Kennslustund í framkomu!!!!

Ég var stödd í vikunni með litla barnabarnið mitt sem er með dæmigerða einhverfu og mikla þroskaröskun sem er nú ekki í frásögur færandi. Það eitt og sér er alveg smá biti að kyngja en að þurfa að forðast að fara með hann á staði þar sem fullorðið fólk hegðar sér eins og fávitar er verra mál.

Við vorum í verslun og hann sér konu sem líktist mjög kennara hans fyrir nokkrum árum en hann er mjög minnugur á andlit og já eiginlega allt sem hann hefur heyrt þó hann geti kannski ekki sagt hvað amar að honum eða hvar hann á heima.  Hann fór nálægt konunni og sagði hátt og snjallt "HALLÓ" og blaktaði höndunum brosandi af gleði.  "þú heitir??" því þetta er svona hans tjáningarmáti og þá á viðkomandi að segja "ég heiti Guðrún kennari" Allt í lagi allir hafa ekki þann skilning að sjá 8 ára strák sem er í stærð fermingarbarns og blaktar höndum af hamingju yfir að hafa hitt þessa konu.  Hann faldi sig á bak við mig því hann var feiminn. 

Litla blómið "konan" átti eitthvað erfiðan dag og sagði með fyrirlitningu hátt og snjallt: "Vá hvað hann er skrítinn krakki" ég svaraði: já finnst þér það, "leiðinlegt" fyrir þig en hann er einhverfur og sagði hún jafn fúl: "er það já ég skil" en hún skildi ekkert.  Hver segir við fötluð börn sem hún gæti hafa gefið sér að skildi eitthvað: "vá hvað þú ert skrítinn" Á maður að þurfa að setja skilti á börnin sín sem eru ekki með alla útlimi eða á einhvern hátt öðruvísi.  Góð hugmynd kannski að fara með skilti sem segir: "barnið mitt er í hjólastól af því það vantar á hann fótinn en ég veit af því". Svo væri gott að vera með annað sem segði: "afsakið að þetta pirri þig".

Jæja þurfti aðeins að pirrast yfir þessu því nógu erfitt er að þurfa að taka drenginn með í búðir, það getur kostað nokkra þúsundkalla því ef hann fær flugu í hausinn og vill eitthvað sem maður er ekki til í að kaupa eins og 3 metra jólatré í Cosco, þá er þráhyggjan hans þannig að hann fær kast og leggst á gólfið og sparkar og grætur og þá fær maður nú ekki bara svona ábendingu um barnið sem er mjög gott ef maður hefði ekki tekið eftir því að hann væri smá öðruvísi. Þá fær maður hneykslunarsvipinn gefur manni til kynna að maður sé ófær um að vera með barnið og jafnvel finnur fólk hvöt hjá sér að reyna að reisa hann við og skamma hann ef ég skyldi nú ekki lofta honum og ekki vita hvernig ég á að fara að.

Kæra pirraða fullorðna fólk nú er sá tími sem börn hafa sýnt að þau eiga erfitt eins og fréttir hafa sannað. Reynið sýna umhyggju og smá milidi gagnvart þeim sem eru ekki eftir evrópskum staðli, ekki ganga út frá því að þið vitið allt og beðið sé eftir ykkar áliti og ef þið þurfið að fara á þeim tíma sem fólk er almennt að versla á, endilega takið geðlyfin ykkar, setjið á ykkur súrefnisgrímuna og steinhaldið kj...... 

Annars góða helgi!!Ég versla bara á Heimkaup


Bloggfærslur 27. september 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband