12.10.2011 | 15:28
Hin magnaða Mílanó og íbúðarmálin þar.
Ég á dóttur sem flutti til Mílanó fyrir 4 árum til náms og hefur hún nú loksins fengið fasta íbúð, með smá "afarkostum" sem sé að eigandinn er með aðgang að einu herberginu, með konu og 2 börn, þegar hann er í Mílanó, en hann býr í Bern í Sviss og kemur reglulega til Ítalíu.
Fram að því að hún fékk þessa íbúð, voru íbúðarmálin hennar mjög skrautleg. Fyrsta íbúðin var þannig að hún var morandi í "bjöllum" hélt stelpan mín, mér sýndist þetta vera hinir mjög svo ekki eftirsóttu sambýlingar "kakkalakkar" en hún flutti þaðan eftir mjög stutta vist.
Þar sem þetta var árið 2007 gat hún fengið fína íbúð fyrir EUR 1000.- sem voru ISK 90.000.- í versta falli, en fór í 194 þús. árið 2008, en LÍN var ekki endilega að fylgja því eftir þ.e. raunveruleikanum, þannig að nú var bara að finna íbúð á 500 Evrur í hæsta lagi.
Dóttirin lá á netinu, fyrir hvert haustið að finna sér mannsæmandi herbergi/stúdíóíbúð, en sá háttur er á Ítalíu að þú þarft að fara gegnum skrifstofu og borga þeim eitt leiguverð fyrir það, og tryggingu og þess háttar, en þá ertu líka nokkuð viss um góða íbúð. Þetta er ekki fýsilegur kostur fyrir námsmenn, alla vega ekki eftir hrun, þannig að þá er best að finna sér íbúð sjálfur.
Svo hún auglýsti! Vantar litla íbúð eða herbergi með aðgang að eldhúsi. Er námsmaður.
Flestir vildu mynd af henni! Mynd?? Af hverju vilja þeir mynd spurði hún sig? En svo fóru málin að skýrast svona smátt og smátt. Hún fann eina íbúð, sem henni leist vel á, enda ítalskur námsmaður sem auglýsti og staðsettningin rétt við skólann, hann sagðist vera með tveggja herbergja íbúð.
Hún fór vongóð út eftir jólin, með fasta búsetu í fyrsta sinn áður en hún kæmi á staðinn. Þegar hún svo mætti í íbúðina, voru 2 herbergi, þ.e. 1 herbergi og 1 stofa og 1 rúm. Hún átti sem sagt að deila rúmi með honum. Hvað!! Er eitthvað að því spurði hann??? Já þess vegna vildi hann mynd sem sagt. þar sem hún stóð fyrir utan húsið með ferðatöskur um mitt kvöld hringdi hún í mömmu sína, sem skiptir sér af öllu og googlaði gaurinn nánar og jú jú hann virtist eðlilegur, en fann þó mynd af honum þar sem hann kallaði sig "guy in fridge" já sem sagt ísskápamaðurinn...(hann ætlaði þó ekki að gista í ísskápnum)
Nú var "ungamamman" með plan B fyrir hana (vegna reynslu okkar á að hlutirnir voru sjaldnast eins og sagt var frá í auglýsingum) sem var bed and brekfast. Það húsnæði var ekki langt frá "ísskápsgaurnum" og þau hafði ég googlað og sá að þau voru kínversk og þar af leiðandi ekki í ítölsku mafíunni, heldur ekki ísskápsfólk, svo hún fór þangað um mitt kvöld.
En þegar hjónin fóru í vinnuna klukkan 8 um morguninn,þá átti hún að fara út líka og mátti ekki koma heim fyrr en 8 um kvöldið, þegar þau voru búin að vinna.
Dóttirin rak upp stór augu og sagði ég þarf að fara í sturtu og svona. Þá var amman fengin úr næsta húsi til að passa hana og sitja yfir meðan morgunmaturinn sem auglýstur hafði verið var borinn fram (kornflex og mjólk) og svo varð hún að fara út á götuna þarna í febrúar og hanga á netkaffi í leit að íbúð til klukkan 8 um kvöldið. Fólkið virtist hafa gengið úr rúmi fyrir hana, því þau gistu í stofunni, samt var þetta var auglýst á viðurkenndum íbúðarvef á Ítalíu. Það eru greinilega engar sérstakar kröfur gerðar til leigusala þarna.
Þetta leiddi til þess að hún tók fyrstu bestu íbúð sem hún fann staðsetta í Navigli sem er góð staðsetning og gat hún labbað í skólann og stutt í skemmtilegt götulíf. Sá galli var hins vegar á gjöf Njarðar að þessi íbúð hafði 2 herbergi. Hún leigði annað og einhver lúðraspilandi lögfræðingur hitt og saman voru þau með eldhús og bað.
Allt í lagi að deila íbúð saman, en það var ekki hægt að læsa herbergjunum, því þau voru bara með rimlagardínum til að loka sig af.
Þetta hefði eflaust gengið, ef gaurinn hefði ekki byrjað alla morgna á því að gera eftirfarandi:
Brjóta 5 valhnetur á eldhúsborðinu með kaffikönnu og hvílíkum látum.
Tala við sjónvarpið og fólkið sem var á skjánum og jafnvel reifst við sjónvarpsfólkið af fullri alvöru.
Æfa nokkra (MARGA) tóna (aldrei laglínu) á lúðurinn. Lúðraði næstum gat á hljóðhimnuna á mér.
Syngja sama lagið 3svar áður en hann fór í vinnu, (held að hann hafi verið með tourette)
Ég var þarna í þessari íbúð í viku, og var alveg úrvinda eftir vikuna. Því hann hvíldist ekki heldur um helgar heldur vaknaði fyrr en aðra daga og spilaði allan daginn á lúðurinn. Svo ætlaði ég alltaf að fara að svara honum, þegar hann öskraði á sjónvarpið. Hélt að hann hefði slasast eða eitthvað þvíumlíkt, en dóttirin var orðin vön þessu og stöðvaði mig.
Endanlega gafst dóttir mín að lokum upp á þessu húsnæði, þegar hann kvartaði undan hávaða frá lyklaborðinu á kvöldin þegar hún var að reyna að læra og tók því uppá því að hækka sjónvarpið í botn og já eiginlega fældi hana þannig í burtu.
Þá var það næsta íbúð, sem hún fann hjá skólafélugum sínum.
Þar voru nokkrir strákar ítalskir, litlir mömmudrengir sem vantaði greinilega stelpu til að taka til (héldu þeir), en dóttir mín býr ekki yfir þörf fyrir að gera hreint í kringum önnur ungmenni en sjálfa sig, svo hún hélt sig mikið með íslensku stelpunum og gisti þar á gólfi frekar en að vera heima hjá sér. En þær voru á sama róli og hún með mismunandi erfiðum sambýlingum.
Sambýlingarnir hennar voru meira að skemmta sér en læra, þannig að það var party non stop heima við. Þegar hún svo kom heim til að sækja sér eitthvað fyrir skólann, var herbergið hennar fullt af fólki að hvíla sig. Hún uppgötvaði fljótlega að ekki var hægt að læsa herberginu að innan...heldur bara að utan. Ekki gott þegar menn eru ekki tilbúnir að vera með í partýinu stanslausa.
Svo nú eru málin leyst og þykir ekki mikið tiltökumál að fá 4 manna fjölskyldu every now and then inná sig í nokkra daga til viku.
Hún telst bara heppin.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Svo mikið happadrætti að lenda hjá góðri 4urra manna fjölskyldu hehe
www.zordis.com, 12.10.2011 kl. 17:25
hahahhaa jesus madur gleymir fljott... sko sjà hvad madur hefur afrekad à nokkrum àrum :)
Ansy Björg, 13.10.2011 kl. 08:49
Skemmtileg frásögn frænka og ef ég þekki húmorinn rétt þá hefur hún dóttir þín haft lúmskt gaman af þessum uppákomum öllum
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 13.10.2011 kl. 10:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.