Sögur frá Sardeníu

Hérna í ferðamannabænum Pula á suður Sardeníu er ekki að sjá að Covid geysi um heiminn. Fólk knúsar hægri vinstri. Hérna úir og grúir af ferðamönnum og allir keppast um að ná sér í sól og menningu og góðan mat og eina sem minnir á heimsfaraldurinn er að grímuskylda er í búðum og inni á matsölustöðum, en annað ekki.  Engin tveggja metra regla og er allt stappað hérna maður við mann og allir glaðir og hressir að hlusta á tónleika á torginu og börnin dansandi.  Eins og heimsfaraldur sé ekki til í orðabókinni.  Troðfullt á öllum matsölustöðum og þarf helst að panta borð með viku fyrirvara.  Engar sprittstöðvar í flugstöðinni hvað þá meira en allir hitamældir reyndar. Gott að geta gleymt sér aðeins og að lífið sé eins og það var hér áður.

Tengdamamma dóttur minnar er yndislega góð kona, skemmtileg með afbrigðum, hún er hálfpartinn móðir hálfs bæjarins þar sem hún er ákveðin og fer í málin þegar henni þykir það þurfa, svona sjálfskipaður talsmaður allra. Fyrir klukkan 7 er hún búin að fara og þrífa hjá systur mömmu sinnar og hjá mömmu sinni, versla fyrir eldra fólk og kaupa í matinn, tekur hún þá gjarnan með sér börn frænku sinnar í leiðinni. Hún er mjög trúuð á svona yfirnáttúrulega hluti og hef ég séð hana hella blessuðu vatni yfir barnabörnin sín og nuddað þau með olíu og hún sýnir engum myndir af barnabörnunum vegna hræðslu við að lögð verði á þau álög.  Ég hef einmitt skrifað um það áður að það þykir mikið gæfumerki að snerta ung börn og eru allir káfandi á börnunum hérna, komandi við hendur og fætur. Við sátum dag einn við borð úti á verönd nokkuð stór hópur og birtist hún með vatnsflöskuna sína heilögu og skvetti á son sinn ekki einu sinni heldur tvisvar. Hann stökk upp rennblautur og spurði hvað hún væri að spá og sagðist hún þá hafa óvart opnað sódavatn og það bara svona rétt við bakið á honum. Ég hafði hins vegar horft á hana skvetta á hann vísvitandi.  Ég hélt ég mundi deyja úr hlátri af svipnum á honum og því hversu forhert hún væri. Frænkan sem var svo óheppin að sitja hjá honum lenti í því líka að vera blessuð yfir allan kjólinn sinn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband