18.10.2011 | 14:27
Hin ýmsu "skeið" hryðja
Sonur minn hefur farið í gegnum mörg "skeið" í gegnum tíðina og ég hef nú verið mismundandi hrifin, eða frekara sagt ekki hrifin.
Símastúlkan í fyrirtækinu sem ég vann hjá byrjaði snemma að "skrína" símtölin til mín frá honum, eftir því hvers eðlis þau voru en þegar hann fór í gegnum þvottaskeiðið, þá talaði hún bara við hann sjálf og þegar hann hringdi og sagði henni að hann ætlaði að skella í vél, þá sagði hún já hvítt sér og svart sér, svo ég lokaði allt mitt óhreinatau inní skáp, því ég vildi ekki sitja uppi með ponsulítil soðin föt. Þetta skeið stóð mjög stutt yfir.
Þá var það kertagerðistímabilið! Hann tók öll fallegu kertin mín sem ég hafði greitt fúlgu fjár fyrir í Tekk húsinu og bræddi þau saman og gerði miklu "flottari" kerti að hans mati (ég var ekki sammála).
Svo fóru símtölin að breytast, símastúlkan sagði venjulega: "Gulla mín, vertu alveg róleg, en sonur þinn var að hringja og það er allt í lagi með hann (þannig lagað séð) en hann skaut vin sinn í höndina með boga, eða hann festi höndina í hjóli og heldur að hann sé handleggsbrotinn.....keyrðu samt varlega heim". Það gerði ég hins vegar ekki.
Nú fór sá alskemmtileg tími í hönd að hann fór að breyta allskonar sprengjum (gera þær öflugri) eins og við hin notum flest óbreyttar á gamlárskvöld. Ég rak hann frá húsinu með þetta, reyndi alveg að banna honum að gera þetta,(hann hlýddi ekki) en hann fór upp að elliheimilinu í grenndinni í þeirri von að þau heyrðu síður hávaðann (hann var síðan látinn lesa fyrir gamla fólkið til að bæta fyrir skemmdir sem hann olli á húsinu).
Hann plataði ömmu sína til að kaupa bók fyrir sig í útlöndum og skrifaði nafnið á miða og sagði henni að bókin að héti cookbook, en sagði ekki að hún héti Anarkist cookbook. Þá hafði hann verið í kokkastuði í nokkra mánuði og okkur grunaði ekki neitt. Nú fór að færast fjör í símamálin mín: "Gulla mín, held þú ættir að skreppa heim" byrjaði símastúlkan....sonurinn var að spyrja hvað þýðir: "how to make a carbomb?" eða hvað þýðir: "how to blow up half a nation?" Ég keyrði heim sem óð væri, gargaði á hann, en hann spurði mig sakleysislega hvort ég vildi ekki að hann vissi hvað hlutirnir þýddu áður en hann hæfist handa við að gera nokkuð. Bókin hvarf svo með dularfullum hætti og hefur ekkert til hennar spurst síðar.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
..og eftir allt þetta er móðirin á lífi. Það er ekki eðlilegur andskoti. Man eftir anarkista uppskriftabókinni. Það gleymist ekki svo létt.
Jenný Anna Baldursdóttir, 18.10.2011 kl. 14:38
Viðburðaríkt líf hjá þér elskan, sko ég kannast við þetta með sprengjurnar og að fylla heimilið með vinum sínum og klára allt úr skápunum ofan í þá, þeir voru svo svangir greyin mömmurnar þeirra unnu allar úti, en ekki ég, það var aldrei hringt og spurt bara framkvæmt.
Samt er gaman að þessu öllu saman.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 18.10.2011 kl. 21:36
Guðrún svo sannarlega er gaman að þessu eftirá...kannski ekki alveg á meðan á því stendur en síðar meir...bara krúttlegt stundum....
Guðlaug Björk Baldursdóttir, 19.10.2011 kl. 14:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.