24.3.2018 | 12:38
Það er ekki allt bara í fína í Kína!
Með veru minni í Kína í borginni Nantong lærði ég mikið sem kom mér á óvart flest allt jákvætt og virðist vera að það sé leið til að halda reglu og nokkurn veginn stjórn hérna í þessu stóra landi með allan þennan fólksfjölda. Bara á hátíðisdögum leggjast um 42 milljónir manna í ferðalög innan landsins og auðvitað þarf aga til að hafa stjórn á þessu öllu, þó sumt finnist manni skrítið eða hreinlega kjánalegt. Mér þótti til dæmis skrítið að þurfa að skrá mig inní landið á lögreglustöð til að fá að vera þarna í heimsókn og innan 24 tíma eftir að ég lenti í Shanghæ. Það er þó gert til að staðsetja alla sem inní landið koma í hús og geta hótel verið ábyrgðarmenn fyrir viðkomandi, vinnuveitendur eða eins og í okkar tilfelli "vinur" eða bílstjórinn hans tengdasonar míns. Enginn er hérna í landinu án ábyrgðar.
Stundum gat ég ekki varist brosi þegar kínversku vinir okkar fullyrtu að allt væri einfaldlega best í Kína þrátt fyrir að hafa aldrei farið út fyrir landsteinana, þeir þurftu þess ekkert til að vita það að í Kína væri allt best, þeim er einfaldlega sagt það og það stendur.
Bílstjórinn sagði okkur líka ljóta sögu og harðbannaði okkur að fara í verslunarmiðstöðvar um helgar með litla prinsinn okkar, því að um 100 börn týndust reglulega um helgar þar sem þeim væri stolið og seld sem líffæragjafar. Sagði mikið svartamakraðsbrask með börn, það kom mér þó mikið á óvart þar sem kínverjar dýrka börn og litli okkar fékk aldrei frið, allir að strjúka honum og gefa honum eitthvað. Einnig harðbannaði hann mér að fara einni út eitt kvöld þegar ég ætlaði að kaupa ís handa litlu krökkunum sem voru í heimsókn, hann heimtaði að fara með mér. Ég þáði það nú ekki, enda hélt ég nú að ég gæti barið hvern þann kínverja sem reyndi að abbast uppá mig. Þetta var mér sagt og ég sel það ekki dýrara en ég keypti það en þetta kom þó frá heimamanni sem finnst allt best í Kína.
Bílamálin var líka eitt sem mér fannst nú í hálfgerðum ólestri, þrátt fyrir að flestir bílar séu orðnir rafmagnsbílar eða hybrid og heyrist því ekki mikið í umferðinni nema bílaflaut sem þeir nota held ég bara svona til að segja hæ! Þeir klippa gjarnan úr bílunum bílbeltin og ekki er um auðugan garð að gresja í barnabílastólamálum. Við þurftum að ferðast með litla gaurinn lausan í leigubílum, þegar við fórum milli staða og það var erfitt að venjast því, en þar sem við máttum ekki keyra og hefðum ekki getað það heldur þar sem öll skilti eru á kínversku svo við hefðum verið fljót að villast. Við reyndum því að nota bílstjóra tengdasonarins sem mest við gátum enda við með okkar bílstól fyrir barnið þar.
Eitt fannst mér líka ekki gott að það virtust sem allar vörur væru útrunnar í öllum búðum og bara hending að fá vörur sem voru rétt nýútrunnar og vorum við alltaf fljót að kaupa upp lagerinn ef við fundum slíkar vörur. Ávextirnir þeirra og fiskur og kjöt var þó alltaf nýtt og ferskt.
Ein sjónvarpsstöð CGTN (China global television network) sendi út á ensku og var mjög gaman að fylgjast með þar, þeir fluttu náttúrulega allt aðrar fréttir en við eigum að venjast og var einstaklega gaman að horfa á svona spjallþætti, en ef einhver hafði eitthvað miður gott að segja um Kína þá voru þáttarstjórnendur sem gjarnarn voru mjög svo röggsamir Helga Seljan týpur snöggir að þagga niður í viðkomandi. Aðallega var þó fjallað um uppbyggingu og það sem var vel gert og hver segir svo sem að það sé ekki bara gott.
Þetta var svona mín upplifun af því sem mér þótti ekki gott í Kína en landið er samt vel þess virði að heimsækja enda einstaklega fallegt land og ljúft fólk sem það byggir.
Kveðja frá Kína.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.