Fyrstu kynnin gleymast ei!

Ég var frekar rólegt feimið ungmenni,  var bara í Versló, skemmti mér hæfilega, kynntist mannsefninu mínu sem við skulum kalla X þegar ég var á tvítugsaldrinum, eða barnung leyfi ég mér að segja.

Ég var sem sagt nýbúin að kynnast Xinu þegar hann bað mig að koma með sér til vinar síns og konu, sem bjuggu í foreldrahúsum vinarins. Þau voru með húsið  á sölu og Xið ætlaði að hjálpa þeim enda smiður. Ekki málið sagði ég, en ég bíð í bílnum (feimin og svona). Ég beið og beið, að mér fannst heila eilífð, en þar sem sambandið var á byrjunarstigi sýndi ég ótrúlegt rólyndi, enda jafnaðargeðsmanneskja. (muna: venja hann af svona dónaskap síðar)

Svo fór þó að hann kallaði út og sagði mér að koma inn og slökkva á bílnum, en við vorum á mini couper bil mömmu hans. Slökkva á bílnum! Já væntanlega hefur hann meint taka lyklana úr og svona, sem ég gerði, en þá tók bíllinn undir sig stökk, og hentist yfir grindverkið sem var á milli mín og garðsins. Ég náði lyklinum út og kom labbandi með allan þann virðuleika sem ég gat miðað við aðstæður, með kúlu á enni, róleg og bein í baki (vel upp alin). Ég rétti Xinu lyklana og sagði svona útundan mér:  " hann rann smá"

Pabbinn kom skömmu síðar sótrauður í framan  og spurði Xið hvað bíllinn væri að gera útí blómabeðinu sínu og girðingin öll í henglum? Xið leit á mig og sagði: "hvað meinarðu með að bíllinn hafi runnið? Það er júlí!! ekki startaðir þú honum í gír?"

Ég þetta ljúfa sakleysislega man svaraði honum, ja ég veit ekki alveg hvort ég startaði honum, en ég náði ekki lyklinum svo ég sneri honum kannski smá, ég var svoldið titrandi í röddinni og við það að fara að gráta, en bílnum var bakkað úr blómabeðinu og Xið  kippti  girðingunni í lag, ég róaðist smátt og smátt og hélt áfram að vera settleg og pen og eins frambærileg og ég gat.

 Foreldrarnir voru að fara í leikhús og okkur var boðið í mat og bjór og var ég nú ekki vön bjórdrykkju og örlítið  trekkt eftir magnaða innkomu mína í líf þeirra, svo ég drakk ansi mikið og varð ég nú svona líka illa lasin, að ég kastaði upp á baðherberginu, í vaskinn, baðkarið og já á hurðina, sofnaði svo á gólfinu, enda þreytt eftir allt álagið og pressuna sem hafði verið á mér.

Þegar foreldrarnir komu heim var farið að leita að mér og þurfti að brjóta upp hurðina, þar sem ég svaf eins og engill, en mér var komið fyrir í rúmi foreldranna og farið með mig heim um nóttina.

Ég gat ekki beðið með að hitta þau aftur!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þessa hafði ég ekki heyrt. Vá og þeim tókst alveg að láta sér þykja vænt um þig á endanum trobúlið þitt. ARG

Jenný Anna Baldursdóttir, 17.9.2011 kl. 09:13

2 identicon

Haha .. skemmtileg saga þarna. Hugsa að velflestir eigi sér einhverja álíka uppákomu/sögu í sambandi við fyrstu kynnin við maka/date - kannski ekki alveg eins pínlega og hjá þér en úff hve firstu skrefin geta stundum sett lífið hreinlega bara á hvolf finnst manni ..

Gott að þú hélst kúlinu og brilljant að þér skildi takast að sofa eins og engill eftir allan pakkann - haha - eða þannig.. takk fyrir mig.

Tiger (IP-tala skráð) 17.9.2011 kl. 12:53

3 Smámynd: Ansy Björg

haha þó ég hafi nú heyrt þessa sögu áður er þetta jafn fyndið núna.. ég semsagt fæ alla þessa lukku sem ég hef frá þér!

Ansy Björg, 17.9.2011 kl. 15:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband