13.10.2017 | 08:07
Gullna vikan í Kína
Þjóðhátíðardagur Kína er 1. október og í kjölfarið á honum er svo vikan sem kölluð er "Golden week" eða Mid Autumn fest, en þá fagna kínverjar haustinu og því hægt sé að vera meira úti við vegna veðurs og þá er ég að tala um að veðrið hefur kólnað það mikið að hægt er að vera úti án mikilla aukaverkana. Fram að október kallar maður gott að komast í búðina og heim með hálfa eldhúsrúllu í vasanum til að þurrka svitann úr augunum, en í því er líka mikill sparnaður, ég hef ekki málað mig að neinu ráði síðan ég kom hingað, andlitslaus og sveitt hefur verið mitt einkenni hérna í Kína fram að þessu. Nú verður bragarbót á þessu og maður hættir að þurfa að vera stöðugt með regnhlífina sem sólhlíf með sér, en skjótt skiptast veður í lofti. 35 stig í lok september og svo 20 stig í dag.
Já þessa viku frá 1-8 október þar sem sunnudagurinn kom upp á eftir vikunni náðu kínverjarnir sér í einn aukadag, þá voru rúmlega 142 milljónir manna á faraldsfæti en þetta er kannski svolítið eins og þakkargjörðarhátíðin í Bandaríkjunum, allir sem vettlingi geta valdið fara heim í fagra dalinn sinn og njóta vikunnar með fjölskyldunni.
Hérna var allt þrifið í borginni, en er hún nú mjög hrinleg fyrir og hengd upp þessi týpísku kínversku ljósker út um allt fyrir framan húsið okkar var líka sett nýtt sett af blómakerjum og ég held að ég geti lofað því að fánaframleiðslan í Kína hlýtur að gefa nokkrum þúsundum störf, því hver ljósastaur er með 2 kínverska fána. Þeir sprengja mikið af flugeldum eins og ég hef áður komið inná, en þessa vikuna byrja þeir fyrr svona uppúr 5 að morgni og eru að sprengja þetta með svona hálftíma millibili allan daginn fram á nótt.
Það er svona hátíðarstemming yfir öllum og í fyrsta sinn síðan ég kom heyrði ég í sírenu nokkrum sinnum, en þeir eiga það nú til eins og allar þjóðir að drekka yfir sig af hrísgrjónavíninu sem þeir panta sér með matnum. Á þessu tímabili eru borðaðar "mooncakes" sem eru líka gefnar þessa vikuna hvar sem maður fer, en það er ekki máltíð hérna þessa vikuna nema mánakakan sé í desert. Mia kínversk vinkona okkar fjölskyldunnar kom með heilan flauelisklæddan kassa með gylltum kassa inní undir gafflana og nokkrum mánakökum að gjöf til okkar. Ég mun ekki segja skoðun mína á þessum kökum, en held að durian ávöxturinn viðbjóðslegi hafi verið aðaluppistaðan í þessu flottu kökum.
Nú er sem sagt allt komið í sínar réttu skorður og bílflauturnar komnar á fullt aftur, en það er ekki vegna óþolinmæði hef ég komist að heldur vegna þess að það heyrist ekkert í bílunum og þá ekki vespunum eða mótorhjólunum eða hvað þetta nú er sem þeir notast við yfirbyggðir kassabílar og fleiri furðutæki.
Sem sagt allt í hinu fína frá Kína!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.