3.10.2011 | 15:54
CSI Crime scene/hamfletting
Ég hef reynt að búa mér til mína eigin hefð, eftir að ég varð einhleyp og ákvað að taka í hefðina frá minni æsku rjúpurnar. Hafa rjúpur á aðfangadag og einhvern daginn mundu svo börnin mín minnast á rjúpurnar hennar mömmu og sósuna sem var alltaf best hjá henni (fæ gjarnan svona ofurtrú á mér, þegar ég byrja á einhverju nýju).
Ég fékk rjúpur frá mági mínum og varð nú ekkert smá glöð og þurfti bara að "hátta" þær eins og mamma sagði alltaf, eða "hamfletta" EINMITT JÁ BARA!! Ekkert mál sögðu allir, klippir bara hausinn af og flettir hamnum af.
Ég hugsaði nú með mér að þetta yrði nú ekki mikið mál fyrir mig sem allt getur (þar til annað kemur í ljós). Ég klippti hausinn af, en úps! Það hrundi hálfur Hallormstaðarskógur yfir mig og út um allt (rjúpur að austan) já alveg rétt fóarnið er alltaf fullt af stuffi. Svo klippti ég vængina snyrtilega af og hóf að "klæða" kvikindið úr, en það var einhver fyrirstaða og ég hafði nú ekki fengið neinar upplýsingar um það, þrátt fyrir nána útlistun á hvernig maður bæri sig að, svo ég klippti þetta nú bara. Fiðrið fór út um allt og ekki gat ég tekið það úr hárinu á mér og af augnhárum, þar sem gúmmíhanskarnir voru allir í blóði. En þetta hafðist 1 rjúpa frá og 7 eftir.
Tók næstu rjúpu og var við öllu tilbúin þegar fóarnið klipptist í sundur, engar barrnálar hérna út um allt takk fyrir.
Var nú komin með talsverða þekkingu á rjúpnaskrokknum. (ætti ég kannski að læra til fuglafræðings?) Fór út með ruslið og leit í kringum mig. Eldhúsið leit út eins og crimescene úr CSI, allt í blóði, fiðri og barrnálum út um allt. En það versta var afstaðið og íbúðin hálf ónýt, ég var með 8 fínar rjúpur og gleði mín í hámarki, er ég uppgötvaði að það voru engin læri. Voru engar lappir á þessum rjúpum? Ég minntist þess að hafa fengið að borða lærin hjá mömmu þegar hún var að elda sínar rjúpur.
Í dauðans ofboði hringdi ég í heimildarmann minn sem hafði sagt mér hvernig ég átti að bera mig að og sagði að það vantaði lærin. Ég lísti þessu í smáatriðum hvernig ég hefði "skrallað" þær og þegar ég kom að fyrirstöðunni sagði hún fyrirstaða? "bíddu það eru lappirnar" já takk einmitt það já, ekkert að láta mann vita af því. (hætt við fuglafræðinámið!hentar mér greinilega ekki)
Ætli þeir selji rjúpulæri í Nóatúni?
Athugasemdir
Thu ert algjorlega oborganleg... jesus minn hvad eg er buin ad hlæja af rjupunum thinum.. gott ad make upp dagsins var hvort ed er a leidinni af.. knus a thig
Erna Kolding.. (IP-tala skráð) 3.10.2011 kl. 21:06
Takk elsku Erna mín....ég skal alveg koma til þín og skralla nokkur kvikindi fyrir þig....þín Gusla
Guðlaug Björk Baldursdóttir, 3.10.2011 kl. 22:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.