12.9.2013 | 14:46
Lífið í "Skjaldborginni"
Lífið í skjaldborginni, er líf sem ég óska engum að lifa í, en í dag 2013 eru svo margir annmarkar á því að hægt sé að láta sér líða vel að ég veit ekki alveg hvar skal byrja.
Ég er ein þeirra sem missti vinnuna mína í hruninu 2008, enda starfsmaður í Íslandsbanka á þeim tíma og var nú ekki ein um það, enda hundruðir sem lentu í því líka, en hef ég þó verið það heppin að fá vinnu af og til tímabundið. Þar sem ég hef sl. 30 ár starfað á fjármálamarkaði eingöngu, þá eru nú ekki miklar líkur að fá vinnu við mitt hæfi, enda ennþá verið að segja upp fólki í banka og fjármálageiranum.
Ég nýtti þó minn tíma í að læra aðra starfsgrein sem ég taldi að mundi gefa af sér vinnu þegar fram líða stundir í ferðamálageiranum og bind ennþá vonir við að fá vinnu í þeim geira.
Nú þar sem ég hef alla mína ævi verið hinn skilvísi greiðandi og bætti við mig vinnu, ef ekki dugðu launin fyrir dagvinnuna, þá er mjög skrítið að lenda í því fyrir "fyrrum skilvísan strangheiðarlegan" bankamann að vera allt í einu komin í vanskil út um allan bæ og vera meðhöndluð sem ég hef aldrei upplifað áður sem einskonar "skuldaglæpon" eins og ég hafi komið mér í þessa stöðu sjálf með einbeittum brotavilja. Enginn samningavilji er fyrir hendi hjá stofnunum, enda svo sem ekki mikið um að semja með kr. 153 þús útborguð laun sem atvinnuleysingi.
Ég upplifi að sjálfsögðu kvíða fyrir framtíðinni, en hvað verður um mann, þegar íbúðin fer á uppboð. Get ekki alveg skilið hvað verður um allt það húsnæði sem fer á uppboð, ég er búin að skoða leigumarkaðinn og hjálp með þessi laun hef ég efni á kjallaraherbergi. Ég sem hélt alltaf að ég mundi lifa ágætislífi og hætta að þurfa að basla þegar börnin mín væru komin á legg, hef borgað minn viðbótarlífeyrissparnað, sem er nú að mestu uppurinn, þar sem ég er búin að taka hann út á þessum árum atvinnuleysis.
Allstaðar finnst mér ég lenda á vegg, ég hef þurft að borga tryggingar af bílnum mínum fyrirfram kr. 155 þús, þar sem mér er að sjálfsögðu ekki treystandi til að borga þær smátt og smátt svona atvinnulaus og siðlaus sem ég hlýt að vera. Það er ekki gott þegar það eru rúmlega mánaðarlaunin mín. Ég var líka rekin úr greiðsluskjóli vegna vangetu til að standa í skilum, en ég lenti í óvæntri greiðslubyrði vegna fjölskyldumála og það er ekki leyfilegt í greiðsluskjólinu. Svo nú velti ég framhaldinu fyrir mér. Hvað verður um okkur þetta venjulega fólk sem lendir í þeim harmleik að missa vinnuna og lendir í þeirri stöðu að allar okkar skuldbindingar eru vanefndar og allt það góða fólk sem í góðri trú skrifar uppá ábyrgðir okkur til handa, enda við ekki orðnir meintir "fjármálaóreiðumenn" á þeim tíma er til skuldarinnar var stofnað, hvar stendur það gagnvart okkur?
Ég vona að mér verði bjargað úr þessari Skjaldborg, kæri mig ekki um að vera hérna, enda ekki gott að vera hérna. Bíð ennþá spennt eftir áhyggjuminna lífi þegar fram liða stundir og skrifa þetta aðeins til að benda á stöðu okkar, en alltaf er verið að tala um að bæta stöðu skuldsettra heimila, ég hef ekki séð mína stöðu batna ennþá.
Athugasemdir
Ég vil benda fólki sem er á atvinnuleysisbótum á það að ef það tekur út lífeyrissparnaðinn sinn þá detta bæturnar niður.
Atvinnuleysisbætur eru tekjutengdar og útborgun lífeyris flokkast sem tekjur.
Veiga (IP-tala skráð) 12.9.2013 kl. 23:20
Takk fyrir þetta Veiga, ég vissi þetta ekki, enda var ég með tímabundna vinnu þegar okkur var "leyft" að taka út hluta lífeyrissparnaðar, sem segir mér að þetta sé fáránlegt, ef þú ert með hærri laun, en atvinnuleysisbætur þá má taka út sparnað, en ef þú ert að lifa á þessu smáræði, þá missir þú þá aura ef þú vogar þér að taka út þinn eigin sparnað...já þetta er ekki alveg að ganga upp finnst mér.
Guðlaug Björk Baldursdóttir, 13.9.2013 kl. 10:35
Gulla mín, mikið er þetta góð grein hjá þér en mér finnst mjög sorglegt að lesa þetta. Nú er svo sannarlega fokið í flest skjól að það skuli vera svona statt fyrir þér, þessari harðduglegu og heiðarlegu konu. Ég vona svo sannarlega að þetta fari vel hjá þér og að þú fáir sem fyrst góða vinnu!! Knús á þig, St.
Steinvör (IP-tala skráð) 13.9.2013 kl. 14:31
Takk elsku Steinvör,en veistu ég er alltaf svo bjartsý, fannst bara tími til komin að leyfa fólki að vita hvernig raunveruleg staða er, en fólk er náttúrulega í vernduðu umhverfi sem hefur vinnu og gerir sér ekki grein fyrir stöðu okkar í raun og veru.
Guðlaug Björk Baldursdóttir, 13.9.2013 kl. 16:26
Verð að viðurkenna að saga þína er allt of algeng. Með fullri virðingu fyrir þínum fyrri vinnustað, þá er eitthvað verulega alvarlegt í gangi þar. Það á líka við um fleiri fjármálastofnanir. Svo má alls ekki gleyma hvernig skjaldborgarríkisstjórnin ákvað að fórna skuldsettum einstaklingum og fyrirtækjum með lögum nr. 107/2009 um úrræði fyrir einstaklinga, heimili og fyrirtæki vegna banka- og gjaldeyrishruns. Þau lög og fleiri lög sem sett hafa verið vegna skuldastöðu einstaklinga og fyrirtækja hafa nánast undantekningarlaust verið sett til að auðvelda fjármálafyrirtækjum að gera viðskiptavini sína að þrælum eða öreigum.
Gangi þér vel að finna starf innan ferðaþjónustunnar. Þar vantar fólk.
Marinó G. Njálsson, 13.9.2013 kl. 18:03
Ég var líka rekin úr greiðsluskjóli vegna þess sem efnislega var kallað: 'Þú ert ekki í nógu djúpum skít.' Þá var vitanlega búið að loka kreditkortum - en ég gat losnað við íbúðina með því að lækka hana um 15% af uppsettu verði, sem var lágt fyrir, fyrir 4 herbergja í 101. Þessi reynsla skilur mann eftir með ofboðslegt óbragð í munninum og upplifun af að hafa verið svikin - eða nauðgað.
Þórdís Bachmann, 13.9.2013 kl. 19:44
Sammála þessu Marinó og jú ég er með aðra grein í smíðum varðandi einmitt Skjaldborgina sem bankar og fjármálafyrirtæki eru vörðuð með. Sammála þér Þórdís, akkúrat þannig líður manni, þegar maður hefur komið upp börnum og unnið alltaf alla sína tíð og borgað skatta og skyldur og uppsker svo þetta líf að lokum.
Guðlaug Björk Baldursdóttir, 13.9.2013 kl. 21:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.