Náttúruhamfarir á Spáni.

Ég bý í litlum bæ sem heitir San Miquel de Salinas og hérna er ósköp rólegt og lífið gengur sinn vanagang í sólinni dagana flesta. Nú á fimmtudaginn var send út stormviðvörun og við íslendingarnir náttúrulega höldum alltaf að við höfum upplifað mest og flest og virtum það að vettugi.  Ég fékk vinkonu mína sem býr í Torreveija, en þar hafði verið gefin út flóðaviðvörun að sækja mig og skutla mér í klippingu í hennar bæ.  Nú allt gekk vel til hádegis, en þá var hvílíkt úrhelli að við vorum eins og hundar á sundi þegar við hlupum milli húss og bíls.  Nú henni var meinað að keyra að götunni sinni, þar sem flóð voru á veginum og bílar með vatn upp að rúðum stopp í hringtorgum og á götum, þar sem holræsakerfin eru ekki gerð fyrir svona úrhelli. 

Nú vinkona mín komst heim eftir krókaleiðum, en þar sem hún er á smá hæð, þá slapp hún að mestu við veðrið eftir að heim kom en vissulega lak þakið hjá henni og ofan í stofuna svo hún þurfti að covera sjónvarp og selflytja dót frá bleytunni sem draup niður.

Fréttir af skemmdum flæða yfir mann, nýjir bílar á bílasölu eins og plastendur í baðkari, ofan á hvor öðrum og allir ónýtir. Einn af betri golfvöllum á Costa blanca svæðinu geymir alla sína bíla í öruggri geymslu, en þar flæddi yfir þá alla og allir ónýtir eða um 100 talsins. Völlurinn sjálfur illa farinn.

Nú af mér er það að frétta að hérna flæddi yfir götuna sem ég bý við þar sem holræsin fylltust fljótt og vaknaði ég við það á föstudagsmorgun eftir hávaðasama nótt með eldingum og þrumum sem voru allt annað en notalegar og í kjölfarið mesta rigning sem ég hef séð síðan í Kína og það var nú slæmt, að ég heyrði hljóð í ljósinu á efri hæðinni eins og það væri að springa og fannst mér ég heyra dropahljóð þar svo ég slökkti á því og hljóp niður og sótti fötu 50 lítra og viti menn allt í einu steyptist yfir mig vatn eins og úr sturtu frá ljósinu á gólfið og hafði ég ekki við að tæma fötuna og rafmagninu sló út og allt kolsvart svo ég tók símann og notaði hann sem vasaljós og hann rann til í bleytu og datt milli hæða og dó.  Ég náði ekki í nokkurn mann, enda allir heima að setja fötur og skálar út um allt.   Svo þegar líða fór á morgun þá kom smá pása frá regninu og ég náði í vinkonu mína sem kom með manni sínum og hjálpuðu mér að skipta um fötur og skálar í öllum herbergjum. Það lak út úr fataskápnum í einu herberginu, ofan á ísskápinn í eldhúsinu svo honum var kippt frá og stendur nú sem stofustáss hjá mér. Nú svo fór aftur að rigna eins og hellt væri úr fötu og öll handklæði í húsinu voru þegar rennblaut ásamt sængum rúmfötum og öðru.

Við skruppum í búð eftir að veðrinu slotaði uppúr 3 og þá var loftið í tætlum út um alla verslun og kælarnir með blautum gifsplötum og já nánast allt ónýtt í búðinni.  Sama gilti um apótekið hérna, loftið farið og ljósin dottin niður á vörurnar vegna þess að blaut loftin héldu þeim ekki.  Hérna hafa 6 manns dáið þegar þetta er ritað, þar af einn sem drukknaði inní göngum milli bæja, þegar þau yfirfylltust.  Heilu vegirnir hafa rofnað svo það eru holur í jörðu. Vinkona mín skutlaði fólki á Alicante flugvöll í gær og ferð sem tekur 45 mín. tók hana um 6 klukkustundir vegna fljóðasvæða og lokunar á götum. Appelsínutrén á kafi í vatni. Sundlaugar yfirflæddar og í stað þessa fallega bláa lits sem er á þeim, líta þær út eins og kakósúpur með jafnvel bílum útí og veggjum. 

Ég er komin með síma og rafmagn og hefst þvottur næstu daga á öllum handklæðunum og rúmfötum sem eru búin með sitt hlutverk í bili. 

Maður áttar sig fyrst á því hversu lítill maður er og vanmáttugur þegar svona náttúruhamfarir dynja á eigin skinni, eða allt í kringum mann. Við skulum ekki vanmeta náttúruna.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er úrhelli á einhverju áður óþekktu leveli 😶😶

Kiddi (IP-tala skráð) 15.9.2019 kl. 11:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband