Fyrir hverja er leigumarkaðurinn?

Ég skrifaði grein um lífið okkar sem þurfum að lifa í þessari svokölluðu "Skjaldborg" sem heimilunum í landinu var lofað.  Ástæða þess að ég skrifa um lífið hérna í óörygginu, er nú bara til að vekja aðra til umhugsunar, því ég er ekki viss um að fólk geri sér grein fyrir hvernig lífið er í raun og veru fyrir okkur sem lentum svona illa í hruninu, að það breytti okkar lífsgæðum á þann hátt að ekki sér enn fyrir endann á því.

Þannig lítur þetta út fyrir mér, að við hinir almennu borgarar erum að basla við að semja um skuldir okkar og reyna að bjarga alla vega þeim málum, sem ábyrgðarmenn eru skráðir fyrir.  Ég skil ekki enn að stjórnvöld hafi ekki séð það fyrir árið 2008, þegar þúsundir misstu vinnuna sína, að eftir 3-4 ár þá hljóta þessir aðilar að lenda í greiðsluvanda svo stórum að húsnæði þeirra fari í hundraðatali á uppboð, sem og bílar og aðrar eignir.  Jú vissulega var fólki bent á að fara til Umboðsmanns Skuldara, sem og ég gerði, það tók 2 ár að skoða mína pappíra og ég fékk að fara í greiðsluskjól, en hversu margir hafa fengið raunverulega þá hjálp án þess að mannréttindi þeirra séu hreinlega brotin, en til að standast það ferli að fá samning, þá  máttu ekki lenda í neinu óvæntu, því þá áttu á hættu að verða rekin úr skjólinu (sem gerðist í mínu tilfelli). Skv. talsmanni hjá UMS eru 4820 sem hafa sótt um greiðsluaðlögun, 661 beiðni hefur verið synjað, 605 samningar hafa verið afturkallaðir, 401 umsókn hefur verið lokað án samninga, 426 samningar hafa verið niðurfelldir 331 samningur er í mati og 1898 aðilar eru með samninga sem enn eru í gildi, en við erum að tala um að það eru 5 ár frá hruni og ég get ekki séð að þetta sé nein töfralausn.

Nú þegar íbúðirnar okkar hrannast á uppboð þá spyr ég hvar er þessi leigumarkaður, sem ætti í raun að vera orðin stórfelldur? Þar sem við erum nú hugsanlega flest komin á vanskilaskrá (mjög skemmtilegur endir á fjármálaferli) þá velti ég því fyrir mér hvernig við eigum að geta skilað inn ábyrgð fyrir 3. mánaða leigu með atvinnuleysisbótum, en leigan á meðal  íbúð er allt að 250 þúsund kr. á mánuði og þá í útleigu hjá Íbúðalánasjóði fyrir 3. herbergja íbúð. Ég velti þessu bara fyrir mér, hefur engum stjórnmálamanni dottið í hug að út á götu fara að birtast heimilislaust fólk sem er kannski ekki til í að setjast að þar. Að Íbúðalánasjóður skuli krefjast þess að leiguliðar séu ekki á vanskilaskrá, þá er þetta ekki lausnin fyrir okkur sem erum að missa okkar eignir útaf hruninu. Hver fer viljandi á húsaleigumarkaðinn, ef ekki fyrir tilstilli hrunsins og þá hverjir eru þá ekki komnir á vanskilaskrá sem þurfa á þessum leigumarkaði að halda. Alla vega ekki ég. 

Já maður verður nú samt að nota tíma í breyttu lífi til að bæta sjálfan sig og gera eitthvað uppbyggilegt, því ósjálfrátt breytist forgangurinn hjá manni, og hlutir eins og kaffihús,  læknaheimsóknir, reglubundin krabbameinsskoðun, tannlæknar og hársnyrting eru ekki með í "budgetinu" svo ef þú sérð illa "hárhirtan" einstakling með skemmdar tennur og hugsanlega utanáliggjandi æxli, þá dæmið eigi, þetta gæti bara verið atvinnulaus einstaklingur ég eða þú.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ansy Björg

ert snillingur með meiru!!!!  einmitt ef ég  sem dæmi sem er búin að vera í námi alla mína ævi erlendis og heima aldrei átt neitt nema þá jú mín námslán og núna er ég bara með of mikla og óhenntuga menntun fyrir landið og komin á vanskilaskrá og er það  því fyritstaðan að ég geti ekki leigt mér íbúð er eins ósanngjarnt og það getur orðið!

Ansy Björg, 29.10.2013 kl. 14:27

2 identicon

Ja svona er lifið skrítið, ég ákvað að flytja til Noregs og reyna að spara til ellinnar og ætlaði að leigja út mina íbúð fyrir kostnaði þeim sem ég þarf að greiða i hverjum mánuði kr.150,000 en af þvi þurfti ég þá að greiða 20% í fjármagnstekjuskatt og missi vaxtabæturnar af því ég bý ekki í íbúðinni sjálf, þá er ég búin að tapa kr.30,000 á mánuði + vaxtabæturnar. Enn bíðum nú við ég þarf að búa einhvarstaðar ég þarf að leiga sjálf og ég ber ábyrgð á þessu láni hvort sem ég bý í íbuðini eða ekki og ég greiði fjármagnstekjuskatt af þeirri innkomu, hvað er málið.

Og hverjir sitja svo um að kaupa íbúðirnar sem fólk er að missa,? það er til fólk sem fær fyrirgreiðslur í bönkunum sem við hin venjulegu fáum ekki. það hefur sýnt sig á þessum árum frá hruni að þeir sem skulda billjónirnar virðast fá fyrirgreiðsluna svo þá lítur það út þannig að það borgar síg að vera skúrkur á Íslandi. Jæja mínir heiðarlegu vinir ég bíð eftir ykkur hérna í Noregi :-)

Dagbjört Guðrún Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 30.10.2013 kl. 00:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband