Misóskemmtileg ferðalög.

Ég elska að ferðast eins og ég hef áður sagt, enda fannst mér ávallt vanta ferðapistla og þess vegna fór ég  m.a. að blogga um ferðalög. 

En ekki er alltaf jafn gaman að ferðast, oft þarf ekki mikið að bregða útaf til að ferðin breytist í hálfgerða martröð og maður vildi óska að aldrei hefði verið farið af stað.

Ég fór eitt sinn með börnin mín lítil til Spánar, þar sem dóttir mín var aðeins 2 ára og strákurinn 4 ára. Fórum við í Tívolí eitt kvöldið, en þar sem strákurinn var búin að vera á útopnu allan daginn, þá sofnaði hann á matsölustaðnum, enda klukkan orðin 10 um kvöld þegar við mæltum okkur mót við Íslendingahópinn á tilteknum matsölustað.  Litla stelpan mín fékk hins vegar matareitrun og varð svo rosalega veik, að ég horfði á hana verslast upp fyrir framan mig og ekki hægt að flýta förinni heim. Í þá daga var bara flogið með leiguflugi út og svo fólkið sótt eftir ákveðinn tíma. En ég horfði þarna með brostið móðurhjarta á litla búttaða stelpukrakkann minn minnka og minnka og slappast og slappast. Við komum svo heim og þá lá hún í einangrun í 10 daga á LHS svo fárveik og ekki laust við að ég hugsaði, hvað er maður að flækjast útí heim í óvissuna með börn sem enga björg sér geta veitt.  Jesús hvað þetta var hræðilegur tími. En þetta fór nú vel og hún náði sér að fullu.

Ég lenti einnig í því einu sinni að veikjast illa í Búlgaríu og það var ekki gaman, en uppákomurnar sem því fylgdu voru drepfyndnar á köflum.

Búlgaría tilheyrði austantjaldslöndunum og þar voru höft og hömlur á öllu og spillingin eftir því, þú gast selt dollara á hverju götuhorni og einnig gastu keypt sem túristi í svokölluðum dollarabúðum, en ekki var eftir neinu að slægjast í búðunum sem almenningur gat verslað í.

Það var nú ýmislegt þarna í Búlgaríu sem kom manni "spánskt" fyrir sjónir eins og það athæfi að pakka bílunum sínum á kvöldin inní svona plast eins og við setjum grillin okkar í á haustin.  Einnig var alvanalegt að sjá fólk með rúðuþurrkur og loftnet, en það var tekið af þegar bílnum var lagt.

Þegar maður tók svo leigubíl, var hann gjarnan fylltur af Búlgörum og þeir keyrðir heim á okkar kostnað og mátti maður þakka fyrir að fá bara 5 í aftursætið hjá sér....enda segir orðatiltækið...þröngt mega sáttir sitja. 

Ég lenti svo í því sem sagt að veikjast illa og þurti að fara í sjúkrastofnun fyrir ferðamenn.  En til þess að komast þangað var einn vegur og inná hann var "innakstur bannaður" og þar stóðu löggur og rukkuðu sjúklinga  í sjúkrabílnum um einhverja dollara til að fá að komast að húsinu.  (Gott ég var með veskið)

Ekki tók betra við, þegar ákveðið var að senda mig til höfuðborgarinna Sofiu í sjúkrabílnum og viti menn. Hann stoppaði einnig fyrir farþegum sem var hlaðið útum allt í kringum mig, svo ég lá á endanum eins og rakvélablað uppá rönd, svo illa færi nú ekki um farþegana í kringum mig, svo stoppaði bílstjórinn og fékk sér bensín og jú jú það þurfti  líka að stoppa í sjoppu og svona. Ég hugsaði nú með mér hvort ég hefði tekið ferðasjúkrabíl, en ferðin tók loks enda.

Eftir sjúkrahúsdvölina varð ég að liggja á hótelinu fram að heimferð eða í 2 vikur og það reyndist einstaklega skemmtilegt, þar sem öll tækin í herberginu okkar voru biluð. þ.e. ísskápurinn, sjónvarpið, síminn, útvarpið og svo vantaði ljós á baðherbergið. Já einnig var lyftan biluð, en þetta var hótel fyrir eldra fólk sem kom til að baða sig í svartahafinu og var allt morandi í hjólastólum þarna, en sem sagt biluð lyfta. 

Nú tók við tími kvartana í lobbýið, ég þurfti síma, ég þurfti líka sjónvarp og útvarp og ljós á baðið, og ég vildi ekki hafa þennan kakkalakka á veggnum. Held að ég hafi nú ekki verið vinsæll gestur. Fékk þó allt lagað á endanum. Meira að segja var stuff í ísskápnum nýja. Hvítvín og allt.

Svo fékk ég heimsókn frá Íslendingum sem bjuggu á sama gangi og ég og þau sögðu farir sínar ekki sléttar, allt hafði verið í stakasta lagi hjá þeim í íbúðinni, en nú var allt ónýtt og meira að segja búið að taka ljósið og sturtuhengið á baðinu.

Ég bauð þeim uppá hvítvín sem hafði fylgt ísskápnum mínum. Sama hvítvín og hafði horfið með þeirra ísskáp. Skrítin tilviljun. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Jiminneini man eftir þessum svaðilförum þínum eins og gerst hafi í gær. Nú hlæ ég eins og fífl (þurfti á því að helda) en þetta var ekki grín þegar þú varst með Önnsluna í einangrun og þú labbaðir með hana innilokuð. Litla krúttið eins og Bíabarn á bak við gler röltandi um á spóaleggjunum. Elsku dúllan. Við skulum ekki ræða Búlagaríu. Við setjum það í hina skrautlegu sjösystrasögur sem út mun koma fyrir næstu jól. Djísús.

Jenný Anna Baldursdóttir, 21.11.2011 kl. 16:10

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hahahaha þÚ ert eins óborganleg og hún systir þín.  Þetta er algjörlega frábær færsla takk mín kæra  En auðvitað á maður ekki að hlæja að erfiðleikum fólks     Frussssss

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.11.2011 kl. 22:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband