan á heimilinu sem við gistum á var að skreppa út úr garðinum sem alltaf er læstur vegna barns og hunda sem skella sér út við hvert tækifæri sem gefst. Nú hundur eiginmannsins slapp út, en hennar hundur var öruggur innan hliðsins svo hún lokaði bara og yppti öxlum. Húsbóndinn tók smá kast og spurði hana hvað hún væri eiginlega að hugsa. Veiðihundurinn laus á götunni og viti menn það var keyrt á hann, en ekki virtist hann þó slasaður en húsbóndanum var þó mjög brugðið og bar hundinn inn í sófa og var sótreiður við konu sína sem sagði bara úps en þetta er þinn hundur og honum er nær að vera að fara svona út á götu. Gat ekki séð annað en að henni væri slétt sama um þetta atriði.
Nú hundurinn var borinn um allt því hann haltraði og allir gestirnir á heimilinu sem voru þó nokkrir hjálpuðu til við að koma slösuðum hundinum í bílinn og til læknis. Nú hundurinn lá aumur í bílnum en þegar til læknis kom hoppaði hann út úr bílnum alheill á öllum fótum. Hann fékk úrskurð um að ekkert amaði að honum, hugsanlega bara sjokk við það að bíllinn hafði strokið við hann. Dramað sem varð til við þetta og hugsanlega líka það að 14 öskrandi ítalir sem allir vildu hjálpa til og klappa hinum slasaða hundi "Frigg" og hann sem ekki er vanur þessari athygli. Þegar heim kom þá haltraði hann, en ég er viss um að það var rangur fótur sem hann haltraði á. Sem sagt dýrin eru engu skárri en mennirnir þegar kemur að dramatík sem er á öðru stigi en við þekkum heima í norðrinu.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.8.2019 | 11:26
Sardenískir siðir og trú
Sinn er siður í hverju landi er orðatiltæki sem á vel rétt á sér. Á Sardeníu er svo margt öðruvísi en við eigum að venjast. Þeir eru svolítið gamaldags en úrræðagóðir og bera með sér þekkingu frá forfeðrum og miðla til yngra fólksins. Þannig benti tengdasonur minn mér á einu sinni þegar ég brenndi mig á kertastjaka sem sprakk í höndinni á mér að setja brenndu fingurna og nudda hársvörðinn með þeim sem var mjög vont til að byrja með, viti menn það lagaði brunaverkinn. Síðan þá hef ég verið spennt fyrir allskonar nýjungum eða réttara sagt eldgömlum hefðum sem þeir hafa uppá að bjóða.
Húsfreyjan á heimilinu hérna hafði dottið og meitt sig á fæti og var talsvert bólgin og á meðan ég hefði fengið mér bólgueyðandi pllur og sett fótinn uppa púða þá tók hún hveiti og rauðvín og hrærði saman og penslaði síðan á sér fótinn og pakkaði honum inn í bökunarpappír. Þetta hjálpaði en þó ekki nóg svo nú þurfti að grípa til örþrifaráða og fara í sterkari efni. Þá þeytti hún eggjahvítu og niðurraspaða sápu (má alls ekki nota fljótandi) og þessu var síðan penslað á fótinn og haft yfir nótt að sjálfsögðu innpakkað í bökunarpappír. Hún er svo miklu miklu betri hefði samt viljað fara bara strax í eggjahvítuna, hitt gerði ekki nægjanlegt gagn. Mér sýndist hún þó haltra í morgun en hún segir það sé bara göngulagið sitt.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.8.2019 | 11:09
Sardenískt kukl!
Víkur nú sögunni að hjátrú Sarda en fólk hérna er afar hjátrúarfullt og fá öll börn við fæðingu grænt armband sem á að vernda þau fyrir illum öndum eða nornum að því að mér skilst. Eldra barnabarnið mitt var vaxið upp úr sínu armbandi og tóku foreldrarnir það af þegar það var farið að þrengja að hendinni. Nú þegar við komum hingað til Sardeníu með algerlega óverndað barnið sem er í þokkabót einhverfur (sem er ekkert sérstaklega viðurkennt á Sardeníu hann er bara óþekkur) Verandi svona "óþekkur" þá tók amman til sinna ráða.
Hún pantaði tíma hjá 109 ára gamalli "norn" og fór hlaðin myndum og af meintum "óþekktarormi" og hlutum sem hann á og tók svona til öryggis einnig myndir af litla barninu þar sem hann var ekki komin með sitt armband. Niðurstaðan var sú að hvorugur er haldinn illlum öndum en svona til öryggis kom húm með blessað vatn frá þessari konu og nú setur hún krossmerki framan í þá og aftan á hálsinn og á hendur og fætur tvisvar á dag. Einnig nuddaði hún höfuðið á eldra barninu með mynd af dýrlingi og reyndi að fá hann til að kyssa myndina. það tókst ekki! Barnið er allt annað í dag, kannski af því að hann er öruggari og farin að þekkja aðstæður hérna og allir stjana við hann nú eða kannski er það armbandið sem er kominn á sinn stað og blessun þessarar fjörgömlu konu sem hafa gert sitt gagn.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.8.2019 | 15:27
Sardenía með mínum augum
Oft finnst mér eins og ég sé komin langt aftur í aldir þegar ég er hérna á fallegu Sardeníu. Reglurnar eru svo allt allt aðrar en við þekkjum úr norðrinu og venjurnar ótrúlega gamaldags sumar hverjar og náttúrulega byggðar á allt annarri menningu og eins og þeir segja þá tilheyra þeir ekki Ítalíu þar sem þeir eru með sér fána og sitt eigið þing. Samt eru þeir hluti af Ítalíu þó þeir vilji láta kalla sig "Sarda" Ég er sennilega þessi óþolandi spuruli karlinn hérna því mér þykir þetta skemmtilega öðruvísi. Ég viðurkenni það að komast ekki í háhraðainternet er ekki alveg í lagi að mínu mati sem og svo margt annað sem mér þykir ótrúlega gamaldags.
Konurnar hérna vinna almennt ekki og mennta sig ekki heldur nema ein og ein sem skella sér í kennaranám, eða hjúkrunarfræði og vinna eftir námið. Ég spurði unga konu á 30 ára aldrinum hvað hún gerði allan daginn ein í stóru húsi meaðn maðurinn hennar stundar vinnu. Jú ekki stóð á svari: "brjálað að gera hjá henni allan daginn" þrífa og fara á ströndina og þar sem hún eldar ekki, þá þarf að fara í heimsókn til mömmu eða tengdamömmu á kvöldin að borða. Þessi unga kona hafði verið svo heppin að hafa vinnu en þegar hún gift sig og flutti í eigið hús sem þau ungu hjónin höfðu byggt sl. 12 ár þá þurfti hún að hætta að vinna og taka til hendinni við þrif og strandferðir. Hún á ekki börn, hefur ekki tíma til þess. Almennt vaknar fólkið hérna um 6 leytið á morgnana eða aðeins fyrr og fer í gönguferðir þar sem það er ekki hægt síðar um daginn þegar hitinn er komin yfir svona 30 gráður. Menn fara til vinnu og konur til þrifa og svo um 10 leytið byrja þær á matseldinni því húsbóndinn kemur heim í mat í hádeginu og þá eru tilbúnir 3 eða 4 réttir fyrir hann. Mér sýnist hérna á þessu heimili sem ég gisti á að konan geri ekkert annað en að þrífa og elda. Klukkan 4 er svo byrjað á 5 rétta kvöldverðinum og fjandinn hafi það, þær eru 37 kg með glossi....langar að berja þær allar!
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 15:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)